Ferill 176. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 374  —  176. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Guðjónsdóttur og Tómas Njál Möller frá fjármálaráðuneyti, Gísla Tryggvason og Pál Halldórsson frá Bandalagi há­skólamanna, Þorgeir Eyjólfsson frá Landssambandi lífeyrissjóða, Hrafn Magnússon frá Sam­bandi almennra lífeyrissjóða og Þorstein Geirsson frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Um­sagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Landssambandi lífeyrissjóða, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins,
Sambandi almennra lífeyrissjóða, Sambandi íslenskra bankamanna, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Samtökum verðbréfafyrirtækja, Seðla­banka Íslands, Vátryggingaeftirlitinu og Verslunarráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heildarlög um starfsemi Söfnunarsjóðs líf­eyrisréttinda. Er þeim ætlað að laga starfsemi sjóðsins að ákvæðum laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að skipan stjórnar sjóðsins verði óbreytt frá gildandi lögum. Samtök opinberra starfsmanna hafa með aðild sinni að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins haft óbeina til­nefningaraðild að stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Nefndin telur rök mæla með því að það fyrirkomulag verði óbreytt.
     2.      Lögð er til breyting á tímamörkum 12. gr. frumvarpsins til samræmis við núgildandi 16. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að 12. gr. sé ætlað að vera í sam­ræmi við ákvæði þeirrar greinar.
     3.      Þá er lagt til að fjármálaráðherra skuli leita eftir umsögn Fjármálaeftirlitisins áður en hann staðfestir samþykktir fyrir Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Einnig er lagt til í sam­ræmi við 28. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi líf­eyrissjóða, að tilkynna skuli Fjármálaeftirlitinu um breytingar á stjórn, framkvæmda­stjóra, endurskoðanda og tryggingafræðingi sjóðsins.
    Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk þessu áliti.

Alþingi, 26. nóv. 1998.


Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Ágúst Einarsson.


Einar Oddur Kristjánsson.



Svavar Gestsson.


Valgerður Sverrisdóttir.


Sólveig Pétursdóttir.




Steingrímur J. Sigfússon.