Ferill 324. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 391  —  324. mál.




Frumvarp til laga



um Lífeyrissjóð sjómanna.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



I. KAFLI
Heiti sjóðsins, hlutverk, aðild og iðgjald.
1. gr.

    Sjóðurinn heitir Lífeyrissjóður sjómanna og starfar með því skipulagi og markmiði sem kveðið er á um í lögum þessum og samþykktum sjóðsins.
    Heimilt er að skipta sjóðnum í deildir eftir fjárfestingarstefnu, eftir því hvernig ávinnslu réttinda er háttað og eftir því hvort lífeyrisréttindi eru í sameign eða séreign.
    Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum laga þessara og samþykkta sjóðsins.
    Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

    Sjóðfélagar eru allir sjómenn sem ráðnir eru á íslensk skip, þar með taldir þeir skipverjar sem ekki eru lögskráðir en starfa að viðhaldi og viðgerð skips eða öðrum störfum í þágu útgerðar.
    Yfirmönnum á skipum ríkissjóðs sem við gildistöku laga þessara greiða iðgjöld til Líf­eyrissjóðs starfsmanna ríkisins er heimilt að vera sjóðfélagar í þeim sjóði. Um heimildina að öðru leyti fer eftir lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
    Sjómönnum sem lögskráðir eru í tilteknum byggðarlögum eða landshlutum og ráðherra hafði veitt undanþágu frá aðild að þessum sjóði, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 78/1970, er heim­ilt að vera utan við sjóðinn fullnægi þeir tryggingarskyldu sinni með greiðslu iðgjalds til lífeyrissjóðs viðkomandi byggðarlags.
    Sjóðfélögum sem hætta störfum á sjó skal heimil áframhaldandi þátttaka ef þeir hefja störf í landi við útgerð eða hliðstæð störf, svo sem fiskvinnslustöðvar eða frystihús, enda hafi þeir greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. fimm ár og áunnið sér a.m.k. þrjú stig.
    Stjórn sjóðsins er heimilt að leyfa félögum og samböndum sem standa að samningum um kaup og kjör sjómanna er aðild eiga að sjóðnum að tryggja starfsmenn sína í honum.
    Stjórn sjóðsins er heimilt að leyfa sjómönnum sem stunda nám í sjómannafræðum, slasast eða veikjast að kaupa sér réttindi í sjóðnum þann tíma sem úr hefur fallið af þeim sökum. Stjórn sjóðsins er heimilt að leyfa íslenskum sjómönnum sem starfa á erlendum skipum að greiða iðgjöld til sjóðsins.

3. gr.

    Stjórn sjóðsins skipa átta menn, tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi íslenskra botnvörpuskipaeigenda, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands og Vinnuveit­endasambandi Íslands sem tilnefnir tvo stjórnarmenn. Sömu aðilar skipa varamenn í stjórn­ina. Kjörtímabil stjórnar er þrjú ár. Sjóðstjórn skiptir með sér verkum þó skulu fulltrúar atvinnurekenda og verkalýðsfélaga hafa á hendi formennsku til skiptis eitt ár í senn. Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meiri hluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði.

4. gr.

    Stjórn sjóðsins fer með yfirstjórn hans. Stjórnin skal fjalla um allar meiri háttar ákvarð­anir varðandi stefnumótun sjóðsins og starfsemi. Hún skal sjá um að nægjanlegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna sjóðsins. Stjórnin setur honum samþykktir í samræmi við ákvæði laga þessara og ákvæði laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

5. gr.

    Iðgjald til sjóðsins skal nema 10% af heildarlaunum og greiðir launþegi 4% og launa­greiðandi 6%.
    Launagreiðanda ber að halda eftir 4% iðgjöldum af launum starfsmanna sinna og standa sjóðnum skil á þeim ásamt eigin iðgjaldshluta. Á þeim skipum þar sem hver mánuður telst sérstakt launatímabil er gjalddagi iðgjalda hvers mánaðar 15. dagur næsta mánaðar. Á þeim skipum þar sem hver veiðiferð telst sérstakt kauptryggingartímabil er gjalddagi iðgjalds 15. dagur eftir að veiðiferð lýkur. Verði vanskil á greiðslu iðgjalds lengur en 30 daga fram yfir gjalddaga skal innheimta dráttarvexti.

6. gr.

    Heimilt er að setja ákvæði í samþykktir sjóðsins um að lífeyrissjóðurinn megi taka við viðbótariðgjaldi sem greitt er umfram iðgjald skv. 5. gr. og að viðbótariðgjaldi þessu verði varið til ávinnslu réttinda hjá sjóðnum eftir nánari reglum í samþykktum. Jafnframt er heimilt að kveða á um í samþykktum að hluta iðgjalds skv. 5. gr. sé varið til öflunar lífeyrisréttinda í séreign.

7. gr.

    Launagreiðanda ber að halda iðgjöldum launþega eftir af launum hans og standa sjóðnum skil á þeim ásamt eigin iðgjaldshluta. Sé um vanskil að ræða af hálfu útgerðar skal lögskráningarstjóri ekki skrá á hlutaðeigandi skip ef krafa kemur um það frá sjóðnum.
    Iðgjöld sjóðfélaga og launagreiðenda skulu hvíla sem lögveð á hlutaðeigandi skipi og ganga fyrir öllum öðrum veðum. Heimilt er að krefjast nauðungarsölu á viðkomandi skipi án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar.

II. KAFLI
Lífeyrisréttindi.
8. gr.

    Samanlögð iðgjöld sjóðfélaga hvert almanaksár skulu umreiknuð í stig er mynda grund­völl lífeyrisréttinda hans.
    Til grundvallar stigaútreikningi skal grundvallarfjárhæð í janúar 1996 vera 49.084 kr. og breytist hún mánaðarlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verð­tryggingar frá 174,2 stigum. Verði grundvöllur þessi að dómi sjóðstjórnar ónothæfur mælikvarði skal hún ákveða annan stigagrundvöll, svo og tengingu hans við fyrri grundvöll. Sama gildir ef stigagrundvöllur, sem ákveðinn hefur verið af sjóðstjórn, reynist síðar ónothæfur.
    Stig ársins reiknast þannig að deilt skal í tíföld iðgjöld sem greidd hafa verið vegna hlutaðeigandi sjóðfélaga með grundvallarlaunum ársins skv. 2. mgr. Séu iðgjaldagreiðsluár fleiri en 30 skal þó aðeins reikna að fullu stig þeirra 30 ára sem hagstæðust eru fyrir sjóð­félagann, en að hálfu stig þeirra ára sem afgangs verða.
    Ekki skal reikna stig fyrir tíma eftir lok þess mánaðar er sjóðfélagi nær 70 ára aldri.
    Stig skulu reiknuð með þremur aukastöfum.

9. gr.

    Sjóðfélagi, sem orðinn er fullra 65 ára að aldri, á rétt á ellilífeyri úr sjóðnum.
    Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af grundvallarlaunum sjóðsins og nemur hundraðs­hluti þessi samanlögðum stigafjölda sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér, margfölduðum með 1,472.
    Heimilt er sjóðfélaga sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur og verið lög­skráður á íslensk skip í 180 daga að meðaltali á ári, þó ekki skemur en 120 daga hvert ár, að hefja töku ellilífeyris þegar hann er fullra 60 ára. Skal þá upphæð ellilífeyris lækka um 0,4% fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði sem vantar á 65 ára aldur er taka lífeyris hefst.
    Taki sjóðfélagi ellilífeyri á aldrinum 60–65 ára og greiði á sama tíma iðgjöld til sjóðsins ávinnur hann sér réttindi að hálfu vegna þeirra iðgjalda. Skulu réttindi reiknuð á ný við 65 ára aldur.
    Heimilt er sjóðfélaga að fresta töku ellilífeyris allt til 70 ára aldurs og hækkar þá upphæð ellilífeyris vegna réttinda sem áunnin voru fram til 65 ára aldurs um 0,5% fyrir hvern mánuð sem töku hans er frestað.
    Haldi sjóðfélagi áfram að ávinna sér réttindi eftir 65 ára aldur og hann hefur hafið töku ellilífeyris skulu stig hans reiknuð á ný er hann hefur náð 70 ára aldri.

10. gr.

    Sjóðfélagi sem verður fyrir orkutapi, sem telja verður að nemi 40% eða meira, á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum, enda hafi hann:
     a.      greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og áunnið sér eigi minna en eitt stig hvert þessara þriggja ára,
     b.      greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum,
     c.      orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar.
    Séu sérstakar ástæður, svo sem aldur sjóðfélaga, búseta hans erlendis eða nám þess valdandi að hann hefur ekki getað uppfyllt tímaskilyrði þau sem nefnd eru í a- og b-lið 1. mgr. er sjóðstjórn heimilt að stytta þann tíma sem þar er krafist.
    Hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess skal ákvarða að fengnum upplýsingum heilsufar og starfsorku umsækjanda aftur í tímann, svo og áliti trúnaðarlæknis sjóðsins eða tryggingayfirlæknis. Fyrstu þrjú árin eftir orkutapið skal örorkumat aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi sem hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Að því tímabili loknu skal orkutap metið á ný með tilliti til vanhæfni sjóðfélaga til almennra starfa, nýrra upplýsinga um heilsufar og störf og árangurs af endurhæfingu.
    Heimilt er að fengnu áliti trúnaðarlæknis að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulíf­eyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt geti heilsufar hans.
    Þegar skilyrði 1. mgr. um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt miðast hámark örorkulífeyris við áunninn lífeyrisrétt skv. 9. gr. að viðbættum lífeyri sem svarar til þess stigafjölda sem sjóðfélaginn hefði áunnið sér fram til 60 ára aldurs, reiknað skv. 6. mgr. þessarar greinar. Eigi sjóðfélaginn jafnframt rétt á örorkulífeyri úr öðrum sjóði skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði vegna ókomins tíma að hann hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs. Ef rekja má orkutapið til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna skal ekki reikna réttindi vegna ókomins tíma. Séu skilyrði 1. mgr. um iðgjaldagreiðslutíma ekki uppfyllt ákvarðast hámark örorkulífeyris í samræmi við áunnin geymd stig.
    Eigi sjóðfélagi, sem ekki hefur náð 60 ára aldri er hann verður fyrir orkutapi, rétt skv. 5. mgr. á framreikningi stiga skal sá framreikningur vera sem hér segir:
     a.      Reikna skal meðaltal stiga sjóðfélaga næstu fimm almanaksárin fyrir orkutapið. Telji sjóðstjórn þetta fimm ára meðaltal vera sjóðfélaganum óhagstætt vegna sjúkdómsfor­falla eða atvinnuleysis er henni heimilt að leggja til grundvallar meðaltal stiga fleiri ár aftur í tímann og sleppa úr meðaltalinu því almanaksári sem lakast er.
     b.      Nemi árlegt meðaltal sem miða skal framreikning við skv. a-lið meira en fjórum stigum skal reikna með meðaltalinu allt að tíu árum en síðan til 60 ára aldurs reiknað með fjórum stigum á ári.
    Örorkulífeyrir er sami hundraðshluti af hámarksörorkulífeyri og orkutapið er metið.
    Örorkulífeyrir greiðist ekki fyrir fyrstu þrjá mánuðina eftir orkutap. Ekki er greiddur örorkulífeyrir ef orkutap hefur varað skemur en í sex mánuði.
    Skylt er öryrkja sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur slíks lífeyris að láta stjórn sjóðsins í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt og atvinnutekjur sem nauðsyn­legar eru til að dæma um rétt hans til lífeyris.
    Stjórn sjóðsins skal lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra öryrkja sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti. Sömuleiðis ber henni að hækka örorkulífeyrinn ef örorkan eykst til muna og án sjálfskaparvíta frá því sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi sjóðfélaginn á þeim tíma er örorkan jókst ekki verið í starfi er veitti honum lífeyrisréttindi í öðrum lífeyrissjóði.
    Örorkulífeyrir fellur niður við 65 ára aldur. Ellilífeyrir skal þá ákveðinn þannig að auk áunninna stiga skal reikna að þeim hluta er hundraðshluti örorku segir til um stig sem við úrskurðun örorkulífeyris voru reiknuð sjóðfélaganum til 60 ára aldurs. Aldrei skal þó slík viðbót við áunnin stig vera meiri en svo að heildarstigafjöldi hvert almanaksár verði hærri en almennt tíðkast í stétt eða starfsgrein hlutaðeigandi sjóðfélaga.

11. gr.

    Nú andast sjóðfélagi sem naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum eða greitt hafði iðgjald til hans í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum og lætur eftir sig maka, og á hinn eftirlifandi maki þá rétt á lífeyri úr sjóðnum, enda hafi hann verið orðinn 35 ára að aldri við fráfall sjóðfélagans og hjónabandið staðið í a.m.k. fimm ár og verið stofnað áður en sjóð­félaginn náði 60 ára aldri.
    Láti sjóðfélagi eftir sig eitt barn eða fleiri innan nítján ára aldurs sem hann hefur átt með eftirlifandi maka sínum skal makalífeyrir veittur án tillits til hjúskapartíma og aldurs sjóð­félaga og eftirlifandi maka. Kjörbarn þeirra veitir sama rétt, enda hafi ættleiðingin átt sér stað fyrir 60 ára aldur sjóðfélagans, áður en hann missti starfsorku sína og a.m.k. einu ári áður en hann lést.
    Nú andast sjóðfélagi sem uppfyllir skilyrði 1. mgr. 10. gr. um iðgjaldagreiðslutíma, en maki hans fær ekki úrskurðaðan makalífeyri skv. 1. eða 2. mgr. þessarar greinar., eða greiðsla skv. 2. mgr. stendur skemur en 24 mánuði, og skal makalífeyrir þá engu að síður greiddur í 24 mánuði eftir fráfall sjóðfélagans. Ef eftirlifandi maki er a.m.k. 50% öryrki og yngri en 67 ára skal makalífeyrir greiddur á meðan það ástand varir.
    Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóð­félaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir and­lát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð karls og konu sem eiga sam­eiginlegt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár. Heimilt er að greiða makalífeyri til aðila sem hefur sannanlega annast heimili sjóðfélaga um árabil fyrir andlát hans. Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný, stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar eða stofnar til staðfestrar samvistar, enda sé ekki kveðið á um annað í samþykktum sjóðsins.
    Upphæð makalífeyris er hundraðshluti af grundvallarlaunum sjóðsins og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda sem sjóðfélaganum er reiknaður, marg­földuðum með 0,779. Auk áunninna stiga skal telja með þau stig sem ætla má að sjóð­félaginn hefði áunnið sér fram til 60 ára aldurs, reiknuð í samræmi við ákvæði 5. mgr. 10. gr., en þó skal aldrei miða meðaltal stiga við fleiri almanaksár en þau sem sjóðfélaginn hefur greitt iðgjöld. Hafi sjóðfélaginn notið örorkulífeyris úr sjóðnum skal reikna stig frá þeim tíma er honum var veittur örorkulífeyrir til 60 ára aldurs í samræmi við stig þau sem lögð voru til grundvallar örorkulífeyri. Veiti dauðsfallið hinum eftirlifandi maka jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum sjóði skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði vegna ókomins tíma að hann hafi síðast greitt iðgjöld til hans.

12. gr.

    Nú andast sjóðfélagi sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins eða notið úr honum örorku­lífeyris a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum, og eiga þá börn hans og kjörbörn er hann lætur eftir sig og yngri eru en 18 ára rétt á lífeyri úr sjóðnum til 18 ára aldurs. Sama rétt til lífeyris öðlast börn fædd eða ættleidd fyrir orkutap sjóðfélaga sem nýtur fulls örorkulífeyris. Ef örorka er metin lægri en 100% skal barnalífeyrir vera hlutfallslega lægri. Veiti fráfall sjóðfélagans börnunum jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði skal lífeyrir úr þessum sjóði þó bundinn því skilyrði að sjóðfélaginn hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs.
    Fullur barnalífeyrir skal vera að lágmarki 5.500 kr. á mánuði með hverju barni örorku­lífeyrisþega. Við andlát sjóðfélaga skal barnalífeyrir að lágmarki vera 7.500 kr. með hverju barni. Fjárhæðir þessar skulu breytast árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.
    Fósturbörn og stjúpbörn, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, skulu eiga rétt á barnalífeyri. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins vegna slíkra barna vera hinar sömu og vera mundu, ef um börn eða kjörbörn væri að ræða.
    Barnalífeyrir greiðist framfæranda barnsins.

III. KAFLI
Ýmis ákvæði.
13. gr.

    Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að fjárhagur sjóðsins er ótryggur og ætla má að eignir muni ekki duga fyrir skuldbindingum skal stjórn sjóðsins, að höfðu samráði við tryggingafræðing, beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á lögum sjóðsins.

14. gr.

    Nánari ákvæði um skipulag sjóðsins og starfsemi hans skulu sett í samþykktir sem stjórn sjóðsins semur og staðfestar eru af fjármálaráðherra að fenginni umsögn Fjármálaeftir­litsins. Sjóðurinn skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um breytingar á stjórn, framkvæmda­stjóra, endurskoðanda og tryggingafræðingi.

15. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 94/1994, um Líf­eyrissjóð sjómanna, og reglugerð um starfsemi sjóðsins frá 1. september 1994. Þó skulu ákvæði reglugerðarinnar um lífeyrisréttindi og lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga halda gildi sínu til 30. júní 1999. Frá 1. júlí 1999 gilda ákvæði laga þessara og samþykkta sjóðsins sem settar verða á grundvelli laga um lífeyrisréttindi og lífeyrisgreiðslur sjóðfélaga. Ný stjórn sjóðsins skv. 3. gr. skal taka við eftir fyrsta ársfund sjóðsins sem haldinn skal fyrir lok júní 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram til þess að samræma reglur um Lífeyrissjóð sjómanna lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (slsl.) ásamt því að breyta reglum sjóðsins þannig að hann geti staðið við skuldbindingar sínar. Þá er breytingin einnig nauðsynleg vegna dóms Hæstaréttar frá 28. maí 1998, en samkvæmt honum var breyting á reglum sjóðsins sem gerð var á árinu 1994 talin ólögmæt þar sem hún var gerð með reglugerð en ekki lögum.
    Lög nr. 129/1997 gilda um lögbundna lífeyrissjóði með þeim undanþágum sem til­greindar eru í 50. gr. þeirra laga. Það á t.d. við um V. kafla sem fjallar um útgáfu starfsleyfa og III. kafla sem fjallar um lífeyrisréttindin, að undanskildu ákvæðinu sem fjallar um skiptingu ellilífeyrisréttinda milli sjóðfélaga og maka hans, og 3. gr. sem fjallar um iðgjaldsstofninn. Þrátt fyrir að sett hafi verið ítarleg ákvæði í lög nr. 129/1997 um starfsemi lífeyrissjóða þykir rétt að fjalla um helstu atriði er varða starfsemi Lífeyrissjóðs sjómanna í lögum um hann, svo sem um aðild, stjórn, iðgjald, iðgjaldsstofn og lögveð. Jafnframt eru ákvæði um lífeyrisréttindi sett í lög að nýju vegna dóms Hæstaréttar frá 28. maí 1998 þar sem talið var að breytingar á reglum sjóðsins um lífeyrisréttindi sem gerðar voru með reglugerð yrði að gera með lögum. Gert er ráð fyrir að í samþykktum sjóðsins verði sett frekari ákvæði um starfsemi hans t.d. um skipulag, ársfund, fjárfestingarstefnu, gerðardóm, upplýsingaskyldu og endurskoðun.
    Nauðsynlegt er að gera breytingar á réttindum sjóðfélaga vegna stöðu sjóðsins. Sam­kvæmt tryggingafræðilegri úttekt sem gerð var miðað við stöðu sjóðsins í árslok 1997 vant­aði 8.246 milljónir króna á að sjóðurinn ætti fyrir heildarskuldbindingum. Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða skulu samþykktir lífeyrissjóðs við það miðaðar að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar. Munur á milli eigna og skuldbindinga má ekki vera meiri en 10% á einu ári og ekki meira en 5% samfellt í fimm ár. Hallinn á Lífeyrissjóði sjómanna nam í árslok 1997 13,3% af heildarskuldbindingum og hafði verið nánast hinn sami í árslok 1996 og 1995. Til þess að rétta af stöðu sjóðsins er lagt til í frumvarpi þessu að öll réttindi sjóðfélaga verði lækkuð um 13,4% enda er það mat stjórnar sjóðsins að brýna nauðsyn beri til þessarar skerðingar og að fyllsta jafnræðis sé gætt meðal sjóðfélaga. Þó er barnalífeyrir undanskilinn þar sem lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, setja reglur um lágmarksfjárhæðir barnalífeyris. Ef barnalífeyrir yrði lækkaður um 13,4% næðu fjárhæðir ekki þeim lág­mörkum sem gert er ráð fyrir í þeim lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Hér er kveðið á um heiti sjóðsins og hlutverk. Sjóðurinn starfar nú í einni deild en nauð­synlegt þykir að heimila stjórn sjóðsins að skipta honum í deildir eftir fjárfestingarstefnu, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997, svo og að stofna séreignadeild við sjóðinn vegna mót­töku lífeyrissparnaðar í séreign. Þá þykir nauðsynlegt að heimila stjórn sjóðsins að taka upp aldurstengda réttindaávinnslu vegna iðgjalda í sameign en slík iðgjöld yrðu varðveitt í sérstakri deild. Nokkrir lífeyrissjóðir hafa ákveðið að taka upp aldurstengt réttindaávinnslu­kerfi og haldi sú þróun áfram getur verið nauðsynlegt að taka upp slíkt kerfi hjá Lífeyrissjóði sjómanna.

Um 2. gr.

    Hér er fjallað um aðild að sjóðnum og er ákvæðið sambærilegt við 2. gr. núgildandi laga um sjóðinn.

Um 3. gr.

    Hér er fjallað um skipan stjórnar sjóðsins. Lagt er til að stjórnina skipi átta menn í stað sex eins og núgildandi reglur kveða á um. Því verði bætt við tveimur stjórnarmönnum, öðrum tilnefndum af Vélstjórafélagi Íslands og hinum tilnefndum af Vinnuveitendasambandi Íslands. Rétt þykir að Vélstjórafélagið eigi aðild að stjórninni vegna hins stóra hóps félags­manna þess sem greiðir lífeyrisiðgjöld til sjóðsins, og til þess að halda jafnvægi í stjórn á milli atvinnurekenda og launþega er lagt til að Vinnuveitendasamband Íslands tilnefni tvo stjórnarmenn í stað eins áður.

Um 4. gr.

    Í greininni er fjallað um helstu hlutverk stjórnar en ákvæðið er í samræmi við 29. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Um hlutverk stjórnar að öðru leyti, hlutverk framkvæmdastjóra, hæfi stjórnarmanna og ársfund fer skv. VI. kafla þeirra laga.

Um. 5. gr.

    Í greininni er fjallað um iðgjaldsstofn og er hann sá sami og verið hefur hjá sjóðnum. Vís­að er til 50. gr. slsl. í þessu sambandi. Þá eru settar reglur um gjalddaga og eindaga iðgjalds og eru þær í samæmi við núgildandi reglur sjóðsins. Nauðsynlegt þykir að setja í lög sjóðsins slíkar reglur en hjá sjóðnum gilda sérstakar reglur í þessu sambandi vegna kjarasamninga atvinnurekenda og sjómanna þar sem launatímabil getur verið lengra en mánuður.


Um 6. gr.

    Hér er kveðið á um heimild sjóðsins til móttöku viðbótariðgjalds og heimild til þess að ákveða í samþykktum að hluta af 10% iðgjaldinu sé varið í séreign en um slíka samþættingu sameignar og séreignar gilda 4. og 5. gr. slsl. Sjóðfélagi gæti þannig ráðstafað annað séreignarhluta iðgjaldsins. Jafnframt yrði sjóðurinn að tryggja að samþætting séreignar og sameignar nægði til þess að standa undir lágmarkstryggingaverndinni sem sjóðnum er skylt að veita skv. 4. gr.

Um 7. gr.

    Hér er fjallað um skyldu launagreiðenda til þess að standa skil á iðgjöldum, svo og um lögveð í skipum til tryggingar iðgjaldagreiðslum til sjóðsins. Ákvæðið er samhljóða ákvæði í núgildandi lögum sjóðsins.

Um 8. gr.

    Í þessari grein er fjallað um grundvöll lífeyrisréttinda, grundvallarlaun og stigaútreikning. Ákvæðið er í samræmi við núgildandi reglur.

Um 9. gr.

    Í þessari grein er fjallað um ellilífeyri. Greinin er samhljóða núgildandi ákvæði um ellilíf­eyri í reglugerð sjóðsins að öðru leyti en því að stuðull við útreikning á lífeyri hefur verið lækkaður um 13,4% til þess að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar.

Um 10. gr.

    Í þessari grein er fjallað um örorkulífeyri og er greinin að mestu leyti í samræmi við þær reglur sem nú gilda hjá sjóðnum. Bætt er við ákvæði sem heimilar sjóðstjórn að fengnu áliti trúnaðarlæknis að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endur­hæfingu sem bætt geti heilsufar hans (4. mgr.). Felld eru niður ákvæði þess efnis að til að eiga rétt á framreikningi réttinda verði sjóðfélagi að vera metinn til almennrar örorku að lág­marki 20% og hafa greitt til sjóðsins í a.m.k. 100 daga á síðustu tólf mánuðum. Þá er útreikningsstuðull lækkaður um 13,4% til þess að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar.

Um 11. gr.

    Hér er fjallað um makalífeyri. Ákvæðið er í samræmi við núgildandi ákvæði í reglugerð sjóðsins, en réttur til makalífeyris er mun víðtækari hjá sjóðnum en lágmarksskilyrði eru samkvæmt lögunum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Hugtakið maki er skilgreint í samræmi við lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyr­issjóða og stuðull við útreikning lífeyris er lækkaður um 13,4%.

Um 12. gr.

    Í þessari grein er fjallað um rétt til barnalífeyris vegna andláts eða örorku sjóðfélaga. Helsta breytingin frá núgildandi reglum er að grunnfjárhæðir barnalífeyris eru tilgreindar og eiga þær að taka breytingum í samræmi við þróun vísitölu neysluverðs. Í núgildandi regl­um er hins vegar tekið mið af barnalífeyri almannatrygginga. Fjárhæðir barnalífeyris í grein þessari eru í samræmi við lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.


Um 13. gr.

    Í greininni er fjallað um skyldu stjórnar til þess að grípa til ráðstafana vegna stöðu sjóðsins. Skv. 2. mgr. 39. gr. slsl. er skylt að gera breytingar á reglum sjóðsins ef meira en 10% munur verður á milli eigna og skuldbindinga og einnig ef munurinn hefur verið meiri en 5% samfellt í fimm ár.

Um 14. gr.

    Gert er ráð fyrir að ítarlegri ákvæði verði sett um starfsemi sjóðsins í samþykktir sem stjórn sjóðsins semur en ráðherra staðfestir.

Um 15. gr.

    Gert er ráð fyrir að lög þessi öðlist gildi 1. janúar 1999 og jafnframt samþykktir sjóðsins. Þó er gert ráð fyrir að ákvæði laganna sem gera ráð fyrir breytingu á réttindum sjóðfélaga komi til framkvæmda 1. júlí 1999. Fram að þeim tíma gildi ákvæði núgildandi reglugerðar sjóðsins varðandi lífeyrisréttindi. Einnig er gert ráð fyrir að ný stjórn taki við að loknum fyrsta ársfundi sjóðsins sem halda skal fyrir júnílok 1999, en í frumvarpinu er lagt til að stjórnarmönnum verði fjölgað um tvo.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Lífeyrissjóð sjómanna.

    Frumvarp þetta miðar að því að samræma reglur um Lífeyrissjóð sjómanna við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og tryggja að hann geti staðið við skuldbindingar sínar. Ríkissjóður ber enga ábyrgð á skuldbindingum lífeyris­sjóðsins og veitir ekki fé til hans. Verði frumvarpið að lögum hefur það því engin áhrif á útgjöld ríkissjóðs.