Ferill 326. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 394  —  326. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson.



1. gr.


    Á eftir 6. gr. a laganna kemur ný grein, 6. gr. b, svohljóðandi :
    Maður sem verið hefur sjómaður á íslensku fiskiskipi í 20 ár samtals og náð hefur 50 ára aldri á rétt á að stunda veiðar með handfærum eingöngu samkvæmt ákvæðum 6. gr. og skal honum veitt veiðileyfi á bát minni en 6 brl. sem hann eignast í því skyni, hafi báturinn ekki veiðileyfi fyrir. Veiðileyfið er óframseljanlegt og veiðar einvörðungu heimilar viðkomandi sjómanni. Ráðherra setur nánari reglur um starfsaldur sjómanns skv. þessari málsgrein.
    Sameiginlegur hámarksþorskafli báta sem velja að stunda veiðar með handfærum ein­göngu skal hækka fyrir hvern bát sem þannig bætist við um meðalhlutdeild báta í þessum út­gerðarflokki í sameiginlegum hámarksþorskafla hans skv. 9. mgr. 6. gr. Á sama hátt skal sameiginlegur hámarksþorskafli lækka eftir sömu reglu fyrir hvern bát sem fellur brott og hafði áður fengið veiðileyfi samkvæmt þessari grein.

2. gr.


    Við 1. tölul. 3. mgr. 7. gr. bætist: og áætlaðan afla báta skv. 6 gr. a.

3.gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Það nýmæli er í frumvarpinu að sjómönnum er veittur sjálfstæður réttur til veiða í fisk­veiðilögsögunni sem þeir geta nýtt sér með því að eiga smábát og halda honum til veiða. Rétturinn er bundinn manninum og starfi hans en ekki einvörðungu eignarhaldi á báti. Þá er sett skilyrði um starfsaldur og lífaldur og er gert ráð fyrir að sjómaðurinn hafi stundað fisk­veiðar á íslensku fiskiskipi í a.m.k. 20 ár samtals og að hann hafi náð 50 ára aldri. Enn frem­ur er kveðið á um að leyfið sé óframseljanlegt og bundið viðkomandi sjómanni auk þess að það nær aðeins til handfæraveiða.
    Með þessari tillögu er viðurkennt að starf á sjó veiti rétt til sjósóknar og þannig rétt til þess að nýta fiskimiðin. Einnig er viðurkennt að sjómenn eiga oft erfitt að finna starf í landi þegar þeir fara að huga að því að hætta til sjós. Samkvæmt þessu frumvarpi geta þeir stund­að handfæraveiðar hluta ársins og aflað sér þannig tekna og er því gert auðveldara að fram­fleyta sér þegar þeir draga úr starfi á sjó eða hætta alveg. Loks ber að hafa í huga að býsna margir sjómenn búa við takmarkaðan lífeyrisrétt og fyrirsjáanlegt að svo muni verða í náinni framtíð. Til þess að koma í veg fyrir að afli báta sem fá veiðileyfi samkvæmt ákvæðum frum­varpsins fækki sóknardögum þeirra báta sem fyrir eru er gert ráð fyrir að sameiginlegur hámarksþorskafli útgerðarflokksins hækki fyrir hvern bát sem þannig bætist við. Á sama hátt lækkar sameiginlegur hámarksþorskafli flokksins ef umræddum bátum fækkar.