Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 395  —  173. mál.
Nefndarálitum frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1998.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármála­ráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir. Jafnframt leitaði nefndin eftir áliti Ríkisendurskoðunar.
    Meiri hluti fjárlaganefndar gerir 46 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 619,9 m.kr. til hækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR

00 Æðsta stjórn ríkisins

101     Embætti forseta Íslands. Farið er fram á 3,5 m.kr. aukafjárveitingu til að mæta rekstrarhalla frá árinu 1997 sem embættið nær ekki að gera upp á yfirstandandi ári.
201     Alþingi. Lagt er til að framlag til Alþingis hækki um 8,5 m.kr. til að mæta útgjaldaauka í tengslum við óvenjulangt þinghald sl. vor og kostnaði við sérstakt átak til að flýta frágangi á ræðum og birtingu þeirra á vefnum. Yfirvinna fyrri hluta ársins og ræðuvinnsla var mun meiri en á sama tíma árið áður. Auk þess var prentkostnaður hærri en verið hafði.

01 Forsætisráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Alls er lagt til að framlag til fjárlagaliðarins hækki um 51,5 m.kr. Farið er fram á að viðfangsefnið 1.15 Útboðs- og einkavæðingarverkefni hækki um 49,5 m.kr. vegna kostnaðar við sölu hlutabréfa ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., sem ekki var gert ráð fyrir í fjárveitingum til útboðs- og einkavæðingarverkefna í fjárlögum 1998. Fyrir gildistöku laga um fjárreiður ríkisins gilti sú regla að kostnaður af hluta­bréfasölu var dreginn frá söluandvirði hlutabréfa en eftir gildistöku laganna ber að gjaldfæra kostnaðinn. Nafnvirði hlutabréfa í Fjárfestingarbankanum sem seld voru í haust var 3.332 m.kr. og nam söluandvirði þeirra 4.665 m.kr. Gerður var 45 m.kr. samn­ingur við Fjárfestingarbanka atvinnulífsins um umsjón með sölunni og samdi hann síðan við öll innlend verðbréfafyrirtæki og banka um þátttöku í sölunni. Að auki er 4,5 m.kr. kostnaður við mat á verðmæti bankans sem endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtæki annað­ist. Samtals er því óskað eftir 49,5 m.kr. viðbótarfjárheimild. Lagt er til að viðfangsefni 1.90 Ýmis verkefni hækki um 2 m.kr. Annars vegar er farið fram á 1 m.kr. aukafjárveit­ingu vegna starfa nefndar til að fjalla um áhrif breyttrar kjördæmaskipunar á byggða- og félagsmál í samræmi við tillögu kjördæmanefndar til forsætisráðherra í haust. Hins vegar er gerð tillaga um 1 m.kr. hækkun fjárveitingar til auðlindanefndar á þessum lið. Í frumvarpi til fjáraukalaga er gert ráð fyrir 3 m.kr. vegna kostnaðar við starf nefndarinnar sem kosin var á Alþingi sl. vor. Sýnt þykir að kostnaður við kaup á sér­fræðiráðgjöf fyrir nefndina verði meiri en gert hafði verið ráð fyrir.

02 Menntamálaráðuneyti

201     Háskóli Íslands. Óskað er eftir 25 m.kr. framlagi til þess að bæta tjón sem varð í bruna á kennslustofu sem notuð var til eðlis- og efnafræðikennslu. Fjárhæðin tekur mið af kostnaði við að endurnýja kennslutæki sem eyðilögðust og brunatrygging bætir ekki, en hún bætir tjón á húsnæði og föstum innréttingum.
203     Raunvísindastofnun Háskólans. Óskað er eftir 3,8 m.kr. framlagi til kaupa á jeppabifreið í stað þeirrar sem eyðilagðist í óhappi á Vatnajökli fyrr á þessu ári.
319     Framhaldsskólar, almennt. Framlag til viðfangsefnisins 1.40 Framhaldsskólar, óskipt, hækkar alls um 113,9 m.kr. Annars vegar er óskað er eftir 9,5 m.kr. hækkun á framlög­um vegna kostnaðar af kjarasamningum. Um er að ræða kostnað af prófum sem svarar til 2,3% af heildarlaunakostnaði og af deildarstjórn um 1,3% eða samtals 129,5 m.kr. Í frumvörpum til fjáraukalaga fyrir árið 1998 og fjárlaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir 120 m.kr. til þess að mæta þessum útgjöldum, en eftir stendur 9,5 m.kr. kostnaður sem ekki hefur verið fjármagnaður. Hins vegar er óskað eftir 104,4 m.kr. hækkun á fram­lögum vegna launakostnaðar í framhaldsskólum. Komið hefur í ljós að við skiptingu menntamálaráðuneytisins á fjárveitingum til framhaldsskóla í fjárlögum 1998 var stuðst við forsendur sem leiddu til þess að launakostnaður í skólunum var vanmetinn um 3,5%.
902     Þjóðminjasafn Íslands. Gerð er tillaga um að veittar verði 3 m.kr. til safnsins sem varið verði til verkefna sem útiminjasvið safnsins réðst í fyrr á þessu ári. Annars vegar er um að ræða viðgerð á Silfurgarði í Flatey á Breiðafirði sem er líklega elsta sjóvarnarmann­virki hér á landi, og hins vegar fornleifarannsókn á Eiríksstöðum í Haukadal.
905     Landsbókasafn Íslands — Háskólabókasafn. Gerð er tillaga um 10 m.kr. hækkun á þessum lið til að mæta auknum launakostnaði Landsbókasafns Íslands — Háskólabóka­safns vegna kjarasamninga.
907     Listasafn Íslands. Lögð er til 3 m.kr. hækkun á framlagi til Listasafns Íslands vegna rekstrarhalla safnsins 1997, m.a. vegna lægri sértekna en gert var ráð fyrir í fjárlögum.
974     Sinfóníuhljómsveit Íslands. Óskað er eftir 2,2 m.kr. hækkun vegna kostnaðar við kjarasamninga sem hljómsveitinni hefur ekki verið bættur.
982     Listir, framlög. Lögð er til 2 m.kr. hækkun á óskiptu framlagi fjárlagaliðarins.

03 Utanríkisráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Lagt er til að framlag til Mannréttindaskrifstofu Íslands verði hækkað um 4 m.kr. en þar af eru 2 m.kr. ætlaðar í verkefni til að minnast Árs mannréttinda. Mannréttindaskrifstofan fellur undir dómsmálaráðuneytið en nú er lagt til að hluti opin­bers framlags til stofnunarinnar verði á fjárlagalið hjá utanríkisráðuneytinu. Lögð er aukin áhersla á mannréttindi og mannréttindastarf og hefur í því skyni verið gerður sam­starfssamningur milli Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.

04 Landbúnaðarráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Lagt er til að Sambandi íslenskra loðdýraræktenda verði veittur 1,5 m.kr. styrkur til að standa undir hluta af rekstrarkostnaði félagsins árið 1996. Félagið varð af tekjum það ár þar sem búnaðargjald, sem renna átti til búgreinarinnar, hækkaði ekki úr 0,075% í 0,7% eins og áformað var.
221     Veiðimálastofnun. Lagt er til að Veiðimálastofnun fái 6 m.kr. aukafjárveitingu til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla, m.a. vegna fiskeldisdeildar, en verkefni hennar hafa verið færð til Stofnfisks hf.
271     Bændaskólinn á Hólum. Alls er lagt til að framlag til skólans hækki um 9 m.kr. Lögð er til 2 m.kr. hækkun á liðnum til að mæta tímabundinni hækkun launagjalda. Í annan stað er lagt til að skólanum verði veitt 7 m.kr. framlag til verkefnis við kynbætur á bleikju. Heildarkostnaður við rekstur verkefnisins er um 14 m.kr. á ári. Framleiðni­sjóður landbúnaðarins og fleiri hafa styrkt verkefnið á undanförnum árum. Stuðningur­inn hefur ekki nægt og er uppsafnaður rekstrarhalli árin 1997 og 1998 um 14 m.kr.
293     Hagþjónusta landbúnaðarins. Óskað er eftir að Hagþjónusta landbúnaðarins fái 1 m.kr. framlag á fjáraukalögum fyrir árið 1998 vegna áhrifa kjarasamninga og rekstrarkostnað­ar.
331     Héraðsskógar. Gerð er tillaga um að framlag til skógræktarátaks á Fljótsdalshéraði hækki um 3,5 m.kr. og er skýringin tvíþætt. Annars vegar er óskað eftir 2 m.kr. viðbót­arframlagi til að mæta halla sem hefur myndast hjá Héraðsskógum á síðustu árum. Hins vegar er lagt er til að veitt verði 1,5 m.kr. til að gera upp við Héraðsskóga kostnað af umfangsmikilli söfnun á lerkifræi árið 1995.
343     Suðurlandsskógar. Gerð er tillaga um 1,5 m.kr. fjárveitingu til Suðurlandsskóga sem starfa samkvæmt lögum frá maí 1997. Þeir eru fjármagnaðir með „átakspeningum til bindingar kolefnis“ þrjú fyrstu árin og er því fjármagni varið til að auka gróður lands­ins. Hins vegar hefur nokkur kostnaður fallið til sem rakinn er til annarra þátta en gróð­ursetningar og munar þar mestu um þann kostnað sem varð við upphaf verkefnisins í fyrra.
811     Bændasamtök Íslands. Lagt er til að Bændasamtök Íslands fái 9,6 m.kr. aukafjárveitingu vegna hækkunar á lífeyrisskuldbindingum. Einnig er farið fram á 4,6 m.kr. vegna aukinna greiðslna í lífeyrissjóð af launum starfsmanna héraðsbúnaðarsambanda. Fjár­veiting í fjárlögum tekur ekki tillit til nýrra reglna um greiðslur í Lífeyrissjóð starfs­manna sem tóku gildi í ársbyrjun 1998. Farið er fram á sömu hækkun í fjárlögum fyrir árið 1999.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

201     Hæstiréttur. Óskað er eftir 5,4 m.kr. hækkun á þessum lið. Þegar nýtt húsnæði Hæstaréttar var tekið í notkun láðist að gera ráð fyrir hækkun vegna meiri hita- og rafmagns­kostnaðar, 1,5 m.kr., fasteigna- og tryggingagjalda, 2,5 m.kr., og öryggisgæslu, 0,4 m.kr. Meðan framkvæmdir stóðu yfir var beðið með nauðsynlegar tengingar við tölvupóst og internet en rekstrarkostnaður við tölvuskrár og afnotagjöld nam um 1 m.kr. árið 1997. Samtals er því óskað eftir hækkun fjárveitinga sem nemur 5,4 m.kr.
235     Bætur brotaþola. Óskað er eftir að fjárveiting vegna bóta til brotaþola verði lækkuð um 5 m.kr. en ljóst er að nokkur afgangur verður á fjárveitingu þessa árs. Þegar fjárveiting var ákveðin í fjárlögum 1996 var óvíst hver heildarbótafjárhæð á ári yrði.
303     Ríkislögreglustjóri. Farið er fram á 15 m.kr. fjárveitingu vegna kostnaðar ríkislögreglustjóraembættisins við innheimtu sekta á landsvísu. Í byrjun ársins var tekið í notkun nýtt samræmt kerfi við innheimtu sekta og fellur allur kostnaður við prentun gíróseðla, útsendingu og ítrekanir á sektarboðum á embættið. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1999 er samsvarandi fjárveiting á lið ríkislögreglustjóraembættisins.
390     Ýmis löggæslukostnaður. Farið er fram á fjárheimild til kaupa á nauðsynlegum tækjakosti til útgáfu á nýjum tölvulesanlegum vegabréfum. Heildarkostnaður nemur um 42 m.kr. Um er að ræða tölvubúnað, hugbúnað og 100.000 tölvulesanleg vegabréf. Í fjár­lögum 1997 voru 13,3 m.kr. ætlaðar til undirbúnings þessa verkefnis. Á þeim lið eru eftir um 11 m.kr. og er því óskað eftir fjárveitingu sem nemur 31 m.kr. Fyrirhugað er að gengið verði frá kaupsamningi í desember 1998.
412     Sýslumaðurinn á Akranesi. Óskað er eftir aukafjárveitingu að fjárhæð 12 m.kr. vegna hallareksturs embættisins síðustu árin. Uppsafnaður halli í lok árs 1997 var 26,1 m.kr. Á árinu 1998 bætist enn við hallann, einkum vegna áfalla og veikinda sem nokkrir starfsmenn embættisins hafa átt í, og stefnir í að uppsafnaður halli í árslok 1998 verði 35,8 m.kr. en miðað er við að ráðið verði fram úr honum á nokkrum árum samhliða hag­ræðingaraðgerðum hjá embættinu.
490     Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta. Farið er fram á að fjárveiting til að mæta kostnaði samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs verði lækkuð um 10 m.kr. með hlið­sjón af áætlaðri útkomu þessa árs.
501     Fangelsismálastofnun ríkisins. Launakostnaður hækkar sem nemur um 18 m.kr. á árinu 1998 vegna kjarasamnings við fangaverði. Í ljósi styrkrar fjárhagsstöðu Fangelsismála­stofnunar ber stofnunin 10 m.kr. af kostnaðinum en óskað er eftir 8 m.kr. fjárveitingu fyrir því sem á vantar.

07 Félagsmálaráðuneyti

331     Vinnueftirlit ríkisins. Farið er fram á 16 m.kr. hækkun á fjárheimild stofnunarinnar en sú fjárhæð svarar til inneignar stofnunarinnar á mörkuðum tekjum af vinnueftirlitsgjaldi.
400     Málefni barna og ungmenna. Gerð er tillaga um að Götusmiðjan — Virkið fái 5 m.kr. framlag til reksturs meðferðarheimilis fyrir tímabilið frá júní til áramóta 1998. Þar eru veitt sérhæfð meðferðarúrræði fyrir unga fíkla á aldrinum 16–20 ára og er markhópur­inn ungmenni sem önnur meðferðarúrræði hafa ekki hentað. Framlagið er háð því að gerður verði þjónustusamningur við rekstraraðila meðferðarheimilisins.
700     Málefni fatlaðra. Farið er fram á 54 m.kr. hækkun til að mæta áhrifum kjarasamninga á stofnunum fyrir fatlaða. Starfsmenn þessara stofnana taka langflestir laun samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og SFR. Í síðasta samningi þessara aðila var samið um launakerfi sem byggist m.a. á starfaflokkun. Í mati á áhrifum kjarasamningsins var ekki tekið nægilegt tillit til þeirra áhrifa sem þau hafa á launaútgjöld stofnananna.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi. Farið er fram á 1,4 m.kr. hækkun á framlagi til móttöku flóttamanna á Blönduósi. Um er að ræða greiðslu viðbótarkostnaðar vegna barnabóta, tölvunámskeiða og ferðakostnaðar.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

101     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, aðalskrifstofa. Óskað er eftir 6 m.kr. aukafjárveitingu til aðalskrifstofu ráðuneytisins þar sem útgjöld vegna undirbúningsvinnu við frumvarp til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði og frumvarp til laga um lífsýni verða mun hærri en ráð var fyrir gert. Útgjöld ráðuneytisins eru m.a. vegna skýrslugerð­ar, sérfræðiaðstoðar, þýðinga og prentunar.
379     Sjúkrahús, óskipt. Farið er fram á 80 m.kr. framlag og er það ætlað til að mæta rekstrarvanda á fimm sjúkrastofnunum. Í vinnu faghóps á vegum heilbrigðis- og tryggingamála­ráðherra voru óleyst vandamál hjá nokkrum stofnunum og ljóst að þar þyrfti viðbótar­fjármuni. Lagt er til að fjárveitingin verði notuð til að gera upp rekstrarhalla vegna sam­einingar heilbrigðisstofnana á Austurlandi og renni einnig til heilbrigðisstofnana á Suð­urnesjum og á Selfossi. Þá er lagt til að af fjárveitingunni verði greiddur rekstrarhalli hjá St. Fransiskusspítala í Stykkishólmi og Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi. Gert er ráð fyrir að framlögin verði greidd til framangreindra stofnana þegar gerðir hafa verið þjónustusamningar um rekstur þeirra.
381     Sjúkrahús og læknisbústaðir. Lagt er til að framlag til viðfangsefnisins 6.90 Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða hækki um 7,1 m.kr. Framlagið er ætlað til Hjúkrunarheimilisins Hulduhlíðar og er lokagreiðsla á skuld ríkisins við Eskifjörð vegna stofnkostnaðar þess.
399     Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Lagt er til Krýsuvíkursamtökunum verði veittar 5 m.kr. til fjárhagslegrar endurskipulagningar Krýsuvíkurskólans. Unnið hefur verið að endur­skipulagningu starfseminnar á yfirstandandi ári.
568     Reynslusveitarfélagið Höfn í Hornafirði. Í samræmi við ákvæði í samningi um reynslusveitarfélagið Höfn í Hornafirði er farið fram á 11 m.kr. fjárveitingu til að kosta þrjú sjúkrarými í stað hjúkrunarrúma. Farið verður fram á sömu fjárhæð til hækkunar á framlögum í fjárlögum fyrir árið 1999.
725     Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ. Farið er fram á 9,5 m.kr. viðbótarfjárveitingu til að ganga frá uppgjöri í tengslum við sameiningu heilsugæslustöðvar og sjúkraskýlis Þing­eyrar við Heilbrigðisstofnun Ísafjarðar. Ríkisendurskoðun hefur farið yfir óuppgerðar kröfur vegna heilsugæslustöðvar og sjúkraskýlisins á Þingeyri og nema þær 9,5 m.kr. Kröfuhafar eru Verkalýðsfélagið Skjöldur, Lífeyrissjóður Vestfirðinga, Ísafjarðarbær, Sparisjóður Önundarfjarðar og Sparisjóður Þingeyrarhrepps.

09 Fjármálaráðuneyti

999     Ýmislegt. Alls er lagt til að framlag hækki um 68,7 m.kr. og er breytingin þríþætt. Í fyrsta lagi gengu 5. nóvember sl. endanlegir dómar í fimm völdum fordæmismálum af fjörutíu sambærilegum varðandi ágreining um rétt fyrrum starfsmanna Lyfjaverslunar ríkisins til biðlauna í tengslum við yfirtöku Lyfjaverslunar Íslands hf. á starfsemi stofn­unarinnar 1. júlí 1994. Niðurstaða Hæstaréttar er sú að starfsmennirnir eiga rétt til fullra biðlauna auk dráttarvaxta frá 10. janúar 1997 til greiðsludags. Þess er farið á leit að veitt verði 34,5 m.kr. framlag til greiðslu biðlauna og dráttarvaxta. Í öðru lagi er farið fram á 25 m.kr. fjárveitingu til greiðslu bóta vegna mistaka lækna á Ríkisspítölum sem leiddu til 100% örorku. Náðst hefur samkomulag milli ríkislögmanns f.h. ríkissjóðs og lögmanns stefnanda um greiðslu skaðabóta að upphæð 25 m.kr. Að lokum er gerð tillaga um 9,5 m.kr. hækkun fjárheimildar vegna lokauppgjörs framkvæmda í kjölfar snjóflóðs í Súðavík. Um er að ræða kostnað af flutningi atvinnuhúsnæðis, kostnað sem tengist uppbyggingu nýrrar byggðar og ýmsa eftirmála hreinsunar.

12 Viðskiptaráðuneyti

902     Samkeppnisstofnun. Óskað er eftir 1,0 m.kr. aukafjárveitingu vegna ákvörðunar um hækkun þóknunar til samkeppnisráðs.

14 Umhverfisráðuneyti

210     Veiðistjóri. Óskað er eftir að framlag til embættisins hækki um 9,2 m.kr. og er skýringar að rekja til þriggja þátta. Í fyrsta lagi er fram á 1,2 m. kr. fjárveitingu vegna ófyrirséðra launaútgjalda. Þá er farið fram á 5 m.kr. fjárveitingu vegna aukinnar minkaveiði. Um er að ræða endurgreiðslur til sveitarfélaga en í ár og síðasta ár hefur minkaveiði verið meiri en reiknað var með í fjárlögum. Veiðin í ár stefnir í að verða 6.500 dýr í stað 6.000 samkvæmt áætlun. Í samræmi við 13. gr. laga nr. 64/1994 endurgreiðir ríkissjóður allt að helmingi kostnaðar við veiðarnar eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum. Að lokum er óskað eftir 3 m.kr. framlagi til reksturs minkahundabús stofnunarinnar. Gert hafði verið ráð fyrir öðru fyrirkomulagi á rekstrinum sem leiddi til sparnaðar. Af því varð ekki en fyrirhugað er að ná fram hagræðingu í rekstri búsins árið 1999.
221     Hollustuvernd ríkisins. Farið er fram á 7 m.kr. aukafjárveitingu vegna átaks stofnunarinnar til að ljúka við löggildingu tilskipana ESB um flokkun og merkingar hættulegra efna og efnasambanda.
310     Landmælingar Íslands. Farið er fram á 12,3 m.kr. fjárveitingu til að mæta fyrirsjáanlegri lækkun á sértekjum stofnunarinnar.
401     Náttúrufræðistofnun Íslands. Gerð er tillaga um að framlag til stofnunarinnar hækki alls um 3,2 m.kr. Annars vegar er lögð til 2,2 m.kr. aukafjárveiting til setursins í Reykjavík til reksturs á viðbótarhúsnæði. Heimild fékkst fyrir viðbótarhúsnæði vegna aukinnar starfsemi sem m.a. stafar af flutningi gróðurkortagerðar frá Rannsóknastofnun landbún­aðarins til Náttúrufræðistofnunar og eflingu rannsókna á veiðifuglum. Hins vegar er lagt til að Náttúrufræðistofnun Íslands fái 1 m.kr. til að mæta auknum leigugjöldum á Akur­eyrarsetri stofnunarinnar.

    Nú er í fyrsta sinn til umfjöllunar frumvarp til fjáraukalaga sem byggist á þeirri framsetn­ingu fjárlaga sem tekin var upp í fyrra, sbr. ákvæði laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Því þykir rétt að gera grein fyrir uppbyggingu breytingartillagna við sundurliðun 2 við frum­varpið. Meginregla við gerð breytingartillagna á Alþingi er sú að einungis eru gerðar tillögur um efnisbreytingar en ekki afleiðubreytingar. Þannig hefur sú breyting á framlögum til við­fangsefnis sem gerð er tillaga um í breytingartillögu við sundurliðun 2 þær afleiðingar að samsvarandi breytingar verða á fjármögnun fjárlagaliðarins ef fjármögnun er aðeins af einni tegund. Þannig tekur Alþingi ákvörðun í einu lagi um breytingu á framlagi og fjármögnun þess. Hins vegar í þeim tilvikum að um tvær eða fleiri fjármögnunarleiðir er að ræða eða bein tillaga er gerð um breytingu á fjármögnun er þess getið sérstaklega í breytingartillögu. Samkvæmt venju liggur síðan fyrir stöðuskjal eftir 2. umræðu þar sem allar tölur eru upp­færðar og aðrar breytingar gerðar í samræmi við úrslit atkvæðagreiðslu en er að öðru leyti framsett á nákvæmlega sama hátt og frumvarpið sjálft.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 3. des. 1998.Jón Kristjánsson,


form., frsm.


Sturla Böðvarsson.


Árni Johnsen.Árni M. Mathiesen.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Hjálmar Jónsson.Ísólfur Gylfi Pálmason.