Ferill 176. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 398  —  176. mál.
Nefndarálitvið frv. til l. um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Sjóðfélagar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda eru launþegar og þeir sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og ekki hafa fullnægt tryggingaskyldu sinni með aðild að viðurkenndum lífeyrissjóðum skv. 7. gr. gildandi laga, annaðhvort vegna þess að þetta fólk átti ekki sjálfsagðan rétt til að greiða í einhvern annan lífeyrissjóð eða það vildi það ekki. Þetta fólk er ekki í stéttarfélagi því að þá bæri því að greiða í lífeyrissjóð þess stéttarfélags. Það greiðir ekki heldur í aðra lífeyrissjóði vegna þess starfs sem veitir því aðild að Söfnunar­sjóðnum. Oft er um einyrkja að ræða sem greiða allt iðgjaldið sjálfir. Í kjölfar gildistöku laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, má búast við að sjóðsfélögum fjölgi mjög í Söfnunarsjóðnum. Þetta fólk kemur alls staðar frá. Núverandi ákvæði um skipun stjórnar eru ekki í neinum tengslum við núverandi sjóðfélaga né þá sem koma nýir inn eða þá hagsmuni sem þeir hafa af ávöxtun og rekstri sjóðsins.
    Hver á Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda? Það er hafið yfir vafa að sjóðfélagarnir eiga réttindi hjá sjóðnum, enn fremur makar og börn sjóðfélaga ef þeir falla frá sem og makar og börn lát­inna sjóðfélaga. Eingöngu þetta fólk á rétt til greiðslna úr sjóðnum. Samtök sjóðfélaga, sam­tök launagreiðenda eða launagreiðendur eiga engan rétt til greiðslna úr sjóðnum sem slík. Hætti launþegi sem greiðir iðgjald til sjóðsins starfi hjá launagreiðanda rofnar allt samband launagreiðandans við sjóðinn vegna þess sjóðfélaga. Sjóðfélaginn á áfram geymdan rétt til greiðslna úr sjóðnum ef hann verður öryrki eða gamall. Maki hans og börn eignast rétt til greiðslna úr sjóðnum ef hann fellur frá.
    Til lúkningar skuldbindingum sjóðsins vegna þeirra réttinda sem sjóðfélagar og nánustu aðstandendur þeirra eiga á sjóðurinn eignir í formi peninga, verðbréfa og fasteigna. Þessar eignir standa á móti þeim réttindum sem sjóðurinn hefur lofað framangreindum hópi sjóðfé­laga og nánustu aðstandendum þeirra. Réttindi og skuldbindingar eiga að standast á, sbr. 14. gr. Eignir sjóðsins eiga því að vera jafngildar réttindunum sem sjóðfélagarnir og nánustu að­standendur þeirra eiga. Þeir hljóta því að eiga þessar eignir sem standa til tryggingar réttind­unum og þar með allan lífeyrissjóðinn, enda er vandséð hver annar eigi að eiga þessar eignir. Hrein eign Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda til greiðslu lífeyris nam 13,2 milljörðum kr. í árslok 1997 og um 6.000 sjóðfélagar greiddu iðgjöld til sjóðsins á árinu 1977.
    Rétt er að nefna þá lífssýn sem margt fólk hefur að eignir séu betur geymdar í höndum ein­staklinga en í höndum opinberra aðila eða aðila sem enga persónulega hagsmuni hafi af eign­unum. Í samræmi við þessa lífssýn er óeðlilegt að þetta mikla fé sé án formlegs eiganda og því er lagt til að sjóðfélagarnir verði formlega lýstir eigendur þessa fjár.
    Hver á að kjósa stjórn sjóðsins? Núna skipar fjármálaráðherra sjö manna stjórn sjóðsins þannig: Tvo án tilnefningar, tvo samkvæmt tilnefningu Landssamband lífeyrissjóða, tvo sam­kvæmt tilnefningu Sambands almennra lífeyrissjóða og einn samkvæmt tilnefningu BSRB. Allir þessir aðilar eru án nokkurra tengsla við sjóðfélaga eins og áður var rakið. Auk þess er ekki loku fyrir það skotið að þessir aðilar geti verið í beinni samkeppni við Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda sem þeir eiga að stýra, t.d. varðandi góð fjárfestingartækifæri. Þar sem sjóðfé­lagarnir eiga sjóðinn eins og rakið er hér að framan og sjóðfélagarnir eiga afkomu sína í ellinni alfarið undir því hvernig til tekst með rekstur sjóðsins og ávöxtun fjármuna hans er mjög brýnt að þeir komi að vali á stjórn sjóðsins.
    Margir hafa þá lífssýn að fullveðja einstaklingar eigi og séu færir um að taka ákvarðanir um helstu mál sem þá varða. Þær breytingartillögur, sem hér eru lagðar til, taka mið af þessari trú á einstaklinginn.
    Minni hluti nefndarinnar getur ekki tekið undir það sjónarmið meiri hlutans að skipan stjórnar skuli vera óbreytt frá því sem nú er. Hann telur til bóta að ráðherra ákvarði laun stjórnarinnar en ekki stjórnin sjálf eins og verið hefur ef ekki verður fallist á að sjóðfélagar komi að stjórn og rekstri sjóðsins.
    Minni hlutinn getur tekið undir breytingar meiri hlutans sem koma fram í 2. og og 3. tölul. breytingartillagna hans.


Alþingi, 26. nóv. 1998.Pétur H. Blöndal,


frsm.


Gunnlaugur M. Sigmundsson.