Ferill 109. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 406  —  109. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um gagnagrunn á heilbrigðissviði.

Frá 1. minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur fjallað rækilega um frumvarp til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Ekkert annað mál hefur fengið jafnmikla umfjöllun í tíð núverandi nefnd­ar. Á sjötta tug umsagna var leitað og engum sem óskaði eftir að tjá viðhorf sín til málsins var synjað fundar með nefndinni.
    Mikil umræða hefur þegar farið fram um persónuvernd í tengslum við frumvarpið og við­horf þeirra sem standa að þessu nefndaráliti hafa þegar komið fram við 1. umræðu málsins og verða ítrekuð við 2. umræðu. Rök gegn veitingu einkaréttar til nýtingar heilsufarsupplýs­inga hafa hins vegar fengið mun minni athygli. Í þessu nefndaráliti er því megináherslan lögð á að lýsa þeim rökum, auk þess sem fjallað er um breytingartillögur og varpað ljósi á nokkur mikilvæg atriði sem samstaða var um innan nefndarinnar.
    Fyrsti minni hluti vill þó lýsa þeirri skoðun að fræðilega eru allar upplýsingar í miðlægum gagnagrunni persónugreinanlegar. Sömuleiðis telja þeir sem að áliti þessu standa að í um­ræðunni um miðlægan gagnagrunn hafi persónuverndargildi dulkóðunar verið ofmetið og vernd persónulegra upplýsinga sem fluttar eru í miðlægan gagnagrunn ráðist ekki síst af ann­ars konar öryggiskerfum sem og eftirliti tölvunefndar.

Mikilvægar breytingar.
    Um flestar breytingartillögur sem meiri hlutinn gerir við frumvarpið er samstaða um í nefndinni. Sérstaklega er vakin athygli á eftirfarandi fjórum breytingartillögum sem telja verður mikilvægastar:
     1.      Við 4. gr. er bætt ákvæði sem heimilar ráðherra að semja við rekstrarleyfishafa um sérstakar greiðslur í ríkissjóð sem endurgjald fyrir nýtingu heilsufarsupplýsinga úr sjúkra­skrám. Með tilliti til þess að meiri hlutinn leggst alfarið gegn því að afnema einkarétt rekstrarleyfishafa telur 1. minni hluti að mikilvægt sé að ákvæði um gjaldtöku fyrir einkaréttinn komi inn í frumvarpið
     2.      Við 5. gr. er bætt ákvæði um að rekstur gagnagrunnsins verði fjárhagslega aðskilinn frá öðrum samkeppnisrekstri rekstrarleyfishafa. Þetta er í samræmi við úrskurði Samkeppn­isstofnunar og er mjög til bóta.
     3.      Við 12. gr. er bætt ákvæði um þverfaglega siðanefnd sem á að meta allar fyrirspurnir og rannsóknir sem gerðar eru í krafti gagnagrunnsins. Gildir þá einu hvort um er að ræða rannsóknir eða fyrirspurnir á vegum rekstrarleyfishafans sjálfs eða annarra fyrir­tækja eða vísindamanna. Áður en rannsóknir eru unnar eða fyrirspurnum svarað verður mat nefndarinnar að hafa leitt í ljós að engin vísindaleg eða siðfræðileg sjónarmið mæli gegn framkvæmd rannsóknarinnar. Þetta er að mati 1. minni hluta langmikilvægasta breytingin í þeim tillögum sem meiri hlutinn flytur. Á sjúkrahúsum þar sem rannsóknir eru stundaðar eru starfræktar svokallaðar „innanhússnefndir“ sem gegna vísindasið­fræðilegu hlutverki og eru skipaðar af viðkomandi stofnunum. Við umfjöllun í nefndinni var m.a. ræddur sá möguleiki að setja ákvæði um slíka „innanhússnefnd“ til að svara víðtækri gagnrýni á að ekkert ákvæði skuli vera í frumvarpinu um vísindasiðfræðilegt mat á tillögum að rannsóknum sem gerðar skulu í gagnagrunninum. Nefndin komst þó sameiginlega að þeirri niðurstöðu að ganga lengra og leggja til þverfaglega siðanefnd sem ráðherra skipar. Æskilegra hefði verið að í frumvarpinu yrði gerð tillaga um hvaða stofnanir ættu fulltrúa í siðanefndinni, en 1. minni hluti telur eigi að síður að með breyt­ingartillögu meiri hlutans sé stigið stórt skref til móts við þá hörðu gagnrýni sem kom fram nær alls staðar í vísindasamfélaginu á þennan ágalla frumvarpsins.
     4.      Lögð er til breyting á 10. gr. varðandi meðferð ættfræðiupplýsinga og samkeyrslur gagnagrunns á heilbrigðissviði við aðra gagnagrunna. Mjög margir, þar á meðal tölvu­nefnd, Lagastofnun Háskóla Íslands og landlæknir töldu nauðsynlegt að kveða mun skýrar á um meðferð ættfræðiupplýsinga og samkeyrslur þeirra við gagnagrunninn. Sömuleiðis töldu margir umsagnaraðilar að nauðsynlegt væri að setja skýr fyrirmæli um hvaða aðrar upplýsingar mætti samkeyra við miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Einhugur varð um að breyta frumvarpinu þannig að ljóst væri að rekstrarleyfishafi mætti einungis samkeyra ættfræðiupplýsingar við miðlæga gagnagrunninn eftir sérstöku vinnuferli sem hlotið hefði samþykki tölvunefndar. Í sömu breytingartillögu felast jafn­framt skýr fyrirmæli um að um allar samkeyrslur hans við aðrar upplýsingar sem ekki koma úr sjúkraskrám skuli fara samkvæmt lögum um skráningu og meðferð persónu­upplýsinga.
    Í reynd merkja þessar breytingar eftirfarandi:
     1.      Ættfræðigrunn verður heimilt að samkeyra við gagnagrunn á heilbrigðissviði eftir sérstökum reglum sem tölvunefnd hefur lagt blessun sína yfir. Í því sambandi er mikilvægt að benda einnig á að samkvæmt frumvarpinu er hlutverk tölvunefndar útvíkkað frá þeim lögum sem um hana gilda og henni gert að hafa eftirlit með upplýsingum í miðlæga gagnagrunninum á öllum vinnslustigum. Tölvunefnd mun því einnig hafa eftirlit með því hvernig samtengingu hans við ættfræðigrunninn verður háttað í daglegum rekstri.
     2.      Engar aðrar samkeyrslur við miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði verða heimilaðar nema þær uppfylli skilyrði gildandi laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Í því felst m.a. að tölvunefnd þarf að samþykkja slíkar samkeyrslur.
    Mikilvægt er að leggja áherslu á að þetta merkir einnig að erfðafræðilegar upplýsingar sem rekstrarleyfishafi vinnur í krafti rannsókna sem gerðar eru með upplýstu samþykki verða heldur ekki samkeyrðar við gagnagrunn á heilbrigðissviði nema uppfyllt séu skilyrði fyrr­nefndra laga og heimild tölvunefndar liggi fyrir. Þetta er einnig skýrt tekið fram í 2. mgr. at­hugasemda um 7. gr. í greinargerð með frumvarpinu en þar segir fortakslaust að ekki sé heimilt að flytja aðrar upplýsingar í gagnagrunninn en þær sem koma úr sjúkraskrám. Jafn­framt segir þar að aðrar upplýsingar verði einungis samtengdar heilbrigðisupplýsingum í gagnagrunninum ef uppfyllt eru skilyrði í lögum um skráningu og meðferð persónuupplýs­inga.
    Af þessu leiðir einnig annað mikilvægt atriði sem varðar tengsl ættfræðiupplýsinga og gagnagrunnsins. Augljóst var af máli margra sem komu til fundar við nefndina og mörgum umsögnum, þar á meðal Lagastofnunar, að sá skilningur var útbreiddur að ættfræðiupplýs­ingar yrðu hluti af miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði. Þessi misskilningur á rót sína að rekja til þess að samkvæmt tilmælum Evrópuráðsins um vernd heilsufarsupplýsinga geta fjölskyldugögn (family data) talist erfðafræðilegar upplýsingar, en samkvæmt frumvarpinu eru þær skilgreindar sem heilsufarsupplýsingar. Sums staðar, m.a. í áliti Lagastofnunar, er álitið að „family data“ feli í sér ættfræðiupplýsingar þó að í fyrrnefndum tilmælum Evrópu­ráðsins bendi ekkert sérstaklega til að svo sé. Í meðferð heilbrigðis- og trygginganefndar kom hins vegar skýrt fram að nefndin lítur svo á að ættfræðiupplýsingar séu ekki hluti af miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði heldur séu þær staðsettar í sérstökum grunni sem nefndin leggur til, eins og fyrr segir, að verði aðeins samkeyrður við gagnagrunn á heilbrigð­issviði eftir reglum sem hafa hlotið viðurkenningu tölvunefndar. Þessum skilningi til staðfestu ber að upplýsa að nefndin var einhuga um að hafna því að orðinu „ættfræðiupplýsing­ar“ yrði bætt framan við þá skilgreiningu á erfðafræðilegum upplýsingum sem er að finna í sérstakri breytingartillögu meiri hlutans og 1. minni hluti styður. Þetta er nauðsynlegt að taka fram til að skilgreina til hlítar stöðu ættfræðiupplýsinga í frumvarpinu.

Breytingartillögur 1. minni hluta.
    Áður en breytingartillögur 1. minni hluta eru reifaðar er rétt að geta þess að víða í um­sögnum kom fram ótti vísindamanna við að samþykkt frumvarpsins um miðlægan gagnagrunn mundi skerða möguleika þeirra til sjálfstæðra rannsókna með frumgögn úr sjúkraskrám og dreifðum gagnagrunnum. Í umfjöllun nefndarinnar var því skoðað sérstaklega hvaða áhrif samþykkt frumvarpsins hefði á svigrúm vísindamanna til að nýta sér slíkar heilsufarsupplýs­ingar.
    Alger samstaða var um eftirfarandi skilning: Vísindamenn hafa óbreyttan aðgang að frum­upplýsingum sjúkraskráa. Þeir munu sömuleiðis hafa fullan aðgang að dreifðum gagnagrunn­um sem verða til á heilbrigðisstofnunum í krafti laganna svo fremi uppfyllt séu gildandi lög um meðferð persónuupplýsinga. Rekstrarleyfishafi miðlægs gagnagrunns mun sömuleiðis engin áhrif hafa á samtengingar eða samkeyrslur upplýsinga úr slíkum grunnum, enda lúti meðferð gagna úr þeim ákvæðum fyrrnefndra laga um meðferð persónuupplýsinga. 1. minni hluti taldi því ekki þörf á að gera sérstakar breytingartillögur um þetta efni.
    Fyrsti minni hluti telur rétt að skilgreina frekar þær heilsufarsupplýsingar úr sjúkraskrám sem mega, og mega ekki, fara inn í miðlægan gagnagrunn.
    Í lögum um réttindi sjúklinga er sérstakt ákvæði um að hafa börn með í ráðum þegar með­ferð þeirra er ákveðin. Það er í samræmi við viðleitni löggjafans á Íslandi og víðar til að auka réttindi barna. 1. minni hluti leggur því til að í 8. gr., þar sem fjallað er um réttindi sjúklings, komi ákvæði um að foreldrar skuli eftir því sem kostur er hafa börn sín með í ráð­um þegar þeir ákveða hvort leyfa skuli flutning heilsufarsupplýsinga um þau í miðlægan gagnagrunn og alltaf ef þau eru 12 ára eða eldri. Þetta er efnislega samhljóða 2. málsl. 1. mgr. 26. gr. laga um réttindi sjúklinga.
    Í vísindarannsóknum sem tengjast mönnum er algild regla að einstaklingar sem leggja til upplýsingar við rannsókn geta hætt þátttöku hvenær sem þeir vilja. 1. minni hluti telur eðli­legt að svo sé einnig um rannsóknir sem gerðar eru í krafti miðlægs gagnagrunns og leggur til að í 8. gr. komi skýr heimild til sjúklings um að krefjast þess hvenær sem hann vill að öllum upplýsingum um hann sem fluttar hafa verið í miðlægan gagnagrunn verði eytt.
    Fyrsti minni hluti leggur einnig til að í sérstöku bráðabirgðaákvæði verði landlækni falið að standa fyrir upplýsingaherferð til að kynna almenningi rétt hans til að hafna þátttöku í miðlægum gagnagrunni.
    Andmæli 1. minni hluta við ákvæði sem mælir fyrir um veitingu einkaréttar á nýtingu heilsufarsupplýsinga eru reifuð í mjög ítarlegu máli síðar í þessu áliti. Í samræmi við það leggur hann til að orðalagi 1. og 2. gr., 1. tölul. 3. gr. og 1.mgr. 4. gr. verði breytt þannig að skýrt sé að fleiri en einn geti fengið leyfi til gerðar og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðis­sviði.
    Fyrsti minni hluti leggur ekki fram að svo stöddu breytingartillögu um að tryggja öllum vísindamönnum aðgang að rannsóknum í gagnagrunninum, en síðar í nefndarálitinu eru tvær leiðir reifaðar. 1. minni hluti telur báðar leiðirnar koma til greina en sökum mikilvægis máls­ins telur hann rétt að freista samkomulags um málið og hefur því afráðið að fresta um sinn að leggja fram formlega breytingartillögu um aðra hvora leiðina.

Aðgangur vísindamanna.
    Ákvæði frumvarpsins um aðgengi vísindamanna á kostnaðarverði að hinum miðlæga grunni hafa verið harðlega gagnrýnd, en á ólíkum forsendum. Vísindasamfélagið gagnrýndi að aðgengisákvæðin mismunuðu vísindamönnum. Samkeppnisstofnun og Lagastofnun gagn­rýndu sömu ákvæði á þeim forsendum að þau brytu gegn samkeppnislögum og reglum EES. Hér á eftir er gagnrýni þessara aðila reifuð.
    Gagnrýni úr röðum vísindamanna á ákvæði frumvarpsins um aðgengi þeirra að gagna­grunninum er einkum tvenns konar:
    Í fyrsta lagi er gagnrýnt að einungis þeir sem leggja til upplýsingar í grunninn eiga sam­kvæmt frumvarpinu að fá heimild til að nota hann til rannsókna. Að mati þeirra fulltrúa úr vísindasamfélaginu sem reifað hafa málið opinberlega eða við heilbrigðis- og trygginganefnd brýtur þetta í bága við siðferðilegan grunn frjálsra rannsókna. 1. minni hluti er sammála því viðhorfi. Þar að auki er bent á að ekki eiga allir vísindamenn sem tengjast heilbrigðisgeiran­um kost á að leggja upplýsingar inn í grunninn, en gætu eigi að síður notað hann við rann­sóknir sem væru þjóðfélaginu og læknavísindunum almennt til heilla. Dæmi um þetta eru ýmsir vísindamenn við Háskóla Íslands sem samkvæmt frumvarpinu eru útilokaðir frá því að geta notað grunninn.
    Í öðru lagi er gríðarleg andstaða í röðum vísindamanna við setu fulltrúa rekstrarleyfishafa í sérstakri aðgengisnefnd sem á að gæta viðskiptahagsmuna hans, en forsenda aðgengis vís­indamanna hefur verið skilgreind þannig að ekki megi heimila vísindamönnum rannsóknir í krafti miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði sem gætu verið í beinni samkeppni, vísinda­legri og viðskiptalegri, við rekstrarleyfishafann. Vísindamenn hafa bent á að þetta feli í sér hættu á hugmyndastuldi sem ekki sé hægt að búa við. Efnislega hefur Samkeppnisstofnun tekið undir þá skoðun, eins og síðar verður rakið. 1. minni hluti er sammála þessu viðhorfi og telur bæði af siðfræðilegum og samkeppnislegum ástæðum útilokað að samþykkja frum­varpið með þessu ákvæði.
    Meiri hlutinn er þessari gagnrýni ósammála og heldur setu rekstrarleyfishafa í aðgengis­nefndinni til streitu í breytingartillögum sínum við frumvarpið. Hann hefur svarað gagnrýni vísindamanna með því að staðhæfa að tiltölulega léttvæga takmörkun á aðgangi þeirra að miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði sé ekki hægt að kalla skerðingu á rannsóknarfrelsi manna sem áður höfðu engan aðgang að gagnagrunni. Af því tilefni vill 1. minni hluti taka fram eftirfarandi: Þegar hugmyndin að miðlægum gagnagrunni var kynnt nefndinni í vor var það ein af frumforsendum málsins að með miðlægum gagnagrunni væri verið að smíða vís­indatæki sem ætti að verða til þess að bæta aðstöðu allra íslenskra vísindamanna á heilbrigð­issviði til rannsókna. Þetta var loforð af hálfu bæði stjórnvalda og frumkvöðla hugmyndar­innar og margítrekað af hálfu þeirra síðarnefndu.
    Innan nefndarinnar var raunar einhugur um að reyna að haga frumvarpinu svo að vísinda­mönnum væri tryggður eins mikill aðgangur að grunninum og frekast væri unnt. Sama við­horf virtist ríkja hjá væntanlegum rekstrarleyfishafa. Ágreiningur þeirra við 1. minni hluta um það efni birtist helst í mismunandi afstöðu til hinnar umdeildu setu fulltrúa rekstrarleyfis­hafa í aðgengisnefndinni. Miklir annmarkar komu þó í ljós varðandi frjálst aðgengi vísinda­manna að grunninum. Ástæðan er eftirfarandi:
    Bæði Lagastofnun og Samkeppnisstofnun töldu þau ákvæði 9. gr. frumvarpsins sem fjöll­uðu um notkun vísindamanna á gagnagrunninum brjóta svo harkalega gegn EES-reglum að þær lögðu báðar til að ákvæðin um aðgengi vísindamanna féllu brott. Tillögur þeirra þýddu því í raun að eini möguleiki íslenskra vísindamanna til að fá aðgang að rannsóknum fyrir til­stilli gagnagrunnsins væri að þeir keyptu hann fullu verði. Í reynd mundi slíkt útiloka ís­lenska vísindasamfélagið frá því að nota íslenskar upplýsingar í miðlægum gagnagrunni til rannsókna.
    Allmargar leiðir voru skoðaðar til að reyna að finna aðferð sem tryggði aðgang íslenskra vísindamanna á kostnaðarverði. Ekkert einstakt atriði fékk eins mikla umfjöllun í vinnu nefndarinnar við frumvarpið. Innan nefndarinnar skildu þó leiðir að lokum.
    Meiri hlutinn leggur til að ákvæði 9. gr. um aðgengi vísindamanna verði efnislega óbreytt en inn komi þó nýtt ákvæði um að aðgangur þeirra sé hluti af endurgjaldi rekstrarleyfishafa fyrir afnot af heilsufarsupplýsingum. Af hálfu meiri hlutans eru því hvorki lagðar til breyt­ingar á ákvæðum um setu rekstrarleyfishafa í nefnd þeirri sem fjallar um aðgengi vísinda­manna né aðgang þeirra sem ekki starfa beinlínis á þeim heilbrigðisstofnunum sem láta upp­lýsingar í té.
    Fyrsti minni hluti getur alls ekki fallist á þessa afgreiðslu, m.a. vegna þess að þau tvö at­riði sem hér eru nefnd fela í sér fjórfalt brot á reglum EES. Til að skýra það þarf fyrst að lýsa eftirfarandi: Ótvíræð dæmi um misnotkun einkaréttarhafa á markaðsráðandi aðstöðu þurfa ekki að liggja fyrir til að veiting einkaréttar feli í sér brot á EES-reglum (1. mgr. 59. gr., sbr. 54. gr.) heldur nægir að einkarétturinn skapi aðstöðu sem líklegt er að leiði til þess að einkaréttarhafinn misnoti stöðu sína. Með hliðsjón af þessu komst Samkeppnisstofnun að eftirfarandi niðurstöðum varðandi framangreind tvö atriði:
     1. Einokun á upplýsingum. Í áliti Samkeppnisstofnunar segir að með 9. gr. sé girt fyrir að vísindamenn geti fengið aðgang að upplýsingum úr miðlægum gagnagrunni til notkunar í vísindarannsóknum svo fremi þær geti skert viðskiptahagsmuni einkaréttarhafa. Möguleg­um keppinautum sé þ.a.l. haldið frá markaðnum og með þessu sé því verið að útvíkka eða efla hina markaðsráðandi stöðu einkaréttarhafa þannig að farið sé í gegn 54. gr. EES-samn­ingsins.
    2. Samkeppnishamlandi hagsmunaárekstrar. Þar sem fulltrúi einkaréttarhafans á sæti í aðgengisnefndinni og nefndinni er bersýnilega ætlað að vernda viðskiptahagsmuni hans er viðbúið að fulltrúinn „reyni eftir föngum að gæta hagsmuna hans“. Samkeppnisstofnun vísar í svipuð dæmi sem komu fyrir EB-dómstólinn þar sem dómstóllinn komst að þeirri niður­stöðu að aðstaða af þessu tagi færi gegn 1. mgr. 90. gr. Rómarsáttmálans, auk 86. gr., og skipti ekki máli þótt ekki hafi verið bent á einstök atvik þar sem einkaréttarhafi misnotaði slíka stöðu. Samspil einkaréttar og setu einkaréttarhafa í aðgangsnefnd af umræddu tagi er að mati stofnunarinnar nægilegt til að líklegt sé að það leiði til slíkra hagsmunaárekstra að brjóti gegn 1. mgr. 59. gr. og 54. gr. EES-samningsins.
    3. Aðgangur að viðskiptaleyndarmálum. Með setu fulltrúa síns í aðgangsnefndinni getur einkaréttarhafinn augljóslega komist að mikilvægum upplýsingum um áform vísindamanna. Samkeppnisráð hefur áður úrskurðað að það fari gegn markmiðum samkeppnislaga EES ef málsaðili þarf að leggja upplýsingar af viðskiptalegum toga fyrir nefnd sem keppinautar hans sitja í. Í því ljósi er ekki hægt að komast hjá því að draga þá ályktun að aðgengisnefnd, þar sem rekstrarleyfishafi á fulltrúa, stríði gegn EES-rétti.
    4. Samkeppnishamlandi mismunun. Stofnunin bendir einnig á að þar sem einungis þeir vísindamenn sem starfa hjá stofnunum sem leggja til upplýsingar í miðlægan gagnagrunn geti notið upplýsinga úr honum feli það að öllum líkindum í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu í skilningi 54. gr. EES-samningsins.
    Tillaga meiri hlutans felur því án nokkurs vafa í sér margfalt brot á reglum EES eins og bæði Samkeppnisstofnun og Lagastofnun hafa bent á. Það ber því ekki aðeins vott um ófag­leg vinnubrögð sem óneitanlega eru fallin til þess að skaða álit og virðingu Alþingis að sam­þykkja slík ákvæði heldur felur það í sér fullkomið ábyrgðarleysi af hálfu kjörinna fulltrúa þjóðarinnar á löggjafarsamkundunni. Ekki síst af þeim ástæðum leggst 1. minni hluti alfarið gegn 9. gr. frumvarpsins.
    Að mati 1. minni hluta koma tvær leiðir til álita til að tryggja aðgang vísindamanna. Önn­ur felst í því að mæla svo fyrir í lögum að sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn, starfs­menn heilbrigðisstofnana og vísindamenn í samstarfi við þær skuli hafa aðgang að upplýs­ingum úr gagnagrunni á heilbrigðissviði sem líta ber á sem hluta af endurgjaldi rekstrar­leyfishafa fyrir afhendingu heilbrigðisupplýsinga. Jafnframt verði í lögum tekið fram að um aðgang þessara aðila skuli rekstrarleyfishafi, heilbrigðisstofnanir og sjálfstætt starfandi heil­brigðisstarfsmenn semja skv. 1. mgr. 7. gr.
    Þessi aðferð felur ekki í sér þá annmarka sem lýst er í 1.–3.tölul. að framan þar sem ekki er gert ráð fyrir neinni aðgangsnefnd og skilmálar fyrir aðgengi vísindamanna eru algerlega háðir frjálsum samningum milli rekstrarleyfishafa og þeirra sem láta honum í té upplýsingar. Hins vegar er álitamál hvort hún gengur nógu langt til að hægt sé að fullyrða að hún feli ekki í sér samkeppnishamlandi mismunun eins og lýst er í 4. tölul. Augljóslega eru þó miklu minni líkur á því en samkvæmt tillögu meiri hlutans þar sem kveðið er á um að notkun gagna­grunnsins sé ekki aðeins heimil þeim sem starfa við heilbrigðisstofnanir heldur einnig vís­indamönnum sem séu í einhvers konar samstarfi við þær. Gera má ráð fyrir að allir sem stundi rannsóknir á heilbrigðissviði séu annaðhvort starfandi hjá heilbrigðisstofnunum eða geti án fyrirstöðu komið á samstarfi við þær. Það er því tæpast efa blandið að þessi tillaga 1. minni hluta er mun líklegri en tillaga meiri hlutans til að tryggja til frambúðar aðgang vís­indamanna að upplýsingum úr gagnagrunni á heilbrigðissviði.
    Hin leiðin, sem 1. minni hluti telur einnig færa, byggist á því að samkvæmt upplýsingum tilvonandi rekstrarleyfishafa, Íslenskrar erfðagreiningar, er fyrirhugað að selja áskrift að gagnagrunninum og handhafar áskriftar geta þá gert ótakmarkaðar rannsóknir án frekara gjalds, svo fremi þær uppfylli skilyrði laganna. Í lögum væri því hægt að kveða á um að ríkið fái sem hluta endurgjalds fyrir afnot af heilsufarsupplýsingum árlega áskrift að miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissvði þangað til einkarétti rekstrarleyfishafa sleppir og starfræksla gagnagrunns færist í hendur ríkisins eða þess sem ráðherra ákveður. Menntamálaráðherra færi fyrir hönd ríkisins með áskriftina, inn í lögin komi jafnframt ákvæði um að honum sé skylt að setja sérstakar reglur um hvernig megi nota hana og að öllum starfsmönnum ríkisins verði gert mögulegt að stunda rannsóknir svo fremi þeir uppfylli reglur menntamálaráðherra.
    Eðlilegt er að æðsta stjórnvald vísinda í landinu fari með áskrift ríkisins að gagnagrunnin­um. Menntamálaráðherra hefur þar að auki ekki tekið þátt í þeim hörðu deilum sem sprottið hafa milli heilbrigðisráðuneytisins og læknasamfélagsins og á þar að auki eðli málsins samkvæmt að halda fram hagsmunum vísindamanna. Þessi málsmeðferð er því vel fallin til að eyða tortryggni þeirra sem telja að heilbrigðisráðuneytið dragi um of taum tilvonandi rekstrarleyfishafa. Hún er þar að auki einföld og virðist hafa þann kost að brjóta ekki í bága við EES-reglur.
    Hér er um svo mikilvægt atriði að ræða að 1. minni hluti telur rétt að leita eftir hvort unnt sé að ná samstöðu um aðra hvora framangreindra leiða og leggur því ekki fram sérstaka breytingartillögu að svo stöddu.

Viðskiptaleg rök gegn einkarétti.
    Mörg rök, vísindaleg og viðskiptaleg, er hægt að færa gegn því að einkaréttur verði veitt­ur einu fyrirtæki til að fénýta heilsufarsupplýsingar allra landsmanna sem heilbrigðisráð­herra skilgreinir sem „þjóðarauð“. Í nútímavísindum er þróunin hvergi jafnhröð og á sviði erfðagreiningar þar sem ný tækni og gríðarlegar fjárfestingar hafa á síðustu árum stuðlað að ótrúlegum framförum. Engin grein vísindanna er heldur jafnsamofin viðskiptaheiminum og erfðagreiningin. Hörð samkeppni hefur leitt til undraverðra uppfinninga sem nábýli greinar­innar við stórfyrirtæki á sviði lyfjaiðnaðar hefur gert kleift að hagnýta á örskömmum tíma. Fyrir vikið hefur skapast umhverfi þar sem viðskipti og vísindi erfðafræðinnar eru samofin. Drifkraftur hinnar hröðu þróunar í greinni er samkeppni.
    Einokunin sem lögð er til í frumvarpinu er líkleg til að stuðla skamma hríð að þróun í erfðatengdum iðnaði hér á landi, en til langs tíma verður hún fjötur sem leiðir til þess að greinin mun eiga erfitt með að þróast jafnörugglega hér á landi og annars staðar. Í þessu samhengi verður að leggja áherslu á að Ísland er ekki eina landið þar sem öflug fyrirtæki á sviði erfðagreiningar hafa verið stofnuð. Svipuð þróun er að verða í flestum löndum á vestur­hvelinu. Erfðagreiningin er sólrisuiðnaður sem einskorðast ekki við Ísland þótt séríslenskar aðstæður, öflugt frumkvæði stofnenda Íslenskrar erfðagreiningar og sérlega gott innlent og erlent starfslið fyrirtækisins hafi skapað Íslandi tímabundið forskot miðað við mörg önnur lönd.
    Reynslan sýnir að samkeppni stuðlar jafnan að nýjum og snjallari tæknilegum lausnum en raunin er þegar einum aðila er veitt einokun. Samkeppni mundi þ.a.l. stuðla að enn vand­aðri úrlausn þess flókna viðfangsefnis sem miðlægur gagnagrunnur er og til lengri tíma leiða til enn meiri vísindalegs ávinnings og verðmætasköpunar.
    Það orkar jafnframt tvímælis miðað við reynslu á samkeppnismarkaði að erfiðara yrði að markaðssetja afurðir gagnagrunnsins nyti einkaréttar ekki við, eins og væntanlegur rekstrar­leyfishafi heldur fram. Af einkarétti leiðir oftlega að farið er á mis við tækifæri til viðskipta sem einkaréttarhafi hefur annaðhvort ekki áhuga á eða kemur einfaldlega ekki auga á. Það er þekkt regla úr heimi viðskipta að fleiri markaðir vinnast og fleiri viðskiptatækifæri nýtast þegar vara er markaðssett af fleiri fyrirtækjum í beinni eða óbeini innbyrðis samkeppni með tilheyrandi ávinningi fyrir hagkerfið í heild. Þetta voru rökin að baki því að einkaréttur á sviði útflutnings tiltekinna sjávarafurða var afnuminn með augljósum ávinning bæði fyrir sjávarútveginn og íslensku þjóðina í heild. Þannig má halda því fram með vísan til reynslu af samkeppnisviðskiptum að fyrir Íslendinga yrði betra að fleiri en eitt fyrirtæki kepptu um að markaðssetja þá vöru sem hægt er að vinna úr íslenskum heilsufarsupplýsingum. Markað­urinn nýttist betur, fleiri störf mundu skapast og þegar upp er staðið er líklegt að afraksturinn í formi verðmæta sem rynnu inn í þjóðarbúið vegna viðskiptanna yrði meiri.
    Með því að veita einkarétt á rekstri miðlægs gagnagrunns er því verið að valda óbeinum skaða með því að útiloka slíka þróun. Í tengslum við framangreinda röksemdafærslu er tilhlýðilegt að geta þess að 1. minni hluti hafnar algerlega þeim rökum sem tengjast miklum fjárfestingarkostnaði við gerð grunnsins og óvissu um markaðssetningu. Ástæður þess eru raktar í næsta kafla.
    Þó að æskilegt væri að fella einkaréttinn algerlega brott úr frumvarpinu kæmi til álita, í því skyni að ná víðtækara samkomulagi um frumvarpið, að veita einkaréttinn í styttri tíma en 12 ár, t.d. þau fimm ár sem Íslensk erfðagreining kvað á fundum með heilbrigðis- og trygginganefnd að tæki að koma afurðum grunnsins í seljanlegt horf. Að þeim tíma loknum hefði fyrirtækið augljóslega forskot og frumkvæðisréttur stofnanda Íslenskrar erfðagreining­ar, sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir að réttlæti m.a. einkaréttinn, yrði virtur. Að þeim tíma liðnum gætu þá önnur fyrirtæki jafnframt unnið upplýsingar úr grunninum með því að greiða rekstrarleyfishafa eðlilegan hluta stofnkostnaðar.

Einkaréttur þverbrýtur EES-reglur.
    Hér á eftir eru reifuð rök fyrir því að veiting einkaréttar brýtur ótvírætt gegn skuldbind­ingum Íslendinga gagnvart EES-reglum. Það eitt ætti að nægja til að hafna einkarétti að rekstri miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði.
    Efnislega segir í 1. mgr. 59. gr. EES-samningsins að þegar um sé að ræða fyrirtæki sem ríki hafi veitt sérstök réttindi eða einkarétt skuli aðildarríki gæta þess að ekki séu í gildi regl­ur sem fari gegn ákvæðum samningsins. Í frumvarpinu er að sönnu hvergi fjallað um einka­rétt og ekki heldur staðhæft að einungis eitt fyrirtæki muni fá rekstrarleyfi til að starfrækja gagnagrunn á heilbrigðissviði. Í greinargerð með frumvarpinu kemur eigi að síður fram að af hálfu ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að veita einu fyrirtæki einkarétt. Forsætisráðherra hefur staðfest þetta opinberlega fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og gengið enn lengra með því að lýsa yfir fyrir hennar hönd að einkarétturinn muni falla í skaut Íslenskri erfðagreiningu. Sá einkaréttur jafngildir einokun að mati Samkeppnisstofnunar. Í vönduðu áliti hennar segir: „einkaréttarhafa verður í raun veitt einokun til að stunda rannsóknir í ágóða- eða atvinnu­skyni sem byggjast á upplýsingum úr gagnagrunninum.“
    Lagastofnun lýsir í áliti sínu nauðsyn þess að óhjákvæmilegt sé að skilgreina nauðsyn einkaréttarins: „Sönnunarbyrðin fyrir því að einkaréttur sé nauðsynlegur og óheft samkeppni muni koma í veg fyrir að fyrirtæki fái þjónað hlutverki sínu hvílir á einkarétthafanum og eftir atvikum því ríki sem veitir einkaréttinn. Sýna verður fram á að takmörkun sú sem felst í einkaréttinum eða eftir atvikum takmörkun á gildissviði samkeppnisreglna sé nauðsynleg til þess að fyrirtæki fái gegnt hlutverki sínu.“
    Rökin fyrir nauðsyn einkaréttar hafa þó hvergi verið skilgreind ítarlega. Þannig bendir Lagastofnun á að „rökin fyrir einkarétti í sjálfu frumvarpinu koma ekki skýrt fram“. Í fram­söguræðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra með frumvarpinu, grein Kristleifs Krist­jánssonar, forstöðumanns samvinnusviðs Íslenskrar erfðagreiningar ehf., og Hannesar Smárasonar, framkvæmdastjóra fjármála- og þróunarsviðs fyrirtækisins, í Lyfjatíðindum og ræðu sem Kári Stefánsson forstjóri flutti á kynningarfundi með læknum í september sl. komu þó fram röksemdir sem hníga að nauðsyn þess að einkaréttur verði veittur til að nýta heilsu­farsupplýsingar í miðlægum gagnagrunni.
    Efnislega eru rökin þessi: Stofnkostnaður við gerð gagnagrunnsins er hár og líklegur til að verða umtalsvert hærri fyrir þann sem fer fyrstur af stað með slíkan grunn. Mikil óvissa ríkir jafnframt um hagnýtingarmöguleika, gagnagrunnur af þessu tagi hafi aldrei áður verið markaðssettur og yrði einkaréttur ekki veittur gæti það leitt til samkeppni sem ylli því að heildarverðmæti sem rynnu inn í landið vegna viðskipta með upplýsingar úr grunninum yrðu minni en ella. Engin önnur rök hafa verið sett fram af talsmönnum ríkisstjórnarinnar til stuðnings einkaréttinum.
    Það er því athyglisvert að þessum rökum er hafnað bæði af Samkeppnisstofnun og Laga­stofnun Háskóla Íslands. Samkeppnisstofnun segir skýrt að það sé vafasamt að rök um mik­inn stofnkostnað réttlæti einkarétt. Hún bendir á að slík rök mætti þá nota í mörgum tilvikum til að komast hjá eftirliti á grundvelli samkeppnisreglna EES-samningsins og bendir sérstak­lega á stóriðju sem dæmi um fyrirtæki þar sem stofnkostnaður er gríðarlega hár og mikil óvissa ríkir oft um markaðssetningu.
    Í áliti Lagastofnunar er að finna nákvæmlega sama viðhorf. Hún rekur að einkarétturinn sé rökstuddur í frumvarpinu m.a. með tilvísun til þess að hann kosti allt að 19,3 milljarða króna og áhætta þess sem ræðst í smíði hans sé því veruleg. Þessum rökum frumvarpsins er hins vegar hafnað í áliti Lagastofnunar. Hún segir hreint út að frá sjónarhóli EES-réttar geti þau tæpast réttlætt einkarétt, „enda eru það þá rök sem eiga alltaf við þegar fjárfesting er mikil, óháð því hvers konar atvinnustarfsemi á í hlut“.
    Þar með liggur fyrir að einu rökunum fyrir einkaréttinum sem komið hafa fram af hálfu meiri hlutans í umfjöllun heilbrigðis- og trygginganefndar er hafnað bæði af Lagastofnun Háskóla Íslands og Samkeppnisstofnun.
    Lagastofnun treystir sér ekki einu sinni til að fullyrða að einkarétturinn standist EES-regl­ur. Höfundar álits stofnunarinnar telja upp fjölmörg atriði og segja að með tilliti til þeirra allra sé það skoðun þeirra að einkarétturinn „geti samrýmst“ þeim. Þeir fullyrða hins vegar að með því að samþykkja heimild til einkaréttar taki löggjafinn áhættu gagnvart EES-réttin­um. Sú afstaða birtist með skýrum hætti í eftirfarandi yfirlýsingu undir lok umfjöllunar stofn­unarinnar um einkaréttinn: „Með því að fela einum aðila einkarétt til gerðar og starfrækslu miðlægs gagnagrunns er því tekin nokkur áhætta.“ Í umfjöllun um einkaréttinn klykkir Laga­stofnun svo út með því að ítreka að einkarétturinn nái þó aðeins til þess hluta af starfsemi einkaréttarhafans sem fullnægi undanþáguskilyrðum 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins.
    Þetta ákvæði EES-samningsins er því lykilgrein varðandi mat á því hvort hægt er að fella starfrækslu gagnagrunns undir leyfilegar undanþágur samningsins. Umrætt ákvæði felur í sér a.m.k. þrenns konar skilyrði sem fyrirtæki verður að uppfylla til að hægt sé að víkja frá regl­um 1. mgr. 59. gr. Hið mikilvægasta, sem einkum er fjallað um í álitum Lagastofnunar og Samkeppnisstofnunar, varðar það hvort einkaréttur sé óhjákvæmilegur til að fyrirtæki geti veitt þjónustu sem hafi „almenna efnahagslega þýðingu“. Þannig segir Lagastofnun að „veit­ing einkaréttar sé því aðeins lögmæt að EB-rétti að slíkur einkaréttur sé nauðsynlegur til þess að fyrirtækið geti veitt þjónustu sem hafi almenna efnahagslega þýðingu“.
    Við þetta er þrennt að athuga:
     1.      Í öllum öðrum málum sem tengjast einkarétti og EB-dómstóllinn hefur fjallað um er um að ræða fyrirtæki sem láta borgurunum sjálfum í té beina þjónustu. Sú „þjónusta“ gagnagrunnsins sem Lagastofnun færir sem rök fyrir skoðun sinni er hins vegar ekki innt af hendi beint gagnvart borgurunum heldur ríkinu. Þetta viðurkennir stofnunin sjálf í áliti sínu.
     2.      Allsendis óvíst er hversu mikið gildi upplýsingar úr grunninum hafa fyrir heilbrigðisyfirvöld. Ástæða þess er tvíþætt: Í fyrsta lagi benda skoðanakannanir til að meira en þriðjungur landsmanna hyggist nýta synjunarheimild 8. gr. frumvarpsins til að koma í veg fyrir að upplýsingar um hann verði fluttar í grunninn. Í öðru lagi hafa einstök sam­tök sjúklinga lýst yfir opinberlega að þau hyggist hvetja félaga sína til að beita synjun­arheimilidinni þannig að líklegt er að hlutfall þeirra sem ekki verða þátttakendur í gagnagrunninum kunni að hækka umtalsvert. Þessi tvö atriði valda því að nytsemd grunnsins fyrir heilbrigðisyfirvöld verður snöggtum minni en látið er í veðri vaka og mun þar að auki alls ekki koma í ljós fyrr en töluverður tími er liðinn frá afgreiðslu frumvarpsins á Alþingi. Lagastofnun hefur því enga raunhæfa forsendu fyrir framan­greindri fullyrðingu sinni.
     3.      Uppsetning upplýsingakerfa fyrir staðbundna dreifða gagnagrunna á heilbrigðisstofnunum sem veita upplýsingar í gagnagrunninn er forsenda þess að rekstrarleyfishafinn geti safnað upplýsingum. Án þeirra gæti hann ekki smíðað miðlægan grunn. Meðal annars af þeim sökum er hæpið að telja að þau hafi svo sterka „almenna efnahagslega þýðingu“ að réttlæti frávik frá samkeppnisreglum EES. Álit Lagastofnunar um þetta atriði styðst því við afar veik rök enda hafnar Samkeppnisstofnun þeim algerlega. Hún fjallar um sama atriði í ítarlegu máli og kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að fullyrða að starfsemi gagnagrunns hafi „almenna efnahagslega þýðingu“ og á því leiki „verulegur vafi“. Meginniðurstaða Samkeppnisstofnunar er því að stofnunin telur „ólíklegt að veit­ing einkaréttar til gerðar og starfrækslu miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði falli undir undanþágu 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins“. Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á að Samkeppnisstofnun bendir m.a. á leiðbeiningarreglur um það hvenær fyrir­tæki veiti þjónustu sem hafi almenna efnahagslega þýðingu. Ein forsendan sem gefin er í reglunum er að eðli slíkrar þjónustu feli í sér að væri hún ekki veitt af viðkomandi fyrirtæki „þá mundi hið opinbera trúlega sjálft veita hana þar sem þjónusta væri nauð­synleg til að mæta mikilvægum þörfum almennings“. Þetta er sérlega athyglisverð ábending í ljósi forsögunnar. Þótt Samkeppnisstofnun bendi ekki á það liggur eigi að síður fyrir að áður en forvígismenn Íslenskrar erfðagreiningar komu með hugmynd sína um miðlægan gagnagrunn til ríkisstjórnarinnar hafði heilbrigðisráðuneytið gefið út vandaða stefnu í upplýsingamálum heilbrigðisþjónustunnar. Þar kom beinlínis fram að ráðuneytið hafði tekið ákvörðun um að ráðast ekki í gerð miðlægs gagnagrunns heldur einbeita sér að þróun dreifðra, staðbundinna gagnagrunna. Þar með liggur fyrir skrifleg yfirlýsing hins opinbera um að það mundi ekki ráðast í gerð miðlægs gagnagrunns þó að slíkur grunnur yrði ekki smíðaður af einkafyrirtæki. Þetta fellir því mikilvæga stoð undan því að hægt sé að líta svo á að gagnagrunnurinn hafi „almenna efnahagslega þýð­ingu“ og megi því undanþiggja samkeppnisreglum EES.
    Helstu niðurstöður Samkeppnisstofnunar um einkaréttarþátt frumvarpsins eru eftirfarandi:
     1.      Veiting einkaréttar til gerðar og starfrækslu miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði er ekki í samræmi við þá þróun sem á sér stað innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     2.      Veiting slíks einkaréttar mun skapa markaðsráðandi stöðu á verulegum hluta Evrópska efnahagssvæðisins.
     3.      Líklegt er að sú staða verði misnotuð og misnotkunin hafi áhrif á viðskipti milli aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins.
     4.      Ólíklegt er að veiting einkaréttarins falli undir undanþágu 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins.
     5.      Samkeppnisstofnun lítur því svo á að veiting einkaréttarins muni fara gegn 1. mgr. 59. gr. EES-samningsins.
     6.      Að auki er það álit stofnunarinnar að veiting einkaréttarins stríði gegn markmiði samkeppnislaga.
    Samkeppnisstofnun færir því sterk rök fyrir því að frumvarpið brjóti gegn ákvæðum EES-reglna og Lagastofnun segir auk þess að veitingu einkaréttar fylgi nokkur áhætta.

Rök fyrir útboði.
    Fyrsti minni hluti telur jafnframt að óhjákvæmilegt sé að bjóða út gerð gagnagrunnsins. Ástæður þess eru eftirfarandi:
    Þegar einkarétti sleppir mun upphaflegur rekstrarleyfishafi verða að afhenda ríkinu afrit af gagnagrunninum og öllum hugbúnaði sem þarf til að reka hann og bæta við nýjum upplýs­ingum og auk þess afsala sér öllum réttindum sem hann hefur áunnið sér, þar á meðal höf­undarrétti og réttindum samkvæmt tilskipun um lögverndun gagnagrunna. Hann getur hvorki selt gagnagrunninn, framselt notkun hans til þriðja aðila né haldið sjálfkrafa áfram að nýta hann með því að bæta við nýjum upplýsingum.
    Í reynd þýðir þetta að ríkið er á tólf ára tímabili að kaupa af rekstrarleyfishafa ótíma­bundinn ráðstöfunarrétt að miðlægum gagnagrunni með öllum gögnum og gæðum. Að þeim tíma loknum getur ríkið selt nýju fyrirtæki rekstrarleyfi gegn gjaldi, opnað grunninn fyrir vís­indamönnum með því að stofna sjálfseignarstofnun um reksturinn, afhent hann Háskóla Ís­lands eða rekið grunninn á eigin vegum. Hér er því um mikla eign að ræða sem ríkið fær til umráða. Þótt hún hafi ekki verið metin til fjár er verðmæti eignarinnar tæpast minna en þeir tæplega 20 milljarðar króna sem gerð gagnagrunnsins kostar. Auk þess fær ríkið upplýsinga­kerfi á allar heilbrigðisstofnanir landsins sem miðla upplýsingum í grunninn og einnig full afnot af grunninum til að gera hvers kyns heilbrigðisskýrslur.
    Greiðsla ríkisins fyrir framangreind verðmæti er tólf ára einkaréttur rekstrarleyfishafans til að nýta heilsufarsupplýsingar úr sjúkraskrám landsmanna. Augljóslega er því ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að ríkið er í reynd að kaupa tiltekna þjónustu af rekstrar­leyfishafanum.
    Samkvæmt reglum EES ber íslenska ríkinu skylda til að bjóða út þjónustu sem þessa, þ.e. gerð miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði. Fari verðmæti viðskiptanna yfir 16,3 millj. kr. ber því jafnframt skylda til að auglýsa útboðið á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að svo verði ekki gert. Hér er því bersýnilega um enn eitt brotið á reglum EES að ræða.

Ólögmæt ríkisaðstoð.
    Það samrýmist ekki EES-samningnum (61.–64. gr.) að skekkja samkeppnisstöðu fyrir­tækja í viðskiptum milli ríkja með því að veita þeim ríkisaðstoð. Þótt hugtakið „ríkisaðstoð“ sé ekki skýrt afmarkað í EES-réttinum telur m.a. Lagastofnun að ríkisaðstoð verði að meta með sama hætti og önnur frávik frá samkeppnisreglunum. Samkvæmt því verður ekki dregin önnur ályktun en að ríkisaðstoð sé því aðeins lögleg samkvæmt EES-samningnum að hún sé nauðsynleg til að viðkomandi geti veitt þá þjónustu sem hann á að veita og lýst var m.a. í síð­asta kafla. Þar voru færð rök fyrir því að verðmætin sem ríkið lætur rekstrarleyfishafanum í té jafngildi allt að tæplega 20 milljörðum króna. Fallist ríkisstjórnin ekki á þau rök að rétt­urinn til að nýta heilsufarsupplýsingar feli í sér endurgjald fyrir tiltekna þjónustu er augljóst að hið opinbera lítur svo á að það sé að afhenda upplýsingarnar endurgjaldslaust. Í því felst viðurkenning á því að verið sé að styrkja rekstrarleyfishafann með verðmæti sem nemur fé­mæti upplýsinganna, þ.e. nálægt 20 milljörðum króna.
    Engin rök hafa komið fram sem benda til að ríkisaðstoð af þessu tagi sé nauðsynleg til að rekstrarleyfishafinn geti veitt þá þjónustu sem honum ber samkvæmt frumvarpinu og rakin er í kaflanum um útboð. Hún er því ólögmæt samkvæmt EES-samningnum.

Niðurstaða.
    Í ljósi þeirra staðreynda og viðhorfa sem hér hafa verið rakin geta þeir sem standa að þessu áliti ekki stutt samþykkt frumvarpsins um gagnagrunn á heilbrigðissviði í núverandi formi.

              

Alþingi, 27. nóv. 1998.



Össur Skarphéðinsson,


form., frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir.