Ferill 336. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 423  —  336. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 23/1989, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)


1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Réttar til námsstyrkja samkvæmt lögum þessum njóta íslenskir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsnám hér á landi sem ekki er á háskólastigi eða gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi og verða að vista sig utan lögheimil­is og fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins. Skilyrði styrkveitingar er að ekki sé unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað sem námsstyrkjanefnd metur jafngildan. Eigi skulu þeir njóta styrks samkvæmt lögum þessum er nýta rétt til láns úr Lána­sjóði íslenskra námsmanna eða njóta hliðstæðrar fyrirgreiðslu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í núgildandi lögum um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði sem sett voru árið 1989 er kveðið á um að þeir sem eiga rétt á láni úr Lánasjóði íslenskra námsmanna skuli ekki njóta styrks. Á undanförnum árum hefur þróunin orðið sú að úthlutunarreglur Lánasjóðsins hafa verið rýmkaðar á ýmsan hátt, m.a. hafa aldursmörk tengd sérnámi til starfsréttinda verið af­numin úr úthlutunarreglum sjóðsins, þannig að fleiri nemendur í framhaldsskólum eiga rétt til lána en áður var. Sá hópur sem ekki nýtur styrks samkvæmt lögum um jöfnun á náms­kostnaði hefur því stækkað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis.
    Óeðlilegt þykir að réttur til láns úr Lánasjóði íslenskra námsmanna girði fyrir að nemend­ur á framhaldsskólastigi geti átt kost á þeim námsstyrkjum sem veittir eru til þess að jafna kostnað við nám sem óhjákvæmilegt er að stunda fjarri lögheimili og fjölskyldu. Tilgangur frumvarps þessa er að bæta stöðu nemenda í framhaldsskólum að þessu leyti.
    Í ljós hefur komið að allmargir nemendur kjósa að nota ekki lánsréttinn hjá Lánasjóði ís­lenskra námsmanna og ekki þykir rétt að synja þeim um styrk af þeirri ástæðu. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að nemendur geti valið milli námsaðstoðar Lánasjóðsins og styrks til jöfn­unar á námskostnaði.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 23/1989,
um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði.

    Frumvarpið felur í sér að framhaldsskólanemendur sem stunda sérnám til starfsréttinda fjarri lögheimili og fjölskyldu geti valið milli styrks til jöfnunar á námskostnaði og námsað­stoðar Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
    Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að veita árlega jöfnunarstyrk til um 360 nem­enda í starfsréttindanámi til viðbótar við þá sem til þessa hafa fengið styrk eða nýtt rétt sinn til að taka lán hjá Lánasjóðnum. Miðað við óbreytta meðalfjárhæð er áætlað að styrkur til þessa nýja hóps nemi samtals um 24 m.kr.