Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 425  —  151. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Guðjónsdóttur og Tómas N. Möller frá fjármálaráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands og Verslunarráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að almenn heimild fjármálaráðherra til að ákvarða hvort ríkis­sjóður greiði stimpilgjald verði felld brott en í stað þess verði taldar tæmandi upp allar heim­ildir til undanþágu frá greiðslu stimpilgjalds.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að í 7. tölul. 1. efnismgr. 1. gr. verði skýrt kveðið á um að ákvæðið taki einnig til umskráningar. Nefndin fékk ábendingu um að algengt væri að eigendaskipti verði á flugvélum sem erlendir aðilar leigja til Íslands á leigutímanum og til að gæta jafnræðis leigutaka taldi nefndin rétt að leggja til þessa breytingu.
     2.      Lagt er til að skilyrðið um þinglýsingu innan sex mánaða frá skráningu verði fellt brott bæði úr 8. og 9. tölul. 1. efnismgr. 1. gr. Sú aðstaða getur komið upp að kaup séu endur­fjármögnuð með nýjum lánum eða áhvílandi lánum skuldbreytt eftir að sex mánaða fresturinn er liðinn og yrðu slík skjöl stimpilskyld ef þessi takmörkun gilti. Taka ber fram að skjölin verða að bera það með sér að um fjárfestingarlán sé að ræða en ekki rekstrarlán til að stimpilfrelsi haldist. Þinglýsingarstjóri skal ganga úr skugga um að því skilyrði sé fullnægt. Jafnframt er lagt til að orðalag 8. tölul. verði einfaldað og einnig felld undir hann skip sem eru í verkefnabundnum siglingum.
     3.      Þá er lagt til að samningar um kaup á greiðslumarki verði einnig stimpilfrjálsir. Um er að ræða samninga sem landbúnaðarráðuneyti gerir við bændur og er eðlilegt að sama regla gildi um þá og samninga sem nefndir eru í 10. tölul. 1. efnismgr. 1. gr. frumvarps­ins.
    Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk þessu áliti.
                                  

Alþingi, 26. nóv. 1998.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Ágúst Einarsson.


Einar Oddur Kristjánsson.


Svavar Gestsson.


Valgerður Sverrisdóttir.


Sólveig Pétursdóttir.



Steingrímur J. Sigfússon.


Gunnlaugur M. Sigmundsson.


Pétur H. Blöndal.