Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 438  —  1. mál.
Nefndarálitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.    Störf nefndarinnar við afgreiðslu frumvarpsins hafa verið með hefðbundnum hætti. Nefnd­in hóf störf 21. september sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.
    Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með bréfi, dags. 8. október sl., óskaði nefndin eftir álitum fastanefnda þingsins um frumvarp til fjárlaga, þ.e. þá þætti er varða málefnasvið einstakra nefnda. Nefndirnar hafa skilað áliti og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu eins og fyrir er mælt í þingsköpum.
    Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 36 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila.
    Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, svo sem skiptingu fjárfestingarliða, að hafnalið undanskildum. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umræðu nema samtals 1.749,7 m.kr. til hækkunar á sundurliðun 2.
    Meiri hluti nefndarinnar vill þakka fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Þá hefur nefndin notið aðstoðar fjármálaráðuneytisins og einstök ráðuneyti hafa veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.
    Eins og venja er bíða 3. umræðu afgreiðsla á tekjuhlið frumvarpsins, B-hluti og heimildir skv. 7. gr. Auk þess bíða ýmis viðfangsefni 3. umræðu, smærri og stærri, sem nefndin hefur enn til umfjöllunar.
    Hér á eftir fylgja skýringar á breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins

201     Alþingi. Gerð er tillaga um 18 m.kr. hækkun á framlagi til stofnkostnaðar á Alþingi til átaks í upplýsingamálum, skrifstofubúnaðar og öryggiskerfis.
620     Ríkisendurskoðun. Gerð er tillaga um 7,3 m.kr. hækkun á framlagi til Ríkisendurskoðunar í aukin verkefni.

01 Forsætisráðuneyti

101     Forsætisráðuneyti, aðalskrifstofa. Lagt er til að rekstur óbyggðanefndar verði á sérstökum fjárlagalið og að 5,5 m.kr. af 8,8 m.kr. fjárveitingu á viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn verði flutt á fjárlagalið 261 Óbyggðanefnd. Þær 3,3 m.kr. sem eftir standa eru ætlaðar til að mæta kostnaði aðalskrifstofu ráðuneytisins vegna samþykktar laga nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.
190     Ýmis verkefni. Alls er lagt til að veitt verði 13,9 m.kr. fjárveiting á þessum lið. Í fyrsta lagi verði veittur 8,8 m.kr. tímabundinn styrkur til að kosta verkefnisstjóra sem hafi um­sjón með framkvæmd hátíðahalda á 1000 ára afmæli landafunda í Norður-Ameríku. Á næstu tveimur árum áforma stjórnvöld að efla tengsl við Íslendingabyggðir í Kanada. Áhugi fólks þar af íslenskum ættum á þeim tengslum og íslenskri menningu hefur aukist verulega og fyrirhugað er að efna til umfangsmikilla hátíðahalda árið 2000 til að minnast 1000 ára afmælis landafunda í Norður-Ameríku. Til að sjá um þessi mál er lagt til að ráðinn verði verkefnisstjóri og er honum ætlað að efla menningartengsl Íslands og Kanadamanna af íslenskum uppruna. Þá vinni hann einnig að mögulegum viðskipta­tengslum og er honum ætlað að styðja við framtak Vestur-Íslendinga sem vinna að því að samræma viðburði á vegum Íslendingafélaga um öll fylki Kanada.
             Í öðru lagi er lagt til að veitt verði 4,5 m.kr. tímabundið framlag til að standa undir hluta af kostnaði við að koma upp aðstöðu á Gimli í Kanada undir varanlega sögusýn­ingu um landnámið sem leiddi til stofnunar Nýja-Íslands á Gimli. Félag Vestur-Íslend­inga í Manitoba hefur ákveðið að reisa nýbyggingu undir sýninguna þar sem Þjóðrækni­félagið, Lögberg-Heimskringla og ýmis önnur félags- og upplýsingastarfsemi fengi inni. Áætlað er að það sem lýtur að sýningunni kosti samtals 270.000 Kanadadali. Framlagið er fært á óskiptan lið fjárlagaliðarins
             Loks er lagt er til að framlag til viðfangsefnisins 1.40 Gjöf Jóns Sigurðssonar hækki um 0,6 m.kr. Samkvæmt þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 29. apríl 1974 skal árlega renna til sjóðsins fjárhæð er nemi ekki lægri fjárhæð en byrjunarlaunum prófessors við Háskóla Íslands. Þau laun nema nú 2,5 m.kr. og er hækkunin til samræmis við það. Sjóðnum er ætlað að veita verðlaun fyrir vísindaleg rit og styrkja útgáfu slíkra rita. Einnig er heimilt að veita viðurkenningu höfundum sem eru með vísindarit í smíðum. Öll skulu þessi rit lúta að sögu Íslands, íslenskum bókmenntum, lögum, stjórn eða framförum.
211     Þjóðhagsstofnun. Lagt er til að framlag til Þjóðhagsstofnunar hækki um 4,5 m.kr. og að framlag til aðalskrifstofu umhverfisráðuneytis lækki samsvarandi. Við undirbúning frumvarps til fjárlaga var framlag til aðalskrifstofu umhverfisráðuneytis hækkað um 4,5 m.kr. vegna kostnaðar við reiknilíkan sem notað verður til að meta áhrif rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar á efnahagsþróun og langtímahagsmuni Ís­lands. Reiknilíkanið er unnið á vegum Þjóðhagsstofnunar og því talið réttara að vista fjárveitinguna þar. Heildarkostnaður er áætlaður 9 m.kr. og er gerð tillaga um samsvar­andi millifærslu við 2. umræðu frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 1998.
261     Óbyggðanefnd. Lagt er til að framlag til óbyggðanefndar samkvæmt lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, hækki um 14,4 m.kr. frá fjárlagafrumvarpi og verði samtals 19,9 m.kr. sem færðar verði á sérstakan fjár­lagalið. Framlag að fjárhæð 5,5 m.kr. er millifært af aðalskrifstofu forsætisráðuneytisins en þar er að auki gert ráð fyrir 3,3 m.kr. kostnaði við framkvæmd laganna. Hlutverk óbyggðanefndar er í fyrsta lagi að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, í öðru lagi að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýtt er sem afréttur og að lokum að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Nefndinni er ætlað að eiga frumkvæði að málum sem undir hana heyra og tilkynna fyrir fram hvaða landsvæði hún tekur til meðferðar hverju sinni. Stefnt er að því að nefndin ljúki verkinu fyrir árið 2007.

02 Menntamálaráðuneyti

201     Háskóli Íslands. Gerð er tillaga um að hækka framlög til kennslu- og vísindadeilda um 40 m.kr., m.a. vegna fjölgunar nemenda. Unnið er að gerð reiknilíkans fyrir rekstur há­skólans og má ætla að það leiði til hækkunar útgjalda. Þá er lagt til að Háskóla Íslands verði veittar 14 m.kr. til að koma til móts við óskir stúdenta um bætta lesaðstöðu og fær­ist fjárhæðin á viðfangsefni 1.03 Rekstur fasteigna. Með fjárveitingunni er Háskólanum gert kleift að semja við Landsbókasafn – Háskólabókasafn um þessa þjónustu eða leita annarra leiða.
202     Tilraunastöð Háskólans að Keldum. Óskað er eftir 0,9 m.kr. til að greiða launakostnað dýralæknis sem jafnframt er sérfræðingur í veirufræði við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Framlagið er ætlað til að standa undir kostnaði við tímabundin verkefni.
211     Tækniskóli Íslands. Lagt er til að framlag til skólans verði hækkað um 10 m.kr. til kennslu og aukins rekstrarkostnaðar.
215     Kennaraháskóli Íslands. Lagt er til að veittar verði 20 m.kr. til kennslu til að koma til móts við aukinn kostnað þar sem nemendum í fjarnámi hefur fjölgað mikið. Nú er tæp­lega þriðjungur stúdenta við skólann í fjarnámi og eftirspurn margfalt meiri en hægt er að anna. Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands hafa nýlega undirritað samning um fjarkennslu.
225     Samvinnuháskólinn. Lagt er til að framlag til Samvinnuháskólans á Bifröst hækki um 3 m.kr. vegna fjölgunar nemenda við skólann. Skólinn hyggst bjóða fjarnám fyrir rekstrar­hagfræðinga um næstu áramót og fjölgar nemendum einnig við það.
269     Háskóla- og vísindastofnanir, viðhald og stofnkostnaður. Lagt er til að liðurinn hækki um 15 m.kr. Sundurliðun liðarins er sýnd í sérstöku yfirliti IV.
299     Háskóla- og rannsóknastarfsemi. Lögð er til 27,8 m.kr. hækkun á þessum lið og er breytingin fjórþætt. Í fyrsta lagi hafa Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands og Kennara­háskóli Íslands gert samstarfssamning um fjarkennslu. Í samræmi við hann hyggjast þeir vinna saman að uppbyggingu fjarkennslu og að því að auka aðgengi fólks um allt land að háskólamenntun. Lagt er til að skólarnir fái sameiginlega fjárveitingu að upphæð 12 m.kr. til þessa verkefnis árið 1999 og færist hún á nýtt viðfangsefni, 1.21 Fjarkennsla á háskólastigi.
             
Þá er farið fram á að veittar verði 7 m.kr. sem stofnframlag til símenntunarstöðvar á Vesturlandi. Stofnframlagið á fyrst og fremst að nýta til að byggja upp þjónustunet til Dalabyggðar og sveitarfélaga á norðanverðu Snæfellsnesi.
             Í þriðja lagi er gerð tillaga um 7 m.kr. framlag til þróunarseturs á Vestfjörðum sem var­ið verði til fjarkennslu og verði framlagið fært á nýtt viðfangsefni, 1.23 Þróunarsetur Vestfjarða. Í þróunarsetri sameinast þær stofnanir sem nú þegar starfa á þessu sviði á Vestfjörðum, flestar staðsettar á Ísafirði, undir einu þaki. Starf í setrinu mun tengjast starfsemi Framhaldsskóla Vestfjarða og nýjum möguleikum í háskóla- og endurmenntun á svæðinu.
             Loks er lagt til að fjárveiting til Norrænu eldfjallastöðvarinnar hækki um 1,8 m.kr. en leigukostnaður stöðvarinnar hefur hækkað.
318     Framhaldsskólar, stofnkostnaður. Lögð er til 8 m.kr. hækkun á viðfangsefni 6.90 Byggingaframkvæmdir, óskipt. Sundurliðun er sýnd í sérstöku yfirliti IV.
319     Framhaldsskólar, almennt. Farið er fram á að fjárveiting liðarins verði aukin um 134,9 m.kr. Í fyrsta lagi er óskað eftir 113,9 m.kr. hækkun á framlögum til viðfangsefnisins 1.90 Framhaldsskólar, óskipt. Af þeirri fjárhæð fara 104,4 m.kr. til launa í framhalds­skólum. Komið hefur í ljós að við skiptingu í reiknilíkani menntamálaráðuneytis á fjár­veitingum til framhaldsskóla í fjárlögum fyrir árið 1998 var stuðst við forsendur sem leiddu til þess að meðallaun kennara voru áætluð 3,5% of lág. Sundurliðun fjárhæðar er sýnd í sérstöku yfirliti I. Hins vegar er gert ráð fyrir að 9,5 m.kr. fari til hækkunar vegna kostnaðar samkvæmt kjarasamningum við próf í skólunum sem vanmetinn hefur verið að mati menntamálaráðuneytisins um sem svarar 2,3% af heildarlaunakostnaði og deild­arstjórn um 1,3% eða samtals 129,5 m.kr. Í frumvörpum til fjáraukalaga fyrir árið 1998 og fjárlaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir 120 m.kr. til þess að mæta þessum vanda, en eftir standa 9,5 m.kr. sem hér er gerð tillaga um.
             Í öðru lagi er lagt til að veitt verði 7 m.kr. framlag til uppbyggingar búnaðar og fjar­kennsluverkefnis á Norðurlandi vestra og er framlagið fært á nýtt viðfangsefni, 1.51 Fjarkennsluverkefni á Norðurlandi vestra.
             Í þriðja lagi er gerð tillaga um 7 m.kr. framlag á nýtt viðfangsefni, 1.53 Fjarkennslu­verkefni á Suðurlandi, til að undirbúa og koma á fót kennslu á háskólastigi á Suðurlandi í samvinnu við háskólastofnanir.
             Þá er í fjórða lagi óskað eftir 5 m.kr. hækkun á fjárveitingum til Myndlistaskólans í Reykjavík, annars vegar 2 m.kr. til rekstrar og hins vegar 3 m.kr. til að standsetja nýtt húsnæði skólans. Síðari fjárhæðin er tímabundin og fellur niður á árinu 2000.
             Að lokum er lagt til að framlag til Myndlistaskólans á Akureyri hækki um 2 m.kr. Um­svif skólans hafa aukist og ný verkefni bæst við á síðustu árum og er talið nauðsynlegt að bæta við starfsfólki. Þá á skólinn 25 ára afmæli næsta ár og er fyrirhugað að minnast þess með sýningarhaldi og útgáfu á afmælisriti.
353     Fjölbrautaskóli Suðurnesja. Lögð er til 7 m.kr. fjárveiting til miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum.
561     Myndlista- og handíðaskóli Íslands. Gerð er tillaga um 4,4 m.kr. hækkun á framlagi til Myndlista- og handíðaskóla Íslands til þriggja verkefna, þ.e. afmælis Myndlista- og handíðaskólans, 1,3 m.kr., uppbyggingar hönnunarnáms, 1,1 m.kr., og evrópsks MA-náms í grafík, 2 m.kr. Framlag til afmælisins og hönnunarnáms er tímabundið og fellur niður á árinu 2000.
884     Jöfnun á námskostnaði. Óskað er eftir 25 m.kr. hækkun á framlagi til jöfnunar námskostnaðar vegna fyrirhugaðrar lagabreytingar sem felur í sér rýmkun á reglum og mun leiða til fjölgunar styrkþega.
902     Þjóðminjasafn Íslands. Gerð er tillaga um að framlag til Þjóðminjasafns Íslands hækki um 14 m.kr. og renni til fornleifarannsókna sem þegar eru hafnar að Stóru-Borg, Neðra-Ási, í Reykholti og á Eiríksstöðum. Jafnframt er lagt til að framlag til byggða- og minja­safna hækki um 5 m.kr. Viðurkennd söfn fá styrk úr ríkissjóði til starfsemi sinnar sam­kvæmt þjóðminjalögum. Kostnaður af styrkhæfum umsóknum og brýnustu verkefna­styrkjum er talinn nema um 25 m.kr.
905     Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Gerð er tillaga um 10 m.kr. hækkun á framlagi til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns vegna aukins launakostnaðar.
919     Söfn, ýmis framlög. Farið er fram á 2 m.kr. hækkun á framlagi til Nýlistasafnsins til eflingar starfsemi safnsins. Einnig er gerð tillaga um að óskipt viðfangsefni fjárlagaliðarins, 1.90 Söfn, lækki um 1,3 m.kr.
969     Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður. Lögð er til 18 m.kr. hækkun á viðfangsefni 6.21 Endurbótasjóður menningarstofnana. Sundurliðun er sýnd í sérstöku yfirliti IV.
971     Ríkisútvarpið. Lagt er til að framlag til viðfangsefnis 1.10 Ríkisútvarpið, afnotagjöld hækki um 80 m.kr. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að heimila 5% hækkun afnotagjalda Ríkisútvarpsins frá 1. desember 1998. Áætlað er að hækkunin skili 80 m.kr. auknum tekjum í ríkissjóð á árinu 1999 í samræmi við lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og að framlag í A-hluta fjárlaga til stofnunarinnar hækki um sömu fjárhæð.
974     Sinfóníuhljómsveit Íslands. Óskað er eftir 2,2 m.kr. hækkun vegna kostnaðar við kjarasamninga sem hljómsveitinni hefur ekki verið bættur. Að auki er lagt til að framlag til Sinfóníuhljómsveitar Íslands hækki um 3 m.kr., m.a. vegna hækkunar á leigukostnaði og til kaupa á búnaði.
979     Húsafriðunarsjóður. Lagt er til að framlag til sjóðsins hækki um 10 m.kr. vegna aukinna verkefna.
982     Listir, framlög. Gerð er tillaga um að liðurinn hækki alls um 6 m.kr. og er skýringa að rekja til fjögurra þátta. Í fyrsta lagi er lögð til 5,6 m.kr. lækkun á framlagi á viðfangsefni 1.90 Listir. Hana má rekja til þess að 7,6 m.kr. fjárveiting til Íslenskrar tónverkamið­stöðvar sem hefur fengið úthlutun af þessu viðfangsefni hefur verið flutt á nýtt viðfangs­efni henni merkt, 1.29 Íslensk tónverkamiðstöð. Óskipt fjárhæð er jafnframt hækkuð um 2 m.kr.
             Í öðru lagi er farið fram á að framlag til Íslenskrar tónverkamiðstöðvar verði 4 m.kr. og færist á nýtt viðfangsefni, Íslensk tónverkamiðstöð. Áður hefur hún fengið fjárveit­ingar af viðfangsefni 1.90 Listir.
             Þá er í þriðja lagi lagt til að framlag til starfsemi atvinnuleikhópa hækki um 3 m.kr. vegna starfssamninga atvinnuleikhópa. Loks er gerð tillaga um 1 m.kr. hækkun framlags til viðfangsefnisins 1.27 Tónlist fyrir alla. Markmiðið er að verkefnið nái til alls landsins innan fárra ára og ávinni sér fastan sess í skólastarfi og menningarlífi landsmanna.
983     Ýmis fræðistörf. Gerð er tillaga um 2 m.kr. hækkun framlags á viðfangsefni 1.10 Fræðistörf.
988     Æskulýðsmál. Lögð er til 4 m.kr. hækkun á framlagi til Ungmennafélags Íslands til reksturs þess á þjónustumiðstöð í Reykjavík sem veitir íþróttahópum af landsbyggðinni gistiþjónustu. Jafnframt er gerð tillaga um að framlag til Bandalags íslenskra skáta hækki tímabundið um 3 m.kr. vegna kostnaðar við landsmót.
989     Ýmis íþróttamál. Óskað er eftir að liðurinn hækki um 15,6 m.kr. samtals. Í fyrsta lagi er lagt til að hækka framlag til óskipts liðar alls um 10 m.kr. Þar af eru 8 m.kr. ætlaðar til uppbyggingar íþróttaaðstöðu á Egilsstöðum en þar er ráðgert að halda landsmót ung­mennasambandanna árið 2001. Bæta þarf íþróttaaðstöðu til að tryggja að hægt verði að halda landsmót á Egilsstöðum, m.a. með því að leggja hlaupabrautir með svokölluðu „tartan“-yfirborði. Ætlað er að kostnaðurinn verði greiddur á tveimur árum.
             Þá er lögð til 3 m.kr. hækkun á viðfangsefni 1.10 Íþróttasamband Íslands og jafnframt gerð tillaga um að heiti þess breytist og verði Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.
             Í þriðja lagi er gerð tillaga um að viðfangsefni 1.11 Ólympíunefnd Íslands falli brott. Framlagið að fjárhæð 3 m.kr. flyst á viðfangsefni 1.10 Íþrótta- og Ólympíusamband Ís­lands.
             Gert er ráð fyrir að framlag til Glímusambands Íslands hækki um 2,5 m.kr. til að vinna að kynningu á glímunni en takist ekki að auka iðkun hennar og útbreiðslu muni hún brátt heyra sögunni til.
             Óskað er eftir tímabundinni hækkun að fjárhæð 1,5 m.kr. til Skáksambands Íslands til kynningarstarfs og Ólympíuskákmóts í Elista í Kalmykiu.
             Jafnframt er gerð tillaga um 1 m.kr. framlag til Landssambands akstursíþróttafélaga.
             Loks er lögð til 0,6 m.kr. hækkun á fjárveitingu til Skákskóla Íslands. Það er 25% hækkun á rekstrarframlagi sem hefur haldist óbreytt frá árinu 1991.
999     Ýmislegt. Gerð er tillaga um 19,5 m.kr. hækkun fjárveitinga á þessum lið. Lögð er til 20 m.kr. fjárveiting til Dalabyggðar til verkefna sem Eiríksstaðanefnd hefur verið falið að fjalla um í samráði við hreppsnefnd Dalabyggðar og tengjast fæðingarstað Leifs heppna.
             Þá er gerð er tillaga um að óskiptur liður fjárlagaliðarins lækki um 0,5 m.kr.
             Hluti framlags til Snorrastofu er ranglega færður á rekstrarviðfangsefni en er stofn­kostnaður. Því lækkar framlag til viðfangsefnisins 1.44 Snorrastofa um 4 m.kr. en fram­lag til viðfangsefnisins 6.93 Snorrastofa hækkar samsvarandi og hefur því ekki áhrif á heildarfjárhæð.
        

03 Utanríkisráðuneyti

101     Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa. Farið er fram á að veittar verði 35 m.kr. til að hefja undirbúning að þátttöku Íslands í heimssýningunni í Hannover árið 2000, m.a. til að festa sýningarsvæði til leigu. Þýskaland er mikilvægasta viðskiptaland Íslands jafnt með vörur sem þjónustu. Verulegar gjaldeyristekjur eru af þýskum ferðamönnum á Íslandi. Gert er ráð fyrir um 40 milljónum gesta á sýninguna. Lauslega má ætla að heildarkostn­aður við sýninguna verði 200–240 m.kr. Búast má við að á næstu tveimur árum verði veittar allt að 200 m.kr. úr ríkissjóði. Leitast verður við að afla fjárframlaga frá atvinnu­lífinu fyrir 20% heildarkostnaðar eða sem nemur um 40 m.kr.
             Þá er lagt til að áætlaðar sértekjur og gjöld yfirstjórnar lækki um 9 m.kr., áætlaðar sér­tekjur og gjöld varnarmálaskrifstofu hækki um 1,6 m.kr. og að áætlaðar sértekjur og gjöld þýðingarmiðstöðvar hækki um 1 m.kr. Heildaráhrif eru engin.
190     Ýmis verkefni. Lagt er til að framlag til þessa liðar hækki um 0,3 m.kr. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 2 m.kr. lækkun en í ljósi rauntalna er talið kleift að lækka framlag vegna kostnaðar við þátttöku fulltrúa vinnumarkaðarins í EFTA- og EES-samstarfi.
             Þá er lagt er til að framlag til Mannréttindaskrifstofu Íslands verði aukið um 2 m.kr. Aukin áhersla er lögð á mannréttindi og mannréttindastarf og hefur í því skyni verið gerður samstarfssamningur milli Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofn­unar Háskóla Íslands.
             Að lokum er gerð er tillaga um að 0,3 m.kr. viðbótarfjárheimild verði varið til að efla starfsemi Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
320     Sendiráð, almennt. Óskað er eftir 20 m.kr. hækkun fjárveitingar til byggingar sendiráðsins í Berlín. Eftir framlagningu frumvarps til fjárlaga hefur komið í ljós að kostnaður verður allt að 20 m.kr. hærri en áður var talið. Helstu ástæður eru að þáttur Íslands í sameiginlegum kostnaði er meiri en gert var ráð fyrir í upphafi, þ.e. 6,3% en ekki 5,8%. Einnig hafa tilboð verið hærri en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir.
391     Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi. Lagt er til að Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna verði veitt 3 m.kr. fjárheimild. Árið 1998 var fjárþörf skólans meiri en heimild fjár­laga gerði ráð fyrir en ekki var þörf á hærra framlagi úr ríkissjóði vegna afgangs frá ár­inu 1997. Til að mæta fjárþörf ársins 1999 þarf hins vegar aukna fjárheimild.
401     Alþjóðastofnanir. Farið er fram á 56,4 m.kr. hækkun framlags liðarins. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 37,7 m.kr. fjárveitingu til að senda fjóra liðsmenn frá Íslandi til þátttöku í eftirlitssveit ÖSE í Kósóvó. Fastaráð ÖSE tók formlega ákvörðun 25. október sl. um að stofna eftirlitssveit til að sjá um eftirlit með framkvæmd á samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um Kósóvó. Gert er ráð fyrir að aðildarríkin leggi fram mannskap og fé til styrktar sveitinni sem mun starfa í eitt ár til að byrja með. Reiknað er með að liðsmenn verði u.þ.b. 2.000. Aðrar Norðurlandaþjóðir ætla að senda 50–60 manns hver.
             Í öðru lagi er lagt til að framlag til Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar lækki um 1,3 m.kr. Í ljós hefur komið að áætlað framlag til stofnunarinnar getur lækkað frá því sem áður var talið.
             Loks er lagt til að 20 m.kr. verði veittar til fastanefndar ÖSE í Kósóvó. Fastaráð ÖSE tók formlega ákvörðun 25. október sl. um að stofna eftirlitssveit til að sjá um eftirlit með framkvæmd á samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um Kósóvó. Gert er ráð fyrir að aðildarríkin leggi fram mannskap og fé til styrktar sveitinni sem mun starfa í eitt ár til að byrja með. Um er að ræða 0,21% hlutdeild Íslands í útlögðum kostnaði ÖSE.
        

04 Landbúnaðarráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Alls er óskað eftir 8,5 m.kr. hækkun framlags liðarins. Í fyrsta lagi er lagt til að verkefnið Landgræðsluskógar fái 10 m.kr. framlag. Landgræðsluskógar eru sam­vinnuverkefni Skógræktarfélags Íslands, Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins og landbúnaðarráðuneytisins. Skógrækt ríkisins hefur framleitt og afhent endurgjaldslaust 1 milljón plantna til verkefnisins á ári sem talið er jafngilda 17 m.kr. framlagi. Land­græðslan hefur séð um flutning á plöntunum um allt land og er framlag hennar metið á 1,5 m.kr. Aðildarfélög Skógræktarfélagsins hafa gróðursett plönturnar í samvinnu við sveitarfélög. Hækkunin er færð á óskipta fjárhæð fjárlagaliðarins.
             Í öðru lagi er lagt til að Skógræktarfélagi Íslands verði veitt 2 m.kr. framlag til að standa straum af kostnaði við laun framkvæmdastjóra félagsins sem Skógrækt ríkisins hefur greitt til þessa.
             Þá er gerð tillaga um 0,3 m.kr. hækkun á framlagi til Tilraunastöðvarinnar að Stóra-Ár­móti sem rekin er af Búnaðarsambandi Suðurlands. Greiðslan er til að uppfylla sam­komulag um afborgun af láni vegna stofnkostnaðar.
             Að lokum er gerð tillaga um að viðfangsefni 1.40 Landgræðslu- og skógræktaráætlanir falli brott en fjárveiting sem þar var, 3,8 m.kr., skiptist á liði 04-311 Landgræðsla ríkis­ins og 04-321 Skógrækt ríkisins.
211     Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Gerð er tillaga um 10,3 m.kr. hækkun á fjárveitingum liðarins. Annars vegar er lagt til að veitt verði 6 m.kr. framlag árlega árin 1999–2001 til verkefnisins Nytjaland en það er framhald af verkefninu Jarðvegsvernd sem er ný­lokið á vegum stofnana landbúnaðarráðuneytisins. Með því fékkst yfirlit um jarðvegsrof sem bæði hefur haft mikil áhrif á landgræðslustarf og aukið þekkingu á vanda sem skap­ast við rof. Verkefnið hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 1998. Verkefnið Nytja­land felst í gerð gagnagrunns með kortum, landstærðum, nytjum, búskaparupplýsingum og hagrænum upplýsingum fyrir allar jarðir landsins. Gagnagrunnurinn á að vera að­gengilegur bændum og öðrum er láta sig varða nýtingu landsins.
             Hins vegar er lagt til að Rannsóknastofnun landbúnaðarins fái 4,3 m.kr. tímabundna fjárveitingu til kaupa á tilraunasláttuþreskivél sem nota þarf í þróunarverkefni.
222     Veiðimálastjóri. Gerð er tillaga um að embætti veiðimálastjóra fái 3 m.kr. hækkun á fjárveitingum til eftirlits og rannsókna á ólöglegum lax- og silungsveiðum í sjó. Mikilvægt þykir að halda áfram eftirlitsstarfi sem byggt hefur verið upp á undanförnum árum og sporna við því að ákvæði lax- og silungsveiðilaganna séu brotin.
261     Bændaskólinn á Hvanneyri. Lagt er til að sértekjur skólans verði lækkaðar um 5 m.kr. og verði þar með sama hlutfall af heildarrekstrarkostnaði skólans og að meðaltali á árun­um 1994–97.
271     Bændaskólinn á Hólum. Lagt er til að gjöld og tekjur skólans hækki um 25 m.kr., m.a. til frekari bleikjurannsókna og annarrar starfsemi. Tekjurnar eru styrkir úr rannsókna­sjóðum.
293     Hagþjónusta landbúnaðarins. Lagt er til að stofnunin fái 1 m.kr. framlag vegna aukinna útgjalda til launa og rekstrar.
311     Landgræðsla ríkisins. Á þessum lið er annars vegar óskað eftir 17,4 m.kr. hækkun á fjárveitingum í fyrirhleðslur vegna nýrra og aðkallandi verkefna. Hins vegar er lögð til 1,9 m.kr. hækkun á framlagi til Landgræðslu ríkisins og flyst hún af liðnum 04-190 1.40 Landgræðslu- og skógræktaráætlanir.
321     Skógrækt ríkisins. Lögð er til 1,9 m.kr. hækkun á framlagi til Skógræktar ríkisins og flyst hún af liðnum 04-190 1.40 Landgræðslu- og skógræktaráætlanir.
331     Héraðsskógar. Lagt er til að framlag til skógræktarátaks á Fljótsdalshéraði hækki um 5 m.kr.
811     Bændasamtök Íslands. Lögð er til 14,2 m.kr. hækkun á liðnum. Annars vegar er farið fram á 9,6 m.kr. vegna aukinna greiðslna í lífeyrissjóð af launum starfsmanna. Iðgjöld hækkuðu úr 6% af dagvinnulaunum í 11,5% af heildarlaunum í ársbyrjun 1998, en ekki var gert ráð fyrir hækkun á framlagi vegna þessa í fjárlögum fyrir árið 1998.
             Hins vegar er farið fram á 4,6 m.kr. hækkun til viðfangsefnisins 1.95 Héraðsbúnaðar­sambönd, uppbætur á lífeyri, til aukinna greiðslna í lífeyrissjóð af launum starfsmanna. Lífeyrisiðgjöld hækkuðu úr 6% af dagvinnulaunum í 11,5% af heildarlaunum í ársbyrjun 1998, en ekki var gert ráð fyrir auknu framlagi vegna kostnaðaraukans í fjárlögum fyrir árið 1998. Í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið1998 er gert ráð fyrir framlagi vegna ársins 1998.
891     Sérstakar greiðslur í landbúnaði. Lagt er til að 45 m.kr. framlag verði veitt til niðurgreiðslu á loðdýrafóðri frá fóðurstöðvum og færist það á nýtt viðfangsefni, 1.91 Loð­dýrafóður. Gert er ráð fyrir að niðurgreiðslan nemi 5 kr. á hvert kíló fóðurs.
             Enn fremur er lagt til að veittar verði 8 m.kr. til uppbyggingar og hagræðingar í fóður­stöðvum sem framleiða loðdýrafóður á sama viðfangsefni.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Lagt er til að veittur verði 3 m.kr. styrkur á næsta ári til gerðar sjónvarpsþáttanna Aldarhvörf. Heildarkostnaður er áætlaður 10 m.kr. og dreifist hann á þrjú ár. Sótt verður um 4 m.kr. í fjáraukalögum fyrir árið 1998 og gert er ráð fyrir að loka­greiðsla verði á árinu 2000. Þáttaröðin á að fjalla um sjávarútveg og verður hún sýnd í Ríkissjónvarpinu aldamótaárið 2000 sem framlag stofnunarinnar til höfuðatvinnuvegar þjóðarinnar á liðinni öld.
202     Hafrannsóknastofnunin. Alls er lögð til 45 m.kr. hækkun á framlagi til Hafrannsóknastofnunarinnar. Annars vegar er um að ræða 30 m.kr. hækkun og er því fé ætlað að styrkja núverandi starfsemi stofnunarinnar. Þá samþykkti Alþingi 28. maí sl. ályktun um rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins. Þar var því beint til ríkisstjórn­arinnar að gera átak í rannsóknum á áhrifum veiða og mismunandi veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins á Íslandsmiðum. Sérstaklega yrði kannað hver áhrif veiða eru á botn­fisksstofna, viðkomu þeirra og afrakstursgetu, sem og áhrif veiða með dragnót, botn­vörpu og öðrum dregnum veiðarfærum á botnlagið. Ályktað var að til verkefnisins yrði veitt sérstök fjárveiting næstu þrjú ár í samræmi við kostnaðaráætlun Hafrannsókna­stofnunarinnar. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir heildarkostnaði að upphæð um 60 m.kr. Nú er óskað eftir 15 m.kr. framlagi til að mæta áætlaðri fjárþörf vegna rannsókna fyrsta árið.

06 Dóms og kirkjumálaráðuneyti

201     Hæstiréttur. Óskað er eftir 5,4 m.kr. hækkun á þessum lið. Þegar nýtt húsnæði Hæstaréttar var tekið í notkun láðist að áætla fyrir auknum hita- og rafmagnskostnaði, 1,5 m.kr., fasteigna- og tryggingagjöldum, 2,5 m.kr., og öryggisgæslu, 0,4 m.kr. Meðan framkvæmdir stóðu yfir var beðið með nauðsynlegar tengingar við tölvupóst og internet en rekstrarkostnaður við tölvuskrár og afnotagjöld nam um 1 m.kr. árið 1997. Samtals er því óskað eftir hækkun fjárveitinga að fjárhæð 5,4 m.kr.
301     Ríkissaksóknari. Lögð er til 4 m.kr. hækkun framlags til embættis ríkissaksóknara. Með lögreglulögum sem tóku gildi 1996 jókst eftirlitshlutverk embættisins með framkvæmd saksóknar í héraði auk þess sem embættið fer nú með rannsóknir varðandi kærur á hend­ur starfsmönnum lögreglu. Aukið eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk hefur í för með sér að ráða þarf viðbótarstarfskraft en með því að færa verkefni á milli manna nægir 2,5 m.kr. fjárveiting vegna aukins launakostnaðar. Þá er farið fram á 1,5 m.kr. vegna aukins kostnaðar við ferðir út á land og aukins kostnaðar við skráningu ákæra og rekstur tölvu­kerfa en þeim þætti var lítið sinnt um árabil.
303     Ríkislögreglustjóri. Óskað er eftir 4,1 m.kr. fjárveitingu vegna starfs yfirlögregluþjóns sem fært hefur verið frá lögreglunni í Reykjavík til ríkislögreglustjóra. Framlag til lög­reglunnar í Reykjavík lækkar samsvarandi.
311     Lögreglustjórinn í Reykjavík. Lagt er til að framlag verði lækkað um 4,1 m.kr. eða sem nemur einu starfi yfirlögregluþjóns en starfið hefur verið fært frá lögreglunni í Reykjavík til ríkislögreglustjóra. Framlag til ríkislögreglustjóra hækkar samsvarandi.
341     Áfengis- og fíkniefnamál. Gerð er tillaga um 2 m.kr. hækkun til viðfangsefnisins 1.20 Fíkniefnamál og er framlagið ætlað til átaks í fíkniefnavörnum í Reykjanesbæ. Verkefnið verður unnið m.a. í samvinnu við tollyfirvöld.
390     Ýmis löggæslumál. Lagt er til að veitt verði 7,5 m.kr. framlag sem varið verði til löggæslu á útihátíðum og er fjárhæðin færð á nýtt viðfangsefni, 1.22 Löggæsla vegna skemmtanahalds.
391     Húsnæði löggæslustofnana. Lagt er til að framlag til viðhalds lögreglustöðva lækki um 4 m.kr. og að liðurinn falli niður. Tillaga þessi tengist auknu framlagi vegna leigu­greiðslna sýslumannsembætta til Fasteigna ríkissjóðs, sjá umfjöllun um fjárlagalið 490 Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta.
413     Sýslumaðurinn í Borgarnesi. Gerð er tillaga um að hækka framlag til yfirstjórnar um 1,5 m.kr. til að kosta hálfa stöðu löglærðs fulltrúa. Jafnframt er lagt til að framlag til lög­gæslu hækki um 2 m.kr. vegna breytinga á vöktum lögreglu.
490     Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta. Farið er fram á að fjárveiting til rekstrar sýslumannsembætta hækki alls um 22,8 m.kr. Annars vegar er um að ræða 20 m.kr. vegna húsaleigugreiðslna. Stærstur hluti húsnæðis sýslumanna og dómstóla er nú í um­sjón Fasteigna ríkissjóðs. Lagt er til að fasteignir flestra þeirra embætta sem ekki eru í umsjá Fasteigna ríkissjóðs verði færðar til þeirra frá og með næstu áramótum. Á móti kemur að framlag til viðhaldsliðar hjá sýslumannsembættum lækkar um 5 m.kr. og til lögreglustöðva um 4 m.kr. Heildarhækkun er því um 11 m.kr. Árið 2000 er svo gert ráð fyrir að viðhald sýslumannsembætta verði lækkað um þær 5 m.kr. sem eftir standa. Með því að færa viðhald fasteigna til Fasteigna ríkissjóðs verður viðhaldi sinnt jafnóðum og unnið að fyrirbyggjandi viðhaldi. Hins vegar er farið fram á hækkun fjárveitingar til ým­iss sameiginlegs kostnaðar að fjárhæð 2,8 m.kr. til að standa undir kostnaði við biðlauna­greiðslur.
491     Húsnæði og búnaður sýslumanna. Lagt er til að bætt verði við nýju viðfangsefni, 6.19 Húsnæði sýslumannsins á Hólmavík. Framlag að fjárhæð 10 m.kr. er ætlað til byggingar og innréttingar lögreglustöðvar á Hólmavík.
             Þá er lagt er til að framlag til viðhalds hjá sýslumannsembættum lækki um 5 m.kr. Til­laga þessi tengist auknu framlagi vegna húsaleigugreiðslna sýslumannsembætta til Fast­eigna ríkissjóðs, sjá umfjöllun um fjárlagalið 06-490 Ýmis rekstrarkostnaður sýslu­mannsembætta. Á árinu 2000 er gert ráð fyrir að liðurinn lækki enn um 5 m.kr. og falli niður.
501     Fangelsismálastofnun ríkisins. Farið er fram á hækkun launagjalda um 30 m.kr. en það er áætluð hækkun vegna kjarasamnings við fangaverði.
701     Biskup Íslands. Lögð er til 3 m.kr. fjárveiting til Dómkirkjunnar í Reykjavík. Ákveðið hefur verið að hefjast handa um endurbætur og viðgerðir á kirkjunni á næsta ári og er áætlað að kostnaður geti numið 60–70 m.kr. Verktími er áætlaður sex mánuðir.
             Jafnframt er óskað eftir 0,5 m.kr. hækkun á fjárveitingu til Skálholtsskóla. Ekki náðist að endurnýja samning um rekstur skólans fyrir framlagningu fjárlagafrumvarps en nýr samningur, sem nú hefur verið undirritaður, kveður á um hækkun sem nemur verðlags­breytingum. Eldri samningur er að öðru leyti að mestu efnislega óbreyttur.
733     Kirkjugarðsgjöld. Lögð er til 8 m.kr. tímabundin fjárveiting í Kirkjugarðasjóð til að bæta sjóðnum að hluta þá skerðingu sem hann varð fyrir við breytingu á lögum um kirkju­garða, greftrun og líkbrennslu sem samþykkt voru í fyrra. Samkvæmt lögunum eru Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastdæmis undanþegnir greiðslu í Kirkjugarðasjóð árin 1998 og 1999.

07 Félagsmálaráðuneyti

101     Félagsmálaráðuneyti, aðalskrifstofa. Farið er fram á 3 m.kr. framlag þar sem úrskurðum í málaflokkum sem undir félagsmálaráðuneytið heyra fer sífellt fjölgandi. Gert er ráð fyr­ir að bætt verði við einu stöðugildi til að sinna þeim málum.
400     Barnaverndarstofa. Alls er óskað eftir 42 m.kr. hækkun á þessum lið. Í fyrsta lagi er farið er fram á 30 m.kr. hækkun á framlögum til málefna barna og unglinga til vímuefna­varna og nýrra meðferðarúrræða. Með hækkun á sjálfræðisaldri hefur bið eftir greiningu og meðferð á stofnunum Barnaverndarstofu lengst umtalsvert og er nauðsynlegt að bregðast við því með fjárveitingu til nýs heimilis.
             Þá er gerð er tillaga um fjárveitingu að upphæð 8 m.kr. fyrir Krossgötur en samtökin hafa rekið endurhæfingarheimili fyrir ungt fólk í vímuefnavanda í 11 ár. Framlagið er háð því að gerður verði þjónustusamningur við rekstraraðila.
             Að lokum er lagt er til að Götusmiðjunni – Virkinu verði veittar 4 m.kr. til að styrkja sérhæft meðferðarúrræði fyrir unga fíkla á aldrinum 16–20 ára. Framlagið er háð því að gerður verði þjónustusamningur við rekstraraðila meðferðarheimilisins.
700     Málefni fatlaðra. Gerð er tillaga um 64 m.kr. hækkun þessa liðar. Annars vegar er farið fram á 54 m.kr. hækkun til að mæta áhrifum kjarasamninga. Starfsmenn stofnana á heim­ilum fatlaðra fá langflestir laun samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og SFR. Í síðasta kjarasamningi þessara aðila var samið um launakerfi sem m.a. byggist á nýrri starfaflokkun. Í mati á áhrifum kjarasamningsins var ekki tekið fullt tillit til þeirra áhrifa sem starfaflokkunin hefur á launaútgjöld þessara stofnana eftir gerð kjarasamninga. Í eldri kjarasamningi aðila var samið um námskeið fyrir ófaglært starfsfólk sem gaf þeim nokkurn framgang í launum og var eftir að meta áhrif þess við upptöku á nýju launa­kerfi. Loks var eftir að bæta stofnunum í þessum málefnaflokki hækkun launa þroska­þjálfa um einn launaflokk samkvæmt kjarasamningi sem gerður var eftir að lokið var við launamat fjárlaga 1998. Með framangreindum breytingum á launagrunni þessara stofn­ana hefur útgjaldaauka þeirra vegna kjarasamninga og aðlögunarsamninga verið að fullu mætt að mati fjármálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins. Sundurliðun breyting­anna er sýnd í sérstöku yfirliti II.
             Þá er farið er fram á 10 m.kr. framlag til að koma á samningi við einstaklinga um rekst­ur sambýlis fyrir allt að fimm einstaklinga. Áformað er að sambýlið verði á Suðaustur­landi og taki við fötluðum einstaklingum samkvæmt þjónustusamningi.
701     Málefni fatlaðra, Reykjavík. Lögð er til 2,7 m.kr. hækkun á framlagi til Félags heyrnarlausra til að vinna að ýmsum auknum verkefnum.
703     Málefni fatlaðra, Vesturlandi. Gerð er tillaga um 2,5 m.kr. hækkun á framlagi til sambýlis fatlaðra á Akranesi til að tryggja greiðslu launahækkana sem starfsfólki ber eftir þátttöku í framhaldsnámskeiði fyrir stuðningsfulltrúa á Vesturlandi.
705     Málefni fatlaðra, Norðurlandi vestra. Gerð er tillaga um 1,7 m.kr. hækkun á fjárheimild svæðisskrifstofu. Ráðuneytið hefur átt í viðræðum við sveitarfélög á Norðurlandi vestra um yfirtöku þeirra á þjónustu við fatlaða. Í þeim viðræðum hefur komið fram að þörf er á viðbótarfjármagni til stuðningsfjölskyldna og frekari liðveislu í umdæmi svæðisskrif­stofunnar á Norðurlandi vestra.
801     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Óskað er eftir 5,6 m.kr. hækkun fjárveitingar til jöfnunar húsaleigubóta til að verðbæta samningsbundnar greiðslur ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð sveit­arfélaga. Samkvæmt samkomulagi sem gert var við stjórn Sambands íslenskra sveit­arfélaga við breytingar á lögum um húsaleigubætur mun ríkissjóður greiða árlega 280 m.kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og skal fjárhæðin taka sömu breytingum og vísitala neysluverðs.
985     Félagsmálaskóli alþýðu. Lögð er til 2 m.kr. fjárveiting til námskeiða fyrir trúnaðarmenn á vinnustöðum. Í kjölfar breytinga á vinnulöggjöfinni og aukinnar áherslu á að hluti kjarasamninga fari fram á vinnustöðum er talið nauðsynlegt að efla fræðslu trúnaðar­manna.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi. Lögð er til 4 m.kr. fjárveiting á nýtt viðfangsefni, 1.34 Geysir, vinnumiðlun fyrir geðfatlaða. Klúbburinn Geysir var stofnaður á þessu ári og er markmið hans að koma upp og reka vinnumiðlun fyrir geðfatlað fólk.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

201     Tryggingastofnun ríkisins. Lögð er til hækkun fjárveitingar um 1,9 m.kr. vegna endurreiknings á áhrifum kjarasamnings lækna á launagjöld stofnunarinnar.
206    Sjúkratryggingar. Í kjölfar nýlegra samninga á milli Tryggingastofnunar ríkisins og sérfræðilækna hefur stofnunin hætt greiðslum til sjúkrastofnana fyrir læknisverk sem unnin eru á göngudeildum. Farið er fram á að fjárhæð sem nemur greiðslum frá Trygginga­stofnun fyrir læknisverk unnin á stofnunum verði færð frá sjúkratryggingum á fjárlagalið viðkomandi stofnunar. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur gert samninga við stofnanirnar til að tryggja óbreytta sérfræðilæknisþjónustu. Lagt er til að framlag til viðfangsefnisins 1.11 Lækniskostnaður lækki alls um 243,5 m.kr. Á móti hækkar fram­lag til eftirtalinna stofnana um sömu fjárhæð alls þannig að heildarbreytingin er engin.
M.kr.

         08-358 1.01    Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri          39,2
         08-371 1.01    Ríkisspítalar          41,1
         08-375 1.01    Sjúkrahús Reykjavíkur          62,7
         08-400 1.01    St. Jósefsspítali, Hafnarfirði          39,7
         08-711 1.11    Heilbrigðisstofnunin Akranesi          20,4
         08-715 1.11    St. Fransiskusspítali, Stykkishólmi          1,7
         08-725 1.11    Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ          4,7
         08-751 1.11    Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki          2,1
         08-761 1.11    Heilbrigðisstofnunin Húsavík          3,0
         08-781 1.11    Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum          2,0
         08-785 1.11    Heilbrigðisstofnunin Selfossi          4,3
         08-791 1.11    Heilbrigðisstofnunin Suðurnesjum          22,6

             Í annan stað er lagt til að framlag til viðfangsefnisins 1.11 Lækniskostnaður lækki um 47,6 m.kr. en á móti hækkar framlag til fjárlagaliðar 517 Læknavaktin um sömu fjárhæð.
301     Landlæknir. Gerð er tillaga um 7,5 m.kr. hækkun á framlagi til slysavarnaráðs til að fjármagna 1,5 stöðugildi læknis með sérfræðimenntun og kerfisfræðings. Sérfræðingarnir eiga að starfa á vegum slysavarnaráðs við sérhæfðan gagnagrunn um slys og orsaka­skráningu slysa á Íslandi.
324     Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Heildarútgjöld stöðvarinnar hækka alls um 9,6 m.kr. en á móti hækka sértekjur um 5,9 m.kr. Annars vegar er farið fram á 9 m.kr. framlag. Á móti hækka sértekjur um 5,3 m.kr. þannig að heildarhækkun er 3,7 m.kr. Framlag til hjálpartækja hefur nánast staðið í stað frá árinu 1991. Sífellt koma ný stafræn heyrnar­tæki á markaðinn. Tækin eru um 30.000 kr. dýrari en hefðbundin heyrnartæki. Áætlað er að sala á 300 stafrænum heyrnartækjum auki sértekjur Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands um 5,3 m.kr. Hins vegar er óskað eftir 0,6 m.kr. hækkun á fjárveitingum til Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Launaliður stöðvarinnar hækkar um 0,6 m.kr. vegna ferðalaga út á land auk þess sem önnur gjöld hækka um 0,6 m.kr. vegna nýrra verkefna. Hins vegar er gert ráð fyrir hækkun sértekna sem eiga að standa undir þessum aukna launakostnaði.
340     Málefni fatlaðra. Framlag til fjárlagaliðarins hækkar alls um 3 m.kr. og skiptist hækkunin á tvö viðfangsefni. Lagt er til að framlag til Endurhæfingarstöðvar Styrktarfélags lam­aðra og fatlaðra hækki um 2 m.kr. Mikill halli hefur verið á rekstri stöðvarinnar síðustu árin og kostnaðarauki í kjölfar nýrra kjarasamninga og breytinga á lífeyrissjóðsgreiðsl­um. Áhersla er lögð á að gerður verði þjónustusamningur við rekstraraðila. Þá er lögð til 1 m.kr. hækkun á framlagi til Endurhæfingarstöðvar hjarta- og lungnasjúklinga á Akureyri vegna breytinga á starfsemi. Tekinn var á leigu einn þjálfunarsalur til viðbótar því að sjúklingum hefur fjölgað og ráðinn nýr sjúkraþjálfari. Þá hefur verið ákveðið að hefja þjálfun við stöðina fyrir fólk sem hefur fengið áfall eða farið í kransæðaaðgerðir og bíður eftir að komast að í þjálfun á Reykjalundi.
375     Sjúkrahús Reykjavíkur. Gerð er tillaga um 10 m.kr. fjárveitingu til viðfangsefnisins 6.01Tæki og búnaður til kaupa á tækjabúnaði til rannsókna á sjúkdómum í meltingarvegi. Talið er víst að framlög fyrirtækja o.fl. muni nema milljónum króna en stofnkostn­aður getur numið um 15–17 m.kr.
381     Sjúkrahús og læknisbústaðir. Alls er lagt til að framlag til fjárlagaliðarins lækki um 1,9 m.kr. Gerð er tillaga um að viðfangsefnið 6.60 Tækjakaup, óskipt hækki um 12,6 m.kr. og skiptist hækkunin í tvennt. Annars vegar er lagt til að Heilbrigðisstofnunin á Patreks­firði fái 7,6 m.kr. til þess m.a. að endurnýja röntgentæki og fjargreiningartæki. Hins veg­ar er gerð tillaga um 5 m.kr. fjárveitingu fyrir St. Fransiskusspítala í Stykkishólmi til endurbóta í eldhúsi spítalans og tækjakaupa. Í annan stað er lögð til 14,5 m.kr. lækkun framlags á viðfangsefninu 6.90 Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða og er ástæðan tvíþætt. Í fyrsta lagi er lagt til að lækka framlag um 15 m.kr. og að hækka framlag til fjárlagaliðar 500 Heilsugæslustöðvar, almennt samsvarandi. Breytingin er gerð vegna heilsgæslunnar í Grafarvogi en nauðsynlegt er að leysa úr brýnni húsnæðis­þörf heilsugæslunnar sem er í bráðabirgðahúsnæði og þjónar einungis hluta svæðisins. Fjölgun íbúa er ör og nauðsynlegt að koma til móts við þarfir þeirra með stækkun stöðvarinnar. Í öðru lagi er lagt til að 0,5 m.kr. fari til hjúkrunarheimilis á Fáskrúðsfirði. Í breytingartillögum nefndarinnar er sýnd sundurliðun á einstök verkefni í sérstöku yfirliti IV.
399     Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Gerð er tillaga um 206 m.kr. hækkun fjárlagaliðarins og skiptist hækkunin á þrjú viðfangsefni. Í fyrsta lagi er farið fram á 197,9 m.kr. hækkun fjárheimildar á viðfangsefninu 1.90 Ýmis framlög vegna mats á áhrifum samninga hjúkr­unarfræðinga á launaútgjöld heilbrigðisstofnana. Sundurliðun á einstakar stofnanir er sýnd í sérstöku yfirliti III með breytingartillögum. Í öðru lagi er leitað eftir 7 m.kr. hækk­un fjárveitingar vegna þriggja ára verkefnis til að fækka slysum á börnum og unglingum. Óskað verður eftir 4 m.kr. í fjáraukalögum fyrir árið 1998 og að verkefninu ljúki árið 2000. Slys á börnum og unglingum eru hlutfallslega fleiri hér á landi en í nágranna­löndunum. Ætlunin er að bregðast við þessari þróun með átaki sem leiðir til fækkunar slysa, m.a. með því að samræma krafta þeirra er koma að verki, skipuleggja skráningu slysa á börnum og unglingum, samhæfa fræðslu og forvarnir og veita ráðgjöf um slysavarnir barna. Fræðslu- og kynningarstarf vegur þungt í útgjöldum til verkefnisins. Þá verður að gera ráð fyrir ýmsum almennum kostnaði við rekstur öryggismiðstöðvar, svo sem húsaleigu og skrifstofukostnaði. Ráðinn verður starfsmaður í fullt starf til að hrinda átakinu í framkvæmd. Framlagið er fært á nýtt viðfangsefni, 1.67 Verkefnisstjórn um slysavarnir fyrir börn og unglinga. Að lokum er lögð til 1,1 m.kr. hækkun á fram­lögum til reksturs Krýsuvíkursamtakanna á meðferðarheimilinu í Krýsuvík. Með fjár­veitingu í fjáraukalögum var gert ráð fyrir að gerður verði þjónustusamningur við rekstr­araðila.
411     Garðvangur, Garði. Lagt er til að framlag til liðarins hækki um 1,3 m.kr. vegna launabreytinga sem urðu við starfsmat sveitarfélaga fyrir ári síðan.
414–417 Hjúkrunarheimili og 495 Daggjaldastofnanir. Lagt er til að millifæra framlag til         daggjaldastofnana á ný fjárlaganúmer vegna nýrra þjónustusamninga. Alls hækkar fram­lag til hjúkrunarheimila um 201,5 m.kr. en framlag til fjárlagaliðarins 495 Daggjalda­stofnanir lækkar um sömu fjárhæð. Fjárveitingar færast milli fjárlagaliða sem hér segir:
M.kr.

         08-414 1.01    Hjúkrunarheimilið Lundur, Hellu          66,2
         08-415 1.01    Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð, Eskifirði          51,9
         08-416 1.01    Hjúkrunarheimilið Hornbrekka, Ólafsfirði          61,5
         08-417 1.01    Hjúkrunarheimilið Naust, Þórshöfn          21,9
         08-495 1.13    Hornbrekka, Ólafsfirði          -48,3
         08-495 1.17    Hulduhlíð, Eskifirði          -43,0
         08-495 1.31    Naust, Þórshöfn          -19,8
         08-495 1.39    Lundur, Hellu          -45,8
         08-495 1.71    Dagvistun aldraðra, aðrar stofnanir          -6,4
         08-495 1.75    Óskipt framlag til breytinga á daggjöldum          -38,2

430     Sjálfsbjörg, hjúkrunar- og endurhæfingarstofnun. Gerð er tillaga um 2 m.kr. hækkun á framlögum Sjálfsbjargar til brunavarna í Hátúni 12. Verið er að vinna að þeim sam­kvæmt verkáætlun í samráði við eldvarnaeftirlitið og fóru 5 m.kr. til verksins á þessu ári.
431     Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands. Lagt er til að viðfangsefnið 1.10 Heilsuhælisdeild hjá Náttúrulækningafélagi Íslands hækki um 2,7 m.kr. Fjárveiting á því viðfangs­efni hefur verið sett fram sem tilfærsluframlag, án skiptingar á laun eða önnur rekstrar­gjöld, og það hafði í för með sér að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1999 fórst fyrir að reikna á hana launabætur vegna áhrifa af nýlegum aðlögunarsamningum við hjúkrunar­fræðinga.
495     Daggjaldastofnanir. Alls lækkar framlag til þessa fjárlagaliðar um 204,5 m.kr. Af þeirri fjárhæð er 201,5 m.kr. lækkun vegna millifærslu á fjárlagaliði hjúkrunarheimila, sjá skýringar hér að framan við 414–417 Hjúkrunarheimili og 495 Daggjaldastofnanir. Í annan stað er lagt til að lækka framlag til reynslusveitarfélagsins Akureyri um 2,1 m.kr. en á móti hækkar fjárlagaliður 496 Reynslusveitarfélagið Akureyri samsvarandi. Að lok­um er lagt til að lækka framlag til reynslusveitarfélagsins Höfn um 0,9 m.kr. en á móti hækkar fjárlagaliður 497 Reynslusveitarfélagið Höfn samsvarandi. Tvær síðasttöldu breytingarnar eru vegna endurmats á launabótum.
496     Reynslusveitarfélagið Akureyri. Lagt er til að hækka framlag um 2,1 m.kr. til viðfangsefnisins 1.11 Hjúkrunarrými vegna endurmats á launabótum. Á móti lækkar framlag til reynslusveitarfélagsins á fjárlagalið 495 Daggjaldastofnanir um samsvarandi fjárhæð.
497     Reynslusveitarfélagið Höfn í Hornafirði. Alls er gerð tillaga um 11,9 m.kr. hækkun framlags til viðfangsefnisins 1.11 Hjúkrunarrými og er hækkunin af tvennum toga. Í samræmi við ákvæði í samningi við reynslusveitarfélagið Höfn í Hornafirði er farið fram á 11 m.kr. viðbótarfjárheimild til að fjölga um þrjú sjúkrarúm í stað hjúkrunarrúma. Er um tímabundna fjárveitingu að ræða fyrir árið 1999 og er sótt um sömu fjárhæð í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1998. Þá er lagt til að hækka framlag um 0,9 m.kr. til viðfangsefnisins 1.11 Hjúkrunarrými vegna endurmats á launabótum. Á móti lækkar framlag til reynslusveitarfélagsins á fjárlagalið 495 Daggjaldastofnanir um samsvarandi fjárhæð.
500     Heilsugæslustöðvar, almennt. Lagt er til að hækka framlag til þessa fjárlagaliðar um 15 m.kr. og að lækka framlag til fjárlagaliðar 381 Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða samsvarandi. Breytingin er gerð vegna heilsgæslunnar í Grafarvogi en nauðsynlegt er að leysa úr brýnni húsnæðisþörf heilsugæslunnar sem er í bráðabirgða­húsnæði og þjónar einungis hluta svæðisins. Fjölgun íbúa er ör og nauðsynlegt að koma til móts við þarfir þeirra með stækkun stöðvarinnar.
501     Sjúkraflutningar. Lagt er til að hækka framlag til sjúkraflutninga um 7,5 m.kr. en á móti lækkar viðfangsefni 1.12 Útvegun og rekstur sjúkrabifreiða um samsvarandi fjárhæð. Um áramótin var undirritaður samningur við Rauða kross Íslands um innkaup og rekstur bifreiða og tækjabúnaðar til sjúkraflutninga. Með samningnum mun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið annast greiðslu á launum sjúkraflutningamanna og húsnæðis­kostnaði. Þetta leiðir til hækkunar launakostnaðar. Á viðfangsefni 1.11 Sjúkraflutningar er að auki lögð til samsvarandi lækkun tekna og gjalda en heildarbreytingin er engin.
510     Heilsuverndarstöðin í Reykjavík. Framlag til fjárlagaliðarins lækkar alls um 47,2 m.kr. og hækkar framlag til fjárlagaliðar 517 Læknavaktin um sömu fjárhæð.
517     Læknavaktin. Þetta er nýr fjárlagaliður og er lagt til að framlag verði 124,1 m.kr. Heildarútgjöld verða 137,6 m.kr. en á móti koma sértekjur að fjárhæð 13,5 m.kr. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Læknavaktin sf. hafa komist að samkomulagi um vakt­þjónustu á höfuðborgarsvæðinu og mun nýtt fyrirkomulag taka gildi 1. nóvember 1998. Læknavaktin sf. hefur sl. tíu ár sinnt gæsluvöktum fyrir Reykjavík, Kópavog og Seltjarn­arnes, en samkvæmt nýju vaktaskipulagi mun miðlæg vaktþjónusta einnig sinna heilsu­gæsluumdæmunum í Hafnarfirði og Garðabæ. Læknavaktin verður efld og verkefnum fjölgað og mun vaktin m.a. taka að sér að sinna ráðgjöf um síma fyrir heilsugæslustöðvar sem hafa einn lækni. Verktakagreiðslur fyrir viðtöl og vitjanir sem innheimtar hafa verið hjá Tryggingastofnun ríkisins falla niður og í stað þess fær Læknavaktin sf. fasta fjárhæð í fjárlögum ár hvert miðað við 9.000 vitjanir og 17.000 móttökur, en endurskoða ber fjárhæðina ef frávik frá þessum tölum verða meiri en 6%. Fyrir önnur læknisverk en viðtal og vitjun innheimtir hver læknir um sig samkvæmt gildandi gjaldskrá heilsugæslulækna skv. I. og II. kafla í úrskurði kjaranefndar, sbr. fylgiskjal 1 frá 3. mars 1998. Af 124,1 m.kr. heildarframlagi eru 99,1 m.kr. millifærðar af öðrum liðum; 206 Sjúkratryggingar, 510 Heilsuverndarstöðin í Reykjavík og 582 Heilsugæslustöðin Hafnarfirði. Að auki er gerð tillaga um 25 m.kr. fjárveitingu á þessum lið vegna endur­mats á launa- og verðlagsforsendum í samningi um starfsemi Læknavaktarinnar til samræmis við hækkanir starfsmanna heilbrigðisstofnana. Nýr samningur þar sem tekið er tillit til breytinga á þeim forsendum lá ekki fyrir við framlagningu fjárlagafrumvarps­ins en hefur nú verið undirritaður.
522    Heilsugæslustöðin Borgarnesi. Lögð er til 2,5 m.kr. hækkun á framlögum til heilsugæslustöðvarinnar svo hægt verði að ráða þar lækni yfir sumartímann. Mikið álag hefur verið á læknum stöðvarinnar og á sumrin stóreykst álag vegna fjölda sumarhúsa í ná­grenninu.
582     Heilsugæslustöðin Hafnarfirði. Lagt er til að lækka framlag til stöðvarinnar um 4,3 m.kr. og hækkar framlag til fjárlagaliðar 517 Læknavaktin samsvarandi.
721     Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði. Gerð er tillaga um að lækka sértekjur sjúkrasviðs um 2 m.kr. Hluti þeirra eru leigugjöld af starfsmannabústöðum en aðeins einn bústaður er leigður út. Einnig er gert ráð fyrir heldur lægri tekjum af þjónustunni en í forsendum fjárlagafrumvarps.
745     Heilbrigðisstofnunin Blönduósi. Lögð er til 4,5 m.kr. hækkun fjárveitinga til sjúkrasviðs sem fari í frágang á eldvarnabúnaði og til kaupa á sótthreinsitæki.

09 Fjármálaráðuneyti

101     Fjármálaráðuneyti, aðalskrifstofa. Farið er fram á 7 m.kr. hækkun framlags á þessum lið. Annars vegar er gerð tillaga um tímabundna 8 m.kr. fjárveitingu til nefndar um vandamál sem tengjast ártalinu 2000 í tækjabúnaði og upplýsingakerfum. Fjárveitingin er ætluð til að standa straum af kostnaði við aðgerðir nefndarinnar og störf en hún hefur unnið að því að vekja athygli á vandanum og hvetja til að unnið verði að lausnum. Meginþunginn í starfi nefndarinnar verður á árinu 1999.
             Hins vegar er lagt til að 1 m.kr. af fjárveitingu til stofnkostnaðar verði færð af við­fangsefninu 6.01 Tæki og búnaður til Ríkisbókhalds vegna flutnings á launaafgreiðslu til embættisins.
103     Ríkisbókhald. Gerð er tillaga um að 1 m.kr. fjárveiting til stofnkostnaðar verði færð frá aðalskrifstofu fjármálaráðuneytis til Ríkisbókhalds vegna flutnings á launaafgreiðslu til embættisins.
202     Skattstofan í Reykjavík. Lagt er til að 6 m.kr. verði fluttar af stofnkostnaði yfir á rekstur hjá stofnuninni. Gerður hefur verið samningur við Opin kerfi hf. um rekstrarleigu á tölvubúnaði fyrir stofnunina á grundvelli útboðs fyrir skattkerfið sem Ríkiskaup stóðu fyrir. Þetta hefur í för með sér að tölvubúnaður verður leigður en ekki keyptur og færist kostnaðurinn því eftirleiðis sem rekstur en ekki stofnkostnaður.
211     Skattstofa Reykjaness. Gerð er tillaga um 8 m.kr. hækkun á fjárveitingu til að mæta auknum launakostnaði við embættið. Vegna mikillar fjölgunar framteljenda í Reykjanesi á undanförnum árum er gert ráð fyrir að bætt verði við þremur stöðum við embættið. Fjölgunin er meiri en í öðrum skattumdæmum og á við einstaklinga, fyrirtæki og virðis­aukaskattsskylda aðila.
212     Skatta- og tollamál, ýmis útgjöld. Lagt er til að framlag til rekstrarleigu tölvubúnaðar fyrir skattkerfið hækki um 13 m.kr. Á móti lækkar framlag til viðfangsefnisins 6.01 Tæki og búnaður. Gerður hefur verið samningur við Opin kerfi hf. um rekstrarleigu á tölvu­búnaði á grundvelli útboðs fyrir skattkerfið sem Ríkiskaup stóðu fyrir. Þetta hefur í för með sér að tölvubúnaður verður leigður en ekki keyptur og færist hann því eftirleiðis sem rekstur en ekki stofnkostnaður.
             Þá er gerð tillaga um tímabundna hækkun fjárveitingar til viðfangsefnisins 1.07 Athug­un á virðisaukaskatti sem nemur 2 m.kr. Að fenginni reynslu af virðisaukaskattskerfinu og með tilliti til athugunar Ríkisendurskoðunar á því er fyrirhugað að gera almenna út­tekt á skattinum. Í því sambandi verði sérstaklega skoðuð hagræn áhrif skattsins, skatt­eftirlit, tæknilegir þættir við innheimtu og álagningu, lagabreytingar og mannaflaþörf.
261     Ríkistollstjóri. Gerð er tillaga um 8,4 m.kr. lækkun á liðnum. Annars vegar er lagt til að 4,4 m.kr. verði fluttar af fjárlagalið ríkistollstjóra á lið tollstjórans í Reykjavík vegna tollgæsluverkefna sem færast þangað og hins vegar er gerð tillaga um að tekjur verði lækkaðar um 4 m.kr. en þær eru taldar vera ofáætlaðar í fjárlagafrumvarpi. Gjöld lækka um sömu fjárhæð.
262     Tollstjórinn í Reykjavík. Lagt er til að 4,4 m.kr. verði fluttar af fjárlagalið ríkistollstjóra á lið tollstjórans í Reykjavík vegna tollgæsluverkefna sem færast þangað.
981     Ýmsar fasteignir ríkissjóðs. Gerð er tillaga um 70 m.kr. fjárveitingu til að ljúka fjármögnun fyrirhugaðra endurbóta innan húss og viðbyggingu við húsnæði Tryggingastofn­unar ríkisins að Laugavegi 114–116. Viðbyggingin verður um 100 fermetrar að grunn­fleti, á tveimur hæðum, og er ætluð til að hægt verði að stækka rými fyrir þjónustumið­stöð stofnunarinnar á jarðhæð hússins. Með þessum framkvæmdum er einnig ráðgert að flytja þá starfsemi stofnunarinnar sem nú er í Tryggvagötu 28 á Laugaveg og að það hús­næði verði selt í framhaldi af því. Gert er ráð fyrir að verkið muni kosta alls um 266 m.kr. og munu Fasteignir ríkissjóðs greiða um 96 m.kr. til þess. Þá er gert ráð fyrir að um 50 m.kr. af söluandvirði Tryggvagötu 28 renni til verksins.
995     Skýrsluvélakostnaður. Gerð er tillaga um 95 m.kr. fjárveitingu til hugbúnaðargerðar fyrir tekjubókhaldskerfi. Frá árinu 1997 hefur Ríkisbókhald staðið fyrir endurnýjun á tekjubókhaldskerfi ríkisins (TBR) og fengið Skýrr hf. til liðs við sig í þeirri vinnu. Að undan­förnu hefur farið fram endurskoðun á áætlunum um smíði og gangsetningu á nýja kerf­inu. Niðurstaða þeirrar endurskoðunar er að vinna við að ljúka við smíðina krefst um 10 þúsund tíma til viðbótar við það sem áður hafði verið reiknað með. Skýrist það einkum af nýjum verkefnum sem leiðir af ýmsum breytingum á skattalögum og framkvæmd tekjuálagningar og innheimtu. Sem dæmi má taka álagningu fjármagnstekjuskatts, aukna skuldajöfnun, svo sem upp í meðlög og húsaleigubætur, tengingu við málaskrá lögreglustjóra vegna innheimtu sekta, gjaldfrest á fleiri gjöldum í tollafgreiðslu, gagna­samskipti við greiðslukortafyrirtæki vegna innheimtu fasteigna- og bifreiðagjalda o.fl. Þá hefur viðhaldskostnaður reynst þungur í skauti þar sem halda þarf við gamla og nýja tekjubókhaldskerfinu samtímis þar til nýja kerfið leysir hið gamla af hólmi árið 1999. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1999 eru aðeins áætlaðar 19 m.kr. til verkefnisins, enda ríkti mikil óvissa um niðurstöður endurskoðunarinnar þegar fjárlagaáætlanir þurftu að liggja fyrir.
999     Ýmislegt. Gerð er tillaga um 0,5 m.kr. lækkun fjárveitinga á þessum lið og er skýringin tvíþætt. Annars vegar er lögð til 10 m.kr. hækkun á viðfangsefni 1.19 Ýmsar endur­greiðslur sem er ætluð til endurgreiðslu af búnaði björgunarsveita.
             Hins vegar hafa á þessum fjárlagalið verið áætlaðar 15 m.kr. til endurgreiðslu á virðis­aukaskatti vegna söfnunar, urðunar, flutnings og eyðingar á brotamálmum hjá sveitar­félögum. Þessi heimild er nú komin inn í hið almenna endurgreiðslukerfi virðisauka­skattslaganna til sveitarfélaga og er því lagt til að fjárveitingin falli niður.

10 Samgönguráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Lögð er til 16 m.kr. hækkun á fjárveitingu til Slysavarnafélags Íslands til reksturs átta björgunarskipa félagsins, 2 m.kr. til hvers. Björgunarsveitir hafa stofnað með sér björgunarbátasjóði hvert á sínu landsvæði og bera þau ábyrgð á rekstri skipanna.
             Þá er farið fram á 4 m.kr. framlag til nýs viðfangsefnis, 1.45 Söfn tengd samgöngum og ferðaþjónustu.
472     Flugvellir. Gerð er tillaga um 9,7 m.kr. hækkun rekstrargjalda en á móti hækka sértekjur um 0,6 m.kr. Heildarbreytingin er því 9,1 m.kr. til hækkunar og skýrist af því að við vinnslu fjárlagafrumvarps láðist að gera ráð fyrir launa- og verðlagsbótum vegna rekstrar flugvalla.
             Auk þess er gerð tillaga um 102 m.kr. fjárveitingu til að hefjast megi handa við endur­bætur á Reykjavíkurflugvelli. Fyrir liggur úttekt flugöryggissviðs Flugmálastjórnar sem unnin var í samvinnu við flugvallasérfræðing sænska loftferðaeftirlitsins. Niðurstöður skýrslunnar eru á þann veg að ekki þoli bið að ráðast í lagfæringar á uppbyggingu flug­vallarins.
651     Ferðamálaráð. Gerð er tillaga um 2 m.kr. hækkun á framlagi til Ferðamálasamtaka landshluta vegna aukinnar starfsemi þeirra.

11 Iðnaðarráðuneyti

399     Ýmis orkumál. Lagt er til að ríkissjóður veiti 45 m.kr. stuðning við að leggja nýjar hitaveitur á köldum svæðum. Iðnaðarráðuneytið setji reglur og semji við einstakar hitaveitur um framkvæmd málsins að teknu tilliti til þeirra niðurgreiðslna á rafhitun sem veitt hefur verið á viðkomandi svæði.

12 Viðskiptaráðuneyti

902     Samkeppnisstofnun. Lögð er til 1,5 m.kr. hækkun fjárveitingar til samkeppnisráðs í kjölfar nýlegrar endurskoðunar á þóknun til ráðsins.

14 Umhverfisráðuneyti

101     Umhverfisráðuneyti, aðalskrifstofa. Gerð er tillaga um að fjárveiting þessa liðar lækki um 1,5 m.kr. Annars vegar er lagt til að framlag til aðalskrifstofu umhverfisráðuneytis lækki um 4,5 m.kr. og að framlag til Þjóðhagsstofnunar hækki samsvarandi. Við undir­búning frumvarps til fjárlaga var framlag til aðalskrifstofu umhverfisráðuneytis hækkað um 4,5 m.kr. vegna kostnaðar við reiknilíkan sem notað verður til að meta áhrif ramma­samnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar á efnahagsþróun og langtíma­hagsmuni Íslands. Reiknilíkanið er unnið á vegum Þjóðhagsstofnunar og því talið réttara að vista fjárveitinguna þar. Heildarkostnaður er áætlaður 9 m.kr. og er gerð tillaga um samsvarandi millifærslu við 2. umræðu frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 1998.
             Hins vegar er farið fram á 3 m.kr. fjárveitingu vegna vinnu við undirbúning að ramma­samningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar kenndan við Kyoto. Ferðakostn­aður vegna funda um tillögur Íslands um frekari ívilnun vegna orkunýtingar er áætlaður 1,5 m.kr. Kostnaður við vísindanefnd er áætlaður 1 m.kr. og erlend sérfræðiráðgjöf er áætluð 0,5 m.kr.
190     Ýmis verkefni. Lagt er til að framlag til rannsókna á botndýrum á Íslandsmiðum hækki um 3,8 m.kr. og er ætlað til rannsóknastöðvarinnar í Sandgerði. Framlagið er vegna fjár­mögnunar starfseminnar í stað norrænna styrkveitinga sem hafa fallið niður.
             Þá er farið fram á 2 m.kr. hækkun á viðfangsefni 1.35 Umhverfisvöktun vegna rann­sókna á þrávirkum klórkolefnissamböndum í íslenskum fuglum.
205     Náttúruvernd ríkisins. Gerð er tillaga um að lækka sértekjur um 2,8 m.kr. á viðfangsefninu 1.10 Þjóðgarðar og friðlýst svæði. Lækkunin er vegna fyrirhugaðs útboðs á rekstri tjaldstæða í þjóðgörðum.
310     Landmælingar Íslands. Lögð er til 12,8 m.kr. tímabundin lækkun á sértekjum Landmælinga Íslands vegna minnkandi kortasölu.
401     Náttúrufræðistofnun Íslands. Alls er óskað eftir 7,7 m.kr. hækkun á þessum lið. Í fyrsta lagi er farið fram á 3 m.kr. fjárveitingu til mælinga á frjókornum í andrúmslofti en ákveðið hefur verið að stofnunin sjái um frjómælingar í lofti. Heildarkostnaður er áætl­aður 3 m.kr. en gert er ráð fyrir að heilbrigðisráðuneytið taki þátt í kostnaði.
             Í öðru lagi er lagt til að veita 2,5 m.kr. tímabundið framlag til kaupa á nýrri jeppa­bifreið.
             Loks er farið fram á 2,2 m.kr. hækkun til seturs í Reykjavík til að mæta viðbótarkostn­aði við rekstur þess hluta húsnæðis stofnunarinnar sem hún fékk samþykkt fyrir að taka á leigu um áramót 1996/1997. Húsnæðið var fyrst og fremst fyrir gróðurkortagerð sem þá var flutt frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Um er að ræða greiðslu vegna leigu, rafmagns, hita og ræstingar.
403     Náttúrustofur. Gerð er tillaga um 3 m.kr. tímabundna hækkun á fjárveitingum til Náttúrustofu Bolungarvík til rannsókna á gróðri og dýralífi á Hornströndum.
410     Veðurstofa Íslands. Farið er fram á fjáveitingu að upphæð 2 m.kr. til almenns rekstrar. Veðurstofa Íslands vinnur verkefni á sviði ofanflóðamála sem annars vegar eru kostuð af ofanflóðasjóði og hins vegar af ríkissjóði. Nokkur verkefni sem Veðurstofan þarf að vinna þarfnast frekari fjárstuðnings til að þeim verði lokið. Um er að ræða kostnað við uppbyggingu snjóflóðagagnagrunna, ítarlega skýrslugerð um snjóflóðasögu einstakra byggðarlaga og svæða, svo og kostnað við almenna ráðgjöf og þekkingaröflun vegna varnarvirkja.
             Jafnframt er farið er fram á tímabundna hækkun að fjárhæð 2,5 m.kr. til endurnýjunar á einni af bifreiðum stofnunarinnar.

    Gerð hefur verið lítils háttar breyting á framsetningu breytingartillagna frá því sem var í fyrra. Því þykir rétt að gera grein fyrir uppbyggingu breytingartillagna við sundurliðun 2 í frumvarpinu. Meginregla við gerð breytingartillagna á Alþingi er sú að einungis eru gerðar tillögur um efnisbreytingar en ekki afleiðubreytingar. Þannig hefur breyting á framlögum til viðfangsefnis, þar með talið sértekjum, sem gerð er tillaga um í breytingartillögu við sundur­liðun 2 þær afleiðingar að samsvarandi breytingar verða á fjármögnun fjárlagaliðarins ef fjármögnun er aðeins af einni tegund. Þannig tekur Alþingi ákvörðun í einu lagi um breytingu á framlagi og fjármögnun þess. Hins vegar í þeim tilvikum að um tvær eða fleiri fjármögn­unarleiðir er að ræða eða bein tillaga er gerð um breytingu á fjármögnun er þess getið sér­staklega í breytingartillögu. Samkvæmt venju liggur síðan fyrir stöðuskjal eftir 2. umræðu þar sem allar tölur eru uppfærðar og aðrar breytingar gerðar í samræmi við úrslit atkvæða­greiðslu en er að öðru leyti framsett á nákvæmlega sama hátt og frumvarpið sjálft.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 9. des. 1998.Jón Kristjánsson,


form., frsm.


Sturla Böðvarsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.Árni Johnsen.


Árni M. Mathiesen.


Hjálmar Jónsson.Ísólfur Gylfi Pálmason.


Kristinn H. Gunnarsson.Fylgiskjal I.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 (01 Forsætisráðuneyti, 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október 1998. Á fund nefndarinnar komu Skarphéðinn Berg Steinarsson og Guðbjörg Sig­urðardóttir frá forsætisráðuneyti og Þorsteinn Geirsson, Sólmundur Már Jónsson og Stefán Eiríksson frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Þá komu einnig á fund nefndarinnar Dögg Páls­dóttir og Snjólaug Stefánsdóttir frá verkefnisstjórn Íslands án eiturlyfja, Georg Kr. Lárusson frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík, Haraldur Johannessen, Jón Bjartmarz og Jónmund­ur Kjartansson frá embætti ríkislögreglustjóra, Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari og Þórhildur Líndal, umboðsmaður barna.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir hækkun á rekstrargjöldum forsætisráðuneytis milli ára sem nemur 128 millj. kr. Ræðst hún aðallega af auknu framlagi til landafundanefndar, en það nemur 122 millj. kr. og hækkar um 107 millj. kr. Þá lækkar stofnkostnaður og viðhald um 31 millj. kr. Helstu breytingar þar eru að ekki er gert ráð fyrir framlagi til mannvirkjagerðar á Bessastöðum eins og undanfarin ár, en á móti kemur 50 millj. kr. fjárveiting til vegabóta á Þingvöllum til undirbúnings hátíðar á 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi sem haldin verð­ur á Þingvöllum árið 2000.
    Rekstrarútgjöld dóms- og kirkjumálaráðuneytis hækka nokkuð frá fjárlögum 1998. Þar ræður mestu að lagt er til að 110 millj. kr. verði varið til að styrkja löggæslu í landinu, en einnig hækkar framlag til biskups Íslands um 60 millj. kr. í samræmi við samning um fjár­hagsleg samskipti ríkis og kirkju, sem gerður var í tengslum við setningu laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Þá hækka útgjöld ráðuneytisins nokkuð vegna alþingis-kosninga á árinu 1999.
    Á fundum sínum ræddi nefndin um fjárveitingar til vímuvarna, en það er skoðun meiri hluta nefndarinnar að mikil áhersla hafi verið lögð á forvarnir að undanförnu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sömu fjárhæð og á árunum 1997 og 1998 verði veitt til verkefnis sem er liður í átaki í ávana- og fíkniefnavörnum, en árið 1999 er síðasta ár átaksins. Áfram er gert ráð fyrir 35 millj. kr. fjárveitingu til átaks í löggæslu vegna fíkniefnamála. Vekur nefndin at­hygli á því að upphæðin hefur ekki hækkað á síðustu þremur árum og fer æ stærri hluti henn­ar í launakostnað, sem leiðir til þess að minna fjármagn er til tækjakaupa.
    Þá óskaði nefndin sérstaklega eftir upplýsingum um störf og fjárveitingar til landafunda­nefndar auk þess sem kynntar voru tillögur verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið. Einnig ræddi nefndin við umboðsmann barna um starfsemi embættisins en í fjárlagafrum­varpinu er gert ráð fyrir óbreyttri starfsemi frá því sem nú er. Hefur stofnunin óskað eftir hækkun fjárveitinga til að ráða starfsmann með háskólamenntun til að sinna afgreiðslu erinda sem umboðsmanni berast, en umboðsmaður skýrði nefndinni frá því að umsvif embættisins hefðu aukist mjög á þeim árum sem liðin eru frá stofnun þess.
    Einnig var fjallað um fjárveitingu til reksturs Safnahússins við Hverfisgötu, en lagt er til að fjárveiting til hans hækki úr 10 millj. kr. á árinu 1998 í 19,5 millj. kr. Hækkunin stafar m.a. af því að Þjóðskjalasafn og Landsbókasafn munu flytja starfsemi sína úr húsinu fyrir árslok 1998 og því mun allur kostnaður við rekstur og mannahald hússins falla á þennan fjár­lagalið árið 1999. Nú er undirbúningur fyrir opnun hússins til sýningarhalds árið 2000 á lokastigi og þarf því að breyta stöðu forstöðumanns úr hálfri stöðu í heila stöðu og ráða full­trúa til starfa á skrifstofu. Einnig er gert ráð fyrir stofnkostnaði vegna kaupa á búnaði.
    Nefndin ræddi sérstaklega fjárveitingar til embættis lögreglustjórans í Reykjavík og fékk fulltrúa frá embættinu á sinn fund. Kom fram á fundum nefndarinnar að innheimta á um­ferðarsektum á landsvísu, sérstaklega í Reykjavík, hefur batnað og í október höfðu 97,3% sektarboða verið greidd eða voru á greiðslufresti. Má rekja bætta innheimtu til þess að um síðustu áramót var tekið í notkun samræmt innheimtukerfi sekta hjá öllum embættum á land­inu auk þess sem punktakerfi fyrir umferðarlagasektir tók gildi. Nefndin ræddi einnig um fjárveitingar til löggæslu á landsbyggðinni, en í frumvarpinu er einkum gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til lögreglunnar í Reykjavík og embættis ríkislögreglustjóra. Kom fram á fund­um allsherjarnefndar að nú er á vegum ríkislögreglustjóra unnið að stefnumörkun og mark­miðssetningu lögreglunnar á landsvísu til næstu fimm ára og munu tillögur um framtíðarskip­an væntanlega liggja fyrir við fjárlagagerð árið 2000.
    Þá óskaði nefndin eftir upplýsingum um útgáfu vegabréfa og ökuskírteina og kostnað við útgáfu þeirra, en nefndin hefur til umfjöllunar frumvarp til laga um vegabréf, þar sem mælt er fyrir um útgáfu tölvulesanlegra vegabréfa sem talin eru mun öruggari en þau sem nú eru í notkun. Ljóst er að samþykkt þess frumvarps mun hafa í för með sér verulegan stofnkostnað auk þess sem að rekstrarkostnaður verður meiri en nú er.
    Loks ræddi nefndin nokkuð um fjárveitingar til rannsókna á viðurlögum við afbrotum, en að tillögu allsherjarnefndar var 2,4 millj. kr. veitt til verkefnisins á fjárlögum fyrir árið 1998 í tengslum við umræðu málsins í nefndinni. Alþingi samþykkti 11. mars 1998 þingsályktun um rannsókn á refsingum við afbrotum. Vinna við verkefnið er hafin, en nefndin telur ljóst að nauðsynlegt sé að veita frekara fjármagn til slíkra rannsókna og leggur til að sömu fjár­hæð verði veitt til verkefnisins og á síðustu fjárlögum, eða 2,4 millj. kr.
    Hjálmar Jónsson og Jón Kristjánsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.
    Kristín Halldórsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara sem lýtur fyrst og fremst að tveimur atriðum. Telja þau að stórauka þurfi fé til forvarna gegn fíkniefnaneyslu og einnig til tollgæslu og löggæslu til að gera þeim kleift að ráðast af krafti gegn innflutningi og dreifingu fíkniefna. Þá telja þau nauðsynlegt að verða við beiðni umboðsmanns barna um hækkun framlags til embættisins um 2 millj. kr. vegna aukinna verkefna.

23. nóv. 1998.Sólveig Pétursdóttir, form.


Valgerður Sverrisdóttir.


Jóhanna Sigurðardóttir, með fyrirvara.


Árni R. Árnason.


Jón Kristjánsson, með fyrirvara.


Hjálmar Jónsson, með fyrirvara.


Kristín Halldórsdóttir, með fyrirvara.


Kristján Pálsson.


Ögmundur Jónasson, með fyrirvara.


Fylgiskjal II.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.    Félagsmálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar mál­efnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefnd­ar frá 8. október 1998.
    Nefndin fékk á sinn fund Sturlaug Tómasson frá félagsmálaráðuneyti, Gunnar S. Björns­son frá undirbúningsnefnd Íbúðalánasjóðs og Elsu Þorkelsdóttur frá Jafnréttisráði. Þá komu á fund nefndarinnar Björn Sigurbjörnsson frá Svæðisskrifstofu Reykjavíkur í málefnum fatl­aðra, Halldór Gunnarsson frá svæðisráði Reykjavíkur í málefnum fatlaðra og Lárus Blöndal, Málfríður Gunnarsdóttir, Ævar Kolbeinsson og Margrét Magnúsdóttir frá Svæðisskrifstofu Reykjaness í málefnum fatlaðra.
    Meiri hluti nefndarinnar vekur athygli fjárlaganefndar á eftirtöldum atriðum:
    Á 122. þingi var samþykkt þingsályktunartillaga um aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Kom þar fram að nefnd sem skipa ætti í þeim tilgangi, og starfa skyldi í a.m.k. fimm ár, skyldi hafa til ráðstöfunar allt að 5 millj. kr. árið 1998 og síðan fjárveitingar sam­kvæmt fjárlögum. Gert er ráð fyrir 5 millj. kr. til verkefnisins í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1998, sem nú er til meðferðar í þinginu, en í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1999 er hins vegar aðeins gert ráð fyrir 2,1 millj. kr. til umrædds verkefnis. Telur meiri hlutinn að til að unnt verði að sinna þessu verkefni með fullnægjandi hætti verði að koma til aukin fjár­veiting til þess.
    Fulltrúi Jafnréttisráðs vakti athygli á því að karlanefnd Jafnréttisráðs hefði hingað til fengið úthlutað af fjárlagalið 07-311-1.10. Kom jafnframt fram í máli hans að karlanefndin hefði að undanförnu unnið mikið og ötult starf, þrátt fyrir að hafa fengið lítið fé til starfsem­innar. Taldi hann að rétt væri að fjármunum yrði úthlutað til karlanefndar á sérstökum fjár­lagalið. Tekur meiri hlutinn undir það sjónarmið.
    Fram kom í máli fulltrúa Svæðisskrifstofa Reykjavíkur og Reykjaness að mikill vandi væri í málefnum fatlaðra á þessum svæðum og biðlistar langir, m.a. vegna flutninga fjöl­skyldna fatlaðra til höfuðborgarsvæðisins. Lögðu þeir sérstaka áherslu á að ekki hefði feng­ist nægjanlegt fé til að greiða stuðningsfjölskyldum. Telur meiri hlutinn að rétt væri að kanna hvort veita ætti meira fé til þessa úrræðis þar sem ljóst virðist að það mundi draga úr þörf fyrir önnur og kostnaðarsamari úrræði.

Alþingi, 27. nóv. 1998.

Siv Friðleifsdóttir, varaform.
Einar K. Guðfinnsson.
Kristján Pálsson.
Pétur H. Blöndal.
Magnús Stefánsson.
Guðmundur Hallvarðsson.

Fylgiskjal III.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá minni hluta félagsmálanefndar.    Um leið og minni hlutinn tekur undir athugasemdir meiri hluta nefndarinnar vill hann leggja áherslu á eftirfarandi:
    1. Nýlega urðu miklar umræður um þann vanda sem við blasir vegna skorts á meðferðar­úrræðum fyrir unga fíkniefnaneytendur. Hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár kallar á greiðari að­gang að meðferð og fleiri heimili vegna langtímavistunar unglinga. Einnig hefur komið fram að unglingar byrja æ fyrr að neyta eiturlyfja og eru dæmi um 14 ára börn sem ánetjast hafa eiturlyfjum. Það þolir enga bið að þeir komist í bráðameðferð og að langtímaplássum verði fjölgað. Það er því afar brýnt að fjárveitingavaldið bregðist við strax og svari aukinni þörf fyrir meðferð í samræmi við tillögur Barnaverndarstofu. Hér er um líf og dauða að tefla auk framtíðar og velferðar heilu fjölskyldnanna.
    2. Um þessar mundir er mikill skortur á leiguhúsnæði, einkum í höfuðborginni og ná­grannasveitarfélögum. Hundruð fjölskyldna eru á biðlista eftir leiguhúsnæði hjá Reykja­víkurborg og einstæðir foreldrar eiga margir í miklum vanda vegna skorts á leiguíbúðum. Íbúðir sem hafa verið í leigu eru nú seldar á almennum markaði vegna mikillar eftirspurnar eftir húsnæði, um leið og leiga fer hækkandi. Þrátt fyrir þennan mikla vanda er aðeins áætlað að lána fyrir allt að 120 nýjum leiguíbúðum á næsta ári hjá hinum nýja Íbúðalánasjóði, með­an þörf er fyrir miklu fleiri íbúðir til leigu. Það er ljóst að þegar ný lög um Íbúðalánasjóð ganga í gildi um næstu áramót stækkar sá hópur sem ekki mun ráða við að kaupa sér húsnæði og á hann þann kost einan að leita út á leigumarkað, þar sem þrengslin eru mikil fyrir. Vandi leigjenda mun því vaxa enn frá því sem nú er, en afar brýnt er að ríki og sveitarfélög bregðist skjótt við, enda er um að ræða þann hóp þjóðfélagsins sem býr við hvað kröppust kjör.
    3. Enn einu sinni eru framlög skert til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Áætlað er að erfðafjár­skattur nemi allt að 480 millj. kr. á næsta ári, en aðeins 235 millj. kr. renna til Framkvæmda­sjóðsins. Meira en helmingur þessa eyrnamerkta fjár rennur því í ríkissjóð til annarra mála en það er ætlað til. Minni hlutinn mótmælir þessu harðlega, enda er gífurleg þörf fyrir aukna þjónustu við fatlaða, ekki síst í umdæmum Reykjavíkur og Reykjaness þar sem öngþveiti er að skapast.
    4. Minni hlutinn minnir enn á hve brýnt er að auka starfs- og endurmenntun í landinu. Það er almennt viðurkennt að nú menntar fólk sig ekki lengur undir eitt ævistarf, heldur mun fólk almennt takast á við tvö til þrjú störf á ævinni, auk þess sem stöðugt þarf að bregðast við þróun og breytingum. Starfs- og endurmenntun er sjálfstætt mál sem snertir allar starfsstéttir í landinu og á ekki á að tengja við atvinnuleysi eða Atvinnuleysistryggingasjóð og er sérstakt pólitískt viðfangsefni óháð uppbyggingu á öðrum sviðum menntamála. Það er því mjög mikilvægt að skilja starfsmenntasjóð frá atvinnuleysismálum, sem og sérstök framlög til at­vinnumála kvenna, jafnframt því að hækka framlög til málaflokksins til að stórefla alla starfs- og endurmenntun í samvinnu skóla og atvinnulífs. Það skiptir miklu máli fyrir framtíð þjóðarinnar og velferð vinnandi fólks að starfsmenntun verði stórefld.

Alþingi 25. nóv. 1998.Kristín Ástgeirsdóttir, form.
Rannveig Guðmundsdóttir.
Guðný Guðbjörnsdóttir.
Fylgiskjal IV.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjár­lagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október 1997.
    Nefndin hefur fjallað um málið og vill meiri hlutinn koma eftirfarandi á framfæri:
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir um 10,2% hækkun gjalda vegna reksturs sjúkrahúsa, sjúkrastofnana og heilsugæslu sem meðal annars er afleiðing af áhrifum kjarasamninga sjúkrahúslækna, hjúkrunarfræðinga og úrskurðar kjaranefndar um laun heilsugæslulækna.
    Í burðarliðnum er nýtt fyrirkomulag í lyfjainnkaupum sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila. Fyrirhugað er að innkaup verði boðin út í samvinnu við Ríkiskaup og gert er ráð fyrir að með því megi lækka útgjöld þessara stofnana um allt að 300 millj. kr. Jafnframt er gert ráð fyrir að sparnaður sem af þessu hlýst renni í sérstakan sjóð sem nýttur skuli til tækjakaupa. Sjúkrahús Reykjavíkur hefur t.d. bent á að fjárframlög til tækjakaupa hefðu síðastliðin ár verið of lítil og dugi ekki til að eðlileg endurnýjun og þróun geti orðið.
     Nefndin vekur athygli á að mikilvægt er að vandað verði til þessa verkefnis og að því verði komið til framkvæmda hið fyrsta. Tækniframfarir og nýjungar í tækjakosti á sviði læknavísinda eru mjög örar og ljóst er að skipta þarf út eldri tækjum fyrir nýrri mun fyrr en áður tíðkaðist. Til að tryggja megi sjúklingum fullkomna þjónustu þarf að vanda valið við kaup á tækjum og hugbúnaði. Því er mikilsvert að sparnaði sem hlýst af lækkun lyfjakostnað­ar verði veitt til tækjakaupa á sjúkrastofnunum.
    Hallarekstur hefur hrjáð sjúkrastofnanir og aðgerðir til að takast á við vandann hafa ekki allar náð fram að ganga. Starfrækt hefur verið nefnd sem ætlað er að gera tillögur um lausn á rekstrarvanda sjúkrahúsanna. Heilbrigðis- og trygginganefnd vekur athygli fjárlaganefndar á þessum vanda og beinir því til hennar að fjárveitingar verði athugaðar sérstaklega.

Alþingi, 26. nóv. 1998.

Siv Friðleifsdóttir, varaform.
Lára M. Ragnarsdóttir.
Guðmundur Hallvarðsson.
Sólveig Pétursdóttir.
Guðni Ágústsson.
Sigríður A. Þórðardóttir.Fylgiskjal V.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.Sjúkrahús Reykjavíkur, Ríkisspítalar og heilsugæslan í Reykjavík.
    Uppsafnaður rekstrarhalli Sjúkrahúss Reykjavíkur í árslok 1997 er nú samkvæmt mati endurskoðanda spítalans og Ríkisendurskoðunar tæpar 727 millj. kr. og samkvæmt áætlaðri rekstrarútkomu í ár stefnir í að rekstrarhalli verði um 320 millj. kr. Bráðafjárþörf spítalans var hins vegar metin 314,1 millj. kr. Á fjáraukalögum 1998 er gert ráð fyrir 273 millj. kr. til að greiða uppsafnaðan halla til ársloka 1997 og vantar því rúmlega 41 millj. kr. upp á að bráðafjárþörf spítalans sé bætt. Þá er í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1999 um verulegt vanmat að ræða varðandi verðbætur og annan kostnað vegna kjarasamninga þannig að fyrirsjáanlegt er að þessar tölur muni enn hækka. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að spítalanum sé ætlað að afla aukinna tekna án þess að ljóst sé hvernig það skuli gert. Frumvarpið miðast þannig við forsendur sem fyrirsjáanlegt er að ekki standist og vandanum er sífellt velt áfram, án þess að leitað sé raunhæfra lausna. Til viðbótar skortir á að í fjárlagafrumvarpinu sé tekið tillit til nauðsynlegra útgjalda vegna vinnutímatilskipunar EES-samkomulagsins og nauðsynlegrar endurnýjunar tækjabúnaðar, m.a. vegna 2000-vandamálsins, en samtals nemur fyrirsjáanleg­ur útlagður kostnaður vegna þessa um 460–500 millj. kr.
    Samkvæmt tölum frá Ríkisspítölum stefnir halli spítalans í 307 millj. kr. í árslok 1998 en áætluð fjárvöntun í árslok 1999 er 787 millj. kr. Þá hefur verið tekið tillit til fjárveitingar á fjár­aukalögum vegna halla fyrri ára, en gert er ráð fyrir að hann verði bættur að upphæð 186 millj. kr. Bent er á að vaxtakostnaður sjúkrahússins eykst verulega á milli ára vegna uppsafnaðs halla, en árið 1996 var hann 32 millj. kr., árið 1997 41 millj. kr. og í ár stefnir í að hann nemi um 50 millj. kr. Í erindi Ríkisspítala til fjárlaganefndar Alþingis er vakin athygli á nauðsyn þess að fjármagn sé tryggt til að rétta af uppsafnaðan halla og til núverandi starfsemi. Stjórn sjúkrahússins treystir sér ekki til að halda uppi núverandi þjónustu verði frumvarp til fjárlaga samþykkt óbreytt, auk þess sem fjármagn vanti til nauðsynlegrar endurnýjunar lækningatækja, viðhalds húsnæðis og byggingar barnaspítala. Auk þessa er fyrirséð að ákveðnar ákvarðanir stjórnvalda valda kostnaði á Ríkisspítölum, svo sem vinnutímatilskipun EES, aðgerðir vegna 2000-vandamálsins, umönnun og eftirfylgd í meðferð langveikra barna o.fl. Þá liggur fyrir að áætlaður kostnaður vegna kjarasamninga er stórlega vanmetinn í fjárlagafrumvarpinu.
    Samkvæmt framansögðu er fyrirséð að forsendur fjárlagafrumvarpsins varðandi Sjúkra­hús Reykjavíkur og Ríkisspítala eru fullkomlega óraunhæfar og leggur minni hlutinn til að þær forsendur verði teknar til endurmats og raunhæf áætlun gerð til lausnar á uppsöfnuðum vanda sjúkrahúsanna. Verði nauðsynlegt fjármagn til hátæknisjúkrahúsanna í Reykjavík ekki tryggt verða stjórnvöld að axla þá pólitísku ábyrgð að ákveða hvert þjónustustig þeirra á að vera, en ljóst er að ekki er unnt að halda því óbreyttu öllu lengur miðað við þær fjárveitingar sem stefnt er að. Ríkisstjórnin hefur ekki axlað þessa ábyrgð en minni hlutinn leggur áherslu á að saman fari ábyrgð á þjónustustigi og ábyrgð á fjárveitingum.
    Þá gagnrýnir minni hlutinn að í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 1999 er ekki tekið tillit til kostnaðar vegna hækkana launa í kjölfar nýgerðra kjarasamninga hjá heilsugæslunni í Reykjavík og er því fyrirsjáanlegt að halli mun verða á henni sem þeirri hækkun nemur.

Aldraðir og öryrkjar.
    Minni hlutinn átelur einnig harðlega að 55% af framlögum í Framkvæmdasjóð aldraðra er tekinn í rekstur, hátt í 200 aldraðir í Reykjavík einni bíða í brýnni þörf eftir hjúkrunarrým­um og er því veruleg þörf fyrir aukið fé til byggingar hjúkrunarheimila. Einnig er alls óvið­unandi hve mjög lífeyrisgreiðslur almannatrygginga hafa dregist aftur úr lágmarkslaunum. Árið 1997 hækkuðu lágmarkslaun um 13% miðað við hækkun grunnlífeyris sem hækkaði um tæp 4%. Einnig er mjög gagnrýnisvert að ekki kemur fram í fjárlögum nein fjárhæð til þess að afnema í áföngum tekjutengingu tekjutryggingar við tekjur maka, sem heilbrigðisráðherra hefur boðað.
    Guðný Guðbjörnsdóttir er áheyrnarfulltrúi í heilbrigðis- og trygginganefnd og er hún sam­þykk áliti þessu.

Alþingi, 4. des. 1998.

Össur Skarphéðinsson, form.
Ásta R. Jóhannesdóttir.
Bryndís Hlöðversdóttir.


Fylgiskjal VI.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá iðnaðarnefnd.    Iðnaðarnefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefna­sviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október 1998. Á fund nefndarinnar komu Jón Ingimarsson skrifstofustjóri og Krist­mundur Halldórsson deildarstjóri frá iðnaðarráðuneyti, Kristján Jónsson forstjóri og Eiríkur Briem fjármálastjóri frá Rafmagnsveitum ríkisins, Hallgrímur Jónasson og Karl Friðriksson frá Iðntæknistofnun og Valgarður Stefánsson frá Orkustofnun.
    Í frumvarpinu eru heildargjöld iðnaðarráðuneytis áætluð 2.024 millj. kr. og nema sértekj­ur 27% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gert er ráð fyrir að rekstrargjöld ráðuneytisins hækki um 50 millj. kr. milli ára og munar þar mestu um nokkra hækkun gjalda og tekna hjá Einkaleyfastofu og 10 millj. kr. aukið framlag til Iðntæknistofnunar Íslands. Þá hækka neyslu- og rekstrartilfærslur um 113 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir 50 millj. kr. hækkun á framlagi í Orkusjóð.
    Í máli fulltrúa Iðntæknistofnunar kom fram að rekstri stofnunarinnar hefði nú verið skipt upp í tvennt. Er þar annars vegar um að ræða upplýsinga- og frumkvöðlasvið og hins vegar tækniþróunar- og fræðslusvið. Hefur reksturinn verið þungur undanfarin ár og kemur sífellt stærri hluti af rekstrarfé frá sértekjum, en ríkisframlag er u.þ.b. fjórðungur af rekstrarfé stofnunarinnar. Þá bentu þeir á að Iðntæknistofnun gerði samstarfssamning við Háskólann á Akureyri árið 1993 um að efla rannsóknir og vöruþróun á sviði framleiðslutækni og mat­vælatækni. Vann starfsmaður að verkinu á árunum 1993 og 1994, en eftir að hann hætti hefur ekki verið ráðið í starfið vegna fjárskorts. Óskuðu fulltrúar stofnunarinnar eftir fjárframlagi til að ráða til starfa sérfræðing á sviði matvæla- og framleiðslutækni á Akureyri.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir niðurgreiðslu á rafhitun að upphæð 500 millj. kr. á árinu 1999 sem er um 63 millj. kr. hækkun. Stafar hækkunin af því að gjaldskrá Landsvirkjunar hækkaði um 1,8% um síðustu áramót og var ákveðið að sú hækkun skyldi ekki leiða til hækk­unar á orkuverði á þeim svæðum sem njóta niðurgreiðslu á rafhitun. Þá er gert ráð fyrir að framlag til styrkingar dreifikerfi í sveitum verði 150 millj. kr. og hækkar það um 40 millj. kr. milli ára. Framlagið er alfarið kostað af arðgreiðslum frá Rafmagnsveitum ríkisins í ríkis­sjóð. Fram kom í máli fulltrúa Rarik að félagslegur þáttur í rekstri fyrirtækisins væri allt of mikill, en fyrirtækið metur að það greiði 500 millj. kr. til jöfnunar á orkuverði, aðallega vegna stofnkerfa og dreifikerfa í sveitum. Iðnaðarnefnd vekur athygli á þessum atriðum er tengjast starfsemi Rarik.
    Í máli fulltrúa Orkustofnunar kom fram að nú er gert ráð fyrir 50 millj. kr. hækkun á fram­lagi í Orkusjóð. Iðnaðarnefnd leggur áherslu á nauðsyn þess að rannsóknir á sviði orkumála verði efldar.
    Loks vill nefndin láta þess getið að henni hafa ekki enn borist upplýsingar frá iðnaðar­ráðuneyti sem óskað var eftir um sundurliðanir á óskiptum liðum frá árinu sem nú er að líða. Mun nefndin kynna sér upplýsingarnar þegar þær berast og áskilja nefndarmenn sér rétt til að koma á framfæri athugasemdum vegna þeirra.
    Svavar Gestsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 30. nóv. 1998.Stefán Guðmundsson, form.


Guðjón Guðmundsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Hjálmar Árnason.Fylgiskjal VII.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 (04 Landbúnaðarráðuneyti).

Frá landbúnaðarnefnd.    Landbúnaðarnefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar mál­efnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefnd­ar frá 8. október 1998.
    Fékk nefndin á sinn fund Ingimar Jóhannsson og Guðmund Sigþórsson frá landbúnaðar­ráðuneyti og skýrðu þeir þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess. Þá komu á fund nefndarinnar Guðjón Kristinsson frá ÍSTEX og Bjarni Stefánsson og Arvid Kro frá Félagi íslenskra loðdýrabænda.
    Nefndin gerir ekki sérstakar athugasemdir en einstakir nefndarmenn munu koma fram at­hugasemdum sínum við 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins.
    Sigríður Jóhannesdóttir og Hjálmar Jónsson skrifa undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.
    Egill Jónsson, Árni M. Mathiesen og Magnús Stefánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. nóv. 1998.

Guðni Ágústsson, form.
Guðjón Guðmundsson.
Lúðvík Bergvinsson.
Ágúst Einarsson.
Hjálmar Jónsson, með fyrirvara.
Sigríður Jóhannesdóttir, með fyrirvara.
Fylgiskjal VIII.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá meiri hluta menntamálanefndar.    Menntamálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar mál­efnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefnd­ar frá 8. október 1998.
    Nefndin fékk á sinn fund frá menntamálaráðuneyti Örlyg Geirsson skrifstofustjóra og Gísla Magnússon deildarstjóra og Leif Eysteinsson viðskiptafræðing frá fjármálaráðuneyti. Frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni kom Einar Sigurðsson landsbókavörður og frá Skólameistarafélaginu Margrét Friðriksdóttir og Sölvi Sveinsson. Þá komu Þór Magnús­son og Guðný G. Gunnarsdóttir frá Þjóðminjasafni Íslands og Þórir Ólafsson og Guðmundur Ragnarsson frá Kennaraháskóla Íslands.
    Þeir fjárlagaliðir sem snúa að menntamálum voru ræddir ítarlega á fundum nefndarinnar.
    Fram kemur í minnisblaði frá menntamálaráðuneytinu, dags. 17. nóvember 1998, að kostnaðarhækkanir vegna nýrra kjarasamninga hafi verið vanáætlaðar þegar framlög til framhaldsskólanna voru ákveðin. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið1998 og frumvarpi til fjárlaga fyrir 1999 er gert ráð fyrir 120 millj. kr. til þess að leiðrétta þetta vanmat. Enn þá er þó óleystur vandi sem svarar til 113,9 millj. kr. Menntamálanefnd telur brýnt að leitað verði allra leiða til að finna ásættanlega lausn á málinu. Nefndin ítrekar mikilvægi þess að allar forsendur séu réttar svo að nýtt fyrirkomulag við notkun reiknilíkans geti sannað ágæti sitt.
    Í viðræðum við fulltrúa Kennaraháskóla Íslands kom fram að gerð reiknilíkans fyrir skól­ann er í burðarliðnum. Skólinn hefur haft frumkvæði í fjarkennslu og um árabil hefur verið boðið upp á fjarnám í grunnnámi, framhaldsnámi og endurmenntun. Frá árinu 1993 hefur fjarkennslan í vaxandi mæli farið fram um tölvunet og á þessu skólaári er tæpur þriðjungur stúdenta við Kennaraháskólann innritaður í fjarnám. Hugmyndir eru uppi um að fjarnám verði einnig í boði fyrir þá sem búa í þéttbýli.
    Menntamálanefnd hefur lagt áherslu á að auknu fé þurfi að verja til starfsmenntunar kenn­ara og fagnar því að nú skuli gert ráð fyrir auknum framlögum til námsefnisgerðar, endur­menntunar kennara og kennaranáms auk aukinna framlaga til sérkennslu.
    Á undanförnum árum hefur Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn fengið sérstakar fjárveitingar til að lengja opnunartíma safnsins. Þrátt fyrir þetta hefur safnið ekki talið sig geta komið að fullu til móts við kröfur stúdenta í þessum efnum, en haft opið lengur á próf­tíma hvers missiris. Að mati safnsins vantar um það bil 14 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til að unnt verði að hafa það opið til kl. 22 virka daga og sunnudaga að auki. Nauðsynlegt er að Háskóli Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn leysi þetta mál sín á milli og þá er eðlilegt að gerð sé úttekt á kostnaðinum.
    Menntamálanefnd hefur borist erindi frá Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem bent er á nauðsyn þess að stækka strengjasveit hljómsveitarinnar. Nefndin beinir því til fjárlaganefnd­ar að hún athugi hvort unnt er að koma til móts við þessar óskir.

Alþingi, 26. nóv. 1998.

Sigríður A. Þórðardóttir, form.
Hjálmar Árnason.
Tómas Ingi Olrich.
Arnbjörg Sveinsdóttir.
Ólafur Örn Haraldsson.
Árni Johnsen.


Fylgiskjal IX.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá minni hluta menntamálanefndar.    Um leið og minni hlutinn tekur undir ýmsar af athugasemdum meiri hlutans vill hann þó ítreka eftirfarandi atriði:
    1. Stóraukna fjármuni þarf til menntakerfisins. Samkeppnishæfni þjóðarinnar mun á næstu áratugum ráðast ekki hvað síst af gæðum skólastarfs og menntunar. Arðsemi þess fjár sem varið er til menntamála er því mikil.
    Einnig er rétt að ítreka mikilvægi lista- og menningarstarfs í um allt land. Öflugt menn­ingarlíf og almenn þátttaka í því er mikilvægur þáttur uppeldis, lífshamingju og sköpunar­gleði þjóðarinnar. Aukið fé til lista- og menningarmála er einnig liður í jákvæðri byggðaþró­un auk þess að styrkja mikilvægustu forsendu sjálfstæðis okkar.
    2. Greiðslustaða framhaldsskólanna gagnvart ríkissjóði var neikvæð um tæpan hálfan milljarð kr. fyrstu ellefu mánuði ársins, sbr. minnisblað til menntamálanefndar frá 19. nóvember 1998. Það sýnir hve forsendur vegna framhaldsskólanna við fjárlagagerð fyrir árið 1998 voru langt frá veruleikanum bæði hvað varðar nýtt hlutverk skólanna við sérkennslu, svo og almenna kennslu. Bæði virðist hafa verið um mistök og verulegar vanáætlanir að ræða. Þrátt fyrir að í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár og í frumvarpi til fjárlaga ársins 1999 sé gert ráð fyrir nokkrum hækkunum til að mæta því vanmati sem setur svip sinn á stöðu skólanna í ár er ljóst að fjárþörf skólanna er langt umfram þær áætlanir. Það er nauðsynlegt að fjárlaganefnd og Alþingi bregðist við þessari staðreynd svo að framhaldsskólunum verði unnt að framfylgja lögum um framhaldsskóla og að standa við gerða kjarasamninga.
    3. Kennaraháskóli Íslands fer fram á mjög auknar fjárveitingar vegna fjárlagaársins 1999, sbr. bréf til fjárlaganefndar dags. 3. nóvember 1998. Rök skólans fyrir aukinni fjárþörf um­fram það sem skólarnir fjórir sem sameinuðust í KHÍ hafa fengið, þar sem þrír af skólunum voru flokkaðir sem framhaldsskólar, eru m.a. þau að vinnuskylda framhaldsskólakennara og háskólakennara er ólík, aukinn kostnaður er vegna dómnefndavinnu, námsskrárgerðar, kennsluskrárgerðar, skipulagsvinnu og biðlauna fyrrverandi skólastjóra. Þá er ljóst að um vanmat hefur verið að ræða vegna kjarasamninga, rannsóknarorlofa og vegna vinnumatssjóðs vegna rannsókna en við sameiningu skólanna öðluðust 30 kennarar til viðbótar rétt til greiðslu. Bregðast þarf við breyttum aðstæðum skólans þannig að hann geti byggst upp og staðið undir nafni sem öflugt móðurskip í kennslu og uppeldismálum.
    4. Minni hlutinn styður eindregið beiðni Háskóla Íslands og stúdenta um aukið fé til þess að hægt verði að lengja opnunartíma Þjóðarbókhlöðunnar. Á þessu ári og því næsta er veitt samtals 4 millj. kr. til þess að safnið geti haft lengur opið og hefur það nýst stúdentum að nokkru yfir prófatímann. Þessi upphæð dugar þó hvergi nærri til þess að opnunartíminn geti talist ásættanlegur. Safnið á að þjóna öllum almenningi auk námsmanna, en opnunartíminn er þannig að afar erfitt er fyrir fólk að nýta sér þjónustuna utan almenns vinnutíma. Það leið­ir til þess að þeir sem reyna að sinna ýmiss konar fræðum með vinnu sinni lenda í mestu erfiðleikum við að afla sér heimilda og annarra gagna. Það er nöturlegt að hið nýja og glæsilega safn skuli veita verri þjónustu en hið gamla og virðulega Landsbókasafn. Samkvæmt áætlunum safnsins kostar 14 millj. kr. til viðbótar að verða við óskum stúdenta um lengri opnunartíma. Þessi fjárhæð felur þó í sér að ekki verður um almenna þjónustu við safngesti að ræða á þeim tíma sem bætt verður við og ekki er gert ráð fyrir að þjóðdeildin verði opin, en þangað eiga mjög margir fræðimenn erindi. Hér er því alls ekki um varanlega lausn að ræða. Það er brýnt að leysa vanda Þjóðarbókhlöðunnar og stúdenta við Háskóla Íslands sem allra fyrst, jafnframt því að tryggja að safnið geti þjónað bæði sem almennt safn og Háskóla­bókasafn, með eðlilegan opnunartíma.
    5. Minni hlutinn tekur undir ítrekaðar óskir Bandalags sjálfstæðra atvinnuleikhúsa og hópa að fjármagn vegna starfssamninga atvinnuleikhópa fái sérstakan fjárlagalið en verði ekki til að skerða almenna liðinn ,,Starfsemi atvinnuleikhópa“.
    Þá er ljóst að ef raunverulegur vilji stendur til þess að samþykkja og framkvæma tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum þarf mun meira fjármagn til ýmiss konar lista og menningarstarfsemi, einkum víða úti um landið, en forustufólk í lista- og menningarlífi landsbyggðarinnar vísar nú þegar í efni tillögunnar til stuðnings óskum um fjármagn til menningarstarfsemi.
    6. Þá vekur minni hlutinn athygli á tilhneigingu til sjóðamyndunar í menntamálaráðuneyt­inu þar sem dregið er saman til endurúthlutunar fé af ýmsum fjárlagaliðum og stofnunum á vegum ráðuneytisins. Í fjárlögum ársins í ár er liðurinn Fasteignir framhaldsskóla dæmi um þetta en í ár heita nýju sjóðirnir Framkvæmd skólastefnu sem saman stendur af fé sem dregið er af fjárlagaliðunum Mati á skólastarfi, 19 millj. kr., Námsskrárgerð, 30 millj. kr., og Grunnskólar almennt — Sérstök fræðsluverkefni, 7 millj. kr., auk nýs fjár og af öðrum nýjum sjóði, Íslenskt upplýsingasamfélag, sem í er flutt fé frá ýmsum stofnunum og fjárlagaliðum, af liðnum Námsgagnastofnun 15 millj. kr., af liðnum Kennaraháskóla Íslands 5 millj. kr., af liðnum Framhaldsskólar, stofnkostnaður 15 millj. kr., af liðnum Framhaldsskólar, almennt, Endurmenntun 9 millj. kr. og Þróunarsjóður 6 millj. kr., auk nýs framlags.
    Svavar Gestsson er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hann samþykkur þessu áliti.

Alþingi 26. nóv. 1998.Svanfríður Jónasdóttir.


Kristín Ástgeirsdóttir.


Guðný Guðbjörnsdóttir.
Fylgiskjal X.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá samgöngunefnd.


    
    Samgöngunefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga, nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis og bréf fjárlaganefndar frá 8. október 1998.
    Nefndin fékk á sinn fund Jón Birgi Jónsson ráðuneytisstjóra og Auði Eyvinds frá sam­gönguráðuneyti og skýrðu þau þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess. Þá komu á fund nefndarinnar Magnús Oddsson ferðamálastjóri frá Ferðamálaráði, Þorgeir Pálsson og Sigrún Traustadóttir frá Flugmálastjórn, Hermann Guðjónsson og Jón Leví Hil­marsson frá Siglingastofnun Íslands og Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri frá Vegagerðinni.
    Nú eru í gildi samþykktar samgönguáætlanir, vegáætlun, langtímaáætlun í vegagerð, flug­málaáætlun og hafnaáætlun sem ætlunin er að endurskoða á þessu þingi. Athugun nefndar­innar beindist einkum að því hvort áætlaðar fjárveitingar samkvæmt fjárlagafrumvarpi væru í samræmi við samgönguáætlanirnar eins og þær eru, samþykktar af Alþingi. Niðurstaðan er að fjárveitingar eru fyllilega eins og gert er ráð fyrir í þessum áætlunum.
    Heildartekjur samkvæmt vegáætlun verða eins og gert hafði verið ráð fyrir. Tekjur af bensíngjaldi fara lækkandi, hugsanlega vegna sparneytnari bifreiða, en þungaskatturinn hefur þó vegið upp á móti lækkuninni. Auknar tekjur af þungaskatti endurspegla að líkindum aukin umsvif í þjóðfélaginu, meðal annars við verktakastarfsemi. Nefndin vekur athygli á athuga­semdum sem borist hafa um áhrif af breytingum á þungaskatti á afkomu þeirra sem aka á lengri leiðum. Samgöngunefnd leggur áherslu á að fundin verði viðunandi lausn á því máli.
    Hækka þarf fjárveitingu til liðs 6.72 Hafnamannvirki (fjármagnskostnaður), Sandgerði um 5,3 millj. kr. að áliti Siglingastofnunar Íslands, þar sem lánið verður greitt upp á næsta ári og fyrirsjáanlegt er að fjárveiting samkvæmt frumvarpinu nægi ekki. Eðlilegt er að breyta heiti fjárlagaliðarins Ferjubryggjur í Ísafjarðardjúpi, enda er áætlað að fjárveitingar af þeim lið renni til viðfangsefna utan Ísafjarðardjúps. Yrði þá heiti fjárlagaliðarins Ferjubryggjur. Mikil þörf er á því að hækka þann lið vegna mjög aðkallandi verkefna, annars vegar ferju­bryggjunnar í Mjóafirði á Austurlandi og hins vegar ferjubryggjunnar í Flatey á Breiðafirði. Þessi mannvirki liggja undir skemmdum og hætta er á að þau geti hrunið í slæmu veðri. Fjár­veiting til þessa liðar þyrfti að hækka um 10 millj. kr. í fjárlögum, auk þess sem ónotaðar fjárveitingar alls að upphæð 6 millj. kr. eru til staðar í fjárlögum þessa árs.
    Varðandi málefni Flugmálastjórnar bendir samgöngunefnd á að tekjur flugmálaáætlunar hafa orðið eins og ráð var fyrir gert. Áætlunin byggðist á væntingum um verulega aukningu flugumferðar sem raun hefur orðið á. Þá er vakin athygli á því að samkvæmt gildandi fjárlög­um voru 9 millj. kr. veittar til nýrra verkefna hjá stofnuninni. Í fyrirliggjandi frumvarpi er hins vegar ekki gert ráð fyrir slíkri fjárveitingu. Komi ekki til hennar verður að hækka sér­tekjur Flugmálastjórnar með sérstakri breytingu á gjaldskrá. Þá vöktu fulltrúar Flugmála­stjórnar athygli á því að óvíst væri hvort framlag til stofnunarinnar vegna breytinga á ið­gjaldagreiðslum til lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins nægði til að mæta útgjöldum.
    Heildarframlög til ferðamála eru 140 millj. kr. Tekjur af ferðaþjónustu í heild hafa aukist mjög á síðustu árum. Ferðamannatíminn hefur lengst og tekjur ferðaþjónustunnar utan sumartímans eru nú hlutfallslega mun meiri en áður. Þessi viðbót hefur þó ekki skilað sér til ferðaþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Samgöngunefnd lýsir áhyggjum sínum af þessari þróun og leggur til að 2 millj. kr. verði varið til viðbótar til Ferðamálaráðs, til þess verkefnis að skýra orsakir þessa og koma með tillögur til úrbóta.
    Nefndarmennirnir Ásta R. Jóhannesdóttir og Ragnar Arnalds gera þann fyrirvara við álit­ið að athugasemdir þeirra við afgreiðslu vega-, flug- og hafnaáætlun séu enn í fullu gildi.

     Kristján Pálsson og Stefán Guðmundsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. nóv. 1998.


Einar K. Guðfinnsson, form.
Guðmundur Árni Stefánsson, með fyrirvara.
Egill Jónsson.
Ragnar Arnalds, með fyrirvara.
Árni Johnsen.
Magnús Stefánsson.
Ásta R. Jóhannesdóttir, með fyrirvara.


    Guðmundur Árni Stefánsson, Ragnar Arnalds og Ásta R. Jóhannesdóttir gera eftirfarandi bókun við álitið:
    „Ljóst er að framlög til samgöngumála eru naumt skömmtuð í fyrirliggjandi fjárlagafrum­varpi. Enda þótt ríkisstjórnin áformi nú í fyrsta skipti á kjörtímabilinu, að standa við sam­þykkta vegáætlun með fjárframlögum á fjárlögum, þá er óhjákvæmilegt en árétta alvarlega athugasemdir undirritaðra við ýmsa ágalla þeirrar vegáætlunar, m.a. varðandi framkvæmdir á næsta fjárhagsári. Það verður gert við umræðu málsins. Framlög til flugmála fara í stór­auknum mæli til rekstrar og viðhalds, en æ minni hluti til nauðsynlegra og brýnna nýfram­kvæmda í Reykjavík og víða út um land. Það er óheppileg þróun.
    Stór verkefni bíða á vettvangi hafnargerðar og enn er ekki fram komin á Alþingi endur­skoðuð hafnaáætlun, sem vænst var í þingbyrjun. Það er því allljóst að framlög á fjárlögum til hafnargerðar á næsta ári munu skerða verulega nauðsynlegar endurbætur á gildandi hafna­áætlun strax á því ári og mikilvægar hafnarframkvæmdir munu eiga erfitt uppdráttar. Fram­lög til ferðamála eru skorin við nögl, þegar til þess er litið að ferðamál eru vaxtarbroddur í atvinnulífi í dreifbýli jafnt sem þéttbýli. Fjárlagafrumvarpið sýnir ekki skilning á auknu mikilvægi þessarar atvinnugreinar.“Fylgiskjal XI.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 (05 Sjávarútvegsráðuneyti).

Frá sjávarútvegsnefnd.    Sjávarútvegsnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október 1998. Nefndin fékk á sinn fund frá sjávarútvegsráðu­neyti Árna Kolbeinsson ráðuneytisstjóra og Dórótheu Jóhannsdóttur. Þá komu á fund hennar Jóhann Sigurjónsson og Vignir Thoroddsen frá Hafrannsóknastofnuninni.
    Í máli fulltrúa Hafrannsóknastofnunar kom fram að fjármuni muni skorta til brýnna verk­efna á næsta ári miðað við þær tillögur sem fyrir liggja í frumvarpi til fjárlaga. Sem ástæðu vandans bentu þeir fyrst og fremst á þær breytingar sem urðu á launakerfi opinberra starfs­manna við síðustu kjarasamninga. Í þeim var samið um að greiðslur fyrir óunna yfirvinnu yrðu færðar inn í grunnlaun opinberra starfsmanna. Hækkun grunnlauna hefur áhrif á hækkun yfirvinnugreiðslna og lífeyrisskuldbindinga stofnana ríkisins. Á móti þessari hækkun átti að stefna að því að draga úr yfirvinnu opinberra starfsmanna. Svigrúm Hafrannsóknastofnunar­innar til þess er takmarkað og þess vegna koma þær breytingar sem kjarasamningarnir höfðu í för með sér hart niður á rekstri stofnunarinnar. Hver yfirvinnustund er orðin mun dýrari en sem nemur umsömdum prósentuhækkunum á launum. Á þessu ári hefur aukakostnaði vegna kjarasamninganna verið mætt með niðurskurði á rannsóknum og annarri vísindastarfsemi auk þess sem stofnunin mun verða rekin með nokkrum halla. Ekki er tekið á vandamálinu í frum­varpi til fjárlaga þar sem ekki er gert ráð fyrir auknum framlögum vegna launakostnaðar til samræmis við þær launahækkanir sem orðið hafa. Það er mat fulltrúa stofnunarinnar að vanta muni um 60–65 millj. kr. til að endar nái saman.
    Sjávarútvegsnefnd telur brýnt fyrir Íslendinga að halda úti eins öflugu rannsóknastarfi á fiskstofnum og lífríki hafsins og nokkur kostur er. Nefndin vill því vekja athygli fjárlaga­nefndar á því að taka þarf afstöðu til þess hvort Hafrannsóknastofnunin eigi að mæta auknum launakostnaði með niðurskurði á vísindastarfsemi sinni eða hvort auka eigi framlög til henn­ar. Sjávarútvegsnefnd leggst gegn því að dregið verði úr rannsóknum.
    Fulltrúar sjávarútvegsráðuneytis tóku undir þessi sjónarmið Hafrannsóknastofnunarinnar og bentu á að sama vandamál sé hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
    Þá vill sjávarútvegsnefnd benda á að í frumvarpinu er hvorki gert ráð fyrir fjármunum til framkvæmdar á þingsályktun Alþingis um rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á hafsbotninn né til framkvæmdar á þingsályktun Alþingis um könnun á hagkvæmni kalkþörungavinnslu. Nefndin leggur til að fjármunum verði veitt til þessara verkefna.
    Hjálmar Árnason og Stefán Guðmundsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. nóv. 1997.Kristinn H. Gunnarsson,     form.


Árni R. Árnason, varaform.


Vilhjálmur Egilsson.

Einar Oddur Kristjánsson.


Guðmundur Hallvarðsson.


Lúðvík Bergvinsson.


Svanfríður Jónasdóttir.Fylgiskjal XII.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.    Umhverfisnefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar mál­efnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefnd­ar frá 8. október 1998.
    Nefndin fékk á sinn fund Þórð H. Ólafsson, skrifstofustjóra í umhverfisráðuneyti og Magnús Jónsson veðurstofustjóra.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að rekstrargjöld umhverfisráðuneytisins hækki um 104 millj. kr. frá fjárlögum þessa árs. Helstu breytingarnar eru 25 millj. kr. hækkun á framlögum til Landmælinga Íslands vegna flutnings stofnunarinnar til Akraness og hækkun á útgjöldum aðalskrifstofu um 16,5 millj. kr., m.a. vegna nýrra starfa og stærra húsnæðis.
    Fram komu óskir um að umhverfisráðuneytið léti nefndinni í té afrit af bréfum Akranes­bæjar til ráðuneytisins varðandi flutninga Landmælinga Íslands til Akraness og af samkomu­lagi um stofnun skrifstofu PAME á Íslandi. Þá var óskað eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um úthlutun styrkja til fráveituframkvæmda og um stöðu Rannsóknarstöðvar á Kvískerjum.
    Í máli veðurstofustjóra kom fram að Veðurstofan verður rekin með nokkrum halla á þessu ári. Sagði hann það m.a. stafa af nýjum kjarasamningum sem haft hefðu í för með sér umtals­verðar launahækkanir. Þá kvað hann miklar tækniframfarir leiða til þess að mikilvægt væri að fjárfesta í tækjakosti til notkunar í framtíðinni. Benti hann í því sambandi sérstaklega á búnað til móttöku gervihnattagagna. Vekur meiri hlutinn athygli fjárlaganefndar á málinu.
    Árni M. Mathiesen skrifar undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. nóv. 1998.

Ólafur Örn Haraldsson, form.
Ísólfur Gylfi Pálmason.
Tómas Ingi Olrich.
Kristján Pálsson.
Árni M. Mathiesen, með fyrirvara.


Fylgiskjal XIII.

Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 (Umhverfisráðuneyti).

Frá minni hluta umhverfisnefndar.    Undirritaður, sem skipar minni hluta umhverfisnefndar, hefur á nokkrum undangengnum þingum staðið að séráliti um fjárlagatillögur sem tengjast umhverfisráðuneytinu. Fjárlaga­frumvarp fyrir árið 1999 sver sig í ætt við frumvörp síðustu ára og gefur enn sem fyrr tilefni til athugasemda sem ekki koma fram í áliti meiri hluta nefndarinnar.
    Þrátt fyrir ýmsar breytingar á framsetningu og skýringum við fjárlagafrumvarp á undan­förnum árum, sem margar hverjar geta talist til bóta, er í athugasemdum með frumvarpinu lítið fjallað um stöðu og þróun einstakra málaflokka. Þetta á meðal annars við um umhverfis­mál. Endurspeglar þetta væntanlega undirbúningsferlið við gerð frumvarpsins og stefnu eða stefnuleysi ríkisstjórnar á umræddum málasviðum. Hefur undirritaður ítrekað vakið athygli fjárlaganefndar á því hvernig háttað er undirbúningi og framsetningu að þessu leyti í sam­bandi við fjárlagagerð annars staðar á Norðurlöndum, meðal annars í Noregi. Veldur þetta því meðal annars að erfitt er að sjá hvaða hugsun býr að baki fjárlagatillögum til einstakra ráðuneyta og verkefna og hvort þær tengjast einhverri framtíðarsýn. Sé litið til umhverfis­mála virðist framtíðarstefna brotakennd eða ekki fyrir hendi.
    Nóg er af dæmum þessu til rökstuðnings. Undirritaður hvetur fjárlaganefnd til að líta yfir umfjöllun, tillögugerð og málsmeðferð umhverfisráðuneytis og fjárlaganefndar í málefnum Hollustuverndar ríkisins í tengslum við fjárlagagerð á þessu kjörtímabili. Þar er enga sam­fellu að finna þrátt fyrir störf stjórnskipaðra nefnda og undirnefnda sem fjölluðu um málefni stofnunarinnar og skiluðu um þau álitsgerðum. Sú vinna virðist eingöngu hafa þjónað tíma­bundnu friðþægingarhlutverki þar eð hún endurspeglast ekki í fjárlagatillögum. Ekki ósvipað er þessu farið í fleiri stofnunum þótt tólfunum kasti hjá Hollustuvernd.
    Hér fara á eftir beinar tillögur og ábendingar um einstaka liði fjárlagafrumvarpsins að því er varðar umhverfisráðuneytið:

1. Náttúruvernd ríkisins.
    Eindregið er tekið undir óskir Náttúruverndar ríkisins um auknar fjárveitingar eins og þær voru kynntar fjárlaganefnd 5. nóvember 1998. Þar er m.a. óskað eftir 50 millj. kr. framlagi samtals næstu þrjú ár vegna breytinga á rekstri þjóðgarðanna í Skaftafelli og Jökulsárgljúfr­um. Þar af er gert ráð fyrir 17 millj. kr. framlagi á árinu 1999. Ljóst er að slíkar fjárveitingar eru forsenda þess að ráðist verði í umræddar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi tjaldsvæða í þjóðgörðunum, en þær tillögur virðast einkum settar fram vegna fjárhagsþrenginga stofnun­arinnar. Þá liggur fyrir beiðni frá Náttúruvernd um 3,3 millj. kr. viðbótarfjármagn til land­vörslu, 3,3 millj. kr. vegna ráðningar sérfræðings á sviði eftirlits og mannvirkjagerðar, 3,8 millj. kr. til stofnkostnaðar við hús í friðlandi að Fjallabaki og til vinnu að verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn í Skaftafelli 4,3 millj. kr. Allt eru þetta brýn viðfangsefni. Auk þessa hefur Náttúruvernd ríkisins vakið athygli á mikilli uppsafnaðri fjárþörf vegna uppbyggingar á frið­lýstum svæðum sem stofnunin metur vera 158 millj. kr. Tengist þörfin ekki síst heimsóknum ferðamanna og aðgengi að svæðunum og um leið verndun þeirra.

2. Hollustuvernd ríkisins.
    Þar virðist vera mikil þörf á fleiri stöðum en ráð er fyrir gert í fjárlagafrumvarpi. Tengist þörfin öllum helstu sviðum innan stofnunarinnar. Tækjabúnaður Hollustuverndar er um margt úreltur og fjárveiting leyfir ekki lágmarksendurnýjun. Á árinu voru samþykkt ný lög um hollustuhætti en engin úttekt liggur fyrir um nauðsyn fjárveitinga af þeim sökum. Með lagabreytingunum voru m.a. gerðar breytingar á stjórnunarfyrirkomulagi á þessari mikilvægu ríkisstofnun sem hætt er við að verði til að veikja enn stöðu hennar frá því sem áður var.

3. Skipulagsstofnun.
    Brýnt er að tryggja nægjanlegt fjármagn til vinnu að gerð svæðis- og aðalskipulags á grundvelli nýrra skipulags- og byggingarlaga sem sett voru á árinu 1997. Þar er um að ræða lögbundin samstarfsverkefni Skipulagsstofnunar og sveitarfélaganna. Viðbótarfjárþörf um­fram tölur fjárlagafrumvarps eru vegna yfirstandandi samningsbundinna verkefna 20 millj. kr. (10 millj. kr. vegna aðalskipulagsvinnu og 10 millj. kr. vegna svæðisskipulags).
    Við þetta bætast óskir Skipulagsstofnunar og sveitarfélaga um að geta hafið vinnu við fimm ný aðalskipulagsverkefni og eitt til tvö svæðisskipulagsverkefni á árinu 1999, áætluð fjárþörf til þessa samtals um 50 millj. kr. Alls er því viðbótarfjárþörf Skipulagsstofnunar vegna skipulagsvinnu á næsta ári um 70 millj. kr. Fáist sú fjárveiting ekki á fjárlögum næsta árs stefnir í fullkomið óefni.
    Á undanförnum árum námu tekjur af skipulagsgjaldi, sem runnu til Skipulags ríkisins, verulegum upphæðum umfram áætlanir fjárlagafrumvarps. Nægði þetta til að brúa bilið og mæta kostnaði við vaxandi viðfangsefni. Nú hafa þessar sértekjur verið teknar af án þess að á rekstrarvanda Skipulagsstofnunar sé tekið við gerð fjárlagafrumvarps. Þetta eru afar gagn­rýnisverð vinnubrögð og hlýtur fjárlaganefnd að taka á þessu og tryggja með því framgang brýnna skipulagsverkefna.

4. Veðurstofa Íslands.
    Undirritaður tekur undir ábendingar sem fram koma í áliti meiri hlutans um aukna fjárþörf Veðurstofu Íslands. Bent skal á til viðbótar því sem fram kemur í áliti meiri hlutans að Veðurstofan óskaði eftir að liðurinn „tæki og búnaður“ yrði um 50 millj. kr. en hann er sam­kvæmt frumvarpinu aðeins 14,5 millj. kr. Sótt er um 4,2 millj. kr. til rannsókna vegna veður­farsbreytinga og sýnist það hógvær beiðni miðað við vaxandi rannsóknaþörf vegna loftslags­breytinga af manna völdum. Svipuðu máli gegnir um beiðni um fjárveitingu til landupplýs­ingakerfis (3,0 millj. kr.) og til að efla hafísrannsóknir (2,0 millj. kr.).

5. Landmælingar Íslands.
    Fjárlagatillögur vegna stofnunarinnar endurspegla þá miklu erfiðleika og ringulreið sem ákvörðun um flutning stofnunarinnar til Akraness hefur í för með sér. Óvíst er að stofnunin eigi eftir að bíða þessa bætur á sama tíma og augljós þörf er fyrir mikið átak á flestum verk­sviðum hennar. Staða kortagerðar og útgáfu korta hérlendis hefur lengi verið hemill á ýmsar rannsóknir og skipulagsvinnu sem byggist á góðum kortagrunni og landrænum upplýsingum.

6. Náttúrugripasöfn.
    Vísað er til athugasemda undirritaðs í áliti vegna fjárlagafrumvarps fyrir árið 1998 (fskj. XIII. með nefndaráliti á 122. löggjafarþingi, þskj. 462). Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1999 er áfram gert ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði til Náttúrugripasafnsins í Vestmannaeyjum, án þess að ráð sé gert fyrir hliðstæðum framlögum til annarra náttúrugripasafna. Þetta brýtur gegn eðlilegri stjórnsýslu og jafnræðisreglu. Því er lagt til að stofnaður verði safnliður um slík framlög að upphæð 6 millj. kr. sem úthlutað verði af ráðuneyti að höfðu samráði við fjárlaganefnd eftir að forstöðumönnum náttúrugripasafna hefur gefist kostur á að sækja um framlög.

7. Rannsóknastöð að Kvískerjum.
    Glöggar upplýsingar vantar um stöðu málsins. Þótt hér sé um gott mál að ræða almennt séð virðist skorta á skýr málstök að því er snertir undirbúning og jafnvel markmið með upp­byggingu rannsóknaaðstöðu á Kvískerjum. Aðalatriði sýnist vera að ná samkomulagi um að jörðin Kvísker með gögnum og gæðum verði í framtíðinni í opinberri eigu og undir verndar­skipulagi. Rannsóknaaðstaða verði á staðnum og föst búseta eftirlitsmanns. Þannig yrði hið merka starf Kvískerjafólksins á þessari öld best tengt við framtíðina og byggðin í Öræfum um leið treyst til frambúðar.

8. Ýmis umhverfisverkefni — styrkir af lið 14-190 (undirliður 1.23).
    Undirritaður mælti ásamt öðrum nefndarmönnum með styrkveitingum af þessum lið, til Fuglaverndarfélags 200 þús. kr., Náttúruverndarsamtaka Íslands 1,0 millj. kr., og til rann­sókna á þrávirkum klórkolefnissamböndum í fuglum 2,3 millj. kr.
    Fyrir nefndinni lá einnig umsókn frá Félagi um vernd hálendis Austurlands sem sótti um styrk að upphæð 750 þús. kr. til að undirbyggja baráttu sína fyrir umhverfisvernd. Minni hlutinn studdi þessa umsókn en meiri hlutinn lagðist gegn henni. Harmar undirritaður þessa afstöðu sem er í algjöru ósamræmi við þá stefnu sem samþykkt var á vettvangi umhverfisráð­herra Evrópuríkja í Árósum í júní sl., að stuðla að öflugu starfi áhugasamtaka um umhverfis­vernd og aðild þeirra að opinberri stefnumörkun. Er þetta í annað sinn sem meiri hlutinn tek­ur ekki undir umsókn frá þessum samtökum.

Alþingi, 2. des. 1998.Hjörleifur Guttormsson.

Fylgiskjal XIV.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá utanríkismálanefnd.    Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. þingskapa og bréf fjárlaganefndar frá 8. október 1998. Nefndin fékk á sinn fund Helga Ágústsson, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, Stefán Hauk Jóhannesson, skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu, og Harald Aspelund einnig frá utanríkisráðuneytinu.
    Í áliti sínu til fjárlaganefndar á undanförnum árum hefur utanríkismálanefnd minnt á mikilvægi þess að málefni utanríkisþjónustunnar séu til stöðugrar endurskoðunar í ljósi sí­breytileika aðstæðna og með það fyrir augum að nýta takmarkaðan mannafla og fjármagn sem best. Í því sambandi hefur nefndin bent á að utanríkisráðuneytið væri þungamiðja utan­ríkisþjónustunnar og það yrði að geta tryggt sendiráðunum þann stuðning sem þörf er á. Nauðsynlegt væri því að huga að eðlilegri uppbyggingu aðalskrifstofu ráðuneytisins um leið og umsvif utanríkisþjónustunnar eru aukin erlendis.
    Þann 16. maí 1997 skipaði utanríkisráðherra nefnd til að gera úttekt á því hvernig utan­ríkisþjónustan geti best sinnt hlutverki sínu í breyttu umhverfi alþjóðastjórnmála og við­skipta. Í nefndinni áttu m.a. sæti nokkrir nefndarmenn í utanríkismálanefnd. Í mars sl. skilaði nefndin áliti sínu um framtíð utanríkisþjónustunnar. Telur utanríkismálanefnd eðlilegt og í samræmi við sín fyrri álit um fyrirhugaðar fjárveitingar til utanríkisráðuneytisins að vekja athygli fjárlaganefndar á niðurstöðum nefndar um framtíð utanríkisþjónustunnar.
    Að öðru leyti sér utanríkismálanefnd ekki ástæðu til að gera athugasemdir við frumvarpið að þessu sinni.
    Árni M. Mathiesen var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Guðný Guðbjörnsdóttir áheyrnarfulltrúi sat fundi nefndarinnar og er samþykkt áliti þessu.

Alþingi, 26. nóv. 1998.Tómas Ingi Olrich, form.
Össur Skarphéðinsson.
Siv Friðleifsdóttir.
Margrét Frímannsdóttir.
Lára Margrét Ragnarsdóttir.
Árni R. Árnason.
Gunnlaugur M. Sigmundsson.
Ásta R. Jóhannesdóttir.