Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 445  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1999.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Vegna stærðar og umfangs fjárlaganna hafa þau víðtæk áhrif á íslenskt efnahagslíf. Þau sýna stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og ráða miklu um afkomu byggðarlaga og lífsafkomu fjölda fólks. Fjárlögin eru tæki til að gera aðstæður einstaklinga og fjölskyldna bærilegar og við núverandi aðstæður ættu þau að endurspegla skyldur stjórnvalda til að tryggja öllum landsmönnum hlut í bættum lífskjörum. Því miður gerir frumvarpið það ekki. Svartasti bletturinn er sú staðreynd að ekki skuli tekið á ranglætinu gagnvart öryrkjum og öldruðum sem hafa setið eftir meðan kjör annarra hafa batnað. Minni hlutinn leggur þunga áherslu á að hlutur þeirra verði réttur áður en fjárlög fyrir árið 1999 verða samþykkt. Annað er ekki sæmandi.
    
Þjóðhagshorfur og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.
    Efnahagsforsendur fjárlagafrumvarpsins byggjast á þjóðhagsáætlun fyrir árið 1999. Þannig er áætlað að hagvöxtur verði um 4,6% á árinu 1999 eða 0,6 prósentustigum minni en spár fyrir þetta ár gera ráð fyrir. Til samanburðar er spáð um 2,5% meðalvexti landsframleiðsl­unnar í Evrópusambandsríkjunum á árinu 1999. Þannig er ljóst að hagþróun hér á landi er umtalsvert hraðari en víða annars staðar í nágrannalöndunum enda hafa ákvarðanir stjórn­valda undanfarin missiri, m.a. á sviði skattamála, ýtt verulega undir þá miklu eftirspurnar­þenslu sem nú má sjá í íslensku efnahagslífi. Þrátt fyrir það er verðbólga talin verða fremur lítil eða um 2% og er það líklega fyrst og fremst að rekja til aukinnar samkeppni á ýmsum sviðum efnahagslífsins.
    Minni hlutinn hefur hvað eftir annað á undanförnum árum vakið athygli á ónákvæmni í spám um helstu þjóðhagsforsendur. Nægir að vísa til nefndarálita minni hlutans um fjárlaga­frumvörp fyrir árin 1997 og 1998, en þar kom m.a. fram sú skoðun minni hlutans að spár um einkaneyslu væru verulega vanmetnar miðað við áætlaða aukningu ráðstöfunartekna heim­ilanna. Sú skoðun hefur sannarlega reynst á rökum reist því að nú er komið á daginn að aukn­ing í einkaneyslunni á þessu ári er tvöfalt meiri en þjóðhagsspá gerði ráð fyrir.
    Spá þjóðhagsáætlunar um aukningu einkaneyslu og innflutnings á næsta ári vekur nokkra athygli. Samkvæmt henni mun draga verulega úr vexti einkaneyslunnar eða úr 10% á árinu 1998 í um 5% á næsta ári. Öllu athyglisverðara er þó að innflutningur mun hætta að vaxa á næsta ári ef spáin gengur eftir, en á þessu ári stefnir í að innflutningur vöru og þjónustu aukist um 22,6% en ekki 4,4% eins og lagt var til grundvallar í þjóðhagsáætlun. Minni hlutinn telur fráleitt að 5% aukning einkaneyslu sem spáð er á árinu 1999 muni ekki birtast í auknum innflutningi eins og gerst hefur undanfarin ár. Enn fremur er með hliðsjón af þróun undanfarinna mánaða fullkomlega óraunsætt að ætla að einkaneysla aukist aðeins um 5%. Að mati minni hlutans þarfnast því forsendur frumvarpsins um innflutning og einkaneyslu endurskoðunar. Slík endurskoðun gæti haft umtalsverð áhrif á tekjuhlið ríkissjóðs. Niðurstaða minni hlutans er að enn einu sinni sé um gróflega vanáætlun að ræða á tekjuhlið frum­varpsins.
    Þrátt fyrir að mörgu leyti hagstæða þróun á undanförnum árum eru nú ýmsar blikur á lofti í efnahagsmálum. Í skýrslu Seðlabankans frá 13. nóvember sl. segir m.a.: „Efnahagsþróunin hér á landi hefur að undanförnu einkennst af öflugum hagvexti, minnkandi atvinnuleysi, launahækkunum sem eru mun meiri en í nágrannalöndum, vaxandi viðskiptahalla og lágri verðbólgu. Þessi þróun gefur tilefni til að ætla að hagkerfið hafi stefnt hratt að þeim mörkum sem til lengdar geta samrýmst stöðugleika í verðlagsmálum og kallar á aðhaldssama stefnu í bæði peninga- og ríkisfjármálum.“
    Í þessum orðum felst alvarleg viðvörun sem ber að gefa gaum. Um 15% vöxtur er nú í útlánum bankakerfisins, en slíkur vöxtur peningamagns í umferð getur hæglega stefnt mark­miðinu um verðstöðugleika í hættu. Aðgengi heimilanna að lánsfé hefur aldrei verið betra en um þessar mundir sem sést best í gríðarlegri aukningu einkaneyslu og fjárfestinga. Skuldaaukning heimilanna stefnir í að verða um 43 milljarðar kr. á árinu eða um 10%. Sem hlutfall af ráðstöfunartekjum er áætlað að skuldir heimilanna muni nema um 138% í ár. Þetta sýnir hversu brýnt er að leita leiða til að stuðla að auknum sparnaði í þjóðfélaginu.
    Margt bendir til þess að samdráttarskeið sé hafið í alþjóðlegum efnahagsmálum og hætt við að áhrifa þess muni gæta að einhverju leyti í íslensku efnahagslífi á næstunni. Áfram­haldandi efnahagsbati er að verulegu leyti háður verðþróun í útflutningsframleiðslu sjávar­afurða, en afurðaverð í sjávarútvegi hefur farið verulega hækkandi á undanförnum mánuðum. Efnahagsþróunin í Asíu og Rússlandi gefur á hinn bóginn ástæðu til að ætla að afurðaverð geti farið lækkandi á komandi missirum sem óhjákvæmilega mun hafa áhrif í íslensku efna­hagslífi.
    Við þær aðstæður sem nú eru í þjóðarbúskapnum gegna aðgerðir stjórnvalda lykilhlut­verki í að halda aftur af aukningu í eftirspurn og almennum umsvifum efnahagslífsins. Aðhald í útgjöldum ríkisins er grundvallarforsenda þess að árangur náist í þeirri viðleitni að minnka viðskiptahallann sem er orðinn geigvænlegur og bein ávísun á þenslu og vaxandi skuldasöfnun þjóðarbúsins. Ríkisfjármálastefnan verður að vera samstillt peningamálastefnu ef árangur á að nást. Veruleikinn hefur reynst annar að þessu leyti síðustu missiri. Minni hlutinn sér ástæðu til að vísa sérstaklega til þriðja kaflans í haustskýrslu Seðlabankans sem fjallar um innlenda efnahagsþróun og er birtur sem fylgiskjal með þessu nefndaráliti.
    Nánar verður fjallað um efnahagsforsendur og tekjuhlið frumvarpsins við 3. umræðu, en minni hlutinn leggur enn og aftur áherslu á brýna nauðsyn þess að skila ríkissjóði með afgangi við núverandi aðstæður, m.a. til að vega upp á móti þensluáhrifum vegna kjarasamn­inga og skattalækkana. Í þjóðhagsáætlun kemur fram að Þjóðhagsstofnun telji nauðsyn á festu í fjármálum hins opinbera til að færa halla á viðskiptum við útlönd aftur til jafnvægis: „Þannig [sé] dregið úr heildareftirspurn, jafnvægi viðhaldið á vinnumarkaði og stuðlað að stöðugleika í verðlagi.“

Kjör lífeyrisþega.
    Minni hlutinn hefur að venju ýmislegt við áherslur og forgangsröðun á gjaldahlið frum­varpsins að athuga. Megingagnrýni minni hlutans varðar að þessu sinni hlut fatlaðra, öryrkja og aldraðra.
    Þeir sem eingöngu hafa framfærslu af grunnlífeyri og tekjutryggingu eru algjörlega háðir ákvörðunum ríkisstjórnar um slíkar greiðslur. Sú ákvörðun að miða skuli lífeyrisgreiðslur við meðaltalslaunahækkanir í stað viðmiðunar við lægstu laun hefur valdið því að þeir sem byggja afkomu sína á þessum launum hafa dregist verulega aftur úr miðað við þróun lægstu launa. Staðreyndir málsins eru þær að hækkun grunnlífeyris á árunum 1995–98 er 15%, launavísitalan hefur hækkað um 20%, en lágmarkslaun um 29%. Þannig má sýna fram á að á síðustu fjórum árum, þ.e. 1995–98, hefðu þessir hópar haft samtals 1.842 millj. kr. meira til skiptanna miðað við grunntölur og 1.151 millj. kr. meira þegar sérstökum uppbótum er bætt við grunnlífeyri og tekjutryggingu. Ef á hinn bóginn er miðað við meðaltalslaunahækk­anir vantar á árinu 1998 146 millj. kr. samtals til umræddra hópa og miðað við fjárlagafrum­varp fyrir 1999 vantar þar 330 millj. kr. ef standa á við meðaltalsviðmiðunina svo ósann­gjörn sem hún er í þessu tilviki. Hér verður að bregðast við.
    Minni hlutinn hefur látið gera sérstaka úttekt á stöðu þessara mála og lagt allar upp­lýsingar varðandi þessi mál fyrir nefndina og þar með ríkisstjórnarfulltrúa. Í framhaldi af því hefur minni hlutinn krafist tafarlausrar leiðréttingar og mun fylgja því eftir með öllum tiltækum ráðum. Þess skal getið að öryrkjar á Íslandi eru um 8.000 talsins, en um 1.400 manns eru þannig settir að tafarlausra aðgerða er þörf. Ámóta fjöldi er lítið betur settur. Á það skal bent að öryrkjar með varanlega 75% örorku, sem eru eignalausir leigjendur hús­næðis og/eða í sambúð, hafa minnst allra úr að spila eða aðeins 43–63 þús. kr. á mánuði. Sérfræðingar um málefni þessa fólks hafa sagt að lægstu umsamin laun, þ.e. rúmar 70 þús. kr. á mánuði, haldi fólki neðan fátæktarmarka. Það sýnir að þessu fólki verður að tryggja hærri tekjur þegar í stað.
    Þá sér þess enn ekki stað hvernig ríkisstjórnin ætlar að standa við fyrirheit um að draga úr tengingu tekjutryggingar við tekjur maka. Það óréttlæti hefur verið gagnrýnt harðlega að undanförnu og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í því efni verður ekki liðið.
    
Málefni fatlaðra.
    Minni hlutinn átelur harðlega hvernig tekið er á málefnum fatlaðra í frumvarpinu. Fyrir­hugað var að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaga á næsta ári, en því hefur nú verið frestað um óákveðinn tíma. Sveitarfélögin í landinu eru fús til að taka málaflokkinn að sér, en það getur ekki orðið fyrr en ríkið hefur tekið á þeim vanda sem þar blasir við. Hann er víða sár og gífurleg þörf fyrir aukna þjónustu, einkum í umdæmum Reykjaness og Reykjavíkur þar sem fólk bíður tugum saman eftir úrræðum. T.d. voru 133 á biðlista hjá Svæðisskrifstofu Reykjaness í maí á þessu ári. Í Reykjanesumdæmi er þörfin slík að áætlaður heildarstofn­kostnaður vegna nýrra þjónustustaða fyrir fatlaða er áætlaður rúmlega 1,1 milljarður kr. Hér er um að ræða sambýli, þjónustuíbúðir, áfangaheimili, heimili fyrir börn, skammtímavistun, hæfingarstöðvar og vinnustaði. Ástandið í þessum málaflokki er með öllu óviðunandi og mikill ábyrgðarhluti að taka ekki fastar á en ætlunin er á næsta ári.
    Samkvæmt markmiðum laga um málefni fatlaðra ber „að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi“. Langt er frá því að þessi markmið hafi verið uppfyllt og ræður þar mestu að uppbygging húsnæðis og þjónustu fyrir fatlaða hefur dregist úr hófi vegna sífellds niðurskurðar á lög­boðnum tekjustofni til framkvæmda. Samkvæmt lögum á Framkvæmdasjóður fatlaðara m.a. að fá til sinna verkefna óskertar tekjur Erfðafjársjóðs, en sá tekjustofn hefur árlega verið skorinn niður af mikilli hörku auk þess sem framlagið er tekið í síauknum mæli til reksturs. Tekjur af erfðafjárskatti eru áætlaðar 480 millj. kr. á næsta ári, en aðeins 235 millj. kr. eiga að renna í Framkvæmdasjóð fatlaðra samkvæmt frumvarpinu. Rúmur helmingur tekjustofns­ins er þannig tekinn til annarra mála en ætlast er til í lögum.
     Þessu mótmælir minni hlutinn harðlega og leggur til að Framkvæmdasjóður fái þessar tekjur óskertar.

Heilbrigðismál.
    Á undanförnum árum hefur verið vegið að velferðarkerfinu hér á landi með ítrekuðum niðurskurði og óraunhæfum sparnaðarkröfum í heilbrigðisþjónustunni. Í lok síðasta árs var staðan orðin slík að varla fyrirfannst nokkur einasta heilbrigðisstofnun í landinu sem ekki var rekin með meiri eða minni rekstrarhalla. Fyrir mikla málafylgju, m.a. fulltrúa stjórnar­andstöðu, hefur nú tekist að lagfæra slæma fjárhagsstöðu margra þessara stofnana og það er vel. Eftir stendur hins vegar að stærstu sjúkrahús landsins, hátæknisjúkrahúsin í Reykja­vík, sitja enn uppi með mikinn rekstrarhalla sem verður að bæta úr og tryggja þeim þar með viðunandi rekstrarstöðu. Eins og fram kom í nefndaráliti minni hlutans um frumvarp til fjár­aukalaga fyrir þetta ár nemur uppsafnaður fjárhagsvandi þessara tveggja sjúkrahúsa samtals rúmlega 1 milljarði kr. nú í lok árs 1998 að teknu tilliti til framlags á fjáraukalögum. Enn hafa ekki sést neinar tillögur frá meiri hlutanum um aukin framlög til Ríkisspítalanna og Sjúkrahúss Reykjavíkur umfram það sem fram kemur í frumvarpinu. Verði ekkert að gert stefnir því í uppsafnaðan halla sem nemur 1,6 milljörðum kr. í árslok 1999 miðað við óbreyttan rekstur sjúkrahúsanna. Minni hlutinn varar alvarlega við afleiðingum þess og boðar breytingartillögur við 3. umræðu ef sýnt verður þá að meiri hlutinn skirrist við að taka á vandanum.
    Rétt er einnig að benda á að vandi stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík einskorðast ekki við uppsafnaðan rekstrarhalla fyrri ára, heldur blasa við ótal verkefni sem þau hafa ekki tök á að sinna eins og vert væri vegna fjárskorts. Í október sl. voru t.d. nær 3.000 manns á bið­listum eftir aðgerðum á Ríkisspítölunum. 292 biðu aðgerða á sviði almennra skurðlækninga, 291 beið eftir bæklunaraðgerð, 378 biðu eftir lýtaaðgerð, 48 eftir hjartaskurðaðgerð, 159 eftir þvagfæraaðgerð, 47 eftir æðaskurðaðgerð, 287 biðu eftir augnaðgerð, 100 biðu eftir þjónustu á sviði barnalækninga, 160 eftir kransæðaþræðingu og 52 eftir kransæðavíkkun, 450–500 biðu eftir glasafrjóvgun, 382 konur biðu eftir aðgerð á sviði kvenlækninga, 377 biðu eftir svefnrannsóknum og 105 biðu eftir plássi á barna- og unglingageðdeild. Þetta ófremdarástand veldur ekki aðeins óvissu og þjáningum sjúklinga og aðstandenda, heldur er það beinlínis óhagkvæmt fjárhagslega. Hér er því í raun verið að spara eyrinn en kasta krón­unni. Þessa biðlista verður að stytta.
    Enn verður að minna á viðhaldsþörf fjölda bygginga í heilbrigðiskerfinu, svo og þörf þeirra fyrir fé til viðhalds og endurnýjunar tækja. Líklega er þó hvergi jafn slæmt ástand og á Sjúkrahúsi Reykjavíkur þar sem gerð hefur verið áætlun um kostnað við endurbætur og viðhald sem nemur á annan milljarð króna. Viðgerðir utan húss eru þegar hafnar og munu kosta a.m.k. 410 millj. kr. Ljóst er að viðhald og viðgerðir eru þeim mun kostnaðarsamari því lengur sem dregst að ráðast í verkið. Minni hlutinn bendir á nauðsyn þess að gera 4–8 ára áætlun um viðhald heilbrigðisstofnana og endurnýjun tækjakosts svo að þessar stofnanir geti sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað og sjálfsögð krafa er um af hálfu þjóðarinnar.
    Þá er það mikið áhyggjuefni að víða um land er vaxandi vandi vegna skorts á læknum og hjúkrunarfræðingum. Ljóst er að grípa þarf til aðgerða, m.a. í menntunarmálum lækna, til að reyna að ráða bót á því alvarlega ástandi sem veldur óvissu og öryggisleysi íbúa víða á landsbyggðinni. Þetta mál þarf að taka föstum tökum og leita allra hugsanlegra leiða til að ráða bót á.

Menntamál.
    Minni hlutinn leggur áherslu á að stóraukna fjármuni þurfi í menntakerfið á næstu árum vegna þess að samkeppnishæfni þjóðarinnar mun ekki síst ráðast af gæðum skólastarfs og menntunar. Gæði skólastarfs verða ekki aukin án þess að kosta til þess fjármunum.
    Ljóst er að sveitarfélögin hafa almennt metnað til að bæta grunnskólann og eru fús til að veita til þess fjármagn eftir aðstæðum. Þegar þau tóku við grunnskólanum virðast þau hins vegar ekki hafa reiknað með verulega auknum launakröfum kennara við einsetningu sem hefur það í för með sér að kennarar geta ekki lengur bætt kjör sín með endalausri yfirvinnu. Fjölmörg sveitarfélag hafa þurft að gera viðbótarkjarasamninga til að halda í sína kennara og er slíkt mikill baggi fyrir sveitarfélög sem stóðu illa fjárhagslega fyrir. Það er skoðun minni hlutans að með tilliti til breyttra viðhorfa og mjög aukinna krafna samfélagsins til skólanna þurfi hið fyrsta að endurskoða samningana milli ríkis og sveitarfélaga varðandi kostnað við grunnskóla.
    Greiðslustaða framhaldsskólanna gagnvart ríkissjóði var neikvæð um hálfan milljarð króna fyrstu 11 mánuði ársins. Þessi slæma staða er mikið áhyggjuefni. Að vísu var hún bætt að nokkru leyti í fjáraukalögum en svo virðist sem enn vanti töluvert upp á. Virðist einhver misskilningur hafa verið í gangi varðandi samninga Hins íslenska kennarafélags og ríkisins um það hvað þeir mundu kosta og þarf auðvitað að ganga þannig frá málum í framtíðinni að ljóst sé hvað undirritaður samningur hefur í för með sér. Þá tekur minni hlutinn undir gagnrýni forsvarsmanna minnstu framhaldsskólanna á landsbyggðinni á reiknilíkanið sem lagt er til grundvallar við útreikninga fjárframlaga til framhaldsskóla. Gæta þarf sjónarmiða þeirra betur við uppbyggingu líkansins þannig að minnstu skólarnir fái við unað.
    Minni hlutinn bendir á að vegna breyttra aðstæðna í Kennaraháskólanum þar sem sam­einaðir voru fjórir skólar þarf hann mjög auknar fjárveitingar á næsta ári. Kostnaður eykst vegna dómnefndarvinnu, námskrárgerðar, kennsluskrárgerðar, skipulagsvinnu og biðlauna fyrrverandi skólastjóra. Einnig lækkar umtalsvert vinnuskylda kennara sem unnu í þeim þremur skólum sem hingað til hafa verið á framhaldsskólastigi og hefur það að sjálfsögðu aukinn kostnað í för með sér. Kostnaður við kjarasamninga, rannsóknarorlof og vinnumats­sjóð vegna rannsókna er einnig vanmetinn, en við sameiningu skólanna öðluðust 30 kennarar til viðbótar rétt til greiðslu.
    Háskóli Íslands og stúdentaráð Háskóla Íslands lögðu mikla áherslu á aukið fé til að hægt verði að lengja opnunartíma safnanna í Þjóðarbókhlöðu og tryggja námsmönnum lesaðstöðu. Fjárlaganefnd hefur samþykkt að verða við þeim óskum og er það vel. Minni hlutinn hefði hins vegar einnig viljað verða við óskum Háskólans um aukið fé til fleiri þátta, einkum til þess að efla og styrkja framhalds- og rannsóknarnám sem er eitt af forgangsverkefnum skól­ans. Slíkt nám er nú í boði við nær allar deildir skólans og á aðeins fjórum árum hefur nem­endum í framhaldsnámi fjölgað úr fáum tugum í vel á fjórða hundrað. Lögð er áhersla á aukna þjónustu skólans við þessa nemendur og tengsl þeirra við íslenskt atvinnulíf og rann­sóknastofnanir. Meðal þess sem Háskólinn vill geta boðið upp á er framhaldsnám í lækn­ingum, ekki síst heimilislækningum. Líklegt er að það gæti dregið úr þeim skorti sem blasir við í þeirri grein og mikilvægt er að skoða þann möguleika vel. Háskólinn fór fram á 34,6 millj. kr. hækkun til þessa þáttar í starfsemi skólans.
    Minni hlutinn telur að styðja þurfi Tækniskóla Íslands betur en raun er á. Skólinn sækir m.a. um tæpar 72,8 millj. kr. vegna tækjakaupa og búnaðar til viðbótar því sem honum er ætlað í frumvarpinu. Þyrfti að gera áætlun í samráði við forsvarsmenn skólans um hvernig ríkissjóður gæti komið til móts við þessa bráðu þörf skólans sem allt of lengi hefur verið litið fram hjá. Tækin sem nemendur hafa til þjálfunar eru oft úrelt miðað við þann búnað sem þarf að vinna með úti í atvinnulífinu. Á síðastliðnu ári var tölvukostur skólans þó nokkuð bættur en mikið átak þarf að gera innan skólans hvað varðar annan tækjakost. Ef einhvers staðar er þörf öflugs átaks í skólamálum okkar þá er það ekki síst á sviði tækni- og verkmenntunar. Stofnanir sem annast kennslu á þeim sviðum þurfa að hafa til þess tækjakost sem jafnast á við það besta sem til er.
    Nokkur aukning framlaga til menningarstarfsemi er í frumvarpinu, en betur má ef duga skal. Minni hlutinn leggur áherslu á mikilvægi öflugs menningarlífs og almennrar þátttöku í listum um allt landið. Minna má á áherslur um þetta efni í tillögu um byggðaáætlun sem liggur fyrir þinginu og ljóst að þar eru kveiktar væntingar um aukinn stuðning við menn­ingarstarfsemi um allt land.

Starfs- og endurmenntun.
    Minni hlutinn gagnrýnir enn einu sinni þær breytingar sem gerðar voru á fyrirkomulagi framlaga til starfsmenntunar í atvinnulífinu fyrir tveimur árum. Sérmerkt framlög til Starfs­menntasjóðs annars vegar og til atvinnumála kvenna hins vegar voru þá felld niður, en þessir liðir heyrðu áður undir liðinn Vinnumál á fjárlögum. Þess í stað var vísað á Atvinnuleysis­tryggingasjóð með því fororði að þar væru tryggðir fjármunir til þessara verkefna. Starfs- og endurmenntun er hins vegar sjálfstætt mál og á ekki að tengja atvinnuleysi eða Atvinnu­leysistryggingasjóði. Minni hlutinn leggur áherslu á að brýnt er að efla starfs- og endur­menntun í landinu í samvinnu skóla og atvinnulífs og telur óhjákvæmilegt að breyta færslum til fyrri vegar og auka fjármagn til þessarar starfsemi.

Aðgerðir gegn fíkniefnavandanum.
    Neysla vímuefna veldur gríðarlegum vanda, ekki aðeins einstaklinga og fjölskyldna, heldur þjóðfélagsins alls. Þótt nokkuð hafi verið reynt að bregðast við þessum vanda er fjarri því að nóg sé að gert. Styrkja þarf forvarnir og meðferðarúrræði og efla tollgæslu og lög­gæslu til að gera þeim kleift að ráðast af krafti gegn innflutningi og dreifingu fíkniefna. Neysla ólöglegra fíkniefna jókst skyndilega mjög mikið fyrir þremur árum og virðist ekkert lát þar á, neytendur verða sífellt yngri og ofbeldi er mikið innan þessara hópa. Mikill vandi blasir við vegna skorts á meðferðarúrræðum fyrir unga fíkniefnaneytendur. Þess eru jafnvel dæmi að 14 ára börn hafi ánetjast eiturlyfjum sem vitaskuld kallar á bráðameðferð. Það er allsendis óviðunandi að bjóða unglingum og fjölskyldum þeirra upp á margra mánaða bið eftir meðferð. Hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár kallar á greiðari aðgang að meðferð og fleiri heimili til langtímavistunar unglinga. Sú fjölgun vistrýma sem stefnt er að á næsta ári nægir ekki. Hér verður að taka verulega á til að ná betri árangri við björgun og endurhæfingu þeirra sem lent hafa í klóm eiturefna. Meiri stuðningur stjórnvalda skilar sér margfalt aftur til samfélagsins.

Húsnæðismál.
    Á síðasta þingi voru lögfestar miklar breytingar á húsnæðislöggjöfinni og sú stærst að félagslega kerfið var lagt niður. Nú eru afleiðingarnar óðum að koma í ljós. Augljóst var að jafnhliða þurfti að tryggja verulega aukinn fjölda leiðuíbúða, en það mun taka langan tíma með þeim upphæðum sem ætlað er að verja til byggingar leiguíbúða á næstunni. Mikill skortur er nú þegar á leiguhúsnæði, einkum í Reykjavík og nálægum sveitarfélögum, og ekki ofsögum sagt að neyðarástand sé að skapast ef ekki verður brugðist við. Hundruð einstaklinga og fjölskyldna eru á biðlistum eftir leiguhúsnæði í Reykjavík einni, öryrkjar, náms­menn, einstæðir foreldrar og aðrir sem ekki hafa tök á að eignast eigið húsnæði. Þegar nýju lögin taka gildi um áramótin stækkar sá hópur sem ekki mun ráða við að kaupa sér húsnæði og því er fyrirsjáanlegt að enn mun fjölga á leigumarkaðinum. Hjá hinum nýja Íbúðalána­sjóði er aðeins gert ráð fyrir að lána fyrir allt að 120 nýjum leiguíbúðum á næsta ári sem er bersýnilega langt undir þörf. Vandinn er augljós og erfiðleikar miklir hjá þeim sem bíða úrlausna. Það blasir því við að hér þarf að breyta áherslum. Þá gagnrýnir minni hlutinn hvernig staðið hefur verið að breytingum og tilflutningi verkefna milli stofnana og staða. Lítið samráð hefur verið við starfsfólk og enn eru margir í óvissu um starf sitt til framtíðar.

Umhverfismál.
    Verkefni á sviði umhverfismála fara sífellt vaxandi, bæði hér innan lands og í alþjóðlegu samstarfi. Minni hlutinn telur óhjákvæmilegt að efla stofnanir og verkefni á þessu sviði, en verulega skortir á skilning stjórnvalda í þeim efnum.
    Lítið hefur verið komið til móts við óskir Hollustuverndar ríkisins sem enn glímir við mikinn vanda í mannahaldi og rekstri. Stofnunin hefur orðið að taka að sér síaukin verkefni, einkum vegna ákvæða EES-samningsins og fleiri bindandi alþjóðasamninga. Fyrir tveimur árum var fyrirtækið Skipulag og stjórnun ehf. fengið til þess að kanna mannaflaþörf Holl­ustuverndar ríkisins með tilliti til hlutverks hennar og verkefna. Var niðurstaðan sú að 20,5 stöðugilda aukning svaraði til algerrar lágmarksþarfar. Því fer fjarri að tekið hafi verið tillit til þeirrar niðurstöðu. Nú er unnið að endurskipulagningu stofnunarinnar í framhaldi af nýjum lögum sem tóku gildi um mitt þetta ár og ljóst að ekki verður lengur undan því skorast að efla stofnunina.
    Erindi Náttúruverndar ríkisins til fjárlaganefndar bera með sér hve stakkur þeirrar stofn­unar er þröngt skorinn miðað við þau verkefni sem við blasa. Stofnunin ber ábyrgð á rekstri og umsjón með friðlýstum svæðum þar sem margar helstu gersemar íslenskrar náttúru er að finna. Brýnt er að auka landvörslu og eftirlit, og vinna þarf verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn í Skaftafelli. Fyrirhugaðar eru breytingar á rekstri þjóðgarðanna í Skaftafelli og Jökulsár­gljúfrum og er nauðsynlegt að veita fé til framkvæmda í tengslum við þær breytingar.
    Viðhorf og áherslur í umhverfismálum hafa breyst mikið á undanförnum árum og eru sífellt að breytast, ekki síst fyrir árvekni og ötula baráttu frjálsra félagasamtaka. Minni hlutinn telur að slíka starfsemi beri að efla og styrkja miklu betur en gert hefur verið.

Ferðamál.
    Vægi ferðaþjónustu í atvinnulífi landsmanna hefur aukist sífellt á undanförnum árum og ljóst er að enn eru vannýttir miklir möguleikar á því sviði. Umsvif og tekjuaukning í grein­inni eru slík að ferðaþjónusta skipar nú annað sætið á eftir sjávarútvegi sem gjaldeyrisskap­andi atvinnugrein. Gjaldeyristekjur þessa árs stefna nú í 26 milljarða kr. Einn af kostum þessarar greinar er að hún skapar mikinn fjölda starfa miðað við fjárfestingu og þau störf dreifast nokkuð jafnt um landið. Þó virðist sem aukning í ferðaþjónustu utan háannatímans hafi ekki skilað sér nægilega utan höfuðborgarsvæðisins og þarf að kanna ástæður þess. Stjórnvöld hafa sýnt þessari mikilvægu atvinnugrein tómlæti og látið undir höfuð leggjast að styrkja Ferðamálaráð til öflugri starfsemi. Nú á hins vegar að leggja fram fé til markaðs­starfs, en sérkennileg er sú ráðstöfun að færa það undir ýmis verkefni samgönguráðuneytis. Ferðamálaráði er gert að búa við sama kost og áður og engin aukning fjár er til aðkallandi verkefna á fjölsóttum ferðamannastöðum. Aukinn straumur ferðamanna kallar á fyrirbyggjandi aðgerðir gegn spjöllum á náttúru landsins og brýnt er að efla rannsóknir til að leggja grunninn að uppbyggingu á hinum ýmsu sviðum ferðaþjónustu.

Lokaorð.
    Fjárlaganefnd hefur nánast eingöngu fjallað um útgjaldahlið frumvarpsins og tekjuhlið þess bíður því 3. umræðu. Minni hlutinn fjallar nánar um þá hlið frumvarpsins við þá umræðu en ítrekar hér aðeins þá skoðun sem fram kemur fyrr í þessu áliti að tekjur næsta árs séu enn eitt árið verulega vanáætlaðar. Einnig er eftir að fjalla nánar um lánsfjárgrein frum­varpsins og heimildargrein þess, svo og nokkur önnur atriði.
    Breytingartillögur meiri hlutans nema 1.749,7 millj. kr. og styður minni hlutinn margar þeirra, en auk þess flytur minni hlutinn nokkrar tillögur sem sýna þær áherslur sem fulltrúar hans vilja ná fram við ráðstöfun ríkistekna. Hljóti þær tillögur stuðning Alþingis og sýnt þykir að þær raski markmiðinu um hallalaus fjárlög mun minni hlutinn flytja tillögur til breytinga á tekjuhlið frumvarpsins við 3. umræðu þess.

Alþingi, 9. des. 1998.



Kristín Halldórsdóttir,


frsm.


Gísli S. Einarsson.


Sigríður Jóhannesdóttir.