Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 462  —  151. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 10. des.)


1. gr.

    35. gr. laganna orðast svo:
    Eftirtalin skjöl eru stimpilfrjáls:
     1.      Húsbréf og húsnæðisbréf.
     2.      Skuldabréf og víxlar sem gefin eru út af ríkissjóði, enda séu bréfin skráð á skipulögðum markaði.
     3.      Skuldabréf og tryggingarbréf sem gefin eru út til Lánasjóðs íslenskra námsmanna samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
     4.      Skuldabréf sem gefin eru út til Íbúðalánasjóðs vegna viðbótarláns samkvæmt lögum um húsnæðismál. Sama gildir um skuldabréf sem gefin eru út til Íbúðalánasjóðs vegna lána til byggingar eða kaupa leiguhúsnæðis, sbr. VIII. kafla laga um húsnæðismál.
     5.      Heimildarbréf fyrir íbúð þegar viðbótarlán úr Íbúðalánasjóði, sbr. 4. tölul., er veitt til kaupa á henni.
     6.      Húsaleigusamningar.
     7.      Skjöl sem leggja höft eða bönd á kaupskip eða loftfar við skráningu, umskráningu eða afskráningu þess hérlendis, enda sé skráningin tímabundin og skipið eða loftfarið í eigu aðila sem ekki er heimilisfastur hér á landi.
     8.      Afsalsbréf og skjöl sem leggja höft eða bönd á kaupskip sem einkum eru ætluð til farmflutninga og rekin af skipafélögum sem stunda siglingar innan lands, að og frá landinu eða milli hafna erlendis. Skilyrði stimpilfrelsisins er að skjalið sé gefið út vegna afhend­ingar á skipinu úr landi eða afhendingar á skipinu til landsins.
     9.      Skjöl sem leggja höft eða bönd á loftfar, enda hafi eigandi loftfarsins flugrekstrarleyfi og loftfarið sé ætlað til nota í reglubundið áætlunarflug eða leiguflug innan lands eða milli landa. Skilyrði stimpilfrelsisins er að skjalið sé annaðhvort gefið út vegna sölu loft­farsins úr landi eða vegna kaupa á því.
     10.      Samningar landbúnaðarráðherra við bændur um kaup á greiðslumarki, um töku jarða til nytjaskógræktar eða um niðurskurð sauðfjár sem þinglýst er sem kvöðum á viðkomandi jarðir.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999. Frá sama tíma falla úr gildi 17. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, og 46. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál.