Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 475  —  352. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, sbr. lög nr. 135/1997.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    1. málsl. 4. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Viðkomandi sveitarstjórnir skulu í samráði við Skipulagsstofnun koma á fót samvinnunefnd um gerð svæðisskipulags, sbr. þó 12. gr. a.

2. gr.     

    Á eftir 12. gr. laganna kemur ný grein, 12. gr. a, er orðast svo:

Skipulag miðhálendisins.


    Miðhálendið, sem markast af línu sem dregin er milli heimalanda og afrétta, skal svæðis­skipulagt sem ein heild.
    Ráðherra skipar samvinnunefnd miðhálendis til fjögurra ára í senn að afloknum sveitar­stjórnarkosningum sem vinnur að svæðisskipulagi miðhálendisins. Í nefndinni skulu sitja 11 fulltrúar og skal ráðherra velja níu án tilnefningar, þar af formann nefndarinnar. Átta skulu valdir úr öllum kjördæmum landsins í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Félags­málaráðherra tilnefnir einn fulltrúa og félagasamtök um útivist einn.
    Samvinnunefnd miðhálendis gerir tillögur til Skipulagsstofnunar um svæðisskipulag á miðhálendinu og gætir þess að samræmi sé með aðalskipulagstillögum einstakra sveitar­félaga innbyrðis og að þær samræmist svæðisskipulagi miðhálendisins.
    Kostnaður við störf samvinnunefndar miðhálendis greiðist úr ríkissjóði.
    Ráðherra setur samvinnunefnd miðhálendis starfsreglur að fenginni umsögn hennar og Skipulagsstofnunar.

3. gr.

    Við 1. mgr. 17. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Sé um að ræða aðal­skipulagstillögu sem nær til miðhálendisins skal hún að auki auglýst í Lögbirtingablaðinu og liggja frammi hjá Skipulagsstofnun.

4. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýtt ákvæði sem orðast svo:
    Skipulagsstofnun skal leita álits samvinnunefndar miðhálendis, sbr. 12. gr. a, á tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins sem unnin var á vegum samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins sem skipuð var árið 1993 áður en Skipulagsstofnun gerir tillögu til ráðherra um lokaafgreiðslu þess. Skal álit nefndarinnar liggja fyrir eigi síðar en 1. febrúar 1999.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Miklar umræður hafa orðið um skipulag miðhálendisins að undanförnu en sérstök nefnd, samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins, sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 73/1993, um breytingu á skipulagslögum, nr. 19/1964, skilaði tillögum sínum til Skipulags­stofnunar í nóvember 1998 og hefur nefndin þar með lokið störfum sínum.
    Í tengslum við afgreiðslu frumvarps til sveitastjórnarlaga á Alþingi vorið 1998 lagði um­hverfisráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á núgildandi skipulags- og byggingar­lögum þar sem gert var ráð fyrir að skipuð yrði sérstök nefnd til þess að fjalla um skipulag miðhálendisins til frambúðar. Ekki var mælt fyrir frumvarpinu þá en ákveðið að leggja það fram að nýju á yfirstandandi þingi. Frumvarp það sem hér er lagt fram er að mestu leyti sam­hljóða fyrra frumvarpi að öðru leyti en hvað varðar samsetningu og tilnefningu í nefnd um skipulag miðhálendis, samvinnunefnd miðhálendis. Í frumvarpinu sem lagt var fram vorið 1998 var gert ráð fyrir að nefndin hefði á að skipa 18 fulltrúum en nú er lagt til að fulltrúar í nefndinni verði 11, þar af einn tilnefndur af félagasamtökum um útivist.
    Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, sbr. 4. mgr. 13. gr., gerir Skipu­lagsstofnun tillögu til umhverfisráðherra um lokaafgreiðslu svæðisskipulags. Skv. 5. mgr. sömu lagagreinar staðfestir ráðherra svæðisskipulagið og skal það auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis var samkvæmt lögum nr. 73/1993 skipuð fulltrúum hlutaðeigandi héraðsnefnda, þ.e. þeirra sem eiga land að mið­hálendinu, auk fulltrúa umhverfisráðherra. Önnur sveitarfélög, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Vestfjörðum, hafa því ekki komið að málinu með sama hætti og hefur það verið gagnrýnt þar sem um er að ræða svæði sem að stórum hluta er ekki í einstaklingseign og hlýtur að skipta alla landsmenn máli.
    Til þess að mæta framangreindum viðhorfum hefur því verið ákveðið að sett verði á fót ný nefnd, samvinnunefnd miðhálendis. Í henni skulu sitja 11 fulltrúar, þar af skulu átta valdir af ráðherra sem koma úr öllum kjördæmum landsins og skal það gert í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra tilnefnir jafnframt formann nefndarinnar en einn skal til­nefndur af félagsmálaráðherra og einn af félagasamtökum um útivist.
    Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins skal miðhálendið svæðisskipulagt sem ein heild. Sam­vinnunefnd miðhálendis skal fjalla um þetta svæðisskipulag og gera tillögur til Skipulags­stofnunar um svæðisskipulag miðhálendisins og gæta þess að samræmi sé með aðalskipu­lagstillögum einstakra sveitarfélaga innbyrðis sem fara með stjórnsýslu inn til miðhálendis­ins og að þær samræmist svæðisskipulagi miðhálendisins.
    Í 3. gr. er lagt til að við 1. mgr. 17. gr. bætist nýr málsliður til þess að tryggja að aðal­skipulagstillaga sem nær til miðhálendisins verði þegar á kynningarstigi auglýst opinberlega, þ.e. í Lögbirtingablaðinu, og skuli jafnframt liggja frammi hjá Skipulagsstofnun. Er þetta gert til þess að ekki aðeins íbúar hlutaðeigandi sveitarfélags og sveitarstjórnir aðliggjandi sveitarfélaga geti komið að athugasemdum þegar málið er til kynningar heldur allir lands­menn í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í frumvarpinu um að málefni miðhálend­isins varði alla landsmenn.
    Í ákvæði til bráðabirgða, sbr. 4. gr. frumvarpsins, er lagt til að Skipulagsstofnun leiti álits samvinnunefndar miðhálendis sem hér er lagt til að verði lögfest áður en stofnunin gerir til­lögu til ráðherra um lokaafgreiðslu fyrirliggjandi tillagna um svæðisskipulag miðhálendisins. Þannig fengi nýja nefndin tækifæri til að fjalla um fyrsta svæðisskipulag miðhálendisins, sem nú er í burðarliðnum. Nefndinni er ekki ætlað að taka þá vinnu til endurskoðunar sem þegar hefur verið unnin, aðeins gefa umsögn um tillöguna.
    Lagt er til að hin nýja nefnd, samvinnunefnd miðhálendisins, taki til starfa 1. janúar 1999. Fyrsta verkefni hennar yrði að gefa umsögn um fyrirliggjandi tillögu og skal sú umsögn liggja fyrir eigi síðan en 1. febrúar 1999. Í framhaldi af því mun Skipulagsstofnun gera til­lögu til umhverfisráðherra um lokaafgreiðslu svæðisskipulags miðhálendisins og ætti málið að fá lögformlega afgreiðslu ráðherra fyrir lok febrúarmánaðar 1999.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á skipulags- og
byggingarlögum, nr. 73/1997, sbr. lög nr. 135/1997.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núgildandi lögum vegna skipulags miðhálendisins. Samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins hefur lokið störfum sínum en lagt er til að í hennar stað komi ný nefnd, samvinnunefnd miðhálendis. Í samvinnunefnd um svæðis­skipulag miðhálendis sátu 13 nefndarmenn en í frumvarpinu er kveðið á um að nefndarmenn hinnar nýju nefndar verði 11. Árlegur kostnaður við nefndina var um 0,6–1 m.kr. Talið er að árlegur kostnaður hinnar nýju nefndar verði svipaður.