Ferill 354. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 482  —  354. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breyting­um.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     1.      B-liður 1. mgr. orðast svo: til hlífðar brotaþola, vitnum eða öðrum sem málið varðar.
     2.      2. mgr. orðast svo:
             2. Dómari tekur ákvörðun um lokað þinghald að eigin frumkvæði eða eftir kröfu ákær­anda, sakbornings eða brotaþola. Ákvörðunina skal bóka í þingbók og vísa til þess ákvæðis í grein þessari sem við á. Sá sem fellir sig ekki við ákvörðun dómara getur krafist þess að hann kveði upp úrskurð um það hvort þinghald skuli háð fyrir luktum dyrum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sakbornings eða mönnum“ í 2. mgr. kemur: sakbornings, brotaþola eða öðrum.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein sem orðast svo:
             3. Áður en endurrit úr þingbókum og dómabókum eru afhent öðrum en aðilum máls og brotaþola skal afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 27. gr. laganna:
     a.      Við d-lið bætist: og 1. mgr. 218. gr.
     b.      Í stað orðanna „og 232. gr.“ í e-lið kemur: 232. og 233. gr.

4. gr.

    1. mgr. 35. gr. laganna orðast svo:
    1. Heimilt er dómara endranær eftir ósk sakbornings að skipa honum verjanda við rann­sókn máls áður en til málshöfðunar kemur ef ástæða er til þess að mati dómara með tilliti til eðlis brots og allra aðstæðna.

5. gr.

    36. gr. laganna orðast svo:
    Skylt er lögreglu að verða við ósk sakbornings um að tilnefna honum verjanda ef hann hefur verið handtekinn í þágu rannsóknar opinbers máls. Tilnefning fellur sjálfkrafa úr gildi þegar sakborningur er látinn laus eða er leiddur fyrir dóm skv. 102. gr.

6. gr.

    37. gr. laganna orðast svo:
    1. Sakborningi er á öllum stigum opinbers máls heimilt að ráða á sinn kostnað lögmann til að gæta réttar síns og halda uppi vörnum sem talsmaður.
    2. Talsmaður hefur sömu réttindi og skyldur og verjandi eftir því sem við á. Meðan á rannsókn máls stendur getur dómari eða lögregla þó takmarkað rétt hans til að ræða við sak­borning, vera viðstaddur yfirheyrslur, kynna sér gögn og fylgjast með framvindu rannsóknar ef hætta er á að hún torveldist við það.

7. gr.

    38. gr. laganna orðast svo:
    1. Dómara eða lögreglu ber, þegar skylt er eða heimilt að skipa eða tilnefna sakborningi verjanda, að vekja athygli hans á þeim rétti.
    2. Áður en verjandi er skipaður eða tilnefndur skal gefa sakborningi eða lögráðamanni hans, ef sakborningur er ekki sjálfráða, kost á að benda á löghæfan mann til að fara með starf verjanda. Við skipun eða tilnefningu verjanda skal að jafnaði fara eftir ósk sakbornings eða lögráðamanns. Þó getur dómari eða lögregla neitað að skipa eða tilnefna þann verjanda sem óskað er eftir ef uggvænt þykir að hann muni hindra rannsókn málsins á ólögmætan hátt.
    3. Nú eru fleiri en einn maður hafðir fyrir sökum í sama máli og er þá heimilt að skipa eða tilnefna sama mann verjanda beggja eða allra ef telja má að hagsmunir þeirra rekist ekki á.

8. gr.

    39. gr. laganna orðast svo:
    1. Verjandi skal að jafnaði skipaður eða tilnefndur úr hópi lögmanna.
    2. Þar sem ekki er kostur á lögmanni er heimilt eftir ósk sakbornings að skipa eða tilnefna einhvern annan löghæfan mann til að gegna starfi verjanda ef telja má hag sakbornings borgið í höndum slíks manns og engar sérstakar ástæður mæla því annars í gegn. Það er borgaraleg skylda manns að taka að sér starf verjanda samkvæmt þessari málsgrein innan lögsagnarumdæmis þar sem hann er búsettur.
    3. Ekki má skipa eða tilnefna þann mann verjanda sem kann að verða kvaddur til að bera vitni eða hefur verið skipaður mats- eða skoðunarmaður í málinu, eða er að öðru leyti svo viðriðinn mál eða aðila að hætta sé á að hann geti ekki gætt hagsmuna sakbornings sem skyldi.

9. gr.

    40. gr. laganna orðast svo:
    1. Nú óskar sakborningur eftir því að skipun eða tilnefning verjanda verði afturkölluð og nýr verjandi skipaður eða tilnefndur og skal þá verða við slíkri ósk nema hætta sé á að málið tefjist af þeim sökum eða aukinn kostnað leiði af breytingunni.
    2. Ef ætla má að verjandi hafi hindrað rannsókn máls með ólögmætum hætti eða brotið gegn starfsskyldum sínum á annan hátt getur ákærandi eða lögregla leitað atbeina dómara og krafist þess að hann verði leystur frá störfum og annar skipaður í hans stað. Verjandinn getur krafist þess að dómari úrskurði um þá kröfu.

10. gr.

    2. mgr. 41. gr. laganna orðast svo:
    2. Verjandi skal sjálfur sinna starfsskyldum sínum, þar á meðal annast flutning máls. Hon­um er þó heimilt að láta fulltrúa sinn eða annan lögmann vera viðstaddan skýrslutökur og rannsóknarathafnir, svo og sækja einstök þinghöld fyrir sína hönd, meðan á rannsókn máls eða meðferð stendur.

11. gr.

    Orðin „sbr. þó 1. mgr. 43. gr.“ í 1. mgr. 42. gr. laganna falla brott.

12. gr.

    43. gr. laganna orðast svo:
    1. Verjandi skal jafnskjótt og unnt er fá endurrit af öllum skjölum sem málið varða, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn sem ekki verða endurrituð. Lögregla getur þó neitað að veita verjanda aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að eina viku frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins.
    2. Þegar verjandi hefur fengið aðgang að gögnum máls er honum heimilt að láta sakborn­ingi í té eintak af endurriti eða kynna honum gögnin með öðrum hætti.
    3. Lögregla skal gefa verjanda færi á að fylgjast með framvindu rannsóknar að svo miklu leyti sem kostur er. Skal hún taka til greina ábendingar hans um tilteknar rannsóknaraðgerðir nema hún telji þær óheimilar eða þýðingarlausar.

13. gr.

    44. gr. laganna orðast svo:
    1. Þóknun skipaðs verjanda skal ákveðin í dómi eða úrskurði ef máli lýkur þannig nema hann hafi afsalað sér þóknun. Ef máli lýkur ekki með þeim hætti ákveður dómari þóknun með bókun í þingbók eða skriflega á annan hátt. Nú hefur dómi verið áfrýjað og verjandi skipaður, en fallið er frá áfrýjun eða mál fellt niður og ákveður þá Hæstiréttur þóknun verjanda.
    2. Dómari ákveður þóknun í einu lagi ef sá sem tilnefndur hefur verið verjandi sakborn­ings er síðar skipaður til að gegna því starfi. Að öðrum kosti skal lögreglustjóri eða lög­lærður starfsmaður hans ákveða þóknun tilnefnds verjanda.
    3. Þóknun verjanda greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar skv. 164. gr.

14. gr.

    Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VII. kafli, Brotaþoli og réttargæslumaður, með níu nýjum greinum, svohljóðandi:
    
    a. (44. gr. a.)
    1. Lögreglu er skylt, eftir því sem við á, að leiðbeina brotaþola um réttindi hans lögum samkvæmt.
    2. Nú liggur fyrir hver brotaþoli er og skal þá tilkynna honum ef rannsókn máls er hætt eða það fellt niður með öðrum hætti án tillits til þess hvort hann hefur kært brotið. Ber að rökstyðja ákvörðunina ef brotaþoli krefst þess. Jafnframt skal lögregla benda brotaþola á að hann geti borið ákvörðun hennar um að hætta rannsókn undir ríkissaksóknara skv. 1. mgr. 76. gr.     
    3. Ef ákæra er gefin út skal ákærandi tilkynna brotaþola það. Jafnframt ber ákæranda að tilkynna brotaþola um niðurstöðu dóms, ef því er að skipta, eða afdrif máls að öðru leyti, svo sem ef málinu eða einkaréttarkröfu hans er vísað frá dómi.
    4. Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um leiðbeiningar- og tilkynningar­skyldu samkvæmt þessari grein.
    
    b. (44. gr. b.)
    1. Skylt er lögreglu að tilnefna brotaþola réttargæslumann ef brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn máls hefst og hún beinist að broti á XXII. kafla almennra hegn­ingarlaga.
    2. Skylt er lögreglu endranær eftir ósk brotaþola eða lögráðamanns hans að tilnefna honum réttargæslumann ef rannsókn beinist að broti á XXII., XXIII. eða XXIV. kafla almennra hegningarlaga eða 251.–253. gr. laganna, ætla má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins og hann hefur að mati lögreglu þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu.
    3. Lögregla getur tilnefnt brotaþola réttargæslumann þótt hann eða lögráðamaður hans hafi ekki óskað þess ef skilyrðum 2. mgr. er fullnægt og brotaþoli er sérstaklega sljór eða skilningslítill.
    4. Þegar skilyrði eru til þess að tilnefna réttargæslumann skv. 1.–3. mgr. skal það gert jafnskjótt og tilefni gefst. Tilnefning fellur sjálfkrafa niður við skipun réttargæslumanns skv. 44. gr. c, en ella skal lögregla taka ákvörðun um það hverju sinni.
    
    c. (44. gr. c.)
    1. Þegar mál hefur verið höfðað og skilyrði eru til þess að tilnefna réttargæslumann skv. 1.–3. mgr. 44. gr. b skipar dómari brotaþola réttargæslumann.
    2. Ef lögregla neitar eða lætur hjá líða að tilnefna brotaþola réttargæslumann skv. 44. gr. b getur hann eða lögráðamaður hans leitað atbeina dómara og óskað eftir því að honum verði skipaður réttargæslumaður.

    d. (44. gr. d.)
    1. Brotaþola er heimilt að ráða á sinn kostnað lögmann til að gæta hagsmuna sinna í málinu sem talsmaður.
    2. Talsmaður hefur sömu réttindi og skyldur og réttargæslumaður eftir því sem við á. Meðan á rannsókn máls stendur getur dómari eða lögregla þó takmarkað rétt hans til að vera viðstaddur skýrslutöku af brotaþola og kynna sér gögn ef hætta er á að rannsókn torveldist við það.

    e. (44. gr. e.)
    Ákvæði 38.–40. gr. gilda um tilnefningu, skipun og hæfi réttargæslumanns, svo og aftur­köllun á tilnefningu og skipun hans eftir því sem við á.

    f. (44. gr. f.)
    1. Hlutverk réttargæslumanns er að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu, þar á meðal við að setja fram einkaréttarkröfur skv. XX. kafla laga þessara.
    2. Réttargæslumaður skal sjálfur sinna starfsskyldum sínum, þar á meðal tjá sig fyrir dómi skv. 5. mgr. 172. gr. Honum er þó heimilt að láta fulltrúa sinn eða annan lögmann vera viðstaddan skýrslutöku af brotaþola og sækja einstök þinghöld fyrir sína hönd.
    3. Þagnarskylda hvílir á réttargæslumanni um það sem brotaþoli trúir honum fyrir og um önnur þau atriði sem hann hefur komist að í starfa sínum og ekki eru þegar kunn.

    g. (44. gr. g.)
    1. Meðan á rannsókn stendur er réttargæslumanni ætíð heimilt að vera viðstaddur þegar skýrsla er tekin af brotaþola. Sé réttargæslumaður viðstaddur skýrslutöku getur hann beint því til lögreglu að spyrja brotaþola um tiltekin atriði. Telji réttargæslumaður ástæðu til getur hann krafist þess að fá bókaða stuttorða athugasemd um framkvæmd skýrslutöku í lok hennar.
    2. Eftir að ákæra hefur verið gefin út á réttargæslumaður rétt á því að vera viðstaddur öll þinghöld í máli og ber að tilkynna honum fyrir fram hvenær þau hefjist.
    3. Réttargæslumaður má ekki spyrja ákærða, brotaþola eða vitni beint, heldur getur hann óskað þess að dómari eða ákærandi beini spurningum til þeirra, sbr. 2. mgr. 59. gr. Þá er honum einungis heimilt að tjá sig munnlega fyrir dómi um réttarfarsatriði sem snúa sérstak­lega að brotaþola og um einkaréttarkröfur hans skv. 5. mgr. 172. gr., en ekki um kröfur ákæruvalds að öðru leyti. Þó á réttargæslumaður rétt á að fá bókaðar stuttorðar athuga­semdir í þingbók samkvæmt nánari ákvörðun dómara.

    h. (44. gr. h.)
    1. Meðan á rannsókn stendur á réttargæslumaður einungis rétt á að fá aðgang að þeim gögnum máls sem honum eru nauðsynleg til að geta aðstoðað brotaþola við að setja fram einkaréttarkröfur sínar. Við þingfestingu máls á réttargæslumaður rétt á að fá aðgang að öllum gögnum þess nema dómari telji að það kunni að torvelda að mál upplýsist. Í því tilviki skal hann þó í síðasta lagi fá aðgang að gögnunum áður en málið er flutt.
    2. Þegar réttargæslumaður hefur fengið aðgang að gögnum máls er honum heimilt að láta brotaþola té eintak af endurriti eða kynna honum gögnin með öðrum hætti.
    3. Brotaþoli, sem ekki nýtur aðstoðar réttargæslumanns, á rétt til aðgangs að gögnum máls skv. 1. mgr.

    i. (44. gr. i.)
    1. Þóknun skipaðs réttargæslumanns skal ákveðin í dómi eða úrskurði, ef máli lýkur þannig, nema hann hafi afsalað sér þóknun. Ef máli lýkur ekki með dómi ákveður dómari þóknun með bókun í þingbók eða skriflega með öðrum hætti. Nú hefur dómi verið áfrýjað og réttargæslumaður skipaður, en fallið er frá áfrýjun eða mál fellt niður, og ákveður þá Hæstiréttur þóknun réttargæslumanns.
    2. Dómari ákveður þóknun í einu lagi ef sá sem tilnefndur hefur verið réttargæslumaður brotaþola er síðar skipaður til að gegna því starfi. Að öðrum kosti skal lögreglustjóri eða löglærður starfsmaður hans ákveða þóknun tilnefnds réttargæslumanns.
    3. Þóknun réttargæslumanns greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar skv. 164. gr.
    

15. gr.

    Fyrirsögn VII. kafla laganna, sem verður VIII. kafli þeirra, verður: Sönnun og sönnunargögn.

16. gr.

    2. mgr. 48. gr. laganna orðast svo:
    2. Dómara er heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði, brotaþoli eða vitni hafa gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað skv. 74. gr. a og 105. gr. Þó skulu skýrslugjafar koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð ef þess er kostur og annar hvor málsaðili krefst eða dómari telur annars ástæðu til. Ef um er að ræða brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri skal hann þó ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómari telji sérstaka ástæðu til.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 49. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
             3. Nú er vitni statt fjarri þingstað eða það hefði annars sérstakt óhagræði af því að koma fyrir dóm, og getur þá dómari ákveðið að skýrsla verði tekin af því á dómþingi gegnum síma eða annað fjarskiptatæki, enda verði skýrslutöku hagað þannig að allir sem staddir eru á dómþingi heyri orðaskipti við vitnið.
     b.      3. mgr. verður 4. mgr.

18. gr.

    Við 59. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    7. Þegar skýrsla er tekin af brotaþola yngri en 18 ára getur dómari kvatt til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku. Þá eiga ákærandi, ákærði og verjandi hans ekki rétt á að vera viðstaddir í dómsal eða annars staðar þar sem dómþing er háð ef dómari telur að nær­vera þeirra geti orðið brotaþola sérstaklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð hans. Í því tilviki skal dómari sjá til þess að málsaðilar geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún fer fram og er honum rétt að leggja fyrir brotaþola þær spurningar sem þeir óska. Dómsmála­ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um tilhögun skýrslutöku samkvæmt þessari máls­grein.

19. gr.


    Fyrirsögn og númer VIII. kafla laganna falla brott.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 66. gr. laganna:
     a.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
             4. Þegar sérstaklega stendur á er ríkissaksóknara heimilt að mæla fyrir um rannsókn þótt ætla megi að refsingu verði ekki við komið, svo sem vegna þess að sök er fyrnd, ef ríkir almanna- og einkahagsmunir mæla með því.
     b.      4. mgr. verður 5. mgr.

21. gr.

    Við 1. mgr. 69. gr. laganna bætist: sbr. þó 74. gr. a.

22. gr.

    Síðari málsliður 1. mgr. 74. gr. laganna orðast svo: Sama á við um aðrar aðgerðir sem nauðsynlegar eru vegna máls, þar á meðal skýrslutökur af sakborningi, brotaþola eða vitni skv. 74. gr. a.

23. gr.

    Á eftir 74. gr. laganna kemur ný grein, 74. gr. a, sem orðast svo:
    1. Meðan á rannsókn stendur fer fram skýrslutaka fyrir dómi í eftirgreindum tilvikum:
     a.      Ef rannsókn beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn máls hefst ber lögreglu að leita atbeina dómara sem sér um að taka skýrslu af honum.
     b.      Ef lögregla telur nauðsynlegt að skýrsla verði tekin fyrir dómi af sakborningi, brotaþola eða vitnum til þess að upplýsa mál, áður en verjandi fær aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum þess, ber dómara að verða við slíkri beiðni þótt ákæra hafi ekki verið gefin út. Ef þörf krefur getur dómari framlengt frest skv. 1. mgr. 43. gr. í allt að þrjár vikur svo að hægt verði að ljúka skýrslutöku innan hans.
     c.      Í öðrum tilvikum en greinir í a- og b-lið er heimilt að taka skýrslur af brotaþolum eða vitnum fyrir dómi áður en ákæra er gefin út ef þau neita að svara spurningum hjá lög­reglu eða ef ætla má að þau komist ekki fyrir dóm við meðferð málsins, enn fremur ef það er talið æskilegt með tilliti til hagsmuna brotaþola eða vitna, svo sem ef um börn er að ræða.
    2. Þegar skýrslutaka fer fram skv. 1. mgr. skal þess gætt að ákæranda, verjanda og réttar­gæslumanni brotaþola sé tilkynnt um hana fyrir fram þannig að þeir geti verið viðstaddir hana. Sé þess kostur skal framburður sakbornings, brotaþola og vitna tekinn upp á mynd­band. Ef skýrsla er tekin af brotaþola yngri en 18 ára skal enn fremur gætt ákvæða 7. mgr. 59. gr.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 76. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem hljóðar svo: Sá sem á hagsmuna að gæta getur borið ákvörðun lögreglu undir ríkissaksóknara sem tekur fullnaðarákvörðun um hvort rannsókn skuli fara fram eða ekki.
     b.      Síðari málsliður 2. mgr. orðast svo: Skal honum jafnframt bent á að hann geti borið ákvörðunina undir ríkissaksóknara.

25. gr.

    1. mgr. 87. gr. laganna orðast svo:
    1. Til aðgerða sem taldar eru upp í 86. gr. þarf úrskurð dómara. Þó ber að veita lögreglu upplýsingar skv. b-lið þeirrar greinar án dómsúrskurðar ef fyrir liggur samþykki umráða­manns og eiginlegs notanda síma eða fjarskiptatækis. Í úrskurði skal m.a. taka fram hvaða tiltekinn síma eða fjarskiptatæki sé um að ræða, sbr. a- og b-lið, og hvar og með hverjum hætti samtöl, hljóð eða merki skulu numin eða myndir teknar, sbr. c- og d-lið. Í úrskurði skal setja aðgerð ákveðin tímamörk.

26. gr.

    1. mgr. 114. gr. laganna orðast svo:
    1. Nú er mál fellt niður skv. 112. gr. eða fallið er frá saksókn skv. 113. gr. og skal ákær­andi sem þá ákvörðun tók tilkynna hana sakborningi og ef því er að skipta brotaþola, enda liggi fyrir hver hann er. Ber að rökstyðja ákvörðunina ef þess er krafist.

27. gr.

    Síðari málsliður 4. mgr. 115. gr. a laganna orðast svo: Dómari er ekki bundinn af slíkri ákvörðun ef til saksóknar kemur vegna brotsins.

28. gr.

    3. mgr. 119. gr. laganna orðast svo:
    3. Ef héraðsdómari telur að gallar séu á málatilbúnaði sem varðað geta frávísun skal hann benda ákæranda á þá. Hins vegar má hann ekki synja um útgáfu fyrirkalls af þeim sökum, enda er hann óbundinn af slíku áliti sínu við úrlausn máls.

29. gr.

    Fyrsti málsliður 1. mgr. 120. gr. laganna orðast svo: Eftir að dómara hefur borist ákæra ákveður hann stað og stund þinghalds þar sem málið verður þingfest.

30. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 122. gr. laganna:
     a.      Orðin „eftir atvikum“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
             3. Ef skilyrði eru til þess að skipa brotaþola réttargæslumann skal það gert við þing­festingu máls eða ef það er ekki unnt, svo sem vegna þess að ekki hefur náðst til brota­þola, svo fljótt sem verða má eftir þingfestingu.
     c.      3. mgr. verður 4. mgr.

31. gr.

    Við 1. mgr. 129. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Jafnframt skal dómari taka ákvörðun um það hvort aðalflutningur skuli fara fram fyrir luktum dyrum skv. 2. mgr. 8. gr.

32. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 142. gr. laganna:
     a.      Orðin „lokun þinghalds“ í b-lið falla brott.
     b.      Við d-lið bætist: eða réttargæslumann.

33. gr.

    3. mgr. 145. gr. laganna orðast svo:
    3. Aðilar kærumáls geta sent Hæstarétti skriflegar athugasemdir sínar um kærumálið innan sólarhrings eftir að kæra hefur borist réttinum.

34. gr.

    Við 153. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    4. Ríkissaksóknari tilkynnir brotaþola enn fremur um áfrýjun ef úrlausn héraðsdóms um einkaréttarkröfur hans hefur verið áfrýjað og skal honum þá um leið gefinn kostur á að bera fram ósk um réttargæslumann. Ef skilyrði eru til þess að skipa brotaþola réttargæslumann gerir Hæstiréttur það.

35. gr.

    164. gr. laganna orðast svo:
    1. Til sakarkostnaðar teljast óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar máls og meðferðar þess, þar á meðal:
     a.      þóknun verjanda og réttargæslumanns, svo og annar kostnaður vegna varnar í málinu og réttargæslu fyrir brotaþola,
     b.      kostnaður við sérfræðilegar álitsgerðir, mats- og skoðunargerðir og afnot muna annarra manna, svo og vitnaþóknun,
     c.      birtingargjöld,
     d.      kostnaður af fullnustu refsingar og annarra viðurlaga með aðfarargerð og eftir atvikum nauðungarsölu.
    2. Af opinberu máli greiðast engin dómsmálagjöld.

36. gr.

    167. gr. laganna orðast svo:
    Kostnað, sem ákærandi, verjandi, réttargæslumaður eða lögregla valda vegna vanrækslu eða skeytingarleysis í starfi sínu, skal ekki dæma ákærða til að greiða.

37. gr.

    1. mgr. 168. gr. laganna orðast svo:
    1. Í dómi eða úrskurði, ef máli lýkur án dóms, skal almennt kveða á um skyldu ákærða til að greiða sakarkostnað án ákvörðunar fjárhæðar. Þóknun verjanda og réttargæslumanns skal þó ákveða með tiltekinni fjárhæð.

38. gr.

    169. gr. laganna orðast svo:
    1. Ef ákærði áfrýjar héraðsdómi og hann er sýknaður með öllu eða að hluta með dómi Hæstaréttar eða viðurlög eru þar milduð skal kostnaður af áfrýjun málsins felldur á ríkissjóð eða honum skipt samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 165. gr.
    2. Ef ríkissaksóknari áfrýjar héraðsdómi en ákærði ekki og viðurlög eru ekki þyngd svo neinu nemi með dómi Hæstaréttar verður kostnaður af áfrýjun málsins felldur á ríkissjóð.
    3. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur fyrir Hæstarétti nema máli sé þá lokið með dómi.
    4. Eftir því sem við á fer að öðru leyti um málskostnað fyrir Hæstarétti samkvæmt því sem mælt er fyrir í 164.–168. gr.

39. gr.

    Í stað orðsins „umboðsmanni“ í 5. mgr. 172. gr. laganna kemur: réttargæslumanni.

40. gr.

    Í stað orðanna „kröfur borgararéttarlegs eðlis“ í 174. gr. laganna kemur: einkaréttar­kröfur.

41. gr.

    Fyrirsögn XX. kafla laganna verður: Einkaréttarkröfur.

42. gr.

    1. mgr. 175. gr. laganna orðast svo:
    1. Kröfu um bætur samkvæmt þessum kafla má taka til greina ef rannsókn hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi, sem sakborningur var borinn, hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana, eða sakborningur hefur verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi af sömu ástæðu. Þó má fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.

43. gr.

    Orðin „enda þótt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 175. gr. sé ekki fullnægt“ í 177. gr. laganna falla brott.

44. gr.

    Í stað orðanna „3. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga“ í 180. gr. laganna kemur: 18. gr. skaðabótalaga.

45. gr.


    Við 1. mgr. 184. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi:
     c.      ef verulegar líkur er leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

46. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1999.

47. gr.

    Við gildistöku laga þessara breytast eftirfarandi ákvæði annarra laga sem hér segir:
     1.      Á eftir 1. mgr. 14. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991, kemur ný málsgrein og breytist röð annarra málsgreina samkvæmt því:
             2. Áður en endurrit úr þingbókum og dómabókum eru afhent öðrum en aðilum máls skal afmá úr þeim atriði, sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einka­hagsmuna.
     2.      Í stað orðanna „getur sakborningur“ í síðari málslið 3. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37 30. apríl 1993, kemur: geta sakborningur og brotaþoli.
     3.      Í stað orðsins „ákærða“ í 2. mgr. 2. gr. laga um lögmenn, nr. 77 15. júní 1998, kemur: brotaþola, og á eftir orðunum „við skipun“ í 1. mgr. 20. gr. sömu laga kemur: eða tilnefningu.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan dómsmálaráðherra, en unnið var að samningu þess í samráði við réttarfarsnefnd. Megintilgangur frumvarpsins er að styrkja réttarstöðu brota­þola, auk þess sem gerðar eru tillögur um nokkrar breytingar á lögum nr. 19/1991, um með­ferð opinberra mála, sem ekki þola bið, þar til orðið getur af heildarendurskoðun þeirra sem stefnt er að á næstunni. Samkvæmt ákvörðun ráðherra hefur einni grein, 45. gr., verið bætt við drög að frumvarpinu eins og þau bárust frá réttarfarsnefnd.
    Áður en vikið verður að tillögum frumvarpsins verður stuttlega gerð grein fyrir aðdrag­anda breytinganna sem þar er að finna.

I.


    Í bréfi til dómsmálaráðherra, dags. 15. september 1997, lagði umboðsmaður barna til breytingar á lögum um meðferð opinberra mála sem miða að því að styrkja réttarstöðu barna sem eru þolendur kynferðisafbrota. Tilefnið var annars vegar umræður á alþjóðlegri ráð­stefnu Sameinuðu þjóðanna um kynferðislega misnotkun barna sem haldin var í Stokkhólmi síðla árs 1996 og hins vegar skýrsla sem unnin var fyrir umboðsmanna barna um kynferðis­brot gegn börnum og ungmennum þar sem borin eru saman lagaákvæði er um þetta fjalla á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
    Umboðsmaður barna leggur til í framangreindu bréfi að tekið verði í lög um meðferð opinberra mála ákvæði um skýrslutöku dómara utan réttar af barni sem orðið hefur fyrir kyn­ferðislegri misnotkun. Lögregla skuli ávallt leita til dómara með beiðni um yfirheyrslu þegar grunur leiki á að barn hafi verið beitt kynferðislegri misnotkun. Dómari stjórni skýrslu­tökunni en hafi heimild til að fela sérfræðingi framkvæmd hennar að öðru leyti. Tilkynna skuli sakborningi eða lögmanni hans um skýrslutökuna og gefa verjanda kost á að vera við­staddur yfirheyrsluna. Heimilt verði að mæla nánar fyrir um það í reglugerð hvernig skuli staðið að skýrslutöku yfir barni. Þá er lagt til að í lögum um meðferð opinberra mála verði kveðið á um rétt barna sem eru þolendur kynferðisbrota til að fá aðstoð lögmanns til að gæta hagsmuna sinna strax á rannsóknarstigi og að kostnaður af því greiðist úr ríkissjóði. Hlut­verk talsmanns verði nánar skilgreint í lögum eða reglugerð.

II.

    Dómsmálaráðherra skipaði 2. desember 1993 nefnd sem m.a. hafði það hlutverk að athuga réttarstöðu brotaþola og gera tillögur til úrbóta. Nefndin skilaði skýrslu 3. febrúar á þessu ári. Í skýrslunni er lagt til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á lögum um meðferð opin­berra mála til að bæta réttarstöðu brotaþola:
    Í fyrsta lagi verði lögfest ákvæði um nálgunarbann sem feli í sér að hægt verði að banna manni að dvelja á ákveðnum stað, fylgja, heimsækja eða á annan hátt ofsækja einstakling með bréfum, símhringingum eða öðru ónæði. Nefndin telur að ákvæði um nálgunarbann geti átt samleið með ákvæðum um þvingunarúrræði í lögum um meðferð opinberra mála. Skilyrði þess að heimilt verði að leggja á nálgunarbann verði að fyrir liggi af sérstökum ástæðum hætta á að sá sem sæta eigi banni muni annars fremja afbrot, fylgja eftir eða á annan hátt takmarka frið eða frelsi þess sem það á að vernda. Nálgunarbann verði tímabundið og há­marksgildistími þess verði eitt ár í hvert sinn. Brotaþola verði kynnt öll atriði er tengjast nálgunarbanni og hvernig eigi að bregðast við ef brotið er gegn því.
    Í öðru lagi eigi brotaþolar í kynferðisbrotamálum öðrum en þeim er einungis varða við ákvæði um brot gegn blygðunarsemi rétt á því að þeim verði á kostnað ríkisins skipaður löglærður talsmaður er gæti hagsmuna þeirra í sambandi við rannsókn og málsmeðferð saka­málsins og veiti brotaþola aðra aðstoð sem eðlileg er í sambandi við málið. Í öðrum málum verði heimilt samkvæmt beiðni brotaþola að skipa honum lögmann á kostnað ríkisins ef ástæða sé til að ætla að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða heilbrigði að öðru leyti vegna verknaðarins og að hann hafi sérstaka þörf fyrir lögmannsaðstoð.
    Í þriðja lagi leggur minni hluti nefndarinnar til að brotaþola verði tryggður lögvarinn réttur til að ákveða að þinghald verði haldið fyrir luktum dyrum. Meiri hluti nefndarinnar telur að ekki sé þörf á að breyta gildandi ákvæðum með vísun til þess að ekki væri kunnugt um að ágreiningur hafi orðið um það hvort loka bæri þinghaldi þegar brotaþoli kynferðis­brots gefur skýrslu.
    Í fjórða lagi leggur minni hluti nefndarinnar til að brotaþola verði tryggður lögvarinn réttur til að ákveða hvort sakborningur verði viðstaddur þegar brotaþoli gefur skýrslu sína. Meiri hlutinn telur ekki ástæðu til að gera breytingar á gildandi ákvæðum með vísun til þess að ekki sé kunnugt um að þau hafi leitt til vandkvæða.
    Í fimmta lagi leggur nefndin til að lögfest verði ákvæði um að í ákveðnum tilvikum, svo sem þegar endurrit af dómum eða gögnum máls eru afhent, komi ekki fram persónulegar upp­lýsingar um vitni, þ.m.t. brotaþola, og að varsla slíkra gagna og umgengni um þau verði tryggð. Sama gildi um vörslu myndbanda með yfirheyrslum yfir börnum og um aðgang að slíkum gögnum.
    Í sjötta lagi gerir nefndin tillögu um að brotaþoli eigi rétt á að hafa talsmann eða stuðn­ingsaðila viðstaddan skýrslutöku yfir honum hjá lögreglu í stað löglærðs talsmanns ef um það er að ræða, enda telji lögregla ekki hættu á að slíkt hafi áhrif á rannsókn máls eða fram­burð vitnis. Minni hluti nefndarinnar leggur auk þess til að brotaþoli eigi að hafa rétt til að ákveða hvort skýrsla af honum sé tekin af karli eða konu. Meiri hlutinn telur ekki rök til að setja slík ákvæði í lög.
    Í sjöunda lagi er lagt að lögfest verði ákvæði um rétt brotaþola til að fá aðgang að gögn­um máls til að gæta hagsmuna sinna þegar það telst forsvaranlegt að öðru leyti.
    Í áttunda lagi er lagt til að upplýsingagjöf til brotaþola verði aukin, bæði almennt og ein­staklingsbundið, og að þeir fái ítarlegar, skriflegar upplýsingar um gang mála.
    Í níunda lagi er lagt til að þegar ekki er unnt að reka bótakröfu samhliða sakamálinu af réttarfarsástæðum verði bótaþátturinn skilinn frá sakamálinu og meðferð kröfunnar verði haldið áfram í samræmi við lög um meðferð einkamála. Leitað verði leiða til að þrýsta á sak­borning að greiða bætur og að brotaþola verði veitt aðstoð við innheimtu bótakröfu.
    Loks er lagt til að sett verði í lög sérstakt ákvæði er takmarki sönnunarfærslu varðandi fyrri kynhegðun brotaþola.

III.

    Í marsmánuði 1997 mælti dómsmálaráðherra á Alþingi fyrir skýrslu um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum. Í framhaldi af því var ákveðið að skipa nefndir til að huga að úrbótum á þessu sviði. Meðal þeirra var nefnd sem hafði það hlutverk að huga að meðferð heimilisofbeldismála á rannsóknarstigi hjá lög­reglu og nefnd er skyldi huga að meðferð heimilisofbeldismála í dómskerfinu. Báðar skyldu nefndir þessar gera tillögur um nauðsynlegar úrbætur, þar á meðal um breytingar á réttar­farslöggjöf.
    Nefnd um meðferð heimilisofbeldismála í dómskerfinu leggur til í skýrslu sinni frá því í apríl 1998 að í lög um meðferð opinberra mála verði tekið ákvæði um rétt brotaþola til að fá skipaðan löglærðan talsmann. Samkvæmt því skuli þolendur kynferðisbrota skv. 194.–202. gr. almennra hegningarlaga eiga rétt til lögmannsaðstoðar. Dómara verði einnig heimilt að skipa brotaþola löglærðan talsmann ef ástæða er til að ætla að brotaþoli hljóti verulegt líkams- eða heilsutjón og lögmannsaðstoðar þykir þörf. Lagt er til að heimild dómara til að skipa brotaþola löglærðan talsmann nái einnig til ofsókna- og hótanabrota skv. 232. og 233. gr. almennra hegningarlaga. Jafnframt er lagt til að ákvæði um nálgunarbann verði tekið upp í lög um meðferð opinberra mála. Brýn þörf sé á lagaákvæði er heimili notkun nálgunarbanns sem bráðabirgðaúrræðis er beita mætti til þess að koma í veg fyrir refsiverðan verknað. Um meðferð beiðna fari eftir reglum þeirra laga um rannsóknar- og þvingunarúrræði eftir því sem við eigi. Þannig verði unnt að banna manni að halda sig á ákveðnum svæðum, fylgja eftir, ásækja eða á annan hátt setja sig í samband við annan mann ef sýnt þyki að hætta væri á að sá sem bannið beindist gegn mundi annars fremja refsiverðan verknað gegn honum, ásækja eða á annan hátt raska friði hans. Nálgunarbannið megi leggja á að kröfu þess sem vernda skal eða þegar þess þyki annars þörf. Nálgunarbannið verði tímabundið og lagt á lengst eitt ár í senn. Brot gegn slíku banni varði sömu refsingu og brot gegn nálgunarbanni sem nefndin leggur til að tekið verði upp í almenn hegningarlög.

IV.

    Meginmarkmiðið með frumvarpi þessu er sem fyrr segir að styrkja réttarstöðu brotaþola, þ.e. þeirra einstaklinga sem hafa verið þolendur afbrota eða misgert hefur verið við, svo að notað sé orðalag sem sums staðar kemur fyrir í lögum. Sérstaklega er stefnt að því að bæta réttarstöðu þeirra einstaklinga sem hafa verið beittir ofbeldi í einhverri mynd. Ástæða þessa er sú að þolendur afbrota hafa sérstakra hagsmuna að gæta, umfram aðra, þótt þeir séu ekki beinir aðilar að sakamáli á sama hátt og ákæruvaldið og ákærði. Það á ekki síst við einka­réttarkröfur á borð við skaðabótakröfur í opinberu máli, en brotaþolar hafa sjálfir visst for­ræði yfir þeim kröfum, svo sem fyrir er mælt í 5. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.
    Áður en þau lög tóku gildi 1. júlí 1992 má segja að eina réttarúrræðið í lögum um með­ferð opinberra mála, sem var brotaþolum sérstaklega til hagsbóta, hafi verið að þar var mælt fyrir um einkaréttarkröfur þeirra, fyrst og fremst bótakröfur, vegna refsiverðrar háttsemi sem þeir urðu fyrir. Samkvæmt lögunum áttu brotaþolar þess kost að koma einkaréttarkröfum sínum að í opinberu máli, en með því móti var leyst úr kröfunum á einfaldan og fljótvirkan hátt án mikilla fjárútláta fyrir þá sem þær gerðu. Þetta hagræði hefur haldist síðan, en því til viðbótar voru tekin upp í gildandi lög nokkur ákvæði sem ætlað var að treysta réttarstöðu brotaþola frá því sem verið hafði. Má t.d. nefna að dómara er nú rétt að ákveða að dómþing skuli háð fyrir luktum dyrum til hlífðar brotaþola sérstaklega, sbr. b-lið 8. gr. laganna, lög­reglu er skylt að tilkynna kæranda, hafi hann hagsmuna að gæta, ef kæru hans er vísað frá eða rannsókn hætt, sbr. 2. mgr. 76. gr., og sama skylda er lögð á herðar ákæranda gagnvart þeim sem misgert hefur verið við ef mál er fellt niður eða fallið er frá saksókn, sbr. 1. mgr. 114. gr. Þá skal ákærða, auk bóta fyrir beint tjón og miska vegna refsiverðrar háttsemi í garð brotaþola, gert að greiða kostnað við kröfugerð, þar á meðal vegna lögmannsaðstoðar, sbr. 4. mgr. 172. gr. laganna, og jafnframt skal gefa brotaþola eða umboðsmanni hans kost á að tjá sig um kröfuna og skýra hana fyrir dómi, ef slíkt getur orðið án verulegra tafa eða óhag­ræðis í máli, sbr. 5. mgr. sömu greinar.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það réttarfarshagræði haldist sem brotaþolum er fengið í gildandi lögum en réttarstaða þeirra verði hins vegar styrkt til muna frá því sem nú er. Við samningu þessa hluta frumvarpsins hefur einkum verið höfð hliðsjón af tillögum umboðs­manns barna og skýrslu nefndar um stöðu brotaþola sem lýst er í I. og II. kafla hér að framan. Jafnframt hefur verið horft til þess hvernig réttarstaða brotaþola í sakamálum er í norrænum réttarfarslögum, þá einkum í Danmörku og Noregi.
    Þess verður að sjálfsögðu gæta þegar kveðið er á um bætta réttarstöðu brotaþola að ekki verði skert þau réttindi sem sakborningi eru fengin í 67. og 70. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, sbr. stjórnarskipunarlög, nr. 97/1995, svo og í 5. og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þannig er t.d. ekki lagt til í frumvarpinu að sönnunarfærsla af hálfu sakbornings verði takmörkuð, svo sem lagt er til í skýrslu nefndar um stöðu brotaþola, en með því móti væri gengið gegn markmiði þeirrar meginreglu 2. mgr. 70. gr. stjórnar­skrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Sömuleiðis verður að forðast, eftir því sem kostur er, að meðferð mála verði þyngri í vöfum og sein­virkari en verið hefur. Það væri vissulega æskilegt fyrir brotaþola, eins og fram kemur í umræddri skýrslu, að þurfa ekki að höfða einkamál með venjulegum hætti ef skaðabótakröfu hans hefur verið vísað frá dómi af réttarfarsástæðum. Þetta hefði á hinn bóginn í för með sér að rökstyðja þyrfti bótakröfur í opinberu máli á sama hátt og í einkamáli, en þær hafa hingað til verið tilgreindar í ákæru án sérstaks rökstuðnings vegna tengsla þeirra við kröfur um refs­ingu eða önnur refsikennd viðurlög. Sú breyting mundi óhjákvæmilega leiða til nokkurs dráttar á meðferð þeirra opinberu mála þar sem bótakröfur eru gerðar og er því ekki gert ráð fyrir þessari afbrigðilegu málsmeðferð í frumvarpinu.
    Meginbreytingin á réttarstöðu brotaþola, sem felst í frumvarpinu, er sú að tekin verði upp skylda til að tilnefna eða skipa brotaþola réttargæslumann til að gæta hagsmuna hans í opin­beru máli ef hann hefur verið beittur ofbeldi þannig að hann hafi orðið fyrir verulegu tjóni af þess völdum og þurfi á sérstakri aðstoð slíks málsvara að halda, sbr. nánar b- og c-liði 14. gr. frumvarpsins. Þar er reyndar gengið lengra þegar um er að ræða börn, yngri en 18 ára, ef grunur leikur á að þau hafi orðið fórnarlömb kynferðisbrota vegna þess að lagt er til að skylt verði að skipa þeim réttargæslumann undir öllum kringumstæðum. Í d–i-liðum 14. gr., svo og í 30. og 34. gr. frumvarpsins, er að finna ákvæði um það hvernig staðið skuli að til­nefningu eða skipun réttargæslumanns, svo og hver skuli vera réttindi hans og skyldur. Vísast um þau til athugasemda við þessar greinar frumvarpsins.
    Aðrar helstu breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á réttarstöðu brotaþola í frum­varpinu, eru þessar:
     1.      Lagt er til að ákvæðum um að lokuð þinghöld verði breytt, m.a. á þann veg að brotaþoli geti krafist þess að réttarhald fari fram fyrir luktum dyrum og hann síðan skotið ákvörðun héraðsdómara til Hæstaréttar felli hann sig ekki við hana, sbr. 1. gr., svo og 31. og 32. gr. frumvarpsins.
     2.      Þess verði gætt betur en verið hefur að upplýsingum um persónulega hagi brotaþola verði haldið leyndum, sbr. 2. gr., svo og 1. tölul. 47. gr. frumvarpsins.
     3.      Lögreglu verði gert skylt að leiðbeina brotaþola um lögmælt réttindi hans. Jafnframt verði ákvæði um tilkynningarskyldu lögreglu og ákæranda gagnvart brotaþola gerð ítar­legri en nú er, sbr. a-lið 14. gr., svo og 24. og 25. gr. frumvarpsins.
     4.      Í 23. gr., sbr. 21. og 22. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir þegar um er að ræða rannsókn á kynferðisbroti og brotaþoli er barn undir 18 ára aldri að dómari taki skýrslu af honum svo fljótt sem verða má, þ.e. áður en ákæra er gefin út. Jafnframt að barnið þurfi að jafnaði ekki að gefa skýrslu að nýju í málinu, sbr. 16. gr. frumvarpsins.
     5.      Þegar skýrsla er tekin af brotaþola sem er yngri en 18 ára er gerð tillaga um að ákærandi, sakborningur og verjandi skuli ekki eiga fortakslausan rétt á að vera við­staddir í dómsal eða annars staðar þar sem dómþing er háð, heldur skuli gefa þeim kost á að fylgjast með skýrslutökunni um leið og hún fer fram. Settar verði reglur um tilhög­un skýrslutökunnar þannig að þeim sem mæta til hennar verði sem minnst íþyngt, sbr. 18. og 23. gr. frumvarpsins.
    Ef þær breytingar ná fram að ganga sem frumvarpið gerir ráð fyrir er óhætt að fullyrða að réttarstaða brotaþola við meðferð opinberra mála verður í stórum dráttum sú sama hér á landi og í Danmörku og Noregi. Ástæða er til að vekja athygli á því að ekki er í frumvarpinu að finna ákvæði um svonefnt nálgunarbann sem fjallað er um í skýrslu nefndar um stöðu brotaþola. Það stafar af því mati að eðlilegra sé að skipa ákvæði þess efnis í almenn hegn­ingarlög þar sem hvort eð er yrði í þeim lögum mælt fyrir um refsingu og önnur viðurlög ef brotið yrði gegn slíku banni.

V.

    Stefnt er að því á allra næstu árum að endurskoða gildandi lög um meðferð opinberra mála í heild með það fyrir augum að ný, heildstæð lög leysi þau af hólmi. Ýmis úrlausnarefni, sem telja verður meiri háttar, svo sem að samræma betur en nú er ákvæði laga um meðferð einka­mála og sakamála, hljóta að bíða slíkrar heildarendurskoðunar.
    Við samningu þessa frumvarps, sem eins og áður segir er fyrst og fremst ætlað að styrkja réttarstöðu brotaþola, var hins vegar brugðið á það ráð að gera tillögur um ýmsar minni háttar breytingar á lögunum. Sumar þeirra eru tengdar meginefni frumvarpsins, en aðrar þóttu það brýnar að ekki væri ástæða til að bíða eftir þeirri heildarendurskoðun sem að framan greinir og mun óhjákvæmilega verða nokkuð tímafrek.
    Þær breytingar, sem hér um ræðir, eru þessar helstar:
     1.      Eins og fram kemur í III. kafla er gert ráð fyrir að heitið „réttargæslumaður“ verði notað um skipaðan eða tilnefndan málsvara brotaþola. Nauðsynlegt er því að hætta nota það heiti um tilnefndan málsvara sakbornings eins og nú er gert í 36. gr. laganna. Þannig er lagt til að heitið „verjandi“ taki framvegis til málsvara sakbornings, hvort sem hann er skipaður í starfið af dómara eða tilnefndur í það af lögreglu. Eftir sem áður verði heitið „talsmaður“ notað um málsvara sem er valinn af sakborningi án atbeina dómara eða lögreglu. Samhliða þessari breytingu er lagt til að ákvæðum um verjanda verði breytt í nokkrum öðrum atriðum, svo sem nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum við 4.–13. gr. frumvarpsins.
     2.      Eitt þessara atriða, sem ástæða er til að nefna sérstaklega, er að gert er ráð fyrir að verjandi geti óhindrað kynnt gögn og efni þeirra fyrir sakborningi um leið og hann hefur fengið aðgang að þeim, sbr. 11. og 12. gr. frumvarpsins. Á móti er lagt til að lögregla geti neitað að veita verjanda aðgang að gögnum í skamman tíma ef hún telur að slíkt geti skaðað rannsókn málsins. Á þeim tíma getur hún óskað eftir því að tekin verði skýrsla af sakborningi eða vitnum fyrir dómi í því skyni að upplýsa mál áður en sakborningur fær tækifæri til að bera sig saman við aðra, sbr. 23. gr. frumvarpsins.
     3.      Í 17. gr. frumvarpsins er lagt til að heimilt verði í sakamálum að taka skýrslu af vitni gegnum síma eða annað fjarskiptatæki á sama hátt og í einkamálum.
     4.      Í 20. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að ríkissaksóknari geti mælt fyrir um rannsókn ef sérstaklega stendur á og ríkir almanna- og einkahagsmunir mæla með því þótt ætla megi að refsingu verði ekki við komið.
     5.      Gerð er tillaga um í 25. gr. frumvarpsins að framvegis nægi ekki að fá samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda síma til símahlerunar í þágu rannsóknar opinbers máls, sbr. 1. mgr. 87. gr. laganna, heldur þurfi ávallt úrskurð dómara til þess.
     6.      Með 35.–38. gr. frumvarpsins er ákvæðum um sakarkostnað í opinberum málum breytt, þar á meðal verði saksóknarkostnaður af ríkisins hálfu ekki talinn til sakarkostnaðar, svo sem nú er gert í a-lið 1. mgr. 164. gr. laganna.
     7.      Í samræmi við 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, er lögð til breyting á 1. mgr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þannig verði það ekki gert lengur að skilyrði fyrir bótum til manns, sem sætt hefur refsivist eða þvingunarráðstöfun á borð við gæsluvarðhald og ekki verið sak­felldur fyrir refsiverða háttsemi, að fremur megi telja hann líklegan til að vera saklausan en sekan af háttseminni, sbr. 42. gr., svo og 43. gr. frumvarpsins.
     8.      Loks er lagt til í 45. gr. frumvarpsins að heimilt verði að endurupptaka mál í því skyni að endurmeta sönnunargögn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á 8. gr. laga um meðferð opinberra mála, miða að því að treysta réttarstöðu brotaþola við meðferð opinberra mála eins gerð var grein fyrir í almennum athugasemdum hér að framan.
    Í 1. mgr. 8. gr. er gengið út frá því sem meginreglu að réttarhöld í opinberum málum séu eins og í öðrum dómsmálum háð í heyranda hljóði, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Síðan eru undantekningar gerðar frá þeirri reglu í a–g-liðum 1. mgr. Aðeins er um að ræða orðalagsbreytingu á b-lið 1. mgr. þar sem eðlilegt er að gera brotaþolum hærra undir höfði en nú er gert og telja þá upp á undan öðrum vitnum í máli.
    Hins vegar er lagt til að 2. mgr. 8. gr. verði breytt á tvo vegu. Í fyrsta lagi geti dómari ákveðið að loka þinghaldi, ýmist að eigin frumkvæði eða eftir kröfu ákæranda, sakbornings (eða verjanda hans) og loks brotaþola (eða réttargæslumanns hans). Önnur vitni en brotaþoli geti ekki gert slíka kröfu. Í annan stað er ráð fyrir því gert að sá sem ekki fellir sig við ákvörðun dómara geti hér eftir krafist rökstudds úrskurðar um hana, sbr. 2. mgr. 134. gr. laga um meðferð opinberra mála. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 31. og 32. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Þessi grein hefur að markmiði að veita brotaþolum aukna vernd með því að koma í veg fyrir að persónulegar upplýsingar um þá séu veittar hverjum sem er. Brotaþolar, t.d. í kyn­ferðisbrotamálum, geta haft ríka hagsmuni af því að þeim upplýsingum sé haldið leyndum.
    Skv. 2. mgr. 10. gr. laga um meðferð opinberra mála, svo breyttri, er dómara heimilt að leggja bann við því að skýrt sé opinberlega frá atriðum í réttarhöldum þótt þau séu háð í heyranda hljóði ef ætla má að þau geti valdið brotaþola, einum og sér, verulegum þjáningum eða óþægindum.
    Þá er lagt til að nýrri málsgrein verði bætti við 10. gr. laganna. Því ákvæði er ætlað að koma í veg fyrir að endurrit, t.d. af dómum eða úrskurðum, sem afhent eru öðrum en ákær­anda, sakborningi (eða verjanda hans) og brotaþola (eða réttargæslumanni hans), hafi að geyma atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna, þar á meðal hagsmuna sakbornings, brotaþola eða annarra vitna í máli. Það er sjálfsögðu háð mati hverju sinni hvaða atriði falla undir þetta ákvæði, en eðlilegt er við það mat að líta til sömu sjónarmiða og búa að baki reglum um þagnarskyldu dómara og annarra opinberra starfs­manna. Í sumum tilvikum þyrfti eflaust að nema brott hluta af skýrslum sem sakborningur, brotaþoli og vitni hafa gefið fyrir dómi eða lögreglu, en í öðrum tilfellum væri nægilegt að afmá nöfn og önnur sérkenni sem tengjast máli. Ætlast er til að slík atriði verði numin á brott úr endurritum sem t.d. eru afhent fjölmiðlum, en komið hefur fyrir að svo hafi ekki verið gert. Í 1. tölul. 47. gr. frumvarpsins er lagt til að sams konar breyting verði gerð á lögum um með­ferð einkamála.

Um 3. gr.

    Sú rýmkun á ákæruvaldi lögreglustjóra, sem hér er ráðgerð, er byggð á tillögum ríkis­saksóknara. Á grundvelli 1. mgr. 29. gr. laga um meðferð opinberra mála hefur hann falið lögreglustjórum að flytja mál í héraði vegna brota á 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga (meiri háttar líkamsmeiðingar án þess að refsiþyngjandi ástæður séu fyrir hendi) og 233. gr. sömu laga (alvarlegar hótanir og ógnanir). Að áliti ríkissaksóknara hefur þetta gefið góða raun og telur hann því hagkvæmast að lögreglustjórum verði jafnframt veitt heimild til að gefa út ákæru í þessum málum.

Um 4. gr.

    Lagt er til að við 1. mgr. 35. gr. laga um meðferð opinberra mála bætist orðin „ef ástæða er til þess að mati dómara með tilliti til eðlis brots og allra aðstæðna“. Að gefnu tilefni er þetta gert til að taka af öll tvímæli um það að dómara er heimilt, en ekki skylt, að fallast á ósk sakbornings um að honum skuli skipaður verjandi á rannsóknarstigi, nema í því tilviki að þess hafi verið krafist að hann verði settur í gæsluvarðhald, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 34. gr. laganna. Dómara ber því aðeins að verða við slíkri ósk að hann telji sakborningi nauðsynlegt að njóta aðstoðar verjanda svo að hann fái gætt hagsmuna sinna vegna eðlis brots þess sem er að ræða og allra annarra aðstæðna.

Um 5. gr.

    Fyrri málsliður þessarar greinar er sama efnis og 1. mgr. 36. gr. laga um meðferð opinberra mála eins og það ákvæði hljóðar nú. Vegna þess að heitið „réttargæslumaður“ er, eins og áður greinir, notað í 14. gr. frumvarpsins um málsvara brotaþola er óhjákvæmilegt að taka upp annað heiti, til aðgreiningar, á málsvara sakbornings sem tilnefndur er af lög­reglu að hans ósk við handtöku í þágu rannsóknar opinbers máls. Hér eftir er lagt til að heitið „verjandi“ verði notað jöfnum höndum um málsvara sakbornings, hvort sem hann er til­nefndur í starfið eða skipaður í það af dómara, sbr. 34. og 35. gr. laganna. Engin ástæða er heldur til að nota mismunandi heiti í þessum tveimur tilvikum vegna þess að tilnefndur réttar­gæslumaður hefur hvort sem er haft sömu réttindi og skyldur og verjandi eftir því sem við á, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna.
    Önnur breyting af svipuðum toga, sem er einkennandi fyrir þetta frumvarp, er að nota heitið „lögregla“ í stað heitisins „rannsóknari“ hvarvetna sem það á við.
    Æskilegt er að taka fram í lögum hve lengi tilnefning á verjanda skuli standa. Í síðari málslið þessarar greinar er gert ráð fyrir að hún falli sjálfkrafa úr gildi, annaðhvort þegar sá handtekni er látinn laus eða hann er leiddur fyrir dómara og þess krafist að hann verði settur í gæsluvarðhald, sbr. 102. og 105. gr. laganna. Í því tilviki ber dómara skv. a-lið 1. mgr. 34. gr. laganna að skipa hinum handtekna manni verjanda ef hann óskar þess og er því eðlilegt að tilnefning verjanda falli niður af sjálfu sér.


Um 6. gr.

    Skv. 1. mgr. 37. gr. laga um meðferð opinberra mála getur sakborningur valið sér talsmann til að gæta hagsmuna sinna og halda uppi vörnum, t.d. ef dómari verður ekki við kröfu hans um að skipa honum verjanda skv. 1. mgr. 35. gr. laganna eða neitar að skipa tiltekinn lögmann sem verjanda, sbr. 2. mgr. 38. gr. laganna.
    Í greininni er gert ráð fyrir tveimur breytingum á 37. gr. laganna. Í fyrsta lagi að talsmaður verði framvegis að koma úr röðum lögmanna, en telja verður að sakborningi sé lítil stoð í talsmanni sem ekki hefur lögmannsréttindi. Ef sakaður maður kýs að gæta hags­muna sinna í opinberu máli, án aðstoðar lögmanns, er að jafnaði ekkert því til fyrirstöðu að hann annist sjálfur vörn sína, sbr. 2. mgr. 34. gr. laganna og c-lið 3. mgr. 6. gr. mann­réttindasáttmála Evrópu. Í öðru lagi að í 2. mgr. 37. gr. verð felld á brott tilvísun til 3. mgr. 39. gr. laganna, en óeðlilegt er að þrengja kosti sakbornings við val á talsmanni á sama hátt og þegar honum er skipaður eða tilnefndur verjandi. Ef svo stendur t.d. á að talsmaður kunni að verða kvaddur til að bera vitni í málinu er hægt að nýta heimildina í 2. mgr. 37. gr. til að takmarka rétt hans á þann hátt sem þar greinir.

Um 7. gr.

    Í þessari grein er einungis lagt til að ákvæðum 38. gr. laga um meðferð opinberra mála verði breytt til samræmis við þær breytingar sem áður hefur verið gerð grein fyrir. Ef sak­borningur sættir sig ekki við synjun lögreglu um að tilnefna honum tiltekinn verjanda skv. 2. mgr. 38. gr. eða ákvörðun hennar skv. 3. mgr. 38. gr. getur hann borið slíkan ágreining undir dómara skv. 75. gr. laganna. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki sérstakra skýringa.

Um 8. gr.

    Gerð er tillaga um breytt orðalag á 1. mgr. 39. gr. laga um meðferð opinberra mála þannig að meginreglan verði framvegis sú að verjandi skuli skipaður eða tilnefndur úr hópi lög­manna. Á síðustu árum hefur lögmönnum fjölgað á landsbyggðinni þannig að yfirleitt ætti að vera kostur á lögmanni á þeim stað þar sem rannsókn fer fram eða mál er til meðferðar fyrir dómi. Þó verður að gera ráð fyrir að svo geti farið að ekki náist í tæka tíð til lögmanns sem er reiðubúinn til að taka að sér vörn sakbornings. Þess vegna er ráðgert að 2. mgr. 39. gr. haldist efnislega óbreytt.
    Sama er að segja um fyrri málsl. 3. mgr. 39. gr., en hins vegar hefur síðari málsliður máls­greinarinnar verði felldur á brott. Óþarft er að þrengja kosti sakbornings til að velja sér hæfan verjanda eins og þar er gert og eðlilegra að dómari víki einfaldlega sæti við slíkar aðstæður.

Um 9. gr.

    Hér er lagt til að orðalagi 1. mgr. 40. gr. laga um meðferð opinberra mála verði breytt á þann veg að taka beri til greina ósk sakbornings um að skipun eða tilnefning verjanda verði afturkölluð nema þau atvik séu fyrir hendi sem tilgreind eru í niðurlagi ákvæðisins.
    Skv. 2. mgr. 40. gr. getur dómari afturkallað skipun verjanda að eigin frumkvæði og skip­að annan í hans stað ef hann telur verjandann rækja starfið á óviðunandi hátt. Slík afskipti dómara, sem oftast nær hljóta að vera í andstöðu við vilja sakbornings, geta varla samrýmst sjálfstæðri og óvilhallri stöðu hans heldur er eðlilegra að frumkvæðið komi frá ákæranda eða lögreglu. Þá er ástæða til að herða á skilyrðunum fyrir því að verjandi verði leystur frá störfum í óþökk sakbornings og er gerð tillaga um breytingu þess efnis á 2. mgr. 40. gr., þ.e. að hann verði annaðhvort að hafa hindrað rannsókn máls með ólögmætum hætti, sbr. hlið­stætt orðalag í 2. mgr. 38. gr. laganna, eða brotið gegn starfsskyldum sínum á annan hátt. Vegna þess hve tilnefning stendur í skamman tíma, sbr. 5. gr. frumvarpsins, kæmi eflaust sjaldan til þess að krafa beindist að tilnefndum verjanda, en þó væri það ekki útilokað. Verjandi getur eftir sem áður krafist þess að dómari úrskurði um þetta atriði í samræmi við 2. mgr. 134. gr. laganna því að niðurlag 2. mgr. 40. gr. helst óbreytt.

Um 10. gr.

    Með þessari grein er ráðgert að 2. mgr. 41. gr. laga um meðferð opinberra mála verði breytt lítillega. Málsgreinin yrði þó efnislega óbreytt og þarfnast því þetta ákvæði frum­varpsins ekki sérstakra skýringa.

Um 11. gr.

    Í 1. mgr. 42. gr. laga um meðferð opinberra mála er svo fyrir mælt að verjanda sé heimilt að tala einslega við sakborning um hvað eina sem málið varðar. Þetta var eitt merkasta nýmælið sem tekið var upp í lögin á sínum tíma. Að fyrirmynd 1. mgr. 745. gr. dönsku réttar­farslaganna er hins vegar gerð sú undantekning í 1. mgr. 43. gr. að verjandi megi ekki láta skjólstæðingi sínum í té eintak af endurriti sem hann hefur fengið afhent eða kynna honum efni þess, t.d. með því að lesa það fyrir hann, nema dómari eða rannsóknari samþykki.
    Síðastgreint ákvæði hefur sætt harðri gagnrýni, m.a. frá lögmönnum sem telja að það samrýmist ekki hlutverki þeirra sem verjenda að halda einhverju leyndu fyrir skjólstæðingum sínum. Af þeim sökum er lagt til að undantekningarákvæðið verði afnumið og er tilvísunin í niðurlagi 1. mgr. 42. gr. því felld á brott. Jafnframt verði sérstaklega tekið fram í 2. mgr. 43. gr. að verjanda sé heimilt að láta sakborningi í té eintak af endurriti eða kynna honum gögn máls með öðrum hætti þegar hann hefur fengið aðgang að þeim.

Um 12. gr.

    Í 1. mgr. 43. gr. laga um meðferð opinberra mála er að finna annað nýmæli sem tekið var upp í lög um meðferð opinberra mála á sínum tíma, en það er að verjandi skal jafnskjótt og unnt er fá endurrit af öllum skjölum sem málið varða, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn sem ekki verða endurrituð.
    Eins og fram kemur í athugasemdum með 11. gr. frumvarpsins er gert fyrir ráð því í 2. mgr. þessarar greinar að verjandi geti afhent skjólstæðingi sínum eintak af endurriti eða kynnt honum gögn með öðrum hætti um leið og hann hefur fengið aðgang að þeim. Þar með gæti sakaður maður hagrætt framburði sínum, t.d. eftir að hafa fengið vitneskju um framburð annarra sakborninga eða vitna fyrir lögreglu. Þar eð slíkt getur skaðað rannsókn máls og jafnvel komið í veg fyrir að það upplýsist er lagt til að lögreglu sé fengin heimild til að synja verjanda um aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að eina viku frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Með fyrrgreinda tímamarkinu er t.d. átt við það þegar skýrsla er tekin, hvort sem er af sakborningi eða vitni, en með því síðargreinda þegar gögn, sem áður hafa orðið til, berast lögreglu, t.d. gögn erlendis frá. Rétt er að leggja áherslu á að þessi heimild lögreglu, sem hér um ræðir, er hugsuð sem undantekningarákvæði sem aðeins ætti að beita þegar sérstaklega stendur á og verulegir hagsmunir eru í húfi. Í 23. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að lögregla geti meðan á rannsókn máls stendur farið fram á að tekin verði skýrsla af sakborningi eða vitnum fyrir dómi áður en verjandi fær aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum, en um skýringu á því ákvæði vísast annars til athugasemda með þeirri grein. Þegar verjandi hefur fengið aðgang að gögnum máls er honum heimilt að láta sakborningi í té eintak af endurriti eða kynna honum gögnin með öðrum hætti.

Um 13. gr.

    Á 44. gr. laga um meðferð opinberra mála eru ráðgerðar nokkrar orðalagsbreytingar, m.a. til samræmis við aðrar breytingar á VI. kafla laganna. Greinin þarfnast ekki sérstakra skýr­inga.

Um 14. gr.

    Í þessari grein er eins og áður segir að finna ákvæði sem verður að telja með mikilvægustu nýmælum þessa frumvarps. Gerð er tillaga um það, m.a. til þess að leggja áherslu á nýja og bætta réttarstöðu brotaþola við rannsókn opinbers máls og meðferð þess fyrir dómi, að tekinn verði upp nýr kafli í lög um meðferð opinberra mála, VII. kafli, með fyrirsögninni „Brotaþoli og réttargæslumaður“ í samræmi við fyrirsögnina á VI. kafla laganna. Jafnframt er lagt til að núverandi VII. kafla og VIII. kafla, sem báðir hafa að geyma ákvæði um sönnun og sönnunargögn, verði steypt saman í einn kafla, VIII. kafla, sbr. 15. gr. frumvarpsins.
    Gert er ráð fyrir að í hinum nýja kafla um brotaþola og réttargæslumann hans verði níu lagagreinar. Í fyrstu greininni, 44. gr. a, er mælt fyrir um nokkur grundvallarréttindi brota­þola og má segja að hún samsvari 32. og 33. gr. laganna. Í 44. gr. b–i er síðan kveðið á um réttargæslumann (og talsmann) með áþekkum hætti og um verjanda (og talsmann) í 34.–44. gr. laganna.
    Í 1. mgr. 44. gr. a er sérstaklega mælt fyrir um skyldu lögreglu til að leiðbeina brotaþola um þau réttindi sem honum er fengin í lögum, hvort sem er í lögum um meðferð opinberra mála eða öðrum lögum. Í 44. gr. e, þar sem vísað er til 38. gr. laganna, felst að lögreglu ber m.a. að vekja athygli brotaþola á rétti til að fá sér tilnefndan eða skipaðan réttargæslumann í samræmi við 44. gr. b eða c. Að öðru leyti er ástæðulaust að fjalla nánar um það hvað í þessari skyldu felst, en rétt er að vekja athygli á því að í 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er almennt kveðið á um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, þar á meðal lögreglu.
    Í gildandi lögum er ekki kveðið sérstaklega á um tilkynningarskyldu lögreglu eða ákær­anda gagnvart brotaþola ef frá er talin 1. mgr. 114. gr. laganna þar sem segir að ákærandi skuli tilkynna þeim sem misgert hefur verið við ef mál er fellt niður skv. 112. gr. eða fallið er frá saksókn skv. 113. gr. Með 2. og 3. mgr. 44. gr. a er lagt til að úr þessu verði bætt og mælt fyrir um víðtæka tilkynningarskyldu gagnvart brotaþola þannig að hann sé á hverjum tíma upplýstur um meðferð máls og afdrif þess. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að brotaþola verði ávallt tilkynnt ef rannsókn máls er hætt eða það fellt niður án tillits til þess hvort hann hefur kært brotið. Í samræmi við 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga ber að rökstyðja ákvörðun um að hætta rannsókn eða fella niður mál með öðrum hætti ef brotaþoli krefst þess.
    Athygli er vakin á því að í a-lið 24. gr. frumvarpsins er lagt til að við 1. mgr. 76. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: „Sá sem á hagsmuna að gæta getur borið ákvörðun lögreglu undir ríkissaksóknara sem tekur fullnaðarákvörðun um hvort rannsókn skuli fara fram eða ekki.“ Þar eð þetta ákvæði tekur samkvæmt orðanna hljóðan til brotaþola er tekið fram í 2. mgr. 44. gr. a að lögregla skuli benda honum á þennan rétt, en síðari málsliður 2. mgr. 76. gr., sem lagt er til í b-lið 24. gr. frumvarpsins að verði breytt, er eðli máls sam­kvæmt einskorðaður við þá sem kært hafa brot.
    Eins og áður segir hvílir skv. 1. mgr. 114. gr. laga um meðferð opinberra mála tilkynn­ingarskylda á ákæranda gagnvart brotaþola ef mál er fellt niður skv. 112. eða fallið er frá saksókn skv. 113. gr., sbr. 26. gr. frumvarpsins. Í 3. mgr. 44. gr. a er til viðbótar tekið fram að ef ákæra er gefin út í máli skuli ákærandi tilkynna brotaþola það. Jafnframt ber ákæranda að tilkynna brotaþola um niðurstöðu dóms, ef máli lýkur á þann hátt, eða afdrif þess að öðru leyti, svo sem ef málinu eða einkaréttarkröfu hans er vísað frá dómi.
    Í 4. mgr. 44. gr. a er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um leiðbeiningar- og tilkynningarskyldu ákæranda og lögreglu samkvæmt greininni. Með því móti er unnt að gera grein fyrir þeirri tvíþættu skyldu heildstætt og ítarlega þannig að öllum hlutaðeigandi verði hún ljós.
    Í 44. gr. b og c er mörkuð sú stefna að lögregla skuli tilnefna brotaþola réttargæslumann meðan á rannsókn máls stendur, en dómari skuli að jafnaði því aðeins skipa réttargæslumann að mál hafi verið höfðað með útgáfu ákæru, sbr. og b-lið 30. gr. frumvarpsins. Sú tilhögun að lögregla tilnefni réttargæslumann á rannsóknarstigi er einfaldari í sniðum en það fyrirkomulag, sem tíðkast t.d. í Danmörku, að hann skuli ávallt vera skipaður af dómara, sbr. 741. gr. a í dönsku réttarfarslögunum. Þessi skipan ætti því að vera hagkvæmari fyrir brota­þola, en í 2. mgr. 44. gr. c er gert ráð fyrir að hann (eða lögráðamaður hans) geti leitað atbeina dómara og óskað eftir því að honum verði skipaður réttargæslumaður ef lögregla hefur neitað eða látið hjá líða að tilnefna honum málsvara. Fallist dómari á þá kröfu skipar hann réttargæslumann og er þar um að ræða undantekningu frá fyrrgreindri meginreglu.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum hér að framan hefur brotaþoli ekki átt rétt á því að honum væri tilnefndur eða skipaður réttargæslumaður til að gæta hagsmuna hans í opinberu máli. Í 3. mgr. 44. gr. i er ráð fyrir því gert að þóknun réttargæslumanns verði greidd úr ríkissjóði á sama hátt og þóknun verjanda. Þótt þóknun teljist til sakarkostnaðar þannig að ákærði verði dæmdur til að endurgreiða hana sé hann sakfelldur fyrir það brot, sem honum er gefið að sök, sbr. 165. gr. laganna, er ljóst að það mundi hafa veruleg útgjöld í för með sér ef tekin væri upp almenn eða víðtæk skylda til að tilnefna eða skipa brotaþola réttargæslumann. Ákvæði 1.–3. mgr. 44. gr. b eru við það miðuð annars vegar að útgjalda­auka af þessari nýju skipan verði haldið í skefjum og hins vegar að ákvæðin verði tiltölulega einföld í sniðum og þar með auðveldari í framkvæmd en ella væri. Við mótun ákvæðanna hefur sem fyrr segir verið höfð hliðsjón af tillögum umboðsmanns barna og skýrslu nefndar um réttarstöðu brotaþola, svo og 741. gr. a í dönsku réttarfarslögunum og 107. gr. a í norsku lögunum um meðferð sakamála.
    Í 1. mgr. 44. gr. b er kveðið á um fortakslausa skyldu lögreglu til að tilnefna brotaþola réttargæslumann ef í hlut á barn sem er yngra en 18 ára þegar rannsókn hefst, enda leiki grunur á að það hafi orðið fyrir kynferðisbroti, sbr. XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Ástæðan fyrir því að mælt er fyrir um almenna skyldu til að tilnefna brotaþola mál­svara þegar svo stendur á er að slík rannsókn beinist oft og tíðum að ofbeldisbrotum sem hafa haft í för með sér varanlegt tjón á líkama og andlegu heilbrigði þeirra sem fyrir þeim hafa orðið. Ekki verður heldur litið framhjá þeirri staðreynd að í hlut eiga einstaklingar sem lítils mega sín og þurfa því yfirleitt á sérstakri aðstoð réttargæslumanns að halda. Skv. 1. mgr. 44. gr. b er skylt að tilnefna réttargæslumann ef fyrrgreind skilyrði eru fyrir hendi án tillits til þess hvort lögráðamaður brotaþola, sem er ólögráða fyrir æsku sakir skv. 1. mgr. 1. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, ber fram ósk um slíka tilnefningu. Þetta stafar m.a. af því að fyrir kemur að lögráðamaður er sjálfur sakborningur í málum sem þessum. Þá þykir ekki ástæða til að gera greinarmun á því að hvaða broti í XXII. kafla hegningarlaga rannsókn beinist, enda er oft erfitt að greina þar á milli við upphaf rannsóknar. Til einföldunar er miðað við aldur brotaþola á þeim tíma þegar rannsókn hefst þannig að ekki er útilokað að hann sé nýorðinn 18 ára þegar réttargæslumaður er tilnefndur.
    Í 2. mgr. 44. gr. b er mælt svo fyrir að lögreglu sé skylt, í öðrum tilvikum en þeim sem til­greind eru í 1. mgr., eftir ósk brotaþola (eða lögráðamanns hans) að tilnefna honum réttar­gæslumann ef eftirgreindum skilyrðum er fullnægt: Í fyrsta lagi að rannsókn beinist að brotum á XXII., XXIII. eða XXIV. kafla almennra hegningarlaga eða 251.–253. gr. laganna, í öðru lagi að ætla megi að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins og í þriðja lagi að hann hafi, að mati lögreglu, þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu. Síðastgreind tvö skilyrði eru tekin upp í frumvarpið úr 107. gr. a í norsku lögunum um meðferð sakamála. Brot þau, sem hér er vísað til, eiga það flest sameiginlegt að vera ofbeldisbrot, en í XXII. kafla hegningarlaga er að finna kynferðisbrot, í XXIII. kafla brot á borð við manndráp og líkamsmeiðingar og í XXIV. kafla brot gegn frjálsræði manna. Í 251. gr. laganna er fjárkúgun lýst refsiverð, í 252. gr. rán og í 253. gr. misneyting sem fólgin er því að maður hafi notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða það að hann var honum háður til þess afla sér fjárhagslegs ávinnings. Þess má geta að ríkissaksóknari höfðar mál vegna flestra þessara brota, sbr. 3. mgr. 27. gr. laga um meðferð opinberra mála. Á sama hátt og í 1. mgr. þykir ekki ástæða til að gera greinarmun á brotum sem falla undir XXII. og XXIII. kafla hegningarlaga þótt þau séu misjafnlega alvarleg, ekki síst vegna þeirrar afmörkunar sem fólgin er í skilyrðinu um að ætla megi að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins. Það skilyrði er annars háð mati lögreglu og eftir atvikum dómara, sbr. 2. mgr. 44. gr. c. Sama er að segja um skilyrðið að brotaþoli þurfi á sérstakri aðstoð réttargæslumanns að halda. Ef hin tvö skilyrðin eru uppfyllt verður að telja líklegt að brotaþoli þurfi á slíkri aðstoð að halda, en þó þarf það ekki að vera, t.d. ef óvíst er hver framdi brotið sem er til rannsóknar þannig að einkaréttarkröfur verði ekki settar fram, eða málsatvik eru tiltölulega einföld. Í þvílíkum tilvikum væri brotaþoli fær um að gæta hagsmuna sinna sjálfur nema hann stæði höllum fæti, svo sem vegna ungs aldurs eða bágrar félagslegrar stöðu, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 44. gr. b.
    Í þeirri málsgrein segir að lögregla geti tilnefnt brotaþola réttargæslumann þótt hann (eða lögráðamaður hans) hafi ekki óskað þess ef framangreindum skilyrðum 2. mgr. 44. gr. b er fullnægt. Þetta ákvæði er hliðstætt 2. mgr. 35. gr. laga um meðferð opinberra mála og mætti t.d. beita því ef brotaþoli væri barn, yngra en 18 ára, og lögráðamaður þess sæi ekki ástæðu til að óska eftir að því yrði tilnefndur málsvari.
    Í fyrri málslið 4. mgr. 44. gr. b er svo fyrir mælt að séu skilyrði til þess að tilnefna réttargæslumann skv. 1.–3. mgr. skuli það gert jafnskjótt og tilefni gefst. Það getur t.d. gerst strax í upphafi rannsóknar ef ljóst er hver brotaþoli er og svo stendur á sem í 1. mgr. segir eða fram kemur ósk um tilnefningu skv. 2. mgr. Þetta hlýtur annars að ráðast af atvikum, þá fyrst og fremst með tilliti til hagsmuna brotaþola sjálfs. Samkvæmt síðari málsl. 4. mgr. 44. gr. b fellur tilnefning réttargæslumanns sjálfkrafa niður um leið og dómari skipar réttar­gæslumann skv. 1. mgr. 44. gr. c. Eðlilegt verður að telja að sami maður og tilnefndur var réttargæslumaður í upphafi sé skipaður til að gegna því starfi áfram en ekkert er því þó til fyrirstöðu að annar verði skipaður í hans stað, t.d. ef brotaþoli (eða lögráðamaður hans) óskar eftir því, sbr. 44. gr. e þar sem m.a. er vísað til 2. mgr. 38. gr. laganna. Ef mál er ekki höfðað tekur lögregla ákvörðun um það eftir atvikum hverju sinni hvenær tilnefning réttar­gæslumanns falli niður. Í sumum tilvikum væri eðlilegt að það gerðist um leið og rannsókn væri hætt eða mál fellt niður með öðrum hætti, en þó gæti brotaþoli þurft á aðstoð málsvara síns að halda í skamman tíma þótt mál væri niður fallið.
    Eins og áður segir er í 1. mgr. 44. gr. c, sbr. og b-lið 30. gr. frumvarpsins, gert ráð fyrir að dómari skipi brotaþola réttargæslumann við þingfestingu máls ef skilyrði sem tilgreind eru í 1.–3. mgr. 44. gr. b eru fyrir hendi. Það er ekki tilskilið að brotaþola hafi áður verið til­nefndur réttargæslumaður, enda geta aðstæður verið þannig að ekki sé þörf á slíkri aðstoð fyrr en eftir að mál hefur verið höfðað.
    Með 1. mgr. 44. gr. d er brotaþola, á sama hátt og sakborningi, gefinn kostur á að velja sér talsmann úr hópi lögmanna til að gæta hagsmuna sinna í opinberu máli. Greinin er að öðru leyti sniðin eftir 37. gr. laganna og vísast til athugasemda við 6. gr. frumvarpsins um frekari skýringar á henni.
    Í 44. gr. e er tekið fram að um tilnefningu, skipun og hæfi réttargæslumanns, svo og aftur­köllun á tilnefningu og skipun hans, gildi samsvarandi ákvæði og um verjendur í 38.–40. gr. laganna eftir því sem við á. Þetta þýðir m.a. að lögreglu eða dómara ber, eins og áður hefur verið nefnt, að vekja athygli brotaþola á rétti hans til að fá tilnefndan eða skipaðan réttar­gæslumann þegar það á við, sbr. 1. mgr. 38. gr. Við tilnefningu eða skipun hans skal að jafnaði fara eftir ósk brotaþola (eða lögráðamanns hans), sbr. 2. mgr. 38. gr. Þá skal réttar­gæslumaður að jafnaði tilnefndur eða skipaður úr hópi lögmanna, sbr. 1. mgr. 39. gr. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 7.–9. gr. frumvarpsins
    Segja má að 44. gr. f–i, þar sem kveðið er á um réttindi og skyldur réttargæslumanns, eigi sér fyrirmynd í samsvarandi ákvæðum um réttindi og skyldur verjanda í 41.–44. gr. laganna.
    Í 1. mgr. 44. gr. f er mælt fyrir um hlutverk réttargæslumanns. Honum ber fyrst og fremst að gæta hagsmuna brotaþola í opinberu máli en jafnframt að veita honum þá aðstoð í málinu sem krafist verður af löglærðum málsvara. Sérstaklega hvílir sú skylda á réttargæslumanni að móta einkaréttarkröfur fyrir brotaþola, einkum bótakröfur, koma þeim á framfæri við ákæruvaldið og fylgja þeim síðan eftir fyrir dómi, sbr. 5. mgr. 172. gr. laganna og 39. gr. frumvarpsins. Ákvæði 2. og 3. mgr. 44. gr. f eru sama efnis og 2. og 3. mgr. 41. gr. laganna og þarfnast ekki sérstakra skýringa.
    Gert er ráð fyrir því í 1. mgr. 44. gr. g að réttargæslumanni verði ávallt heimilt, á sama hátt og verjanda, að vera viðstaddur þegar skýrsla er tekin af skjólstæðingi hans. Ekki er tekið fram, frekar en í 2. mgr. 42. gr. laganna, að lögreglu sé þar með skylt að tilkynna honum fyrir fram um skýrslutöku, en það leiðir að sjálfsögðu af eðli máls. Ákvæði 1. og 2. mgr. 44. gr. g eru annars efnislega samhljóða 2. og 3. mgr. 42. gr. laganna, að öðru leyti en því að skv. 2. mgr. 44. gr. g á réttargæslumaður ekki rétt á því að vera viðstaddur þinghöld á rannsóknarstigi nema taka eigi skýrslu af brotaþola. Eftir að ákæra hefur verið gefin út á hann hins vegar rétt á að vera viðstaddur öll réttarhöld í málinu, jafnvel þótt þau séu háð fyrir luktum dyrum, og fá jafnframt vitneskju um hvenær þau hefjist, þar á meðal á að tilkynna honum með hæfilegum fyrirvara hvenær mál skuli þingfest. Brotaþoli á að jafnaði, eins og hver annar, rétt til að vera viðstaddur þinghöld á grundvelli meginreglunnar um opin­bera málsmeðferð. Þar eð hann er ekki aðili máls í skilningi laganna á hann hins vegar ekki rétt á því að vera viðstaddur lokað réttarhald, en réttargæslumanni er einmitt ætlað að gæta hagsmuna hans við þær aðstæður.
    Ákvæði 3. mgr. 44. gr. g taka mið af þessari staðreynd og því sömuleiðis að gæta verði, eftir því sem kostur er, jafnræðis milli ákæruvalds og ákærða. Þannig er lagt til að réttargæslumanni verði óheimilt að spyrja þá beint, sem skýrslur gefa fyrir dómi, öfugt við ákær­anda og verjanda, sbr. 2. mgr. 59. gr. laganna. Á hinn bóginn geti hann óskað þess að dómari eða ákærandi leggi spurningar fyrir þá. Skv. 5. mgr. 172. gr. laganna skal dómari gefa brota­þola eða réttargæslumanni, sbr. 39. gr. frumvarpsins, kost á að tjá sig um einkaréttarkröfur brotaþola. Þessi réttur þess síðarnefnda til að tjá sig er áréttaður í 3. mgr. 44. gr. g, og jafn­framt er þar tekið fram að honum sé heimilt að tjá sig munnlega um réttarfarsatriði, sem snúa sérstaklega að brotaþola, sbr. 4. mgr. 107. gr. c í norsku lögunum um meðferð sakamála. Sem dæmi má nefna skyldu brotaþola til að svara spurningu fyrir dómi eða kröfu um að sak­borningur víki úr þinghaldi en á hinn bóginn er skýrt kveðið á um það í 3. mgr. 44. gr. g að réttargæslumanni sé óheimilt að fjalla um kröfu ákæruvalds um refsingu og önnur viðurlög. Þó getur hann jafnan komið sjónarmiðum skjólstæðings síns á framfæri með því að fá bókaðar stuttorðar athugasemdir í þingbók samkvæmt nánari ákvörðun dómara.
    Í 44. gr. h er kveðið á um rétt réttargæslumanns, svo og brotaþola sjálfs, til aðgangs að gögnum máls. Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að aðgangur réttargæslumanns, sem og brotaþola sjálfs, sbr. 2. og 3. mgr., verði takmarkaður meðan á rannsókn stendur. Byggist þetta á því sjónarmiði að óheftur aðgangur að málsgögnum á rannsóknarstigi gæti skaðað rannsókn málsins sem væri í raun og veru andstætt hagsmunum brotaþola. Nauðsynlegt er þó að brota­þoli og réttargæslumaður hans fái ávallt aðgang að gögnum til þess að geta sett fram einka­réttarkröfur í málinu og fer að sjálfsögðu eftir atvikum hvaða gögn það eru. Að auki væri lögreglu heimilt, en ekki skylt, að veita frekari aðgang að gögnum telji hún það gagnlegt í þágu rannsóknar. Þegar ákæra hefur verið gefin út ætti venjulega ekkert að vera því til fyrir­stöðu að brotaþoli og réttargæslumaður fái aðgang að gögnum máls á sama hátt og ákærði og verjandi. Þó er sleginn sá varnagli í 1. mgr. 44. gr. h að dómari geti neitað að veita réttar­gæslumanni og þar með brotaþola aðgang að tilteknum gögnum ef hann telur að það kunni að torvelda að mál upplýsist, t.d. í því tilviki að hætta væri á því að brotaþoli hagræddi vitnisburði sínum fyrir dómi með hliðsjón af því sem fram kæmi í gögnunum. Aðgangur að þeim skal þó í síðasta lagi veittur áður en málið er flutt, þ.e. eftir að skýrslutökum er lokið, sbr. 3. mgr. 129. gr. laganna. Ákvæði 2. mgr. 44. gr. h er sama efnis og 2. mgr. 43. gr. lag­anna. Í 3. mgr. 44. gr. h er brotaþola, sem ekki nýtur aðstoðar málsvara, tryggður réttur til aðgangs að gögnum máls með sama hætti og réttargæslumanni skv. 1. mgr. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á 2. tölul. 47. gr. frumvarpsins þar sem gerð er tillaga um breytingu á 3. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga þess efnis að brotaþoli fái að kynna sér gögn máls eftir að það hefur verið fellt niður eða því lokið á annan hátt.
    Eins og áður segir er gengið út frá í frumvarpinu að þóknun réttargæslumanns, hvort sem hann er tilnefndur af lögreglu eða skipaður af dómara, verði greiddur úr ríkissjóði og teljist til sakarkostnaðar skv. 164. gr. laganna, sbr. 35. gr. frumvarpsins. Ákvæði þessa efnis er að finna í 3. mgr. 44. gr. i. Bæði 1. og 2. mgr. greinarinnar eru annars efnislega samhljóða 1. og 2. mgr. 44. gr. laganna og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 15. gr.

    Að þessu ákvæði er vikið í athugasemdum við 14. gr. frumvarpsins og þarfnast það ekki frekari skýringa.

Um 16. gr.

    Fyrirmæli 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð hafa verið skýrð svo að sönnunarfærsla fyrir dómi skuli að jafnaði vera milliliðalaus, þ.e. að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þetta þýðir að ætlast er til að dómari eða dómarar, sem dæma mál að efni til, skuli taka sjálfir skýrslur af ákærða og vitnum, þar á meðal brotaþola. Rökin fyrir þessari reglu eru fyrst og fremst þau að með þessu móti geta dómendur metið trúverðugleika ákærða og vitna sem auðveldar þeim að leggja mat á sönnunargildi þeirra skýrslna sem gefnar eru fyrir dómi. Slíkt eykur líkur á því að dómur sé byggður á efnislega réttum forsendum.
    Í 2. og 3. mgr. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála er að finna undantekningar frá meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu. Ákvæði 3. mgr. tekur til þess að þegar vitni hefur gefið skýrslu fyrir lögreglu eða öðrum rannsóknaraðila, en ekki er kostur að leiða það fyrir dóm, er dómara skv. 2. mgr. heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði eða vitni, þar á meðal brotaþoli, hafa gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað. Þó skulu skýrslugjafar koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð skv. XV. kafla laganna, ef kostur er, og ákærði og verjandi hans krefjast eða dómari telur annars ástæðu til.
    Í þessari grein frumvarpsins er gengið út frá því, þrátt fyrir nokkrar breytingar á núverandi orðalagi 2. mgr. 48. gr., að efni hennar haldist óbreytt að öðru leyti en því að bætt verði nýju ákvæði við hana þar sem kveðið sé á um það að leiki grunur á að barn, yngra en 18 ára, hafi orðið fyrir kynferðisbroti þurfi það að jafnaði ekki að koma fyrir dóm að nýju ef skýrsla hefur verið tekin þar af því á rannsóknarstigi, sbr. 23. gr. frumvarpsins. Mark­miðið með þessu ákvæði er að hlífa börnum, eftir því sem kostur er, við því að þurfa að rifja oftar en einu sinni upp atburði sem oftast nær hafa valdið þeim miklum andlegum og jafnvel líkamlegum þjáningum. Með tilliti til reglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu er þó ekki rétt að girða algerlega fyrir að barn komi fyrir dóm að nýju við meðferð máls fyrir dómi, t.d. ef aðstæður hafa breyst verulega frá því að skýrsla var tekin af barninu eða vafi þykir leika á sönnunargildi framburðar þess. Þegar svo stendur á er gert ráð fyrir að dómari geti ákveðið, annaðhvort að eigin frumkvæði eða eftir kröfu annars hvors málsaðila, ákæranda eða ákærða (eða verjanda hans), að barnið gefi skýrslu fyrir dómi á ný. Hins vegar væri dómara ekki skylt að fara eftir kröfum aðila í þessu tilfelli, öfugt við önnur tilvik sem 2. mgr. 48. gr. tekur til. Þess má geta að bæði í Danmörku og Noregi, sbr. t.d. 2. mgr. 234. gr. norsku laganna um meðferð sakamála, eru reglur um meðferð sakamála þannig úr garði gerðar að í framkvæmd þurfi börn, sem grunur leikur á að hafi verið misnotuð kynferðislega, ekki að gefa skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð máls, eins og nánar verður vikið að í athugasemdum við 23. gr. frumvarpsins.

Um 17. gr.

    Þegar lög nr. 91/1991, um meðferð einkamála, voru sett var tekin upp í 4. mgr. 51. gr. laganna heimild til að taka skýrslu af vitni um síma eða annað fjarskiptatæki ef sérstakar aðstæður væru fyrir hendi. Þessi háttur hefur gefist vel í einkamálum og er því lagt til að sams konar heimild verði tekin upp í lög um meðferð opinberra mála. Ákvæðið er nákvæm­lega eins orðað og umrætt ákvæði í lögum um meðferð einkamála. Vegna þess að opinber mál eru annars eðlis en einkamál ber að beita heimild sem þessari af varúð, enda er hér um að ræða frávik frá meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu. Þannig ætti dómari að sjá til þess að fyrir dóm kæmu jafnan þau vitni sem mikilvæg gætu talist, t.d. brotaþoli. Athygli er og vakin á því að samkvæmt orðanna hljóðan væri ekki unnt að beita þessari heimild til að taka skýrslu af ákærða um síma eða annað fjarskiptatæki.

Um 18. gr.

    Markmiðið með skýrslutöku af vitnum, þar á meðal brotaþolum, er að upplýsa mál svo sem kostur er. Af þeim sökum er mikilvægt að við skýrslutöku sé gætt hagsmuna beggja málsaðila, ákæruvaldsins jafnt sem ákærða. Í d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er sakborningi sérstaklega tryggður réttur til að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum á sama hátt og önnur vitni. Samhliða ber að horfa til þess sjónarmiðs að skýrslutaka sé framkvæmd á þann hátt að sem til minnstra óþæginda verði fyrir vitni. Þetta á ekki síst við um brotaþola, sérstaklega ef hann er ungur að árum.
    Með vísun til þessa er lagt til að bætt verði nýrri málsgrein við 59. gr. laganna þar sem í fyrsta lagi verði mælt svo fyrir að þegar skýrsla er tekin af brotaþola, yngri en 18 ára, geti dómari kvatt til kunnáttumann, t.d. sálfræðing eða sérþjálfaðan lögreglumann, sér til aðstoðar við skýrslutöku. Í 4. mgr. 10. gr. laga um meðferð einkamála er heimild til að kalla til kunnáttumann ef sá sem á að gefa skýrslu fyrir dómi er ekki fær um að eiga orðaskipti á mæltu máli. Þessa heimild er ekki að finna í lögum um meðferð opinberra mála, en í 1. og 2. mgr. 239. gr. norsku laganna um meðferð sakamála er að finna sams konar heimild og þá sem hér er gerð tillaga um þótt aldursmarkið þar sé reyndar lægra eða 14 ár. Áherslu ber að leggja á það að hér um að ræða heimild sem síður er ástæða til að nota eftir því sem barnið er eldra og hefur náð meiri þroska. Í öðru lagi verði kveðið á um það, þegar tekin er skýrsla af brotaþola sem hefur ekki náð 18 ára aldri, að ákærandi, ákærði og verjandi hans skuli ekki eiga fortakslausan rétt á að vera viðstaddir í dómsal eða annars staðar þar sem dómþing er háð, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna, ef dómari telur að nærvera þeirra geti orðið brotaþola sér­staklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð hans. Þar eð hér er um að ræða skerðingu á mikilvægum réttindum málsaðila, ekki síst sakbornings, til að fylgjast með skýrslutöku og beina spurningum til vitnis, þ.e. brotaþola í þessu tilviki, er tekið fram að dómari skuli sjá til þess að aðilar geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún fer fram, jafnframt því sem þeir geti látið leggja fyrir brotaþola þær spurningar sem þeir óska. Þetta þýðir með öðrum orðum að ef þessu verður ekki við komið, t.d. þannig að aðilar geti fylgst með skýrslutöku af sjón­varpsskjá um leið og hún fer fram, yrði ekki unnt að beita þessari heimild. Rétt er að taka fram að með tilliti til réttinda sakbornings (og verjanda hans) ætti að sjálfsögðu aðeins að nota hana þegar brýna nauðsyn ber til á sama hátt og heimildina í 6. mgr. 59. gr. til að víkja sakborningi úr þinghaldi meðan skýrsla vitnis, þar á meðal brotaþola, er tekin. Sérstök athygli er vakin á því að gert er ráð fyrir að réttargæslumaður eigi ávallt rétt á því að vera viðstaddur skýrslutöku af brotaþola og öðrum vitnum fyrir dómi, sbr. 1. og 2. mgr. 44. gr. g, svo og 2. mgr. 74. gr. a, sbr. 14. og 23. gr. frumvarpsins.
    Í niðurlagi greinarinnar segir að dómsmálaráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um til­högun skýrslutöku samkvæmt hinni nýju málsgrein. Þar væri t.d. unnt að mæla svo fyrir að skýrslutaka af brotaþolum, yngri en 18 ára, skuli að jafnaði fara fram í sérstöku herbergi, þannig útbúnu að börnum, sem eiga að gefa skýrslu, líði þar eins vel og kostur er. Þá þarf að vera þar fyrir hendi myndatökubúnaður og önnur aðstaða til að framkvæma skýrslutöku í samræmi við það sem kveðið er á um í málsgreininni.

Um 19. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 20. gr.

    Í lögum um meðferð opinberra mála er almennt gengið út frá því að því aðeins verði efnt til rannsóknar samkvæmt lögunum ef ljóst er eða grunur leikur á að refsivert brot hafi verið framið, sbr. 1. og 2. mgr. 66. gr. laganna. Í því felst áskilnaður um að refsingu eða öðrum refsikenndum viðurlögum verði við komið. Skv. 3. mgr. 66. gr. skal þó rannsókn fara fram út af mannslátum, mannshvörfum, eldsvoðum, slysum og öðrum óförum, enda þótt ekki liggi fyrir grunur um refsivert atferli. Gerð er tillaga um að tekið verði upp nýtt ákvæði í 66. gr. þar sem ríkissaksóknara verði veitt heimild til þess, þegar sérstaklega stendur á, að mæla fyrir um rannsókn þótt ætla megi að refsingu verði ekki við komið, svo sem vegna þess að sök sé fyrnd. Þetta verði þó því aðeins gert að ríkir almannahagsmunir jafnt sem einkahags­munir mæli með því. Samkvæmt þessu yrði rannsóknin að beinast að háttsemi sem ljóst væri eða grunur léki á að hefði verið refsiverð þegar hún var framin, auk þess sem ríkar ástæður yrðu að vera fyrir hendi til þess að unnt væri að mæla fyrir um rannsókn samkvæmt þessu ákvæði, svo sem sú að skaðabótakrafa gæti stofnast í kjölfar slíkrar rannsóknar.

Um 21. og 22. gr.

    Um skýringar á greinunum vísast til athugasemda við 23. gr.

Um 23. gr.

    Í niðurlagi 1. mgr. 74. gr. laga um meðferð opinberra mála er að finna heimild til að taka skýrslu fyrir dómi af sakborningi eða vitnum, þar á meðal brotaþola, meðan á rannsókn opin­bers máls stendur. Um er að ræða undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 48. gr. laganna um milliliðalausa sönnunarfærslu þar sem áskilið er að sakborningur og vitni komi fyrir dóm við meðferð máls, þá fyrst og fremst aðalmeðferð þess, sbr. 129. gr. laganna. Við sérstakar að­stæður getur hins vegar verið réttlætanlegt að víkja frá þessari reglu, eins og áður hefur verið gerð grein fyrir.
    Lagt er til að tekin verði upp sérstök grein í lög um meðferð opinberra mála, 74. gr. a, þar sem kveðið verði á um það í hvaða undantekningartilvikum skuli vera skylt eða heimilt að taka skýrslu fyrir dómi á rannsóknarstigi. Skv. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála er einvörðungu heimilt að taka til greina sem sönnunargögn í opinberum málum þær skýrslur sem gefnar hafa verið fyrir dómi, nema þess sé ekki kostur að vitni, sem hefur gefið skýrslu fyrir lögreglu, komist fyrir dóm, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Þessi greinarmunur, sem gerður er á skýrslu fyrir dómi annars vegar og lögreglu hins vegar, helgast fyrst og fremst af því að sakborningur og verjandi hafa betra tækifæri til þess að fylgjast með skýrslutöku fyrir dómi og spyrja eða láta spyrja þá sem þar gefa skýrslu en við skýrslutöku hjá lögreglu sem eðli máls samkvæmt er óformlegri. Þá má heldur ekki líta fram hjá þeirri staðreynd að meðan lögregla heyrir undir ákæruvaldið, sbr. t.d. 5. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 66. gr. laganna, er dóm­ari sjálfstæður í störfum sínum. Af þessum sökum er engum vafa undirorpið að réttaröryggis sakbornings er betur gætt við skýrslutöku fyrir dómi en hjá lögreglu og því hljóta skýrslur, sem gefnar eru fyrir dómi, almennt að hafa ríkara sönnunargildi en lögregluskýrslur.
    Í athugasemdum við 16. gr. frumvarpsins var m.a. gerð grein fyrir því markmiði, sem stefnt er að með frumvarpinu, að börnum, sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kyn­ferðisbroti, verði hlíft við því, eftir því sem kostur er, að þurfa gefa skýrslu í opinberu máli oftar en einu sinni. Þannig er mælt svo fyrir í 1. mgr. 298. gr. og 1. mgr. 239. gr., sbr. 2. mgr. 234. gr., norsku laganna um meðferð sakamála að í þeim tilvikum skuli þeirri meginreglu fylgt að skýrsla sé tekin af brotaþola fyrir dómi á rannsóknarstigi og skuli sú skýrsla koma í stað skýrslu við aðalmeðferð málsins. Dönsku réttarfarslögin hafa ekki að geyma sam­bærileg ákvæði, en þó hefur sams konar heimild og sú sem er nú að finna í niðurlagi 1. mgr. 74. gr. laga um meðferð opinberra mála verið notuð til að taka skýrslu af börnum fyrir dómi á rannsóknarstigi í Danmörku, m.a. að frumkvæði danska ríkissaksóknarans. Af einhverjum ástæðum hefur heimildin verið notuð í mjög takmörkuðum mæli hér á landi, en hins vegar hefur færst í vöxt í kynferðisbrotamálum að framburður barna fyrir lögreglu sé tekinn upp á myndband og hann síðan lagður til grundvallar dómi í slíkum málum. Með vísun til þess sem að framan segir um sönnunargildi skýrslna sem gefnar eru fyrir dómi í samanburði við lögregluskýrslur er í a-lið 1. mgr. 74. gr. a mælt fyrir um það að beinist rannsókn að kyn­ferðisbroti og sé brotaþoli yngri en 18 ára þegar rannsókn máls hefst sé lögreglu skylt að leita atbeina dómara sem sjái um að taka skýrslu af honum. Með þessu móti er komið í veg fyrir að skýrsla verði fyrst tekin hjá lögreglu en síðar fyrir dómi. Þrátt fyrir þessa tilhögun getur lögregla látið leggja fyrir brotaþola þær spurningar sem hún kýs því að ákærandi á þess jafnan kost að vera viðstaddur eða a.m.k. fylgjast með skýrslutöku og spyrja eða láta spyrja brotaþola, sbr. athugasemdir við 18. gr. frumvarpsins.
    Í b-lið 1. mgr. 74. gr. a segir, í samræmi við ráðgerðar breytingar á 1. mgr. 42. gr. og 43. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. 11. og 12. gr. frumvarpsins, að lögregla geti á rann­sóknarstigi leitað atbeina dómara til að taka skýrslu af sakborningi, brotaþola eða vitnum ef hún telur það nauðsynlegt til þess að upplýsa mál áður en verjandi sakbornings fær aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum þess. Með tilliti til sönnunargildis skýrslu sem gefin er fyrir dómi í samanburði við lögregluskýrslu getur lögregla með þessu leitast við að tryggja sönnun áður en sakborningur fær aðgang að gögnum og þar með tækifæri til að hag­ræða framburði sínum, t.d. með hliðsjón af framburði annarra sakborninga eða vitna í málinu. Jafnframt er ekkert því til fyrirstöðu að sakborningur fái aðgang að málsgögnum eftir að hann hefur gefið skýrslu skv. b-lið 1. mgr. 74. gr. a. Gert er ráð fyrir að dómari geti, ef þörf krefur, framlengt einnar viku frestinn í 1. mgr. 43. gr. laganna, sbr. 12. gr. frum­varpsins, í samtals allt að þrjár vikur svo að hægt verði að ljúka skýrslutöku innan hans, en slíkt gæti orðið nokkuð tímafrekt ef taka þyrfti skýrslu af mörgum sakborningum og vitnum.
    Vitni, sem kemur fyrir dóm í opinberu máli, er almennt skylt að svara spurningum um atvik málsins að viðlagðri vitnaábyrgð, sbr. 1. mgr. 59. gr. laganna. Hins vegar er vitni, sem mætir til skýrslutöku hjá lögreglu, ekki skylt að svara spurningum hennar um atvik máls. Vegna þessa verður lögregla að eiga þess kost, eins og nú er fyrir mælt í 1. mgr. 74. gr. laganna, að láta taka skýrslu fyrir dómi af brotaþola eða öðrum vitnum meðan á rannsókn stendur ef þau neita að svara spurningum hennar. Sömuleiðis ef ætla má að þau komist ekki fyrir dóm við meðferð málsins, sbr. það sem að framan segir um sönnunargildi skýrslna sem gefnar eru fyrir dómi umfram lögregluskýrslur. Að lokum geta hagsmunir brotaþola eða vitna réttlætt að skýrslur verði teknar af þeim fyrir dómi á rannsóknarstigi til þess að hlífa þeim við því, á sama hátt og þeim börnum sem a-liður 1. mgr. 74. gr. a tekur til, að gefa oftar en einu sinni skýrslu í málinu. Einkum ætti þetta við ef um börn væri að ræða eins og berum orðum er tekið fram í niðurlagi c-liðar 1. mgr. 74. gr. a, en sams konar reglu er t.d. að finna í 2. mgr. 239. gr. norsku laganna um meðferð sakamála.
    Skv. 2. mgr. 74. gr. a skal tilkynna ákæranda, verjanda og réttargæslumanni brotaþola um skýrslutöku sem fram á að fara fyrir dómi meðan á rannsókn máls stendur skv. 1. mgr. greinarinnar þannig að þeir geti verið viðstaddir hana. Til þess að tryggja enn frekar sönn­unargildi skýrslutöku er kveðið á um að framburður sakbornings, brotaþola og vitna skuli tekinn upp á myndband sé þess kostur, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna. Í aðalatriðum gilda sömu reglur um skýrslutöku sakbornings, brotaþola og vitna fyrir dómi, hvort sem hún fer fram á rannsóknarstigi eða við meðferð máls. Þannig skal gætt ákvæða 59. gr. laganna, eftir því sem við á, þegar tekin er skýrsla af vitnum, þar á meðal brotaþola, skv. 1. mgr. 74. gr. a. Því til áréttingar er tekið fram að gætt skuli ákvæða 7. mgr. 59. gr. þegar tekin er skýrsla af brota­þola, yngri en 18 ára, þar á meðal ákvæða í reglugerð þeirri sem þar er vísað til, sbr. 18. gr. frumvarpsins. Athygli er vakin á því að skv. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, skal ákærandi tilkynna hlutaðeigandi barnaverndarnefnd þegar taka á skýrslu af barni fyrir dómi og er nefndinni heimilt að láta fulltrúa sinn eða starfsmann vera viðstaddan skýrslutöku.

Um 24. gr.

    Um skýringu á greininni vísast til athugasemda við 14. gr. frumvarpsins.

Um 25. gr.

    Lagt er til að sú breyting verði gerð á 1. mgr. 87. gr. laga um meðferð opinberra mála að lögregla og aðrir rannsóknaraðilar þurfi framvegis undantekningalaust að afla dómsúrsk­urðar til þess að hlera síma og önnur fjarskiptatæki og þar með taka upp símtöl og önnur fjarskipti í þágu rannsóknar opinbers máls án þess að þeir sem í hlut eiga viti af því, sbr. a-lið 86. gr. laganna. Samkvæmt gildandi lögum nægir samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda síma eða fjarskiptatækis til þess að unnt sé að taka upp símtöl eða önnur fjarskipti í þágu rannsóknar. Þar eð aðgerðir sem þessar hafa í för sér mjög verulega skerðingu á frið­helgi einkalífs, sem m.a. er lýst friðheilagt í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, er eðlilegt að dómsúrskurð þurfi jafnan til þeirra til þess að koma í veg fyrir að þær séu misnotaðar. Öðru máli gegnir hins vegar um það þegar einungis er aflað upplýsinga um símtöl við tiltekinn síma eða fjarskipti við tiltekið fjarskipta­tæki, sbr. b-lið 86. gr. laga um meðferð opinberra mála, enda felur slíkt í sér veigaminni skerðingu á friðhelgi einkalífs. Af þeirri ástæðu er gert ráð fyrir að samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda síma eða fjarskiptatækis nægi eftir sem áður til þess að lögregla geti aflað umræddra upplýsinga án dómsúrskurðar.

Um 26. gr.

    Með þessu ákvæði er lagt til að fyrri málslið 1. mgr. 114. gr. laga um meðferð opinberra mála verði efnislega óbreyttur. Í síðari málslið er kveðið á um það, í samræmi við 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, að ákærandi skuli rökstyðja ákvörðun sína um að fella mál niður skv. 112. gr. eða falla frá saksókn skv. 113. gr. ef þess er krafist, hvort sem er af sakborningi eða brotaþola.


Um 27. gr.

    Í 4. mgr. 115. gr. a laganna, eins og hún hljóðar nú, er tekið fram að ákvörðun dómara þess efnis að synja um áritun á sektarboð verði ekki skotið til æðra dóms. Að fenginni reynslu verður að telja það óæskilegt og er því gerð tillaga um að lögreglustjóri geti kært slíka ákvörðun til Hæstaréttar skv. 1. mgr. 142. gr. laganna.

Um 28. gr.

    Í 3. mgr. 119. gr. er mælt svo fyrir að dómari skuli synja um að gefa út fyrirkall á hendur ákærða ef hann telur að þeir ágallar séu á ákæru eða málatilbúnaði ákæruvalds að öðru leyti að máli skuli vísað frá dómi af sjálfsdáðum. Þessi háttur er óvenjulegur og verður að telja að hann samrýmist tæplega því hlutverki dómara að vera sjálfstæður og óháður málsaðilum í störfum sínum. Skv. 3. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála skal dómari benda stefn­anda, sem óskar að fá útgefna stefnu, á galla sem hann sér á málatilbúnaði og geta varðað frávísun máls frá dómi. Hins vegar má dómari ekki synja um útgáfu stefnu af þeim sökum, enda er hann óbundinn af slíku áliti þegar kemur að úrlausn málsins. Lagt er til að sam­svarandi regla verði tekin upp í lög um meðferð opinberra mála. Ef ákærandi sér ekki ástæðu til að breyta ákæru eða málatilbúnaði af hálfu ákæruvalds, þrátt fyrir ábendingar dómara, yrði fyrirkall gefið út, ákæra birt ákærða og málið þingfest. Dómari gæti svo vísað máli frá dómi með úrskurði, eins og gert er ráð fyrir í gildandi 3. mgr. 122. gr. laga um meðferð opin­berra mála (4. mgr. 122. gr. skv. 30. gr. frumvarpsins), ef hann teldi ástæðu til eftir að báðum málsaðilum hefði gefist kostur á að tjá sig um málefnið. Síðan ætti ákærandi þess kost að kæra þann úrskurð til Hæstaréttar skv. 1. mgr. 142. gr. laganna.

Um 29. gr.

    Þær breytingar, sem lagðar eru hér til á upphafsákvæði 1. mgr. 120. gr. laga um meðferð opinberra mála, stafa m.a. af ráðgerðri breytingu á 3. mgr. 119. gr. þeirra, sbr. 28. gr. frum­varpsins. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að dómari þurfi ekki lengur að hafa samráð við ákær­anda þegar hann ákveður stað og stund þinghalds þar sem opinbert mál skal þingfest.

Um 30. gr.

    Í samræmi við breytingar þær, sem lagt er til að gerðar verði á 1. mgr. 42. gr. og 43. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. 11. og 12. gr. frumvarpsins, svo og ákvæðið í b-lið 1. mgr. 74. gr. a, sbr. 23. gr. frumvarpsins, er gengið út frá því að ákærði eigi ávallt rétt á því að fá aðgang að öllum skjölum og öðrum gögnum sem lögð eru fram í opinberu máli þegar við þingfestingu þess. Þá er gerð tillaga um það, í samræmi við 1. mgr. 44. gr. c, sbr. 14. gr. frumvarpsins, að brotaþola skuli að jafnaði skipaður réttargæslumaður við þingfestingu máls. Ef því verður ekki við komið, t.d. vegna þess að ekki hefur náðst til brotaþola til að gefa honum kost á að benda á lögmann til að taka að sér starf réttargæslumanns, verði það gert svo fljótt sem verða má eftir þingfestingu.

Um 31. gr.

    Ætlast er til þess, í tengslum við ráðgerðar breytingar á 2. mgr. 8. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. 1. gr. frumvarpsins, að dómari taki ákvörðun um það fyrir fram hvort aðalflutningur skuli fara fram fyrir luktum dyrum þannig að það liggi fyrir nokkru áður en hann hefst. Með því móti verður ákvörðun eða úrskurði um það atriði skotið til Hæstaréttar með kæru, sbr. 1. mgr. 142. gr. laganna, þ.e. eftir að b-lið þeirrar málsgreinar hefur verið breytt eins og lagt er til í 32. gr. frumvarpsins.

Um 32. gr.

    Gerð er tillaga um að 1. mgr. 142. gr. laga um meðferð opinberra mála verði breytt á tvo vegu. Fyrri breytingin er að ákvörðun eða úrskurði dómara um lokun þinghalds verði fram­vegis skotið til Hæstaréttar með kæru, sbr. a-lið þessarar greinar. Sú síðari lýtur að því að ákvörðun dómara um að skipa skuli réttargæslumann skv. 44. gr. c í lögunum, sbr. 14. gr. frumvarpsins, verði ekki kæranleg frekar en ákvörðun um að skipa verjanda, sbr. b-lið grein­arinnar. Synjun um að skipa réttargæslumann verður hins vegar kærð til Hæstaréttar á sama hátt og synjun um að skipa verjanda.

Um 33. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins er gerð tillaga um breytingar á 3. mgr. 145. gr. laganna. Í þeirri grein laganna er fjallað um aðgerðir héraðsdómara eftir að fram er komin kæra á úrskurði hans eða ákvörðun til Hæstaréttar, svo og fyrstu aðgerðir Hæstaréttar eftir að kæru­mál hefur borist honum. Í 3. mgr. er mælt fyrir um frest sem aðilar kærumáls hafa til að senda Hæstarétti skriflegar greinargerðir sínar um málið. Er sá frestur nú þrír sólarhringar frá því að málið berst Hæstarétti, en að liðnum þeim fresti eða eftir að greinargerðir hafa komið fram getur Hæstiréttur lagt dóm á kærumálið, sbr. 1. mgr. 146. gr. laganna
    Fresturinn, sem aðilar að kærumáli hafa til að koma á framfæri skriflegum greinargerðum, getur í mörgum tilvikum reynst vera óeðlilega rúmur, en hafa verður í huga að langflest kærumál til Hæstaréttar á sviði opinberra mála eru vegna úrskurðar um gæsluvarðhald. Verður að gæta að því að ófært er að óvissa standi um réttmæti slíkrar frelsissviptingar í lengri tíma en brýna nauðsyn ber til. Í framkvæmd eru greinargerðir í slíkum málum að öðru jöfnu óverulegar að lengd. Þær eru og samdar í kjölfar úrskurðar um gæsluvarðhaldskröfu sem ákærandi og verjandi ákærða hafa tjáð sig munnlega um fyrir héraðsdómi. Er því vandséð að þörf sé á þriggja sólarhringa fresti til að rita greinargerð í tilvikum sem þessum.
    Með þau rök í huga, sem að framan eru rakin, er lagt til að 3. mgr. 145. gr. laga um meðferð opinberra mála verði breytt þannig að frestur til að skila greinargerð til Hæstaréttar í kærumáli verði einn sólarhringur. Vekja verður athygli á því að eftir hljóðan ákvæðisins tæki það til allra kærumála á sviði opinberra mála en ekki aðeins mála um gæsluvarðhald sem fyrrgreindar röksemdir snúa þó helst að. Þetta er lagt til í ljósi þess fjölda kærumála sem varða gæsluvarðhald, svo og þess að óeðlilegt væri að setja reglu um mislanga fresti til greinargerðar eftir því hvert kæruefnið er í hverju tilviki. Í þessu sambandi verður og að hafa í huga að skv. 146. gr. laganna er fresturinn, sem hér um ræðir, lágmarksfrestur fyrir máls­aðila. Hæstiréttur getur þannig lengt frestinn samkvæmt beiðni málsaðila, auk þess sem greinargerð kemst að í máli þótt hún berist eftir lok frestsins ef hún berst Hæstarétti áður en dómur gengur. Verður því ekki séð að hallað geti verið á málsaðila með þeirri reglu sem hér er lögð til.

Um 34. gr.

    Ef úrlausn héraðsdóms um einkaréttarkröfur hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar er ástæða til þess að skipa brotaþola réttargæslumann til að gæta hagsmuna hans þar fyrir dómi, þá fyrst og fremst til að tjá sig um þær kröfur, sbr. 5. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. og 163. gr. Lagt er til að Hæstiréttur skipi réttargæslumann ef skilyrði eru á annað borð til þess skv. 1. mgr. 44. gr. c, sbr. 44. gr. b, sbr. 14. gr. frumvarpsins.

Um 35. gr.

    Helsta breytingin, sem lagt er til að gerð verði á 164. gr. laga um meðferð opinberra mála, er að fallið verði frá að ákvarða sérstakan saksóknarkostnað í ríkissjóð til að mæta kostnaði við saksókn og flutning opinberra mála af hálfu ákæruvalds. Þá er gert ráð fyrir, eins og áður hefur komið fram, að þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvort sem hann er tilnefndur af lögreglu eða skipaður af dómara, teljist til sakarkostnaðar á sama hátt og þóknun verjanda, sbr. a-lið 1. mgr. 164. gr. Að öðru leyti er ekki um að ræða teljandi efnisbreytingar á greininni.

Um 36. gr.

    Ráðgerðar breytingar á 167. gr. laga um meðferð opinberra mála eru í samræmi við önnur ákvæði frumvarpsins og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 37. gr.

    Hér er lagt til að ákvæði 1. mgr. 168. gr. laga um meðferð opinberra mála verði löguð að þeirri breytingu að hætt verði að ákvarða saksóknarkostnað, þ.m.t. málsóknarlaun, í ríkis­sjóð. Enn fremur er tekið mið af því nýmæli að þóknun réttargæslumanns skuli greiðast úr ríkissjóði, sbr. 44. gr. i, sbr. 14. gr. frumvarpsins, og teljast til sakarkostnaðar, sbr. a-lið 1. mgr. 164. gr. laganna, sbr. 35. gr. frumvarpsins.

Um 38. gr.

    Með þessari grein frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 169. gr. laga um meðferð opinberra mála, þar sem mælt er fyrir um hver bera eigi kostnað af áfrýjun eða kæru opinbers máls til Hæstaréttar. Svo sem 1. mgr. greinarinnar hljóðar nú verður kostnaður af áfrýjun máls lagður á ríkissjóð ef ríkissaksóknari áfrýjar til Hæstaréttar en ákærði ekki og viðurlög eru ekki þyngd fyrir æðra dómi svo neinu nemi. Um önnur tilvik fer samkvæmt almennum reglum XIX. kafla laganna, eins og fram kemur í 2. mgr. 169. gr. Þetta hefur m.a. í för með sér að ef ákærði áfrýjar héraðsdómi og refsing hans er milduð en hann þó ekki sýknaður verður hann að öðru jöfnu dæmdur til að greiða einn allan kostnað af áfrýjuninni. Þau mála­lok verði að teljast óeðlileg.
    Af þeim ástæðum, sem að framan greinir, er lagt til að tekið verði af skarið um að kostn­aður af áfrýjun opinbers máls verði felldur á ríkissjóð í öllu ríkara mæli en heimild stendur til eftir gildandi reglum. Er þannig ráðgert í 1. mgr. að áfrýjunarkostnaður falli á ríkissjóð ef ákærði áfrýjar og hefur þann árangur af málskoti að hann hljóti sýknu eða refsing hans verði milduð, en við síðargreindu aðstæðurnar mætti þó skipta áfrýjunarkostnaði þannig að ákærði bæri hluta af honum. Í 2. mgr. er hliðstæð regla við þá sem nú er að finna í 1. mgr. 169. gr., en orðalagi þó breytt lítillega. Í 3. mgr. eru lögð til nýmæli um að kostnaður af kæru opinbers máls verði ekki dæmdur sérstaklega fyrir Hæstarétti nema máli ljúki endanlega með dómi í kærumáli, t.d. þegar máli er vísað frá héraðsdómi. Vekja verður athygli á því að með þessu ákvæði er engan veginn ætlast til að t.d. verjandi sakbornings, sem er aðili að kæru­máli, fái ekki málsvarnarlaun vegna þessa þáttar í störfum sínum, heldur er ætlast til þess, eins og venja hefur verið í framkvæmd, að við ákvörðun heildarlauna verjanda verði m.a. tekið tillit til þóknunar vegna starfa hans við kærumál. Það kæmi hins vegar ekki í hlut Hæstaréttar að ákveða þann hluta þóknunarinnar sérstaklega. Ákvæði 4. mgr. eru efnislega á sama veg og gildandi regla í 2. mgr. 169. gr. laganna og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 39. gr.

    Eina breytingin, sem lagt er til að gerð verði á 5. mgr. 172. gr. laganna, er að heitið „réttargæslumaður“ komi í stað „umboðsmanns“.

Um 40. gr.

    Um skýringu á þessari grein vísast til athugasemda við 41. gr. frumvarpsins.

Um 41. gr.

    Með þessari grein er lagt til að fyrirsögn á XX. kafla laga um meðferð opinberra mála verði breytt úr „Kröfur borgararéttarlegs eðlis“ í „Einkaréttarkröfur“ til samræmis við 3. gr. laganna.

Um 42. gr.

    Þegar lög nr. 19/1991 tóku gildi voru fáar breytingar gerðar á XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála sem hefur að geyma ákvæði um bætur handa sakborningi. Með nokkurri einföldun má segja að þessi ákvæði hafi í megindráttum lítið breyst frá því að fyrstu lögin um meðferð opinberra mála sáu dagsins ljós hér á landi árið 1951. Vegna breytinga á aðstæðum og viðhorfum í þjóðfélaginu sem orðið hafa frá þeim tíma er tímabært að taka um­ræddan kafla til endurskoðunar í heild sinni, eins og t.d. var gert í Danmörku þegar árið 1978, sbr. nú kafla 93. a í dönsku réttarfarslögunum.
    Þar eð ákvæðin um bætur handa sakborningi tengjast öðrum reglum laga um meðferð opinberra mála þykir rétt að láta breytingar á XXI. kafla bíða heildarendurskoðunar á lög­unum. Eitt efnisatriði í 1. mgr. 175. gr. laganna er þó þess eðlis að rétt þykir að leggja til breytingu þegar í stað. Í niðurlagi b-liðar málsgreinarinnar er það gert að skilyrði fyrir því að maður, sem t.d. hefur verið sýknaður af refsikröfu vegna þess að sök hans hefur ekki verið sönnuð í opinberu máli, fái bætur úr ríkissjóði að fremur megi telja hann líklegan til að vera saklausan af háttseminni en sekan. Í ljósi reglunnar um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, svo og reglunnar um að hver maður, sem sviptur hefur verið frelsi að ósekju, skuli eiga rétt til skaðabóta, sbr. 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmálans, er lagt til að skilyrði þetta verði afnumið.
    Samhliða þeirri breytingu er, með hliðsjón af 3. mgr. 1018. gr. a í dönsku réttarfars­lögunum, gerð tillaga um breytt orðalag á því ákvæði sem nú er að finna í a-lið 1. mgr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Um 43. gr.

    Breytingin, sem hér er lögð til á 177. gr. laga um meðferð opinberra mála, er í samræmi við breytingu sem ráðgerð er á 1. mgr. 175. gr. laganna, sbr. athugasemdir við 42. gr. frum­varpsins.

Um 44. gr.

    Ákvæðið í 3. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga var fellt á brott með skaðabótalögum, nr. 50/1993, og komu 1. og 2. mgr. 18. gr. þeirra laga í þess stað. Eðlilegt er þess vegna að breyta tilvísuninni í 180. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Um 45. gr.


    Ákvæði um endurupptöku dæmdra mála, sem er að finna í XXII. kafla laganna, eru að stofni til frá árinu 1951 þegar fyrstu lögin um meðferð opinberra mála voru sett. Við fyrir­hugaða heildarendurskoðun laganna er nauðsynlegt að huga nánar að þessum ákvæðum. Þó þykir rétt að leggja til að við lögin verði bætt heimild til að taka mál upp á ný í því skyni að endurmeta sönnunargögn.
    Hér er um að ræða ákvæði, sem ætlað er að treysta réttaröryggi við mjög sérstakar að­stæður, í líkingu við samsvarandi ákvæði í 3. tölul. 1. mgr. 977. gr. dönsku réttarfarslaganna og 2. mgr. 392 gr. norsku laganna um meðferð sakamála.

Um 46. gr.

    Ef frumvarp þetta verður að lögum er gert ráð fyrir að þau öðlist gildi 1. júlí 1999. Með því móti ætti þeim sem að opinberum málum koma að gefast nokkur tími til þess að búa sig undir breytingar sem frumvarpið hefur að geyma, en þær eru sumar hverjar nokkuð viða­miklar.

Um 47. gr.

    Í 1. tölul. þessarar greinar er gerð tillaga um að sams konar ákvæði og gert er ráð fyrir að tekið verði upp í 3. mgr. 10. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. 2. gr. frumvarpsins, verði einnig tekið upp í 2. mgr. 14. gr. laga um meðferð einkamála. Um skýringu á ákvæðinu vísast annars til athugasemda við 2. gr. frumvarpsins.
    Í 2. tölul. er lagt til að brotaþoli geti krafist þess, á sama hátt og sakborningur, að fá að kynna sér gögn í opinberu máli eftir að það hefur verið fellt niður eða því lokið með öðrum hætti, hvort sem rannsókn hefur verið hætt skv. 76. gr. laganna, mál hefur verið fellt niður skv. 112. gr. eða fallið hefur verið frá saksókn skv. 113. gr. Engin ástæða er til þess að gera að þessu leyti greinarmun á sakborningi og brotaþola, eins og nú er gert í 3. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, enda hefur brotaþoli ekki síður hagsmuni af því að fá aðgang að máls­gögnum, t.d. til þess að ganga úr skugga um hvort ástæða sé til þess að höfða einkamál til heimtu skaðabóta vegna þess tjóns sem hann hefur beðið.
    Í 3. tölul. er að finna tvær smávægilegar breytingar á nýsettum lögum nr. 77/1998, um lögmenn, sem taka gildi 1. janúar nk. Í raun og veru er réttargæslumanni og talsmanni brota­þola skotið inn í 2. mgr. 2. gr. laganna við hlið verjanda og talsmanns sakbornings, sbr. fyrir­mælin í nýjum VII. kafla laga um meðferð opinberra mála, sbr. 14. gr. frumvarpsins. Óþarft er að láta heitið „ákærði“ standa áfram í ákvæðinu vegna þess að „sakborningur“ á við sakaðan mann, jafnt fyrir sem eftir útgáfu ákæru. Þá segir í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 77/1998 að lögmanni sé skylt að taka við skipun sem verjandi eða réttargæslumaður í opinberu máli. Lagt er til að lögmönnum verði framvegis skylt að taka bæði við skipun og tilnefningu sem verjendur sakborninga, sem og réttargæslumenn brotaþola í opinberum málum.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um
meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta er samið í samráði við réttarfarsnefnd en megintilgangur þess er að styrkja réttarstöðu brotaþola auk nokkurra annarra breytinga á lögum um meðferð opinberra mála. Að mati fjármálaráðuneytis hafa eftirtalin atriði fjárhagsleg áhrif:
     1.      Sé brotaþoli yngri en 18 ára skal lögregla skv. 14. gr. tilnefna réttargæslumann meðan á rannsókn máls stendur en dómari skal að jafnaði aðeins skipa réttargæslumann hafi mál verið höfðað með útgáfu ákæru. Þetta er nýmæli en þóknun réttargæslumanns skal telja til sakarkostnaðar. Ákærði skal endurgreiða þennan kostnað sé hann fundinn sekur en ella fellur kostnaður á ríkissjóð. Ekki er hægt að áætla fjölda mála, í hve mörgum tilvikum ríkissjóður greiðir kostnað eða hvert umfang slíkra mála er. Ljóst er þó að þessi breyting mun hafa einhvern kostnaðarauka í för með sér. Rétt er að geta þess að erfitt hefur reynst að innheimta þann sakarkostnað sem ákærðum hefur verið skylt að greiða þegar þeir hafa verið fundnir sekir og hefur ríkissjóður því í reynd staðið undir verulegum hluta þessa kostnaðar.
     2.      Í 35. gr. er fallið frá að ákvarða sérstakt saksóknargjald í ríkissjóð til að mæta kostnaði við saksókn og flutning opinberra mála af hálfu ákæruvalds. Álagt gjald nam um 14,5 m.kr. 1996 og um 16,5 m.kr. á árinu 1997 en hefur innheimst treglega og raunveruleg áhrif þessarar breytingar því lítil.
     3.      Í 42. gr. er lögð til breyting á bótarétti ákærðra. Ef ákærði er sýknaður af refsikröfu vegna þess að sekt hans hefur ekki verið sönnuð í opinberu máli skal samkvæmt gildandi lögum ekki greiða honum bætur úr ríkissjóði megi telja hann líklegan til að vera sekur. Þetta ákvæði er fellt niður og á ákærði samkvæmt frumvarpinu rétt á bótum úr ríkissjóði óháð líkindum, hafi hann verið sýknaður. Ekki er gerlegt að áætla í hve miklum mæli þetta leiði til aukinna bótagreiðslna úr ríkissjóði en þær hafa verið óverulegar síðustu árin. Telja verði þó að tilvikin séu ekki mörg en umfang mála getur samt sem áður verið mjög misjafnt.
    Það er mat fjármálaráðuneytis að frumvarp þetta muni leiða til einhvers útgjaldaauka fyrir ríkissjóð þótt reynslan verði að leiða í ljós í hvaða mæli það verður. Talið er að niðurfelling ákvörðunar um sérstakan saksóknarkostnað hafi lítil áhrif á tekjur ríkissjóðs. Ekki er talin ástæða til að breyta fjárveitingum til opinberrar réttaraðstoðar verði frumvarpið að lögum.