Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 493  —  322. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um afnám l. nr. 62/1984, um húsaleigu sem fylgir breytingum á vísitölu húsnæð­iskostnaðar.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    
     Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hallgrím Snorrason frá Hagstofu Íslands. Málið var ekki sent til umsagnar.
    Með frumvarpinu er lagt til að felld verði úr gildi lög nr. 62/1984, um húsaleigu sem fylg­ir breytingum á vísitölu húsnæðiskostnaðar. Nefndin tekur undir sjónarmið sem fram koma í greinargerð um að lögin séu barn síns tíma og ákvæði þeirra úreld eftir að tekist hefur að ná tökum á verðbólgunni hér á landi. Grunnur vísitölu húsnæðiskostnaðar er tengdur meðal­launum og er því verðbólguhvetjandi auk þess sem þessi tilhögun samrýmist ekki núverandi stöðu mála varðandi verðtryggingu í íslensku efnahagslífi.
    Mjög hefur dregið úr notkun ýmiss konar vísitalna sem viðmiða hækkana á endurgjaldi fyrir vöru og þjónustu hér á landi. Nefndin vill beina því til ríkisstjórnarinnar að láta kanna í hve miklum mæli vísitölur eru enn við lýði sem greiðsluviðmið og leggur til að slík viðmið verði felld brott úr lögum í áföngum.
    Þá vill nefndin beina því til félagsmálaráðherra að vel verði staðið að kynningu þeirrar breytingar sem frumvarpið felur í sér verði það að lögum og að stöðluðum eyðublöðum skv. 4. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, verði breytt við gildistöku laganna til samræmis við efni þeirra.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins.
    Einar Oddur Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk álitinu.

Alþingi, 14. des. 1998.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Ágúst Einarsson.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.



Steingrímur J. Sigfússon.


Sólveig Pétursdóttir.


Valgerður Sverrisdóttir.



Svavar Gestsson.


Pétur H. Blöndal.