Ferill 360. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 496  —  360. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um leikskóla, nr. 78/1994.

Flm.: Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson,


Margrét Frímannsdóttir.


1. gr.

    Við 1. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sé ekki unnt að manna stöðugildi leikskólakennara skulu leiðbeinendur, sem sérstaklega eru þjálfaðir til starfa á leik­skólum, ráðnir eftir þörfum til að sinna þessum störfum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í lögum um leikskóla, nr. 78/1994, er kveðið á um að leikskólastjóri og það starfslið sem annast uppeldi og menntun barna skuli hafa menntun leikskólakennara. Hvergi í lögunum er minnst á annað starfsfólk leikskóla, né hvaða kröfur eru gerðar til þess. Í reglugerð um starf­semi leikskóla sem sett var 6. apríl 1995 segir að fyrir hvert stöðugildi leikskólakennara sem sjá um umönnun, uppeldi og menntun barna í leikskóla skuli vera átta barngildi samkvæmt reiknireglu 7. gr. Þessu til viðbótar koma störf leikskólastjóra, störf vegna sérstaks stuðnings, afleysinga og ræstinga og störf í eldhúsi samkvæmt mati rekstraraðila miðað við stærð leik­skóla.
    Þegar leikskólalögin voru í undirbúningi á Alþingi árið 1994 var ítrekað bent á þörf á því að geta sérstaklega annarra starfsmanna leikskóla í lögunum sjálfum, og var meðal annars um þetta fjallað í umræðum á Alþingi. Nauðsynlegt væri að geta um ófaglært starfsfólk í lögun­um til að treysta réttarstöðu þess. Þá fullvissaði þáverandi menntamálaráðherra þingmenn um að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af þessu, minnst væri á annað starfsfólk en leikskólakennara í athugasemdum með frumvarpinu og séð yrði til þess í erindisbréfum að réttarstaða starfs­manna væri tryggð.
    Í eldri lögum var tekið á þessum málum með öðru móti. Í lögum um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn, nr. 112/1976, sem giltu til ársins 1991 sagði í 10. gr. að forstöðu­maður dagvistarheimilis og starfslið er annaðist fósturstörf skyldi hafa hlotið fósturmenntun, svo og þeir sem önnuðust umsjón með dagvistarheimilum á vegum rekstraraðila. Heimilt væri þó með samþykki ráðuneytisins að víkja frá þessu ákvæði væri þess enginn kostur að fá fólk með framangreinda menntun til starfs.
    Í lögum um leikskóla frá 18. mars 1991 sagði í 1. mgr. 10. gr. að við hvern leikskóla skyldi vera leikskólastjóri. Leikskólastjóri og starfslið sem annaðist fósturstörf skyldi hafa fósturmenntun, svo og þeir sem önnuðust faglega umsjón og eftirlit með leikskólum á vegum rekstraraðila. Við undirbúning að þessum lögum reyndi Starfsmannafélagið Sókn að tryggja réttarstöðu félagsmanna sinna og fékk þá fyrirheit ráðherra um að í reglugerð yrði sérstaklega hugað að öðru starfsfólki leikskóla en leikskólakennurum. Sú reglugerð var ekki sett.
    Meira en helmingur allra starfsmanna leikskóla uppfyllir ekki þau skilyrði sem lög um leikskóla setja, er með öðrum orðum ekki leikskólakennarar. Samkvæmt ársskýrslu Dagvistar barna í Reykjavíkur árið 1994 tilheyrðu 57% allra starfsheita hjá Dagvist barna félagsmönn­um Sóknar eða 612,58 stöðugildi af samtals 1.074.37. Í samantekt menntamálaráðuneytisins yfir fjölda starfsmanna leikskóla á landsvísu kemur í ljós að ófaglært starfsfólk er 59% allra starfsmanna leikskóla. Ófaglært starfsfólk leikskóla utan félagssvæðis Sóknar er ýmist í verkalýðsfélögum sem eru aðilar að Verkamannasambandi Íslands eða í starfsmannafélögum viðkomandi bæjarfélaga eða landsvæða.
    Þrátt fyrir svo hátt hlutfall ófaglærðs starfsfólks á leikskólum er hvergi minnst á þetta fólk í lögum. Réttarstaða þess er slök og í ljósi núgildandi reglugerðar um leikskóla telja leik­skólakennarar sig hafa einkarétt til starfa á leikskólum. Þess eru mörg dæmi að starfsmönnum leikskóla með margra ára starfsreynslu sé vikið úr starfi þegar leikskólakennarar sækja um.
    Í starfsgreinaráði uppeldis- og tómstundagreina, sem hefur það hlutverk að skipuleggja nám á stuttum starfsmenntabrautum, er nú fjallað um menntunarmál þessa starfshóps. Við þá umfjöllun hefur réttleysi hans komið fram. Menn hafa velt því fyrir sér hvort hægt er að skipuleggja nám fyrir starfsfólk á leikskólum sem ekki er getið í lögum, hóp sem lög um leik­skóla gera ekki ráð fyrir að starfi á leikskólum. Enn fremur má geta þess að Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög hafa viljað stuðla að bættri stöðu starfsmanna á leikskólum með langan starfsaldur með því að bjóða upp á aðfaranám að leikskólakennaramenntun við Kennarahá­skóla Íslands. Þessi áform hafa nú verið lögð til hliðar þar sem úrlausn málsins veltur á því að leikskólalög geri ráð fyrir tilvist þessa starfsfólks. Aðrir en menntaðir leikskólakennarar hafa ekki heimild til að sinna þessum störfum.
    Forusta Starfsmannafélagsins Sóknar og fleiri launþegasamtök hafa á liðnum árum stöðugt minnt á laka stöðu þessa hóps og gert kröfur til þess að hún sé bætt og ófaglærðu fólki tryggður sess í störfum á leikskólum með lögum. Meðal annars hefur þetta verið gert með málflutningi innan þeirra nefnda sem hafa unnið að frumvarpi til leikskólalaga, við setningu laga um leikskóla á Alþingi á sínum tíma og eins með viðtölum við menntamálaráðherra og borgarstjóra. Fyrir u.þ.b. einu ári kom meðal annars fram á ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga einlægur vilji sveitarstjórnarmanna til að finna lausn á þessu vandamáli. Þrátt fyrir skilning, vilja og fögur fyrirheit hefur ekkert orðið úr efndum.
    Á þessu ári sendi Sókn erindi til umboðsmanns Alþingis og óskaði álits hans á því hvort reglugerð um leikskóla stæðist þar sem hún gengi enn lengra en sett lög í því að útiloka aðra en leikskólakennara frá störfum á leikskólum. Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til athuga­semda við reglugerðina, en tók jafnframt fram í tilefni þess að í kvörtun Starfsmannafélagsins Sóknar var vikið að því að ákvæði skorti um réttarstöðu og starfssvið ófaglærðs starfsfólks á leikskólum í lögum um leikskóla að það væri ekki hlutverk umboðsmanns að fjalla um hvernig til hefði tekist með löggjöf sem sett hefði verið á Alþingi.
    Í þessu frumvarpi er hugtakið leiðbeinandi notað, enda hefur það verið notað það hugtak um ófaglært starfsfólk á leikskólum. Er það gert að fyrirmynd grunnskólalaga um þá sem stunda kennslu án þess að hafa lokið kennaranámi.