Ferill 361. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 497  —  361. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um skipulag ferðamála, nr. 117/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Aðrir fundir skulu haldnir samkvæmt ákvörðun ráðsins.

2. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Samgönguráðherra skipar sjö menn í Ferðamálaráð og jafnmarga til vara. Skipunartími Ferðamálaráðs skal vera fjögur ár, en skipunartími ráðherraskipaðra fulltrúa skal þó tak­markaður við embættistíma þess ráðherra sem skipar þá. Skulu tveir skipaðir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður ráðsins og hinn varaformaður. Aðra fulltrúa í Ferðamála­ráð skipar ráðherra eftir tilnefningu eftirtalinna: Samtaka ferðaþjónustunnar, sem tilnefna tvo menn, Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem tilnefnir tvo, og Ferðamálasamtaka Íslands, sem tilnefna einn.

3. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Ferðamálaráði er heimilt að skipa undirnefndir til þess að vinna að einstökum málaflokk­um. Í undirnefndir er heimilt að skipa menn sem ekki eiga sæti í Ferðamálaráði.

4. gr.

    Á eftir 1. tölul. 7. gr. laganna kemur nýr töluliður og breytist töluröð annarra liða til sam­ræmis við það:
  2.    Rannsóknir og kannanir á sviði ferðamála.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu í samráði við Samtök ferðaþjónustunnar. Tilgangur þess er að breyta skipan Ferðamálaráðs og gera störf þess skilvirkari, en fjöldi fulltrúa í ráðinu hefur gert störf Ferðamálaráðs nokkuð þung í vöfum og því mikið hvílt á framkvæmdastjórninni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna breytist þar sem framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs verður lögð niður.

Um 2. gr.


    Lagt er til að breyting verði gerð á skipan Ferðamálaráðs. Samkvæmt gildandi lögum eru fulltrúar í Ferðamálaráði 23, þar af eru fimm skipaðir af samgönguráðherra án tilnefningar og 18 skipaðir af samgönguráðherra eftir tilnefningu tiltekinna hagsmunaaðila í ferðaþjón­ustu.
    Í framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs eiga sæti sjö fulltrúar og eiga þar allir jafnframt sæti í Ferðamálaráði, en hlutverk framkvæmdastjórnar er að fara með yfirstjórn á starfsemi Ferðamálaráðs á milli funda ráðsins og í samræmi við ákvarðanir þess. Samkvæmt gildandi lögum eiga eftirtaldir aðilar sæti í framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs: formaður Ferðamála­ráðs, varaformaður Ferðamálaráðs, ferðamálasamtök landshluta, Félag íslenskra ferðaskrif­stofa, Flugleiðir hf., Reykjavíkurborg og Samband veitinga- og gistihúsa.
    Lagt er til að fulltrúum í Ferðamálaráði verði fækkað úr 23 í sjö og að ráðið verði skipað á svipaðan hátt og framkvæmdastjórnin áður. Af sjö fulltrúum í Ferðamálaráði skipar sam­gönguráðherra tvo menn án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður ráðsins og hinn varaformaður. Tveir fulltrúar skulu skipaðir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn full­trúi af Ferðamálasamtökum Íslands. Þá er gert ráð fyrir að Samtök ferðaþjónustunnar til­nefni tvo fulltrúa í Ferðamálaráð, en þau voru stofnuð 11. nóvember 1998.
    Samkvæmt gildandi lögum eiga m.a. eftirfarandi hagsmunaaðilar, sem rúmast innan Sam­taka ferðaþjónustunnar, fulltrúa í Ferðamálaráði: Félag hópferðaleyfishafa, Félag íslenskra ferðaskrifstofa, Félag sérleyfishafa, Flugleiðir hf., Samband veitinga- og gistihúsa og önnur flugfélög en Flugleiðir hf. Við það er miðað að tveir fulltrúar komi frá þessum nýju samtök­um, en þau félög sem að því standa eiga þrjá fulltrúa í framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs samkvæmt gildandi lögum. Miðað er við að Samtök íslenskra sveitarfélaga tilnefni tvo menn, en Reykjavíkurborg á samkvæmt gildandi lögum einn fulltrúa í framkvæmdastjórn Ferða­málaráðs. Ferðamálasamtök Íslands tilnefna einn fulltrúa í Ferðamálaráð, en ferðamálasam­tök landshluta tilnefna einn fulltrúa í framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs samkvæmt gildandi lögum.

Um 3. gr.


    Lagt er til að framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs verði lögð niður þar sem ekki þykir þörf á sérstakri framkvæmdastjórn þegar fjöldi fulltrúa í ráðinu er orðinn sjö í stað 23 áður. Ferðamálaráð, eins og það verður skipað skv. 2. gr. frumvarpsins, tekur því við þeim verk­efnum sem framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs hefur nú með höndum, en 2. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir að fulltrúar sömu aðila skipi Ferðamálaráð og nú eiga sæti í framkvæmda­stjórn þess. Hins vegar er miðað við að Ferðamálaráði verði eftir sem áður heimilt að skipa undirnefndir til að vinna að einstökum málaflokkum í umboði ráðsins.

Um 4. gr.


    Hér er lagt til að í 7. gr. verði tekinn upp nýr töluliður um verkefni Ferðamálaráðs, þ.e. rannsóknir og kannanir á sviði ferðamála.
    Nýlega hefur verið stofnuð sérstök rannsóknarstaða hjá Ferðamálaráði og er ráðið í sam­starfi við Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri um rannsóknir á sviði ferðaþjónustu.
    

Um 5. gr.


    Miðað er við að verði frumvarpið að lögum taki þau þegar gildi.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skipulag ferðamála,
nr. 117/1994, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að gerð verði breyting á skipan Ferðamálaráðs og það verði skipað líkt og framkvæmdastjórn áður. Við það fækkar fulltrúum sem skipaðir eru í ráðið af samgönguráðherra úr sjö af 23 í tvo af sjö. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Ferðamála­ráði verði falið að vinna að rannsóknum á sviði ferðamála, en stofnuð hefur verið rannsókn­arstaða hjá ráðinu og er það í samstarfi við Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri um rannsóknir á sviði ferðamála. Ferðamálaráð hefur um árabil annast landkynningu og mark­aðsmál og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það verði í samstarfi við hagsmunaaðila um slík verkefni. Gera má ráð fyrir 1 m.kr. lækkun útgjalda við breytta skipan ráðsins og fækkun fulltrúa. Ekki er gert ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins hafi frekari áhrif á afkomu ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.