Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 502  —  150. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á ákvæðum ýmissa skattalaga.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Guðjónsdóttur og Tómas N. Möller frá fjármálaráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Fé­lagi löggiltra endurskoðenda og Verslunarráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum er lúta að álagningu og inn­heimtu opinberra gjalda. Í 1. gr. er lagt til að kveðið verði skýrt á um að draga beri stað­greiðslu af dæmdum eða úrskurðuðum launakröfum. Í 2. gr. er lagt til að álagning og inn­heimta sérstaks eignarskatts samkvæmt lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbæt­ur menningarbygginga, verði framlengd um fimm ár. Í 3. og 4. gr. er lagt til að gerðar verði breytingar á ákvæðum laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, meðal annars að kveðið verði á um gjald fyrir leyfi til að reka almenna póstþjónustu, fjarskipta- og talþjónustu, fyrir leyfi til útvarps, leyfisbréf fyrir lífeyrissjóði og skráningu póstrekenda og aðila sem veita fjar­skiptaþjónustu. Að lokum er lagt til í 5. gr. að 0,5% af tekjum af bensíngjaldi verði ráðstafað í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við álagningu og innheimtu gjaldsins.
    Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Annars vegar er um að ræða breytingu á gjaldtöku fyrir útgáfu vega­bréfa samkvæmt lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, í samræmi við breytingar sem til stendur að gera á reglum um vegabréf. Hins vegar er lagt til að bætt verði við 14. gr. sömu laga tveimur nýjum töluliðum um gjaldtöku fyrir útgáfu ökuskírteina. Jafnframt er lagt til að felld verði brott úr frumvarpinu ákvæði um gjaldtöku fyrir innheimtuleyfi samkvæmt inn­heimtulögum og fyrir skráningu sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu voru gjaldtökuheimildirnar lagðar til á þeim grundvelli að sett yrðu innheimtulög og lög um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur á þessu haustþingi. Nú er ljóst að svo verður ekki og er því lagt til að umræddar gjaldtökuheimildir verði felldar brott.

Alþingi, 16. des. 1998.Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Ágúst Einarsson,


með fyrirvara.

Einar Oddur Kristjánsson.Svavar Gestsson,


með fyrirvara.

Valgerður Sverrisdóttir.


Sólveig Pétursdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon,
með fyrirvara.
Gunnlaugur M. Sigmundsson.