Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 539  —  150. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breytingar á ákvæðum ýmissa skattalaga.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sérstakur eignarskattur, 0,25%, sem upphaflega var lagð­ur á til að reisa Þjóðarbókhlöðu og falla á niður um áramótin 1999/2000 verði framlengdur um fimm ár eða út árið 2004.
    Það hafa löngum orðið örlög skatta, sem lagðir eru á til að fjármagna ákveðna góða fram­kvæmd, að þeir verða lífseigir og detta ógjarnan út aftur. Þjóðarbókhlöðuskatturinn er gott dæmi um það. Nú er búið að reisa Þjóðarbókhlöðuna en skatturinn skal lifa áfram.
    Fyrir nokkrum árum urðu miklar umræður um svokallaðan „ekknaskatt“ en það er skattur á ellilífeyrisþega sem oft búa í stórum húsum sem krefjast mikils viðhalds og eru skattlagðar ríflega bæði af ríki og sveitarfélagi. Í Reykjavík er holræsagjaldið dæmi um nýja skattlagn­ingu á þennan þjóðfélagshóp sem oft hefur litlar ráðstöfunartekjur. Fólkið getur illa selt þess­ar eignir sínar vegna þess að skattlagningin og opinber lánafyrirgreiðsla hefur orðið til þess að þær hafa fallið í verði. Sá skattur, sem hér er verið að framlengja, er hluti af vanda þessa fólks.
    Í alþjóðlegum samanburði eru eignarskattar hér á landi með þeim hæstu meðal OECD-ríkja eða 1,45% á allar eignir umfram eignamörk sem ekki eru sérlega há. Ríkið tekur þannig allar eignir einstaklinga umfram þessi mörk á 70 ára fresti. Þetta skýrir mikla söfnun eigna hjá opinberum aðilum og rýrnun eigna einstaklinga. Þá vekur athygli að fyrirtæki hér á landi greiða eignarskatt en víða eru fyrirtæki eignarskattsfrjáls í OECD-ríkjum og liggur það sjón­armið sennilega að baki því að hvatt er til eignamyndunar í atvinnulífi til þess að það geti bet­ur staðið af sér erfiðleikatímabil.
    Að sjálfsögðu þarf ekki að geta þess að allar eignir ríkis og sveitarfélaga eru undanþegnar þessum sköttum, sem og öðrum.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:


    2. gr. falli brott.


Alþingi, 16. des. 1998.



Pétur H. Blöndal.