Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 546  —  173. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1998.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Minni hluti nefndarinnar gagnrýnir harðlega þá fjármálastjórn sem lýsir sér í niðurstöðu­tölum þessa frumvarps. Fjárlög þessa árs voru afgreidd með 133 millj. kr. afgangi. Nú er ljóst að viðurkenndur halli nemur 5,5 milljörðum kr. Minni hlutinn telur hins vegar að þegar öll kurl eru komin til grafar sé raunverulegur halli 9–10 milljarðar kr. og er þar um að ræða vanáætlaðar lífeyrisskuldbindingar og launakostnað, ofáætlaðar tekjur af virðisaukaskatti, launakostnað og uppsafnaðan halla í heilbrigðiskerfinu.
    Fjárlög fyrir 1998 voru fyrstu fjárlögin sem voru gerð upp á rekstrargrunni og eru fjár­aukalögin sem við nú erum að afgreiða þau fyrstu sem gerð eru upp á þann hátt. Verður að ítreka það sem sagði í fyrra nefndaráliti að óvissuþættir eru miklir í niðurstöðutölum og er mjög á reiki hvað menn telja að t.d. lífeyrisskuldbindingar eigi að reiknast á en þar er vandinn mikill á þessu ári vegna kerfisbreytinga þar sem hluti af yfirvinnu fer inn í fastalaun.
    Þegar fjárlagafrumvarpið 1998 var lagt fram þótti minni hlutanum sem tekjuáætlunin væri trúlega varlega áætluð. Er nú að koma betur og betur í ljós að minni hlutinn reyndist hafa rétt fyrir sér og höfðu tekjurnar verið vanáætlaðar um rúma 9 milljarða kr. Áætlun nú gerir ráð fyrir að tekjur ársins hækki um 21% en gjöld um 34% frá fyrra ári. Ríkisendurskoðun bendir þó á í umsögn sinni til nefndarinnar að tekjur af virðisaukaskatti gætu verið ofáætlaðar um 1,5–2 milljarða kr. Einnig bendir stofnunin á að launahækkanir gætu í reynd hafa verið meiri en áætlun fjáraukalaga gerir ráð fyrir eða um 16% milli ára. Það hefur svo aftur áhrif á lífeyrisskuldbindingar sem munu verða verulega hærri ef þetta reynist rétt vera. Þetta eru því ekki lengur hallalaus fjárlög eins og mjög var glaðst yfir þegar frumvarpið var lagt fram á síð­asta ári.
    Minni hlutinn ítrekar það sem kom fram í nefndaráliti við 2. umræðu, að neysluspár hafa á undanförnum árum reynst óraunhæfar og virðist ekki vera sterkur vilji til að læra af þeirri reynslu. Í nefndarálitinu gagnrýndi minni hlutinn harðlega að ekki væri komið nægilega til móts við fjárhagsvanda stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík. Þrátt fyrir framlag upp á 459 millj. kr. í fjáraukatillögum ríkisstjórnarinnar leit út fyrir að þau mundu draga á eftir sér yfir áramótin rúmlega 1 milljarðs kr. uppsafnaðan halla frá fyrri árum og því ári sem nú er að líða. Minni hlutinn lagði til við 2. umræðu að þessi tvö sjúkrahús fengju samtals 600 millj. kr. til að mæta þessum mikla vanda en dró þá tillögu til baka í trausti þess að meiri hlutinn væri að vinna að lausn sem munaði um. Nú mun minni hlutinn leggja fram þá tillögu aftur þar sem hún gengur lengra til lausnar á þeim vanda sem við er að glíma en tillaga meiri hlutans sem leggur til að 500 millj. kr. fari til þessara stofnana af fjáraukalögum. Er það að sjálfsögðu til bóta þó að vandinn sem eftir verður sé enn allt of stór en talið er að sjúkrahúsin geti ekki dregið með sér svo vel fari nema um mánaðarveltu. Ef tillaga meiri hlutans verður samþykkt er að mati Ríkisendurskoðunar enn óleystur vandi svo nemur meira en hálfum milljarði króna hjá þessum stofnunum.
    Nú hefur það gerst á síðasta sólarhring að búið er að semja um að setja bæði þessi sjúkra­hús undir eina yfirstjórn og er þess nú að vænta að dragi úr þeim óraunhæfu sparnaðarkröfum sem gerðar hafa verið til hátæknisjúkrahúsanna hér í Reykjavík á síðustu árum. Þó skal á það minnt að rekstrarvandi ýmissa stofnana í heilbrigðiskerfinu er ekki leystur með samþykkt þessara fjáraukalaga og má þar minna t.d. á Heyrnar- og talmeinastöð en þar er mikið vanda­mál vegna uppsafnaðs rekstrarhalla hjá lítilli stofnun og hlýtur að verða að taka á því máli með einhverjum hætti á nýju ári svo að stofnunin geti starfað eðlilega. Minni hlutinn mun nú við 3. umræðu flytja breytingartillögu þess efnis að Heyrnar- og talmeinastöð verði bættur uppsafnaður rekstrarhalli.
    Einnig er rétt að minna á að ekki er greiddur til aldraðra eða öryrkja sá munur sem Ríkis­endurskoðun hefur sýnt fram á með útreikningum sínum að nemur 1.842 millj. kr. á síðustu fjórum árum milli þeirra sem búa við framfærslu sem ákvörðuð er með grunnlífeyri með tekjutryggingu og þeirra sem hafa lægstu umsamin laun. Þótt nokkrar leiðréttingar verði gerð­ar hjá hluta þessa fólks á næsta ári liggur enn óbættur hjá garði sá hluti sem nú hefur verið reiknað út að það hafi misst miðað við að allrar sanngirni hafi verið gætt. Mun minni hlutinn við þá umræðu flytja breytingartillögu sem gerir ráð fyrir að þessum hópum verði að nokkru bættur sá skaði sem þeir hafa orðið fyrir á þessu ári miðað við meðaltalshækkun launa.
    Að lokum vill svo minni hlutinn enn minna á að ekki er ætlast til samkvæmt lögum að fjárveitingavaldið sé annars staðar en hjá Alþingi þó að framkvæmdarvaldið hafi heimild til að ráðstafa fé ef sérstaklega stendur á, svo sem ef um náttúruhamfarir eða önnur ófyrirsjáan­leg atvik er að ræða. Því miður virðist ríkisstjórnin umgangast þessar heimildir nokkuð frjáls­lega. Það sýna dæmin hér í þessu frumvarpi og í þeim breytingartillögum frá ríkisstjórn og ráðuneytum sem hér eru til afgreiðslu.

Alþingi, 18. des. 1998.



Sigríður Jóhannesdóttir,


frsm.


Kristín Halldórsdóttir.


Gísli S. Einarsson.