Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 550  —  1. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.    Nefndin hefur haft fjárlagafrumvarpið til athugunar frá því að 2. umræða fór fram 11. og 12. desember sl. Til viðræðna við nefndina komu forsvarsmenn B-hlutastofnana, þ.e. Ríkisút­varpsins, Lánasjóðs íslenskra námsmanna, RARIK og Íbúðalánasjóðs. Fulltrúar efnahags­skrifstofu fjármálaráðuneytisins og Þjóðhagsstofnunar komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins og horfur í þjóðarbúskapnum.
    Í nefndarálitinu er fyrst gerð grein fyrir meginbreytingum sem verða á tekjuhlið frum­varpsins. Þá er gerð grein fyrir þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði á sundurliðun­um 2–4. Að lokum er gerð grein fyrir breytingum sem lagt er til að verði á 5. gr. frumvarpsins en framsögumaður meiri hlutans mun gera grein fyrir helstu breytingum sem lagt er til að verði á 7. gr. í ræðu sinni við upphaf 3. umræðu.
    Endurmat Þjóðhagsstofnunar á efnahagshorfum næsta árs leiðir til nokkurrar hækkunar á tekju- og veltusköttum. Auk þess gefur álagning tekjuskatta á fyrirtæki árið 1998 (en hún lá ekki fyrir þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram fyrr í haust) tilefni til þess að hækka fyrri áætlun. Loks hafa áform um eignasölu ríkisins verið endurskoðuð, meðal annars í ljósi reynsl­unnar það sem af er árinu. Að öllu samanlögðu felur endurskoðuð tekjuáætlun fyrir árið 1999 í sér 3.742 m.kr. hækkun frá því sem áætlun fjárlagafrumvarpsins gerði ráð fyrir. Að venju er álit efnahags- og viðskiptanefndar á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins og áhrifum skatta­lagabreytinga birt sem fylgiskjal með nefndarálitinu.
    Tillögur meiri hluta nefndarinnar er varða útgjöld A-hluta ríkissjóðs leiða til hækkunar út­gjalda um 1.397,9 m.kr.
    Hér á eftir fylgja skýringar á breytingartillögum meiri hlutans.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins

205     Framkvæmdir á Alþingisreit. Gerð er tillaga um að veita 70 m.kr. til byggingar þjónustuskála við Alþingishúsið. Heildarkostnaður við verkið er áætlaður 400 m.kr.

01 Forsætisráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um 20 m.kr. styrk til byggingar stafkirkju í Vestmannaeyjum vegna þjóðargjafar Norðmanna. Styrkurinn er háður því að gerður verði samningur milli forsætisráðuneytis og framkvæmdaraðila annars vegar og Vestmannaeyjabæjar hins vegar. Áætlað er að verkinu ljúki árið 2000.
221     Byggðastofnun. Í samræmi við þingsályktunartillögu um byggðamál hefur Byggðastofnun hafið þátttöku í undirbúningi að stofnun eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni sem ætl­að er að styrkja atvinnulíf þar og auka fjölbreytni atvinnuframboðs. Í þingsályktunartil­lögunni segir að allt að 300 m.kr. verði varið til stofnunar eignarhaldsfélaga og er lagt til að á árinu 1999 verði veitt framlag sem nemi þeirri fjárhæð til Byggðastofnunar. Kveðið er á um slík eignarhaldsfélög í reglugerð um Byggðastofnun frá 8. maí 1998 og eru þar sett tiltekin skilyrði fyrir þátttöku stofnunarinnar í þeim.

02 Menntamálaráðuneyti

210     Háskólinn á Akureyri. Farið er fram á 7 m.kr. fjárveitingu til Háskólans á Akureyri vegna rekstrarkostnaðar við fjarkennslu.
318     Framhaldsskólar, stofnkostnaður. Lagt er til að framlag til stofnkostnaðar hækki um 20 m.kr. til endurbóta á húsnæði Sjómannaskólans. Auk þess er gerð tillaga um 5 m.kr. hækkun framlags til byggingarframkvæmda við Framhaldsskóla Vestfjarða.
319     Framhaldsskólar, almennt. Lagt er til að almenn framlög til framhaldsskóla hækki um 40 m.kr. Menntamálaráðuneytið hefur gert svonefnda skólasamninga við einstaka skóla. Með þessari fjárhæð er gert kleift að endurmeta samninga við skólana, einkum fámenn­ari skóla á landsbyggðinni. Fjárhæðin færist á viðfangsefnið 1.90 Framhaldsskólar, óskipt.
884     Jöfnun á námskostnaði. Lagt er til að framlag hækki um 40 m.kr. og verði upphæðinni varið til hækkaðra styrkveitinga.
905     Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Gerð er tillaga um 10 m.kr. hækkun á fjárveitingu til safnsins vegna aukins rekstrarkostnaðar.
907     Listasafn Íslands. Lögð er til 3 m.kr. hækkun á framlagi til Listasafns Íslands vegna lægri sértekna en gert er ráð fyrir í fjárlögum.
969     Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður. Gerð er tillaga um nýtt viðfangsefni, 6.92 Kaupangur á Vopnafirði. Kaupangur er rúmlega 100 ára gamalt verslunar- og íbúð­arhús sem er talið hafa mikið gildi fyrir byggingarlist á landinu og byggingartæknilega þróun. Lagður er til 5 m.kr. styrkur til viðgerðar á húsinu.
974     Sinfóníuhljómsveit Íslands. Farið er fram á 4,7 m.kr. hækkun á framlagi til hljómsveitarinnar til að fjölga hljóðfæraleikurum í strengjasveit um fjóra.
981     Kvikmyndasjóður. Lagt er til að framlag til Kvikmyndasjóðs hækki um 30 m.kr. til að ná markmiðum samkomulags sem menntamálaráðherra og fjármálaráðherra fyrirhuga að gera við innlenda kvikmyndaframleiðendur um eflingu Kvikmyndasjóðs á næstu árum.
982     Listir, framlög. Lagt er til að framlag til óskipts viðfangsefnis, 1.90 Listir, hækki um 2 m.kr. til að auka svigrúm til styrkveitinga á þessum lið.
984     Norræn samvinna. Gerð er tillaga um 3 m.kr. fjárveitingu til hækkunar á óskiptri fjárhæð liðarins.
988     Æskulýðsmál. Gerð er tillaga um að framlag til Ungmennafélags Íslands hækki um 5 m.kr. vegna undirbúnings fyrir norrænt menningarmót árið 2000. Gerður verði samning­ur um þátttöku ríkissjóðs í verkefninu.
989     Ýmis íþróttamál. Gerð er tillaga um 0,3 m.kr. hækkun á viðfangsefninu 1.90 Ýmis íþróttamál og er gert ráð fyrir að fjárhæðin renni til Íþrótta fyrir aldraða.
999     Ýmislegt. Óskað er eftir 3 m.kr. hækkun á fjárveitingu til Snorrastofu í Reykholti til fasteignakaupa.

03 Utanríkisráðuneyti

611     Útflutningsráð Íslands. Gerð er tillaga um að hækka framlag til Útflutningsráðs um 20 m.kr. Í fyrirhuguðum lagabreytingum er gert ráð fyrir breytingum á markaðsgjaldi og hafa þær m.a. í för með sér 20 m.kr. hærri tekjur en áætlað var í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár. Tekjur þessar renna í ríkissjóð en samsvarandi fjárhæð er ráðstafað til Út­flutningsráðs.

04 Landbúnaðaráðuneyti

331     Héraðsskógar. Lögð er til 5 m.kr. hækkun á fjárframlögum til að stækka skógræktarsvæðið á Fljótsdalshéraði til norðurs.
831     Jarðasjóður og Jarðeignir ríkisins. Lagt er til að framlag til Jarðasjóðs hækki um 3 m.kr. vegna endurskipulagningar á rekstri og nýrrar löggjafar um sjóðinn.
891     Sérstakar greiðslur í landbúnaði. Gerð er tillaga um 7,5 m.kr. tímabundna fjárveitingu til að kosta slátrun 1.600 hrossa og sporna þannig við ofbeit.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Lagt er til að veitt verði 2,4 m.kr. tímabundið framlag til rannsóknar á viðurlögum við afbrotum og þróun þeirra. Rannsóknin varðar dóma vegna líkamsmeið­inga, kynferðisbrota og fíkniefnabrota.
210     Héraðsdómstólar. Lagt er til að launagjöld héraðsdómstóla verði hækkuð um 11,4 m.kr. vegna úrskurðar Kjaradóms um laun dómstjóra og héraðsdómara sem gildir frá 1. júlí 1998. Sambærileg tillaga er gerð við 3. umræðu frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 1998. Jafnframt er lagt til að dómstólaráð fái 12 m.kr. fjárveitingu til tölvubúnaðar héraðsdómstóla og upplýsingakerfis.
303     Ríkislögreglustjóri. Gerð er tillaga um 3 m.kr. hækkun launagjalda vegna starfs lögfræðings hjá Útlendingaeftirlitinu en verkefni hafa aukist við undirbúning Schengen-sam­komulags auk þess sem einstaklingum sem leita eftir pólitísku hæli á Íslandi hefur fjölg­að.
397     Schengen-samstarf. Lagt er til að framlag til tækja og búnaðar verði hækkað um 72,2 m.kr. vegna kostnaðar við upplýsingakerfi fyrir Schengen. Kostnaður Íslands við sam­eiginlegt útboð Norðurlanda á upplýsingakerfunum nemur 82,2 m.kr. Að auki bætist við kostnaður innan lands vegna aðlögunar á hugbúnaði og kaupa á vélbúnaði og er sá kostnaður metinn 40–60 m.kr. og kemur um helmingur af þeim kostnaði til greiðslu á næsta ári. Hér er reiknað með að 20 m.kr. falli til á næsta ári. Á móti framangreindum kostnaðarauka koma 20 m.kr. vegna uppsafnaðra heimilda áranna 1997–98 og á næsta ári er þegar áætlað fyrir 10 m.kr. á þessum lið. Alls er því lögð til hækkun að fjárhæð 72,2 m.kr.
420     Sýslumaðurinn á Blönduósi. Gerð er tillaga um 2,5 m.kr. hækkun á fjárveitingu til sýslumannsembættisins á Blönduósi. Fjárveitingin verði notuð til að styrkja löggæslu í um­dæminu.
491     Húsnæði og búnaður sýslumanna. Gerð er tillaga um 5 m.kr. hækkun á liðnum til kaupa á tækjum og búnaði.
701     Biskup Íslands. Gerð er tillaga um 12 m.kr. framlag til Hólanefndar til byggingar Auðunarstofu á Hólum í Hjaltadal. Gjafaloforð liggur fyrir um timbur til byggingarinnar frá Noregi.

07 Félagsmálaráðuneyti

101     Félagsmálaráðuneyti, aðalskrifstofa. Lögð er til 1 m.kr. hækkun á liðnum vegna stofnunar fjölskylduráðs en sýnt er að 2 m.kr. fjárveiting sem áætluð er til þess í frumvarpinu nægir ekki til þeirra verkefna sem ráðinu er ætlað að vinna að.
311     Jafnréttisráð. Gerð er tillaga um 4 m.kr. hækkun fjárveitingar til Jafnréttisráðs vegna launakostnaðar.
             Alþingi samþykkti sl. vor þingsályktun um aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmál­um og var sérstök nefnd skipuð í þessu skyni. Lagt er til að framlag til hennar hækki um 2 m.kr.
400    Barnaverndarstofa. Lagt er til að framlag til viðfangsefnisins 1.20 Heimili fyrir börn og unglinga verði lækkað um 8 m.kr. Við 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 1999 var veitt fé til Krossgatna. Fjárhæð þessi er nú millifærð á fjárlagalið 999 Félagsmál, ýmis starfsemi á nýtt viðfangsefni 1.43 Krossgötur.
700     Málefni fatlaðra. Alls er óskað eftir 67 m.kr. hækkun framlaga til fatlaðra og er hún þríþætt. Í fyrsta lagi er farið fram á 60 m.kr. framlag til málefna fatlaðra vegna nýrra stofn­ana í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi í samræmi við skýrslu nefndar um biðlista eftir búsetu og annarri þjónustu hjá svæðisskrifstofum málefna fatlaðra. Gert er ráð fyrir að 46 m.kr. fari til reksturs og 14 m.kr. til húsnæðismála.
             Þá er lagt til að handverkstæðið Ásgarður, sem er verndaður vinnustaður fyrir fatlaða í Lækjarbotnum í Reykjavík, fái 5 m.kr. tímabundna fjárveitingu til að breyta húsi sem það fékk að gjöf sl. vor og reisa viðbyggingu fyrir starfsemi sína.
              Loks er farið fram á sérstaka tímabundna fjárveitingu til viðfangsefnaliðar 1.90 Ýmis verkefni að fjárhæð 2 m.kr. til að styðja fjölskyldu til að annast tvö alvarlega veik börn sín.
711     Styrktarfélag vangefinna. Gerð er tillaga um 10 m.kr. hækkun fjárveitinga til þriggja dagvistunarstofnana. Í fyrsta lagi er lögð til 3 m.kr. hækkun til viðfangsefnisins 1.60 Dagvistun Lækjarási, í öðru lagi 3 m.kr. hækkun til viðfangsefnisins 1.61 Dagvistun Bjarkarási og loks 4 m.kr. hækkun á framlagi til viðfangsefnisins 1.62 Dagvistun Lyng­ási.
801     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Lagt er til að framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hækki um 20 m.kr. í kjölfar endurskoðunar á tekjum ríkissjóðs árið 1999. Samkvæmt lögum ákvarðast framlagið annars vegar af 1,4% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs og hins vegar af 0,264% af álagningarstofni útsvars næstliðins tekjuárs.
984     Atvinnuleysistryggingasjóður. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1999 er í útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs gert ráð fyrir tæplega 3% atvinnuleysi. Í ljósi spár Þjóðhags­stofnunar um 2,5% atvinnuleysi á næsta ári er lagt til að útgjöld vegna atvinnuleysisbóta lækki um 230 m.kr. Í frumvarpi til fjárlaga var gert ráð fyrir að atvinnutryggingagjald lækkaði úr 1,15% í 1% af gjaldstofni. Nú hefur verið horfið frá því og verður gjaldið óbreytt. Þá hafa spár um stofn atvinnutryggingagjalds verið endurmetnar. Tekjur af at­vinnutryggingagjaldi verða því um 500 m.kr. hærri en áætlað var í frumvarpinu og breyt­ist tekjuáætlun fjárlaga samsvarandi. Miðað við spá um atvinnuleysi og áætlaðar tekjur af atvinnutryggingagjaldi myndast um 700 m.kr. inneign Atvinnuleysistryggingasjóðs hjá ríkissjóði á næsta ári. Er það í samræmi við áform um að sjóðurinn byggi upp eignir þegar vel árar og gangi á þær ef atvinnuleysi eykst. Þannig mun sjóðurinn virka til jöfn­unar á sveiflum í atvinnulífinu.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi. Gerð er tillaga um 15,7 m.kr. hækkun á fjárveitingum til þessa liðar. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir nýju viðfangsefni, 1.43 Krossgötur, endurhæf­ingarheimili. Framlag til þess er millifært af fjárlagalið 400 Barnaverndarstofa þar sem það var fært við 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins og lækkar sá liður því um sömu fjár­hæð, sbr. skýringar við þann lið.
             Þá er gerð tillaga um 5 m.kr. hækkun á viðfangsefninu 1.90 Ýmis framlög og er þar um tímabundna fjárveitingu til Súðavíkurhrepps að ræða vegna vinnu við eftirfylgni og áfallahjálp í hreppnum.
             Í þriðja lagi er óskað eftir að meðferðarheimilið Byrgið fái 2 m.kr. fjárveitingu til rekst­urs.
             Að lokum er lögð til 0,7 m.kr. hækkun á viðfangsefninu 1.31 Félagasamtök, styrkir og er gert ráð fyrir að framlagið renni til Landssambands aldraðra. Þá lækkar framlag til Blindrafélagsins um 1,5 m.kr., sbr. skýringar við fjárlagalið 08-326, og við það hækkar óskipt fjárhæð jafnmikið.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

201     Tryggingastofnun ríkisins. Gerð er tillaga um 8 m.kr. hækkun framlags til Tryggingastofnunar ríkisins. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins flutti starfsemi sína frá Trygginga­stofnun fyrr á þessu ári en hann hafði tekið þátt í sameiginlegum kostnaði við rekstur, svo sem bókhald, rekstur húsnæðis og rekstur tölvukerfis. Við endurmat á kostnaði í kjölfar flutninganna kom í ljós að lífeyrissjóðurinn hafði greitt hærri hlut síðustu árin en honum með réttu bar af rekstri tölvukerfis. Kostnaður Tryggingastofnunar vegna brott­hvarfs lífeyrissjóðsins nemur 10 m.kr. á ári.
203     Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Vegna endurskoðunar á áætlun Tryggingastofnunar ríkisins byggðri á útgjöldum janúar til október 1998 og áforma um að bætur hækki um 4% í stað 3,65% frá 1. janúar 1999 eru eftirfarandi breytingar lagðar til: Framlag til umönnunarbóta hækki um 20 m.kr., ekkju- og ekkilsbætur lækki um 10 m.kr., heimilisuppbætur hækki um 10 m.kr., sérstök heimilisuppbót lækki um 5 m.kr. og uppbætur lækki um 65 m.kr.
204     Lífeyristryggingar. Gerð er tillaga um hækkun á þessum lið sem nemur alls 360 m.kr.
        Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að framlag til tekjutryggingar ellilífeyrisþega hækki alls um 150 m.kr. og eru skýringar á því af tvennum toga. Annars vegar er farið fram á 210 m.kr. hækkun á framlögum. Er það í samræmi við áform um talsverða hækkun á frítekjumörk­um ellilífeyrisþega sem ætlað er að draga úr þeim áhrifum sem tekjur maka hafa á bóta­greiðslur. Þannig er ráðgert að frítekjumörk hjóna sem bæði eru ellilífeyrisþegar hækki úr 28.156 kr. á mánuði í 40.224 kr. Er þá því marki náð að frítekjumark hjóna er það sama og tveggja einhleypinga með ellilífeyri, en það er 30% lægra nú. Einnig er gert ráð fyrir að frítekjumark annars hjóna sem er ellilífeyrisþegi hækki úr 20.112 kr. á mánuði í 30.168 kr. þannig að það njóti 50% hærri frítekjumarka en einhleypur vegna hærri fjöl­skyldutekna. Frítekjumörk vegna tekna úr lífeyrissjóðum eru óbreytt. Með breytingunum er stefnt að því að draga úr skerðingu bóta vegna tekna maka þannig að lífeyrisþegar haldi eftir meiru af sjálfsaflatekjum sínum en áður var. Hins vegar er farið fram á 60 m.kr. lækkun vegna endurskoðaðrar áætlunar Tryggingastofnunar ríkisins byggðri á út­gjöldum janúar til október 1998 og áforma um að bætur hækki um 4% í stað 3,65% frá 1. janúar 1999.
             Þá er lögð er til breyting á framlögum til tekjutryggingar sem nemur alls 170 m.kr. og er hún einnig af tvennum toga. Annars vegar er lögð til 190 m.kr. hækkun á framlögum og er það í samræmi við áform um mikla hækkun á frítekjumörkum örorkulífeyrisþega sem ætlað er að draga úr þeim áhrifum sem tekjur maka hafa á bótagreiðslur. Einnig er lögð til hækkun á frítekjumarki einhleypinga sem eru öryrkjar, en sérstök frítekjumörk vegna tekna úr lífeyrissjóðum eru felld inn í almenn frítekjumörk örorkulífeyrisþega. Þannig hækka frítekjumörk hjóna sem bæði eru örorkulífeyrisþegar úr 14.178 kr. á mán­uði í 30.168 kr. Frítekjumark einhleypinga sem eru öryrkjar hækkar úr 20.112 kr. í 30.168 kr. á mánuði. Einnig er gert ráð fyrir að frítekjumark annars hjóna sem er örorku­lífeyrisþegi hækki úr 20.112 kr. á mánuði í 45.252 kr. þannig að það njóti 50% hærri frí­tekjumarka en einhleypur vegna hærri fjölskyldutekna. Með breytingunum er að því stefnt að lífeyrisþegar haldi eftir meiru af sjálfsaflatekjum sínum en áður. Samtals er áætlað að breytingin kosti 190 m.kr. á ári og er farið fram á aukna fjárheimild sem því nemur. Hins vegar er farið fram á 20 m.kr. lækkun vegna endurskoðaðrar áætlunar Tryggingastofnunar ríkisins byggðrar á útgjöldum janúar til október 1998 og áforma um að bætur hækki um 4% í stað 3,65% frá 1. janúar 1999.
             Til viðbótar þessu eru lagðar til nokkrar breytingar vegna endurskoðunar á áætlun Tryggingastofnunar ríkisins byggðri á útgjöldum janúar til október 1998 og áforma um að bætur hækki um 4% í stað 3,65% frá 1. janúar 1999. Þannig er lagt til að framlag til ellilífeyris hækki um 70 m.kr., framlag til örorkustyrks lækki um 10 m.kr., barnalífeyrir lækki um 15 m.kr., framlag til fæðingarorlofs lækki um 15 m.kr. og loks hækki framlag til óskipts liðar, 1.91 Annað um 10 m.kr.
206     Sjúkratryggingar. Lögð er til 11,1 m.kr. hækkun á framlagi til sjúkratrygginga vegna endurskoðunar á áætlun um lækniskostnað.
326     Sjónstöð Íslands. Gerð er tillaga um 1,5 m.kr. fjárveitingu til að hægt sé að ráða félagsráðgjafa við Sjónstöð Íslands. Á móti lækkar fjárveiting til Blindrafélagsins um sömu fjárhæð á liðnum 07-999 1.31 Félagasamtök, styrkir en það hefur ekki áhrif heildarfjár­hæð þess liðar þar sem óskipt fjárhæð hans hækkar jafnmikið.
358     Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Lagt er til að veittar verði 25 m.kr. til tækjakaupa á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.
381     Sjúkrahús og læknisbústaðir. Lagt er til að framlag til bygginga sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða hækki um 12 m.kr. Fjárhæðin skiptist á eftirfarandi hátt: Til Sjúkrahúss Suðurlands eru veittar 4 m.kr. til að gera nýtingaráætlun fyrir sjúkrahúsið og kanna hvort heppilegt sé að byggja við það álmu í stað hjúkrunarheimilisins Ljósheima og láta fara fram áætlunargerð í framhaldi af því í samræmi við lög um skipan opinberra framkvæmda, til sjúkrahússins á Hólmavík eru veittar 4 m.kr. til endurbóta og til Sjúkrahúss Sauðárkróks eru veittar 4 m.kr. vegna þátttöku ríkissjóðs í kostnaði við endurhæfingardeild.
399     Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Farið er fram á 305,9 m.kr. hækkun alls á viðfangsefninu 1.90 Ýmis framlög. Í fyrsta lagi er lagt til að veitt verði 251,9 m.kr. framlag til að mæta áhrifum af nýlegum aðlögunarsamningum sem gerðir hafa verið við ýmis félög háskóla­menntaðra starfsmanna á heilbrigðisstofnunum, svo sem meinatækna, röntgentækna, líf­fræðinga, sjúkraþjálfara o.fl., umfram það sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í fjárlaga­frumvarpi. Sundurliðun framlagsins á einstakar stofnanir er sýnd í sérstöku yfirliti I með breytingartillögum.
             Þá er lagt til að fjárveiting liðarins verði hækkuð um 44,9 m.kr. í kjölfar endurmats á launakostnaði heilbrigðisstofnana vegna úrskurðar kjaranefndar um laun heilsugæslu­lækna. Við gerð mats sem lagt var til grundvallar í fjárlagafrumvarpi 1999 lágu ekki nægilega skýrt fyrir forsendur um aukna þörf fyrir afleysingar sem leiðir af auknum rétti heilsugæslulækna til vaktafría. Þær forsendur hafa nú verið endurskoðaðar. Þá hefur kjaranefnd breytt viðmiðunum í fyrri úrskurði um einingagreiðslur með tilliti til fjölda íbúa á hvern lækni. Sundurliðun fjárveitingarinnar á einstakar stofnanir er sýnd í sér­stöku yfirliti III með breytingartillögum.
             Loks er gerð tillaga um 9,1 m.kr. fjárveitingu sem skipt verði á milli hjúkrunarheimila og daggjaldastofnana í samræmi við sundurliðun í sérstöku yfirliti II með breytingartil­lögum. Hækkunin er ætluð til að mæta endurmati á áhrifum af kjarasamningum lækna umfram það sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Aukningin sam­kvæmt endurmatinu er almennt minni háttar þar sem vægi launagreiðslna til lækna er fremur lágt í heildarlaunagjöldum þessara stofnana. Sambærilegar tillögur eru gerðar við 3. umræðu frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 1998.
586     Heilsugæslustöðin Mosfellsbæ. Gerð er tillaga um 2 m.kr. fjárveitingu til Heilsugæslustöðvarinnar í Mosfellsbæ til að fjölga starfsfólki í heimahjúkrun.

09 Fjármálaráðuneyti

201     Ríkisskattstjóri. Lagt er til að veittar verði 5 m.kr. til að undirbúa breytingar á framtals- og álagningarkerfum sem notuð eru við skattheimtu ríkisins.
212     Skatta- og tollamál, ýmis útgjöld. Farið er fram á að framlag til viðfangsefnisins 1.05 Gæða- og þjónustumál skattstofa verði hækkað um 5 m.kr til sérstaks þjónustuátaks í skattkerfinu. Gert er ráð fyrir að ráðinn verði maður til þess að skipuleggja og koma á þjónustu á skattstofunum með það fyrir augum að veita skattborgurum sem bestar upp­lýsingar um skatta, leiðbeina þeim um rétt þeirra og veita þeim leiðsögn um málsmeð­ferð.
481     Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum. Óskað er eftir 110 m.kr. hækkun til þessa liðar. Annars vegar er lagt til að framlög vegna kostnaðar við heimildarákvæði skv. 7. gr. fjár­laga hækki um 80 m.kr. Áformað er að framlaginu verði ráðstafað til verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu á svæðum sem ekki njóta góðs af stóriðju. Hins vegar er farið er fram á 30 m.kr. viðbótarframlag til að mæta kostnaði við ýmis til­efni til ráðstafana samkvæmt heimildarákvæðum fjárlagafrumvarpsins.
989     Launa- og verðlagsmál. Gerð er tillaga um að fjárheimild liðarins verði hækkuð um 100 m.kr. til að mæta ýmiss konar endurmati á launaútgjöldum stofnana sem eftir er að ganga frá og ýmsum ófyrirséðum breytingum sem kunna að verða á launakjörum á árinu, m.a. vegna nýrra úrskurða kjaranefndar.

10 Samgönguráðuneyti

211     Vegagerðin. Lagt er til að styrkir til sérleyfishafa hækki um 34 m.kr. Er hér ekki um útgjaldaaukningu að ræða þar sem felld eru brott úr lögum um fjáröflun til vegagerðar ákvæði um endurgreiðslur til sérleyfishafa. Við þá lagabreytingu hækka tekjur af þunga­skatti um samsvarandi upphæð. Gert er ráð fyrir að Vegagerðin annist úthlutun um­ræddra styrkja með tilliti til aksturs og stöðu einstakra sérleiða í samgöngukerfinu.
335     Siglingastofnun Íslands. Óskað er eftir 26,6 m.kr. hækkun alls á fjárveitingu til stofnunarinnar og er hún af þrennum toga. Í fyrsta lagi er lagt til að framlag hækki um 9,6 m.kr. til samræmis við hafnaáætlun. Við vinnslu frumvarps til fjárlaga fyrir árið 1999 lá tillaga til þingsályktunar um hafnaáætlun ekki fyrir. Samkvæmt framlagðri áætlun eiga framkvæmdir að vera 9,6 m.kr. hærri.
              Þá er gerð tillaga um 9 m.kr. hækkun á fjárveitingu til Hafnabótasjóðs vegna niðurfellingar á skuldum hafnarsjóðs Breiðdalshrepps.
             Loks er farið fram á 8 m.kr. hækkun framlaga vegna fyrirsjáanlegrar lækkunar sér­tekna. Þegar níu mánaða uppgjör stofnunarinnar 1998 er athugað bendir margt til þess að tekjur verði nokkuð lægri en ráð var fyrir gert og virðist ástæðan einkum veruleg aukning stjórnvaldsverkefna sem fjármögnuð eru af fjárlögum og stofnunin hefur ekki tekjur af.
471     Flugmálastjórn. Farið er fram á að framlag til rekstrar Flugmálastjórnar hækki um 6,9 m.kr. í kjölfar endurmats á hækkun lífeyrisiðgjaldagreiðslna vegna skekkju í reiknifor­sendum fyrir hækkun framlags við afgreiðslu fjárlaga ársins 1998.
             Þá er lagt til að framlag Íslands til ICAO hækki um 0,3 m.kr. í kjölfar endurmats á hækkun lífeyrisiðgjaldagreiðslna vegna skekkju í reikniforsendum fyrir hækkun framlags við afgreiðslu fjárlaga ársins 1998. Fjárhæðin samsvarar hlut ríkisins af hækkun gjalda alþjóðaflugþjónustunnar. Hér er því gerð tillaga um 7,2 m.kr. hækkun alls á liðnum og er samsvarandi tillaga gerð við 3. umræðu fjáraukalaga fyrir árið 1998.
472     Flugvellir. Lagt er til að framlag til reksturs flugvalla hækki um 11 m.kr. í kjölfar endurmats á hækkun lífeyrisiðgjaldagreiðslna vegna skekkju í reikniforsendum fyrir hækkun framlags við afgreiðslu fjárlaga ársins 1998. Samsvarandi tillaga er gerð við 3. umræðu fjáraukalaga fyrir árið 1998.

11 Iðnaðarráðuneyti

399     Ýmis orkumál. Gerð er tillaga um að niðurgreiðsla á rafhitun hækki um 100 m.kr.

12 Viðskiptaráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Farið er fram á 2 m.kr. framlag til Neytendasamtakanna vegna þjónustusamnings um verkefni á sviði neytendamála.

14 Umhverfisráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Lögð er til 2,2 m.kr. hækkun fjárveitingar til rannsókna á botndýrum á Íslandsmiðum.
310     Landmælingar Íslands. Gerð er tillaga um að framlag hækki um 2,2 m.kr. Alls hækka útgjöld um 15 m.kr. vegna stafrænnar kortagerðar en á móti hækka sértekjur um 12,8 m.kr.
410     Veðurstofa Íslands. Farið er fram á 11,5 m.kr. hækkun framlags til Veðurstofunnar. Annars vegar er lagt til að framlög til stofnkostnaðar hækki um 10 m.kr. til kaupa og leigu á nýjum jarðskjálftamælum og nauðsynlegum tækjabúnaði þeim tengdum. Vegna tíðra jarðskjálfta á Suðvesturlandi nýverið þykir ástæða til að fylgjast nánar með jarðskorp­unni með eflingu rannsókna. Fyrirhugað er að rannsaka spennubreytingar og hnik í jarðskorpunni á Reykjanesskaga og austur í Ölfus. Til viðbótar stofnkostnaðinum er einnig lagt til að framlag til reksturs hækki um 1,5 m.kr. Er tillagan í samræmi við niður­stöður álitsgerðar fjögurra sérfræðinga sem tilnefndir voru af vísindamannaráði Al­mannavarna.
             Hins vegar er lagt til að framlög til reksturs hækki um 1,5 m.kr. til reksturs og úr­vinnslu upplýsinga úr nýjum jarðskjálftamælum á Suðvesturlandi og í nágrenni höfuð­borgarinnar.

19 Vaxtagjöld ríkissjóðs

801     Vaxtagjöld ríkissjóðs. Gerð er tillaga um að fjárveiting vegna áfallinna vaxtagjalda ríkissjóðs á árinu 1999 lækki um 300 m.kr. en greiddir vextir um 700 m.kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun um þróun þessara útgjalda


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR VIÐ SUNDURLIÐUN 3 (B-HLUTA)

    B-hlutaáætlanir hafa verið endurmetnar frá því að frumvarp til fjárlaga var lagt fram í október. Í endurskoðuðum áætlunum hefur verið tekið tillit til ýmissa leiðréttinga á fyrri áætlunum, áhrifa af ráðstöfunum í A-hluta fjárlaga, breytinga á lántökum og nýrra upplýs­inga um fyrirhugaða starfsemi fyrirtækja og sjóða. Í framhaldi af því gerir meiri hluti fjár­laganefndar tillögu um breytingar á fimm áætlunum í B-hluta.


22 Menntamálaráðuneyti

971    Ríkisútvarpið. Framlag til Ríkisútvarpsins hækkaði um 80 m.kr. við 2. umræðu í samræmi við endurskoðaða áætlun um tekjur af afnotagjöldum sem hækkuðu um 5% frá 1. desember 1998. Áætlað er að rekstrargjöld hækki um sömu fjárhæð.
974    Sinfóníuhljómsveit Íslands. Framlag ríkisins til Sinfóníuhljómsveitar Íslands var hækkað um 5,2 m.kr. við 2. umræðu. Þar af eru 2,2 m.kr. vegna kostnaðar við kjarasamninga og 3 m.kr. vegna leigukostnaðar og kaupa á búnaði. Þá hækkaði framlagið um 4,7 m.kr. við 3. umræðu til að fjölga hljóðfæraleikurum um fjóra. Samtals hækkar framlag ríkisins því um 9,9 m.kr. Áætlað er að þessi breyting leiði til þess að rekstrargjöld hljómsveitar­innar aukist samtals um 20,4 m.kr. og er þá miðað við að hljómsveitin afli sjálf 2,7 m.kr. meiri tekna og að framlag annarra rekstraraðila en ríkisins hækki um 7,8 m.kr. á móti 9,9 m.kr. hækkun ríkisframlags.

23 Utanríkisráðuneyti

114    Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Framlag úr ríkissjóði til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er leiðrétt til hækkunar um 13 m.kr. og verður þá 146 m.kr. Framlagið samanstendur af 91 m.kr. frá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli og 55 m.kr. af flugmálaáætlun á fjárlaga­lið 10-472-6.91 Framlag til framkvæmda við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Lagt er til að mismuninum, 13 m.kr., verði varið til að greiða niður lán örar en gert var ráð fyrir áður.

29 Fjármálaráðuneyti

101    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Áætlun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hefur verið endurskoðuð. Í endurskoðaðri áætlun, sem byggir á sölutölum fyrstu 11 mánuða líðandi árs, er gert ráð fyrir að tekjur hækki frá fyrri áætlun um 446 m.kr. eða 4,4%. Jafnframt er áætlað að rekstrargjöld hækki um 346 m.kr. Þar af eru 309 m.kr. vegna vörunotkunar, 15 m.kr. vegna aukinna greiðslna í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og 22 m.kr. vegna nýrra áfengisútsala, í Mosfellsbæ, á Dalvík, á Þórshöfn og í Grindavík. Þá eykst fjárfesting um 20 m.kr. vegna nýrra verslana og endurnýjunar á tölvukerfi. Gert er ráð fyrir að greiðslur fyrirtækisins í ríkissjóð aukist um 82 m.kr. frá fjárlagafrumvarpi og verði 2.908 m.kr. Þar af eru 2.647 m.kr. magnálagning en afgangurinn, 261 m.kr., er arður af eigin fé.

31 Iðnaðarráðuneyti

321    Rafmagnsveitur ríkisins. Í endurskoðaðri áætlun um rekstur Rafmagnsveitna ríkisins er miðað við að ríkissjóður dragi úr samningsbundinni 194 m.kr. arðkröfu á árinu 1999 um 44 m.kr. til þess að auka rannsóknar- og þróunarstarf hjá fyrirtækinu, m.a. jarðhita­leit á köldum svæðum. Samkvæmt þessu verður arðgreiðsla til ríkissjóðs 150 m.kr. og greiðir ríkissjóður fyrirtækinu sömu fjárhæð til baka. Þar af verður 139 m.kr. ráðstafað til styrkingar dreifikerfis í sveitum og 11 m.kr. til rannsóknar- og þróunarverkefna.

SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR VIÐ SUNDURLIÐUN 4 (C-HLUTA)

    C-hlutaáætlanir hafa verið endurmetnar frá því að frumvarp til fjárlaga var lagt fram í október. Í endurskoðuðum áætlunum hefur verið tekið tillit til ýmissa leiðréttinga á fyrri áætlunum, áhrifa af ráðstöfunum í A-hluta fjárlaga, breytinga á lántökum og nýrra upplýs­inga um fyrirhugaða starfsemi fyrirtækja og sjóða. Í framhaldi af því gerir meiri hluti fjár­laganefndar tillögu um breyingar á sex áætlunum í C-hluta.

41 Forsætisráðuneyti

221    Byggðastofnun.Framlag til Byggðastofnunar hækkar um 300 m.kr. í þeim tilgangi að gera henni kleift að taka þátt í stofnun eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni og leggja þannig fé til nýsköpunar í atvinnulífinu. Í reglugerð um Byggðastofnun verður kveðið á um að þátttaka Byggðastofnunar nemi mest 40% af hlutafé í viðkomandi félagi.

42 Menntamálaráðuneyti

872    Lánasjóður íslenskra námsmanna. Áætlun Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur verið endurskoðuð. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun verða fjármagnsgjöld 1.930 m.kr. sem er 170 m.kr. minna en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Jafnframt er áætlað að afborganir af löngum lánum verði um 2.200 m.kr. sem er 200 m.kr. lækkun frá fyrri áætlun. Þetta leiðir til þess að fyrirhugaðar lántökur minnka um 400 m.kr. og verða þá 3.100 m.kr. á árinu 1999. Önnur rekstrargjöld sjóðsins hækka um 17 m.kr. og verða 232 m.kr. Breyting skýrist í fyrsta lagi af 21 m.kr. auknum kostnaði við rekstur skrifstofu og málskotsnefnd sem er áætlaður alls 159 m.kr. á næsta ári. Í öðru lagi er gert ráð fyrir 8 m.kr. minni útgjöldum vegna vaxtastyrks sem er áætlað að nemi samtals 50 m.kr. og að lokum er 4 m.kr. hækkun á ríkisábyrgðargjaldi sem talið er nema 23 m.kr. á næsta ári. Þá er áætlað fyrir 7 m.kr. til viðbótar við þær 16 m.kr. sem eru fyrir til fjárfestingar í tölvukerfi. Framangreindar breytingar hafa ekki áhrif á framlag ríkisins sem er 57,6% af áætluðum útlánum sjóðsins eða 1.810 m.kr. á árinu 1999.

44 Landbúnaðarráðuneyti

823    Lánasjóður landbúnaðarins. Í áætlun um rekstur Lánasjóðs landbúnaðarins í fjárlagafrumvarpi eru aðrar rekstrartekjur taldar nema 157 m.kr. Hið rétta er að sjóðurinn verð­ur á árinu 1999 fjármagnaður með 147 m.kr. framlagi til rekstrar úr ríkissjóði auk þess sem áætlað er að hann afli sjálfur 10 m.kr. tekna. Áætlun um sjóðinn er leiðrétt til sam­ræmis við þetta.

47 Félagsmálaráðuneyti

201    Íbúðalánasjóður, húsbréfadeild. Samkvæmt nýjum upplýsingum frá sjóðnum verða húsbréfalán 700 m.kr. meiri en gert var ráð fyrir í áætlun fyrir húsbréfadeild Íbúðalána­sjóðs í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1999. Nýjum lánveitingum verður mætt með því að gefa út húsbréf.
221    Íbúðalánasjóður, viðbótarlán. Veitt lán aukast um 220 m.kr. frá áætlun fjárlagafrumvarps í ljósi nýrra upplýsinga frá sveitarfélögum um að veita þurfi lán vegna 927 íbúða sem er fjölgun um 147 íbúðir frá fyrri áætlun. Áformað er að lánveitingar verði fjár­magnaðar með sölu húsnæðisbréfa. Þá er áætlað að fjármunatekjur og fjármagnsgjöld aukist um 10 m.kr. vegna aukinna lánveitinga og er gert ráð fyrir að útlánsvextir ráðist af þeim vöxtum sem standa sjóðnum til boða.
215    Íbúðalánasjóður, byggingarsjóðir ríkisins og verkamanna. Samkvæmt endurskoðuðum áætlunum sjóðsins verða afborganir af veittum lánum 250 m.kr. meiri en áætlað var í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1999. Áætlað er að afborganir af teknum lánum hækki um sömu fjárhæð og hefur breytingin því ekki áhrif á greiðslustöðu sjóðsins.

SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR VIÐ 5. GR.

     1.      Lántökuheimild ríkissjóðs lækkar úr 11.600 m.kr. í 2.000 m.kr. í kjölfar endurmats á lánahreyfingum ríkissjóðs og vegna góðrar sjóðstöðu í árslok 1998. Einkum er þrennt sem skýrir bætta stöðu í árslok 1998. Í fyrsta lagi hefur ríkissjóður ekki greitt eins mikið niður af erlendum skammtímalánum á síðustu mánuðum og ráðgert var vegna áhrifa á gjaldeyrisstöðu. Í öðru lagi greiddi Landsvirkjun upp lán frá ríkissjóði fyrir gjalddaga að upphæð 3,5 milljarðar kr. í október. Loks hefur handbært fé frá rekstri verið nokkru meira en en áætlanir gerðu ráð fyrir á síðustu mánuðum ársins. Styrk staða ríkissjóðs í árslok gerir þannig kleift að ganga á sjóði á næsta ári auk þess sem tekjuafgangur hefur aukist frá fjárlagafrumvarpi og minnka því langtímalántökur á næsta ári.
     2.      Lögð er til ein breyting á 2. tölul., þ.e. að lántökuheimild Lánasjóðs íslenskra námsmanna lækki um 400 m.kr. og verði 3.100 m.kr. í stað 3.500 m.kr. Lækkunin stafar af minni fjármagnsgjöldum og minni afborgunum sjóðsins af langtímalánum en áætlað var í frumvarpi til fjárlaga.
     3.      Lagðar eru til þrjár breytingar á 3. tölul.:
                  a.      Lagt er til að lántökuheimild Íbúðalánasjóðs, húsbréfadeildar hækki um 700 m.kr. og verði 23.320 m.kr. Samkvæmt endurskoðuðum áætlunum sjóðsins er gert ráð fyrir að útgáfa húsbréfa verði 700 m.kr. meiri en samkvæmt fjárlagafrumvarpi.
                  b.      Lagt er til að viðbótarlán Íbúðalánasjóðs verði 1.140 m.kr. eða 220 m.kr. hærri en áætlað var. Er endurskoðuð áætlun byggð á upplýsingum frá sveitarfélögunum um fjölda lána. Er nú gert ráð fyrir að lán verði veitt til 927 íbúða eða 147 íbúðum fleiri en í fyrri áætlun.
                  c.      Lagt er til að við bætist nýr liður með heimild til handa Hitaveitu Suðurnesja til að taka allt að 1.000 m.kr. að láni árið 1999. Er lántakan fyrst og fremst ætluð til að fjármagna endurbyggingu elsta hluta orkuversins. Nauðsynlegt er talið að ríkissjóður veiti heimild til lántökunnar þar sem ríkið á 20% eignarhlut í sameignarfélaginu og ber ábyrgð í samræmi við það.

            

Alþingi, 18. des. 1998.            

Jón Kristjánsson,


            

form., frsm.


            

Sturla Böðvarsson.


            

Arnbjörg Sveinsdóttir.Árni Johnsen.


Árni M. Mathiesen.


Hjálmar Jónsson.Ísólfur Gylfi Pálmason.


Kristinn H. Gunnarsson.
Fylgiskjal.


Álit

um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1999, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, hefur nefndin fjall­að um 1. gr. fjárlagafrumvarpsins, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs. Nefndin fékk á sinn fund Bolla Þór Bollason og Pál Kolbeins frá fjármálaráðu­neyti og Friðrik Þór Baldursson og Björn R. Guðmundsson frá Þjóðhagsstofnun til að skýra málið frekar.
    Þær skattabreytingar sem mestu varða um tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 1999 koma fram í breytingum á lögum um tryggingagjald og ákvæðum laga um skattafslátt vegna hlutabréfa­kaupa.
    Tvenns konar breytingar verða á tryggingagjaldi frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlaga­frumvarpi. Annars vegar er horfið frá lækkun atvinnutryggingagjalds um 0,15% sem gert var ráð fyrir í áætlun fjárlagafrumvarps og ákveðið að verja tekjuaukanum, um 450 m.kr., til þess að styrkja fjárhag Atvinnuleysistryggingasjóðs. Hins vegar er gert ráð fyrir að tekjur af almenna gjaldinu lækki vegna þeirrar ákvörðunar að heimila atvinnurekendum að draga allt að 0,2% mótframlag til sérstaks lífeyrissparnaðar einstaklinga frá skilum af trygginga­gjaldi. Miðað er við að kostnaður vegna þessa nemi um 300 m.kr. Samanlagt er því áætlað að tekjur af tryggingagjaldi hækki um nálægt 150 m.kr. við þessar breytingar frá fjárlaga­frumvarpi.
    Með breytingum á ákvæðum laga um skattafslátt vegna hlutabréfakaupa er lagt til að heimila allt að 60% frádrátt frá tekjum næstu fimm ár í stað þess að afnema hann í áföngum á næstu tveimur árum. Þessi breyting er talin geta lækkað skatttekjur ríkissjóðs um nálægt 400 m.kr.
    Aðrar skattabreytingar hafa ekki umtalsverð áhrif á tekjuhlið fjárlaga, þegar á heildina er litið. Breytingar á lögum um bifreiðagjald leiða til lítils háttar tekjuauka, en þessi breyting tengist þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um vörugjald af ökutækjum síðastliðið vor og fólu í sér hliðstæða lækkun. Áhrif breytinga á ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt, um jöfnunarhlutabréf og samsköttun móður- og dótturfélaga, á tekjur ríkissjóðs eru vandmet­in. Hér hins vegar gengið út frá því að tekjuáhrifin séu í heild óveruleg.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1999 voru heildartekjur ríkissjóðs árið 1999 áætlaðar 181,1 milljarður króna (á rekstrargrunni). Innheimtutölur það sem af er þessu ári gefa ekki tilefni til að breyta grunni þessarar áætlunar í veigamiklum atriðum. Endurmat Þjóðhagsstofnunar á efnahagshorfum næsta árs leiðir hins vegar til nokkurrar hækkunar á tekju- og veltuskött­um. Auk þess gefur álagning tekjuskatta á fyrirtæki árið 1998 (en hún lá ekki fyrir þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram fyrr í haust) tilefni til þess að hækka fyrri áætlun. Loks hafa áform um eignasölu ríkisins verið endurskoðuð, meðal annars í ljósi reynslunnar það sem af er árinu. Að öllu samanlögðu er nú talið að tekjur ríkissjóðs á árinu 1999 geti numið rúmlega 3.700 m.kr. umfram það sem áætlun fjárlagafrumvarpsins gerði ráð fyrir. Breytingin á sjóð­streymi er heldur minni, eða um 3.600 m.kr. Um það bil helming þessarar aukningar, um 1.800 m.kr., má rekja til meiri hagvaxtar og aukinna umsvifa í efnahagslífinu en áður var spáð.
    Ágúst Einarsson, Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson skrifa undir álitið með fyrirvara og munu gera nánari grein fyrir afstöðu sinni við 3. umræðu fjárlagafrumvarpsins.

Alþingi 18. des. 1998.Vilhjálmur Egilsson, form.


Gunnlaugur M. Sigmundsson.


Ágúst Einarsson, með fyrirvara.


Steingrímur J. Sigfússon, með fyrirvara
Svavar Gestsson, með fyrirvara.

Einar Oddur Kristjánsson.

Valgerður Sverrisdóttir.


Sólveig Pétursdóttir.


Pétur H. Blöndal.