Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 567  —  1. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til fjárlaga fyrir árið 1999.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.Tekjugreinin og efnahagsforsendur.
    Endurskoðuð tekjuáætlun ríkissjóðs gerir ráð fyrir að tekjurnar verði 3.708 millj. kr. hærri en í fjárlagafrumvarpinu vegna endurskoðaðra forsendna. Þar af nemur aukning skatttekna um 1.828 millj. kr. og sala eigna er talin skila 1.300 millj. kr. viðbótartekjum miðað við áætlun 1. október sl. Þá er reiknað með að tekjur af virðisaukaskatti muni verða um 400 millj. kr. umfram það sem áætlað var í fjárlagafrumvarpinu. Til viðbótar þessu eru nokkrir smærri tekjuliðir.
    Framangreindur tekjuauki nægir til að fjárlög sýni tekjuafgang sem nemur um 2,5 millj­örðum kr. Fyrir 2. umræðu fjárlaga var rætt um að þjóðhagsspá fjárlagafrumvarpsins yrði ekki breytt fyrir þá þriðju. Nú hefur spáin hins vegar verið endurskoðuð eins og áður segir og gerir hún m.a. ráð fyrir meiri einkaneyslu og minni samdrætti í fjárfestingu á árinu 1999 en sú fyrri. Þá er aukning í innflutningi nú talin verða tæpt 1% á næsta ári, en í fyrri spá var gert ráð fyrir óbreyttum innflutningi milli ára.
    Tillögur um hækkun útgjalda eru í sögulegu hámarki og nema um 3,5 milljörðum kr. Við 2. umræðu fjárlaga 1999 lágu fyrir tillögur um hækkun útgjalda að fjárhæð um 1.748 millj. kr. Með tillögum meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar milli umræðna hafa bæst við ríflega 1.397,9 millj. kr. Í raun nemur þó hækkunin tæpum 1.700 millj. kr. þar sem 300 millj. kr. vaxtagjöld eru dregin frá. Samtals eru þetta því tillögur til aukningar gjalda upp á um 3,5 milljarða kr. eins og áður segir. Það mun vera staðreynd að aldrei áður hafi útgjaldahlið fjár­lagafrumvarps hækkað svo mikið í meðförum nefndar svo að hér er um sögulegan atburð að ræða!
    Minni hlutinn telur að í þjóðhagsáætluninni felist vanmat á innflutningi og fjárfestingu. Í því sambandi má nefna að innflutningur er talinn munu aukast um einungis 0,9% á árinu 1999 samanborið við 23,3% vöxt á yfirstandandi ári samkvæmt síðustu áætlun. Talið er að fjárfesting dragist saman um 5% samanborið við 23% vöxt í ár. Þessir þættir geta haft tals­verð áhrif á tekjuhliðina, einkum þó síðari þátturinn í tengslum við tekjur af vörugjöldum. Þá telur minni hlutinn að með tilliti til þróunar síðustu mánaða séu tekjur af virðisaukaskatti ofáætlaðar um allt að 2 milljarða kr. á þessu ári. Fyrir þessari ofáætlun virðist hins vegar vera áætlað í tekjugrunni virðisaukaskattsins samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Þrátt fyrir ábendingar minni hlutans var á hinn bóginn ekki gerð samsvarandi leiðrétting í fjárauka­lögum fyrir árið 1998.
    Þrátt fyrir að áætlaðar tekjur af sölu eigna séu nú taldar verða um 1.300 millj. kr. hærri en samkvæmt frumvarpinu kann þessi tekjuliður enn að vera verulega rangt áætlaður. Þannig má benda á að ef til kemur að seldur verði um 33% hlutur í Landsbanka og Búnaðarbanka gæti sú sala gefið í kringum 3 milljarða kr. í viðbótartekjur á næsta ári að því gefnu að ríkisstjórnin selji hlutabréf ríkissjóðs á markaðsverði.
    Tekjur ríkissjóðs hafa aldrei verið áætlaðar hærri, en þær nema 184,8 milljörðum kr. sem er hækkun um 9% milli ára. Staðan er hins vegar þannig að útlit er fyrir tap af reglulegri starfsemi ríkissjóðs ef eignasalan er tekin frá. Minni hlutinn telur að flestar þær breytingar sem tillögur hafa verið gerðar um til hækkunar tekna hafi í rauninni legið fyrir við framlagn­ingu frumvarpsins.
    Minni hlutinn bendir á mikilvægi þess að áætlanir um kaupmátt og þróun einkaneyslu séu byggðar á traustum forsendum, en þessir þættir eru ráðandi um tekjur af sköttum einstak­linga, virðisaukaskatti o.fl. Spár um þessa þætti hafa verið ótrúlega fjarri lagi á síðustu árum.

Þróunin 1998.
    Ljóst er að þjóðhagsforsendur fjárlaga ársins 1998 hafa reynst fjarri lagi. Ef að líkum læt­ur mun einkaneysla aukast um 7 prósentustig umfram þjóðhagsforsendurnar, fjárfesting um tæp 22 prósentustig og innflutningur um rúm 17 prósentustig. Þá er nú spáð að ráðstöfunar­tekjur heimilanna aukist um tæp 4 prósentustig umfram það sem gert var ráð fyrir í þjóðhags­áætlun.
    Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1998 voru tekjur ríkissjóðs áætlaðar um 165,8 milljarðar kr. á rekstrargrunni. Samkvæmt fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 1998 er gert ráð fyrir að tekjurnar aukist um 9,1 milljarð kr. frá áætlun fjárlaga eða sem nemur 5,5%.
    Þrátt fyrir að nú stefni í að tekjur ríkissjóðs á þessu ári verði verulega umfram það sem fjárlög áætluðu hefur ríkisstjórninni ekki tekist að skila ríkissjóði með afgangi. Þannig telur minni hlutinn að miðað við þær forsendur sem nú liggja fyrir verði rekstrarhalli á ríkissjóði á árinu 1998 að fjárhæð 9–10 milljarðar kr. Þennan halla má að stærstum hluta rekja til rekstrarvanda stóru sjúkrahúsanna sem ekki var að fullu leystur í fjáraukalögum, aukinna launaútgjalda, vanmats á lífeyrisskuldbindingum og ofmats á virðisaukaskatti eins og áður hefur verið getið.

Ríkisfjármál og hagstjórn.
    
Þrátt fyrir góðærið í þjóðarbúskapnum og stórauknar tekjur samfara því hefur ríkisstjórnin ekki náð tökum á hallarekstri ríkissjóðs. Fyrirliggjandi fjárlagatillögur fyrir næsta ár í aðdraganda kosninga gefa alls ekki vonir um að grundvallarbreytingar verði þar á.
    Minni hlutinn telur að við núverandi aðstæður í efnahagslífinu sé brýnt að styrkja tekju­grundvöll ríkissjóðs og ná þannig fram tveimur markmiðum samtímis, þ.e. að draga úr halla­rekstri ríkissjóðs og minnka viðskiptahallann við útlönd. Ef heldur fram sem horfir gæti reynst óhjákvæmilegt að grípa til gengisfellingar krónunnar til að létta á þeim þrýstingi sem þrálátur viðskiptahalli setur á gengið. Þjóðin þekkir af eigin reynslu afleiðingar slíkrar hand­aflsaðgerðar á verðbólgu, kaupmátt og samkeppnishæfi innlendra iðngreina.
    Tekjugrundvöll ríkissjóðs má styrkja með virkara skatteftirliti og sérstökum aðgerðum gegn skattsvikum. Þá bendir minni hlutinn á að í góðæri er eðlilegt að sækja aukið fé til sam­eiginlegra þarfa til atvinnurekstrar með auknum sköttum og ekki síst með breyttum laga­ákvæðum um frádrátt einstakra útgjalda frá tekjum. Þegar verr áraði fyrir nokkrum árum var sköttum létt af fyrirtækjum og skattbyrðin flutt yfir á almenning. Nú sýnist rétti tíminn til að snúa þeirri þróun við aftur. Í framhaldsnefndaráliti minni hlutans um fjárlagafrumvarp fyrir árið 1998 var í þessu sambandi sérstaklega bent á mögulega hækkun tryggingagjalds og tekjuskatts á fyrirtæki. Þá liggur fyrir að ónotuð yfirfæranleg rekstrartöp fyrirtækja skipta milljarðatugum og verður ríkissjóður af verulegum skatttekjum vegna þessa við þær að­stæður sem nú ríkja í þjóðarbúskapnum. Möguleg leið í því sambandi gæti falist í því að setja þrengri tímamörk en nú gilda um nýtingu yfirfæranlegs rekstrartaps. Staða atvinnu­rekstrar sem var slæm á árabilinu frá 1990 til 1995 er allt önnur nú en þá enda miklum álög­um af honum létt. Nú er staða fyrirtækjanna með ágætum svo sem þarf að vera og því eðlilegt að þau leggi fram fjármuni til sameiginlegra þarfa í formi skatta og með breyttum laga­ákvæðum um frádrátt frá tekjum.
    Minni hlutinn leggur því til að tryggingagjald verði hækkað um 0,5 prósentustig og þannig verði aflað um 1,5 milljarða kr. viðbótartekna. Enn fremur er ekki ósanngjarnt að leggja til að skatthlutfall fyrirtækja hækki í áföngum í 39%. Á næsta ári gætu komið til framkvæmda 2,5% af framangreindri hækkun. Það mundi hafa í för með sér um 500 millj. kr. viðbótar­tekjur í ríkissjóð. Á heildina tekið mundu framangreindar tillögur því skila um 2 milljörðum kr.
    Ástæða er til að ítreka fyrri ábendingar um að heimildir til notkunar rekstrartapa eru afar rúmar og þurfa endurskoðunar við. Benda má á að eftir gífurlegan gróða bankanna síðast­liðin ár hafa þeir getað nýtt sér þessar rúmu heimildir sínar til frádráttar vegna uppsafnaðra tapa.
    Minni hlutinn telur ástæðu til að skattar verði lagðir á vegna sérstaks söluhagnaðs afla­heimilda þegar verið er að færa fjármagn út úr atvinnugreininni. Minni hlutinn telur einnig ríka ástæðu til að kanna hversu mikið fjármagn hefur verið flutt úr landi til varðveislu í bönkum í öðrum löndum, en mikil umræða er í þjóðfélaginu um slíka flutninga á fjármunum.
    Minni hlutinn bendir á að þegar vel árar er brýnt að nota tækifærið til að byggja upp til að geta mætt þeim tíma þegar halla tekur undan fæti. Ætla má að samdráttarskeið geti verið fram undan þrátt fyrir tímabundið hátt fiskverð. Fiskbirgðir eru að safnast upp í Evrópu og Asíu og útflutningur á Bandaríkjamarkað hefur staðið í stað. Því eru blikur fram undan sem taka verður tillit til. Útgjöld ríkisins hafa vaxið í réttu hlutfalli eða því sem næst við tekju­aukningu undanfarinna ára. Það mun reynast örðugt að draga úr útgjöldum þegar þrengra verður í búi. Eina skynsamlega leiðin er sú að auka tekjur til þess að greiða niður skuldir, ekki síst á þeim tímum þegar hagvöxtur er með þeim hætti sem hér hefur ríkt og verður að líkindum næsta ár.

Lántökur, ríkisábyrgðir og endurlán.
    Samkvæmt 5. gr. frumvarps til fjárlaga ársins 1999 var gert ráð fyrir lántökum að upphæð 11,6 milljarðar kr., en sú upphæð er lækkuð í 2 milljarða kr. nú við 3. umræðu. Ástæða þessarar breyttu stöðu er að frestað hefur verið greiðslum erlendra skulda og þess vegna mun nú vera fyrir hendi um 6 milljarða kr. inneign ríkissjóðs í Seðlabankanum. Einnig má vísa til endurgreiðslu skulda Landsvirkjunar til ríkissjóðs að upphæð 3,5 milljarðar kr. Þá er gert ráð fyrir 2.825 milljarða kr. viðbótarframlagi úr ríkissjóði sem er áætlað að endurlána þannig að alls er um að ræða 4.825 milljarða kr. lánafyrirgreiðslu til einstakra stofnana á vegum ríkisins.
    Stofnunum og sjóðum á vegum ríkisins eru auk þess heimilaðar lántökur að upphæð 47,6 milljarðar kr. þannig að samtals eru heimilaðar lántökur sem nema 59,2 milljörðum kr. Ástæða hefði verið til að beita öflugu aðhaldi varðandi þessar lántökur og tengja þær heim­ildir sölu eigna ríkisins. Áætlun um sölu eigna á árinu 1998 var 7 milljarðar kr. Sú áætlun gekk ekki eftir, heldur nam sala eigna 5 milljörðum kr. á þessu ári. Ítrekuð er sú skoðun að sala eigna eigi að ganga beint til greiðslu skulda. Hins vegar er ljóst að ef hagnaður af sölu eigna er nýttur þannig en ekki varið til gjalda í A-hluta verður sýnilegur halli á ríkissjóði á næsta ári.

Tillaga til þingsályktunar um byggðamál.
    Þrátt fyrir gagnrýni minni hlutans á ýmsa þætti ríkisfjármálanna er almennur stuðningur við þau áform sem felast í tillögum um aðgerðir í byggðamálum sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi. Nauðsynlegt er að spyrna við fótum gegn þeirri þróun sem verið hefur í fólksflutn­ingum af landsbyggðinni til þéttbýlissvæða. Margvíslegar ástæður hafa leitt til ríkjandi ástands. Þar má fyrst nefna ótrúlegt andvaraleysi ríkisstjórnar gagnvart afleiðingum af stjórnunarkerfi fiskveiða, þ.e. stórfelldri tilfærslu veiðiheimilda frá einum landshluta til annars. Þessi þróun hefur haft það í för með sér að byggðir hafa bókstaflega hrunið í efna­hagslegu tilliti og í kjölfar þess hefur orðið félagslegt hrun ásamt tilheyrandi lakara þjón­ustustigi. Þá er skortur á kennurum, læknum og hjúkrunarfólki orðinn mikið vandamál víða á landsbyggðinni. Þessu til viðbótar, og líklega veigamesti þátturinn, er mikill kostnaður við orkukaup heimilanna, en samkvæmt rannsóknum er hann ein helsta ástæða byggðaröskunar. Minni hlutinn styður tillögu um 300 millj. kr. til þátttöku í stofnun eignarhaldsfélaga á lands­byggðinni sem fyrir liggur.

Áfangi í átt til réttlætis.
    Minni hlutinn hefur lagt fram nákvæm gögn um mismunun gagnvart þeim sem búa við lök kjör aldraðra, öryrkja og fatlaðra, bæði einstaklingum og hjónum. Eftir ítrekaðar sanngirnis­kröfur um leiðréttingar hafa þeir loks öðlast nokkurn skilning sem fram kemur í lítils háttar hækkun bóta og frítekjumarks á næsta ári. Þó vantar verulega á að mætt sé þeirri sanngirnis­kröfu að þeir sem búa við þessi kjör fái þær hækkanir sem þeim ber með tilliti til vísitölu meðaltalslauna, hvað þá ef miðað er við umsamin lægstu laun.
    Hækkun grunnlífeyris um 0,35% til þeirra sem hér um ræðir er til skammar og er langt frá því að nægja til að jafna þann mismun sem er á grunnlífeyri þessara hópa miðað við meðal­talslaunavísitölu. Þegar ríkisstjórn vísar til heimilisuppbóta og sérstakra heimilisuppbóta gleymist hversu örðugt aðgengi er að upplýsingum til viðkomandi aðila þar að lútandi. Margir vita ekki um rétt sinn til þessara greiðslna og þær fást ekki nema með ærinni fyrirhöfn. Hafa margir einfaldlega guggnað á því að ná rétti sínum til slíkra greiðslna. Minni hlutinn telur að til að rétta hlut þessa fólks verði að taka upp tryggingakerfið frá grunni. Öll frávik þarf að rannsaka nákvæmlega ef um sérstakar aðstæður er að ræða, þ.e. kostnað umfram eðlilega viðmiðun.

Tillögur minni hlutans.
    Áður hefur verið gerð grein fyrir tillögum minni hlutans við þessa umræðu um hækkun tryggingagjalds og skatta á lögaðila. Þá leggur minni hlutinn fram tillögur um sérstakar greiðslur til hækkunar grunnlífeyris aldraðra, öryrkja og fatlaðra um 476 millj. kr. vegna mismunar á meðaltalsvísitölu launa og þess sem hefur verið greitt til þeirra. Með tillögum meiri hlutans er ljóst að aðeins er mætt hluta þessara krafna eða sem nemur 75 millj. kr. Því gerir minni hlutinn tillögu um að 401 millj. kr. verði varið til hækkunar grunnlífeyris til þessara aðila. Það er algjör óhæfa að ríkisstjórnin skuli ekki fara eftir þeim viðmiðunar­mörkum sem hún hefur sjálf sett. Minni hlutinn bendir á að vegna atvinnuaukningar virðast ætla að sparast 230 millj. kr. í atvinnuleysisbótum og minni hlutinn hefur þar að auki lagt til og bent á tekjuauka sem verja má hluta af til að rétta af þá ósanngirni sem hér á sér stað. Að auki gerir minni hluti fjárlaganefndar tillögu um að 14 millj. kr. verði varið til að útrýma biðlistum heyrnarskertra sem nú sitja heima í einangrun og einmanaleika vegna miskunnar­leysis ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sem gumar af „sólskinsfjárlögum“ í „góðæri aldarinnar“.

Alþingi, 18. des. 1998.Gísli S. Einarsson,


frsm.


Kristín Halldórsdóttir.


Sigríður Jóhannesdóttir.