Ferill 314. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 575  —  314. mál.
Svarsjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um fiskveiðistjórnarkerfi og stöðu fiskstofna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver hefur verið þróunin í stofnstærð helstu nytjastofna hér við land frá því að kerfi framseljanlegra aflaheimilda var tekið upp?
     2.      Verður staða þessara fiskstofna rakin til fiskveiðistjórnarkerfisins og hefur það náð því meginmarkmiði að byggja upp fiskstofna í hagkvæma stærð?


Þorskur.
    Árið 1983 var veiðistofn þorsks 795 þús. tonn og hafði ekki mælst eins lítill áður. Er stóru árgangarnir frá 1983 og 1984 komu í veiðistofninn á árunum 1987–89 stækkaði stofninn og var 1055 þús. tonn árið 1988. Mikil sókn ásamt lélegri nýliðun átti mestan þátt í því að stofn­inn komst í sögulegt lágmark, aðeins 548 þús. tonn, árið 1992. Í framhaldinu voru friðunarað­gerðir hertar og 25% aflareglunni komið á árið 1995. Þrátt fyrir laka nýliðun mestallan tíunda áratuginn hefur tekist að rétta stofninn smám saman við og er gert ráð fyrir að veiðistofn verði um 1030 þús. tonn í ársbyrjun 1999. Nýliðun 1997 og 1998 hefur verið ágæt og því er reiknað með góðum vexti í stofninum á næstu árum.

Ýsa.
    Árið 1983 var ýsustofninn metinn 155 þús. tonn en hann minnkaði á næstu árum og var orðinn 138 þús. tonn árið 1986. Stofninn óx á ný þegar stóri árgangurinn frá 1983 kom í veiðarnar og stækkað veiðistofninn í 254 þús. árið 1989. Stofninn minnkaði síðan aftur í 162 þús. tonn árið 1992. Þegar 1990 árgangurinn bættist í veiðistofninn stækkaði hann í 204 þús. tonn árið 1994. Þar eð þessa árgangs gætir ekki lengur í veiðunum hefur stofninn minnkað á ný og er áætlað að hann verði um 155 þús. tonn í ársbyrjun 1999. Þess skal getið hér að ný­liðun í ýsustofninum er mjög sveiflukennd þannig að sumir árgangar geta verið afar rýrir, en einstaka sinnum eru þeir mjög stórir og hafa þá veruleg áhrif á þróun stofnstærðar meðan þeirra gætir í stofninum.

Ufsi.
    Árið 1983 var veiðistofn ufsa metinn 256 þús. tonn. Næstu ár stækkað stofninn þegar stóru árgangarnir frá 1983 og 1984 komu til sögunnar og komst stofninn í 442 þús. tonn árið 1988. Síðan fór stofninn hratt minnkandi, að hluta vegna veiðiálags en fyrst og fremst vegna lélegr­ar nýliðunar og var veiðistofninn kominn í sögulegt lágmark, tæp 140 þús. tonn, árið 1996.


Prentað upp.

Þar sem ekki eru til neinar haldbærar mælingar á nýliðun í ufsastofninn hefur verið stuðst við meðalnýliðun einhvers tiltekins árabils þegar gerðar hafa verið tillögur um aflamark á þessa tegund. Á síðari árum hafa þessi meðaltöl reynst of há, þróun stofnstærðar því verið ofmetin og þar af leiðandi hefur ekki náðst að veiða upp í aflaheimildir.

Gullkarfi/djúpkarfi.
    Mat á stærð gullkarfastofnsins byggist á vísitölum úr stofnmælingu botnfiska á Íslands­miðum, sem ná aftur til ársins 1985. Stofninn fór vaxandi fram til ársins 1987 en vegna vax­andi sóknar minnkaði stofninn stöðugt næstu árin og komst í lágmark 1995. Betri nýliðun, ásamt meiri takmörkunum á afla frá 1996, hefur leitt til þess að stofninn er nú aftur í vexti. Hvað djúpkarfa snertir er þróunin áþekk en afli á togtíma í djúpkarfaveiðunum sýnir að stofn­inn minnkaði talsvert frá 1988 til 1996. Á þessum árum féll afli á sóknareiningu á botnvörpu um meira en helming. Afli á sóknareiningu 1997 hefur aukist lítillega, en enn þá er ástand stofnsins slæmt. Þrátt fyrir aflamarkskerfið hefur heildarafli karfategundanna beggja á hverju ári farið fram úr tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, og á það sinn þátt í því hvernig þessir stofnar hafa þróast á umræddu tímabili. Karfastofnar eru sameiginlegir stofnar sem finnast í lögsögu Grænlands og Færeyja auk Íslands. Ekki hefur náðst samkomulag um heild­arstjórnun á þessum stofnum.

Grálúða.
    Veiðistofn grálúðu var 210 þús. tonn árið 1983. Stofninn stækkaði næstu ár og varð stærst­ur 277 þús. tonn árið 1987. Síðan hefur veiðistofninn verið á niðurleið og var kominn í 109 þús. tonn 1998, sem er sögulegt lágmark. Ástæður fyrir þessum mikla samdrætti má rekja til mikillar sóknar í grálúðu, en veiðar úr stofninum hafa árlega farið langt fram úr ráðgjöf. Stofninn er sameiginlegur við Grænland, Ísland og Færeyjar, og ekki hefur tekist samkomu­lag um stjórn veiðanna úr honum.

Skarkoli.
    Vísitölur úr stofnmælingu botnfiska fyrir árin 1985–98 benda til þess að veiðistofn skar­kola hafi minnkað verulega á tímabilinu. Skarkoli var í aflamarkskerfinu árin 1984–85. Árið 1985 fór aflinn hátt í 15 þús. tonn, sem er mesti skarkolaafli á Íslandsmiðum frá upphafi. Veiðar á skarkola voru ekki takmarkaðar aftur fyrr en hann var tekinn í aflamarkskerfið á ný árið 1991. Heildaraflamark var þó alltaf sett hærra en tillögur Hafrannsóknastofnunar fram til fiskveiðiársins 1997/1998.

Steinbítur.
    Vísitölur veiðistofns steinbíts í stofnmælingu botnfisk árin 1985–98 sýna að með aukinni sókn fór stofninn minnkandi fram til 1995. Steinbítur var utan aflamarkskerfisins á árunum 1986–96 og jókst aflinn þá úr 10 þús. tonnum 1985 upp í 18 þús. tonn árið 1991, sem er mesti steinbítsafli frá 1963. Aflinn var kominn í 13 þús. tonn árin 1993–95. Frá 1996 hefur stofninn verið í vexti.

Síld.
    Stofnstærð íslensku sumargotssíldarinnar hefur verið mæld með bergmálsaðferðinni frá 1973. Stofninn hefur farið stöðugt vaxandi, enda nýttur nálægt kjörsókn og var hrygningarstofninn kominn í sögulegt hámark, 555 þús. tonn, árið 1994. Hrygningarstofninn er áætlaður um 485 þús. tonn árið 1998.

Loðna.
    Loðnan er skammlífur fiskur og stærð stofnsins byggist á mjög fáum árgöngum, þannig að afraksturinn er mjög háður nýliðun. Veiðireglan er sú að skilja eftir í lok vertíðar 400 þús. tonn af hrygningarloðnu til viðhalds stofninum. Frá 1983 óx stofn kynþroska loðnu í upphafi vertíðar (1. ágúst) úr 1,1 millj. tonnum í 2,3 millj. tonna árið 1986. Hrygningarstofninn minnkaði svo í kjölfar lélegrar nýliðunar í um 750 þús. tonn árið 1990. Hann hefur svo farið ört vaxandi á ný og mældist 2,2, millj. tonn 1996. Spár gerðar fyrr á þessu ári bentu til að stærð stofnsins væri tæp 2,1 millj. tonn 1. ágúst sl. Í nóvemberleiðangri Hafrannsóknastofn­unarinnar mældist hins vegar mun minna af kynþroska loðnu en spáð hafði verið. Skilyrði á miðunum voru um margt óvenjuleg og því verður farið í annan leiðangur í upphafi nýs árs.

Humar.
    Árið 1983 var veiðistofn humars metinn tæp 16 þús. tonn. Stofninn hefur smám saman far­ið minnkandi og komst í lágmark, rúm 9 þús. tonn, árið 1996. Minnkun stofnsins má m.a. rekja til mjög lélegrar nýliðunar í lok áttunda áratugarins. Veiðistofn í ársbyrjun 1999 er áætl­aður um 10 þús. tonn. Frá 1978 hefur ávallt verið reynt að miða sókn í humarstofninn við kjörsókn. Það hefur gengið eftir í stórum dráttum en stundum hafa aðstæður, t.d. sveiflur í stofnstærð, leitt tímabundið til óvenju mikillar sóknar á tilteknum miðum. Með skiptingu leyfilegs hámarksafla eftir svæðum mæti hugsanlega laga sveiflur í sókn enn frekar að stærð veiðistofns á hverju svæði.

Úthafsrækja.
    Úthafsrækjuveiðar hófust í byrjun 8. áratugarins, en fram til 1983 var úthafsrækjuaflinn aðeins brot af heildarrækjuaflanum. Veruleg aukning varð á árinu 1984 og árið 1986 var afl­inn kominn í 30 þús. tonn. Aflamark var fyrst sett á úthafsrækju árið 1987. Helsti mælikvarð­inn á ástand rækjustofnsins er afli á sóknareiningu í veiðunum. Eftir smálægð á árunum 1989–90 fór afli á sóknareiningu vaxandi næstu ár og náði sögulegu hámarki 1996. Veiði­stofninn hafði stækkað vegna góðrar nýliðunar í stofninn. Afli á sóknareiningu hefur á árinu 1997 og á þessu ári minnkað verulega. Það tengist m.a. aukinni þorskgengd á Norðurmiðum, sérstaklega í ár, sem hefur leitt til aukins afráns þorsks á rækju og enn fremur má ætla að þorskurinn hafi að einhverju leyti tvístrað rækjunni.

Hörpudiskur.
    Á Breiðafirði, þar sem helstu hörpudiskmiðin við landið eru, var stofnvísitalan í sögulegu hámarki árið 1982. Hún hefur smám saman farið minnkandi og er talið að stofninn hafi minnkað um 30–40% á árunum 1983–93. Mjög mikil sókn framan af tímabilinu leiddi til þess að hlutdeild stærri (eldri) skelja í stofninum fór ört minnkandi. Eftir að dregið var út veiðum árið 1994 hefur hlutdeild eldri skelja í stofninum haldist mjög stöðug. Stofninn er nú aftur í vexti bæði vegna sóknartakmarkana og betri nýliðunar.