Ferill 370. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 581 — 370. mál.Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 95/1997, um landmælingar og kortagerð.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar (ÓÖH, ÁMM, KPál, ÍGP, TIO).1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimili Landmælinga Íslands er á Akranesi.


2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

G r e i n a r g e r ð .

    Í júlí 1996 ákvað umhverfisráðherra að flytja starfsemi Landmælinga Íslands frá Reykjavík til Akraness frá og með 1. janúar 1999 og hefur verið unnið að undirbúningi málsins á vegum umhverfisráðuneytisins og stofnunarinnar frá þeim tíma. Er honum nú nær lokið og starfsemi að nokkru hafin í nýju húsnæði.
    Með dómi Hæstaréttar 18. desember 1998 var ákvörðun umhverfisráðherra um að flytja starfsemi Landmælinga Íslands til Akraness dæmd ólögmæt þar sem ráðherra hafi ekki aflað sér lagaheimildar fyrir flutningi stofnunarinnar frá Reykjavík til Akraness. Í dómi Hæstaréttar segir að þótt ekki séu bein fyrirmæli um það í lögum að ríkisstofnun skuli staðsett í Reykjavík verði ekki talið að það eitt gefi ráðherra frjálst val um hvar hún skuli vera. Vöntun á ákvæðum um þetta í lögum megi helst skýra með því að fyrirmæli séu í stjórnarskrá um staðsetningu ráðuneyta. Hafi það verið talið svo sjálfsagt fram á hin síðari ár að stofnanir, sem undir þau heyrðu, hefðu einnig aðsetur í höfuðborginni að ekki þyrfti að taka það fram í lögum.
    Allt er nú til reiðu á Akranesi til að Landmælingar Íslands geti hafið þar starfsemi af fullum krafti. Þar hefur verið leigt húsnæði sem innréttað hefur verið að þörfum stofnunarinnar og einnig hafa verið sett þar upp ný tæki. Þá hefur verið gengið frá ráðningu starfsfólks og gögn hafa verið flutt frá Reykjavík til Akraness. Húsnæði stofnunarinnar í Reykjavík hefur hins vegar verið rýmt að mestu og leigusamningur varðandi það er senn á enda.
    Með hliðsjón af framangreindum dómi Hæstaréttar og stöðu málsins að öðru leyti er nauðsynlegt að afla lagaheimildar þar sem kveðið er á um að aðsetur Landmælinga Íslands skuli vera á Akranesi.
Fylgiskjal.


Bréf meiri hluta allsherjarnefndar.


    Með dómi Hæstaréttar 18. desember 1998 var ákvörðun umhverfisráðherra um að flytja starfsemi Landmælinga Íslands til Akraness dæmd ólögmæt þar sem ráðherra hafði ekki aflað sér lagaheimildar fyrir flutningi stofnunarinnar frá Reykjavík til Akraness. Í dómi Hæstaréttar segir að þó að ekki séu bein fyrirmæli um það í lögum að ríkisstofnun skuli staðsett í Reykja­vík verði ekki talið að það eitt gefi ráðherra frjálst val um það hvar hún skuli vera. Vöntun á ákvæðum um þetta í lögum megi helst skýra með því að fyrirmæli séu í stjórnarskrá um staðsetningu ráðuneyta. Hafi það verið talið svo sjálfsagt fram á hin síðari ár að stofnanir, sem undir þau heyrðu, hefðu einnig aðsetur í höfuðborginni, að ekki þyrfti að taka það fram í lög­um.     
    Í framhaldi af uppkvaðningu dómsins hefur allsherjarnefnd haft til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, er gerir ráð fyrir að ráð­herra verði veitt almenn heimild með lögum til að ákveða aðsetur stofnana sem undir hann heyri. Meiri hluti nefndarinnar telur að dómur Hæstaréttar gefi tilefni til að taka heildstætt á málinu, enda þótt ekki næðist samstaða í allsherjarnefnd um að ráðast í slíkar breytingar með ekki lengri fyrirvara. Þó er ljóst að nú þegar verður að gera sértækar breytingar vegna fyrir­hugaðs flutnings Landmælinga Íslands til Akraness 1. janúar nk. Því beinir meiri hluti alls­herjarnefndar því til umhverfisnefndar að hún beiti sér fyrir breytingum á lögum um landmæl­ingar og kortagerð, nr. 95/1997, er staðfesti þau áform um flutning stofnunarinnar sem boðuð hafa verið.

F.h. meiri hluta allsherjarnefndar,Sólveig Pétursdóttir.