Ferill 365. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 609  —  365. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Þórðarson, Helga Seljan og Garðar Sverrisson frá Öryrkjabandalagi Íslands, Þóri Haraldsson og Jón Sæmund Sigurjóns­son frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og Ragnar Aðalsteinsson hrl.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir tvenns konar breytingum á lögum um almannatryggingar sem ætlað er að styrkja réttarstöðu lífeyrisþega. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir breytingum á forsendum mats við ákvörðun á örorku þannig að mat byggist á læknisfræðilegum staðli og allir sem metnir eru 75% öryrkjar njóti tiltekinna réttinda. Þá er gert ráð fyrir að aukin áhersla verði lögð á endurhæfingu sem forsendu fyrir örorkumati. Í öðru lagi er gert ráð fyrir breyt­ingum á ákvæðum er varða skerðingu lífeyris til elli- og örorkulífeyrisþega vegna tekna, eink­um vegna tekna maka, en með þessum breytingum er leitast við að draga úr skerðingu bóta vegna tekna.
    Meiri hlutinn mælir með að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að 1. gr. sem fjallar um forsendur fyrir ákvörðun örorkulífeyris verði felld brott. Meiri hlutinn telur þá efnisbreytingu sem felst í ákvæðinu vera til bóta og telur eðlilegt að hún komi til efnislegrar umfjöllunar í byrjun næsta árs þegar meira svigrúm gefst.
     2.      Þá er lagt til að 1. málsl. 8. mgr. a-liðar 2. gr. verði felldur brott þar sem í þeim málsgreinum 2. gr. sem fjalla um tekjutryggingu hjóna er kveðið á um að sameiginlegar tekj­ur þeirra séu lagðar til grundvallar við útreikning bóta. Meiri hlutinn telur að í þeim ákvæðum felist skýr lagastoð fyrir þeirri meðferð tekna hjóna sem tíðkast hefur um ára­tuga skeið og að þar með sé komið til móts við álit umboðsmanns Alþingis um þetta efni. Meiri hlutinn leggur jafnframt áherslu á að í þessum breytingum felist engin efnisbreyt­ing heldur skulu tekjur hjóna, sem bæði njóta lífeyris, metnar sameiginlega og ef aðeins annað hjóna nýtur lífeyris skal helmingur samanlagðra tekna þeirra teljast tekjur lífeyris­þegans.
     3.      Loks eru lagðar til breytingar á 3. gr. og ákvæði til bráðabirgða í samræmi við niðurfellingu 1. gr.

Alþingi, 19. des. 1998.



Siv Friðleifsdóttir,


frsm.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Guðmundur Hallvarðsson.



Sólveig Pétursdóttir.


Guðni Ágústsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.