Ferill 387. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 658  —  387. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skipan nefndar til að auka aga í skólum landsins.

Flm.: Hjálmar Árnason, Guðni Ágústsson,


Ólafur Örn Haraldsson.


    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd til að leggja fram tillögur um aukinn aga í skólum landsins.
    Í nefndinni sitji fulltrúar menntamálaráðherra, Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Landssamtakanna heimili og skóli, Íþróttasambands Íslands, Ungmennafélags Íslands, sam­taka framhaldsskólanema, Kennarasambands Íslands, Hins íslenska kennarafélags, Skóla­stjórafélags Íslands, Skólameistarafélags Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Æskulýðssambands Íslands.

Greinargerð.


    Oft er því haldið fram hérlendis að unga fólkið og jafnvel þjóðin öll sé óöguð. Þetta heyr­ist gjarna í kjölfar atburða eins og óláta í miðborginni, eða þegar rædd eru vandamál í sam­skiptum kynslóðanna, niðurstöður af samræmdum prófum og samanburðarrannsóknum við aðrar þjóðir, biðraðamenning o.s.frv. Niðurstaðan er einatt sú að þjóðin sé agalaus. Hins vegar virðist skilgreining fólks á hugtakinu agi vera nokkuð á reiki enda hugtakið vandmeð­farið. Þannig getur verið skammt á milli aga og bælingar ellegar hömluleysis og agaleysis. Fyrir því má þó færa nokkur rök að íslensk ungmenni búi við heldur óagað umhverfi og eigi jafnvel á stundum erfitt með að gera sér grein fyrir því til hvers er ætlast af þeim. Veldur þar margt, m.a. miklar breytingar sem orðið hafa á högum fjölskyldunnar á síðustu árum, þar sem langur vinnutími beggja foreldra utan heimilis veldur því að börn og ungmenni eru skilin eftir á eigin ábyrgð, gjarna í því sem kalla mætti agaleysi. Ýmsir halda því fram að samveru­tími fjölskyldna sé skammur af fyrrgreindum ástæðum og við bætist einangrun einstaklinga innan fjölskyldna við fjölmiðlun, tölvur og aðra nútímatækni.
    Færa má fyrir því rök að skólar og aðrar stofnanir hafi tekið við hluta af uppeldishlutverki heimila og því til viðbótar verji mörg börn drjúgum hluta tómstunda sinna undir takmörkuðu eftirliti á götum úti. Á það hefur verið bent að samband og samstarf heimila, skóla, íþróttafé­laga og ýmissa samtaka, sem starfa í þágu barna, sé mjög takmarkað og skilaboð til barna um hegðan og ábyrgð séu misvísandi og óljós. Þetta er það sem kallað hefur verið óagað um­hverfi og leiðir m.a. til þess að ungmenni eiga örðugt með að þroska með sér sjálfsaga. Skýr­ar leikreglur og agað umhverfi er með öðrum orðum forsenda þess að einstaklingur geti náð að þroska með sér nauðsynlegan sjálfsaga.
    Árangur af skólastarfi ræðst af mörgum þáttum. Vert er að benda á að skólastarf á sér ekki einungis stað innan veggja skólans heldur skipta heimilin þar og miklu máli. Ástæða er til að velta fyrir sér hvort langur vinnutími foreldra á Íslandi kunni ekki að leiða til tiltölu­lega stuttra samvista foreldra og barna með þeim afleiðingum að börn verði rótlaus og óöguð. Þannig má hugsanlega tengja vaxandi ofbeldi, fíkniefnanotkun og skemmdarverk meðal barna og unglinga við það rótleysi sem margir telja að ríki á heimilum. Kann þar margt að valda, svo sem langur vinnutími og vaxandi ofbeldi í fjölmiðlum og kvikmyndum. Draga má í efa að eðlileg samskipti barna og foreldra séu nægileg. Börnum er mikilvægt að alast upp við agað umhverfi en finna jafnframt til kærleika og öryggis. Velta má upp þeirri spurningu hvort það öryggi og agi sé til staðar í þjóðfélaginu almennt og ef ekki, hvaða félagslegar afleiðingar það hefur.
    Þá er rétt að fram fari athugun á því hvort kennsluhættir og skipulag skólastarfs hafi náð að þróast eðlilega. Í því sambandi er ástæða til að skoða áhrif launakjara kennara á starfs­gleði þeirra, yfirvinnu og þá þróun að kennarar ráða sig í auknum mæli í hlutastörf. Með ein­setnum grunnskóla hlýtur að þurfa að taka þessi mál öll til endurskoðunar með kjör kennara og vinnutíma í huga en ekki síður það að grunnskólanemendur geti sinnt í skólanum hefð­bundnu námi, heimanámi, leikjum, dansnámi, tónslistarnámi og íþróttaæfingum í samstarfi við íþróttafélög og aðra aðila.
    Þá má spyrja hvort sú stefna sem kölluð hefur verið blöndun í bekki hafi skilað því sem til var ætlast. Margir hafa haldið því fram að hugmyndafræðin hafi ekki náð fram að ganga af ýmsum ástæðum, m.a. vegna þess að stoðaðgerðir flestar hafi ekki fylgt með og afleiðing­in sé sú sem kölluð hefur verið „útþynning“ krafna og námsárangurs. Einnig hefur því verið velt upp hvort kröfur til nemenda séu almennt nægar í námi, varðandi umgengni o.s.frv. Inn í umræðuna hefur komið gagnrýni á minnkandi utanbókarlærdóm nemenda án þess að fylgt hafi hver áhrif þess séu ef rétt reynist.
    Í samanburði við helstu samkeppnislönd hefur komið í ljós að íslensk skólabörn sækja ár­lega færri kennslustundir en jafnaldrar þeirra í löndum OECD. Kanna þarf áhrif þess á menntunarstig þjóðarinnar.
    Heyra má þær raddir frá aðilum vinnumarkaðarins að nokkuð skorti á sjálfsaga nemenda þegar þeir koma úr skóla til starfa á almennum vinnumarkaði. Nefndinni er ætlað að fjalla um hvað hæft er í því og birta tillögur til úrbóta, reynist þess þörf.
    Drjúgur hópur ungmenna stundar íþróttir á vegum íþróttafélaga og ýmsa aðra tómstunda­iðju á vegum félaga og samtaka, auk þess að stunda skólanám. Á það hefur ítrekað verið bent að lítil formleg tengsl eru milli þessara aðila. Þá hefur margoft verið vakin athygli á því hversu takmarkað samstarf foreldra og ýmissa aðila sem sinna uppeldi barna og unglinga beint eða óbeint er víðast hvar.
    Fleiri atriði mætti nefna en ljóst má vera af því sem hér hefur verið talið upp að verkefni nefndar á borð við þá sem hér er lagt til að verði skipuð eru ærin. Meginatriðið er að málið verði skoðað í sem víðustu samhengi og kynntar verði tillögur sem taka á þeim vanda sem við blasir. Ísland á í aukinni samkeppni við þjóðir heims á flestum sviðum. Forsenda þess að þjóðin standist hana og geti haldið hér uppi traustu velferðarþjóðfélagi hlýtur að vera sú að einstaklingar alist upp við þau skilyrði að þeir geti þroskað með sér aga á öllum sviðum.
    Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir því að menntamálaráðherra skipi vinnuhóp sem skil­greini þau sjónarmið er hér hafa verið nefnd með það í huga að birta tillögur til bóta þannig að íslensk ungmenni viti til hvers er ætlast af þeim og séu fær um að axla þá ábyrgð.