Ferill 431. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 708  —  431. mál.





Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Sighvats Björgvinssonar um úrskurð Kjaradóms um laun æðstu embættismanna ríkisins.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver eru heildarmánaðarlaun, þ.e. grunnlaun að viðbættum föstum yfirvinnu- eða álagsgreiðslum, sem greidd eru æðstu embættismönnum ríkisins samkvæmt úrskurði Kjaradóms?
    Kjaradómur felldi úrskurð um mánaðarlaun þeirra aðila sem undir hann heyra 29. desember sl. Í fylgiskjali I er sá úrskurður birtur ásamt töflu þar sem dregin eru saman heildarmán­aðarlaun.

     2.      Við hvaða tímakaup er miðað þegar yfirvinnugreiðslur eru ákveðnar fyrir hvern og einn hóp?
    Tímakaup fyrir eftirvinnu reiknast sem 1,0385% af grunnlaunum, sbr. VII. kafla í úrskurði dómsins frá 18. júlí 1997 (fylgiskjal II).

     3.      Í hvaða tilvikum er heimilt að greiða yfirvinnu samkvæmt reikningi umfram þá yfirvinnu sem ákveðin er sem hluti fastra mánaðarlauna?
    Kjaradómur hefur ákvarðað dómurum og nokkrum embættismönnum fastar mánaðarlegar greiðslur fyrir yfirvinnu og óreglulegan vinnutíma. Í úrskurði frá 18. júlí 1997 er yfirlit um fjölda yfirvinnutíma (fylgiskjal II). Yfirvinnutímar ríkisendurskoðanda voru ákveðnir með úrskurði 29. júní 1998 (fylgiskjal II). Launakjör reíkissáttasemjara eru með öðrum hætti, en vegna eðlis þess embættis hefur ekki þótt hægt að úrskurða honum fasta yfirvinnu og hefur hann heimild til greiðslna fyrir eftirvinnu samkvæmt reikningi, sbr. úrskurð frá 10. mars 1997.

     4.      Hvaða aðilum heimilar Kjaradómur ekki að greitt sé fyrir yfirvinnu, hvorki í formi fastra mánaðarlauna né samkvæmt staðfestum reikningum?

    Ríkissáttasemjari er eini embættismaðurinn sem hefur almenna heimild til að fá greitt fyrir yfirvinnu samkvæmt reikningi. Skv. 6. gr. laga um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992, skal dómurinn úrskurða hvaða aukastörf tilheyri aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega. Dómurinn hafnar reikningum sem berast ef hann telur umrætt starfssvið vera hluta af aðal­starfi. Reikningar fyrir yfirvinnu í beinum tengslum við aðalstarf hafa aldrei borist.



Fylgiskjal I.



    Ár 1998, þriðjudaginn 29. desember var Kjaradómur settur að Kalkofnsvegi 1 í Reykjavík og haldinn af Garðari Garðarssyni, Jóni Sveinssyni, Magnúsi Óskarssyni, Margréti Guð­mundsdóttur og Þorsteini Júlíussyni.

     Fyrir var tekið: Að ákvarða laun þeirra aðila sem undir Kjaradóm falla.

    Mánaðarlaun þeirra aðila sem undir Kjaradóm falla skv. 2. gr. 1. nr. 120/1992 skulu hækka 1. janúar 1999 un 3,65% frá síðustu ákvörðunum Kjaradóms um laun viðkomandi. Mánaðarlaun einstakra aðila verða þá sem hér segir:
     1.      Forseti Íslands krónur 468.050.
     2.      Forsætisráðherra krónur 450.479 og aðrir ráðherrar krónur 409.517, hvort tveggja að meðtöldu þingfararkaupi.
     3.      Forseti Hæstaréttar krónur 372.651 en aðrir hæstaréttardómarar krónur 338.803.
     4.      Ríkissaksóknari krónur 338.803.
     5.      Ríkissáttasemjari krónur 323.927.
     6.      Ríkisendurskoðandi krónur 323.927.
     7.      Biskup Íslands krónur 282.857.
     8.      Dómstjórinn í Héraðsdómi Reykjavíkur krónur 310.695 en aðrir dómstjórar krónur 280.814.
     9.      Héraðsdómarar krónur 270.967.
     10.      Umboðsmaður barna krónur 269.594.
     11.      Þingfararkaup alþingismanna krónur 228.204.
    Eldri ákvarðanir Kjaradóms um yfirvinnu og önnur réttindi skulu óbreyttar standa.

Garðar Garðarsson, formaður.
Jón Sveinsson
.
Magnús Óskarsson
.
Margrét Guðmundsdóttir
.
Þorsteinn Júlíusson
.






Yfirvinna
31. desember 1998
Mánaðarlaun
1. janúar 1999
Heildarlaun
1. janúar 1999
1,0385% 3,65%
Forseti Íslands 0 468.050 468.050
Forsætisráðherra 0 450.479 450.479
Ráðherrar 0 409.517 409.517
Forseti Hæstaréttar 42 372.651 535.190
Hæstaréttardómarar 37 338.803 468.986
Ríkissaksóknari 37 338.803 468.986
Ríkissáttasemjari 323.927 323.927
Ríkisendurskoðandi 55 323.927 508.946
Biskup Íslands 40 282.857 400.355
Dómstjóri í héraðsdómi Reykjavíkur 47 310.695 462.344
Dómstjórar utan Reykjavíkur 47 280.814 417.878
Héraðsdómarar 37 270.967 375.084
Umboðsmaður Alþingis
Umboðsmaður barna 30 269.594 353.586
Alþingismenn 228.204 228.204



Fylgiskjal II.


    Ár 1997, föstudaginn 18. júlí var Kjaradómur settur að Kalkofnsvegi 1 í Reykjavík og haldinn af Garðari Garðarssyni, Jóni Sveinssyni, Magnúsi Óskarssyni, Margréti Guðmunds­dóttur og Þorsteini Júlíussyni.

     Fyrir var tekið: Að ákvarða laun þeirra aðila sem undir Kjaradóm falla.

I.

    Í 5. gr. laga nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd, segir: „Við úrlausn mála skal Kjaradómur gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem hann ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“

II.

    Af framangreindri tilvitnun, ummælum í greinargerðum með lagafrumvörpum að núgild­andi lögum, nefndarálitum, ummælum þingmanna og með samanburði við eldri löggjöf er ljóst að Kjaradómi er ætlað það hlutverk að meta vinnuframlag manna sjálfstætt til fjár. Leggja verður sérstakt mat á störf hvers einstaks aðila eða hóps og reyna að finna samsvörun þeirra starfa í vinnuframlagi og ábyrgð annarra aðila á vinnumarkaðnum. Við það mat verð­ur einnig að sjálfsögðu að taka tillit til almennrar kjaraþróunar. Við ákvörðun kjara ber jafn­framt að líta til annarra þátta en beinna launagreiðslna, svo sem lífeyrisréttinda, starfsörygg­is, starfsumhverfis o.fl.

III.

    Í frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 120/1992 var gert ráð fyrir því að Kjaradóm­ur ákvæði laun forseta Íslands, þingmanna, ráðherra og hæstaréttar- og héraðsdómara. Var þessi hópur takmarkaður við þá aðila, sem æskilegt var talið að framkvæmdarvaldið fjallaði ekki um, þ.e. forseta, ráðherra og þingmenn. Hvað varðaði dómara þá voru þeir taldir hafa slíka sérstöðu umfram aðra embættismenn samkvæmt stjórnarskránni að rétt væri að Kjara­dómur fjallaði um mál þeirra en ekki kjaranefnd. Þessari grein frumvarpsins var breytt í með­förum þingsins og ákveður Kjaradómur laun nokkurra æðstu embættismanna þjóðarinnar auk framangreindra.
    Meginverkefni Kjaradóms er þannig að ákvarða laun til æðstu fulltrúa hins þrískipta valds. Störf þeirra eiga sér að jafnaði ekki skýrar hliðstæður á hinum almenna vinnumarkaði. Við mat á þessum störfum er því m.a. tekið mið af fyrirliggjandi upplýsingum um launakjör þeirra sem líklegt þykir að hafi sambærilega menntun, ábyrgð og vinnuálag. Þá er litið til kjara annarra þeirra sem ríkið greiðir laun samkvæmt kjarasamningum eða öðrum aðferðum, svo og til almennrar þróunar á vinnumarkaði.

IV.

    Rétt þykir að skýra hvaða sjónarmið liggja að baki ákvörðunar Kjaradóms að þessu sinni.
    Við ákvörðun sína um almennar launabreytingar hafði Kjaradómur í huga niðurlags­ákvæði 5. gr. laga nr. 120/1992, þ.e. hina almennu þróun kjaramála á vinnumarkaði, eins og nánar verður gerð grein fyrir hér síðar. Af ástæðum sem hér á eftir er gerð grein fyrir telur Kjaradómur hins vegar rétt að hækka laun dómara nokkru meira en annarra.
    Sjálfstæði dómstóla er einn af hyrningarsteinum kenningarinnar um hið þrískipta vald sem er grundvöllurinn að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Sjálfstæði dómenda og dómstóla er líka eitt meginatriðið í þeim sáttmálum sem Ísland er aðili að og ætlað er að tryggja mann­réttindi þegnanna. Brýnt er að sérstaða dómara í stjórnkerfinu sé rækilega undirstrikuð. Dómurum er ætlað að vera óháðir úrskurðaraðilar sem almenningur á að geta snúið sér til með ágreinings- og réttindamál, einnig mál gegn framkvæmdarvaldinu. Í hinum siðmenntaða heimi er hvarvetna lögð mikil áhersla á þetta og hefur ráðherranefnd Evrópuráðsins beint þeim tilmælum til aðildarríkja sinna að ríkisstjórnir þeirra geri allt sem nauðsynlegt er, og styrki það sem þegar hefur verið gert, til að treysta sjálfstæði dómara og skilvirkni dómstóla. Miklar hæfniskröfur eru gerðar til dómara og sífellt flóknara laga- og viðskiptaumhverfi gerir til þeirra miklar menntunarkröfur. Mikilvægt er að í stöður dómarar sækist hinir hæf­ustu menn og mega launakjör dómara ekki vera því til hindrunar.
    Þá má einnig benda á að starf dómara útilokar þá frá þátttöku í ýmiss konar atvinnustarf­semi og félagsstarfsemi og takmarkar þannig möguleika þeirra á aukastörfum eða tekjuöflun utan starfsvettvangs þeirra.
    Fyrir Kjaradómi liggur erindi frá dómstjóranum í Reykjavík, þar sem vakin er athygli á auknu álagi á dómara eftir gildistöku laga nr. 80/1995. Þá segir að dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur hafi lægri laun ern dómarar annars staðar á landinu, þrátt fyrir að ætla megi að störf þeirra séu síst umfangsminni eða auðveldari en störf dómara við aðra dómstóla.
    Hvað varðar fyrra atriðið þá hefur Kjaradómur tekið tillit til þess við ákvörðun sína. Mis­munur á útborguðum launum dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur og sumra dómara við önn­ur embætti stafar hins vegar af mismunandi vinnutilhögun innan héraðsdómstólanna þar sem margir héraðsdómarar utan Reykjavíkur ganga gæsluvaktir en í Reykjavík standa dómara­fulltrúar gæsluvaktir og fá greitt fyrir sérstaklega. Þetta fyrirkomulag telur Kjaradómur að eigi að vera í verkahring dómsmálayfirvalda að ákveða. Kjaradómur telur að grunnlaun allra héraðsdómara, annarra en dómstjóra, eigi að vera hin sömu, án tillits til aldurs, menntunar eða þess við hvaða héraðsdómstól þeir starfa.

V.

    Ákvarðanir Kjaradóms nú eru að mestu breytingar frá fyrri ákvörðunum með hliðsjón af almennri launaþróun. Rétt er að taka það fram, að nokkuð langt er síðan síðast var breytt launum þessara aðila. Grunnlaun þeirra er undir Kjaradóm heyra voru hækkuð síðast í september 1995. Launavísitalan hefur hækkað um 5,75% á tímabilinu frá september 1995 til febrúar 1997, þ.e. til þess tíma að áhrifa nýgerðra kjarasamninga tekur að gæta í vísitöl­unni. Af þessari hækkun má rekja 3% til samningsbundinnar launahækkunar 1. janúar 1996. Sú hækkun var innifalin í úrskurði dómsins í september 1995. Að teknu tilliti til þessa stend­ur eftir hækkun launavísitölu um 2,67%, sem þeir sem undir dóminn falla hafa ekki notið.
    Þá hafa aðilar vinnumarkaðarins að undanförnu gert með sér kjarasamninga, sem að mati Þjóðhagsstofnunar fela í sér launahækkun sem liggur á bilinu 5,5–6% þegar allt er talið.
    Með vísan til lagaskyldu um að taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði telur Kjaradómur því forsendur til að hækka laun þeirra er undir hann heyra um 8,55%.
    Launabreytingar Kjaradóms miðast við 1. apríl 1997.
    Rétt er að geta þess, að samkvæmt 2. mgr. 25. gr. l. nr. 19/1991 bera ríkissaksóknara sömu lögkjör og hæstarréttardómara, eftir því sem við verður komið. Þá hefur orðið sú breyting á lögum um Kjaradóm, að Kjaradómur ákvarðar ekki lengur launakjör umboðsmanns Alþingis.

VI.

     Ákvörðun um föst laun.
    Með skírskotan til ofanritaðs og laga um Kjaradóm ákveðast eftirfarandi mánaðarlaun frá 1. apríl 1997.
     1.      Forseti Íslands krónur 434.200.
     2.      Forsætisráðherra krónur 417.900 og aðrir ráðherrar krónur 379.900, hvort tveggja að meðtöldu þingfararkaupi.
     3.      Forseti Hæstaréttar krónur 345.700 en aðrir hæstaréttardómarar krónur 314.300.
     4.      Ríkissaksóknari krónur 314.300.
     5.      Ríkissáttasemjari krónur 300.500.
     6.      Ríkisendurskoðandi krónur 266.800.
     7.      Biskup Íslands krónur 262.400.
     8.      Dómstjórinn í Héraðsdómi Reykjavíkur krónur 274.500 en aðrir dómstjórar krónur 248.100.
     9.      Héraðsdómarar krónur 239.400
     10.      Umboðsmaður barna krónur 228.800
     11.      Þingfararkaup alþingismanna krónur 211.700
    Desemberuppbót árið 1997 skal nema krónum 29.700 og orlofsuppbót árið 1997 skal vera krónur 8.400.
    Gangi dómari gæsluvaktir skal miða laun fyrir það við launaflokk hans.

VII.

     Ákvörðun um yfirvinnugreiðslur.
    Auk framangreindra mánaðarlauna skal greiða eftirtöldum aðilum fasta mánaðarlega greiðslu fyrir yfirvinnu og óreglulegan vinnutíma sem hér segir:
     1.      Forseta Hæstaréttar 42 klukkustundir á mánuði en öðrum hæstarréttardómurum 37 klukkustundir á mánuði.
     2.      Dómstjórum og héraðsdómurum sem starfa einir 47 klukkustundir og héraðsdómurum 37 klukkustundir.
     3.      Ríkissaksóknara 37 klukkustundir.
     4.      Biskupi Íslands 40 klukkustundir.
     5.      Umboðsmanni barna 30 klukkustundir.
    Að sinni skulu vera óbreyttar ákvarðanir Kjaradóms um tilhögun yfirvinnugreiðslna til ríkisendurskoðanda og ríkissáttasemjara.
    Tímakaup fyrir yfirvinnu og aukið álag er 1,0385% af mánaðarlaunum þess sem í hlut á. Yfirvinna greiðist alla mánuði ársins, einnig í sumarleyfum. Af því leiðir að ekki er greitt orlofsfé á yfirvinnu.

VIII.

     Endurmenntunarsjóður dómara.
    Ríkissjóður skal greiða í sérstakan endurmenntunarsjóð dómara fjárhæð sem nemur 1,5% af heildarlaunum hvers dómara á mánuði. Dómsmálaráðherra skal skipa þrjá menn í stjórn sjóðsins, þar af einn án tilnefningar og skal hann vera formaður sjóðsstjórnar. Þá skal skipa einn mann samkvæmt tilnefningu fjármálaráðherra og annan skv. tilnefningu Dómarafélags Íslands.
    Stjórn sjóðsins semur reglur fyrir úthlutun úr sjóðnum og tekur ákvarðanir um varðveislu hans og ávöxtun.
    Heimilt er dómsmálaráðherra að veita dómara námsleyfi til endurmenntunar. Dómari skal, að námsdvöl lokinni, gera skýrslu um árangur af námsdvölinni og með fyrirlestrum eða öðr­um hætti miðla af þekkingu sinni.
    Ríkissaksóknari skal falla undir ákvæði þessa kafla og skal einnig greitt af launum hans í endurmenntunarsjóð.
    Tillög í Vísindasjóð, sem greidd hafa verið af launum dómara og ríkissaksóknara, falla jafnhliða niður.

IX.

     Launagreiðslur við sérstakar aðstæður.
    Laun eru þannig ákveðin, að ekki skal vera um frekari greiðslur að ræða. Kjaradómur get­ur þó, vegna ófyrirséðra tímabundinna atvika ákveðið sérstakar yfirvinnugreiðslur þegar um er að ræða óvenjulegar tilfallandi aðstæður. Beiðni um slíkt skal rökstudd af viðkomandi yfirmanni stofnunar eða af viðkomandi embættismanni, eftir því sem við á. Yfirvinna skal þá greidd með 1,0385% af föstum launum á klukkustund. Orlof skal greitt á yfirvinnu sem unnin er skv. heimild í þessum kafla.

X.

    Önnur ákvæði.
    Eftir því sem við getur átt og ekki er sérstaklega á annan veg ákveðið í úrskurði þessum skulu, um aðra en alþingismenn, gilda sömu almennar reglur um orlof, staðgengilsstörf, slysatryggingar innan og utan starfs, farangurs- og munatryggingu, ferðir og ferðakostnað, greiðslur fyrir afnot bifreiða, gistingu og búferlaflutninga og gilda um ríkisstarfsmenn. Enn fremur gildir um alla reglugerð um barnsburðaleyfi starfsmanna ríkisins, nú nr. 410/1989, og reglugerð um veikindaforföll starfsmanna ríkisins, nú nr. 411/1989, sbr. og ákvæði 12. gr. l. nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og ákvæði til bráðabirgða í þeim lögum.

Garðar Garðarsson, formaður.
Jón Sveinsson
.
Magnús Óskarsson
.
Margrét Guðmundsdóttir
.
Þorsteinn Júlíusson
.



    Ár 1998, miðvikudaginn 18. nóvember var Kjaradómur settur að Kalkofnsvegi 1 í Reykjavík og haldinn af Garðari Garðarssyni, Jóni Sveinssyni, Magnúsi Óskarssyni, Margréti Guðmundsdóttur og Þorsteini Júlíussyni.

     Fyrir var tekið: Að ákvarða laun héraðsdómara skv. 2. gr. laga nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd, með hliðsjón af lögum nr. 15/1998, um dómstóla.

    Með lögum nr. 15 frá 25. mars 1998, um dómstóla, voru gerðar verulegar breytingar á allri skipan dómstóla á Íslandi. Megintilgangur laganna er að auka sjálfstæði dómstóla og dómenda og kemur sá yfirlýsti tilgangur víða fram í athugasemdum er fylgdu frumvarpi að lögunum. Bera dómstólar nú mun ríkari ábyrgð en áður á sínum innri málum, þ.m.t. fjárreið­um og starfaskipulagi. Meðal nýmæla er stofnun dómstólaráðs, sem fer með yfirstjórn eða yfirumsjón með mörgum þáttum rekstrar dómstólanna, oftast í samvinnu við viðkomandi dómstjóra. Þá er starfsskyldum héraðsdómara og eftir atvikum starfsvettvangi þeirra breytt í veigamiklum atriðum. Eru héraðsdómarar nú ekki ráðnir að ákveðnum héraðsdómstóli, svo sem verið hefur. Mega nýskipaðir héraðsdómarar nú eiga von á því að þeim verði gert að flytja búferlum milli umdæma, en þeir sem skipaðir höfðu verið fyrir gildistöku laganna, sem var 1. júlí 1998, þurfa þó ekki að sæta flutningi milli héraðsdómstóla með þeim hætti að þeir verði að flytja búferlum. Þá eru um það ákvæði í lögunum að dómarar verða stundum að sinna afmörkuðum verkefnum við annan dómstól en þann sem þeir eiga fast sæti við, án þess að þeir séu með því að skipta um starfvettvang. Getur það einkum komið til þegar þörf er á að fjölskipa dóm og ekki eru nægilega margir dómarar við viðkomandi dómstól eða þá að allir dómarar við viðkomandi dómstól eru vanhæfir. Segir í greinargerð með frumvarpinu, að ekki skuli koma til greiðslu fyrir slík verk nema að því leyti sem Kjaradómur ákveður, en áður fengu menn greidd meðdómslaun skv. reikningi.
    Í lögunum og greinargerð er víða komið að því að dómstjórar – og eftir atvikum dómstóla­ráð – skuli gæta þess við úthlutun mála til einstakra dómara, að starfsálag þeirra sé sem jafn­ast. Það kemur nú í hlut dómstjóra að ákvarða hvort dómur skuli fjölskipaður, en áður voru það einstakir dómarar sem tóku um það ákvörðun. Með þessu fær dómstjóri betri yfirsýn um verkefni einstakra dómara og getur komið upp kerfi til að úthluta málum, hvort sem það er til eins dómara eða í sameiningu til þriggja dómara, þar sem einn er valinn til að sitja í for­sæti. Segir í greinargerð að það sé liður í skyldustörfum viðkomandi héraðsdómara að taka þátt í fjölskipuðum dómi, enda skuli þá gert ráð fyrir þeim verkefnum dómarans þegar dóm­stjóri úthlutar málum næst. Ekki er gert ráð fyrir sérstakri greiðslu fyrir setu í fjölskipuðum dómi, umfram það sem Kjaradómur kann að ákveða sbr. hér síðar.
    Með lögunum voru stöður dómarafulltrúa aflagðar, en í stað þess eru ráðnir löglærðir aðstoðarmenn að dómstólunum. Þótt þessir aðstoðarmenn létti ugglaust störf dómaranna, þá fer vart hjá því að störf dómara aukast nokkuð við þessa breytingu, því dómarafulltrúar fóru oft með nokkuð veigamikil mál, einkum þar til að 6. gr. laga nr. 92/1989 var breytt með lög­um nr. 80/1995 og einnig að nokkru leyti eftir þá breytingu.
    Í 12. gr. dómstólalaganna segir að héraðsdómarar séu 38 að tölu. Skal dómstólaráð ákveða hvar þeir eiga fast sæti við hina 8 héraðsdómstóla. Þó segir í 2. málslið 1. mgr. 15. gr., að heimilt sé að ákveða að allt að þrír héraðsdómarar eigi ekki fast sæti við tiltekinn héraðsdómstól, heldur sinni tilfallandi störfum við alla héraðsdómstólana skv. ákvörðun dómstólaráðs. Í 2. mgr. 41. gr. er að finna heimild til dómsmálaráðherra að ákveða að allt að fjórir þeirra sem gegndu stöðu dómarafulltrúa verði settir héraðsdómarar tímabundið, lengst til ársloka 2001. Þessi heimild hefur enn ekki verið notuð, en þess er að vænta að það breytist um nk. áramót. Verða þá 42 héraðsdómarar starfandi á landinu og þar af fjórir tíma­bundið. Störf þessara tímabundnu dómara leggjast niður eigi síðar í árslok 2001 en losni sæti einhvers þeirra fyrir þann tíma verður ekki annar settur í hans stað. Má vænta að í stað tíma­bundnu dómaranna verði þá ráðnir löglærðir aðstoðarmenn. Þannig ættu störf hinna reglu­legu héraðsdómara ekki að aukast við það að störf tímabundnu héraðsdómaranna falli niður.
    Meðal nýmæla í lögunum er að dómarar mega ekki gegna aukastörfum nema í mjög tak­mörkuðum mæli. Þá eru settar almennar hömlur á eignarhald þeirra í fyrirtækjum, en ekki bara reglur um vanhæfi til meðferðar einstakra mála, eins og verið hefur. Var sett á fót nefnd um dómarastörf, sem hefur eftirlit með að þessum reglum sé hlýtt.
    Það er ljóst skv. framansögðu að dómarar axla nú aukna ábyrgð, á þá hafa verið lagðar auknar kvaðir og vinna þeirra hefur einnig aukist nokkuð við það að stöður dómarafulltrúa eru aflagðar. Þetta var flest fyrirséð er Kjaradómur tók ákvörðun sína þann 18. júlí 1997 og á því var að hluta til tekið þá, eins og fram kemur í þeirri ákvörðun. Hins vegar er einnig ljóst, að hluti af kjörum héraðsdómara hefur falist í greiðslum fyrir meðdómarastörf og hefur Kjaradómur ekki tekið tillit til þeirra greiðslna við ákvarðanir sínar, enda mjög einstaklings­bundnar. Koma tvær leiðir til greina með framhald þessara launagreiðslna. Önnur er sú að viðhalda því kerfi sem notað hefur verið, þ.e. að greiða sérstaklega fyrir meðdómsstörf í ein­stökum málum. Á móti því mælir, að tilgangur dómstólalaganna er að jafna vinnu á dómara með þeim stjórntækjum sem greinir í lögunum og rakin hafa verið hér að framan. Hin leiðin, og sú sem Kjaradómur hefur valið, er að bæta dómurum upp tekjumissinn með hækkun fastra launa þeirra, þannig að þeir séu eins settir að jafnaði og greiðslur fyrir meðdómsstörf yrðu óbreyttar eftir gamla kerfinu. Kjaradómur hefur aflað sér gagna um þessar greiðslur á undan­förnum árum og hafa þær verið mismunandi milli ára, milli dómara og milli dómstóla. Ákvörðun Kjaradóms hér að neðan er jafnaðarhækkun og kann það að leiða til þess að ein­hverjir lækki lítillega í launum miðað við næstliðið ár, en aðrir hækka hugsanlega lítillega, þar sem starfsframlög hafa verið eitthvað mismunandi. Kjaradómur gengur hins vegar út frá því að í hinu nýja kerfi verði starfsframlög sem jöfnust svo sem að framan greinir og sjái dómstjórar og dómstólaráð til þess.
    Ákvörðun Kjaradóms nú er tilkomin vegna þess að Alþingi hefur ákveðið nýtt starfs­umhverfi fyrir héraðsdómstóla og héraðsdómara. Með ákvörðun sinni er Kjaradómur ekki að breyta kjörum héraðsdómara í raun, heldur færast tekjur til; frá einstaklingsbundnum tilfallandi aukatekjum yfir í föst laun. Ekki eru ástæður til launabreytinga að sinni vegna annarra aðstæðna eða atvika eða vegna annarra aðila. Rétt er að minna á að við úrlausn mála skal Kjaradómur gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem hann ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar, eins og segir í 5. gr. laga nr. 120/1992. Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.
    Með hliðsjón af framangreindu ákveðast laun héraðsdómara sem hér segir, frá og með 1. júlí 1998:
     1.      Dómstjórinn í Héraðsdómi Reykjavíkur krónur 299.754 en aðrir dómstjórar og dómarar er starfa einir við héraðsdómstóla krónur 270.925.
     2.      Héraðsdómarar krónur 261.425.
    Ákvörðun Kjaradóms frá 18. júlí 1997 um fasta yfirvinnu dómara skal óbreytt standa.
    Tíðkast hefur að héraðsdómarar gangi gæsluvaktir; í sumum umdæmum á móti fulltrúum a.m.k. að hluta. Fyrirkomulag þeirra mála þarf nú augljóslega að taka til endurskoðunar. Er að sjá að greiðslur fyrir þær vaktir fari ekki í öllum tilfellum saman við raunverulega þörf til þeirra, a.m.k. ef marka má dómsmálaskýrslur. Hins vegar er það á verksviði dómsmála­ráðs en ekki Kjaradóms að ráða tilhögun þessara mála. Þar til þau störf hafa verið endur­skipulögð skal óbreytt standa ákvörðun Kjaradóms frá 18. júlí 1997 um þetta atriði.
    Eftir því sem við á skulu gilda sömu almennar reglur um slysatryggingar innan og utan starfs, farangurs- og munatryggingu, ferðir og ferðakostnað, dagpeninga, greiðslur fyrir afnot bifreiða, gistingu og búferlaflutninga og gilda um aðra ríkisstarfsmenn. Að öðru leyti er vísað til niðurlagsákvæðis ákvörðunar Kjaradóms frá 18. júlí 1997.

Garðar Garðarsson, formaður.
Jón Sveinsson
.
Magnús Óskarsson
.
Margrét Guðmundsdóttir
.
Þorsteinn Júlíusson
.





    Ár 1998, mánudaginn 29. júní var Kjaradómur settur að Kalkofnsvegi 1 í Reykjavík og haldinn af Garðari Garðarssyni, Jóni Sveinssyni, Magnúsi Óskarssyni, Margréti Guðmunds­dóttur og Þorsteini Júlíussyni.

     Fyrir var tekið: Að ákvarða laun ríkisendurskoðanda sbr. 2. gr. laga nr. 86 frá 27. maí 1997, um Ríkisendurskoðun.

I.

    Frá 1. júlí 1998 skulu laun ríkisendurskoðanda vera kr. 312.520 á mánuði.

II.

    Auk framangreindra launa skal ríkisendurskoðandi fá fasta mánaðarlega greiðslu fyrir yfirvinnu og óreglulegan vinnutíma sem svarar til 55 klukkustunda á mánuði. Ekki skal vera um frekari greiðslur að ræða nema Kjaradómur úrskurði það sérstaklega sbr. 6. gr. laga nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

III.

    Um önnur kjör gilda ákvæði úrskurðar Kjaradóms frá 18. júlí 1997, eftir því sem við eiga.

Garðar Garðarsson, formaður.
Jón Sveinsson
.
Magnús Óskarsson
.
Margrét Guðmundsdóttir
.
Þorsteinn Júlíusson
.



    Ár 1998, mánudaginn 29. júní var Kjaradómur settur að Kalkofnsvegi 1 í Reykjavík og haldinn af Garðari Garðarssyni, Jóni Sveinssyni, Magnúsi Óskarssyni, Margréti Guðmunds­dóttur og Þorsteini Júlíussyni.

     Fyrir var tekið: Að ákvarða laun umboðsmanns barna, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 83 frá 19. maí 1994, um umboðsmann barna.

I.

    Frá 1. apríl 1998 skulu laun umboðsmanns barna vera kr. 260.100 á mánuði og er þá tekið tillit til þess að um tímabundna skipun í starf er að ræða.

II.

    Auk framangreindra launa skal umboðsmaður barna fá fasta mánaðarlega greiðslu fyrir yfirvinnu og óreglulegan vinnutíma sem svarar til 30 klukkustunda á mánuði. Ekki skal vera um frekari greiðslur að ræða nema Kjaradómur úrskurði það sérstaklega, sbr. 6. gr. laga nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

III.

    Um önnur kjör gilda ákvæði úrskurðar Kjaradóms frá 18. júlí 1997, eftir því sem við eiga.

Garðar Garðarsson, formaður.
Jón Sveinsson
.
Magnús Óskarsson
.
Margrét Guðmundsdóttir
.
Þorsteinn Júlíusson
.