Ferill 272. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 716  —  272. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndals um launakjör opinberra starfsmanna sem starfa erlendis og starfsmanna hjá alþjóðastofnunum sem Ísland á aðild að.

     1.      Hver eru launakjör starfsmanna alþjóðastofnana og alþjóðasamtaka sem Ísland á aðild að, sundurliðað annars vegar eftir stofnunum og hins vegar eftir stjórnendum, sér­fræðingum og öðrum starfsmönnum?
    Helstu stofnanir sem spurningin getur átt við eru OECD, Alþjóðabankinn, Alþjóðagjald­eyrissjóðurinn, Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra, norrænar stofnanir, svo sem skrif­stofa Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn, og aðrar stofn­anir sem sinna norrænu samstarfi.
    Fjármálaráðuneytið hefur ekki upplýsingar um launakjör starfsmanna sem starfa hjá framangreindum stofnunum. Haft hefur verið samband við utanríkisráðuneytið varðandi það hvernig svara verði best leitað. Niðurstaða málsins er að svara verði ekki aflað með öðrum hætti en að utanríkisráðuneytið skrifi hlutaðeigandi stofnunum og leiti eftir svörum þeirra við nánar greindum spurningum. Þess má vænta að upplýsingaöflun geti tekið allnokkurn tíma. Vilji fyrirspyrjandi fara þessa leið er eðlilegast að fyrirspurnin sé borin upp við utanríkisráðherra. Vænlegast er þó að fyrirspyrjandi leiti beint til viðkomandi stofnana.

     2.      Hver eru launakjör opinberra starfsmanna sem starfa erlendis?
    Litið er svo á að hér sé fyrst og fremst verið að spyrja um launakjör opinberra starfs­manna í utanríkisþjónustunni, þ.e. þeirra sem starfa hjá íslenskum sendiráðum erlendis. Launakjör þeirra eru ákvörðuð af kjaranefnd fyrir sendiherra og sendifulltrúa. Um kjör ann­arra háskólamenntaðra starfsmanna utanríkisþjónustunnar fer samkvæmt kjarasamningi Fé­lags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins og kjör annarra starfsmanna eru sam­kvæmt kjarasamningi Félags starfsmanna Stjórnarráðsins. Auk fastra launa njóta starfsmenn utanríkisþjónustunnar staðaruppbótar, flutningsstyrks o.fl. samkvæmt reglum sem utanríkis­ráðuneytið hefur sett.

     3.      Hver er skattaleg meðferð tekna íslenskra starfsmanna skv. 1. og 2. tölul., hér á landi og í starfslandinu? Njóta starfsmenn einstakra stofnana eða samtaka sérstakra skatta­legra fríðinda?
    Íslendingar sem starfa erlendis hjá alþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að eru heimilis­fastir hérlendis og þar af leiðandi með fulla skattskyldu hér á landi þótt þeir búi og starfi er­lendis, sbr. 2. mgr. 9. gr. lögheimilislaga, nr. 21/1990, og 1. tölul. 1. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981.
    Almenna reglan er hins vegar að þeir sem búa erlendis í lengri tíma en sex mánuði eru að jafnaði ekki skattskyldir hér á landi heldur í því landi þar sem þeir búa. Skv. 2. tölul. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 njóta þeir frádráttar frá skattskyldum tekjum sem nemur fjárhæð launatekna fyrir störf hjá stofnuninni, enda sé kveðið á um skattfrelsið í samningum sem Ísland er aðili að. Sem dæmi um ákvæði í slíkum samningi má nefna Alþjóðasamning um rétt­indi Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 13/1948. Í 18. gr. samningsins er ákvæði um að embættismenn Sameinuðu þjóðanna, skuli undanþegnir sköttum af launum sínum og tekjum frá Sameinuðu þjóðunum. Ákvæði þetta gildir einungis um embættismenn, svo sem þeir eru skilgreindir í samningnum, en ekki um sérfræðinga eða aðra starfsmenn Sameinuðu þjóð­anna. Um aðrar tekjur en launatekjur, svo sem fjármagnstekjur ýmiss konar, gilda almenn ákvæði skattalaga. Auk skattskyldu hérlendis kunna starfmenn alþjóðastofnana að bera tak­markaða skattskyldu í því ríki sem þeir eru búsettir. Fer það eftir skattalögum hvers ríkis hvernig skattskyldu þeirra er háttað og ákvæðum samninga um viðkomandi stofnun. Ekki er útilokað að í einhverjum tilvikum sé um tvísköttun að ræða, þ.e. að sömu tekjurnar séu skatt­skyldar bæði á Íslandi og í búseturíkinu. Reynir þá á ákvæði tvísköttunarsaminga, ef þeir eru fyrir hendi, eða heimild ríkisskattstjóra til að lækka skatta einstaklinga með hliðsjón af því sem þeir hafa þegar greitt erlendis, sbr. 3. mgr. 117. gr. laga nr. 75/1981.
    Starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sem starfa erlendis (í sendiráðum, fastanefndum og ræðismannaskrifstofum) um lengri eða skemmri tíma, eru með fulla skattskyldu hér á landi þótt þeir séu búsettir erlendis, sbr. 2. mgr. lögheimilislaga og 1. tölul. 1. gr. laga um tekju­skatt og eignarskatt. Ísland er aðili að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband (Vínarsamn­ingnum), sbr. lög nr. 16/1971. Þar er að finna víðtæka undanþágu frá skattskyldu vegna sendierindreka. Tekur undanþága þessi til allra skatta og gjalda dvalarríkis.
    Um skattskyldu opinberra starfsmanna erlendis fer því alfarið eftir íslenskum lögum. Í 2. tölul. A-liðar 30. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt er staðaruppbót, sem greidd er vegna starfa erlendis í þjónustu ríkisins, frádráttarbær frá tekjum og þar með undanþegin tekju­skatti. Um allar aðrar tekjur gilda því almennar reglur íslenskra skattalaga.

     4.      Nýtur þetta starfsfólk skattfrelsis af öðrum toga en tekjuskattsfrelsis?
    Það fer eftir ákvæðum hvers samnings um sig. Svo sem áður segir eru t.d. víðtækar undan­þágur frá skattskyldu í Vínarsamningnum. Þar er m.a. kveðið á um að sendierindrekar séu undanþegnir óbeinum sköttum, svo sem virðisaukaskatti og vörugjöldum af vöru og þjónustu. Í samningi um réttarstöðu skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda og stjórnarnefndar Norð­urlandaráðs og um réttarstöðu samnorrænna stofnana, sbr. lög nr. 55/1989, eru ákvæði í 8. gr. um að starfslið skrifstofa þessara stofnana skuli undanþegið greiðslu tolla og annarra gjalda af vörum til persónulegra nota. Framangreint er nefnt í dæmaskyni en vafalaust má finna fleiri ákvæði af þessu tagi í öðrum samningum.

     5.      Hvernig eru skattareglur helstu annarra ríkja gagnvart opinberum starfsmönnum sínum sem starfa erlendis og gagnvart eigin þegnum og þegnum annarra ríkja sem starfa hjá alþjóðastofnunum og alþjóðasamtökum?
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um gildandi reglur annarra ríkja um skattlagningu opinberra starfsmanna þeirra landa sem starfa hjá alþjóðstofnunum eða alþjóðasamtökum. Í þeim ríkjum sem eru aðilar að sömu samningum og Ísland gilda sambærilegar reglur um skattlagningu að því leyti sem þær byggjast á ákvæðum samninganna.

     6.      Hver er skattaleg staða starfsfólks alþjóðastofnana, alþjóðasamtaka og erlendra ríkja hér á landi?
    Svo sem að framan er rakið eru oft og tíðum ákvæði í samningi um stofnun alþjóðastofn­unar, ákvæði þess efnis hvernig það ríki þar sem stofnunin er staðsett skuli skattleggja starfs­menn hennar. Ýmsum samningum um alþjóðastofnanir hefur verið veitt lagagildi hér á landi, sjá t.d. lög nr. 55/1989, um ráðherranefnd Norðurlanda og fleiri norrænar stofnanir, og lög nr. 13/1948, um Sameinuðu þjóðirnar. Ákvæði samninganna um undanþágu frá skattskyldu hefur því verið veitt lagagildi hér á landi og undanþága er veitt á grundvelli 7. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981. Undanþágan nær svo langt sem ákvæði samninganna kveða á um. Að auki er í 8. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981 ákvæði um takmarkaða skattskyldu þeirra sem njóta úr­lendisréttar. Sumir starfsmenn alþjóðastofnana njóta úrlendisréttar. Skv. 8. tölul. 3. gr. tak­markast skattskylda þeirra við tekjuskatt af tekjum sem þeir fá frá innlendum aðilum, ágóða sem þeir hafa af rekstri fyrirtækja eða fasteigna hér á landi, leigutekjum af lausafé og tekjum af hlutabréfum, sbr. nánar 4.–7. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981.
    Eins og áður segir eru í Vínarsamningnum ákvæði um víðtæka undanþágu frá skattskyldu í móttökuríki fyrir sendierindreka erlendra ríkja. Gilda sömu reglur að þessu leyti fyrir er­lenda sendierindreka hér á landi og gilda um íslenska sendierindreka erlendis. Erlendir sendi­erindrekar bera því mjög takmarkaða skattskyldu hér á landi og takmarkast að mestu við ákvæði 8. tölul. 3. gr. laga um tekju- og eignarskatt en þar segir: „Erlendir sendiherrar, sendiræðismenn og erlendir starfsmenn sendisveita annarra ríkja hér á landi og aðrir, sem úrlendisréttar njóta, skulu greiða tekjuskatt af tekjum sem þeir njóta frá innlendum aðilum og af tekjum sem um er rætt í 4.–7. tl.“
    Samkvæmt framangreindu greiða þessir aðilar tekjuskatt af ýmsum tekjum sem eiga upp­runa sinn hér á landi. Hins vegar gilda um laun þeirra frá sendiríkinu og aðrar tekjur þaðan reglur heimaríkis, enda er skattskylda þeirra í því ríki.