Ferill 465. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 767  —  465. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36 5. maí 1986.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir.



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      2. mgr. hljóðar svo:     Bankastjóri Seðlabankans stýrir daglegum rekstri bankans. Ráðherra skipar banka­stjóra að fengnum tillögum bankaráðs. Bankastjóri skal skipaður til fimm ára í senn, en þó skal gæta reglna um hámarksaldur starfsmanna ríkisins.

2. gr.


    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þar til skipunartíma annars af tveimur núverandi bankastjórum lýkur skulu bankastjórar vera tveir og þeir skipa bankastjórn. Skulu þeir koma sér saman um formennsku í banka­stjórninni.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Stóll bankastjóra við Seðlabanka Íslands hefur nú verið laus um margra mánaða skeið án þess að staðan hafi verið auglýst, enda hefur rekstur bankans síður en svo gengið verr þótt eigi sé fyllt lögmælt tala bankastjóra. Það hlýtur líka að vera fjarstæða að hér á landi þurfi fleiri en einn bankastjóra til þess að stýra daglegum rekstri Seðlabankans og má til saman­burðar nefna að í Bandaríkjunum og í Bretlandi nægir einn bankastjóri til þess að stýra margfalt umfangsmeiri rekstri. Því er hér lagt til að sú staða sem nú er laus verði ekki fyllt og fækkað verði um einn bankastjóra þegar skipunartími seðlabankastjóra rennur næst út, en þeir eru nú skipaðir til fimm ára eins og kunnugt er.
    Í 1. mgr. 22. gr. laga um Seðlabanka Íslands er fjallað um bankastjórn þriggja banka­stjóra. Ákvæðið hefur ekki þýðingu þegar bankastjóri er orðinn einn, en um bráðabirgða­ástand er fjallað í 2. gr. frumvarpsins. Lögð er til sú breyting á 2. mgr. 22. gr. að bankastjóri skuli vera einn og lagt er til að hann verði skipaður með sama hætti og verið hefur.
    Ákvæði til bráðabirgða er ætlað að taka á því ástandi sem nú er, þ.e. að við bankann starfa tveir bankastjórar. Þeir hafa hins vegar verið skipaðir til fimm ára og er því létt að koma tölu bankastjóra í endanlegt horf þegar skipunartími seðlabankastjóra rennur næst út, en gert er ráð fyrir að bankastjórarnir skipi bankaráð meðan þeir eru tveir talsins. Nokkrar umræður urðu um það á síðasta ári hvort ákvæði um hámarksaldur starfsmanna ríkisins ætti við um seðlabankastjóra og því er það ótvírætt tekið fram að svo sé eins og niðurstaðan varð í umræddu tilviki. Þess ber þá að gæta við skipun bankastjóra þannig að 68 ára einstaklingur yrði aðeins skipaður til 70 ára aldurs að óbreyttum hámarksaldri starfsmanna.