Ferill 476. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 781  —  476. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 51/1985, um ríkislögmann.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.


    Í stað orðsins „fjármálaráðherra“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: stjórnarráðið.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að yfirstjórn embættis ríkislögmanns verði flutt frá fjármála­ráðherra til forsætisráðherra.
    Skipan stjórnarmálefna og skipting starfa milli ráðherra og ráðuneyta heyrir samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar til þeirra starfa sem falin eru handhöfum framkvæmdarvaldsins, sbr. síðari málslið 15. gr. stjórnarskrárinnar sem og 2. gr. hennar, um þrískiptingu ríkis­valdsins. Samhljóða og ítarlegri ákvæði voru síðar sett í lög um Stjórnarráð Íslands, nr. 73 28. maí 1969, sbr. 1. gr. i.f. og 8. gr. laganna, fyrirmælum stjórnarskrár til nánari útfærslu. Við gildistöku laganna var síðan með úrskurði forseta gefin út reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96 31. desember 1969, þar sem stjórnarmálefnum er skipað undir ráðuneyti og er það meginréttarheimildin um valdsvið hvers ráðuneytis um sig.
    Þrátt fyrir þá skipan, sem stjórnarskrárgjafinn hefur þannig valið þessum þætti stjórnar­skipunarinnar, eru þess fjölmörg dæmi að hinn almenni löggjafi ákveði vistun stjórnar­málefna með lögum; svo sem til háttar með þau lög sem hér er leitað breytinga á. Slík ákvæði eiga sér oft eðlilegar skýringar í því að um nýskipan er að ræða eða meiriháttar breytingar á skipan stjórnarmálefna standa fyrir dyrum, en hljóta að öðru jöfnu að teljast ofaukið með skírskotun til þess er að framan segir.
    Með því að ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að gera þær breytingar á skipan stjórnarmál­efna, sem í upphafi var lýst, þykir jafnframt rétt að leita atbeina Alþingis til að færa viðeig­andi lagaákvæði til samræmis þar við.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Embætti ríkislögmanns var sett á fót með lögum nr. 51 24. júní 1985. Samkvæmt lögunum er hlutverk embættisins þríþætt: Rekstur einkamála fyrir dómstólum, umfjöllun bótakrafna á hendur ríkissjóði og álitsgerðir og aðstoð við vandasama samningsgerð eftir ósk einstakra ráðherra.
    Að því er rekstur dómsmála varðar fer eftir atvikum hverju sinni, hvaða ráðherra eða ráðherrar eru í fyrirsvari fyrir ríkisvaldið í einstökum málum. Embætti ríkislögmanns sækir fyrirmæli um rekstur máls til þess ráðherra, sem hverju sinni er í fyrirsvari fyrir ríkisvaldið. Með sama hætti er embættinu skylt að semja álitsgerð fyrir hvern þann ráðherra, sem hverju sinni óskar lögfræðilegrar álitsgerðar um tiltekið mál sem undir hann heyrir.
    Samkvæmt þessu má ljóst vera, að embætti ríkislögmanns er lögmannsskrifstofa í einka­málum fyrir Stjórnarráð Íslands í heild. Það er þannig í raun þjónustustofnun allra ráðu­neytanna. Með vísan til þessa er eðlilegt að embættið heyri undir forsætisráðherra og beri undir forsætisráðuneyti, sem fer með mál er varða Stjórnarráð Íslands í heild, en vistun emb­ættisins hjá fjármálaráðuneyti á sér fyrst og fremst þær sögulegu skýringar, að málarekstur æðstu stjórnar ríkisins í einkamálum hafði um árabil verið að stórum hluta falinn sérstökum málflutningsmönnum, sem störfuðu innan fjármálaráðuneytis.

Um 2. gr.


    Gildistökuákvæði þarfnast ekki skýringa.
    Samhliða gildistöku frumvarps þessa, ef að lögum verður, mun forsætisráðherra beita sér fyrir setningu reglugerðar, samhljóða þeim breytingum sem frumvarpið stefnir að, um breyt­ingar á reglugerð um Stjórnarráð Íslands og fylgja drög að henni í fylgiskjali til upplýsingar.


Fylgiskjal I.

Drög:


REGLUGERÐ
um breytingar á reglugerð um Stjórnarráð Íslands,
nr. 96 31. desember 1969, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirtaldar breytingar verði á 2. gr., sbr. 1. gr. reglugerðar um breyting á reglugerð þessari nr. 77/1990:
     a.      14. og 15. tölul. falli brott.
     b.      Nýr 14. tölul. hljóði svo: Embætti ríkislögmanns.

2. gr.


    15. tölul. liðar I í 5. gr., sbr. 1. gr. reglugerðar um breytingu á reglugerð þessari nr. 1/1984, falli brott.


Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu


á lögum nr. 51/1985, um ríkislögmann.


    Með frumvarpinu er lagt til að embætti ríkislögmanns verði flutt frá fjármálaráðherra til forsætisráðherra. Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á afkomu ríkissjóðs.