Ferill 477. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 782  —  477. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 1998.

1. Inngangur.
    Þjóðþing Færeyja, Grænlands og Íslands stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi 24. september 1985 sem samstarfsvettvang þinganna þriggja. Með því var form­fest samstarf landanna þriggja, sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vest­norden). Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar sam­þykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Markmið ráðsins eru að starfa saman að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafssvæðisins, fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og lands­stjórna Vestur-Norðurlanda, auka samstarfið innan norrænnar samvinnu og vera þingræðis­legur tengiliður milli samvinnuaðila innan Vestur-Norðurlanda og annarra fjölþjóðlegra hagsmunahópa og ríkjasamtaka. Vestnorræna ráðið hefur í gegnum tíðina ályktað um ýmis mál, þar á meðal um umhverfis- og auðlindamál, aukið menningarsamstarf landanna og skóla- og íþróttasamvinnu, svo fátt eitt sé nefnt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja 18 þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur saman til ársfundar, sem jafnframt fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, með þingmanni frá hverju aðildarríki innanborðs, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Ráðið getur einnig skipað sérstakar vinnunefndir um einstök mál. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna, með virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samstarfi við aðra aðila innan vestnorræns samstarfs, samvinnu við norðurheimsskautsstofnanir, og skipulagningu á ráðstefnum og fundum.

2.     Kjör fulltrúa í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í byrjun árs 1998 sátu eftirtaldir fulltrúar í Vestnorræna ráðinu: Árni Johnsen, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Guðný Guðbjörnsdóttir, Ólafur G. Einarsson og Svavar Gestsson. Varamenn voru þá Gísli S. Einarsson, Stefán Guðmundsson, Guðmundur Hallvarðsson, Einar Oddur Kristjánsson, Kristinn H. Gunnarsson og Kristín Ástgeirsdóttir.
    Þann 5. júní voru kosnir sömu sex fulltrúar, en sú breyting varð á hópi varafulltrúa að Svanfríður Jónasdóttir var kjörin í stað Gísla S. Einarssonar. Þann 9. júní 1998 kaus Íslands­deild Vestnorræna ráðsins á fundi sínum Ísólf Gylfa Pálmason sem formann og Ástu R. Jóhannesdóttur sem varaformann Íslandsdeildar fyrir starfsárið.

3. Störf Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt fimm fundi á árinu. Á fundunum var m.a. fjallað um undirbúning æskulýðsráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin var í Reykjavík 10.–12. júlí, um framkvæmd lífsgildakönnunar sem Vestnorræna ráðið hefur falið Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að gera í aðildarlöndunum, um þátttöku í aðalfundi ráðsins í Græn­landi og um möguleikann á því að setja á fót vestnorrænan menningarsjóð. Þá ræddi Íslands­deildin möguleika þess að koma vestnorrænu samstarfi betur á framfæri í Norrænu húsunum í aðildarlöndunum. Samskipti Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs, sem og annarra fjöl­þjóðastofnana og samtaka, voru einnig til umræðu. Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur, var gestur á fundi Íslandsdeildar í desember og greindi hann frá ferðum sínum um vestnor­ræna svæðið. Svavar Gestson var fulltrúi Vestnorræna ráðsins á ráðstefnu Norðurlandaráðs um umhverfismál sem haldin var í Gautaborg 26.–27. febrúar og einnig á ráðstefnu þing­mannanefndar Norðurheimskautsráðsins í Salekhard í Rússlandi 22.–24. apríl. Þá var Ísólfur Gylfi Pálmason fulltrúi ráðsins á 50. þingi Norðurlandaráðs í Ósló 9.–12. nóvember. Auk þess hefur núverandi formaður Íslandsdeildar og framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins fundað með ýmsum aðilum. Hér á landi hittu þeir forstöðumann Norrænu upplýsingaskrif­stofunnar á Akureyri og forstöðumann Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, auk fulltrúa CAFF-skrifstofunnar, Háskólans á Akureyri og Akureyrarbæjar. Í Kaupmannahöfn fundaði for­maður og framkvæmdastjóri með tveimur starfsmönnum Norrænu ráðherranefndarinnar, þeim Bjarna Daníelssyni, forstöðumanni menningarmáladeildar, og Ragnheiði Þórarins­dóttur, ráðgjafa. Í september hittu þeir Jógvan Durhuus og Lisbeth Petersen úr landsdeildinni í Færeyjum, og Ingu Ellingsgård, formann undirbúningsnefndar fyrirhugaðrar kvennaráð­stefnu ráðsins. Í tengslum við þá fundi sóttu þeir ráðstefnu um jafnréttismál á vegum Nor­rænu ráðherranefndarinnar. Í Noregi hittu þeir Svein Ludvigssen, varaformann Norðurlanda­nefndar Norðurlandaráðs, í tengslum við ráðstefnu um byggðamál og svæðasamstarf í Mo i Rana í Noregi í byrjun október. Loks hefur formaður, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins og ritari Íslandsdeildar hitt stjórn Norræna félagsins á Íslandi þar sem ræddir voru samstarfsmöguleikar félagsins og ráðsins.

4. 14. ársfundur Vestnorræna ráðsins 1998.
    14. ársfundur ráðsins var haldinn í bænum Ilullisat á Grænlandi dagana 9.–12. júní 1998. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar eftirtaldir þingmenn: Árni Johnsen, Ísólfur Gylfi Pálmason, , Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir og Svavar Gestsson. Alls sóttu 16 vestnorrænir þingmenn frá aðildarlöndunum ársfundinn.
    Anders Andreasen frá Grænlandi flutti skýrslu formanns. Í máli sínu rakti hann starfið á árinu 1997 og gerði grein fyrir helstu verkefnum ráðsins. Magnús Magnússon frá mannfræði­stofnun Háskóla Íslands hélt erindi á aðalfundinum um þróun veiðimannasamfélagsins á Austur-Grænlandi og sýndi kvikmynd sem Sigrún Stefánsdóttir gerði ásamt öðrum um þetta rannsóknarefni. Þá voru þau Ragnheiður Þórarinsdóttir, ráðgjafi hjá Norrænu ráðherranefnd­inni, og Karl Sigurðsson frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gestir aðalfundarins og fluttu erindi um þema hans, stöðu ungs fólks á Vestur-Norðurlöndum. Loks flutti norski þing­maðurinn Svein Ludvigssen, sem er varaformaður Norðurlandanefndar Norðurlandaráðs, erindi um starfsemi nefndarinnar og áherslur Norðurlandaráðs varðandi grannsvæðin og sjálfstjórnarsvæðin.
    Þrjár ályktanir voru lagðar fyrir og samþykktar á aðalfundinum. Í fyrstu ályktuninni er menntamálaráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands falið að beita sér fyrir aukinni samvinnu skóla í löndunum þremur varðandi samskipti og samvinnu á internetinu. Í rökstuðningi segir m.a. að tölvutæknin hafi þegar gert fjarlægðir að engu og skapi hún því einstök sóknarfæri fyrir samstarf á Vestur-Norðurlöndunum, þar sem úthöf, fjöll og firnindi skilja að blómlegar byggðir. Með auknum samskiptum á internetinu geta bæði kennarar og nemendur á Vestur-Norðurlöndum aukið þekkingu sína og hæfni og samtímis styrkt vestnorræna vitund.
    Önnur ályktunin lýtur að eflingu samstarfs í íþróttamálum og er menntamálaráðherrum landanna þriggja falið að koma á fót vinnuhópi til þess að móta tillögur þar að lútandi. Í rök­stuðningi segir m.a. að um árabil hafi íslensk, færeysk og grænlensk íþrótta- og ungmennafé­lög átt gott samstarf við samsvarandi félög í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi, en innbyrðis samstarf hafi á hinn bóginn verið hverfandi. Þessu beri að breyta og örva þurfi samskipti þeirra tugþúsunda Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga sem leggja stund á íþróttir. Þannig skapast verðmæt tengsl og varanleg, segir í rökstuðningi ályktunarinnar.
    Þriðja ályktunin sem var samþykkt lýtur að eflingu menningarsamstarfs og er lagt til að settur verði á fót sérstakur vestnorrænn menningarsjóður. Í rökstuðningi segir að saga og menning Vestur-Norðurlanda sé samofin — og afar sérstök. Að henni þurfi að hlúa og eru menntamálaráðherrar landanna hvattir til að móta tillögur um stofnun menningarsjóðs.
    Í þessu sambandi er vert að geta þess að á fundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Ósló 11. nóvember var ákveðið að beina því til landsdeildanna að fylgja eftir ályktunum ráðsins frá aðalfundinum með sama hætti og Íslandsdeild hefur samþykkt, þ.e. með því að leggja þær fram sem þingsályktun og kynna á sérstökum fundi með þeim ráðherra sem þeim er beint til.
    Þá voru teknar fimm ákvarðanir um innri mál Vestnorræna ráðsins, m.a. varðandi afskrift tillagna sem hafa komið til framkvæmda og um þema næsta árs, sem er málefni kvenna árið 1999. Jafnframt var ákveðið á aðalfundinum að árið 2000 yrði vestnorrænt menningarár.
    Fjárhagsáætlun fyrir árið 1999 var samþykkt. Hún hljóðar upp á 600 þús. d.kr., þar af greiðir Ísland 300 þús. d.kr., Færeyjar 150 þús. d.kr. og Grænland 150 þús. d.kr. For­mennska í Vestnorræna ráðinu kom í hlut Íslands á aðalfundinum, og var Ísólfur Gylfi Pálmason, formaður Íslandsdeildar, kjörinn formaður.

5. Ungmennaráðstefna Vestnorræna ráðsins.
    Æskulýðsráðstefna Vestnorræna ráðsins var haldin í Reykjavík dagana 10.–12. júlí. Markmiðið með ráðstefnunni var að skapa vettvang fyrir ungt fólk á Vestur-Norðurlöndum til umræðu og skoðanaskipta um sameiginleg málefni til að öðlast þekkingu á högum hvers annars og til að veita þeim tækifæri til að kynnast og þannig renna styrkari stoðum undir vestnorrænt samstarf. Um 130 ungmenni á aldrinum 18–23 ára frá löndunum þremur tóku þátt í ráðstefnunni, auk þorra þingmanna Vestnorræna ráðsins og embættismanna.
    Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni var Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og flutti hún ávarp um framtíð dönskunnar sem samskiptamáls sem vakti athygli fjölmiðla. Meðal umræðuefna á ráðstefnunni voru: framtíð vestnorrænu tungumálanna og framtíð dönskunnar sem samskiptamáls, ný samskiptatækni, menning, náttúruvernd og náttúruauð­lindir. Auk þess voru haldnir tónleikar í tengslum við ráðstefnuna og kynning á siðum og sér­kennum landanna. Líflegar umræður voru á ráðstefnunni og sagði í lokaskýrslu hennar, að markmið hennar, sem getið er að ofan, hefðu náðst.

6.     Önnur verkefni Vestnorræna ráðsins 1998.
    Undirbúningur fyrir jafnréttisráðstefnu Vestnorræna ráðsins, sem haldin verður í Fær­eyjum 5.–8. júní nk., stendur yfir. Stofnaður hefur verið undirbúningshópur ráðstefnunnar, skipaður fulltrúum frá hverju aðildarlandi. Hólmfríður Sveinsdóttir frá Kvenréttindafélagi Íslands er fulltrúi Íslands í undirbúningsnefndinni sem er ætlað að skipuleggja dagskrá og þátttöku í ráðstefnunni. Henni til fulltingis er ritari Íslandsdeildar. Gert er ráð fyrir að 25 manns frá hverju landi taki þátt, eða 75 manns alls, auk þingmanna og starfsmanna.
    Á árinu hófst gerð svokallaðrar lífsgildakönnunar Vestnorræna ráðsins á meðal 18 ára unglinga í aðildarlöndunum. Tilgangur könnunarinnar, sem er í höndum Félagsvísinda­stofnunar Háskóla Íslands, er að bera saman lífsgildi þessa hóps ungs fólks og afstöðu þeirra til ýmissa mála. Könnunin hefur verið gerð á Íslandi og Færeyjum, en beðið er eftir gögnum frá Grænlandi til að úrvinnsla geti hafist.
    Að frumkvæði Vestnorræna ráðsins er nú í undirbúningi uppbygging Þjóðhildarkirkju og bæjar Eiríks rauða í Brattahlíð á Grænlandi. Reiknað er með að framkvæmdum verði lokið árið 2000, þegar landafunda í Vesturheimi verður minnst. Árni Johnsen er formaður Bratta­hlíðarnefndar sem hefur veg og vanda að undirbúningnum. Verkefninu miðar hratt og örugg­lega, og í desember sl. samþykkti forsætisnefnd Norðurlandaráðs að veita um 10 milljónir ís­lenskra króna til uppbyggingar Brattahlíðar.
    Sjávarútvegsráðherra Íslands stóð fyrir vestnorrænni ráðherraráðstefnu um sjávarútvegs­mál 15. apríl og tóku sjávarútvegsráðherrar Færeyja og Grænlands þátt í henni. Ráðstefnan var haldin m.a. til að fylgja eftir málum frá sjávarútvegsráðstefnu Vestnorræna ráðsins sumar­ið 1997. Á ráðstefnunni var rætt um samstarf þjóðanna í sjávarútvegsmálum og umhverfis­málum hafsins.
    Loks má nefna að skrifstofa Vestnorræna ráðsins hefur fengið útgáfufyrirtæki til þess að hanna heimasíðu ráðsins og sjá um útgáfu upplýsingabæklings um starfsemi ráðsins. Fram­kvæmdastjóri ráðsins hefur unnið að málinu á árinu ásamt útgáfufyrirtækinu og er búist við að þeirri vinnu ljúki nú í febrúar.

Alþingi, 12. febr. 1999.



Ísólfur Gylfi Pálmason,


form.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


varaform.


Árni Johnsen.



Guðný Guðbjörnsdóttir.


Ólafur G. Einarsson.