Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 783  —  478. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 1998.

Saga ÖSE-þingsins.
    Aðild að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE (áður Ráðstefnan um öryggi og sam­vinnu í Evrópu, RÖSE), eiga 55 ríki Evrópu og Norður-Ameríku. Einu þeirra, Sambandslýð­veldinu Júgóslavíu, hefur þó ekki staðið til boða að taka þátt í störfum þingsins síðan þátt­taka þess í starfi ÖSE var felld niður árið 1992. Stofnunin starfar á grundvelli Helsinki-sátt­málans frá árinu 1975. Henni er ætlað að stuðla að friði, öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar.
    Í yfirlýsingu þjóðarleiðtoga RÖSE-ríkjanna í París 21. nóvember 1990 var hvatt til þess að komið yrði á fót reglulegum fundum þingmanna ríkjanna. Á fundi þjóðarleiðtoganna í Madrid í apríl 1991 var svo ákveðið að koma á fót RÖSE-þingi er kæmi saman einu sinni á ári (í júlí). Þar var samþykkt svokölluð Madrid-yfirlýsing sem er grundvallarskjal ÖSE-þingmannasamstarfsins. Að loknum tveimur undirbúningsfundum á árinu 1992 var fyrsti fundur RÖSE-þings haldinn í júlí 1992 í Búdapest. Í ársbyrjun 1995 breytti þingið síðan um nafn og kallast nú ÖSE-þingið.

Starf ÖSE-þingsins 1998.
    Framkvæmd Dayton-samkomulagsins í Bosníu og Hersegóvínu hefur á undanförnum árum verið langveigamesta verkefni ÖSE, en í samkomulaginu er stofnuninni falið að hafa umsjón með framkvæmd kosninga, mannréttindamálum og aðstoð við gerð samninga um traustvekj­andi aðgerðir og takmörkun vígbúnaðar. Í október sl. var ÖSE síðan falið að fylgjast með framkvæmd vopnahlés í Kosovo-héraði í Sambandslýðveldinu Júgóslavíu. Samkvæmt sam­komulagi sem Richard Holbrooke, sendimaður Bandaríkjastjórnar, gerði við Slobodan Milosevic, forseta Júgóslavíu, eiga 1200 manna eftirlitssveitir á vegum ÖSE að fylgjast með að vopnahléið verði virt af hálfu stríðandi fylkinga í Kosovo. Ástand mála á Balkanskaga hefur því verið fyrirferðarmikið á dagskrá ÖSE-þingsins undanfarin ár. Af öðrum verkefnum bar kosningaeftirlit að venju hæst í starfi ÖSE-þingsins á árinu 1998, og þá var þema árs­fundarins í júlí umfjöllun um stofnanauppbyggingu ÖSE og tillögur til einföldunar á henni.

Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Íslandsdeildin var skipuð sem hér segir árið 1998:
    Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki, formaður, Ragnar Arnalds, Alþýðubandalagi, vara­formaður, Hjálmar Árnason, Framsóknarflokki, Guðjón Guðmundsson, Sjálfstæðisflokki, og Guðný Guðbjörnsdóttir, Kvennalista. Ritari deildarinnar er Gústaf Adolf Skúlason al­þjóðaritari.

Starfsemi á árinu 1998.
a. Fundur stjórnarnefndar.
    Dagana 19.–20. febrúar fundaði stjórnarnefnd ÖSE-þingsins í Vín. Fundinn sótti af hálfu Íslandsdeildarinnar Pétur H. Blöndal, formaður, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, ritara deild­arinnar. Fundurinn einkenndist öðru fremur af umræðum um þau mikilvægu hlutverk sem ÖSE hefur með höndum við að koma á friði og stöðugleika í Bosníu og Hersegóvínu annars vegar og af umfjöllun um starfsreglur þingsins hins vegar.
    Í upphafi fundar nefndarinnar árið 1997 kom upp sá vandi að tveir fulltrúar gerðu kröfu um að sitja fundinn í nafni Hvíta-Rússlands. Annars vegar var það fulltrúi hvít-rússneska þingsins sem sæti átti í nefndinni á ársfundinum í Stokkhólmi 1996 og hins vegar fulltrúi Lúkashjenkós forseta. Ákveðið var að ekki bæri að taka mark á þjóðaratkvæðagreiðslu um aukin völd forsetans í Hvíta-Rússlandi, sem m.a. Evrópuráðið hafði úrskurðað ólöglega og ólýðræðislega, og að fulltrúar hins þjóðkjörna þings sem sent hafði verið heim sætu fundinn. Þeir hinir sömu sátu fund nefnarinnar að þessu sinni, enda viðurkennir ÖSE-þingið ekki þing það er Lúkashjenkó forseti Hvíta-Rússlands hefur sjálfur skipað. Fyrir fundinum lá harðort mótmælabréf frá utanríkisráðuneyti Hvíta-Rússlands, en ekki var tekið tillit til þess, og munu fulltrúar hins þjóðkjörna þings sem sent hefur verið heim sitja fundi ÖSE-þingsins fyrir hönd Hvíta-Rússlands þar til fram hafa farið lýðræðislegar kosningar í landinu á ný.
    Fyrri dag fundarins höfðu eftirfarandi aðilar framsögu og svöruðu spurningum fundar­manna: Bronislaw Geremek, utanríkisráðherra Póllands og þáverandi formaður ráðherraráðs ÖSE; Frans Timmermans, aðstoðarmaður Max van der Stoels, sérlegs erindreka um málefni minnihlutahópa, sem staddur var í Belgrad; Freimut Duve, fulltrúi ÖSE um frelsi fjölmiðla; Gerard Stoudmann, yfirmaður þeirrar stofnunar ÖSE sem fer með mannréttindi og lýðræði (ODIHR); og Giancarlo Aragona, framkvæmdastjóri ÖSE.
    Bronislaw Geremek tók við formennsku í ráðherraráði ÖSE í ársbyrjun 1998. Hann sagðist leggja áherslu á eflingu fyrirbyggjandi „diplómatískra“ aðgerða í starfi stofnunar­innar þar sem stuðlað er að bættum samskiptum og reynt að koma í veg fyrir að deilur þróist yfir í eiginleg átök. Hann sagði ÖSE helst hafa þetta hlutverk í því öryggiskerfi álfunnar sem nú væri í þróun, auk kosningaeftirlits. Þetta væru þau svið sem ÖSE hefði helst sérhæft sig í og ætti að leggja höfuðáherslu á. Fyrirbyggjandi aðgerðir og milliganga á vegum ÖSE hefði oft skilað góðum árangri þótt ekki færi mikið fyrir starfinu eðli málsins samkvæmt. Hann sagðist jafnframt vonast eftir auknu samstarfi og aukinni verkaskiptingu milli ÖSE og ann­arra fjölþjóðastofnana, einkum Evrópuráðsins. Geremek sagði ÖSE aldrei mundu koma í stað Atlantshafsbandalagsins, en að stofnunin hefði annars konar verkefni á höndum og að hún væri nauðsynlegur hlekkur í öryggiskerfi álfunnar. Þá fjallaði Geremek um stöðu mála á ýmsum helstu átaka- og spennusvæðum álfunnar, svo sem Bosníu og Hersegóvínu, Mold­avíu, Nagorno-Karabak, Kosovo og Hvíta-Rússlandi. Hann sagði samningsviljann oft skorta milli deiluaðila á þessum svæðum, en lagði áherslu á það hlutverk ÖSE að miðla málum og útskýra fyrir deiluaðilum hag þeirra sjálfra af gerð samninga.
    Giancarlo Aragona, framkvæmdastjóri ÖSE, sagði íhlutun stofnunarinnar í átökin í Albaníu fyrr um veturinn vera stærsta sigur stofnunarinnar, en þar tókst að stilla til friðar þar sem hörð átök voru að brjótast út og voru ítalskar hersveitir þar fremstar í flokki friðar­gæslusveita. Sagði hann fjölþjóðasamfélagið hafa brugðist þar skjótt og skipulega við, en ÖSE samræmdi aðgerðir ýmissa aðila þar við að tryggja frið og stöðugleika og endurreisa ýmsar lýðræðislegar stofnanir. Hann fjallaði jafnframt um vaxandi samstarf ÖSE við ýmsar aðrar fjölþjóðastofnanir og nefndi kosningarnar í Albaníu í júní 1997 sem dæmi, en þar höfðu eftirlitsnefndir ÖSE-þingsins og Evrópuráðsþingsins með sér ýmiss konar samstarf og sendu m.a. frá sér sameiginlega yfirlýsingu um framkvæmd kosninganna að þeim loknum. Þá fjallaði Aragona um starfsemi ÖSE í Bosníu og Hersegóvínu, fyrrverandi Júgóslavíulýð­veldinu Makedóníu, Króatíu og víðar. Loks greindi hann frá stofnun nýs embættis innan ÖSE, embættis fulltrúa ÖSE um frelsi fjölmiðla og gaf Freimut Duve orðið.
    Freimut Duve, fulltrúi ÖSE um frelsi fjölmiðla og fyrrum formaður 3. nefndar ÖSE-þings­ins um lýðræði og mannréttindamál, kynnti sitt nýja embætti og sagði þróun þess á frumstigi. Embættinu er ætlað að vera vettvangur kvartana vegna meðferðar stjórnvalda á fjölmiðlum eða fjölmiðlafólki, og mun embættið jafnframt senda fyrirspurnir til viðkomandi stjórnvalda og þrýsta á um úrbætur þegar við á. Annars sagði Duve embætti sitt hafa orðið til í árslok 1997 og að hvorki hlutverk þess né starfsskipulag væri fullmótað enn. Sjálfur sagðist Duve vilja berjast gegn hvers kyns hömlum stjórnvalda á starfsemi fjölmiðla, óhóflegri skattpín­ingu þeirra, misnotkun fjölmiðla í áróðursstríði o.s.frv.
    Embætti Max van der Stoels er ætlað að bregðast við eins skjótt og hægt er þegar hætta er á að þjóðernisdeilur þróist í átök innan ÖSE-svæðisins. Van der Stoel var staddur í Bel­grad vegna málefna Kosovo en aðstoðarmaður hans, Frans Timmermans, ávarpaði fundinn. Timmermans sagði Kosovo líklega vera þann stað álfunnar þar sem mest spenna ríkti um þær mundir. Embætti van der Stoels reyndi að stuðla að fyrirbyggjandi aðgerðum á svæðinu, líkt og víðar í álfunni þar sem átök eða spenna ríktu milli þjóðernishópa. Timmermans lagði hins vegar áherslu á að trúnaður embættisins við deiluaðila væri algert grundvallaratriði í starfsemi þess, og því ekki unnt að greina nákvæmlega frá stöðu mála á fundi sem þessum. Deiluaðilar yrðu að geta treyst því að embætti van der Stoels væri hlutlaus milligönguaðili þar sem hægt væri að ræða stöðu mála við í trúnaði. Það er svo hlutverk van der Stoels að leita samningsleiða, reyna að finna fleti á stöðu mála sem báðir eða allir aðilar geti sam­einast um. Timmermans sagði víða ríkja deilur milli þjóðernisbrota í Mið- og Austur-Evrópu þar sem samningsviljinn væri í raun til staðar en utanaðkomandi milligönguaðila þyrfti til að koma því ferli í réttan farveg.
    Gerard Stoudmann ræddi einkum um hlutverk embættis síns við undirbúning og fram­kvæmd kosningaeftirlits annars vegar og í málefnum Bosníu og Hersegóvínu hins vegar. Embætti hans er ætlað að efla mannréttindi og lýðræði, en í því sambandi hefur hann á hendi samræmingu kosningaeftirlits, útvegar sérfræðinga á sviði stjórnskipunarréttar og veitir fræðslu á því sviði. Þá hefur embættið aðstoðað við stofnun umboðsmannsembætta („om­budsman“) í Bosníu og Hersegóvínu, skipulagt námsstefnur um lýðræðisleg vinnubrögð og þjálfað embættismenn, aðstoðað við uppbyggingu frjálsra fjölmiðla, gefið út þýðingar á kosningalögum o.fl.
    Seinni daginn ávörpuðu fundinn dr. Heinz Fischer, forseti austurríska þingsins og dr. Viktor Klima, kanslari Austurríkis.
    Javier Ruperez, þáverandi forseti þingsins, fjallaði um hvernig eitthvert eitt tiltekið mál­efni væri venjulega öðrum fremur á dagskrá þingsins á ársfundi þess og lagði til að á árs­fundinum í júlí yrði athyglinni beint að þróun stofnana og stefnu ÖSE. Var það samþykkt. Sir Peter Emery, gjaldkeri þingsins, greindi frá því að 38 ríki af 55 hefðu þegar greitt að fullu árgjöld sín til þingsins fyrir fjárlagaárið 1997–98, og að á árinu áður hefðu 98% ár­gjaldanna verið greidd að fullu. Rekstrarafgangur síðasta árs nam 81.000 dönskum krónum, og í fyrsta sinn var engin athugasemd gerð af utanaðkomandi endurskoðendum við ársreikn­inga þingsins. Helle Degn, þáverandi varaforseti þingsins, gerði grein fyrir undirbúningi 7. ársfundar þingsins sem fram fór í Kaupmannahöfn dagana 7.–10. júlí. Frank Swaelen, fyrrverandi forseti þingsins, gerði grein fyrir námsstefnu sem haldin var í Úsbekistan í september 1997 um svæðisbundin öryggis-, efnahags-, félags-, mannúðar- og stjórnmál í Mið-Asíu. Þá gerði Jacques Floch, formaður 2. nefndar, grein fyrir ráðstefnu um svæðisbundið samstarf í efnahagsmálum sem haldin var í Mónakó í október 1997. Loks var Þjóðverjinn Gert Weiss­kirchen einróma kjörinn formaður 3. nefndar, en Freimut Duve sem þar gegndi formennsku árið áður hafði sem fyrr segir verið skipaður fulltrúi ÖSE um frelsi fjölmiðla.
    Loks var tekinn fyrir fjöldi breytingartillagna við starfsreglur þingsins, en sérstök nefnd hafði starfað að gerð tillagna í þeim efnum eftir ársfundinn í Varsjá 1997. Skemmst er frá því að segja að allar þær tillögur sem höfðu í för með sér umtalsverðar breytingar á starfs­reglunum voru felldar, enda nægilegt að fulltrúar tveggja ríkja greiði atkvæði gegn tillögu til þess að hún falli. Þetta gilti m.a. um tillögu þess efnis að hægt væri að taka ákvarðanir í stjórnarnefnd gegn atkvæðum tveggja ríkja, og tillögu um hert skilyrði við framlagningu breytingartillagna við ályktanir nefnda (fleiri undirskriftir frá fulltrúum fleiri ríkja). Ýmsir vankantar voru hins vegar sniðnir af gildandi starfsreglum, t.d. varðandi framkvæmd kosn­inga í embætti þingsins, skráningu fulltrúa á fundum o.fl.

b. 7. ársfundur ÖSE-þingsins.
    Sjöundi ársfundur ÖSE-þingsins var haldinn dagana 7.–10. júlí, að þessu sinni í Kaup­mannahöfn. Fundinn sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Pétur H. Blöndal, formaður, Ragnar Arnalds, varaformaður, og Guðjón Guðmundsson, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, ritara deildarinnar. Samhliða þingfundum funduðu stjórnarnefnd og málefnanefndir þingsins.
    Aðalumfjöllunarefni þingsins að þessu sinni var þróun stofnana og skipulags ÖSE, og til­lögur þingsins til hagræðingar í rekstri stofnunarinnar. Af öðrum málefnum sem helst bar á góma má nefna ástand mála í Kosovo, verkaskiptingu og skörun í starfsemi fjölþjóðastofn­ana, og skipulagða glæpastarfsemi. Þá var danska þingkonan Helle Degn einróma kjörin for­seti ÖSE-þingsins. Loks héldu konur á meðal þingmanna að vanda sérstakan fund, þar sem að þessu sinni var fjallað um hlutverk kvenna í fyrirbyggjandi aðgerðum ÖSE á hugsanlegum átakasvæðum. Fundur þeirra sendi frá sér ályktun þar sem m.a. er hvatt til aukins hlutar kvenna í starfi ÖSE.
    Pétur H. Blöndal, formaður, sat fundi stjórnarnefndarinnar fyrir hönd Íslandsdeildarinnar. Þar gerði Sir Peter Emery, gjaldkeri þingsins, grein fyrir fjármálum þingsins. Rekstur þess var að venju innan fjárlagaramma fjárlagaárið 1997–98 og í fjárlagadrögum fyrir fjárlaga­árið 1998–99 var gert ráð fyrir 4,9% hækkun frá árinu áður, en hækkunin tengist m.a. endur­nýjun tölvukerfa. Samþykkti nefndin að leggja þau óbreytt fyrir þingfund. Fyrir ársfund ÖSE-þingsins í Varsjá í júlí 1997 hafði Pétur H. Blöndal sent forseta þingsins erindi þar sem hann stakk upp á að stjórnarnefnd ÖSE-þingsins fundaði með fjarfundatækni. Þannig gæti nefndin fundað oftar með minni tilkostnaði, jafnt í fjármunum sem tíma talið. Framkvæmda­stjórn þingsins vísaði erindinu til sérstakrar nefndar um starfsreglur. Pétur minnti á bréf sitt á fundinum og innti forseta eftir viðbrögðum við því. Framkvæmdastjóri þingsins, Spencer Oliver, sagði bréfið hafa verið rætt í framkvæmdastjórn þingsins þar sem hugmyndin hefði þótt góð og tók Javier Ruperez, forseti þingsins, undir það. Hins vegar sagði Oliver að ekki nærri öll þjóðþingin sem ættu aðild að ÖSE-þinginu hefðu aðgang að slíkri tækni. Pétur hafði raunar í bréfi sínu bent á þann möguleika að þau ríki sem ekki hefðu yfir fjarfunda­tækni að ráða gætu sent fulltrúa sína til næsta ríkis með slíka tækni og fulltrúar nokkurra ríkja þannig hugsanlega sameinast í nýtingu slíkrar aðstöðu, en ekki virtist vera áhugi fyrir þeirri útfærslu. Ályktunardrögum um Kosovo, sem lögð voru fram af forseta þingsins og fimm varaforsetum þess (af níu), var vísað til 1. nefndar. Loks var samþykkt sú tillaga Rússa að 8. ársfundur ÖSE-þingsins árið 1999 yrði haldinn í Sankti Pétursborg, en áður hafði verið samþykkt að hann yrði haldinn í Moskvu, og að 9. ársfundur ÖSE-þingsins árið 2000 yrði haldinn í Búkarest.
    Þrjár nefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins. Íslandsdeildin tók þátt í starfi þeirra sem hér segir:
     1.      nefnd um stjórnmál og öryggismál: Pétur H. Blöndal,
     2.      nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál: Guðjón Guðmundsson,
     3.      nefnd um lýðræði og mannréttindamál: Ragnar Arnalds.
    Lagðar voru fram skýrslur byggðar á fyrrnefndu aðalumfjöllunarefni í hverri nefnd en á grundvelli þeirra höfðu verið samin drög að ályktunum. Drögin voru rædd í viðkomandi nefnd og afgreidd ásamt breytingartillögum. Öllum var ályktununum þremur síðan steypt saman í eina yfirlýsingu í fjórum köflum — Kaupmannahafnaryfirlýsinguna — sem lögð var fyrir ÖSE-þingið. Fjórði kaflinn samanstendur af ályktun um efnahagssáttmála ÖSE, og jafn­framt er ályktun þingsins um Kosovo að finna í yfirlýsingunni.
    Framsögumaður skýrslu 1. nefndar var Bandaríkjamaðurinn Alcee Hastings. Í skýrslu sinni kynnti hann nokkur helstu grundvallaratriði í sáttmálum ÖSE, allt frá tilurð RÖSE með undirritun Helsinki-sáttmálans árið 1975. Markmið skýrslunnar var að leggja mat á þá þróun sem orðið hefði og að koma með tillögur til úrbóta þar sem þurfa þætti. Í skýrslunni eru nefnd fjölmörg dæmi um stofnanir, nefndir o.fl. sem framsögumaður sagði ýmist nær alger­lega óþarfar eða fjallaði um hvernig starfsemi þeirra skarast. Hann nefndi jafnframt ýmis dæmi um gott starf á vegum ÖSE, en lagði til verulega einföldun á uppbyggingu stofnunar­innar, undirstofnana hennar, nefnda o.s.frv. Einnig fjallaði hann mikið um samstöðureglu ráðherraráðsins sem undanþágur eru fyrir („samstaða mínus einn“) í einstaka málaflokkum. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að þessu yrði breytt til þess að styrkja stofnunina, og að tekin yrði upp einhvers konar „nálgun við samstöðu“ sem útilokaði a.m.k. neitunarvald einstakra ríkja.
    Í ályktun nefndarinnar eru m.a. ítrekuð meðmæli þingsins þess efnis að tekin verði upp slík „nálgun við samstöðu“, skorað á ÖSE að íhuga að leggja niður ÖSE-dómstólinn sem aldrei hefur verið leitað til, hvatt til aukinnar áherslu á svæðisbundið samstarf og lagt til að leiðtogafundir ÖSE verði ekki haldnir reglulega heldur einungis þegar „ástæða sé til“. Fjöldi breytingartillagna var lagður fram. Má þar nefna að samþykkt var breytingartillaga nokkurra þingmanna frá Frakklandi, Belgíu og Sviss þar sem hvatt var til aukinnar verkaskiptingar og markvissara samstarfs ÖSE og Evrópuráðsins. Breytingartillögu nokkurra rússneskra og armenskra þingmanna, þar sem áhersla er lögð á mikilvægi „samstöðureglunnar“ í ákvarð­anatöku ÖSE, var hins vegar hafnað.
    Þá fjallaði nefndin jafnframt um fyrrnefnd ályktunardrög um Kosovo sem vísað var til nefndarinnar af stjórnarnefnd. Drögin voru samþykkt með nokkrum breytingum, gegn fjórum atkvæðum rússneskra þingmanna. Í ályktuninni er þess m.a. krafist að Sambandsríkið Júgó­slavía láti af hvers kyns hernaðaraðgerðum á svæðinu, og lagt til að ESB, Bandaríkin og fleiri ríki beiti Sambandsríkið Júgóslavíu umfangsmiklum efnahagsþvingunum þar til látið verði af slíkum hernaðaraðgerðum. Þá er Atlantshafsbandalagið hvatt til að beita sér hernað­arlega til að setja aukinn þrýsting á stjórnvöld í Sambandsríkinu Júgóslavíu, albanskir íbúar Kosovo hvattir til að forðast átök, og deiluaðilar hvattir til samningaviðræðna um friðsam­lega lausn deilunnar.
    Framsögumaður skýrslu 2. nefndar var ítalska þingkonan Tana de Zulueta. Þema skýrsl­unnar er svipað og skýrslu 1. nefndar, nema hvað áhersla var lögð á svonefnda „aðra körfu“ ÖSE-samstarfsins, sem eru efnahagsmál, tækni, vísindi og umhverfismál. Þessi málaflokkur er talsvert fyrirferðarminni í starfi ÖSE en hinir tveir sem fjallað er um í 1. og 3. nefnd, en skilningur fer hins vegar vaxandi á því hversu mikilvægur efnahagslegur stöðugleiki og almenn efnahagsleg velferð geta verið fyrir frið og stöðugleika á hverju svæði.
     Í ályktun nefndarinnar eru stofnanir ÖSE hvattar til að veita efnahagsmálum meiri athygli, í ljósi mikilvægis efnahagslegs stöðugleika og velferðar fyrir frið og stöðugleika almennt. Þá eru stofnanir og nefndir ÖSE hvattar til að bæta samstarf sitt við ýmsar aðrar fjölþjóðleg­ar stofnanir á sviði efnahagsmála í því skyni að afla betri upplýsinga og forðast tvíverknað. Loks eru þjóðþing aðildarríkja ÖSE hvött til að taka þátt í samræmingu aðgerða og mótun stefnu aðildarríkjanna í baráttunni gegn spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi.
    Loks fjallaði nefndin um og samþykkti ályktunardrög Ritu Süssmuth, forseta þýska sam­bandsþingsins, um efnahagssáttmála ÖSE. Í ályktuninni eru aðildarríki ÖSE hvött til að gera með sér efnahagssáttmála þar sem m.a. yrði lögð áhersla á mikilvægi áreiðanlegs og trausts markaðshagkerfis, áreiðanlegt réttarumhverfi, bættan markaðsaðgang, bættar milliríkjasam­göngur og svæðisbundið samstarf.
    Í formála skýrslu 3. nefndar fjallar framsögumaður hennar, hollenska þingkonan Guikje Roethof, almennt um áherslu Helsinki-sáttmálans og annarra ÖSE-samninga á virðingu fyrir almennum grundvallarmannréttindum, svo sem lýðræðislegu stjórnarfari, skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi, félagafrelsi og frelsi til flutninga. Líkt og í hinum skýrslunum tveimur er farið yfir sviðið hvað varðar stofnanir og nefndir á vegum ÖSE, þróun málaflokksins og stöðu hans í dag. Í ályktun nefndarinnar er mikil áhersla lögð á mikilvægi þess að viðkomandi nefndir og stofnanir hafi yfir nægum fjármunum að ráða, og í nokkrum tilfellum er hvatt til þess að fjárframlög til umræddra stofnana verði aukin.
    Við setningu þingfundarins fluttu ávörp Javier Ruperez, fráfarandi forseti ÖSE-þingsins; Ivar Hansen, forseti danska þingsins; Poul Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur; og Bronislaw Geremek, utanríkisráðherra Póllands og þáverandi formaður ráðherraráðs ÖSE, sem jafnframt svaraði spurningum þingmanna. Þá tóku við stutt ávörp nokkurra helstu embættismanna ÖSE, þeirra á meðal Giancarlo Aragona framkvæmdastjóra ÖSE, sem sátu síðan fyrir svörum. Loks ávörpuðu þingið fulltrúar Evrópuráðsþingsins, Norðurlandaráðs, Svartahafsþingsins, Evrópuþingsins, Norður-Atlantshafsþingsins og VES-þingsins. Blaða­mannaverðlaun ÖSE-þingsins voru veitt í þriðja sinn, en verðlaunin eru veitt fyrir störf í þágu lýðræðis og mannréttinda og er þeim ætlað að efla grundvallarregluna um frjálsa fjöl­miðlun. Verðlaunin hlaut að þessu sinni breski blaðamaðurinn og sagnfræðingurinn Timothy Garton Ash, en talið er að greiningar hans á hruni kommúnismans hafi lagt sitt af mörkum við uppbyggingu lýðræðis og mannréttinda í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Á lokadegi þingfundarins var fjallað um fyrrnefnda Kaupmannahafnaryfirlýsingu og hún samþykkt, sem og fjárlög fyrir fjárlagaárið 1998–99.
    Í almennum stjórnmálaumræðum tók Pétur H. Blöndal til máls og ræddi um mannréttinda­hugtakið, sem hann sagði fremur vera heimspekilegt en pólitískt hugtak. Hann sagði að ólík viðhorf væru til mannréttinda í til dæmis Kína annars vegar og í Vestur-Evrópu hins vegar. Þó væru þau á báðum svæðum byggð á gömlum siðareglum. Alls staðar væru til einhverjar reglur um mannréttindi, en þær væru stundum túlkaðar á ólíkan máta af ólíkum hópum, jafn­vel á sama svæðinu, og væru Kosovo og Kýpur dæmi um þetta. Pétur sagði mjög mikilvægt að kanna hvort ekki væri hægt að tryggja einhver grundvallar- eða lágmarksmannréttindi sem hefðu sama gildi og sömu túlkun til dæmis á öllu ÖSE-svæðinu, sem mundu þannig koma í veg fyrir að fólk þyrfti að lifa í ótta við umhverfi sitt. Loks fór fram kjör forseta ÖSE-þingsins, gjaldkera og þriggja varaforseta af níu. Danska þingkonan Helle Degn var sem fyrr segir einróma kjörin forseti þingsins, og sömuleiðis breski þingmaðurinn Sir Peter Emery í stöðu gjaldkera. Til embætta varaforseta voru kjörin þau Tekin Enerem frá Tyrklandi, Steny Hoyer frá Bandaríkjunum (endurkjörinn) og Tana de Zulueta frá Ítalíu.

c. Kosningaeftirlit.
    ÖSE-þingið ákvað frá upphafi að taka virkan þátt í kosningaeftirliti og leggja áherslu á það starf sem mikilvægan lið í að efla lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum. Jafnframt hefur ÖSE hvatt þingið til þess að sinna þessu starfi af fullum krafti. Árið 1998 tók ÖSE-þingið þátt í kosningaeftirliti í Bosníu og Hersegóvínu, Slóvakíu og fyrrum Júgóslavíulýð­veldinu Makedóníu, auk þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar í Albaníu. Íslandsdeildin tók ekki þátt í kosningaeftirliti ÖSE-þingsins á árinu en þingmenn sem taka þátt í slíku kosningaeftirliti gera það á kostnað eigin þjóðþinga.

d. Annað.
    ÖSE-þingið hefur átt fulltrúa á ýmsum fundum embættismannanefnda ÖSE. Forseti ÖSE-þingsins hefur á árinu tekið þátt í fundum fyrrverandi, núverandi og verðandi formanna ráðherraráðsins. Þá stóð ÖSE-þingið fyrir málþingi um úrlausn deilumála og þróun lýðræðis í Kákasushéraði. Ráðstefnan var haldin í Tbilisi í Georgíu í október. Íslandsdeildin tók ekki þátt í framangreindu málþingi.

Alþingi, 9. febr. 1999.



Pétur H. Blöndal,


form.


Ragnar Arnalds,


varaform.
Guðjón Guðmundsson

.


Hjálmar Árnason.


Guðný Guðbjörnsdóttir.



Fylgiskjal I.

Markmið og skipulag ÖSE-þingsins.


    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins eru því ætluð eftirfarandi hlutverk:
     1.      að meta árangurinn af ÖSE-samstarfinu,
     2.      að ræða mál sem eru á dagskrá funda leiðtoga og utanríkisráðherra ÖSE-ríkjanna,
     3.      að þróa leiðir til að koma í veg fyrir og leysa úr átökum,
     4.      að stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í ÖSE-ríkjunum,
     5.      að leggja sitt af mörkum til þróunar, samskipta og samstarfs stofnana ÖSE.
    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins er aðild að því miðuð við þing þeirra ríkja sem undirritað hafa Helsinki-sáttmálann frá 1975 og Parísaryfirlýsinguna frá 1990 og að ríkin taki þátt í ÖSE-samstarfinu. Í dag eiga 55 þing ÖSE-ríkjanna aðild að ÖSE-þinginu. Gert er ráð fyrir 317 fulltrúum á þinginu og þar af á Alþingi þrjá.
    Starfsreglurnar gera ráð fyrir að ÖSE-þingið komi saman í júlí ár hvert og standi fundur þess eigi lengur en fimm daga. Auk þingfunda er gert ráð fyrir að á þinginu starfi þrjár fastanefndir er fjalli um mál er falla undir svið þeirra. Formaður, varaformaður og framsögu­maður hverrar nefndar eru kjörnir af nefndunum í lok allsherjarfundar ár hvert. Framsögu­maður nefndar velur umræðuefnið sem tekið er fyrir í nefndinni það ár, í samráði við for­mann og varaformann nefndarinnar. Hann undirbýr skýrslu sem lögð er fyrir nefndina ásamt drögum að ályktun. Fastanefndirnar þrjár eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (fyrsta nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál (önnur nefnd) og nefnd um lýðræði og mannréttindamál (þriðja nefnd). Heimilt er forseta þingsins að boða til aukaþings ef stjórnarnefnd þingsins ákveður svo.
    Stjórnarnefnd þingsins (Standing Committee) er ætlað að undirbúa störf þingsins. Hún er skipuð forseta ÖSE-þingsins, varaforsetunum níu, gjaldkera, formönnum þriggja málefna­nefnda þingsins og formönnum sendinefnda einstakra þjóðþinga, eða alls 69 fulltrúum. Fram­kvæmdastjórn þingsins (Bureau) er skipuð forseta þess, varaforsetum og gjaldkera. Henni er ætlað að fylgjast með að ákvörðunum þingsins sé framfylgt og ákvarða um málefni sem upp kunna að koma á milli funda stjórnarnefndar.
    Þingsköp ÖSE-þingsins gera ráð fyrir að þingið og framkvæmdastjórnin taki ákvarðanir sínar með meiri hluta atkvæða en ákvarðanir stjórnarnefndarinnar skuli teknar samkvæmt afbrigði af svokallaðri „samstöðureglu“ (consensus rule), en eftir henni er farið á fundum fulltrúa ríkisstjórna ÖSE-ríkjanna. Stjórnarnefnd þingsins fylgir svokallaðri „consensus minus one“ reglu sem felur í sér að tvö eða fleiri ríki þarf til að fella einstök mál í nefndinni.
    Fulltrúi ráðherraráðs ÖSE ávarpar þingið á árlegum fundi þess og gefur skýrslu um málefni ÖSE og verkefni sem verið er að vinna að á þeim vettvangi. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til þess ráðherra er mætir sem fulltrúi ráðherraráðsins. Opinber tungumál þingsins eru sex: enska, franska, þýska, ítalska, rússneska og spænska, og er túlkað jafn­óðum.



Fylgiskjal II.


Skipan ÖSE-þingsins.

Fjöldi þing-
sæta hvers
aðildarríkis
Fjöldi
þingsæta
alls
A.    Bandaríkin
17 17
B.    Rússland
15 15
C.    Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Bretland
13 52
D.    Kanada og Spánn
10 20
E.    Úkranía, Belgía, Holland, Pólland, Svíþjóð og Tyrkland
8 48
F.    Rúmenía
7 7
G.    Austurríki, Danmörk, Finnland, Grikkland, Ungverjaland, Írland, Noregur, Portúgal, Tékkland, Sviss, Hvíta-Rússland, Úsbekistan og Kasakstan

6

78
H.    Búlgaría og Lúxemborg
5 10
I.    Júgóslavía og Slóvakía
4 8
J.    Kýpur, Ísland, Malta, Eistland, Lettland, Litháen, Albanía, Slóvenía, Króatía, Moldavía, Tadsjikistan, Túrkmenistan, Georgía, Kirgisistan, Armenía, Aserbaídsjan og Bosnía og Hersegóvína og fyrrverandi Júgóslavíulýðveldið Makedónía

3

54
K.    Andorra, Liechtenstein, Mónakó og San Marínó
2 8
Samtals
317



Fylgiskjal III.


Starfsreglur fyrir Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
(Samþykktar á fundi forsætisnefndar 28. apríl 1993.)

1. gr.

    Íslandsdeild ÖSE-þingsins (The Icelandic delegation to the OSCE Parliamentary Ass­embly) er skipuð fimm alþingismönnum. Íslandsdeildin sendir þrjá fulltrúa á ÖSE-þingið hvert ár, sbr. ákvæði Madrid-yfirlýsingarinnar frá apríl 1991 og viðauka við starfsreglur þingsins frá janúar 1993 um fjölda fulltrúa frá einstökum aðildarþingum.

2. gr.

    Þingflokkar skulu tilnefna í Íslandsdeildina eftir hverjar alþingiskosningar og gildir til­nefningin út kjörtímabilið nema þingflokkar ákveði annað.


3. gr.

    Þingflokkur skal tilnefna í deildina eftir hlutfallsreglu jafnmarga þingmenn og hann á rétt til samkvæmt stærð flokksins nema samkomulag sé um aðra skiptingu fulltrúa. Þingflokki, sem ekki hefur styrkleika til að hljóta fulltrúa í Íslandsdeildina, skal heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu á fundum deildarinnar. Áheyrnarfulltrúi skal hafa rétt til þátttöku í starfi ÖSE-þingsins samkvæmt almennum reglum 7. gr.

4. gr.

    Fulltrúi stærsta þingflokksins skal kalla Íslandsdeildina saman til fyrsta fundar og skal þá kjósa formann og varaformann deildarinnar fyrir kjörtímabilið.
    Formaður situr í stjórnarnefnd (Standing Committee) ÖSE-þingsins, sbr. 32. gr. starfs­reglna þess.

5. gr.

    Íslandsdeildin hefur ritara sem er nefndinni til aðstoðar, sbr. 3. mgr. 35. gr. þingskapa
Alþingis.

6. gr.

    Íslandsdeildin skal árlega leggja fyrir forsætisnefnd Alþingis, innan þess frests sem nefndin ákveður, tillögur um fjárveitingar til starfsemi deildarinnar. Tillagan skal við það miðuð að fjárveiting nægi til að greiða árgjald til aðalskrifstofu þingsins, ferðakostnað full­trúa og annan kostnað sem af starfsemi deildarinnar leiðir. Reikningar skulu endurskoðaðir með sama hætti og önnur útgjöld Alþingis.

7. gr.

    Í upphafi hvers kjörtímabils skipuleggur Íslandsdeildin þátttöku deildarinnar í starfi
ÖSE-þingsins fyrir kjörtímabilið í heild, sbr. 2. mgr.
    Formaður deildarinnar skal að jafnaði sækja öll þau þing sem Íslandsdeildin tekur þátt í. Við val á öðrum þátttakendum á þingin skal fylgja hlutfallsreglu eftir stærð þingflokka ef ekki er samkomulag um annað.

8. gr.

    Starfsreglur þessar taka þegar gildi.