Ferill 483. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 790  —  483. mál.
Frumvarp til lagaum skógrækt og skógvernd.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)I. KAFLI
Um markmið og skilgreiningar.
1. gr.

    Markmið laga þessara eru:
     a.      að tryggja vernd, viðhald og aukningu skóglendis og að nýir skógar verði ræktaðir til nytja, landbóta og útivistar fyrir almenning;
     b.      að tryggja rannsókna-, fræðslu- og leiðbeiningarstarf um alla þætti skógræktar.

2. gr.

    Merking orða í lögum þessum er sem hér greinir:
     a.      Skógrækt: Allar þær framkvæmdir sem snúa að ræktun og meðferð skóga og skóglendis, svo sem friðun, undirbúningur lands, plöntuframleiðsla, gróðursetning, umhirða, grisjun, felling og endurnýjun.
     b.      Skógræktaráætlun: Áætlun um einn eða fleiri þætti skógræktar eða þætti er tengjast skógrækt. Landsáætlun nær til landsins alls og fjallar um heildarmarkmið og leiðir. Landshlutaáætlun nær til tiltekins landshluta en þar eru lögð fram langtímamarkmið og útfærðar fjárhagslegar leiðir til að ná þeim. Ræktunaráætlun nær að jafnaði yfir tíu ára tímabil og fjallar um tiltekið svæði, svo sem skóglendi eða jarðarpart, og þar koma fram helstu þættir í ræktun og meðferð skóglendisins. Framkvæmdaáætlun útfærir ræktunar­áætlun og nær til eins eða fárra ára í senn.
     c.      Skógur: Vistkerfi þar sem ríkjandi lífverutegundir eru tré.
     d.      Skóglendi: Land sem að mestu eða öllu leyti er eða verður vaxið trjágróðri, náttúrlegum eða ræktuðum, skógi eða kjarri.
     e.      Þjóðskógar: Skóglendi eða önnur lönd í eigu ríkisins þar sem skógvernd eða skógrækt er helsta tegund landnýtingar, ekki þó ríkisjarðir í ábúð eða leigu samkvæmt ábúðar­lögum né það skóglendi sem með lögum er falið öðrum til umsjár.

3. gr.

    Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til.
    Landbúnaðarráðherra skal, á fimm ára fresti, láta Skógrækt ríkisins vinna heildstæða landsáætlun í skógrækt og leggja fyrir Alþingi til samþykktar. Áætlunin innihaldi stefnu í skógrækt og skógvernd, áætlanir verkefna allra þeirra aðila sem fá framlög á fjárlögum og mat á árangri undanfarinnar áætlunar. Kortlagning skógræktarskilyrða í landinu skal fylgja áætluninni. Fyrsta landsáætlun verði lögð fram árið 2001.


Prentað upp.

4. gr.

    Landbúnaðarráðherra skipar skógráð til fjögurra ára í senn. Hlutverk skógráðs er að:
     a.      gera tillögur til ráðherra um stefnu, markmið og leiðir í skógrækt og skógvernd fyrir gerð landsáætlunar skv. 3. gr.,
     b.      gefa ráðherra umsagnir um drög að reglugerðum sem hann setur samkvæmt lögum þessum og um einstök mál er varða skógrækt og skógvernd í landinu,
     c.      vera vettvangur umræðu um skógrækt og skógvernd og hafa frumkvæði um að koma með ábendingar til stjórnvalda um þau mál sem það telur nauðsynleg og varða skógrækt í landinu.
    Skógráð skal halda fund árlega og oftar ef þörf krefur. Formaður boðar til funda.
    Skógræktarstjóri skal vera í skógráði. Formaður skógráðs er skipaður án tilnefningar, en aðrir meðlimir samkvæmt tilnefningu Skógræktarfélags Íslands, Landssamtaka skógareig­enda, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Ís­lands, Landgræðslu ríkisins og Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins.

II. KAFLI
Um Skógrækt ríkisins.
5. gr.

    Ríkið starfrækir stofnun sem nefnist Skógrækt ríkisins og annast hún framkvæmd þessara laga og hefur eftirlit með því, fyrir hönd landbúnaðarráðherra, að þeim sé fylgt. Ráðherra setur reglugerð um starfssvið og deildarskiptingu Skógræktar ríkisins.
    Hlutverk Skógræktar ríkisins er að:
     a.      vinna að verndun, ræktun og sjálfbærri nýtingu skóga á Íslandi og stuðla að því að umfang skógræktar og flatarmál skóglendis aukist,
     b.      veita stjórnvöldum, einstaklingum og félögum ráðgjöf um mál er tengjast skógum og skógrækt,
     c.      stunda rannsókna-, fræðslu- og leiðbeiningastarf um alla þætti skógræktar,
     d.      hafa umsjón með þjóðskógunum og auðvelda almenningi aðgang að þeim,
     e.      fara með umsýslu eigna sem eru á hennar forræði,
     f.      annast gerð skógræktaráætlana og hafa eftirlit með skógræktaráætlunum sem gerðar eru af öðrum,
     g.      annast alþjóðleg samskipti á sviði skógarmála,
     h.      hafa eftirlit með og veita leyfi til innflutnings á trjáfræi.

6. gr.

    Skógrækt ríkisins tekur í störfum sínum mið af stefnumörkun skógráðs skv. 4. gr. og landsáætlun í skógrækt skv. 3. gr. hverju sinni.

7. gr.

    Skógrækt ríkisins rekur rannsóknastöð sem fjárhagslega sjálfstæða deild. Hlutverk hennar er að sjá um alhliða rannsóknir tengdar skógvernd og skógrækt og skal hún starfa samkvæmt áætlun sem samþykkt er af sérstöku fagráði. Fagráð rannsóknastöðvarinnar er skipað af ráð­herra til fjögurra ára í senn og eru skipan þess, hlutverk og starfssvið ákveðin með reglugerð.

8. gr.

    Skógrækt ríkisins er heimilt að styrkja einstaklinga og félagasamtök til skógræktar eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.

9. gr.

    Skógræktarstjóra er heimilt, með samþykki ráðherra, að leigja lönd sem eru í eigu eða á forræði Skógræktar ríkisins eða fela öðrum umsjón með þeim.

10. gr.

    Skógrækt ríkisins skal gera og viðhalda skrá yfir skóglendi landsins þar sem komi fram tegund skóglendis, aldur ef um er að ræða gróðursetningu og flokkun eftir gæðum og nota­gildi, svo sem til viðarframleiðslu, jarðvegsverndar, náttúruverndar, útivistar eða annarra nota. Sérstaka skrá um nýgróðursetningu skal gefa út árlega og er öllum skylt, sé þess óskað, að veita Skógrækt ríkisins upplýsingar um gróðursetningu. Einnig skal kortleggja skógrækt­arskilyrði landsins og skulu þau kort endurnýjuð á tíu ára fresti.

11. gr.

    Landbúnaðarráðherra skipar skógræktarstjóra, lengst til fimm ára í senn, og skal hann fara með daglega stjórn Skógræktar ríkisins. Skógræktarstjóri skal hafa háskólapróf í skóg­fræði. Skógræktarstjóri ræður sérmenntaða starfsmenn Skógræktar ríkisins í samræmi við deildarskiptingu stofnunarinnar og aðra starfsmenn í samráði við forstöðumenn deilda.

III. KAFLI
Um friðun, ræktun og meðferð skóglendis.
12. gr.

    Landbúnaðarráðherra setur reglur um gerð og innihald ræktunaráætlana í samráði við Skógrækt ríkisins. Þar skal m.a. flokka fyrirhugað skógræktarland eftir náttúruverndargildi og taka tillit til þess við gerð ræktunaráætlana.
    Við gerð ræktunaráætlana um meðferð skóga skal m.a. taka tillit til alls konar skógarnytja og áhrifa fyrirhugaðra framkvæmda á lífríki skógarins, vatnsbúskap og jarðvegsvernd.

13. gr.

    Skylt er eiganda eða notanda skóglendis að takmarka svo notkun þess að það rýrni hvorki að stærð né gæðum til lengri tíma. Nýtingu verði ávallt háttað þannig að skógur endurnýist á svæðinu. Öll meðferð skóga, svo sem grisjun og umhirða, miðist við að auka verðmæti eða aðgengi án þess að rýra líffræðilega fjölbreytni eða framleiðni til lengri tíma.
    Skóga eða hluta þeirra má aldrei fella nema fyrir liggi samþykki Skógræktar ríkisins, og skal samþykki ávallt vera háð því að gerðar séu ráðstafanir til að endurnýja skóg á sama svæði eða jafnstóru svæði annars staðar. Skóga sem ræktaðir hafa verið til nytja skal höggva samkvæmt aðferðum sem viðurkenndar eru af Skógrækt ríkisins.
    Öllum sem um skóglendi fara er óheimilt að skerða trjágróður eða skaða hann á annan hátt. Bannað er að leggja eld í skóglendi nema með leyfi Skógræktar ríkisins.

14. gr.

    Öll beit búfjár í skóglendi utan heimalanda er bönnuð frá 1. nóvember til 1. júní ár hvert. Sé skóglendi nýtt til beitar ber eiganda búfjárins að stjórna beitinni þannig að skóglendið spillist ekki og að eðlileg endurnýjun skógarins geti orðið.
    Skógrækt ríkisins er heimilt að setja reglur um girðingar vegna skógræktar.
    Liggi alfaravegur um friðað skóglendi skulu vegfarendur loka þeim hliðum sem eru á girð­ingum um löndin svo að öruggt sé að hliðin opnist ekki af sjálfsdáðum. Týni vegfarendur bú­fé í skógargirðingum er þeim skylt að koma því út úr girðingu svo fljótt sem unnt er.

15. gr.

    Landbúnaðaráðherra er heimilt, að fengnu áliti skógræktarstjóra, að banna alla þá með­ferð eða nýtingu skóglendis sem ætla má að geti rýrt gæði eða umfang þess eða valdið jarð­vegsrofi.

IV. KAFLI
Um sektir, málsmeðferð o.fl.
16. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum til ríkissjóðs og fer um mál út af þeim brotum að hætti opinberra mála.

17. gr.

    Landbúnaðaráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga eftir tillögum skógræktarstjóra.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um einkarétt ríkisstjórnarinnar til þess að flytja trjáplöntur til landsins, og um eftirlit með innflutningi trjáfræs, nr. 78/1935, með síðari breytingum, lög um skógræktardag skólafólks, nr. 13/1952, lög um skógrækt, nr. 3/1955, með síðari breytingum, og lög um viðauka við lög nr. 3/1955 um skógrækt, nr. 22/1966.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Fyrstu lög sem sett voru um skógrækt á Íslandi voru lög nr. 54/1907, um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands. Í lögunum segir að hefja skuli skógrækt „með því markmiði að friða og bæta skóga þá og skógarleifar sem enn eru hér á landi, rækta nýjan skóg og leið­beina landsmönnum í meðferð skógar og gróðursetningu“. Með lögunum var komið á sér­stöku embætti skógræktarstjóra og þá var ráðherra heimilað að skipa skógarverði eftir þörf­um, en tala þeirra og laun skyldu ákveðast í fjárlögum.
    Lög nr. 54/1907 voru felld úr gildi með lögum um skógrækt, nr. 100/1940. Þau lög voru mun ítarlegri en hin fyrri, en markmiðin voru hins vegar nánast hin sömu. Lögin geymdu m.a. ákvæði um meðferð skóga, kjarrs og friðunar á lyngi, um friðun og ræktun skóga og um með­ferð skógarítaka. Þá var í lögunum ákvæði um Skógræktarfélag Íslands og viðurkenningu þess sem sambands skógræktarfélaga í landinu.
    Lög nr. 100/1940 voru numin úr gildi með núgildandi lögum nr. 3/1955, um skógrækt, sbr. enn fremur viðauka við þau lög nr. 22/1966. Í gildandi lögum eru ítarleg ákvæði í II. og III. kafla laganna um meðferð skóga, kjarrs og lyngs og um friðun og ræktun skóga. Ákvæði eru um viðbrögð við óheimilli beit í skóglendum, löggirðingar um skóglendi o.fl. sem ekki þykir ástæða til að taka upp í nýjum lögum, enda hafa önnur lög að geyma ákvæði um girðingar, vörsluskyldu búfjár og fleira sem að slíku lýtur. Enn fremur eru ákvæði um friðun, ræktun og meðferð skóglendis færri í frumvarpi þessu en í núgildandi lögum, enda ekki talin þörf á jafnítarlegum ákvæðum og nú gilda til að markmiðum þeirra verði náð. Að öðru leyti er um efnisatriði frumvarps vísað til athugasemda við einstakar greinar.
    Helstu nýmæli frumvarpsins eru ákvæði um skógráð, sem er ráðgjafandi nefnd um skógar­mál, ákvæði um landsáætlun í skógrækt, sem landbúnaðarráðherra ber að leggja fyrir Alþingi til samþykktar, og enn fremur er staðfest með frumvarpinu hver núverandi hlutverk og verk­efni Skógræktar ríkisins eru. Frá setningu gildandi laga um skógrækt, nr. 3/1955, hafa hlut­verk Skógræktar ríkisins breyst. Sú þróun hefur orðið á síðustu árum að stofnunin hefur hætt eða dregið verulega úr ýmsum verkefnum sem áður voru áberandi í starfsemi stofnunarinnar, svo sem plöntuframleiðslu og gróðursetningu, og þess í stað snúið sér að rannsóknum, fræðslu og leiðbeiningum um alla þætti skógræktar, fyrir stjórnvöld, einstaklinga og félög.
    Ýmis stjórnvöld og stofnanir á þeirra vegum fara með hlutverk og verkefni sem með ein­hverjum hætti geta snert skógrækt og skógvernd í rúmri merkingu þeirra orða. Hér má sem dæmi nefna að Náttúrufræðistofnun sem heyrir undir umhverfisráðuneytið heldur skrá um einstaka þætti íslenskrar náttúru og veitir aðstoð með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og áhrifum mannvirkjagerðar og annarrar landnotkunar á náttúr­una. Þá starfar Náttúruvernd ríkisins, sem heyrir enn fremur undir umhverfisráðuneytið, að náttúruvernd, undirbýr m.a. friðlýsingu svæða, hefur umsjón með gerð verndaráætlana fyrir náttúruverndarsvæði og skráir náttúruminjar. Samkvæmt skipulagslögum er það hlutverk sveitarfélaga að taka ákvarðanir um landnotkun.
    Með setu fulltrúa frá nefndum aðilum í skógráði er tryggt að í framkvæmd verði ekki skörun á verkefnum samkvæmt þessu frumvarpi og samkvæmt öðrum lögum og að sérþekk­ing þeirra geti nýst við framkvæmd verkefna sem beint lúta að skógrækt og skógvernd.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í a-lið greinarinnar felast sömu efnisatriði og eru í núgildandi lögum um friðun, vernd og ræktun skóga. Hér koma einnig fram almenn markmið með skógrækt, þ.e. til nytja, landbóta og útivistar. Með nytjum er átt við alls konar afnot af skóglendi, svo sem viðarnytjar, tínslu berja, sveppa og jurta, veiðar o.fl. Skógrækt til landbóta getur falið í sér uppgræðslu illa gróins lands, aukningu á fjölbreytni lands og lífríkis og hvers kyns verðmætaaukningu sem skógrækt hefur í för með sér. Reynslan hérlendis og erlendis er að skógar eru yfirleitt nýttir til útivistar, óháð upphaflegu markmiði. Flestir ef ekki allir skógar verða því fjölnytjaskógar.
    Í b-lið er það markmið sett að halda skuli uppi rannsókna-, fræðslu- og leiðbeiningarstarfi í þágu skógræktar. Vegna legu Íslands, ríkjandi landnýtingar og skógleysis eru skógræktar­skilyrði önnur en í öðrum löndum sem liggja á svipaðri breiddargráðu. Rannsóknir frá öðrum löndum er því ekki hægt að heimfæra sjálfkrafa á Íslandi. Skógræktarrannsóknir eru nauð­synlegar fyrir farsælan framgang skógræktar á Íslandi. Þær hafa aukist mjög á síðustu árum og er um fjórðungi af fjárveitingum ríkisins til Skógræktar ríkisins varið til rannsókna. Þá eru rannsóknir grundvöllur fræðslu og leiðbeininga í skógrækt.

Um 2. gr.

    Orðaskýringar eru um nýmæli. Orðið þjóðskógar er hér notað yfir lönd þau sem Skógrækt ríkisins hefur umsjón með. Á orðið að undirstrika að þetta skóglendi er eign þjóðarinnar og rekið í þágu hennar. Þjóðskógur er þó ekki eins og þjóðgarður þar sem helsta markmið er náttúruvernd. Í þjóðskógum geta verið mörg og misjöfn markmið milli einstakra skóga eða innan sama skógar, svo sem verndun, útivist, fræðslugildi, tilraunir, framleiðsla afurða o.fl. Eitt hlutverka þjóðskóga yrði t.d. að vísa veginn í sambandi við ræktun og meðferð skóga í timburskógrækt.

Um 3. gr.

    Greinin er í samræmi við 2. gr. núgildandi laga um að landbúnaðarráðherra fari með yfir­stjórn skógræktarmála.
    Nýmæli er að gera skuli landsáætlun í skógrækt og endurskoða á fimm ára fresti. Er þetta í samræmi við þingsályktunartillögu um sama efni frá 1997, 546. mál á 121. löggjafarþingi.

Um 4. gr.

    Greinin er nýmæli og fjallar um ráðgefandi nefnd um skógarmál, skógráð, sem ráðherra skipar, og hlutverk hennar. Ráðið er skipað fulltrúum hagsmunaaðila um skógrækt, enda þykir æskilegt að sem flest sjónarmið geti komið fram innan ráðsins. Fulltrúi áhugamanna um skógrækt er tilnefndur af Skógræktarfélagi Íslands. Landssamtök skógareigenda tilnefna fulltrúa til að gæta sjónarmiða skógareigenda. Sveitarfélög eiga mörg hver skóglendi og ættu að gæta hagsmuna hins almenna skógarnotanda. Náttúruvernd ríkisins hefur umsjón með allstóru skóglendi og hefur náttúruvernd að leiðarljósi. Náttúrufræðistofnun hefur með höndum skráningu og rannsóknir á náttúru landsins og ætti að gefa faglega breidd í skógráð. Landgræðsla ríkisins hefur umsjón með stórum svæðum þar sem lokamarkmið landgræðslu er endurheimt skóglendis. Fulltrúi Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins eykur faglegt vægi innan ráðsins.
    Helsta hlutverk ráðsins verður að vinna að stefnumörkun í skógrækt og má gera ráð fyrir tíðari fundum þegar kemur að því að ganga frá útgáfu hennar, en fundir þess á milli verða sennilega einn til tveir á ári.

Um 5. gr.

    Greinin geymir mun ítarlegra ákvæði um viðfangsefni Skógræktar ríkisins en núgildandi lög. Greinin er staðfesting á þeim hlutverkum sem Skógrækt ríkisins hefur nú þegar tekið að sér en ekki eru talin upp í núgildandi lögum. Hlutverk og verkefni stofnunarinnar eru talin upp í átta töluliðum og á bæði almenningi og stjórnvöldum að vera ljóst hver verkefni stofn­unarinnar eru. Starfsemi Skógræktar ríkisins hefur aukist og breyst um margt á síðustu árum. Auk skóggræðslu, skógvörslu, rannsókna og styrkveitinga til skógræktar er mikið starf unnið á sviði áætlanagerðar, leiðbeininga, fræðslu og afurðamála.
    Rétt þykir að mæla fyrir um starfssvið og deildarskiptingu Skógræktar ríkisins með reglugerðarheimild.

Um 6. gr.

    Hér er áréttað að auk þess að gegna þeim hlutverkum sem tilgreind eru í 5. gr. skuli starf­semi Skógræktar ríkisins taka mið af stefnumörkun og landsáætlun á vegum skógráðs og ráð­herra.

Um 7. gr.

    Greinin er nýmæli en er að öllu leyti staðfesting á núverandi skipan mála.
    Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá hóf starfsemi árið 1967. Starfsemi stöðvar­innar var lengi mjög takmörkuð vegna fjárskorts. Rannsóknastöðin hefur hins vegar eflst mjög á síðustu árum og margvíslegar rannsóknaniðurstöður liggja nú fyrir sem eru til þess fallnar að efla skógrækt og auka arðsemi hennar. Hér er einnig staðfest að það sé hlutverk Skógræktar ríkisins að sjá um skógræktarrannsóknir. Þar með verða þær í nánum tengslum við aðra starfsemi stofnunarinnar, svo sem skógvörslu og ráðgjöf.

Um 8. gr.

    Greinin á sér hliðstæðu í núgildandi lögum. Þar er heill kafli um hvernig skuli styrkja nytjaskógrækt á bújörðum en ekkert um annars konar styrki sem hafa þó unnið sér fastan sess, sbr. landgræðsluskógaverkefnið. Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi um landshlutabundin verkefni í skógrækt og er gert ráð fyrir að í framtíðinni verði í tengslum við slík sérstök landshlutabundin skógræktarverkefni veitt framlög til skógræktarverkefna á veg­um einstaklinga og félaga og að hlutverk Skógræktar ríkisins í þeim efnum verði áætlanagerð og faglegt eftirlit en ekki styrkveitingar. Á næstu árum verður þó millibilsástand á meðan landshlutabundnu verkefnin eru að mótast og nauðsynlegt er að Skógræktin geti haldið áfram að veita styrki í einhverjum takmörkuðum mæli á meðan. Þá geta komið upp ófyrirséðar ástæður fyrir því að ríkisvaldið kjósi að veita framlög til skógræktar í gegnum Skógrækt ríkisins.

Um 9. gr.

    Heimild til að leigja lönd í eigu Skógræktar ríkisins er í núgildandi lögum en háð því að leigutaki rækti þar barrskóg. Þar eru einnig erfðafestuákvæði sem hafa gert það að verkum að leiga á landspildum er ekki fýsilegur kostur fyrir stofnunina. Hins vegar er jákvætt að geta komið til móts við ræktunarþörf fólks með því að leigja landsspildur til skógræktar. Í flestum tilvikum er gert ráð fyrir að leigugjaldið verði ekki annað en ræktun skógar á svæðinu þannig að hér er ekki um tekjulind fyrir stofnunina að ræða. Lóðaleiga í skóglendi, t.d. undir þorpið í Hallormsstaðaskógi og einstakar sumarbústaðalóðir, skapar nokkrar tekjur en sú starfsemi verður ávallt takmörkuð þar sem hlutun þjóðskóganna niður í einkalóðir stangast á við mark­mið um aðgengi almennings, sbr. d-lið 5. gr. Þá getur stofnunin einnig haft hag af því að fela öðrum umsjón með tilteknum svæðum, sbr. til hliðsjónar umsjón Skógræktarfélags Suður-Þingeyjarsýslu á Fossselsskógi.

Um 10. gr.

    Greinin er nýmæli. Skrá yfir skóglendi Skógræktar ríkisins er til hjá stofnuninni, en hér er gert ráð fyrir mun ítarlegri skrá sem er nauðsynleg við gerð áætlana á landsvísu og ætti að vera aðgengileg þeim sem þess óska. Slík skrá verður einnig mikið og gott heimildargagn um stöðu skógræktar hverju sinni og þróun mála. Kortlagning skógræktarskilyrða er einnig nauðsynlegt hjálpargagn við stefnumörkun í skógrækt. Sérstök skrá um nýgróðursetningar er einkum ætluð til þess að hægt verði að fylgjast með flatarmáli nýmarka í tengslum við bindingu koltvísýrings.

Um 11. gr.

    Ráðherra er ætlað að skipa skógræktarstjóra en samkvæmt núgildandi lögum er hann skip­aður af forseta Íslands. Skógræktarstjóra er ætlað að ráða sérmenntaða starfsmenn stofnun­arinnar, en samkvæmt núgildandi lögum skipar ráðherra skógarverði. Breyting þessi er í samræmi við ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Menntunarkröfur til skógræktarstjóra eru þær sömu eða sambærilegar og í núgildandi lögum.

Um 12. gr.

    Greinin er nýmæli og fjallar um gerð ræktunaráætlana. Gert er ráð fyrir að ráðherra, í samráði við Skógrækt ríkisins, gefi út nákvæmar leiðbeiningar um innihald ræktaráætlana hverju sinni. Þar eð gerð skógræktaráætlana er nýlegt fyrirbæri hér á landi og enn í örri þró­un þykir ekki rétt sem stendur að binda nákvæmar leiðbeiningar í lögum. Við gerð ræktunar­áætlana um ræktun nýmarka verður að sjálfsögðu að hafa í huga ákvæði í lögum og reglum sem meðal annars kveða á um fjarlægð framkvæmda frá vegum, raflínum og mannvistarminj­um. Þá er hér mælt fyrir um að taka skuli tillit til náttúruverndargildis lands þegar verið er að skipuleggja nýskógrækt.
    Meðferð eldri skóga, einkum grisjun, er fyrirferðarmikill þáttur í starfsemi Skógræktar ríkisins og verður æ fyrirferðarmeiri. Þá verður grisjun einnig þáttur í nytjaskógrækt á bú­jörðum og starfi skógræktarfélaga. Um miðja 21. öld verður komið að lokafellingu í elstu nytjaskógarreitum og þaðan í frá verður um reglubundið skógarhögg og endurnýjun þeirra skóga að ræða. Hér er gert ráð fyrir að tillit sé tekið til allskonar skógarnytja, þ.m.t. útivistar og umhverfisþátta, þegar verið er að skipuleggja meðferð skógar.
    Samkvæmt 13. gr. er gert ráð fyrir að leggja þurfi fram formlega áætlun, sem Skógrækt ríkisins samþykkir, þar sem fjallað verði m.a. um framangreind atriði þegar um lokafellingu er að ræða. Ekki eru sett hér skilyrði um formlega áætlun í hvert skipti sem skógarreitur er grisjaður þó að slíkar áætlanir verði einnig gerðar fyrir grisjun þar sem um stærri fram­kvæmdir er að ræða.

Um 13. gr.

    Greinin geymir fyrirmæli um meðferð skóga og skóglenda. Hliðstæð ákvæði eru í II. kafla núgildandi laga. Ákvæði greinarinnar byggjast á reynslu liðinna áratuga og miða að því að markmið vegna meðferðar skóga og skóglenda náist. Í framkvæmd þýðir þetta að hver sá sem vill höggva skóg þarf að leggja fram áætlun um það til Skógræktar ríkisins og fá samþykki hennar.

Um 14. gr.

    Í greininni eru ákvæði sem er að finna í 8., 14. og 15. gr. núgildandi laga. Samkvæmt núgildandi lögum getur skógræktarstjóri varið skóglendi sem er í hættu vegna ofbeitar með því að ríkissjóður kosti friðun þess, en eigendur fjárins sem veldur ofbeitinni bera enga ábyrgð. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að eigandi búfjár beri ábyrgð á að beit þess spilli ekki skóglendi. Í flestum tilvikum er skóglendi sem nýtt er til beitar í heimalöndum bújarða þannig að eigandi skógarins er oftast einnig eigandi búfjárins sem þar er á beit. Að landnot­andi beri ábyrgð á meðferð lands síns er í anda sjálfbærrar þróunar. Þá er óbreytt ákvæði frá núgildandi lögum um að þeir sem kunni að missa búfé (hross, sauðfé, nautgripi) í friðað skóglendi beri ábyrgð á að koma því út af viðkomandi svæði.

Um 15. gr.

    Með tilkomu ræktaðra skóga koma ýmis ný atriði til sögunnar varðandi skóglendi á Ís­landi, svo sem grisjun og skógarhögg. Reynsla erlendis sýnir að ýmsar aðferðir við grisjun og skógarhögg geta rýrt verðmæti og fjölbreytni skógarins, valdið jarðvegsrofi eða hindrað endurnýjun. Ákvæði 13. og 14. gr. eru almennar ábendingar um meðferð skóga í anda sjálfbærrar þróunar. Í 15. gr. felst heimild til að grípa til neyðarúrræða ef í ljós kemur að einhver meðferð skóglendis rýri gæði þess eða umfang eða valdi jarðvegsrofi.
    Rétt er að taka fram að svo virðist sem hófleg beit búfjár yfir sumarið skaði ekki skóga að ráði og afturför skóglendis af völdum beitar virðist mun sjaldgæfari en áður var. Hér er því ekki um að ræða að banna almennar beitarnytjar í skóglendi miðað við ástandið nú. Hins vegar getur verið ástæða til að banna beit í einstökum skóglendum, t.d. þar sem jarðvegsrof er áberandi, þar sem skógi hnignar og endurnýjunar er þörf eða þar sem mikill nýgræðingur er og þörf er á tímabundinni friðun.

Um 16.–18. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um skógrækt og skógvernd.

    Tilgangur frumvarpsins er að laga gildandi lög, sem að stofni til eru frá árinu 1955, að breyttum aðstæðum.
    Þau ákvæði sem helst hafa áhrif á kostnað ríkissjóðs eru í fyrsta lagi að lagt er til að heildstæð landsáætlun í skógrækt verði lögð fyrir Alþingi til samþykktar á fimm ára fresti, fyrst árið 2001. Talið er að kostnaður við fyrstu áætlun verði á bilinu 15–45 m.kr. eftir því hve hún verður ítarleg. Á árinu 1998 er áætlað að verja rúmlega 6 m.kr. til verksins og í fjár­lagafrumvarpi fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir 3,8 m.kr. til viðbótar. Miðað við óbreytt fram­lag árin 2000 og 2001 ætti áætlunin að geta legið fyrir í tæka tíð þótt hún uppfylli þá ekki ýtrustu kröfur. Síðan yrði hún aukin og endurskoðuð á fimm ára fresti.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að sett verði á fót níu manna skógráð sem haldi einn til tvo fundi á ári. Áætla má að þóknun og annar kostnaður við nefndina nemi 100–200 þús. kr. á ári.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að Skógrækt ríkisins fái rýmri heimild til að leigja lönd og fela öðrum umsjón með löndum sínum en í gildandi lögum. Í athugasemd við frumvarpið er ekki gert ráð fyrir að þetta skapi stofnuninni tekjur, en dregið gæti úr kostnaði hennar þótt ekki séu forsendur til að meta heimildina til fjár að svo komnu máli.
    Í fjórða lagi er lagt til að haldin sé skrá yfir skóglendi landsins, skógræktarskilyrði færð inn á kort sem endurnýjuð yrðu á tíu ára fresti og gefin út sérstök skrá um nýja gróðursetn­ingu. Talið er að kostnaður við þetta nemi um 2–3 m.kr. á ári að jafnaði þótt hann verði mis­mikill eftir árum.
    Að lokum falla niður ákvæði í gildandi lögum um styrki til nytjaskógræktar á bújörðum, en þeir hafa numið um 20 m.kr. á ári. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að áformað er að umsjón þessa verkefnis færist til landshlutabundinna skógræktarverkefna verði frumvarp um þau að lögum. Verði það frumvarp ekki að lögum eða landshlutabundin skógræktarverkefni ekki stofnuð mun kostnaður ríkisins af styrkjum lækka eftir því sem þegar gerðir samningar um nytjaskógrækt á bújörðum renna út.
    Niðurstaða þessa mats er að frumvarpið auki árlegan kostnað um 2–3 m.kr.