Ferill 496. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 806  —  496. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsókn á ofbeldi gegn börnum.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er undirbúi og hafi umsjón með rannsókn á orsökum, umfangi og afleiðingum hvers kyns ofbeldis gegn börnum.
    Nefndin geri tillögur um úrbætur og gangi frá skýrslu um málið sem lögð verði fyrir Al­þingi. Nefndin hugi sérstaklega að bættri skráningu ofbeldis og því hvernig greiningu er hátt­að á því ofbeldi sem börn eru beitt.

Greinargerð.


    Vorið 1994 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um rannsóknir á heimilisofbeldi, svo og öðru ofbeldi gegn konum og börnum á Íslandi, eins og segir í fyrirsögn ályktunarinnar. Nefnd var sett á laggirnar og vann hún mikið starf við að kanna heimilisofbeldi, fyrst og fremst það ofbeldi sem konur eru beittar. Nefndin skilaði skýrslu um málið og í framhaldi af henni voru gerðar þrjár skýrslur til viðbótar þar sem bent var á nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr heimilisofbeldi.
    Víðtæk rannsókn á hvers kyns ofbeldi gegn börnum hefur ekki farið fram hér á landi, en að dómi flutningsmanns er nauðsynlegt að greina á milli ofbeldis gegn konum annars vegar og börnum hins vegar. Þar er ekki um sama félagslega fyrirbærið að ræða. Þegar um ofbeldi gegn börnum er að ræða geta bæði konur og karlar verið gerendur og því á ekki að blanda saman rannsókn á þessum tveimur hópum. Hjá börnum bætist við hinn hræðilegi glæpur sem kynferðislegt ofbeldi gegn börnum er, en það fer oftast mjög leynt og kemst iðulega ekki upp fyrr en mörgum árum eftir að því er lokið. Má í því sambandi minna á heimsfræga kvikmynd Danans Thomasar Winterbergs „Veisluna“, þar sem segir frá því er fjölskylda brotnar niður frammi fyrir staðreyndum um kynferðislega misnotkun föður á tveimur börnum sínum sem átti sér stað nokkrum áratugum áður en sagan er sögð.
    Á undanförnum árum hefur athyglin beinst nokkuð að kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, meðferð dómstóla og annarra á slíkum málum, sem og að meðferð og stuðningi við þolendur. Könnun var gerð á sínum tíma á umfangi kynferðisafbrota gagnvart börnum. Könnunin leiddi í ljós mun alvarlegra ástand en menn höfðu gert sér grein fyrir. Að meðaltali komu upp í kringum 100 tilvik á ári, eða 560 tilvik alls á árunum 1992–96. Nýlega var opnað „Barna­hús“ þar sem fengist verður við meðferð barna sem orðið hafa fyrir kynferðisbrotum og er það mikil framför. Því miður hafa fjölmörg mál sem snerta kynferðislega áreitni eða ofbeldi gegn börnum komið til kasta dómstóla á undanförnum árum. Aðrar tegundir ofbeldis hafa ekki verið kannaðar með svipuðum hætti, s.s. ofbeldi í skólum, ofbeldi sem börn beita hvert annað, ofbeldi á götum úti og ofbeldi, annað en kynferðislegt, sem foreldrar eða forráðamenn beita börn sín. Okkur vantar því greinargóðar upplýsingar til að heildarmyndin af ofbeldi gegn börnum verði skýr.
    Á 122. þingi lagði flutningsmaður þessarar tillögu fram fyrirspurn um ofbeldi gegn börn­um eins og það birtist á stærstu heilbrigðisstofnunum okkar. Tölurnar sem fram komu í svar­inu voru ógnvænlegar, en í ljós kom að skráningu upplýsinga var stórlega ábótavant og greining á ofbeldi gegn börnum í skötulíki. Það má því ljóst vera að mikil nauðsyn er á að bæta skráningu og greiningu þeirra tilvika þar sem virðist um ofbeldi að ræða, að ekki sé minnst á þjónustu og ráðgjöf til þeirra barna sem beitt eru ofbeldi. Þá þarf að kanna meðferð dómstóla á hvers kyns ofbeldisbrotum gegn börnum og refsingar fyrir þau. Allir þeir sem vinna með börnum þurfa á fræðslu að halda og það þarf að minna borgara þessa lands á þá skyldu að koma börnum til varnar ef grunur er um misnotkun eða ofbeldi af einhverju tagi.
    Flutningsmaður telur að hér sé um mjög brýnt mál að ræða, enda á ekkert samfélag að þola illa meðferð á börnum, sama af hvaða tagi hún er. Því er þessi tillaga flutt.