Ferill 497. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 807  —  497. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á framtíðarstöðu og þýðingu almannatryggingakerfisins.

Flm.: Magnús L. Sveinsson, Árni M. Mathiesen, Sólveig Pétursdóttir,


Katrín Fjeldsted, Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón Guðmundsson, Pétur H. Blöndal.


    Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að láta gera ítarlega úttekt á framtíðar­stöðu og þýðingu almannatryggingakerfisins, m.a. með tilliti til setningar laga um lífeyris­sjóði á síðasta ári.

Greinargerð.


    Á síðustu missirum hefur farið fram ítarleg umræða í þjóðfélaginu um lífeyris- og tryggingamál. Er það í rökréttu samhengi við almenna þróun þessara mála hér á landi og víða um heim.
    Fyrirsjáanleg veruleg mannfjölgun í heiminum á næstu árum og áratugum, sérstaklega í vanþróuðu ríkjunum, samfara hlutfallslegri aukningu aldraðra í aldurssamsetningu íbúa jarðarinnar, krefst nýs mats á stöðu aldraðra, sem og yngra fólks, sem verður kjarni þess vinnuafls sem stendur undir stöðugt þyngri framfærslubyrði. Þó að hægt sé að mæta mikilli og aukinni framfærsluskyldu sem fram undan er með nútímalegri uppbyggingu söfnunar­lífeyrissjóða ásamt sérsparnaði á það enn langt í land í ríkjum OECD.
    Lífslíkur fólks í heiminum hafa aukist meira á síðustu 50 árum en á næstu 5000 árum þar á undan ( Foreign Affairs, jan/febr. 1999 ). Fram undir iðnbyltinguna miklu í Evrópu og Norður-Ameríku á síðari hluta 19. aldar var fólk 65 ára og eldra 2–3% af öllum íbúum jarðarinnar, eftir því sem næst verður komist. Samkvæmt skýrslu forsætisráðherra um stöðu eldri borgara hérlendis og erlendis, sem lögð var fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi, var meðaltalshlutfall 65 ára og eldri í OECD-ríkjunum 14% árið 1996. Spáð er að árið 2030 verði þetta hlutfall orðið 22,5%. Ísland er nokkuð fyrir neðan meðaltalið og er gert ráð fyrir að á þessum tíma muni hlutfall aldraðra hér á landi hækka úr 11,5% í 18,8%. Þetta þýðir að árið 2030 verða 3,3 á vinnualdri á hvern lífeyrisþega, samanborið við 6,6 nú. Af þessum tölum sést að mikil hlutfallsleg fjölgun lífeyrisþega verður á næstu áratugum. Því er nauð­synlegt að bregðast við henni í tíma til að tryggja sem best að lífeyrisþegar geti búið við sómasamleg kjör þegar þeir hverfa af vinnumarkaðinum.
    Tryggingar, eftirlaun og aðrar tryggingagreiðslur til aldraðra, eru mjög mikilvægur þáttur í velferðarþjóðfélagi. Í hinum háþróuðu ríkjum innan OECD hafa forráðamenn þegar gert sér grein fyrir þýðingu þess að tryggingakerfi viðkomandi ríkja verði eflt. Horfa menn þá helst til svonefnds tveggja stoða kerfis, þ.e. almannatrygginga á vegum hins opinbera og sjálfstæðra lífeyrissjóða, einkum samtryggingarsjóða. Enn hefur ekki náðst endanleg sátt um hvernig þessi tvö tryggingakerfi starfi hlið við hlið. Skapar það nokkra óvissu fyrir megin­þorra fólks sem þegar er orðið 65 ára og eldra og einnig fyrir hina fjölmennu árganga á bilinu 50–65 ára sem munu koma með auknum þunga inn í kerfi eftirlaunatrygginga á næstu árum.
    Þó að Íslendingar eigi því láni að fagna að aðilar vinnumarkaðarins hafa af fyrirhyggju stofnað lífeyrissjóði á grundvelli samtryggingar á síðustu áratugum er fjarri því að þessir sjóðir geti einir staðið undir þeirri skyldu að veita almennum launþegum fullnægjandi lífeyri að lokinni starfsævi. Auk þess hefur fjöldi fólks ekki greitt í lífeyrissjóð fyrr en nú á þessu ári samkvæmt nýjum lögum. Þá hefur stefna hins opinbera í skattamálum mikil áhrif á hversu stór hluti greiðslu til lífeyrissjóðsins skilar sér í vasa lífeyrisþegans þegar hann ætlar að njóta þess sem hann hefur lagt til hliðar af launum sínum til að tryggja að hann geti búið við mannsæmandi lífskjör að lokinni starfsævi.
    Þá er ekki síður mikilvægt að réttur fólks til greiðslna úr almannatryggingakerfinu sé ekki skertur á jafnranglátan hátt og nú. Með sköttum greiða allir ákveðið iðgjald sem samkvæmt anda laga um almannatryggingar skapar rétt til óskerts grunnlífeyris. Ákvæði um tekjutengda skerðingu felur í sér að hópur fólks nýtur engra eftirlauna hjá Tryggingastofnun ríkisins.
    Í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að almannatryggingakerfið verði endurskoðað í ljósi þeirrar þróunar sem hefur orðið á Íslandi í uppbyggingu lífeyrissjóða. Heildarendurskoðun hefur ekki enn farið fram, þótt nokkuð hafi verið fjallað um suma þætti almannatrygginga.
    Almannatryggingakerfið á Íslandi er afar flókið og því dýrt í rekstri. Nauðsynlegt er að gera það einfaldara og skilvirkara. Almannatryggingar munu um langa framtíð skipa varan­legan sess í eftirlaunamálum fólks. Enn er langt í land að lífeyrissjóðirnir geti tekið við hlut­verki almannatryggingakerfisins. Flestir almennu lífeyrissjóðirnir eru ungir að árum og fjöldi fólks hafði ekki greitt í lífeyrissjóð fyrr en frá síðustu áramótum. Mikilvægt er að allir sitji við sama borð varðandi rétt á bótum úr almannatryggingakerfinu. Þeir sem á undanförnum árum hafa greitt tiltekna upphæð til lífeyrissjóða búa við skertar eftirlaunagreiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna tekjutengingar. Þeir sem ekkert hafa greitt til lífeyrissjóðs fá hins vegar fullar bætur. Hér er verið að hegna þeim sem hafa sýnt fyrirhyggju og látið hluta af launum sínum renna til lífeyrissjóða.
    Með tilliti til þess sem að framan greinir, er nauðsynlegt að ítarleg könnun verði gerð á stöðu þessara mála nú. Á grundvelli hennar verði gerðar áætlanir um greiðslur úr hinu tví­þætta tryggingakerfi, þ.e. almannatryggingakerfinu og lífeyrissjóðum, með það að megin­markmiði að fólki sé ekki mismunað með greiðslum úr almannatryggingakerfinu og eftirlaun nægi til að mæta þörfum fólks til að lifa sómasamlegu lífi.