Ferill 505. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 817 — 505. mál.
                             


Tillaga til þingsályktunar



um útflutning á íslenskri dægurlagatónlist.

Flm.: Magnús Árni Magnússon.



    Alþingi ályktar að skipa skuli nefnd fagaðila og aðila úr menntamálaráðuneyti, viðskipta­ráðuneyti og utanríkisráðuneyti til að skoða hvernig íslenska ríkið gæti stutt útflutning á íslenskri dægurlagatónlist.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hafa Íslendingar verið að opna augun fyrir þeim miklu tækifærum sem felast í útflutningi á dægurlagatónlist. Velgengni ákveðinna íslenskra listamanna á erlendum mörkuðum hefur sýnt að við eigum sóknarfæri þegar íslensk popptónlist er annars vegar og að fátt getur vakið eins mikla athygli á landi og þjóð meðal alþýðu manna í hinum stóra heimi og vel kynntir einstaklingar eða hljómsveitir á sviði dægurlagatónlistar.
    Því er full ástæða til að skoða í fullri alvöru hvað íslenska ríkið getur lagt af mörkum til að styðja alþjóðlega markaðssókn íslenskra popptónlistarmanna sem oftast eru ungir að árum, févana og reynslulausir í viðskiptum. Þessar aðgerðir þyrftu ekki að vera fjárfrekar og gætu til að mynda falist í því að koma á tengslum við áhrifaríka einstaklinga innan þessarar atvinnu­greinar og halda til haga upplýsingum um hvernig á að bera sig að við markaðssetningu popp­tónlistar. Einnig þarf að gera gagngera úttekt á því skattaumhverfi sem popptónlistarmenn búa við hér á landi til að við missum þá ekki úr landi eins og dæmi eru um.
    Skynsamlegt væri að horfa til þeirrar reynslu og þekkingar sem skapast hefur í Svíþjóð, en Svíar eru nú annar stærsti útflutningsaðili popptónlistar í Evrópu og eru það einungis Bretar sem standa þeim framar. Þess má geta að útflutningstekjur Svía af popptónlist voru á síðasta ári milli 20 og 30 milljarðar íslenskra króna.