Ferill 511. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 823  —  511. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Kennaraháskóla Íslands, nr. 137/1997.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.

    Á eftir III. kafla laganna kemur nýr kafli, IV. kafli, Kennsla, framkvæmd prófa, agaviðurlög, með þremur nýjum greinum, svohljóðandi:


    a. (10. gr.)
    Háskólaráð skal setja reglur um prófgráður, prófgreinar, próftíma, prófdómara, endur­tekningu prófa, viðurkenningu erlendra prófa, skiptingu fullnaðarprófs í fleiri en einn hluta, undirbúningspróf, einkunnir og annað er að prófum lýtur. Heimilt er í reglum háskólaráðs að kveða á um hámarkstímalengd í námi eða einstökum hlutum þess og um afleiðingar ef þeim ákvæðum er ekki fullnægt. Háskólaráð skal enn fremur setja almennar reglur um meistara- og doktorsnám, svo og um vörn sérstakra doktorsritgerða. Háskólakennarar standa fyrir prófum, en hver deild ræður tilhögun prófa hjá sér að svo miklu leyti sem ekki eru sett bindandi ákvæði um það í lögum eða reglum háskólaráðs. Sameiginleg stjórnsýsla háskólans annast skipulag og framkvæmd prófa.

    b. (11. gr.)
    Stúdent á rétt til að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Vilji stúdent sem ekki hefur staðist próf þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi deildarforseta. Skal þá prófdóm­ari skipaður í hverju tilviki. Einnig getur kennari eða meiri hluti nemenda, telji þeir til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi. Rektor skipar prófdómendur að fengnum tillögum háskóladeildar.

    c. (12. gr.)
    Rektor getur veitt stúdent áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu, ef hann hefur gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum háskólans, eða framkoma hans gagnvart starfsmönnum háskólans eða öðrum stúdentum er ósæmileg eða óhæfileg. Áður en ákvörðun um brottrekstur er tekin skal leita umsagnar háskóladeildar og gefa stúdentinum kost á að tjá sig um málið. Stúdent er heimilt að skjóta ákvörðun rektors til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um háskóla. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar rektors. Rektor getur að hæfilegum tíma liðnum heimilað stúdent sem vikið hefur verið að fullu úr skóla að skrá sig aftur til náms í háskólanum ef aðstæður hafa breyst. Stúdent er heimilt að skjóta synjun rektors um skráningu til áfrýjunarnefndar.

2. gr.

    Á eftir 10. gr. laganna, sem verður 13. gr., koma tvær nýjar greinar, svohljóðandi:

    a. (14. gr.)
    Kennaraháskóla Íslands skal heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar lögmæltu þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Honum er enn fremur heimilt að taka gjöld fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Háskólaráð setur nánari reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjaldanna.
    Háskólaráði er heimilt að semja við félög stúdenta, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir hönd Kennara­háskóla Íslands enda sé farið að ákvæðum í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.

    b. (15. gr.)
    Að fenginni tillögu viðkomandi deildarfundar hefur háskólaráð rétt til þess að veita doktorsnafnbót. Slíka nafnbót má veita í heiðursskyni, að undangengnu doktorsnámi eða með vörn doktorsritgerðar. Háskólaráð setur sérstakar reglur um veitingu doktorsnafnbótar, þ.m.t. um doktorsnám og um vörn doktorsritgerða.

3. gr.

    Fyrirsögn IV. kafla laganna, sem verður V. kafli, verður: Rannsóknir og gjaldtaka fyrir þjónustu o.fl.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lagafrumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á nýsettum lögum um Kennaraháskóla Íslands. Eru tillögur þessar lagðar fram í ljósi niðurstöðu endurskoðunar á lögum um Há­skóla Íslands og fluttar í þeim tilgangi að tryggja jafnræði sambærilegra háskólastofnana á vegum ríksins.
    Í 1. gr. frumvarpsins eru dregnar saman reglur sem varða prófgráður, framkvæmd prófa, prófdómara og fleira. Miðað er við að háskólaráð setji reglur um þessi efni en reynslan hefur kennt að brýnt er að enginn vafi leiki á um þetta atriði. Vakin er athygli á því að samkvæmt frumvarpinu er það rektor sem skipar prófdómendur en ekki menntamálaráðherra svo sem verið hefur.
    Varðandi meðferð kærumála er efni greinar þessarar í samræmi við það sem verið hefur. Þó er í frumvarpinu sérstaklega kveðið á um rétt stúdenta til þess að skjóta ákvörðun um viðurlög til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um háskóla. Með því að stúdent geti skotið álitamálum sem að þessu lúta til sjálfstæðs úrskurðaraðila er mikilvægt að agaviðurlög styðjist við heimildir í lögum þar sem um íþyngjandi ákvarðanir er að ræða af hálfu háskólayfirvalda.
    Í 2. gr. frumvarpsins er m.a. fjallað um annars vegar gjöld fyrir þjónustu sem Kennarahá­skóli Íslands veitir og hins vegar gjöld sem hann greiðir fyrir þjónustu. 1. mgr. 14. gr. er ætlað að veita heimild til þess að taka gjald fyrir þjónustu sem Kennaraháskóli Íslands lætur í té. Með hliðsjón af 3. mgr. 19. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997, er hér einkum átt við þjónustu sem háskólinn veitir og er fyrir utan hina lögboðnu þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Rökin fyrir gjaldtökuheimildinni eru þau að háskólinn hefur ekki heimild í lögum til að taka gjald fyrir margvíslega þjónustu utan þeirrar lögmæltu þjónustu sem honum er skylt að veita. Dæmi um slíkt gæti verið aukin þjónusta vegna tölvuaðgangs og innhringi­sambanda fyrir þá stúdenta sem þess óska. Einnig gæti hér fallið undir gjaldtaka fyrir veitingu vottorða um námsástundun og próf sem er utan reglulegrar upplýsingagjafar um þetta efni. Með þessu ákvæði er lagt til að þessi möguleiki verði rýmkaður en um leið er lögð áhersla á að ákvarðanir um slík þjónustugjöld verða að byggjast á þeim kostnaði sem felst í því að veita þjónustuna. Enn fremur er lögð áhersla á að heimildin tekur til þess að taka gjald fyrir endurmenntun.
    2. mgr. 14. gr. er ætlað að tryggja með ótvíræðum hætti að háskólaráði sé heimilt að ganga til samninga við félög stúdenta eða önnur félög um tiltekin afmörkuð rekstrarverkefni sem falla ekki undir þá lögmæltu þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Eins má fela fyrirtækjum, samtökum eða stofnunum að sinna þessum verkefnum. Hér undir geta fallið ýmis verkefni er varða til dæmis stoðþjónustu við stúdenta. Gert er ráð fyrir því að það sé á valdi háskólaráðs að semja við félög stúdenta um þjónustu af þessu tagi.
    Ákvæði greinar þessarar varðandi veitingu doktorsnafnbótar eru í samræmi við ákvæði laga sem gilt hafa um Háskóla Íslands þar að lútandi og þarfnast ekki skýringa. Eðlilegt þykir að Kennaraháskóli Íslands hafi sams konar heimildir og aðrar háskólastofnanir til þess að veita doktorsnafnbót.
    Fyrirsögn IV. kafla er breytt til samræmis við efni frumvarps þessa og V. kafli verður VI. kafli. Að öðru leyti er ekki þörf frekari skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum
um Kennaraháskóla Íslands, nr. 137/1997.

    Í frumvarpinu eru í fyrsta lagi settar reglur um meðferð kærumála. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að háskólaráð hafi heimild til að setja reglur um ýmislegt sem lýtur að prófum og námstíma nemenda. Í þriðja lagi er skólanum heimilað að veita doktorsnafnbót og að lokum er gert ráð fyrir heimild til að taka gjald fyrir þjónustu sem hann veitir án þess að vera það skylt lögum samkvæmt.
    Ekki verður séð annað en að frumvarpið, verði það að lögum, hafi óveruleg áhrif á kostnað ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að skýrari heimildir til gjaldtöku af nemendum og öðrum sem nota þjónustu skólans muni gera honum kleift að auka þjónustu sem spurt er eftir.