Ferill 526. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 846  —  526. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.

    3. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starf­semi, svo sem fyrir eftirlit, útgáfu starfsleyfa og vottorða, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Leita skal umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar og hollustuháttaráðs áður en gjaldskrá er sett. Upphæð gjaldsins skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á og má gjaldið ekki vera hærra en sá kostn­aður. Hvert eftirlitssvæði skal hafa sameiginlega gjaldskrá og skal hlutaðeigandi heilbrigðis­nefnd láta birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign tvö ár eftir gjalddaga þegar leyfi eða þjónusta er tengd notkun fasteignar. Heimilt er utanríkisráðherra að setja gjaldskrá og inn­heimta gjald á varnarsvæðum. Umhverfisráðherra skal gefa út leiðbeinandi reglur um upp­byggingu gjaldskráa sveitarfélaga.

2. gr.

    25. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarfélög geta sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim, enda falli þau undir lögin. Heimilt er auk annars að setja í slíkar samþykktir ákvæði um:
     1.      bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds,
     2.      meðferð úrgangs og skolps,
     3.      gjaldtöku fyrir leyfi, leigu eða veitta þjónustu,
     4.      ábyrgðartryggingar.
    Heilbrigðisnefnd semur drög að samþykktum og breytingum á þeim og leggur fyrir við­komandi sveitarstjórn sem afgreiðir þau í formi samþykktar til ráðherra. Sé um að ræða ný­mæli í samþykktum sveitarfélaga skal ráðherra leita umsagnar Hollustuverndar ríkisins áður en hann staðfestir samþykktina.
    Synji ráðherra staðfestingar endursendir hann samþykktina til sveitarstjórnar með leið­beiningum um hvað þurfi til að til staðfestingar komi.
    Samþykktir samkvæmt þessari grein skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda á kostnað hlut­aðeigandi sveitarfélaga.
    Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. mgr. að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rök­studdum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign tvö ár eftir gjalddaga þegar leyfi, leiga eða þjónusta er tengd notkun fasteignar. Sveitarfélag skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu taka mið af því að sveitarfélögin geti án afskipta ráðuneytisins sett sér gjaldskrár fyrir eftirlitsskylda starfsemi, leyfi, leigu eða veitta þjónustu og að ráðuneytið gefi út leiðbeinandi reglur um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga. Ráðherra skal ekki lengur setja hámarksgjaldskrá fyrir eftirlitsskylda starf­semi, sbr. 12. gr. laganna, heldur leiðbeinandi reglur um uppbyggingu gjaldskráa sem settar eru á grundvelli 1. gr. þessa frumvarps. Þar sem viðurkennt er að kostnaður við eftirlit getur verið mismunandi eftir svæðum þykir ekki rétt að ráðherra setji hámarksgjaldskrá, auk þess sem þessi mál eru á ábyrgð sveitarfélaganna sem reka eftirlitið og eru ábyrg fyrir því. Með því að fela ráðherra að setja leiðbeinandi reglur um uppbyggingu gjaldskráa er komið til móts við kröfur atvinnulífsins um samræmda uppbyggingu á gjaldskrám einstakra sveitar­félaga en ráðherra er ekki lengur falið að setja reglur um sjálfa gjaldtökuna, þ.e. upphæð gjalda. Gjaldtaka sveitarfélaga skal vera rökstudd og má gjaldið ekki vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem almennt hlýst af veittri þjónustu eða framkvæmd eftirlits með ein­stökum þáttum. Er þetta í samræmi við viðurkenndar reglur um innheimtu þjónustugjalda. Frumvarpið snertir framkvæmd laganna með tvennum hætti, annars vegar með gjaldtöku fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit og hins vegar með ýmiss konar gjaldtöku í framhaldi af samþykktum sveitarfélaga, svo sem um hundahald, kattahald og meðferð úrgangs og skolps.
    Með framangreindum hætti yrði það hlutverk sveitarfélaganna að standa ábyrg fyrir gjald­tökumálum á öllum stigum og það yrði hvorki hlutverk ráðuneytisins að staðfesta slíkar gjaldskrár né birta, heldur sveitarfélaga sjálfra. Með því er virtur að fullu ákvörðunarréttur sveitarfélaga í þeim málaflokkum sem ákvæði þessa frumvarps fjalla um.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er sveitarfélögum veitt heimild til að setja sér gjaldskrá fyrir eftirlitsskylda starfsemi en þar er um að ræða heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit, sbr. 3. gr. laganna. Með gjaldtöku fyrir eftirlitsskylda starfsemi er átt við alla þá starfsemi sem fylgir viðkom­andi eftirliti, svo sem útgáfu starfsleyfa og vottorða og eftirlit. Hvert eftirlitssvæði getur sett sér eigin gjaldskrá sem gildir fyrir viðkomandi eftirlitssvæði. Gjaldskrárnar eru á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags og skal hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Rétt þykir að auk heilbrigðisnefndar þess eftirlitssvæðis sem í hlut á veiti hollustuháttaráð umsögn um gjaldskrár sem settar eru enda varða þessar gjaldskrár atvinnu­starfsemi. Í leiðbeinandi reglum ráðherra skal getið um út frá hvaða þáttum gjaldskrá skuli reiknuð.

Um 2. gr.


    Í 5. mgr. 2. gr. frumvarpsins er að finna efnisbreytingu á 25. gr. laganna. Ekki er lengur gert ráð fyrir að ráðherra hafi heimild til að setja hámarksgjaldskrá. Þetta er í samræmi við það sem fram kom í almennum athugasemdum um að ekki þyki rétt að ráðherra setji hámarksgjaldskrá.
    Sú breyting er lögð til að sveitarfélög hafi heimild til að setja gjaldskrár á eigin ábyrgð sem ráðherra staðfesti ekki. Slíkar gjaldskrár eru hins vegar settar á grundvelli samþykkta sem ráðherra hefur staðfest, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Þar sem sveitarfélög geta sett sér eigin gjaldskrár án staðfestingar ráðherra ber sveitarfélagi að láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórn­artíðinda og er það breyting á því fyrirkomulagi sem nú er þar sem ráðherra lætur birta slíkar gjaldskrár.
    Greinin er að öðru leyti efnislega óbreytt en röð málsgreina er breytt þannig að fyrst er fjallað um samþykktir sveitarfélaga, sbr. 1.–4. mgr., en í 5. mgr. er fjallað um gjaldskrár, enda eru gjaldskrár sveitarfélaga settar í framhaldi af samþykktum sveitarfélaga eftir að ráð­herra hefur staðfest þær.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breytingu á lögum
um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

    Tilgangur frumvarpsins er að heimila sveitarfélögum að setja, án afskipta ríkisvaldsins, gjaldskrár til að afla tekna sem standi undir kostnaði heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits af eftirlitsskyldri starfsemi og öðru sem þau setja samþykktir um. Jafnframt er lagt til að utanríkisráðherra sé heimilt að setja gjaldskrá og innheimta gjald á varnarsvæðum fyrir eftir­litsskylda starfsemi og að umhverfisráðherra gefi út leiðbeinandi reglur um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga fyrir slíka starfsemi.
    Verði frumvarpið að lögum mun umhverfisráðuneytið ekki lengur staðfesta gjaldskrár sveitarfélaga fyrir þessi mál, en það mun þó ekki hafa teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.