Ferill 537. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 861  —  537. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)


1. gr.

    Eftirgreind tollskrárnúmer falla brott úr C-lið viðauka I við lögin: 8426.1201, 8426.1209, 8426.1900, 8426.2000, 8426.3000, 8426.4101, 8426.4109, 8426.4900, 8426.9100 og 8426.9900.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæði laga þessara skulu taka til allra vara sem ótollafgreiddar eru við gildistöku þeirra, þó ekki vara sem afhentar hafa verið með bráðabirgðatollafgreiðslu, svo og til allra inn­lendra framleiðsluvara sem ekki hafa verið seldar eða afhentar þann dag.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að vörugjald verði fellt niður af ýmiss konar krönum og öðr­um vélbúnaði sem ætlaður er til lyftinga. Nánar tiltekið er um að ræða ýmsar gerðir krana svo og vinnuvagna sem búnir eru krana. Tæki þessi bera samkvæmt núgildandi lögum 15% vörugjald.
    Vinnuvélar og tæki sem ætluð eru til verklegra framkvæmda, önnur en skráningarskyld ökutæki, bera að jafnaði ekki vörugjald. Þannig bera t.d. vegheflar, skurðgröfur og jarðýtur ekki vörugjald. Á undanförnum árum hefur vörugjald jafnframt lækkað eða jafnvel fallið nið­ur af skráningarskyldum ökutækjum sem nýtt eru í atvinnuskyni. Vörugjald hefur þannig ver­ið fellt niður af stærri fólksflutningabifreiðum. Ýmsar aðrar atvinnubifreiðar, svo sem vöru­flutningabifreiðar, kranabifreiðar og tengi- og festivagnar, sem eru yfir 5 tonn að leyfðri heildarþyngd, bera 7,5% vörugjald til næstu áramóta, en þá verður gjald af þeim fellt niður.
    Í ljósi þess að vinnuvélar og búnaður til verklegra nota ber að jafnaði ekki vörugjald, svo og þess að vörugjald af kranabifreiðum sem eru yfir 5 tonn að leyfðri heildarþyngd hefur lækkað verulega og mun falla brott um næstu áramót, þykir eðlilegt að vörugjald verði einnig fellt niður af krönum.
    Sé miðað við innflutning ársins 1998 má ætla að tekjur ríkissjóðs af vörugjaldi minnki um 35 millj. kr. á ári við þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 97/1987,
um vörugjald, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta snýr að breytingum á lögum um tekjur ríkissjóðs af vörugjaldi af krönum og vinnuvögnum með lyftibúnaði og er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.