Ferill 540. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 864  —  540. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, sbr. lög nr. 74/1992 og 102/1993.

Flm.: Ólafur G. Einarsson, Ragnar Arnalds, Sturla Böðvarsson,


Guðni Ágústsson, Guðmundur Árni Stefánsson.



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Orðið „fasta“ í 1. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðsins „umræðunum“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fundinum.
     c.      3. málsl. 2. mgr. orðast svo: Tillögurnar má bera upp munnlega, án nokkurs fyrirvara, og greiða má atkvæði um þær í einu lagi.
     d.      3. mgr. orðast svo:
                  Við umræður um tillögur skv. 2. mgr. gilda sömu reglur og við 2. umræðu um laga­frumvörp.
     e.      Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Umboð kjörbréfanefndar, sbr. 2. mgr., fellur brott þegar kosning fastanefnda hefur farið fram skv. 13. gr., sbr. og 1. mgr. 4. gr.

2. gr.


    2. gr. laganna orðast svo:
    Sérhver nýr þingmaður skal vinna svofellt drengskaparheit að stjórnarskránni undireins og búið er að viðurkenna að kosning hans sé gild, sbr. 47. gr. stjórnarskrárinnar: Ég undir­skrifaður/uð, sem kosin(n) er þingmaður til Alþingis Íslendinga, heiti því, að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá landsins.
    Meðan þingmaður hefur ekki unnið heit samkvæmt þessari grein má hann ekki taka þátt í þingstörfum, sbr. þó 6. mgr. 5. gr.

3. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Rétt kjörinn forseti er sá er hefur hlotið meira en helming greiddra atkvæða. Verði þeim atkvæðafjölda eigi náð við fyrstu kosningu skal kosið að nýju. Fái þá heldur eng­inn nógu mörg atkvæði skal kjósa um þá tvo þingmenn er flest atkvæði fengu við síðari kosninguna, en hafi við þá kosningu fleiri fengið jafnmörg atkvæði ræður hlutkesti um hverja tvo skuli kjósa. Ef þeir fá jafnmörg atkvæði við þriðju kosninguna ræður hlut­kesti hvor þeirra verður forseti.
     b.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
                  Berist aðeins ein tilnefning skv. 1. mgr. skal sá sjálfkjörinn sem tilnefndur er nema þess sé óskað að kosning fari fram.
     c.      Í stað orðsins „sex“ í fyrri málslið 3. mgr. kemur: fjögurra.
     d.      Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Ef nauðsyn ber til vegna forfalla forseta eða varaforseta er heimilt að kjósa þing­mann til að gegna störfum forseta um tiltekinn tíma. Þingmenn, sem gegna forsetastörf­um tímabundið samkvæmt þessari málsgrein, skulu, meðan þeir skipa forsetasæti, hafa allan sama rétt og skyldur að því er fundarstjórn varðar sem forseti.

4. gr.


    4. gr. laganna orðast svo:
    Kjörbréfum, er síðar koma fram en svo að þau verði prófuð eftir 1. gr., skal vísa til stjórn­laganefndar, sbr. 13. gr. Sú nefnd skal einnig rannsaka kosningar og kjörgengi er þingið hef­ur frestað að taka gild og erindi er varða missi kjörgengis þingmanns.
    Ef nefndin lætur uppi skriflega tillögu eða ef hún leggur til að kosning skuli teljast ógild skulu tillögur hennar ræddar eftir reglum um 2. umræðu lagafrumvarpa. Ella fer um tillögur hennar eftir því sem ákveðið er um tillögur í 2. og 3. mgr. 1. gr.

5. gr.


    Á eftir 2. mgr. 5. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Úrskurði þingið kosningu í kjördæmi ógilda eða fresti að taka kosningu gilda skal jafn­framt fresta afgreiðslu kjörbréfa þeirra er hlotið hafa kosningu sem byggist á kosningaúrslit­um á landinu öllu.

6. gr.


    6. gr. laganna orðast svo:
    Kosning forseta, varaforseta, fastanefnda og alþjóðanefnda, sbr. 3., 13. og 35. gr., gildir fyrir allt kjörtímabilið. Þingið getur þó, hvenær sem er, kosið að nýju skv. 3., 13. og 35. gr. ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um og fellur þá hin fyrri kosning úr gildi.
    Fráfarandi forseti og varaforsetar skulu gegna störfum frá kjördegi og fram til þingsetn­ingar hafi þeir verið endurkjörnir þingmenn. Sé forseti ekki endurkjörinn gegnir störfum hans sá varaforseti sem næst honum gengur í röð endurkjörinna varaforseta, ella aldursforseti, sbr. 1. gr., sé enginn þeirra þingmaður lengur.

7. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
                  Forseti stjórnar umræðum og sér um að allt fari fram með góðri reglu. Hann skal sjá til þess að störf þingsins séu í samræmi við ákvæði stjórnarskrár, þingskapa og annarra laga.
                  Forseti tekur við öllum erindum til Alþingis og annast um afgreiðslu þeirra mála er frá þinginu eiga að fara. Forseti skýrir á þingfundi frá erindum sem send eru Alþingi og skjölum sem útbýtt er á fundi.
     b.      Í stað orðsins „varaforseti“ í 2. mgr. kemur: annar þingmaður, er til þess hefur verið kjörinn, sbr. 3. gr.
     c.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Hann getur sett almennar reglur um störf nefndanna að höfðu samráði við formenn nefnda og þingflokka.

8. gr.


    Á eftir 2. mgr. 10. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Forseti gerir kjarasamninga við félög starfsmanna Alþingis og stofnana þess og úrskurðar um launakjör skrifstofustjóra Alþingis, svo og annarra einstakra starfsmanna sem hann ákveður.
    Tillögur um fjárveitingar til Alþingis og stofnana þess í frumvarpi til fjárlaga skulu af­greiddar af forsætisnefnd. Tillögurnar skal senda forsætisráðherra.

9. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „skrifstofustjóra“ í fyrri málslið 1. mgr. kemur: Alþingis.
     b.      3. mgr. fellur brott.

10. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Í stað 1.–3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
                  Skrifstofustjóri Alþingis, eða fulltrúi hans, situr þingfundi og er forsetum til aðstoð­ar.
                  Alþingistíðindi eru gerðabók þingsins, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 88. gr. Forseti leitar samþykkis þingfundar áður en hann undirritar útskrift af umræðum, atkvæðagreiðslum og öðrum störfum hvers fundar, sbr. 3. mgr. 53. gr. Þingmenn skulu eiga kost á því að kynna sér útskriftina áður en hún er borin upp.
     b.      Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Í skjalasafni Alþingis skal varðveita erindi er þinginu berast, sbr. 2. mgr. 8. gr. og 28. gr., svo og gerðabækur þess og nefnda og önnur skjöl er varða starfsemi þingsins og rekstur eða Alþingi er falið að varðveita, sbr. 10. gr. stjórnarskrárinnar.

11. gr.


    13. gr. laganna orðast svo:
    Á Alþingi starfa þessar fastanefndir, skipaðar níu mönnum hver:
     a.      atvinnumálanefnd sem fjallar um iðnaðar- og orkumál, landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál, verslunar-, viðskipta- og bankamál og byggðamál,
     b.      dóms- og menntamálanefnd sem fjallar um dómsmál, kirkjumál og menntamál,
     c.      heilbrigðis- og félagsmálanefnd sem fjallar um heilbrigðismál, almannatryggingar og félagsþjónustu, sveitarstjórnarmál, húsnæðismál og vinnumál,
     d.      fjármálanefnd sem fjallar um mál er varða tekjur og gjöld ríkissjóðs, svo sem fjárlög, fjáraukalög og skattamál, efnahagsmál almennt, lífeyrismál og hagskýrslugerð,
     e.      stjórnlaganefnd sem fjallar um stjórnarskrármál, málefni forseta Íslands, Alþingis og stofnana þess, Stjórnarráðsins í heild, og önnur mál sem varða æðstu stjórn ríkisins, svo og skýrslur Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis, sbr. og 4. gr.,
     f.      umhverfis- og samgöngunefnd sem fjallar um vega-, hafna- og flugmál, siglingar, fjarskipti, ferðamál og umhverfismál,
     g.      utanríkismálanefnd sem fjallar um utanríkismál, varnar- og öryggismál og málefni Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. og 24. gr.
    Fastanefndir skal kjósa hlutbundinni kosningu, sbr. 68. gr., á fyrsta fundi nýkjörins þings.
    Þingflokkum er heimilt að tilnefna varamenn í nefndum, jafnmarga aðalmönnum flokks­ins.
    Þingflokkur, sem ekki á fulltrúa í fastanefnd, getur, samkvæmt reglum sem forsætisnefnd setur, tilnefnt áheyrnarfulltrúa til setu á fundum hennar. Í reglum forsætisnefndar skal líka kveða á um rétt þingmanna utan flokka til áheyrnaraðildar að nefndum.

12. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                  Nefnd getur vikið formanni og varaformanni frá, en þó þarf til þess samþykki meiri hluta nefndarmanna.

13. gr.


    Við 2. mgr. 17. gr. laganna bætist: nema þingflokkur hans ákveði annað. Skal þá fylgt reglum 3. mgr. um staðgengil. Ákvæði þetta á þó ekki við ef tilnefndir eru eða kosnir vara­menn í nefndum. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda einnig við fráfall þingmanns eða afsögn.

14. gr.


    Við 19. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Nefndarmanni, og öðrum er sækja nefndarfundi, er óheimilt að hafa eftir opinberlega um­mæli er fallið hafa á nefndarfundi, sbr. 1. mgr., nema hans sjálfs eða með leyfi þess er þau viðhafði.
    Haldi nefnd opinn fund skal hún fylgja reglum sem forsætisnefnd setur um fyrirkomulag slíkra funda.

15. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Þegar frumvarpi eða tillögu til þingsályktunar er útbýtt ákveður forseti hvaða nefnd fái málið til athugunar áður en fyrsta eða fyrri umræða fer fram. Þingið getur þó breytt ákvörðun forseta í atkvæðagreiðslu sé þess krafist þegar í stað. Atkvæðagreiðslu má fresta til næsta fundar ef ósk berst um það frá a.m.k. tveimur þingmönnum. Nefndinni er ekki skylt að gera grein fyrir athugun sinni með nefndaráliti áður en fyrsta eða fyrri umræða hefst. Ef a.m.k. þriðjungur nefndarmanna krefst þess að athugun máls sam­kvæmt þessari málsgrein sé frestað þar til fyrsta eða fyrri umræða hefur farið fram skal við því orðið.

16. gr.


    Síðari málsliður 24. gr. laganna orðast svo: Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni nema annað sé ákveðið.

17. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „fjárlaganefndar“ í 1. mgr. og „Fjárlaganefnd“ í 3. mgr. kemur: fjármálanefndar, og: Fjármálanefnd.
     b.      Orðið „lánsfjárlaga“ í 1. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     c.      Á eftir orðinu „ríkisreikningi“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: svo og frumvörpum og tillögum um skatta og gjöld til ríkissjóðs.
     d.      2. mgr. orðast svo:
                  Fjármálanefnd vísar til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarps og fjár­aukalagafrumvarps sem taka til málefnasviðs þeirra. Nefndirnar skila fjármálanefnd til­lögum innan þess tímafrests sem hún tiltekur og skulu þær prentaðar með áliti nefndar­innar. Breytingartillögur nefndanna skulu vera innan þess fjárhagsramma sem fjármála­nefnd ákveður. 2. umræða um fjárlagafrumvarp skal hefjast í fyrstu viku desember og 3. umræða eigi síðar en 15. desember.

18. gr.


    Á eftir 1. mgr. 28. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Ráðherra getur, ýmist að eigin ósk eða eftir ósk nefndar, komið á nefndarfund til þess að fjalla um mál sem nefndin hefur til afgreiðslu frá honum eða mál sem nefndin tekur til um­fjöllunar skv. 26. gr. og varðar málefnasvið ráðherrans.

19. gr.


    Orðin „eða meiri hluta hennar“ í lokamálslið 1. mgr. 29. gr. laganna falla brott.

20. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein er verður 1. mgr. og orðast svo:
                  Nefnd skal skila áliti sínu á einu þingskjali þar sem fram komi greinargerð um athug­un málsins og álit og afstaða nefndarinnar eða einstakra hluta hennar um afgreiðslu, svo og breytingartillögur, ef fram koma, og skýringar á þeim. Ef nefnd er klofin skal gefa hverjum hluta hæfilegan frest, að jafnaði eigi skemmri en tveggja daga, frá því að mál er afgreitt á nefndarfundi til að ganga frá áliti sínu og breytingartillögum áður en nefnd­arálit er prentað.
     b.      3. mgr. fellur brott.

21. gr.


    35. gr. laganna orðast svo:
    Á Alþingi starfa þessar alþjóðanefndir:
     1.      Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.
     2.      Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
     3.      Íslandsdeild þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu og Evrópska efnahagssvæðisins.
     4.      Íslandsdeild Norður-Atlantshafsþingsins.
     5.      Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
     6.      Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
     7.      Íslandsdeild þings Vestur-Evrópusambandsins.
     8.      Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.
    Í alþjóðanefndir skal kjósa samhliða kosningu fastanefnda skv. 13. gr. Í Íslandsdeild Norðurlandaráðs skulu kosnir sjö aðalmenn og jafnmargir varamenn, í Vestnorræna ráðið sex aðalmenn og jafnmargir varamenn, í Íslandsdeild þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu og Evrópska efnahagssvæðisins fjórir aðalmenn og jafnmargir varamenn. Í aðrar al­þjóðanefndir skal kjósa þrjá aðalmenn og jafnmarga varamenn.
    Alþjóðanefndir skulu kjósa sér formann og varaformann.
    Um fundarsköp alþjóðanefnda gilda sömu reglur og um fastanefndir, eftir því sem við á, þar á meðal um mannaskipti í nefndum, sbr. 16. gr.
    Hver nefnd skal hafa alþjóðaritara sem er henni til aðstoðar.
    Alþjóðanefnd skal árlega leggja fyrir þingið skýrslu um starfsemi sína og þátttöku í al­þjóðastarfi. Hún getur enn fremur lagt fyrir þingið aðrar skýrslur er varða starfssvið hennar. Skýrslu alþjóðanefndar skal taka til umræðu ef nefndin óskar þess eða beiðni kemur um það frá þingmanni.
    Forseti setur almennar reglur um störf alþjóðanefnda þingmanna.

22. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Forseti getur sett leiðbeiningarreglur um frágang lagafrumvarpa.
     b.      3. málsl. verður 2. mgr. greinarinnar.
     c.      2. mgr. fellur brott.

23. gr.


    Í stað síðari málsliðar 38. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Þá er þeirri umræðu er lokið gengur það til 2. umræðu. Atkvæða skal leitað ef einhver þingmaður óskar þess.

24. gr.


    Í stað síðari málsliðar 1. mgr. 39. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Síð­an skal greiða atkvæði um greinar frumvarpsins og breytingartillögur við þær sem fram hafa komið. Frumvarpið gengur síðan til 3. umræðu en þó skal leita atkvæða um það ef einhver þingmaður óskar þess.

25. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Þriðja umræða má eigi fara fram fyrr en einni nóttu eftir 2. umræðu. Þá skal fyrst ræða breytingartillögur er fram hafa komið og greiða atkvæði um þær. Að lokinni at­kvæðagreiðslu um breytingartillögur skal ræða frumvarpið í heild. Loks skal leita at­kvæða um frumvarpið í heild sinni eins og það er þá orðið.
     b.      Í stað 2. og 3. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður er orðast svo: Ef breytingartillögur koma fram má hefja umræðuna að nýju, eftir sömu reglum og gilda skv. 1. mgr.

26. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sérnefndar skv. 32. gr.“ í 1. mgr. kemur: stjórnlaganefndar.
     b.      Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Telji forseti ótvírætt að lagafrumvarp eða breytingartillaga sé andstæð stjórnar­skránni skal hann gera tillögu um að vísa málinu eða tillögunni frá. Greiða skal atkvæði um þá tillögu umræðulaust.

27. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna:
     a.      Síðari málsliður 2. mgr. orðast svo: Ályktunartillögur fastanefnda, tillögur um vantraust á ráðherra eða ríkisstjórn og tillögur um frestun á fundum Alþingis, svo og um kosningu nefnda skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar, skulu þó afgreiddar við eina umræðu.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Er fyrri umræðu er lokið gengur tillagan til síðari umræðu og nefndar. Atkvæða skal leita ef einhver þingmaður óskar þess.
     c.      Lokamálsliður 4. mgr. fellur brott.
     d.      5. mgr. fellur brott.
     e.      6. mgr. fellur brott.

28. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „ef“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: þingflokkur eða.
     b.      Orðin „sbr. 48. gr.“ í niðurlagi greinarinnar falla brott.
     c.      Við bætast fjórar nýjar málsgreinar er orðast svo:
                  Utanríkisráðherra flytur Alþingi almenna skýrslu um utanríkismál að hausti og vori.
                  Forsætisráðherra flytur Alþingi skýrslu, að jafnaði annað hvert ár, um framkvæmd ályktana sem Alþingi hefur samþykkt og beint er til ríkisstjórnarinnar eða einstakra ráð­herra.
                  Forseti tekur á dagskrá tilkynningu frá ríkisstjórninni ef honum berst ósk um það frá forsætisráðherra. Um umræðu um tilkynninguna gilda sömu reglur og um skýrslu.
                  Forseti getur enn fremur tekið á dagskrá tilkynningu frá forsætisráðherra, eða öðrum ráðherra í hans stað, ef honum berst ósk um það og ráðherra vill greina Alþingi frá störfum ríkisstjórnarinnar. Um umræður um tilkynninguna gilda sömu reglur og um um­ræður skv. 1. mgr. 50. gr.

29. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Þingflokkur, eða níu þingmenn ella, getur óskað skýrslu ráðherra um opinbert málefni, sbr. 54. gr. stjórnarskrár. Skal beiðnin vera skrifleg og beint til forseta og má fylgja henni stutt greinargerð. Skal beiðnin prentuð eigi síðar en tveim dögum eftir að hún berst forseta og útbýtt meðal þingmanna á fundi. Beiðnin skal sett á dagskrá þingfundar svo fljótt sem við verður komið og greidd atkvæði um það umræðulaust hvort hún skuli leyfð. Forseti tilkynnir hlutaðeigandi ráðherra um beiðni um skýrslu sem leyfð hefur verið.
     b.      Í stað tölunnar „10“ í 2. mgr. kemur: átta.

30. gr.


    47. gr. laganna orðast svo:
    Þrír þingmenn geta óskað þess að ráðherra svari með munnlegri skýrslu fyrirspurn sem þeir beina til hans um mál sem ráðherrann ber ábyrgð á. Beiðnin skal prentuð og henni útbýtt meðal þingmanna á fundi. Forseti tekur skýrsluna að jafnaði á dagskrá þingfundar í næstu viku eftir að beiðnin kemur fram. Umræðan getur staðið allt að einni klukkustund.

31. gr.


    1. mgr. 48. gr. laganna orðast svo:
    Við umræður um skýrslur skv. 45.–47. gr. má veita talsmönnum þingflokka, sbr. 4. mgr. 55. gr., lengri tíma en reglur um ræðutíma mæla fyrir um ef fyrir liggur samþykki þingflokka.

32. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 49. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „einstakt atriði þess“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: sbr. 54. gr. stjórnarskrár.
     b.      Orðin „eða ráðherrum“ í lok 3. mgr. falla brott.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Fyrirspurn skal að jafnaði tekin á dagskrá á sérstökum fyrirspurnafundi í næstu viku eftir að henni hefur verið útbýtt nema ráðherra hafi forföll eða fyrirspyrjandi óski eftir frestun.
     d.      3. og 4. málsl. 5. mgr. falla brott.
     e.      Í stað síðari málsliðar 6. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Sendi ráðherra eigi svar sitt innan tilskilins frests skal hann gera forseta grein fyrir töfinni bréflega og taka fram hvenær svars sé að vænta. Þegar svarið berst skal það prentað og útbýtt meðal þingmanna á fundi. Vilji alþingismaður gera athugasemd við svarið gerir hann það við lok næsta fyrirspurnatíma, enda hafi hann gert forseta viðvart áður en fundur hófst.
     f.      Á eftir 6. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Réttur alþingismanna til að óska skriflegra svara gildir einnig í þinghléum. Skal for­seti þá jafnframt senda alþingismönnum afrit af fyrirspurninni og fyrirspyrjanda og öðr­um þingmönnum svar ráðherra jafnskjótt og það berst og láta prenta í Alþingistíðindum sem þingskjöl.
                  Telji ráðherra sér ekki skylt að svara fyrirspurn, allri eða að hluta, eða að það sé ógerlegt, skal hann gera forseta grein fyrir því. Forseti skýrir á þingfundi frá ástæðum sem ráðherra færir fram. Sé fyrirspurn skrifleg skal ráðherra gera skriflega grein fyrir afstöðu sinni og ástæðu. Fyrirspyrjandi getur þá, ef hann svo kýs, óskað umræðna um synjun ráðherrans, samkvæmt reglum sem gilda um fyrirspurnir, í næsta reglulega fyrir­spurnatíma.
     g.      Síðari málsliður 7. mgr. fellur brott.

33. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. og 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Í allt að hálftíma á venjulegum fundartíma geta þingmenn fengið tekið fyrir mál utan dagskrár, hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar til ráðherra, sé það í senn mikilvægt og svo aðkallandi að ekki geti beðið meðferðar formlegra þingmála. Skal þá þingmaður bera fram við forseta ósk sína hér um eigi síðar en tveimur klukkustundum áður en þingfundur hefst og gera jafnframt viðvart þeim ráðherra sem hann vill að sé til andsvara. Í upphafi þingfundar skal forseti tilkynna hvaða mál fyrirhugað er að taka til umræðu utan dagskrár og hvenær. Ef sérstaklega stendur á getur forseti þó leyft umræð­ur samkvæmt þessari málsgrein með styttri fyrirvara eða eftir að fundur er hafinn. Tak­ist ekki að koma umræðu við innan þriggja daga frá því að forseta barst ósk um hana fellur beiðnin niður.
     b.      2. málsl. 3. mgr. fellur brott.

34. gr.


    Á eftir orðinu „þingsályktunartillögur“ í 1. málsl. 1. mgr. 51. gr. laganna kemur: aðrar en þær sem koma fram í nefndaráliti, sbr. 30. gr.

35. gr.


    52. gr. laganna orðast svo:
    Öll óafgreidd þingmál falla brott þegar kjörtímabili þingsins lýkur.

36. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 53. gr. laganna:
     a.      1. og 2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Ef þingmaður forfallast vegna veikinda, starfa í opinbera þágu erlendis eða af öðrum persónulegum ástæðum, sem forseti metur gildar, svo að nauðsyn krefji að varamaður hans taki sæti á meðan skal hann tilkynna forseta það bréflega og jafnframt gera grein fyrir því í hverju forföllin eru fólgin og hversu lengi þau muni vara. Forseti kynnir þinginu bréfið og ber það undir atkvæði umræðulaust hvort beiðnin skuli leyfð.
     b.      4. málsl. 2. mgr. fellur brott.

37. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „nauðsyn krefur“ í 2. málsl. kemur: hentugt þykir.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ef ræðumaður ber ráðherra eða alþingismann brigslyrðum, talar óvirðulega um utan­þingsmann eða víkur með öllu frá umtalsefninu skal forseti áminna þingmanninn fyrir þau ummæli. Nú er þingmaður áminntur tvisvar á sama fundi og má þá forseti svipta þingmanninn málfrelsi á þeim fundi.

38. gr.


    55. gr. laganna orðast svo:
    Um ræðutíma um lagafrumvörp, þingsályktunartillögur, svo og önnur þingmál, og umræð­ur utan dagskrár gilda þær reglur sem tilgreindar eru í 78. gr., yfirliti með reglum um ræðu­tíma.
    Forseta er þó heimilt að rýmka ræðutíma um þingmál við hverja umræðu sem er ef það er svo umfangsmikið eða mikilvægt að ekki sé hægt að ræða það á fullnægjandi hátt innan þeirra reglna sem annars gilda, sbr. 72. gr. Einnig er forseta heimilt að rýmka ræðutíma þingmanns ef sérstaklega stendur á og nauðsyn krefur. Ákvörðun forseta samkvæmt þessari málsgrein skal liggja fyrir áður en umræða hefst.
    Framsögumaður telst sá sem svo er tilgreindur í skjali. Hafi hann forföll við umræðuna má fela öðrum að hafa framsögu með sömu réttindum meðan svo stendur. Ef tveir eða fleiri eru flutningsmenn máls skal sá er fyrstur stendur á skjalinu teljast framsögumaður nema ann­ar sé tilnefndur.
    Talsmaður flokks eða þingflokks telst sá sem fyrstur talar af hálfu flokksins nema formað­ur þingflokksins tilkynni forseta um annað.

39. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
                  Forseti gefur þingmönnum venjulega færi á að taka til máls í þeirri röð er þeir beið­ast þess. Þó getur hann vikið frá þeirri reglu við ráðherra, flutningsmann og framsögu­menn, svo og til þess að ræður með og móti málefni skiptist á eða til að sjónarmið þing­flokka komi fram við upphaf umræðu.
                  Þingmönnum er heimilt að skrá sig á mælendaskrá hjá forseta eða skrifstofunni frá því að mál hefur verið sett á dagskrá og henni verið útbýtt. Engan má taka á mælenda­skrá á ný á sama fundi nema annar þingmaður eða ráðherra hafi áður tekið til máls um dagskrármálið, sbr. þó 4. mgr. 63. gr.
     b.      Við bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:
                  Þingmanni er heimilt að gera athugasemd við túlkun forseta á þingsköpum, svo og um skiptingu atkvæðagreiðslu, sbr. 65. gr. Berist forseta ósk frá formanni þingflokks um fundarhlé meðan á umræðum eða atkvæðagreiðslu stendur til þess að ræða um fram­hald þingstarfa skal forseti að jafnaði verða við því og ákveða hve lengi fundarhléið stendur.
     c.      4.–6. málsl. 2. mgr. falla brott.

40. gr.


    Lokamálsliður 1. mgr. 60. gr. laganna orðast svo: Fyrirspurn má og afturkalla fram til þess að hún hefur verið tekin fyrir eða skriflegt svar hefur borist forseta.

41. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tillagan kemur eigi til afgreiðslu fyrr en við lok umræðu.

42. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:
     a.      Síðari málsliður 1. mgr. orðast svo: Þó má ákveða dagskrá næsta fundar eftir tillögu þingflokks eða a.m.k. níu þingmanna og skal hún borin upp við lok fundar umræðulaust.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Forseti getur gert hlé á þingfundum, í samræmi við starfsáætlun þingsins, sbr. 10. gr. og 1. mgr. 72. gr., en þó er honum skylt að boða til fundar, ef ósk berst um það frá forsætisráðherra eða meiri hluta þingmanna, með þeirri dagskrá sem slíkri ósk fylgir.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                  Forseti getur ákveðið, ef ekki berast andmæli frá a.m.k. tveimur þingmönnum, að umræður fari fram um tvö eða fleiri dagskrármál í einu ef þau fjalla um skyld efni eða það þykir hagkvæmt af öðrum ástæðum. Gildir þá ræðutími sem um eitt mál; séu mál ósamkynja gildir sá ræðutími sem rýmstur er.
     d.      Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Sömuleiðis getur forseti ákveðið að umræðu um viðamikið mál sé skipt eftir efni þess. Gildir þá sami ræðutími um hvern þátt málsins eins og annars hefði gilt fyrir málið í heild.

43. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 64. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „við nafnakall“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: eða við atkvæðagreiðslu með rafeindabúnaði.
     b.      2. mgr. fellur brott.

44. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 65. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „ef“ í síðari málslið kemur: þingflokkur eða.
     b.      Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Við atkvæðagreiðslu um frumvarp til fjárlaga eða fjáraukalaga verður ekkert einstakt atriði frumvarpsins borið upp nema við það sé breytingartillaga.

45. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 66. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Þá er forseti hefur ástæðu til að ætla að allir séu á einu máli eða úrslit máls séu ljós fyrir fram má hann lýsa yfir því að gert sé út um atriði án atkvæðagreiðslu ef enginn þingmaður krefst þess að hún fari fram og skal þá sú yfirlýsing forseta koma í stað at­kvæðagreiðslu. Um lokaafgreiðslu lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna verður for­seti þó að viðhafa atkvæðagreiðslu.
     b.      2. mgr. (er verður 3. mgr.) orðast svo:
                  Ef atkvæðagreiðsla getur eigi farið fram með rafeindabúnaði skal hún fara fram á þann hátt að hver þingmaður réttir upp hönd þegar forseti leitar atkvæða með eða móti máli. Forseti lætur telja atkvæðin og skýrir frá úrslitum atkvæðagreiðslunnar.
     c.      Í stað 3. og 4. mgr. kemur ný málsgrein er verður 4. mgr. og orðast svo:
                  Forseti getur látið fara fram nafnakall í stað atkvæðagreiðslu skv. 2. eða 3. mgr. Honum er það og heimilt þótt atkvæðagreiðsla hafi áður farið fram ef hún hefur verið óglögg eða verið hreyft athugasemdum við hana, enda fari hin síðari atkvæðagreiðsla fram þegar í stað. Komi fram ósk um nafnakall skal við henni orðið ef hún er borin fram af a.m.k. tveimur þingmönnum. Við nafnakall skal farið eftir tölusettri nafnaskrá í staf­rófsröð og hluta um í hvert sinn á hverri raðtölunni skuli byrja nafnakallið. Við nafna­kall greiðir forseti atkvæði síðastur.
     d.      5. mgr. verður 2. mgr. og orðast svo:
                  Atkvæðagreiðsla skal fara fram með rafeindabúnaði þar sem staðfest er hverjir taka þátt í henni og hvernig hver þingmaður greiðir atkvæði. Forseti skýrir frá úrslitum atkvæðagreiðslunnar. Atkvæði hvers þingmanns við lokaafgreiðslu lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna skal skrásetja í þingtíðindum, svo og við aðrar atkvæðagreiðslur nema allir séu á einu máli. Skrifstofan varðveitir afrit allra atkvæðagreiðslna með raf­eindabúnaði.
     e.      Við bætist ný málsgrein er verður 5. mgr. og orðast svo:
                  Atkvæðagreiðslu skv. 2. mgr. má endurtaka þótt úrslitum hennar hafi verið lýst ef forseti telur ástæðu til þess eða ósk berst um það frá þingmanni. Hin nýja atkvæða­greiðsla skal þá fara fram þegar í stað og áður en nokkur önnur ályktun er gerð eða nýtt mál tekið fyrir. Vilji þingmaður á fundi gera leiðréttingu eftir að atkvæði hafa verið greidd skv. 2. mgr. er honum heimilt að láta skrá hana í þingtíðindin en þó því aðeins að hann hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunni. Leiðréttingin breytir ekki úrslitum at­kvæðagreiðslunnar.

46. gr.


    Við 67. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skulu þá talin atkvæði með og á móti máli.

47. gr.


    Fyrirsögn V. kafla laganna orðast svo: V. ÞINGFLOKKAR, SÉRSTAKAR UMRÆÐUR OG ÚTVARP UMRÆÐU.

48. gr.


    Í stað orðsins „tveir“ í 2. mgr. 71. gr. laganna kemur: þrír.

49. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 72. gr. laganna:
     a.      Í stað 2. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Forseti getur þá, með samþykki allra þingflokka, ákveðið áður en umræða hefst að ræðutími skuli vera annar en þingsköp ákveða, svo og hve lengi umræðan má standa. Þegar þannig er samið milli þingflokka um umræðutíma skal skipta honum sem næst því að hálfu milli þingflokka og að hálfu skal hafa hliðsjón af því hve margir þingmenn eiga aðild að hverjum þing­flokki, en forseti ákveður þá ræðutíma þingmanna utan flokka.
     b.      4. mgr. fellur brott.

50. gr.


    73. gr. laganna orðast svo:
    Á þingsetningarfundi skal forsætisráðherra flytja stefnuræðu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, en eftirrit af ræðunni skal afhent þingmönnum þegar hún hefur verið flutt.
    Umræða um stefnuræðuna skal að jafnaði fara fram á næsta fundi samkvæmt reglum 78. gr. Forseti setur í samráði við þingflokka nánari reglur um umræðuna, hve lengi hún stendur, umferðir, andsvör o.fl. Þess skal gætt að ræðutími stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka sé sem jafnastur.
    Eftirriti stefnuræðunnar skal fylgja yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu, svo og hvenær þau verða lögð fram. Yfirlitið skal prenta í þingtíðindunum.

51. gr.


    Í stað 74.–86. gr. laganna kemur ein ný grein er orðast svo:
    Útvarpa skal frá þingsetningu og stefnuræðu forsætisráðherra og umræðum um hana.
    Á síðari hluta þings skal fara fram almenn stjórnmálaumræða. Umræðunni skal útvarpað. Um umræðuna gilda sömu reglur og um umræður um stefnuræðu forsætisráðherra, eftir því sem við á, sbr. 2. mgr. 73. gr.
    Útvarpa skal umræðu um vantraust ef þingflokkur krefst þess.
    Útvarpa skal umræðu um þingmál, eða hluta hennar, ef samkomulag er um það milli þing­flokka eða forseti hefur ákveðið slíka umræðu eftir ósk þingflokks eða þingflokka. Skal for­seti þá gera tillögu og leita samkomulags um fyrirkomulag umræðunnar, lengd hennar, um­ferðir og ræðutíma þingflokka, einstakra þingmanna, svo og þingmanna utan flokka. Ef ekki tekst samkomulag skal forseti ákveða fyrirkomulag umræðunnar.
    Þegar segir að útvarpa skuli umræðum er skyldan bundin við Ríkisútvarpið, hljóðvarp.

52. gr.


    Við 87. gr. laganna, sem verður 75. gr., bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Að flutningi máls skv. 36. og 44. gr., svo og breytingartillagna við það, geta staðið á þingskjali: þingmenn, ráðherrar, þingflokkar, fastanefndir, í heild eða hluti þeirra, svo og forsætisnefnd.

53. gr.


    88. gr. laganna, sem verður 76. gr., orðast svo:
    Umræður á Alþingi og þingskjöl skal prenta í Alþingistíðindum. Skrifstofa Alþingis ann­ast útgáfu Alþingistíðindanna.
    Í A-deild Alþingistíðinda skal prenta þingskjöl.
    Í B-deild skal prenta dagskrár þingfunda, tilkynningar, atkvæðagreiðslur og hvað annað sem fram fer á þingfundum og geta afgreiðslu mála og málsatriða. Enn fremur skal prenta allar umræður.
    Í Alþingistíðindunum má ekkert undan fella sem þar á að standa og fram hefur komið í þinginu og hljóðupptaka ber með sér. Engar efnisbreytingar má gera nema leiðrétta þurfi auðsæjar og sannanlegar villur. Engu má bæta inn í Alþingistíðindin, hvort sem það varðar menn eða málefni, nema þess sé óhjákvæmilega þörf eða í því felist sjálfsögð leiðrétting.
    Forseti getur sett nánari reglur um útgáfu Alþingistíðinda, um endurprentun þingskjala o.fl.

54. gr.


    89. gr. laganna fellur brott.

55. gr.


    Við lögin bætist ný grein, 78. gr., er orðast svo:
    Réttur þingmanna og ráðherra til að taka þátt í umræðum skal vera allt að þeim sem til­greindur er í eftirfarandi yfirliti, sbr. þó 55. gr. (rýmkaður réttur), 57. gr. (takmörkun um­ræðna), 72. gr. (umsaminn ræðutími) og 74. gr. (útvarp umræðu):


REGLUR UM RÆÐUTÍMA


1. sinn 2. sinn Oftar
LAGAFRUMVÖRP
1. umræða:
    Flutningsmaður (ráðherra eða þingmaður)
30 mín. 15 mín. 5 mín.
    Ráðherra
15 mín. 10 mín. 5 mín.
    Talsmaður þingflokks
20 mín. 10 mín.
    Aðrir þingmenn
15 mín. 5 mín.
2. umræða:
    Framsögumaður (samkvæmt nefndaráliti)
30 mín. 15 mín. 5 mín.
    Ráðherra og flutningsmaður máls
30 mín. 15 mín. 5 mín.
    Aðrir þingmenn
15 mín. 5 mín. 5 mín.
3. umræða:
    a. um breytingartillögur
    Sama og við 2. umræðu
    b. um frumvarpið í heild
    Sama og við 1. umræðu (nema hvað framsögumaður (samkvæmt nefndaráliti) kemur í stað flutningsmanns)
ÞINGSÁLYKTUNARTILLÖGUR
Fyrri umræða:
    Flutningsmaður (ráðherra eða þingmaður)
15 mín. 10 mín. 5 mín.
    Ráðherra
10 mín. 5 mín. 5 mín.
    Aðrir þingmenn
10 mín. 5 mín.
Síðari umræða:
    Sama og við 2. umræðu lagafrumvarpa
Ein umræða:
    Sama og við 2. umræðu lagafrumvarpa
FYRIRSPURNIR
    Fyrirspyrjandi
3 mín. 2 mín.
    Ráðherra
5 mín. 2 mín. 1 mín.
    Aðrir þingmenn og ráðherrar (athuga    semd)
1 mín.
    Athugasemdir um skrifleg svör
    Fyrirspyrjandi
3 mín.
    Ráðherra
3 mín.
ÓUNDIRBÚNAR FYRIRSPURNIR
    Fyrirspyrjandi og ráðherra
2 mín. 1 mín.
SKÝRSLUR
    Framsögumaður (ráðherra eða þingmaður)
30 mín. 15 mín. 5 mín.
    Ráðherra
15 mín. 10 mín. 5 mín.
    Talsmaður þingflokks
20 mín. 5 mín.
    Aðrir þingmenn
15 mín. 5 mín.
MUNNLEGAR SKÝRSLUR (SAMKVÆMT BEIÐNI)
    Málshefjandi
10 mín. 2 mín. 2 mín.
    Ráðherra
10 mín. 2 mín. 2 mín.
    Talsmenn þingflokka
5 mín. 2 mín.
    Aðrir þingmenn
2 mín. 2 mín.
UMRÆÐUR UTAN DAGSKRÁR
    Málshefjandi
5 mín. 2 mín.
    Viðkomandi ráðherra
5 mín. 2 mín.
    Aðrir þingmenn og ráðherrar
2 mín. 2 mín.
STEFNURÆÐA FORSÆTISRÁÐHERRA OG UMRÆÐA UM HANA
Stefnuræða:
    Forsætisráðherra
20 mín.
Umræða:
    Talsmenn þingflokka
10 mín. 5 mín.
    Aðrir þingmenn og ráðherrar
5 mín.
    Forsætisráðherra
5 mín.
ALMENNAR STJÓRNMÁLAUMRÆÐUR
    Talsmenn þingflokka
10 mín. 5 mín.
    Aðrir þingmenn og ráðherrar
5 mín. 5 mín.
ANDSVÖR
    Þingmenn og ráðherrar
2 mín. 2 mín.
    Ræðumaður
2 mín. 2 mín.
    Forseta er heimilt að stytta ræðutíma hvers þingmanns
ATHUGASEMDIR
Um störf þingsins (í upphafi fundar)
2 mín. 2 mín.
Atkvæðaskýring
1 mín.
Um túlkun þingskapa eða skiptingu atkvæðagreiðslu
1 mín.

56. gr.


    Lög þessi öðlast gildi við upphaf næsta kjörtímabils.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er árangur starfs sem farið hefur fram að undanförnu á vegum forsætis­nefndar og formanna þingflokka og miðaði að því að endurskoða þingsköp Alþingis. Upphaf­ið má rekja til þess að þegar eftir breytingar á þingsköpunum 1991, í kjölfar þess að deildir þingsins voru afnumdar, var ákveðið að stefna að endurskoðun þingskapanna þegar nokkur reynsla hefði fengist af þeim í einni málstofu. Hefur verið safnað saman á undanförum árum ýmsum atriðum sem hafa þyrfti hliðsjón af þegar til endurskoðunarstarfsins kæmi. Hafist var handa við heildarendurskoðunina vorið 1997 og lágu fyrstu drög fyrir í júlí það ár. Verkið lá niðri á fyrri hluta sl. árs en tekið var til við frumvarpsdrögin á ný eftir að þing kom saman sl. haust. Er miðað við að frumvarpið geti fengið afgreiðslu á þessu þingi, þ.e. áður en kjör­tímabilinu lýkur.
    Í frumvarpinu eru lagðar til gagngerar breytingar á þingsköpunum en valin hefur verið sú leið að leggja frumvarpið fram sem breytingarfrumvarp fremur en nýtt heildarfrumvarp svo að á þessu stigi kæmi sem gleggst fram hverju er verið að breyta. Verði frumvarp þetta sam­þykkt er ætlunin að leggja fram sem fyrst á nýju kjörtímabili frumvarp til nýrra heildarlaga um þingsköp Alþingis þar sem gera mætti breytingar á efnisskipan þingskapanna og aðrar smávægilegar samræmisbreytingar. Efnisskipan þingskapanna hefur tekið litlum breytingum frá því að þau voru fyrst samþykkt 1875 þrátt fyrir ýmsar breytingar sem gerðar hafa verið á einstökum köflum þeirra. Eðlilegra þykir hins vegar að bíða með slíkar breytingar þangað til þingið hefur tekið afstöðu til þeirra efnislegu breytinga sem lagðar eru til í þessu frum­varpi, enda gætu slíkar tilfærslur á greinum eða köflum orðið til þess að flækja frumvarpið óþarflega mikið.
    Frumvarpið hefur verið til umræðu í forsætisnefnd alloft og forustumenn þingflokka hafa átt nokkra fundi um málið. Meginefni frumvarpsins, eins og það lá fyrir í desemberbyrjun, hefur verið kynnt í þingflokkum. Almennur stuðningur kom fram við frumvarpið en þó voru gerðar ýmsar athugasemdir við einstakar greinar. Þess er vænst að sú þingnefnd, sem fær frumvarpið til meðferðar, fari yfir þau atriði og kanni hvort samstaða geti orðið um þau.
    Við endurskoðun þingskapanna hefur verið reynt að taka á sem flestum ákvæðum þeirra, þar á meðal um ræðutíma, en um sum gildir, svo sem um nefndaskipan, að heppilegt þykir að breytingar fylgi nýju kjörtímabili. Forsætisnefnd gerir ráð fyrir því að hin nýja skipan geti tekið gildi á vorþingi 1999, eftir alþingiskosningarnar 8. maí.
    Um breytingarnar má almennt segja að þær miða að því:
     a.      að gera þinginu betur kleift að rækja hlutverk sitt samkvæmt stjórnskipaninni,
     b.      að vanda og styrkja sem mest löggjafarstörf þingsins,
     c.      að styrkja eftirlitshlutverk þingsins,
     d.      að styrkja forustu þingsins,
     e.      að gera skoðanaskipti í umræðum skarpari,
     f.      að tryggja betur samfellu í störfum þingsins, skipulag þingstarfanna og
     g.      að færa til nútímahorfs ýmis ákvæði (formsatriði) sem þykja úrelt.

    Meginþætti breytinganna má taka saman í eftirfarandi yfirlit:
     1.      Betra og vandaðra löggjafarstarf.
             –    breytt og öflugra nefndakerfi,
             –    mál gangi beint til nefndar,
             –    mál geti verið til umfjöllunar í meira en eitt þing,
             –    betri afgreiðsluhættir nefnda (nefndir skili einu skjali í stað margra, hafi meiri samskipti við ráðherra o.fl.).
     2.      Eftirlitshlutverk þingsins:
             –    ný nefnd, stjórnlaganefnd, styrki eftirlitshlutverk þingsins,
             –    fyrirspurnir þingmanna verði leyfðar í þinghléum,
             –    nýtt form verði á umræðum um brýn og aðkallandi mál (munnlegar skýrslur ráðherra).
     3.      Málsmeðferð í þinginu:
             –    nýtt fyrirkomulag umræðna þar sem byggt er á því að þingmenn og ráðherrar geti talað svo oft sem þeir vilja en ekki eins lengi og þeim sýnist,
             –    meiri heildarsýn um ríkisfjármál við meðferð fjárlagafrumvarps (sbr. markmið fjárreiðulaga),
             –    tvískipting 3. umræðu um lagafrumvörp þar sem lokaumræða fer fram þegar ljóst er hvernig frumvarp verður í endanlegum búningi,
             –    fækkun atkvæðagreiðslna,
             –    ný ákvæði um meðferð fyrirspurna,
             –    ný ákvæði um meðferð skýrslna.
     4.      Staða þingsins og forusta þess:
             –    forseti og varaforsetar verði kjörnir fyrir allt kjörtímabilið,
             –    samstarf forseta og formanna þingflokka verði eflt en stuðlað að því að stytta umræður á þingfundum um formsatriði (fundarstjórn forseta),
             –    þingflokkar fái aukið hlutverk en verði skipaðir þremur þingmönnum hið fæsta,
             –    forsætisnefnd fjalli sérstaklega um og geri tillögur um fjárveitingar til Alþingis.
     5.      Ýmis atriði:
             –    ný ákvæði um setuforseta og skýrari ákvæði um aldursforseta þingsins,
             –    skýrari ákvæði um afgreiðslu kjörbréfa,
             –    nútímalegri ákvæði um gerðabók þingsins,
             –    ítarlegri ákvæði um alþjóðanefndir þingsins,
             –    nútímalegri ákvæði um vítur,
             –    nútímalegri ákvæði um útvarp umræðu,
             –    skýrari reglur um atkvæðagreiðslur,
             –    breyttar reglur um mælendaskrá o.fl.

    Samhliða þessum breytingum á þingsköpum Alþingis stefnir forsætisnefnd að því að leggja fyrir þingflokkana nýjar tillögur um ýmsa starfshætti þingsins sem ekki hafa verið festir í þingsköp. Er þar veigamest annars vegar að draga úr kvöldfundum og almennt að reyna að stytta þingfundatímann frá því sem nú er og hins vegar að lengja raunverulegan starfstíma þingsins án þess þó að fjölga þingfundadögum. Felst það í því að þingið komi eitt­hvað fyrr saman en nú er og standi að jafnaði fram til maíloka en þinghléum verði fjölgað. Byggt verði á því þingið starfi í lotum þar sem skiptast á þingfundavikur, nefndavikur og kjördæmavikur, auk jólahlés og lengra hlés en verið hefur í kringum páska. Þannig gæfist ráðherrum og ríkisstjórn líka rýmri tími til að skipuleggja sín störf og undirbúa mál í meiri samfellu, og vinnubrögð þingsins yrðu markvissari og skipulag þeirra betra, auk þess sem þau störf, sem þingmenn vinna utan þingsalarins allt árið, yrðu sýnilegri. Með þessu móti yrði starfstími Alþingis í meira samræmi við það sem almennt gildir í þjóðfélaginu og þingið gæti þá gert hlé á störfum sínum yfir sumarið, á sama tíma og meginþorri fólks í landinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Við breytingar á þingsköpum árið 1991 var tekin upp sú skipan að aldursforseti skyldi sá þingmaður teljast er lengsta þingsetu hefur að baki, þ.e. starfsaldursforseti. Miðað er við lengsta „fasta þingsetu“, þingseta í varamannssæti er því ekki talin með. Það þykir óeðlilegt og því er lagt til í a-lið að þessi breyting verði gerð. Þingseta samkvæmt þessu nýja orðalagi er því talin sá tími sem er frá kosningu þingmanns (eða þeim tíma sem hann tók fast sæti á Alþingi) auk þess tíma sem hann hefur setið sem varamaður á þinginu; er þá eðlilegast að miða við þann tíma sem þingmaður hefur notið þingfararkaups sem varamaður. Þingsetutím­inn þarf ekki að vera samfelldur.
    Verkefni starfsaldursforseta á þingsetningarfundi geta verið margvísleg. Hann hefur allan sama rétt og skyldur sem forseti þangað til forseti þingsins er kosinn, sbr. 7. gr. Því þykir misvísandi að í 1. gr. þingskapa segir að hann stjórni „umræðunum“ sem sjaldnast eru nokkr­ar. Hann annast hins vegar afgreiðslu kjörbréfa og stjórnar forsetakjöri auk annarra fundar­starfa. Því er eðlilegra orðalag að segja að starfsaldursforseti stjórni þingsetningarfundinum. Það skýrir breytingu skv. b-lið.
    Í c-lið er um orðalagsbreytingu að ræða, felld eru niður nokkur orð sem enga sjálfstæða þýðingu hafa, svo sem um atkvæðafjölda við afgreiðslu tillagna nefndarinnar (sbr. 64. gr.). Í greinina er hins vegar bætt því ákvæði að tillögur nefndarinnar megi afgreiða í einu lagi, þ.e. að ekki þurfi að greiða atkvæði um hvert og eitt kjörbréf. Er það í samræmi við venju.
    Þá er 3. mgr. breytt þannig að umræður um tillögur nefndarinnar um afgreiðslu kjörbréfa (í lagatextanum er nú talað um „umræður á þingsetningarfundum“) fari fram eftir sömu regl­um og gilda við 2. umræðu um lagafrumvörp (í stað tilvísunar í 55. gr.). Þykir það nákvæm­ara orðalag, bæði með hliðsjón af því að á þingsetningarfundi fer fleira fram en afgreiðsla kjörbréfa og að ákvæði um ræðutíma eru nú í yfirliti í 78. gr.
    Loks er til áréttingar bætt við nýrri málsgrein í e-lið þar sem segir að umboð kjörbréfa­nefndar á þingsetningarfundi falli brott þegar fastanefndir hafa verið kosnar. Slíkt má þó leiða af breytingu á 4. gr., en ætlunin er að stjórnlaganefnd, ein af fastanefndum þingsins, afgreiði þau kjörbréf er síðar koma fram eða frestað hefur verið að afgreiða.

Um 2. gr.


    Tekinn er upp í greinina heitstafur sá sem löng venja er fyrir — og stjórnarskrárbundið — að alþingismenn undirriti er þeir taka sæti á Alþingi í fyrsta sinn, hvort sem það er sem aðalmaður eða varamaður. Verður orðalagi hans því ekki breytt nema með breytingu á þing­sköpum. Í greininni er núverandi orðalagi haldið óbreyttu þótt það þyki nokkuð fornlegt.
    Jafnframt er í 2. mgr. kveðið afdráttarlaust á um það að þingmaður nýtur þá fyrst fullra þingmannsréttinda þegar hann hefur undirritað drengskaparheit að stjórnarskránni. Svo hefur einnig verið viðhorf fræðimanna til þessa ákvæðis og er orðalag þess sniðið að skýringu þeirra (sjá t.d. Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson, 1960:241).
    Ekki hefur reynt á svo vitað sé að kosinn þingmaður hafi neitað að vinna drengskaparheit að stjórnarskránni né dregið það óeðlilega. Slíkt er þó þekkt hjá nágrannaþingum. Þannig voru áþekk ákvæði sett í þingsköp danska þingsins fyrir um hálfri öld að gefnu tilefni (19. mgr. 1. gr.). Þykir ástæða til að hafa skýr fyrirmæli í þingsköpum um þetta atriði.

Um 3. gr.


    Sú breyting var gerð á þingsköpum árið 1991 að hljóti enginn alþingismaður tilskilinn at­kvæðafjölda við fyrstu kosningu um forseta þingsins skuli aðeins kjósa einu sinni aftur og þá milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fengu við fyrri kosninguna, en ekki kjósa aftur um þá sem í framboði voru eins og almennt gildir í viðlíka tilfellum og ef enginn hlýtur þá meiri hluta atkvæða sé kosið bundið um þá tvo sem flest atkvæði fengu við síðari kosninguna. Á ákvæðið hefur ekki reynt síðan það var sett 1991. Með hliðsjón af því að þingsköp Alþingis eru um margt fyrirmynd almennra fundarskapa þykir eðlilegt að færa ákvæði þetta í fyrra horf, enda er það almenn regla þegar kosinn er einn maður sem þarf að fá meiri hluta greiddra atkvæða að kjósa tvívegis óbundið ef ekki næst tilskilinn meiri hluti. Þess ber að geta að á grundvelli þessa ákvæðis fara fram aðrar kosningar í þinginu um einn mann, svo sem umboðsmann Alþingis o.fl. Rétt er að geta þess að með orðunum „meira en helming greiddra atkvæða“ er átt við að sá sé rétt kjörinn sem hlýtur samtals fleiri atkvæði en aðrir sem atkvæði fá og eru þá ekki taldir með auðir seðlar. Loks ber að geta þess að um kosningu forseta gildir nú að hún er ekki lengur óbundin eins og áður, fyrir 1991, heldur eru þeir einir í framboði sem gerð er bein tillaga um og hafa samþykkt það.
    Í lok 2. mgr. 3. gr. þingskapa er nú ákvæði um að þótt einungis berist ein tilnefning um forseta Alþingis skuli eigi að síður fara fram kosning um þann sem gerð er tillaga um. Það er hins vegar almenn regla að sé einn tilnefndur til embættis skuli hann talinn sjálfkjörinn. Rétt þykir að sama regla gildi um forseta Alþingis, þó þannig að sé þess óskað sérstaklega fari kosning fram. Þarf þá aðeins atbeina eins þingmanns til þess. Geta verið ýmsar ástæður fyrir því að þingmenn, eða sá sem í kjöri er, vilji að fram komi hvaða stuðnings forseti nýtur. Þetta ákvæði er sett inn sem sjálfstæð málsgrein í 3. gr.
    Í c-lið er gert ráð fyrir að fest verði í þingsköp það fyrirkomulag sem verið hefur á þessu kjörtímabili að einungis skuli kjósa fjóra varaforseta í stað sex áður. Er forsætisnefnd þings­ins þá skipuð fimm þingmönnum, þ.e. forseta og fjórum varaforsetum.
    Ákvæði d-liðar er nýmæli. Þótt í forsætisnefnd sitji fimm þingmenn, þ.e. forseti og fjórir varaforsetar, getur eigi að síður borið við að forsetar séu fjarverandi eða séu í sérstökum önnum og getur þá fundarstjórnin hvílt á einum eða tveimur alþingismönnum. Er því hag­kvæmt að geta kosið staðgengil um skamman tíma sem gegnir þeim skyldum sem forsetar hafa við fundarstjórnina. Fyrirmynd um þetta fyrirkomulag er sótt til Stórþingsins norska, sbr. 3. mgr. 6. gr. þingskapa þess, en þar hefur það gefist vel. Ekki eru sett nein ákvæði um það til hversu langs tíma „setuforseti“ er kjörinn en samkvæmt orðalagi málsgreinarinnar („um tiltekinn tíma“) verður að taka það fram við kosninguna hver kjörtíminn er (dagur, vika, tvær vikur o.s.frv.). Er þá ekki gert ráð fyrir að „setuforseti“ sé kosinn til skemmri tíma en eins dags í senn og að kosning hans fari að jafnaði fram í upphafi fundar. Orðalagi grein­arinnar er hagað þannig að „setuforseti“ sinni aðeins skyldum forseta við fundarstjórn en hafi ekki með höndum önnur stjórnsýslustörf forseta. Ekki er gert ráð fyrir að setuforsetar taki þátt í störfum forsætisnefndar þann tíma sem kosning þeirra gildir né þiggi launaálag fyrir en um framkvæmd þessa atriðis er eðlilegt að forsætisnefnd setji sér nánari vinnureglur. Á það skal lögð áhersla að kosning „setuforseta“ getur ekki farið fram nema meiri hluti þing­manna sé á fundi.

Um 4. gr.


    Samkvæmt 1. gr. þingskapa skal kjósa sérstaka nefnd til að prófa kjörbréf og kosningu nýkjörinna þingmanna og varaþingmanna. Samkvæmt þingsköpum frá 1991 er gert ráð fyrir að kosning til þeirrar nefndar á þingsetningarfundi gildi fyrir allt kjörtímabilið (kjörbréfa­nefnd). Að athuguðu máli þykir eðlilegra að nefndakosning, sem hefur farið fram áður en kjörbréf þingmanna hafa verið samþykkt formlega og þeir undirritað drengskaparheit, gildi aðeins á þingsetningarfundi en síðan, þegar formsatriðum um kosningu og kjörgengi er lokið, sé afgreiðslu kjörbréfa og skyldum málum vísað til stjórnlaganefndar sem er ný fastanefnd skv. 13. gr. Sú nefnd fær því m.a. það hlutverk sem kjörbréfanefnd hefur nú, þ.e. að kanna kjörbréf þeirra er síðar taka sæti á Alþingi sem aðalmenn eða varamenn, að fjalla um kjör­gengismissi o.fl.
    Ein efnisbreyting er gerð frá 4. gr. gildandi laga. Fellt er brott úr niðurlagsákvæði fyrri málsgreinar að kjörbréfanefnd (nú stjórnlaganefnd) skuli fjalla um kærur yfir kosningum eða kjörgengi er þegar eru tekin gild. Ákvæði þetta fellur ekki að 4. mgr. 5. gr. þar sem segir að kærur þurfi að vera komnar fram áður en kosning og kjörgengi þingmanns eru tekin gild á Alþingi. Hins vegar er bætt í greinina því ákvæði að nefndin fjalli um erindi er Alþingi ber­ast og varða missi kjörgengis alþingismanns, t.d. vegna refsingar er honum hefur verið dæmd og þess háttar. Rétt er að taka fram að þrátt fyrir þessa breytingu væri eðlilegt að máli, er upp kynni að koma eftir að Alþingi hefur úrskurðað um gildi kosninga, t.d. kosningamisferli, gæti þingið vísað til stjórnlaganefndar sem bæri að rannsaka málið og gera tillögu um af­greiðslu þess.
    Um breytingu á 2. mgr. vísast til athugasemda við 1. gr.

Um 5. gr.


    Ákvæði 4. og 5. gr. þingskapa um rannsókn kjörbréfa eru að mörgu leyti úrelt og er orða­lag greinanna enn miðað við þá skipun þegar þingmenn voru kosnir í einmenningskjördæm­um og aukakosningar gátu farið fram milli almennra kosninga til Alþingis. Kosningar fara nú fram í átta stórum margmenniskjördæmum og aukakosningar fara ekki lengur fram. Úrslit kosninga í einu kjördæmi geta og samkvæmt núgildandi kosningalögum haft veruleg áhrif á úthlutun þingsæta í öðrum kjördæmum, sbr. 112. og 113. gr. kosningalaga (jöfnunarsæti). Verði kosning í einu kjördæmi úrskurðuð ógild er úthlutun jöfnunarsæta í öðrum kjördæmum í óvissu.
    Hér er ekki gerð tillaga um róttæka breytingu á greininni en nauðsynlegt þykir að bæta við málsgrein sem felur í sér að skylt sé að fresta afgreiðslu kjörbréfa þeirra þingmanna sem kosnir eru á grundvelli kosningaúrslita á landinu öllu (jöfnunarsæti) ef kosning í kjördæmi er úrskurðuð ógild.
    Ósamræmi er nú milli 4. og 5. gr. laganna. Í 4. gr. er rætt um meðferð á kærum yfir kosn­ingum eða kjörgengi er þegar hafa verið tekin gild, en í 5. gr. segir að kæra skuli því aðeins tekin til greina að hún sé komin til Alþingis í byrjun þings næst á eftir kosningu, sbr. einnig 126. gr. kosningalaga. Með hliðsjón af þessu er lagt til að ákvæðum 4. gr. verði breytt til samræmis við ákvæði núgildandi 4. mgr. 5. gr. Hlýtur að teljast eðlilegt að slík kærumál séu afgreidd í eitt skipti fyrir öll þótt ekki sé hægt að útiloka að síðar komi í ljós, eftir að frestur er liðinn, að misferli hafi átt sér stað. Verður Alþingi þá að taka á slíku máli eftir því sem efni standa til.

Um 6. gr.


    Með nýrri 1. mgr. er stefnt að því að styrkja embætti forseta og koma meiri festu á störf þingsins með því að láta kosningu embættismanna og nefnda gilda allt kjörtímabilið. Er það og í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á skipulagi þingsins 1991 og fólust m.a. í því að tryggja meiri samfellu í þingstörfum þannig að þingið situr að formi til allt árið og þingnefndir starfa í vaxandi mæli utan þingtíma.
    Reynslan sýnir að litlar breytingar verða jafnan á skipan nefnda, þar á meðal forsætis­nefndar, ef stjórnarsamstarf helst óbreytt. Í þingsköpum, 16. gr., er hins vegar að finna rúma heimild fyrir þingflokka til að hafa mannaskipti í nefndum ef þeim sýnist svo.
    Nauðsynlegt þykir þó að hafa ákvæði í þingsköpum sem veitir meiri hluta þingsins rétt til þess að kjósa á ný embættismenn og fastanefndir. Eru þá einkum höfð í huga stjórnarskipti eða breytingar á stjórnarsamstarfi á kjörtímabilinu. Þannig getur nýr meiri hluti á Alþingi hvenær sem er kosið á ný embættismenn og nefndir þegar talin er pólitísk nauðsyn á því.
    Í þingsköpum er nú ákvæði í 2. mgr. 6. gr. um að hverjum forseta þingsins sé heimilt að leggja niður störf ef meiri hluti leyfir. Ekki þykir lengur ástæða til að binda afsögn forseta þessum skilyrðum. Ákvæðið mun eiga sér rætur í því að forsetar voru áður án atkvæðisréttar og þá gat skipt máli, ef fylkingar voru jafnstórar, hver gegndi forsetastörfum. Nú mun það vera almennt viðhorf að vilji forseti leggja niður störf geti hann gert það án nokkurra skil­yrða. Enn fremur er lagt til að brott falli ákvæði um að Alþingi geti vikið forseta frá með samþykki 2/ 3 hluta allra alþingismanna, þ.e. 42 alþingismanna af 63. Samkvæmt síðari málslið nýrrar 1. mgr. getur meiri hluti þingsins tekið upp kosningar til trúnaðarstarfa og ekki þykir rétt að veita forseta frekari vörn ef hann nýtur ekki trausts meiri hlutans.
    Í nýrri 2. mgr. greinarinnar er gerð tillaga um hver gegna skuli þeim störfum sem á forseta hvíla, bæði störfum varðandi stjórnsýslu Alþingis og öðrum störfum hans, þar á meðal skv. 8. gr. stjórnarskrárinnar, frá kjördegi og til þess að nýkjörið þing kemur saman í fyrsta sinn. Nú er enga reglu að finna um þetta efni, aðra en þá sem ráða má af 1. mgr. 6. gr., en eðlileg­ast þykir að þessi störf séu í höndum þess forseta sem síðast var kjörinn til þess embættis, en sé hann ekki endurkjörinn alþingismaður gegni varaforsetar þeim störfum fram til þess að Alþingi er sett. Óeðlilegt þykir að fráfarandi forseti, sem er hættur þingstörfum, sinni stjórnsýslustörfum á Alþingi eða fari með forsetavald í fjarveru forseta Íslands. Hér er fylgt þeirri reglu að varaforsetar gegni þessum störfum, ef forseti hefur ekki verið kosinn á ný þingmaður, eftir þeirri röð sem þeir voru kjörnir (1. varaforseti að frágengnum forseta, 2. varaforseti að frágengnum 1. varaforseta o.s.frv.). Ef svo vill til að enginn varaforseta er kjörinn er eðlilegast að aldursforseti gegni þessum störfum.

Um 7. gr.


    Í 8. gr. þingskapa er sú grundvallarregla að forseti stjórni umræðum og sjái um að allt fari fram með góðri reglu. Felst í því bæði réttur hans til agavalds og skylda til að sjá um að störf þingsins séu ávallt í samræmi við stjórnarskrá, þingsköp og önnur lagafyrirmæli. Þykir rétt að gera þetta ákvæði skýrara og taka fram berum orðum að honum sé skylt að sjá til þess að ákvæði stjórnarskrár séu haldin í störfum þingsins, svo og þingskapa og annarra laga. Hefur það að sjálfsögðu verið óskrifuð regla fram að þessu. Þá þykir fara betur að 2. og 3. málsl. 1. mgr. séu sjálfstæð málsgrein. Tekið skal fram að með orðunum „erindum til Alþingis“ er átt við erindi sem beint er til Alþingis sem slíks, en ekki erindi sem nefndum þingsins berast, sbr. 28. gr. Þau eru á forræði nefndanna sjálfra og tengjast flest afgreiðslu þeirra á þingmál­um. Um þetta hafa skapast fastar venjur og er ekki ætlunin að gera þar breytingu á. Erindi til Alþingis er venja að „leggja fram á lestrarsal“, þ.e. þau eru öllum aðgengileg á skrifstofu þingsins.
    Í b-lið er einvörðungu um orðalagsbreytingu að ræða, en samstarf forseta og varaforseta um fundastjórn hefur aukist mjög á seinni árum. Orðalag núgildandi 2. mgr. vísar til þess tíma þegar aðalforsetar sátu á forsetastól nær alla fundi nema þeir hefðu lögmæt forföll. Þannig má nú vel hugsa sér eins og forsetar haga störfum sínum að varaforseti vilji víkja úr forsetastól til að taka þátt í umræðum en aðalforseti taki sæti hans á meðan.
    Í 3. mgr. 8. gr. er nú ákvæði þar sem forseta er gert að hafa umsjón með starfi þingnefnd­anna. Á grundvelli þessa ákvæðis hafa á undanförnum árum verið settar ýmsar almennar reglur um störf nefndanna, svo sem um ferðir þeirra, aðgang að gögnum þeirra o.fl. Rétt þyk­ir að styrkja þetta ákvæði og hlutverk forseta í þessu sambandi og veita honum almenna heimild til þess að setja starfsreglur fyrir nefndirnar. Liggja slík drög raunar fyrir og eru birt sem fylgiskjal með frumvarpinu. Í ákvæðinu er í c-lið áskilið að forseti hafi samráð við nefndaformenn og formenn þingflokka um efni slíkra reglna því að mikilvægt er að um þær sé víðtæk samstaða.
    Loks er efni 3. mgr. 30. gr. þingskapa fært í þessa grein þar sem það þykir betur eiga heima.

Um 8. gr.


    Með breytingunni eru í fyrsta lagi fest í þingsköp þau ákvæði er verið hafa í öðrum lögum að forseti geri kjarasamninga við starfsmannafélög Alþingis og stofnana þess, þ.e. Ríkisend­urskoðunar og umboðsmanns Alþingis. Jafnframt er mælt fyrir um að forseti úrskurði um laun æðstu starfsmanna á skrifstofu Alþingis, hjá Ríkisendurskoðun og umboðsmanni, þ.e. þeirra er starfsmannafélög semja ekki fyrir. Verður því nauðsynlegt að breyta ákvæðum nýju starfsmannalaganna að því er varðar skrifstofustjóra Alþingis, en samkvæmt þeim ákvarðar kjaranefnd nú laun hans.
    Þá eru í öðru lagi sett ákvæði um meðferð fjárlagatillagna Alþingis og stofnana þess. Skv. 42. gr. stjórnarskrárinnar hvílir sú skylda á ríkisstjórninni, þegar er Alþingi er komið saman, að leggja fram frumvarp til fjárlaga þar sem fram komi greinargerð um tekjur og gjöld ríkis­ins. Litið er svo á að ríkisstjórnin hafi því skyldu til þess að taka upp í fjárlagafrumvarpið tillögur um fjárveitingar til Alþingis, sjálfs fjárveitingavaldsins. Með hliðsjón af sérstakri stöðu Alþingis í stjórnkerfinu og þróun þess til meira sjálfstæðis um stjórnsýslu sína þykir hins vegar eðlilegt að forusta þingsins, þ.e. forseti og varaforsetar, gangi frá fjárlagatillögum Alþingis og stofnana þess og þær tillögur séu teknar upp í fjárlagafrumvarpið. Er það og í samræmi við ný lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, sbr. sérstaklega 4. mgr. 21. gr. og 50. gr. þeirra.
    Áþekk skipan mála, að því er varðar fjárlagatillögur þingsins, er við lýði í flestum þjóð­þingum sem kjörin eru lýðræðislegri kosningu. Þykir miklu skipta, með hliðsjón af eftirlits­hlutverki þingsins, svo og stofnana þess, umboðsmanns og Ríkisendurskoðunar, að tillögur um umsvif þeirra séu afgreiddar af forustu þingsins. Það skal þó áréttað að Alþingi sjálft ákveður endanlega fjárveitingar til rekstrar þess og hverjum þingmanni eða ráðherra er heim­ilt að gera breytingartillögur við þær.
    Þá er rétt að geta þess að fjárlagatillögur Alþingis skulu afgreiddar innan þess frests sem fjármálaráðuneytið setur um tillögur stofnana og ráðuneyta við undirbúning fjárlagafrum­varpsins, eins og nánar er mælt fyrir um í 3. mgr. 21. gr. fjárreiðulaganna, nr. 88/1997.
    Fjárlagatillögurnar skulu afgreiddar af forsætisnefnd. Verði ágreiningur innan forsætis­nefndar um efni tillagnanna gildir sú regla sem sett er í lokamálslið 2. mgr. 10. gr. að forseti hafi úrskurðarvald. Forseta eru af meiri hluta Alþingis falin æðstu völd um rekstur þingsins og því er mikilvægt að tillögurnar séu á ábyrgð hans. Það hlýtur hins vegar að vera eitt af mikilvægustu verkefnum forseta að skapa samstöðu um rekstur Alþingis og fjárveitingar til þess.

Um 9. gr.


    Í a-lið greinarinnar er lagt til að starfstitlinum „skrifstofustjóri“, sem er orðinn algengur í stjórnkerfinu, sé breytt og yfirmaður skrifstofu Alþingis framvegis nefndur skrifstofustjóri Alþingis.
    Núgildandi 3. mgr. 11. gr. þingskapa er í ósamræmi við ákvæði nýju starfsmannalaganna, nr. 70/1996, sem taka til starfsmanna þingsins eins og annarra opinberra starfsmanna. Í 5. gr. þeirra laga eru almenn ákvæði um veitingu starfs og í 51. gr. eru ákvæði að því er varðar Alþingi. Réttast þykir því að fella 3. mgr. 11. gr. þingskapa brott og láta starfsmannalögin gilda um ráðningar hjá Alþingi eins og öðrum stofnunum. Óbreytt stendur að forsætisnefnd ræður skrifstofustjóra Alþingis, sbr. 1. mgr. 11. gr. þingskapa.

Um 10. gr.


    Í 1. og 2. mgr. 12. gr. eru ákvæði um gerðabók þingsins og samþykkt hennar á þingfundi. Ákvæðið um gerðabók þarfnast endurskoðunar, enda eru nú allar samþykktir þingsins og allt sem fram fer á þingfundi prentað í ræðuparti Alþingistíðinda. Síðan ræðuparti þingtíðind­anna var breytt 1972 og byrjað að gefa hann út í réttri tímaröð, í stað þess að umræður væru flokkaðar eftir málum, hefur þýðing gerðabókarinnar stórminnkað, og er nú nánast aldrei leitað til hennar um upplýsingar. Tölvuvinnsla og gagnagrunnur þingsins gerir færslu gerða­bókar því sem næst óþarfa. Um nokkurt skeið hefur gerðabókin verið tölvufærð og prentuð út á lausum blöðum, en áður var hún handfærð í þykka bók.
    Í 2. mgr. a-liðar greinarinnar er lagt til að Alþingistíðindi, B-deild, verði gerðabók þings­ins. Er þá jafnframt gert ráð fyrir að ritstýrð útskrift hvers þingfundar sé formlega borin und­ir þingfund og staðfest af forseta svo sem verið hefur um gerðabókina. Jafnframt þessu eru gerðar nokkrar breytingar á núgildandi 88. gr., um Alþingistíðindi, til samræmis og vísast nánar til athugasemda við þá grein.
    Með breytingu á greininni fellur niður 3. mgr. um að forseti geti hvatt til tvo þingmenn til að telja saman atkvæði við atkvæðagreiðslur. Slík talning á aðeins við ef ekki er unnt að nota atkvæðagreiðslukerfi, svo og við nafnakall. Venja hefur skapast fyrir því, síðan hætt var að kjósa skrifara úr hópi þingmanna árið 1991, að starfsmenn þingsins annist slíka taln­ingu. Málsgreinin er því óþörf.
    Í b-lið er lagt til að sett verði nánari ákvæði í þingsköp um varðveislu skjala Alþingis. Notkun á skjalagögnunum er mjög mikil í tengslum við störf þingsins. Með því að lögfesta ákvæði um skjalasafnið hvílir sú skylda á forustu Alþingis að búa sem best að safninu og tryggja örugga varðveislu skjalagagna. Þá er þess að geta að í 10. gr. stjórnarskrárinnar er ákvæði þess efnis að Alþingi varðveiti annað eintak af tveimur af eiðstaf forseta Íslands en Þjóðskjalasafnið hitt.

Um 11. gr.


    Með breytingum á greininni er gerð allróttæk uppstokkun á nefndakerfinu. Nefndum er fækkað úr 13 í 7, en einni nýrri nefnd er bætt við, stjórnlaganefnd, sem ætlað er að fjalla um málefni æðstu stjórnar ríkisins og málefni þeirra stofnana Alþingis sem sinna eftirlitshlut­verki á þess vegum gagnvart framkvæmdarvaldinu. Verkefni kjörbréfanefndar verða einnig færð undir hina nýju nefnd. Nefndir þingsins verða því sjö talsins.
    Markmið þessara breytinga er að styrkja nefndastarfið, efla nefndirnar og gefa þeim meira og betra svigrúm til starfa. Í núverandi kerfi eru nefndarsæti 110, ef kjörbréfanefnd er ekki talin með, né heldur sæti varamanna í utanríkismálanefnd. Þetta þýðir að hver alþingismaður (að frátöldum forseta og ráðherrum) sé að meðaltali í fleiri en tveimur nefndum. Nokkrir þingmenn eiga nú sæti í fjórum fastanefndum, en jafnframt er dæmi um að þingmaður eigi ekki sæti í fastanefnd. Ljóst er að þetta fyrirkomulag gerir alla skipulagningu nefndastarfsins örðuga og þrengir nokkuð þann tíma sem nefndir geta starfað ef taka á tillit til allra og fundatímar ekki látnir rekast á. Breytingin gæti þannig leitt til betri nýtingar á fundatíma, einkum í nefndavikum sem þótt hafa góð nýbreytni í störfum þingsins.
    Með þeirri breytingu, sem áformuð er, fækkar nefndarsætum úr 110 í 63, eða um 47 sæti. Þannig gætu flestir þingmenn átt sæti í einni nefnd sem fjalla þó yfirleitt um breiðara mál­efnasvið en áður. Liggi fundatafla nefndanna fyrir áður en kosið er til þeirra gætu þingflokk­ar hagað vali sínu á nefndarmönnum með hliðsjón af henni svo að koma megi í veg fyrir árekstra út af fundatímum og þannig væri unnt að rýma mjög til fyrir nefndastarfinu. Nefndir gætu þá haft fasta fundatíma tvisvar í viku og auðvelt ætti að vera að koma á aukafundum ef álag er mikið.
    Breytingarnar felast flestar í því að slá saman verkefnum nefnda sem fjalla um tengd mál­efnasvið. Svo er um félagsmálanefnd og heilbrigðis- og trygginganefnd, og enn fremur sam­göngunefnd og umhverfisnefnd. Verkefnum landbúnaðarnefndar, sjávarútvegsnefndar og iðn­aðarnefndar er skipað í atvinnumálanefnd ásamt þeim atvinnumálum sem nú heyra undir efnahags- og viðskiptanefnd, þ.e. verslunar- og bankamálum, svo og byggðamálum sem rétt­ast þykir að skipa með atvinnumálum. Enn fremur er lagt til að verkefni menntamálanefndar og allsherjarnefndar verið sameinuð í einni nefnd. Verkefni fjárlaganefndar verði aukin þannig að hún fjalli líka um tekjuhlið ríkissjóðs og þannig færast til hennar skatta- og gjalda­mál frá efnahags- og viðskiptanefnd, svo og önnur efnahagsmál sem sú nefnd hefur fjallað um og önnur mál fjármálaráðuneytis, svo sem lífeyrismál. Heiti nefndarinnar breytist þá í fjármálanefnd. Jafnhliða er lagt til í 25. gr. að aðrar fastanefndir taki meiri þátt en verið hef­ur í afgreiðslu fjárlaga. Engin breyting yrði á verkefnum utanríkismálanefndar.
    Málefnasviðum fastanefnda má skipa með ýmsum hætti en í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir er í stórum dráttum byggt á skiptingu málefna í Stjórnarráðinu, svo sem verið hefur, þannig að skyldum málefnum verði haldið saman og hliðsjón höfð af vinnuálagi í nefndum.
    Síðan Ríkisendurskoðun var færð undir Alþingi og embætti umboðsmanns Alþingis stofn­að fyrir um áratug hefur verið óvissa um hvernig með skýrslur þessara stofnana skuli fara á Alþingi. Hefur um nokkurn tíma verið rætt í forsætisnefnd og á vettvangi formanna þing­flokkanna um að nauðsynlegt sé að finna þessum skýrslum skýrari farveg innan þingsins. Brottfall stjórnarskrárákvæðis um yfirskoðunarmenn ríkisreiknings árið 1995 jók enn á þörf­ina fyrir úrbætur. Breytingin á 13. gr. miðar að því að hin nýja nefnd, sem lagt er til að verði kölluð stjórnlaganefnd, taki til athugunar ársskýrslur Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns, svo og aðrar skýrslur stofnananna sem beint er til Alþingis eða eru unnar á vegum þingsins. Með breytingu á 44. gr. þingskapa verður nefndinni heimilt að leggja fram álit og ályktunar­tillögu um skýrslu sem hún hefur haft til meðferðar. Með breytingu á 28. gr. laganna er einn­ig tryggt að ráðherrar eigi greiða leið að nefndinni til að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum ef í skýrslum felst gagnrýni á embættisfærslu þeirra.
    Þá er jafnframt lagt til að stjórnarskrárfrumvörpum verði vísað til stjórnlaganefndar í stað þess að kjósa sérnefnd hverju sinni til að fjalla um þau eins og nú er skylt skv. 42. gr. þing­skapa. Stjórnlaganefnd mun enn fremur fá til afgreiðslu frumvörp sem varða æðstu stjórn rík­isins, málefni forseta lýðveldisins og Stjórnarráðsins í heild, svo og þau málefni Alþingis og alþingismanna sem skipað er með lögum, en gert er ráð fyrir að forsætisnefnd og formenn þingflokka undirbúi slík mál eins og verið hefur. Þar sem stjórnlaganefnd tekur við verkefn­um kjörbréfanefndar mun hún fjalla um mál er varða kjörgengi þingmanna og þá einnig sviptingu þinghelgi ef ósk um slíkt bærist, sbr. og athugasemdir við breytingar á 4. gr. lag­anna.
    Á það ber að leggja áherslu að þótt hin nýja stjórnlaganefnd fari með mikilvæg mál er varða eftirlit Alþingis með stjórnsýslunni, þ.e. skýrslur Ríkisendurskoðunar og umboðs­manns, eiga aðrar fastanefndir rétt á að taka slík mál upp að eigin frumkvæði, sbr. 26. gr., svo sem verið hefur.
    Þess ber að geta að í Svíþjóð og Noregi er löng hefð fyrir sérstakri stjórnarskrárnefnd (sæ. konstitutionsutskottet; no. kontroll- og konstitusjonskommitéen) og hefur verið höfð nokkur hliðsjón af starfi þeirra við endurskoðun 13. gr. þingskapa.
    Í 3. mgr. er þingflokkum veitt heimild til þess að tilnefna varamenn í nefndum, ef þeim sýnist svo, allt að tölu aðalmanna flokksins í nefndinni. Engin bein ákvæði eru nú í þingsköp­um um varamenn, nema í utanríkismálanefnd, en hins vegar hefur þingflokkum verið gert auðvelt að kalla til staðgengla, sbr. 3. mgr. 17. gr., og að hafa mannaskipti í nefndum, sbr. 16. gr. Stendur ekki til að breyta þessu kerfi, en þó er fellt brott sérákvæði þingskapa um kosningu varamanna í utanríkismálanefnd. Þess er þó vænst að þingflokkar tilnefni vara­menn, eftir því sem þörf er á, enda léttir það undirbúning og boðun nefndafunda.
    Loks eru ákvæði síðari málsliðar 1. mgr. 14. gr. um áheyrnarfulltrúa færð í 13. gr. efnis­lega óbreytt að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir að forsætisnefnd setji almennar reglur um rétt þingflokka til áheyrnarfulltrúa í nefndum í stað þess að hver nefnd setji sér slíkar reglur eins og nú er. Í reglum forsætisnefndar skulu líka vera ákvæði um rétt þingmanna utan flokka til að eiga áheyrnaraðild að nefndum; hefur forsætisnefnd raunar sett slíka reglu, á þinginu 1994–95.

Um 12. gr.


    Efni 1. mgr. 14. gr. hefur verið fært í 13. gr. Samkvæmt henni eru allar nefndir skipaðar níu þingmönnum, en þingflokkum heimilt að tilnefna varamenn ef þeir kjósa svo.
    Í 4. mgr. er nú ákvæði um að formaður og varaformaður nefndar geti lagt niður störf ef nefnd leyfir. Það þykir óeðlilegt að setja því skilyrði að formaður eða varaformaður leggi niður störf, heldur geti þeir gert það ef þeim sýnist svo. Ákvæði þetta er hliðstætt því sem gildir um forseta og varaforseta þingsins en lagt er til í 4. gr. að því verði einnig breytt. Ákvæðum núgildandi 4. mgr. um frávikningu formanns og varaformanns er því til samræmis breytt þannig að til slíks þarf samþykki meiri hluta nefndarmanna.

Um 13. gr.


    Lengi hefur tíðkast að varaþingmaður taki sæti í þeim nefndum sem aðalmaður á aðild að (gegnir þó að jafnaði ekki embættisstörfum hans, formennsku eða varaformennsku). Það get­ur þó stundum reynst óheppilegt, t.d. ef varamaður, sem ekki hefur átt þess kost að fylgjast með störfum þingsins eða þingflokks, tekur sæti í nefnd sem er að ljúka afgreiðslu viðamikils máls. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er aukið vald þingflokks til að ákveða hvort varaþingmaðurinn eða annar þingmaður flokksins taki um stundarsakir sæti í nefndinni.
    Bætt er við málslið um að varaþingmenn taki ekki sæti í nefndum þar sem kosnir eru eða tilnefndir varamenn. Gildir það einnig um alþjóðanefndir. Jafnframt er í síðasta málslið tekið fram að sömu reglur gildi fyrir þingmann sem tekur fast sæti við fráfall eða afsögn aðal­manns.

Um 14. gr.


    Lagt er til í fyrri málsgreininni að lögfesta þá venju sem verið hefur og leiðir af ákvæðum núgildandi 19. gr. um lokaðan nefndarfund að óheimilt sé að vitna beint til ummæla manna á nefndarfundum, t.d. í þingræðu. Regla þessi hefur verið virt, með fáum undantekningum þó. Ákvæði þetta gildir aðeins um umræður á nefndarfundum en ekki það skriflega efni sem fyrir liggur, og það gildir aðeins um beinar tilvitnanir, eða það sem jafngildir þeim, en ekki til afstöðu manna. Það verður t.d. ekki hindrað með þessu ákvæði að nefndarmaður skýri frá því að samtök, sem sent hafa fulltrúa á fund nefndar, séu t.d. andvíg máli eða hafi gert at­hugasemdir við það. Á það skal enn fremur bent að ef þingmanni þykja ummæli annars nefndarmanns eða gests á nefndarfundi mikilvæg getur hann leitað leyfis til að hafa þau eftir opinberlega.
    Í síðari málsgreininni er fjallað um opna nefndarfundi. Ekki er tekin afstaða til þess hvort halda beri slíka fundi sem lið í afgreiðslu þingmála eða umfjöllun nefnda um önnur mál sem eru þar til meðferðar. Ákvæðið lýtur aðeins að því að vilji nefnd halda opinn fund (á það hef­ur ekki reynt enn þá) skuli um fyrirkomulag hans gilda reglur sem forsætisnefnd hefur sett. Óheppilegt þykir að nefnd geti nýtt heimild til opins nefndarfundar nema forusta þingsins, forsætisnefnd og formenn þingflokka, hafi áður fjallað um og sett almennar reglur um fyrir­komulag slíkra funda sem væru nýjung í starfi Alþingis.

Um 15. gr.


    Breyting skv. a-lið greinarinnar er til samræmis við breytingu á 13. gr. og vísast um nán­ari skýringar til athugasemda við þá grein.
    Með b-lið þessarar greinar er stefnt að því að opna þingmálum leið til nefndar áður en 1. umræða fer fram um lagafrumvarp eða fyrri umræða um þingsályktunartillögu. Kemur máls­greinin í stað málsgreinar (2. mgr. 23. gr.) sem er nú í þingsköpunum og gerði kleift að taka stjórnarfrumvarp eða stjórnartillögu til athugunar í nefnd ef ósk barst um það frá níu þing­mönnum. Með því ákvæði var veitt heimild til athugunar mála, sérstaklega viðamikilla mála, áður en 1. umræða fór fram. Á það ákvæði hefur ekki reynt formlega síðan það var sett 1991.
    Hér er um veigamikla breytingu að ræða því að fram að þessu hefur mál ekki gengið til nefndar eða þótt tækt að taka það til athugunar í nefnd fyrr en 1. umræðu er lokið þótt frá því séu undantekningar ef samkomulag hefur verið um slíkt í nefnd. Má í því sambandi einkum nefna vinnu fjárlaganefndar að fjárlagafrumvarpi áður en því er formlega vísað til nefndar­innar.
    Meginsjónarmið að baki breytingunni eru tvö, annars vegar að heppilegt geti verið að hefja þegar í stað, er máli hefur verið útbýtt, athugun þess, t.d. fá skýringar á einstökum at­riðum þess o.s.frv. áður en 1. umræða hefst, og hins vegar að vinna tíma þannig að komist mál ekki fljótt til 1. umræðu sé tíminn þó notaður til þess að afla umsagna um það o.fl. Oft getur liðið langur tími frá því að þingmál koma fram, þ.e. er útbýtt á þingfundi, þar til það er tekið á dagskrá. Svo er um mörg mál, einkum mál frá þingmönnum, og þess eru þar að auki mörg dæmi að ekki hafi gefist tími til að ljúka fyrstu eða fyrri umræðu um mál á þinginu en þau mál hafa þá aldrei fengið athugun í nefnd, t.d. er ekki leitað umsagna um þau o.s.frv. Mundi þetta ákvæði því létta mjög á dagskrá þingfunda því að eðlilega er mjög sótt á forseta að taka mál sem fyrst til umræðu svo að þau geti fengið venjulega meðferð í nefnd.
    Með þessari breytingu er því stefnt að því að 1. umræða um mál geti farið fram þegar gerð hefur verið grein fyrir þeim í nefnd og þingmenn hafa átt kost á að fá frekari upplýsingar um þau. Með því móti gæti 1. umræða orðið markvissari en nú og jafnframt styttri þar sem m.a. munu þá liggja fyrir upplýsingar ráðherra eða embættismanna hans um einstök atriði sem þingmenn hefðu ella spurt um við 1. umræðu. Umræðan ætti því einnig að geta orðið almenn­ari fyrir bragðið, eins og reyndar er ætlast til um 1. umræðu, sbr. 38. gr. þingskapa.
    Framkvæmd þessa nýmælis er hugsuð þannig að forseti ákveði til hvaða nefndar mál gangi um leið og tilkynnt er um útbýtingu þess. Afar sjaldan er óvissa eða ágreiningur um til hvaða nefndar mál á að ganga. Hefur forseti þá leiðbeint um það eða komist að samkomu­lagi við flutningsmenn. Ef ágreiningur er hins vegar um ákvörðun forseta geta þingmenn ósk­að eftir atkvæðagreiðslu um málið, annaðhvort þegar í stað eða á næsta fundi. Vísun málsins til nefndar kæmi þá formlega á dagskrá.
    Að öðru leyti er reiknað með að forseti taki þingmál á dagskrá eftir sömu meginsjónar­miðum og verið hefur, þ.e. eins fljótt og kostur er, en fari þó að óskum nefndar ef hún vill fara betur yfir mál áður en það kemur á dagskrá.
    Í mörgum nágrannaþingum, t.d. norska, sænska og finnska þinginu, hefur það tíðkast lengi, og þótt gefast mjög vel, að athugun máls hefjist um leið og það kemur til þingsins og áður en almennar umræður um það fara fram í þingsal.
    Eðlilegast er að nefnd fái einhverju um það ráðið hvenær 1. umræða fer fram. Þó ber að hafa í huga að heppilegt er að viðbrögð alþingismanna gagnvart miklum ágreiningsefnum geti komið fram fljótlega eftir að máli er útbýtt í þinginu. Nauðsynlegt þykir því að tryggja minni hluta í nefnd (þ.e. stjórnarandstöðu) rétt til þess að knýja á um að 1. umræða fari sem fyrst fram svo að meiri hluti nefndar geti t.d. ekki haldið umdeildu máli í nefnd og komið í veg fyrir að almenn pólitísk umræða fari fram um það fyrir opnum tjöldum í þingsalnum meðan nefndin er að fjalla um málið. Er reiknað með að um þetta mótist fljótt venjur en skv. 3. mgr. 8. gr. hefur forseti umsjón með starfi þingnefnda og því er þess að vænta að hann hafi forustu um að fella þetta nýja fyrirkomulag í heppilegan farveg.
    Nefndarvísun samkvæmt þessari málsgrein kemur í stað nefndarvísunar eftir 1. umræðu. Það er því fyrst fyrir 2. umræðu sem nefndin skilar áliti og breytingartillögum.

Um 16. gr.


    Breytingin á greininni er til samræmis við þá venju sem skapast hefur í utanríkismála­nefnd, þ.e. að þagnarskylda sé hin almenna regla en frá henni megi víkja ef nefndin samþykk­ir.

Um 17. gr.


    Heiti fjárlaganefndar er breytt til samræmis við ný viðfangsefni sem færð eru undir nefnd­ina. Nefndinni er ætlað að fjalla um tekjur og gjöld ríkissjóðs, þ.e. fjárveitingar og aðrar heimildir á fjárlögum og tekjur ríkissjóðs af sköttum og öðrum gjöldum. Um frekari skýring­ar vísast til athugasemda við 13. gr. Vonast er til að vinnuálag á nefndina breytist og jafnist þannig að það minnki eitthvað á haustþingi, sbr. 2. mgr. greinarinnar, en verkefni aukist frá því sem nú er á vorþingi er nefndin fjallar um önnur frumvörp en fjárlagafrumvarp.
    Með nýjum lögum um fjárreiður ríkisins eru lánsheimildir ríkissjóðs færðar inn í fjárlaga­frumvarpið og því munu sérstök lánsfjárlagafrumvörp hverfa. Breyting í b-lið er í samræmi við það.
    Síðan 1991 hefur tíðkast að fastanefndirnar fjalli hver um sitt málefnasvið fjárlagafrum­varpsins. Hefur það fyrirkomulag þótt gefast vel þó að skiptar skoðanir hafi verið um hversu langt ætti að ganga í þeim efnum. Með breytingu á orðalagi 2. mgr. er gengið lengra á þess­ari braut og bein fyrirmæli sett um að fjármálanefnd vísi þeim þáttum fjárlagafrumvarps (og fjáraukalagafrumvarps), sem heyra undir málefnasvið fastanefndanna, til umfjöllunar þar. Er þá miðað við að sú grunnvinna við yfirferð yfir einstök ráðuneyti og málaflokka, svo og afgreiðslu erinda sem þeim tengjast, sem nú er unnin í fjárlaganefnd, færist til fastanefndanna. Tekjuhlið frumvarpsins er þó óskipt hjá fjármálanefnd. Byggt er á þeirri grundvallar­reglu að fastanefndir geti ekki gert tillögur sem hækka heildarútgjöld hvers ráðuneytis eða málaflokks frá því sem þau eru í frumvarpi eða samkvæmt ákvörðun fjárlaganefndar. Með þessu lagi er tryggð festa í meðferð frumvarpsins. Þetta fyrirkomulag mun leiða til þess að ýmis vandamál við fjárlagaafgreiðslu koma til endanlegrar afgreiðslu fjármálanefndar fyrir 3. umræðu, og er það ekki mikil breyting frá því sem verið hefur. Breyting gæti hins vegar falist í því að tekjuhlið fjárlaga, a.m.k. lagabreytingar í því sambandi, gæti legið fyrir við 2. umræðu fjárlaga í stað 3. umræðu eins og nú er þótt ný tekjuspá kæmi eitthvað síðar. Er til bóta að skatta- og gjaldafrumvörp séu afgreidd fyrr en verið hefur, bæði fyrir atvinnu­rekstur og einstaklinga. Breytingar þessar á meðferð fjárlagafrumvarps byggjast ekki á þeim hugmyndum um rammafjárlög sem nú ryðja sér til rúms á Norðurlöndum (t.d. í Svíþjóð og Noregi) en með orðalagi greinarinnar er stigið visst skref í þá átt og auðvelt á að vera að taka slíkt kerfi upp, ef vilji stendur til þess, með litlum breytingum á þingsköpum og öðrum lögum.
    Ljóst er að með þessari breytingu á ákvæðum þingskapa um meðferð fjárlagafrumvarps og skatta- og gjaldamála verður talsverð breyting á starfi núverandi fjárlaganefndar. Verk­efni hennar verða almennari, en umfjöllun um einstök atriði á hverju málefnasviði færist til fastanefnda. Svigrúmið notar nefndin til umfjöllunar um tekjuhlið frumvarpsins en það kallar á að fylgifrumvörp fjárlaga komi fram samtímis fjárlagafrumvarpi. Jafnframt er ljóst að á nefndinni munu hvíla flest erfiðustu úrlausnarefni í ríkisfjármálum sem krefjast sérstakra ákvarðana ríkisstjórnar og stjórnarmeirihluta á lokaspretti fjárlagaafgreiðslunnar. Breytingin mun einnig hafa áhrif á störf fastanefndanna því að þær munu þurfa að verja talsverðum tíma á haustþingi til fjárlagavinnu. En með þessu móti koma allir alþingismenn að vinnu við fjár­lagagerð og má segja að vel fari á því þar sem fjárstjórnarvaldið er að margra dómi jafn­mikilvægt og almenn löggjafarstörf þingsins.
    Aðrar breytingar á núgildandi 2. mgr. 25. gr. leiðir af þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir. Þannig falla brott ákvæði um umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar um tekjuhlið fjárlaga þar sem sá þáttur málsins er í höndum fjármálanefndar samkvæmt frum­varpi þessu.
    Í 2. mgr. 25. gr. eru nú ákvæði um að 3. umræða fjárlaga hefjist eigi síðar en 15. desem­ber. Í frumvarpinu er bætt við ákvæði um að 2. umræða hefjist eigi síðar en í fyrstu viku desember. Er þar átt við fyrstu heila starfsviku (þingviku) mánaðarins. Þykir nauðsynlegt að herða á afgreiðslu frumvarpsins en afar óheppilegt er ef 2. umræða dregst fram eftir desembermánuði. Þetta yrði enn bagalegra eftir þær breytingar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir á fjárlagaafgreiðslu því að milli 2. og 3. umræðu fæst fjármálanefnd við erfiðustu mál ríkisfjármála eftir að hún hefur lokið afgreiðslu fylgifrumvarpa fjárlaga, skatta- og gjalda­mála.
    Í ljósi þessara breytinga, svo og nýrra laga um fjárreiður ríkisins, er þess vænst að fjár­málanefnd þrói nýjar starfsreglur um meðferð fjárlagafrumvarpsins í þá átt að hún fjalli meira um heildarlínur og stærri mál.

Um 18. gr.


    Með þessari breytingu er lagt til að tengsl nefnda við ráðherra málaflokksins verði efld. Bæði verði ráðherra, sem alla jafna á ekki sæti í þingnefndum, veitt heimild til þess að koma á fund nefndar að eigin ósk til að fjalla um mál sem nefndin hefur til meðferðar frá honum og nefnd veitt heimild til þess að boða ráðherra til fundar við nefndina. Lengi hefur tíðkast að starfsmenn ráðherra (ráðuneyta) komi á nefndarfundi til að fjalla um og útskýra einstök atriði frumvarpa. Hefur það að jafnaði greitt fyrir störfum nefnda. En því frekar þykir ástæða til þess að ráðherrann sjálfur, sem ber ábyrgð á störfum embættismanna, hafi þennan rétt til að eiga orðastað beint við nefndina. Honum er svo í sjálfsvald sett hvaða aðstoðarmenn hann hefur með sér á nefndafundi.
    Þess ber sérstaklega að geta að nefnd getur eftir þessa breytingu óskað eftir að ráðherra komi til fundar við hana til að fjalla um mál sem nefndin hefur til athugunar skv. 26. gr., þ.e. að eigin frumkvæði. Í framkvæmd getur þetta þýtt aukið eftirlitshlutverk nefnda þingsins á málefnasviði sínu. Nefndir geta þannig tekið upp mál sem til umræðu eru í þjóðfélaginu hverju sinni — ekki síst utan þingtíma — og óskað skýringa ráðherra á þeim.

Um 19. gr.


    Í frumvarpinu er lögð til sú breyting á 30. gr. laganna að nefnd skili áliti sínu á einu skjali. Sé nefnd klofin og hvor eða hver nefndarhluti skilar sínu áliti eru þau tekin saman í eitt skjal. Breytingin á 29. gr. er til samræmis við þetta sjónarmið og vísast til athugasemda við breyt­ingu 30. gr.

Um 20. gr.


    Með þessari breytingu er stefnt að því að nefndir skili að jafnaði áliti sínu í einu þing­skjali þannig að saman komi í einu skjali álit meiri hluta og minni hluta, svo og breytingartil­lögum frá meiri hluta, minni hluta eða einstökum nefndarmönnum ásamt skýringum með þeim.
    Þetta fyrirkomulag hefur marga kosti í för með sér, einkum fyrir almenning sem fylgist með störfum þingsins, þar sem þá eru komin saman í einu skjali öll gögn sem nefnd skilar af sér í stað margra skjala eins og nú. Stundum hefur dregist að nefndarhluti skili áliti, en það ætti að vera úr sögunni með þessu fyrirkomulagi. Eins hafa í álitum nefnda, þegar þær hafa klofnað, komið fram ýmsar upplýsingar sem getið er um bæði í áliti meiri og minni hluta og sömu fylgiskjöl hafa verið prentuð með þeim. Hjá þessu má komast með nýju fyrirkomu­lagi.
    Með þessu móti skilar nefnd ekki af sér máli með framlagningu nefndarálits fyrr en allir hlutar hennar hafa lokið við frágang sérálita sinna. Fram að þessu hefur mál verið sett á dag­skrá þótt aðeins liggi fyrir álit meiri hluta. Nefnd er því ætlað að setja ákveðinn og hóflegan frest frá því að mál er afgreitt úr nefnd til að ganga frá álitum, þar á meðal sérálitum minni hluta, og breytingartillögum og skýringum við þær sem koma eiga fram í nefndaráliti. Er sá frestur tveir dagar hið minnsta nema sérstakar aðstæður kalli á annað. Eftir sem áður er það opið öllum þingmönnum að leggja fram breytingartillögur í sérstökum þingskjölum við með­ferð máls.
    Þá er í b-lið lagt til að 3. mgr. greinarinnar, um heimild forseta til að setja nánari reglur um frágang nefndarálita, falli brott en lagt er til að efni málsgreinarinnar verði fært í 8. gr. laganna.

Um 21. gr.


    Meginbreyting á greininni felst í því að kosið verður í alþjóðanefndir á sama hátt og sama tíma og í fastanefndir þingsins. Alþjóðlegt samstarf þingmanna fer vaxandi og er það í takt við þróunina í öðrum löndum. Fram til þessa hafa þingflokkar tilnefnt fulltrúa eftir þingstyrk í alþjóðanefndir, þó að Norðurlandaráði og Vestnorræna ráðinu undanskildum þar sem kosið er á þingfundi, en nauðsynlegt þykir að skapa meiri festu í alþjóðasamstarfi þingsins með því að kjósa til nefndanna á sama hátt og til fastanefnda.
    Samkvæmt hinni nýju skipan eru kosnir þrír aðalmenn og þrír varamenn í nefndirnar, nema sjö í Norðurlandaráð, sex í Vestnorræna ráðið og fjórir í EFTA-nefndina. Aðalmenn hafa allir sömu réttindi til þátttöku í alþjóðastarfi, en fram til þessa hefur þingstyrkur ráðið vali í nefndir, svo og (að mestu leyti) þátttöku einstakra nefndarmanna í alþjóðafundum og ráðstefnum.
    Á því er byggt við þessa breytingu að þingflokkar komi sér saman um heildarskiptingu sæta (og formennsku) í alþjóðanefndum þannig að hver þingflokkur (eða þingflokkar sem vilja vinna saman) eigi sæti í alþjóðanefndum í hlutfalli við þingstyrk sinn. Er reiknað með að formenn þingflokkanna komi sér saman um þá skiptingu; ella yrði að kjósa hlutfallskosn­ingu í hverja nefnd.
    Að öðru leyti er efni greinarinnar óbreytt. Tvær nýjar Íslandsdeildir hafa verið stofnaðar frá 1991, þ.e. þær sem sinna málefnum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og málefnum Vestur-Evrópusambandsins (VES), og er þeim bætt við í upptalningu nefndanna. Þá eru gerðar orðalagsbreytingar til samræmis við nýjar starfsreglur tveggja alþjóðanefnda (3. og 6. tölul. 1. mgr.). Verði stofnaðar nýjar alþjóðanefndir eða núverandi nefndir lagðar niður eða sameinaðar, yrði að breyta þingsköpum.
    Við greinina er bætt nýrri málsgrein, 4. mgr., þar sem segir að sömu reglur gildi um al­þjóðanefndir og fastanefndir almennt. Á það við um boðun funda, ályktunarbæran fund, fundatíma, forföll o.s.frv. Sérstaklega er þó tekið fram að þingflokkar geti haft mannaskipti í alþjóðanefndum. Hverfi t.d. aðalmaður í alþjóðanefnd af þingi getur þingflokkur hans til­nefnt nýjan aðalmann samkvæmt reglum 16. gr.
    Þá er efni núgildandi 47. gr. fært í 35. gr., sem 6. mgr. Greinin fjallar um rétt alþjóða­nefnda til að leggja skýrslu fyrir þingið. Þykir eðlilegra að þetta ákvæði sé með öðru efni um alþjóðanefndir í 35. gr. Við greinina hefur verið bætt ákvæði um að alþjóðanefnd skuli gera þinginu grein fyrir starfi sínu a.m.k. einu sinni á ári. Er það í samræmi við þá venju sem skapast hefur.
    Samkvæmt 7. mgr. er forseta gert að setja almennar reglur um störf alþjóðanefnda. Í því felst m.a. að setja reglur um þátttöku af Íslands hálfu í alþjóðaþingum og ráðstefnum sem tengjast starfi hverrar nefndar, um skiptingu fjár til nefndanna, þátttöku formanns, aðal­manna og varamanna, setu á nefndafundum alþjóðasamtaka, skýrslur um störf nefndanna o.fl.

Um 22. gr.


    Þótt í þingsköpum segi að lagafrumvörp eigi að vera með „lagasniði“ er ekki að finna nánari skrifaðar reglur um hvað við er átt með því orði. Hefð er engu síður rík í þessum efn­um og býsna löng. Hugmyndir hafa komið fram um að gera mætti lagafrumvörp aðgengilegri, bæði fyrir þingmenn og almenning, einkum þannig að betur komi fram hverju verið er að breyta hverju sinni. Má í því sambandi hugsa sér að gildandi lagatexti og sá texti sem frum­varp gerir ráð fyrir séu prentaðir hlið við hlið, í dálkum, eða breytingar, sem ráðgerðar eru, séu felldar inn í gildandi lagatexta og prentaðar þannig með frumvarpi. Þá hefur verið nefnt að ákjósanlegt sé að almennar athugasemdir við lagafrumvarp, svo og útdráttur um efni þess, komi fremst í þingskjali.
    Ekki er talið heppilegt að setja í þingsköp nákvæm fyrirmæli um frágang lagafrumvarpa og því er lagt til að forseti geti sett reglur sem séu til leiðbeiningar þeim sem semja frum­vörp.
    Lagt er til að 2. mgr. 36. gr. falli brott. Um nánari skýringar vísast til athugasemda við breytingar á 52. gr.

Um 23. gr.


    Samkvæmt breytingunni ganga mál til 2. umræðu án atkvæðagreiðslu nema einhver þing­maður óski þess að hún fari fram. Afar fátítt er að þingmenn greiði atkvæði gegn því að frumvörp gangi til 2. umræðu. Þykir eðlilegt að mál fái athugun í nefnd og að efnisleg af­staða til máls sé tekin við 2. umræðu. Þess eru þó dæmi að þingmenn hafa greitt atkvæði gegn því að mál gangi til 2. umræðu, og jafnvel að mál sé fellt frá 2. umræðu. Með breytingu á greininni er ekki verið að girða fyrir slíkt heldur fækka atkvæðagreiðslum um atriði sem eru ágreiningslaus. Jafnframt er vakin athygli á því að ekki eru heldur greidd atkvæði um að vísa máli til nefndar því að það hefur verið gert þegar við útbýtingu.

Um 24. gr.


    Með orðalagsbreytingu þessari er rýmkuð heimild forseta til þess að láta greiða atkvæði um margar greinar frumvarps í einu, svo sem tíðkast hefur mjög lengi, ef enginn ágreiningur er um þær. Enn fremur hefur forseti rýmri heimild samkvæmt hinu nýja orðalagi til þess að bera upp saman breytingartillögur við fleiri greinar en eina, en samkvæmt núgildandi ákvæði er ekki gert ráð fyrir slíku.
    Forsetar hafa hagað atkvæðagreiðslum þannig undanfarin þing ef breytingartillögur hafa verið margar og ekki hefur verið ágreiningur um þær að þær hafa verið bornar upp í einu lagi og síðan þær greinar, sem þær hafa átt við, svo breyttar. Með þessu hefur sparast mikill tími í atkvæðagreiðslum.
    Samkvæmt 65. gr. þingskapa ræður forseti því hvernig atkvæðagreiðsla fer fram, en byggt er á því hér að forseti láti jafnan fara fram sérstakar atkvæðagreiðslur um þær greinar og breytingartillögur sem þingmenn óska þannig að greinilega komi fram ágreiningur og afstaða einstakra þingmanna.
    Í síðari málslið breytingartillögunnar segir að aðeins skuli greiða atkvæði um hvort mál gangi til 3. umræðu ef einhver þingmaður óskar þess. Að jafnaði er ekki ágreiningur um að mál fari milli umræðna og er þessu ákvæði ætlað að fækka atkvæðagreiðslum um forms­atriði. Sérhver þingmaður á þó rétt á að krefjast slíkrar atkvæðagreiðslu ef hann vill að af­staða hans til þessa atriðis komi fram eða hann telur að meiri hluti sé ekki fyrir því að málið gangi lengra.

Um 25. gr.


    Með breytingu á 40. gr. þingskapa er stefnt að vandaðri og öruggari meðferð lagafrum­varpa. Er 3. umræðu í raun skipt í tvennt. Fyrst skal ræða breytingartillögur sem fram hafa komið við einstakar greinar og ljúka afgreiðslu þeirra en síðan taka frumvarpið í heild til um­ræðu eins og það er þá orðið.
    Með breytingunni er komið til móts við það sjónarmið að allar breytingar á frumvarpinu séu komnar fram áður en lokaumræða um það fer fram. Ef samþykktar hafa verið breytingar­tillögur við 3. umræðu getur forseti frestað umræðunni, látið fella breytingartillögurnar inn í lagatextann og útbýtt nýju þingskjali áður en umræðum er haldið áfram ef hann telur að ástæða sé til, svo sem ef flóknar breytingartillögur eru samþykktar við 3. umræðu. Hitt er víst að um mörg frumvörp mun það gilda að engar breytingartillögur eru fluttar við 3. um­ræðu eða þá breytingartillögur sem eru einfaldar í sniðum.
    Samfara þessari breytingu þarf að setja sérstakar reglur um hvernig haga skal umræðum um breytingartillögur við 3. umræðu og hvernig haga skal umræðum um frumvarpið í heild. Er tillögur um þær reglur að finna í nýrri 78. gr.
    Í b-lið er lagt til að ef reynir á 2. mgr. 40. gr. gildi sömu reglur um umræður um nýjar breytingartillögur og gilda ella við upphaf 3. umræðu. Á það ber að leggja áherslu að 2. mgr. 40. gr. er nokkurs konar viðurlagaákvæði sem unnt er að grípa til ef t.d. hætta er á að breyt­ingar, sem samþykktar hafa verið, stangist á við önnur ákvæði frumvarps. Á ákvæðið reynir aðeins ef meiri hluti þingsins samþykkir að vísa máli til nefndar á ný á lokastigi þess, en ekki þótt forseti fresti umræðu, t.d. til að athuga hvort missmíði verði á frumvarpi eftir samþykkt breytingartillagna.

Um 26. gr.


    Breyting í a-lið greinarinnar er til samræmis við breytingu á 13. gr.
    Ákvæði b-liðar felur í sér að forseta Alþingis sé jafnan skylt að kanna hvort frumvarp eða breytingartillaga sé að efni til andstæð stjórnarskránni. Komist hann að þeirri niðurstöðu ber honum að leggja fram tillögu um frávísun. Með orðalagi hinnar nýju málsgreinar er forseta þó aðeins gert að skyldu að leggja slíka tillögu fram að hann telji frumvarp eða breytingar­tillögu ótvírætt, eða augljóslega, andstæða stjórnarskrá. Hafa ber í huga í þessu sambandi að þingmenn geta jafnan flutt frávísunartillögu áður en mál kemur til endanlegrar afgreiðslu telji þeir að þingmál sé andstætt stjórnarskrá.
    Öðru hverju berast athugasemdir frá þingmönnum um að lagafrumvörp séu andstæð stjórnarskrá. Eðlilegt þykir að taka slík ummæli alvarlega hverju sinni og kanna hvort svo geti talist. Getur forseti þá í fyrstu reitt sig á álit eða ábendingar sérfróðra starfsmanna þingsins, t.d. nefndaritara. Hins vegar eru í ákvæðinu ekki sett nánari fyrirmæli um hvernig forseti hagar athugun sinni en augljóst er að hann getur í þessu efni þurft að leita álits fræði­manna utan þings. Er reiknað með því að forseti og forsætisnefnd komi fyrirkomulagi slíkra athugana í fastan farveg. Í stjórnskipaninni eru löggjafarvaldi Alþingis sett ýmis mörk sam­kvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar. Því þykir eðlilegt að í þingsköpum séu ákvæði sem feli forseta að kanna sérstaklega hvort efni frumvarpa, sem fram koma á þinginu, sé augljóslega andstætt stjórnarskránni þótt vitaskuld sé það Hæstaréttar að kveða upp endanlegan úrskurð um það efni, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar.

Um 27. gr.


    Lögð er til sú breyting í a-lið að þingsályktunartillögur frá fastanefndum verði afgreiddar við eina umræðu. Reynslan hefur sýnt að tillögur sem nefndir flytja hafa hlotið fullnaðarum­ræðu í nefndinni og þess vegna verið óþarfi að hafa um þær tvær umræður með nefndavísun á milli, svo sem er um tillögur ríkisstjórnar eða einstakra þingmanna. Ef þörf reynist á nánari athugun í nefnd eftir að umræða er hafin má nýta heimild 1. mgr. 23. gr. um að gera hlé á umræðunni og vísa málinu til nefndar. Með breytingu þessari verður jafnframt einfaldara fyr­ir nefndir, einkum hina nýju stjórnlaganefnd, en einnig nefndir sem nýta sér heimild 26. gr., að koma áliti sínu og ályktunartillögu til umræðu og afgreiðslu í þinginu eftir athugun og um­fjöllun um mál eða skýrslur.
    Að öðru leyti er ekki um efnisbreytingu að ræða; þó er bætt við að ekki þurfi nema eina umræðu um tillögur um skipan rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar. Eðlilegt þykir að þingið ákveði með einni umræðu hvort slíka nefnd eigi að skipa hverju sinni fremur en að fastanefndir þingsins fjalli um slík álitamál. Slíkt er þó ekki útilokað, sbr. áðurgreind ákvæði 1. mgr. 23. gr. þingskapa.
    Samkvæmt c–d-liðum eru felld brott úr greininni ákvæði um ræðutíma sem flytjast í nýja 78. gr.
    Þá er í b-lið hliðstæð breyting og á 38.–39. gr., þ.e. að ekki skuli fara fram atkvæða­greiðsla um vísun tillögu til síðari umræðu nema einhver þingmaður óski þess að hún fari fram.
    Loks er lagt til í e-lið að 6. mgr. greinarinnar falli brott. Um nánari skýringar vísast til at­hugasemda við breytingar á 52. gr.

Um 28. gr.


    Í a-lið greinarinnar er þingflokki veittur réttur til þess að óska umræðu um skýrslu ráð­herra. Hefur raunar þótt sjálfsagt að verða við slíkum óskum ef fram hafa komið, þótt færri hafi verið en níu, ef tök hafa verið á að koma skýrslu á dagskrá og til umræðu.
    Í b-lið er felld niður tilvísun til 48. gr. um ræðutíma en reglur þeirrar greinar falla brott samkvæmt frumvarpinu og flytjast í nýja 78. gr.
    Við greinina bætast fjórar nýjar málsgreinar. Þrjár þeirra eru til að festa í þingsköp venjur sem ríkt hafa. Á undanförnum áratugum hefur skapast sú venja að utanríkisráðherra flytji Alþingi skýrslu um utanríkismál. Áður fyrr fór umræðan fram á vorþingi á grundvelli viða­mikillar prentaðrar skýrslu en fyrir nokkrum árum var sú nýbreytni tekin upp að ráðherra flytur þinginu munnlega skýrslu tvisvar á ári en handriti ræðunnar er komið til þingmanna með nokkrum fyrirvara. Í orðalagi málsgreinarinnar eru ekki fyrirmæli um hvort skýrsla ráð­herra sé munnleg eða skrifleg, aðeins að hún sé almenn, þ.e. yfirlitsskýrsla, og sé flutt tvisv­ar á hverju reglulegu þingi. Þar sem utanríkismál eru mikilvægur málaflokkur, og þýðing þeirra fer vaxandi, þykir eðlilegt að taka þessi ákvæði upp í þingsköp. Ráðherra getur eftir sem áður flutt Alþingi fleiri skýrslur, um tiltekin mál, og var raunar gert ráð fyrir slíku þegar fallið var frá að prenta eina yfirlitsskýrslu fyrir hvert ár.
    Þá er fest í þingsköp ákvæði um að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um framkvæmd þeirra þingsályktana sem Alþingi hefur samþykkt og beint annaðhvort til ríkisstjórnarinnar í heild eða einstakra ráðherra. Á undanförnum árum hafa slíkar skýrslur verið fluttar nokkr­um sinnum og hafa þau vinnubrögð þótt mjög til fyrirmyndar. Með ákvæðinu er ætlunin að gera þetta að föstum lið í þingstarfinu að fjalla um slíka skýrslu frá forsætisráðherra. Þykir hæfilegt að hún sé gerð annað hvert ár og er það með hliðsjón af fjölda ályktana, sem er ekki mikill, og því að stjórnvöld hafi eðlilegan tíma til að koma ályktununum í framkvæmd.
    Þá er enn fremur fest í þingsköp sú venja að forseti geti tekið á dagskrá „tilkynningu frá ríkisstjórninni“ við sérstakar aðstæður. Hefur það tíðkast við stjórnarskipti á þingtíma og um breytingar á skipan ríkisstjórnar, svo og um einstök mikilvæg mál. Jafnframt því að taka ákvæði þetta í þingsköp eru settar reglur um umræðu um slíka tilkynningu frá ríkisstjórninni, þ.e. þær sömu og gilda um skýrslur almennt.
    Í síðustu málsgreininni eru nýmæli. Ákvæðið veitir forseta heimild til þess að taka á dag­skrá tilkynningu frá forustumanni ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra, eða staðgengli hans, til þess að skýra Alþingi frá störfum ríkisstjórnarinnar. Er haft í huga að ráðherra geti einu sinni í viku eða svo, á þeim degi þegar ríkisstjórnin heldur reglulega fundi, greint Alþingi frá störfum stjórnarinnar, þ.e. ákvörðunum sem hún hefur tekið, eftir því sem ráðherra telur eðli­legt að gert sé opinbert á því stigi.
    Fram að þessu hafa slíkar tilkynningar verið sendar fjölmiðlum en með þessari nýju máls­grein fær forsætisráðherra tækifæri til þess að greina Alþingi fyrst frá þeim málefnum sem ríkisstjórnin hefur afgreitt eða hefur til afgreiðslu. Gert er ráð fyrir að um tilkynningu af þessu tagi gildi sömu reglur og um umræður utan dagskrár, þ.e. umræðan standi í allt að hálfa klukkustund og ráðherra (sem jafnframt er málshefjandi) hafi 5 mínútur til framsögu en aðrir 2 mínútur.

Um 29. gr.


    Lagðar eru til þrenns konar breytingar á ákvæðum þingskapa um skýrslubeiðnir. Í fyrsta lagi að þingflokkur, þótt skipaður sé færri þingmönnum en níu, geti beðið um skýrslu, enda er oft um að ræða mál sem þingflokkar bera sérstaklega fyrir brjósti og er liður í málefna­vinnu þeirra. Í öðru lagi að forseta og alþingismönnum gefist rýmri tími til þess að fara yfir og kynna sér beiðnir um skýrslur og í þriðja lagi að stytta þann tíma sem ráðherra hefur til þess að ljúka skýrslugerðinni.
    Skýrslubeiðnum hefur fjölgað undanfarin ár. Þó hefur komið fram nokkur óánægja með ákvæði þingskapa um þær. Annars vegar hefur verið kvartað um að skýrslubeiðnir væru of víðtækar, krefðust mikils tíma og mannafla ef þeim á að gera góð skil. Hins vegar hafa skýrslur þótt berast mjög seint og af þeim ástæðum ekki hlotið þá umræðu sem til var ætlast og að var stefnt.
    Með breytingum á 1. mgr. er forseta gefinn nokkur tími til að fara yfir skýrslubeiðni áður en hún er prentuð. Þyki forseta vera annmarkar á beiðninni hefur hann ráðrúm til þess að ræða við skýrslubeiðendur, og eftir atvikum ráðherra, um málið. Ef ekki tekst samkomulag eiga skýrslubeiðendur að sjálfsögðu rétt til þess að láta prenta beiðnina.
    Samkvæmt núgildandi ákvæðum ber þinginu að afgreiða skýrslubeiðni á næsta fundi eftir að henni hefur verið útbýtt. Það þykja of þröng tímamörk og því er fært í vald forseta hvenær málið er tekið fyrir, en það skal hann þó gera „svo fljótt sem við verður komið“.
    Framkvæmd núgildandi ákvæða hefur verið þannig að skýrslubeiðendur hafa lagt beiðn­ina fram á skrifstofu þingsins og hún verið prentuð án nokkurra afskipta forseta. Með breyttu orðalagi er lagt til að meðferð skýrslubeiðna falli í áþekkan farveg og meðferð fyrirspurna sem forseta eru afhentar, sbr. 49. gr.
    Með breytingu á 2. mgr. er svo styttur sá frestur sem ráðherra hefur til að ljúka skýrslu sem Alþingi hefur samþykkt að hann taki saman og birti þinginu, þ.e. úr tveimur og hálfum mánuði í tvo mánuði. Þetta er gert til þess að auka möguleika þingmanna á því að fá skýrslur á þingtíma og hefja umræður um þær. Mikilvægt er að ráðherrar ljúki skýrslugerðinni innan þess frests sem tilgreindur er í þingsköpum og láti þann frest marka efni og umfang skýrsl­unnar.

Um 30. gr.


    Efni greinarinnar er nýmæli, en ákvæði núgildandi 47. gr. eru færð óbreytt í 35. gr. (6. mgr.) þar sem eru önnur ákvæði um alþjóðanefndir.
    Í öllum nágrannaþingum er að finna umræðuform þar sem þingmenn geta beint fyrirspurn­um til ráðherra um umdeild mál eða embættisverk þannig að jafnframt fari fram almenn pólitísk umræða (da. forespørgsel, sæ. interpellation). Um venjulegar fyrirspurnir (da. spørgsmål, sæ. fråga) taka hins vegar aðeins til máls fyrirspyrjandi og ráðherra en engin al­menn umræða fer fram.
    Á Alþingi hafa umræður af þessu tagi leitað sér farvegar utan dagskrár. Er reynsla af því að sumu leyti góð því að formið hefur verið sveigjanlegt og þingmenn hafa komið málum að með stuttum fyrirvara. Þannig hafa komið fram á Alþingi skjótari viðbrögð við pólitískum atburðum en finna má í nálægum þingum. Því nýmæli, sem er að finna í 47. gr., er ekki ætlað að breyta því, fremur að beina þeim umræðum, sem þola nokkra bið, á annan og formlegri vettvang. Nokkuð hefur borið á því að þingmenn hafi óskað umræðu utan dagskrár um al­menn mál sem varla hefur talist nauðsynlegt að ræða sem næst fyrirvaralaust, enda hefur oft dregist dögum eða vikum saman að koma slíkum umræðum að, og oft hefur verið beðið um lengri umræðu en hálftíma, sbr. 1. mgr. 50. gr. Hinu nýja ákvæði greinarinnar er ætlað að taka til umræðna af þessu tagi, þ.e. þeirra utandagskrárumræðna sem ekki er aðkallandi að fari fram svo að segja um leið og beiðni um slíkt kemur fram. Mun reyna á forseta að skapa góða venju í þessu efni.
    Samkvæmt greininni verða a.m.k. þrír þingmenn að standa að beiðninni og er það til að tryggja betur að um almennt mál sé að ræða. Í beiðninni koma fram þær spurningar sem þingmennirnir vilja beina til ráðherrans og hefur hann þá um vikutíma til að undirbúa mál sitt. Í yfirliti um ræðutíma í nýrri 78. gr. er gerð tillaga um að umræða af þessu tagi standi í allt að eina klukkustund og hafi málshefjandi og ráðherra 10 mínútur, talsmenn úr öðrum þingflokkum 5 mínútur en aðrir þingmenn og þeir sem tala í annað sinn 2 mínútur Þannig ættu tíu þingmenn eða fleiri að geta tekið þátt í umræðu af þessu tagi.

Um 31. gr.


    Felld eru brott úr greininni ákvæði um ræðutíma, en þau eru flutt í nýja 78. gr. Jafnframt er gert ráð fyrir að lengja megi ræðutíma talsmanna þingflokka án tillits til þess um hvað skýrsla fjallar, en það er nú bundið við utanríkismál og önnur viðamikil mál.

Um 32. gr.


    Í greininni er að finna annars vegar lagfæringar á gildandi ákvæðum og jafnframt nokkur nýmæli sem ætlað er að styrkja þann mikilvæga þátt í störfum Alþingis sem fyrirspurnirnar eru.
     Um a-lið.
    Rétt þykir, með hliðsjón af því hve réttur þingmanna til fyrirspurna til ráðherra er mikil­vægur að í þingskapagreininni sé vísað til stjórnarskrárákvæðisins í 54. gr. um fyrirspurna­réttinn.
     Um b-lið.
    Í gildandi ákvæði segir að fyrirspurn, sem leyfð hefur verið, skuli senda hlutaðeigandi ráðherra eða ráðherrum. Á síðari árum hefur verið fremur sjaldgæft að fyrirspurnum sé beint til tveggja eða fleiri ráðherra. Það þykir líka á ýmsan hátt óhagkvæmt, hvort sem beðið er um munnlegt eða skriflegt svar, svo sem hvernig ræðutíma skuli þá skipt milli ráðherra, hvort eitt ráðuneyti, eða hvert (hvort) þeirra, gengur frá skriflegu svari o.s.frv. Með þessari breyt­ingu er stefnt að því að fyrirspurn skuli ávallt beint til eins ráðherra.
     Um c-lið.
    Í greininni segir nú að fyrirspurn skuli að jafnaði tekin á dagskrá hafi henni verið útbýtt þremur virkum dögum fyrir fundinn og eigi síðar en átta virkum dögum eftir að henni var út­býtt. Þetta hefur í reynd þýtt að fyrirspurnir eru teknar á dagskrá í næstu viku eftir að þeim er útbýtt. Þykir skýrara að orða ákvæðið líka þannig. Eðlilegt er að í þingsköpum sé jafn­framt ákvæði um að frá þessu megi víkja ef ráðherra, sem svarar fyrirspurninni, hefur lög­mæt forföll eða þingmaðurinn, sem flytur fyrirspurnina, óskar eftir því að hún komi síðar á dagskrá. Er þetta í samræmi við venju.
     Um d-lið.
    Felld eru brott ákvæði um ræðutíma en þau eru tekin upp í nýrri 78. gr.
     Um e-lið.
    Í þessum lið eru þrjár efnisbreytingar:
    Í fyrsta lagi er talið eðlilegt að dragist að svar berist frá ráðherra sé forseta þingsins gerð grein fyrir töfinni með bréfi, ástæðum hennar og hvenær svars sé að vænta. Allalgengt hefur verið að þingmenn hafi kvatt sér hljóðs á þingfundi til þess að óska skýringa eða upplýsinga frá forseta eða ráðherra um hvenær sé að vænta svars við skriflegri fyrirspurn þeirra sem dregist hefur að svara fram yfir þann frest sem þingsköp bjóða. Ákvæði þetta er sett til að draga úr slíkum umræðum.
    Í öðru lagi er þeirri reglu nú fylgt að um leið og svar við fyrirspurn berst frá ráðherra er það ljósritað og sent þeim þingmanni sem lagði fyrirspurnina fram, enda er boðið að svo skuli gert samkvæmt þingsköpum. Þetta þykir af ýmsum ástæðum óheppilegt fyrirkomulag, þ.e. að þingmaður (fyrirspyrjandi) sé með svarið í höndunum, geti t.d. kynnt það fjölmiðlum, áður en aðrir þingmenn fá eintak af hinu prentaða svari. Því er lagt til að þetta ákvæði grein­arinnar falli brott.
    Þá hefur í þriðja lagi borið á því að þingmenn hafi verið óánægðir með skrifleg svör sem þeir hafa fengið frá ráðherra við fyrirspurnum sínum. Hafa þingmenn þá ekki haft færi á að gera athugasemdir við svörin nema í upphafi þingfundar sem athugasemdir um störf þingsins. Það þykir óheppilegt, en til þess að gefa þingmönnum færi á að gera athugasemdir við skrif­leg svör, sem þeir telja ófullnægjandi, er þeim veittur tími til þess í lok hins venjulega fyrir­spurnatíma. Er þá eðlilegt að þingmaður geri forseta þingsins eða skrifstofu grein fyrir þeirri ósk sinni áður en fundur hefst svo að unnt sé að koma boðum til ráðherra um athugasemdina. Gert er ráð fyrir því í reglum um ræðutíma að þingmaðurinn hafi 3 mínútur til að gera at­hugasemdir og ráðherrann jafnlangan tíma til andsvara.
     Um f-lið.
    Í þessum lið greinarinnar eru tvö nýmæli sem lagt er til að tekin verði í þingsköp. Hið fyrra lýtur að því að heimila þingmönnum að beina skriflegum fyrirspurnum til ráðherra í þinghléum eins og á þingfundatíma. Áþekkar breytingar hafa verið gerðar á þingsköpum annarra þinga á Norðurlöndum að undanförnu, í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, en þetta fyrir­komulag hefur um nokkurt skeið gilt í Danmörku. Þykir eðlilegt að þessum þætti í eftirlits­hlutverki þingmanna með framkvæmdarvaldinu sé haldið virkum þótt þingstörf liggi niðri í þinghléum. Með þessari breytingu yrði ráðherranum enn fremur heimilt að senda utan þing­tíma svör við skriflegum fyrirspurnum sem borist hafa meðan þingið er að störfum. Í máls­greininni segir að prenta eigi svörin sem þingskjöl í Alþingistíðindum. Er framkvæmdin hugsuð þannig að fyrirspurnir og svörin séu prentuð sem skjöl jafnóðum og þau berast, séu send fyrirspyrjanda og öðrum þingmönnum og séu einnig aðgengileg almenningi á skrifstofu þingsins. Skjölunum sé svo safnað saman síðar í skjalahefti. Með nútímasamskiptatækni er einnig hægt að senda öllum þingmönnum skjöl í tölvupósti, jafnskjótt og þau eru tilbúin, og setja þau líka á tölvunet sem almenningur á aðgang að.
    Síðara atriðið lýtur að því að ráðherra eigi sjálfur úrskurð um það hvort honum sé skylt að svara fyrirspurn eða ekki, enda ber hann ábyrgð á því. Enn fremur er ráðherra leystur undan því að svara fyrirspurn ef hann telur það vera ógerlegt, til að mynda af tæknilegum ástæðum. Samkvæmt orðalagi málsgreinarinnar skal hann gera forseta grein fyrir því ef hann telur að honum sé ekki skylt að svara fyrirspurn eða einhverjum hluta fyrirspurnar eða að það sé óframkvæmanlegt. Er þá jafnframt ráðgert að forseti tilkynni um synjun ráðherra og ástæður hans fyrir því. Eigi synjun ráðherra við um skriflega fyrirspurn er eðlilegt að ráð­herra geri skriflega grein fyrir synjun. Forseti getur þá ýmist greint frá bréfi ráðherra eða sent afrit þess þeim þingmanni sem fyrirspurnina gerði. Með synjun ráðherra er þingmálinu formlega lokið. Hins vegar er þingmanninum tryggður réttur til þess að ræða synjun ráðherr­ans í næsta reglulega fyrirspurnatíma þingsins. Gildir um þá umræðu sami tími og almennt um fyrirspurnir.
    Fátítt er að ráðherrar telji sér ekki skylt að svara fyrirspurn, en sé svo er eðlilegt að fyrir því sé séð í þingsköpum hvernig með skuli fara. Ástæður geta verið ýmsar, þagnarskylda, persónuleg málefni, mál sem ráðherra hefur ekki forræði á, að málið sé of umfangsmikið, varði öryggi ríkisins o.s.frv. Skv. 2. mgr. er það á valdi forseta hvort fyrirspurn skuli leyfð eða ekki. Það hefur hins vegar sýnt sig á undanförnum árum að forseti getur ekki ávallt lagt á það efnislegt mat hvort fyrirspurn rúmast innan marka þingskapa og að hann er í erfiðri að­stöðu þegar hann þarf að synja um fyrirspurn. Með þessu nýja ákvæði er ekki gert ráð fyrir að breyting verði á meðferð forseta á fyrirspurnum, en hins vegar er ljóst að hann hefur meira svigrúm til að leggja það í vald ráðherra hvort hann vill svara fyrirspurninni.
     Um g-lið.
    Felld eru brott ákvæði um ræðutíma í óundirbúnum fyrirspurnum („munnlegum fyrir­spurnum til ráðherra“), en ákvæðið er tekið upp í nýrri 78. gr.

Um 33. gr.


    Með breytingu á greininni er lagt til að hinar svokölluðu lengri utandagskrárumræður falli niður. Á það ákvæði þingskapa reynir æ sjaldnar enda þykir það umræðuform of langdregið. Á móti kemur tvennt. Hið fyrra er að forseti hefur almenna heimild til þess að rýmka ræðu­tíma, sbr. 55. gr., þar á meðal við umræður utan dagskrár. Hefur reyndin verið sú undanfarin ár, ef hálftímaformið hefur þótt of þröngt, að samið hefur verið milli þingflokka um rýmri tíma. Hið síðara er breytingin á 47. gr. þar sem veitt er heimild til þess að taka á dagskrá munnlegar skýrslur (sjá athugasemdir við þá grein).
    Jafnframt eru lagðar til breytingar á orðalagi 50. gr. um utandagskrárumræður á þann veg að þær þurfi í senn að vera um mikilvæg mál og aðkallandi. Þannig er gert ráð fyrir að utan­dagskrárumræða um mál sem þola einhverja bið sé frekar tekin upp sem beiðni um munnlega skýrslu, en talsvert hefur borið á því að þingmenn hafi óskað eftir umræðum um slík mál utan dagskrár og að það dragist vikum saman að koma umræðunni við. Hafa þá safnast fyrir hjá forseta margar beiðnir um utandagskrárumræður sem erfitt hefur reynst að koma fyrir. Þess vegna er í lokamálslið málsgreinarinnar gert ráð fyrir að takist ekki að hefja umræðuna innan þriggja daga falli beiðnin niður.
    Markmið þessara breytinga er að spara þetta sérstæða umræðuform, sem ekki er algengt í öðrum þingum, og beita því þá aðeins þegar um raunverulega mikilvæg og aðkallandi mál er að ræða sem vekja pólitískar deilur. Með því móti er Alþingi mikilvægasti vettvangur stjórnmálaumræðunnar í landinu og hefur þann sveigjanleika sem nauðsynlegur er til þess að svo megi vera áfram.
    Með orðalagi hinnar nýju 1. mgr. fær forseti heimild til þess, þegar sérstaklega stendur á, að leyfa umræðu utan dagskrár eftir að fundur er hafinn en það er nú óheimilt. Komið hefur fyrir, þegar fundir eru mjög langir, að tilefni til utandagskrárumræðu hefur komið upp eftir að þingfundur hófst. Hefur þá reynst snúið að koma umræðunni við þannig að formskilyrðum greinarinnar yrði fullnægt. Með breytingunni er einungis verið að rýmka heimild forseta til að leyfa umræður utan dagskrár ef sérstaklega stendur á, svo sem hafi fundur hafist fyrir há­degi, á síðasta fundi fyrir hlé o.s.frv. Gert er ráð fyrir því í slíkum tilfellum að forseti geri formönnum þingflokka viðvart um fyrirætlun sína eins fljótt og við verður komið þannig að þingflokkar geti skipulagt þátttöku sína í umræðunni. Þá er bætt í greinina því ákvæði að þingmaður, sem óskar eftir umræðu utan dagskrár og vill spyrja ráðherra spurninga, geri honum viðvart. Er það í samræmi við þá venju sem skapast hefur í framkvæmd enda mikil­vægt að þingmaðurinn og ráðherrann ráðgist um umræðuna, t.d. með því að þingmaðurinn komi spurningum til ráðherra fyrir fram áður en umræðan hefst.
    Í greininni (nýrri 1. mgr. og síðustu málsgrein) eru felld brott ákvæði um ræðutíma, sem nú eru þar, en þau eru tekin upp í nýrri 78. gr.

Um 34. gr.


    Með breytingu á 1. mgr. greinarinnar er einvörðungu verið að hnykkja á að efni hennar eigi aðallega við breytingartillögur sem koma fram frá öðrum en nefndarmönnum og standa í sérstöku þingskjali en ekki í sameiginlegu áliti nefndarinnar.

Um 35. gr.


    Fram til 1991, er deildir þingsins voru lagðar niður og seta Alþingis gerð samfelld, var þinginu slitið (þinglausnir), að jafnaði hin síðari ár að vori, og var þá litið svo á að öll þing­mál væru brott fallin og hið nýja þing þar á eftir kæmi að hreinu borði. Þessi framkvæmd átti sér án efa fyrirmynd hjá danska ríkisdeginum. Þegar danska þinginu var breytt í eina mál­stofu 1953 voru sett ákvæði í stjórnarskrána, 4. mgr. 41. gr., um að öll mál, sem ekki hafa hlotið lokaafgreiðslu, falli brott við almennar kosningar og lok hvers „þingárs“ (svarar til „löggjafarþings“ hérlendis). Ekki voru sett nein ákvæði um þetta atriði í íslensku stjórnar­skrána 1991 en í þingsköp var tekið það nýmæli sem nú stendur í 52. gr., þ.e. að öll óafgreidd þingmál falli brott við þinglok, þ.e. lok hvers löggjafarþings. Annars staðar á Norðurlöndum er „brottfallsreglan“ miðuð við lok kjörtímabils jafnvel þótt hverju löggjafar­þingi (no. sessjon, sæ. riksmöte) hafi, þar til fyrir fáum árum, verið formlega slitið á svipað­an hátt og hér var gert fram til 1991.
    Með hinni nýju skipan munu þingmál liggja fyrir þinginu áfram þótt þau hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu fyrir lok vorþings. Staða hvers þingmáls er þá óbreytt eins og við það var skilist að vori, hafi almennar kosningar til Alþingis ekki farið fram í millitíðinni. Þing­mál, sem lögð voru fram, þarf þá ekki að endurflytja, og — svo dæmi sé tekið — hafi 2. um­ræðu lokið að vori um lagafrumvarp þarf á næsta þingi aðeins að ljúka 3. umræðu til þess að frumvarpið hljóti lokaafgreiðslu.
    Ástæður þessara breytinga eru margvíslegar: Í fyrsta lagi þykir þessi skipan horfa til vandaðri vinnubragða á Alþingi. Þingið fær þannig rýmri tíma til afgreiðslu mála, einkum þingnefndirnar, þegar létt er af þeirri tímaþröng sem oft skapast þegar sótt er á að mál séu afgreidd fyrir þinglok, þannig að ekki þurfi að endurflytja mál og hefja allan ferilinn að nýju. Í öðru lagi ætti þessi breyting að leiða til betri samfellu í störfum þingsins því að oft vill brenna við að þingnefndir hafi fá mál á fyrstu vikum eða mánuðum þinghaldsins. Þannig fer tími til spillis sem annars mætti nýta til framhalds starfa við þau þingmál sem lágu óafgreidd að vori. Í þriðja lagi leiðir þessi nýja skipan til sparnaðar í prentkostnaði og hagræðingar því að nú þarf að endurflytja þau mál sem þingið hefur ekki afgreitt að vori en stjórnin eða þing­menn halda til streitu. Til fróðleiks má nefna að af um 80 frumvörpum, sem komin voru fram um miðjan nóvember sl., voru 30 endurflutt, flest frá þingmönnum, og af 50 þingsályktunar­tillögum voru 30 endurfluttar. Í fjórða lagi nefna að hið nýja fyrirkomulag dregur verulega úr því — nema við lok síðasta þings fyrir reglulegar alþingiskosningar — að unnt sé að tefja mál, t.d. með því að nýta ótæpilega réttinn til ræðuhalda á þeim tíma sem allajafna eru mikl­ar annir í þinginu (þ.e. að vori) því að unnt verður að fresta síðustu umræðu um mál, eða hluta umræðu, fram yfir sumarhlé án þess að taka þurfi málið allt upp aftur frá byrjun. Loks má í fimmta lagi nefna að með þessu fyrirkomulagi verður auðveldara að halda starfsáætlun þingsins því að ekki verður sama nauðsyn að lengja þinghald til að ljúka málum að vori sem komin eru úr nefnd þar sem þingið getur að hausti haldið afgreiðslu máls áfram eins og það stóð áður en hlé var gert.
    Samhliða breytingum á þessari grein er lagt til að ákvæði um fresti til að leggja fram laga­frumvörp og þingsályktunartillögur, sbr. 36. og 44. gr., falli niður.
    Ljóst er að þessari mikilvægu breytingu á starfsháttum þingsins munu fylgja ýmis vand­kvæði sem stjórn þingsins þarf að takast á við. Þannig liggur fyrir að sá vandi sem jafnan skapast við þinglok við afgreiðslu margra mála verður fyrir hendi, jafnvel í ríkari mæli, við lok kjörtímabils, þ.e. lok síðasta þings á kjörtímabili. Í öðru lagi mun þetta fyrirkomulag hægja á afgreiðslu mála sem eru til meðferðar á Alþingi árlega, þ.e. fjárlaga og fylgifrum­varpa þeirra, en sumir munu eflaust telja það góðan kost.
    Þótt það sé meginregla í þingstörfum að mál fái afgreiðslu hefur sú venja skapast að mál, sem ekki er meiri hluti fyrir, „sofna“ í nefnd fremur en að þau séu felld eftir umræður á þing­fundi. Hefur það í senn þótt mildari afgreiðsla og sparað tíma. Hætt er við að meira verði þrýst á nefndir en áður að afgreiða frá sér mál sem ekki er meiri hluti fyrir og að þörf skapist fyrir auknar umræður um þau á þingfundum ef horfið verður að þessu nýja fyrirkomulagi. Nefndir hafa þó ýmsa möguleika samkvæmt þingsköpum til að bregðast við þessu atriði. Má þar annars vegar nefna heimild þeirra í núgildandi 1. mgr. 30. gr. að afgreiða tvö eða fleiri skyld þingmál í einu nefndaráliti. Þannig gætu nefndir „hreinsað upp“ einstök málefnasvið í tengslum við afgreiðslu frumvarps eða tillögu á því sviði. Þessi afgreiðsluháttur er t.d. við­hafður á sænska þinginu þótt störf þess og skipulag séu annars allólík því íslenska. Hins veg­ar hafa nefndir enn fremur heimild til þess í 31. gr. að gera grein fyrir athugun sinni á málum með skýrslu til þingsins. Þannig má líka hugsa sér að nefndir tækju saman skýrslu til þings­ins, einu sinni til tvisvar á kjörtímabili, og gerðu grein fyrir þeim þingmálum sem nefndin hefði lokið umfjöllun á en afgreiddi ekki formlega frá sér. Slík skýrsla gæti þá komið til um­ræðu á þingfundi og þingmenn þar rætt afgreiðslu nefndarinnar. Hér væri þó um eitt þingmál að ræða, skýrslu, þannig að umræður yrðu innan þröngra tímamarka. Með þessum hætti væru úrslit máls efnislega ljós en formlega væri afgreiðslu þeirra þingmála, sem þannig væri gerð grein fyrir í skýrslunni, ekki lokið.
    Á það skal lögð áhersla að þessi breyting á 52. gr. þingskapa sé þó ekki gerð nema henni sé skapaður traustur grunnur í stjórnarskránni, annaðhvort með breytingu á 35. eða 44. gr. hennar, svo að enginn vafi leiki á stjórnskipulegu gildi hennar en rök má færa fyrir því að hin eldri brottfallsregla, sem kemur fram í núgildandi 52. gr. þingskapa, sé stjórnskipunar­venja.

Um 36. gr.


    Í þessari grein felast þrjár breytingar. Í fyrsta lagi er nánar tilgreint hvers konar forföll skapi þingmanni rétt til að taka varamann í sinn stað. Það eru í fyrsta lagi veikindi, í öðru lagi störf í opinbera þágu erlendis og í þriðja lagi aðrar persónulegar ástæður sem forseta er ætlað að meta. Forseta eru með þessu faldar rýmri heimildir til þess að meta ástæður þing­manna fyrir því að hverfa af þingi um tíma og taka inn varamann. Þykir það heppilegt því að ástæður manna geta verið margvíslegar. Rétt er að vekja athygli á því að með starfi í „op­inbera þágu“ er átt við hvers konar opinber störf, en ekki einvörðungu störf á vegum ríkis­stjórnar eða Alþingis. Gert er ráð fyrir að forseti setji nánari viðmiðunarreglur um þessi at­riði á grundvelli reynslunnar af ákvæðinu. Loks má í þessu sambandi minna á að í þingfarar­kaupslögum er að finna sjálfstæða heimild fyrir foreldra í fæðingarorlofi til að kalla inn varamenn.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir þeirri mikilvægu breytingu að það sé framvegis Alþingi sjálft sem hafi endanlegt úrskurðarvald um það hvort beiðni þingmannsins um leyfi frá þingstörf­um skuli tekin til greina eða ekki. Eins og ákvæðum þingskapa er nú háttað má líta svo á að þingmaður hafi hvenær sem er rétt til að taka inn varamann — þó að hann haldi aðeins þing­fararkaupi sínu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Eðlilegra þykir, og í samræmi við það sem tíðkast í nágrannaþingum, að Alþingi sjálft meti það hvort þingmaður þurfi að fá leyfi frá þingstörfum um lengri eða skemmri tíma — hvort sem það er af ástæðum sem veita hon­um rétt til að halda launum eða ekki.
    Þá er í þriðja lagi felldur brott síðasti málsliður 2. mgr. sem hljóðar svo: „Þingmaður nýt­ur ekki þingfararkaups meðan varamaður hans situr á þingi nema fjarvist sé vegna veikinda eða þingmaður sé fjarverandi í opinberum erindum.“ Málsliðurinn er óþarfur vegna annarra breytinga á greininni, svo og vegna ákvæða sem nú eru í lögum um þingfararkaup og þingfar­arkostnað.

Um 37. gr.


    Breytingar á 54. gr. eru tvíþættar, annars vegar um hvar þingmenn mega tala, úr ræðustól eða sæti sínu, og hins vegar um hvernig þeir haga orðum sínum.
    Í 54. gr. segir nú að forseti geti heimilað ræðumanni að tala úr sæti sínu ef nauðsyn kref­ur. Þá mun hafa verið haft í huga að þingmaður kynni að vera fatlaður eða gæti af öðrum ástæðum ekki flutt mál sitt úr ræðustól. Rétt þykir hins vegar að rýmka þessa heimild og opna fyrir þann möguleika að þingmenn geti talað úr sætum sínum, t.d. í andsvörum eða á fyrirspurnafundum eftir því sem hagkvæmt þykir. Með orðunum „hentugt þykir“ er forseta falið vald til að ákveða hvort þingmaður geti talað úr sæti sínu eða ekki.
    Í 89. gr. þingskapa eru nú allfornleg ákvæði um vítur sem forseti skal beita ef þingmenn bera ráðherra eða aðra þingmenn brigslyrðum eða tala óvirðulega um forseta Íslands. Þess­um ákvæðum hefur ekki verið beitt í áratugi og forsetar jafnan gripið til annarra ráða ef þeim hafa fundist ummæli þingmanna óviðurkvæmileg. Þykir tímabært að ákvæðum núgildandi 89. gr. sé breytt og orðið „vítur“ fellt brott, svo og ákvæði um hvernig forseti fari að því að víta þingmann.
    Við greinina er bætt ákvæði um að forseti megi áminna þingmann fyrir að tala óvirðulega um utanþingsmann. Með orðinu „óvirðulega“ er átt við að utanþingsmaður sé smánaður eða niðurlægður í orðum. Með ákvæði þessu er þó ekki verið að þrengja málfrelsi þingmanna sem geta eftir sem áður borið sakir á utanþingsmenn ef þeir telja ástæðu til þess og þeir njóta þinghelgi, þ.e. þeir verða ekki lögsóttir fyrir slík ummæli í þinginu. Ákvæðinu er hins vegar ætlað að veita forseta heimild til þess að halda umræðum frá persónueiginleikum manna og einkalífi þeirra.
    Þótt forseti Íslands hafi sérstöðu í stjórnskipuninni, m.a. sem annar handhafi löggjafar­valds, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar nær orðið „utanþingsmaður“ einnig til hans því að hann má ekki vera alþingismaður, sbr. 9. gr. stjórnarskrárinnar. Því þykir ekki ástæða til að geta hans sérstaklega í greininni.
    Gert er ráð fyrir að forseti taki skýrt fram að um áminningu sé að ræða og hvaða orðalag hann áminnir fyrir en ekki verður lögð sú skylda á hann að endurtaka nákvæmlega ummælin sem áminnt er fyrir, svo sem nú er áskilið í 89. gr. um vítur.

Um 38. gr.


    Með breytingum á greininni eru felld brott nánari ákvæði um ræðutíma, svo og hve oft þingmenn og ráðherrar mega taka til máls, en þau eru flutt í nýja 78. gr. og vísast til nánari greinargerðar um þá grein. Í stað nánari ákvæða um ræðutíma og ræðufjölda í 55. gr. kemur almennt ákvæði þar sem vísað er til 78. gr.
    Samkvæmt greininni er forseta veitt heimild til þess að rýmka ræðutíma um mál sem eru svo umfangsmikil eða mikilvæg að óeðlilegt væri að ræða þau samkvæmt almennum reglum þingskapa. Það er forseta að meta í hverju tilfelli hvort beita skuli þessu ákvæði en ætlast er til þess að hann ráðgist um það við formenn þingflokka, sbr. 72. gr., og að þeir komi jafn­framt óskum sínum í þessu efni til forseta. Eru höfð í huga allra stærstu mál sem koma til kasta Alþingis eða mál sem almenn samstaða er um að þurfi mjög rúman umræðutíma. Eins er forseta heimilt samkvæmt greininni að veita þingmanni eða ráðherra, sem sérstaklega stendur á fyrir, rýmri ræðutíma en þingsköp leyfa. Þess eru til að mynda dæmi að ráðherra, sem borinn hefur verið þungum sökum af þingmanni, hefur haft helmingi styttri tíma en þing­maðurinn. Í slíkum tilfellum er eðlilegt að forseti geti rýmkað ræðutíma þannig að fyllstu sanngirni og réttsýni sé gætt.
    Reiknað er með því, sbr. 72. gr., að ef ákveðinn er rýmri ræðutími fyrir umræðuna í heild sé jafnframt ákveðið hve lengi umræðan skuli standa eða hvenær henni skuli ljúka.
    Í greininni er áskilið að forseti ákveði rýmkun á ræðutíma áður en umræða hefst þannig að reglur um umræður séu ljósar fyrir fram. Forseti hefur þannig ekki heimild til að lengja ræðutíma þingmanns eða ráðherra þó að umræðan þróist þannig að slíkt gæti sýnst sann­gjarnt.
    Þá eru sett nokkru ítarlegri ákvæði um framsögumenn en nú eru fyrir í greininni í sam­ræmi við þær venjur sem skapast hafa.
    Í 3. mgr. greinarinnar segir að þegar útvarpað er umræðum um þingmál skuli farið eftir reglum VI. kafla um útvarp umræðu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sá kafli falli að mestu leyti brott. Því þykir ákvæðið óþarft.
    Felld eru brott sérákvæði um ræðutíma við 1. umræðu um lagafrumvörp. Er gert ráð fyrir að um það gildi ákvæði 2. mgr., þ.e. hin almenna heimild forseta til að rýmka um ræðutíma.
    Úr greininni eru felld brott ákvæði um að jafnan sé heimilt að gera athugasemdir um fundarstjórn forseta og um atkvæðagreiðslu. Alloft er ágreiningur milli þingmanna um af­greiðsluhátt mála og kemur þá til umræðna um tilhögun fundahalds í þingsalnum. Það þykir hins vegar lítill vegsauki fyrir þingið og fremur til þess fallið að veikja forseta við störf ef settar eru á langar umræður um formsatriði og fundarstjórn hans. Slíkt er og fágætt meðal nágrannaþinga. Á það ber einnig að líta að í upphafi hvers fundar geta þingmenn gert athuga­semdir um störf þingsins þótt sá vettvangur hafi fremur verið ætlaður til umræðna milli stjórnar og stjórnarandstöðu um pólitísk mál. Í 56. gr. er þó sett ákvæði sem tryggir þing­manni rétt til að andmæla túlkun forseta á þingsköpum eða því hvernig hann hagar atkvæða­greiðslu. Tilgangur þessa ákvæðis er einvörðungu að láta það koma fram ef þingmaður er andvígur túlkun forseta eða úrskurði en ekki sá að opna fyrir umræður milli forseta og þing­manna um þinghaldið almennt. Þess vegna er í 78. gr. gert ráð fyrir að þingmaður geti aðeins gert athugasemd einu sinni og hafi til þess 1 mínútu. Við 56. gr. er enn fremur bætt ákvæði um að komi fram ósk frá formanni þingflokks um fundarhlé skuli forseti verða við því. Er þá haft í huga að hafi þingmenn eða þingflokkar athugasemdir við fyrirkomulag þinghalds sé reynt að leysa slík mál utan fundar. Treysta verður því að forseti beiti fullri sanngirni við fundarstjórnina enda ætti hann óhægt um vik ef stór hópur þingmanna teldi svo ekki vera. — Ákvæði núgildandi 55. gr. um rétt þingmanns til að bera af sér sakir er fellt brott en það þyk­ir óþarft með hliðsjón af breytingum sem orðið hafa á þingsköpum, svo sem um andsvör, og þeim tillögum sem er að finna í 78. gr. um það hve oft þingmenn mega taka til máls. Þing­maður sem vill bera af sér sakir hefur því mörg úrræði til þess samkvæmt þingsköpum. Þá ber að hafa í huga þau ákvæði sem setja á í 54. gr. (en eru í 89. gr. núgildandi laga) að forseti áminni þingmann sem ber aðra þingmenn eða ráðherra brigslyrðum.

Um 39. gr.


    Breyting skv. a-lið felur í sér þrjú efnisatriði. Hið fyrsta er að fellt er brott ákvæði um að eigi megi setja þingmenn á mælendaskrá fyrr en dagskrármál er tekið fyrir. Jafnframt er bætt við nýjum málslið þar sem segir að þingmenn geti skráð sig á mælendaskrá þegar mál hefur verið sett á dagskrá og dagskrá verið útbýtt á fundi eða auglýst með öðrum hætti svo sem venja er til. Geta þingmenn þá snúið sér til forseta á þingfundinum, áður en málið er tekið fyrir, eða til skrifstofunnar frá því að dagskrá er auglýst og þangað til þingfundur hefst. Eigi að síður gilda þau ákvæði að forseti ræður röð ræðumanna með hliðsjón af þeim viðmiðunum sem er að finna í málsgreininni. Þannig hefur forseti heimild til þess að raða ræðumönnum samkvæmt samkomulagi sem þingflokkarnir hafa gert eða venju sem skapast hefur í hinum stærri málum.
    Síðasta atriðið lýtur að því að fella brott það ákvæði greinarinnar að þingmaður geti gert stutta leiðréttingu eða athugasemd er snertir hann sjálfan. Þetta ákvæði þykir óþarft því að nú hafa þingmenn að jafnaði heimild til þess að veita andsvör eða geta nýtt sér þá heimild sem tekin er upp í greinina til að bera af sér sakir.
    Í b-lið eru sett ákvæði um rétt þingmanna til að andmæla túlkun forseta eða skiptingu at­kvæðagreiðslu, svo og um að forseta sé að jafnaði skylt að gera fundarhlé ef formaður þing­flokks óskar þess til þess að ræða um framhald þingstarfa eða fyrirkomulag fundarstarfa að öðru leyti. Um nánari greinargerð vísast til niðurlags athugasemda við 55. gr.
    Í c-lið eru felld brott ákvæði sem fjalla um ræðutíma en þau eru tekin upp í nýja 78. gr.

Um 40. gr.


    Nokkur óvissa hefur ríkt um afturköllun fyrirspurna, m.a. um það hvort aðrir þingmenn megi taka slíkar fyrirspurnir upp, jafnvel ráðherrann sem spurður er, svo og hvort afturkalla megi fyrirspurn þegar umræður um hana eru hafnar. Með breytingunni eru settar skýrari reglur um afturköllun fyrirspurna, þ.e. að slíkt sé óheimilt eftir að fyrirspurnin er tekin fyrir á þingfundi eða skriflegt svar hefur borist forseta þingsins.

Um 41. gr.


    Í 62. gr. þingskapa segir að heimilt sé þingmanni að krefjast þess að gengið sé til atkvæða um eitthvert þingmál umræðulaust, en það skuli því aðeins gert að tveir þriðju hlutar fundar­manna séu því samþykkir. Ákvæði þetta er frá 1915 þegar störf Alþingis voru með talsvert öðru sniði en nú er. Það var sett til að koma í veg fyrir óþægilegar og óviðeigandi umræður um fjárveitingar til einstaklinga, rithöfunda og listamanna, sem tillögur voru gerðar um að fengju fjárstyrk. Á því hefur borið á seinni árum að ákvæðið hafi verið misskilið, að í því felist heimild til þess að ljúka umræðum um þingmál, þótt mælendaskrá sé ekki tæmd, og hefja þegar í stað atkvæðagreiðslu. Slík heimild er hins vegar í 57. gr. þingskapa. Ákvæðið þykir því óþarft.
    Breyting í b-lið felur í sér staðfestingu á þeirri venju sem ríkt hefur, að tillögur um rök­studda dagskrá skuli koma til afgreiðslu við lok umræðu, með öðrum orðum að ekki er hægt fremur en venja er til að ljúka umræðum um þingmál með því að flytja rökstudda tillögu. Eins og áður er getið felst heimild til að stytta umræður eða ljúka þeim í 57. gr. þingskapa. Þessi nýi málsliður er aðeins settur inn til að festa í sessi þá venju sem verið hefur um af­greiðslu dagskrártillagna.

Um 42. gr.


    Í þingsköpum segir að forseti ákveði dagskrá hvers fundar, en þó megi ákveða dagskrá fundar eftir ályktun þingsins. Ekki er ljóst af ákvæðinu hvernig það skuli gert, hvort t.d. skal samþykkja þingsályktunartillögu þar um. Með breytingu í a-lið eru sett nánari fyrirmæli um með hvaða hætti slík ályktun verði gerð, hverjir eða hversu margir þurfi að standa að slíkri tillögu og hvenær hún skuli borin upp. Tillagan verður því einföld dagskrártillaga sem bera má upp skriflega.
    Jafnframt þykir eðlilegt að í þingsköpum sé ákvæði sem tryggi að forseti geti ekki dregið óeðlilega að boða til þingfundar gegn vilja ríkisstjórnar eða meiri hluta þingmanna. Ef á slíkt reyndi þyrfti að liggja fyrir hver dagskrá slíks fundar yrði. B-liður lýtur að þessu atriði. Í þeim lið er enn fremur að finna heimild fyrir forseta þingsins til að gera hlé á þingstörfum í samræmi við þá starfsáætlun sem forsætisnefnd, í samráði við þingflokka, hefur samþykkt hverju sinni. Hlé á þingstörfum samkvæmt þessari heimild á sér því annan grundvöll og hefur aðra þýðingu en frestun á fundum Alþingis skv. 23. gr. stjórnarskrárinnar.
    Með breytingu í c-lið er lagt til að forseti geti að eigin frumkvæði ákveðið að umræður fari fram um tvö eða fleiri dagskrármál í einu, en það sé ekki einvörðungu eftir óskum flutn­ingsmanna. Jafnframt er sett ákvæði um að slíkt sé heimilt nema andmæli berist frá a.m.k. tveimur þingmönnum, en samkvæmt núgildandi þingsköpum þarf aðeins andmæli eins þing­manns. Loks eru sett skýr ákvæði um ræðutíma en þau hefur skort. Er meginreglan sú að um­ræðan fer fram eins og um eitt mál væri að ræða. Séu mál ósamkynja, sem hentugt þykir að ræða saman, gildir rýmsti ræðutíminn. Ef t.d. á að ræða saman lagafrumvarp og þingsálykt­unartillögu gildir ræðutími um lagafrumvörp. Gert er ráð fyrir að þessu ákvæði megi beita við hverja umræðu sem er, eða einstaka umræðu, þ.e. að ekki sé skyldugt að ræða tvær til­lögur saman við síðari umræðu þótt svo hafi verið gert við hina fyrri. Atkvæðagreiðslur fara þó fram um mál hvert í sínu lagi.
    Í d-lið er opnað fyrir að umræður um viðamikil mál séu efnisskiptar. Getur það gilt um mál sem í eðli sínu eru fjölbreytt, eins og fjárlög, eða margþætt að efni, eins og svokallaðir „bandormar“. Ákvörðun um þetta er samkvæmt greininni hjá forseta. Er sett sú regla að um umræður um hvern þátt fari sem um málið í heild. Hins vegar er gert ráð fyrir að forseti leiti í slíkum tilfellum samkomulags við þingflokka um fyrirkomulag umræðunnar, þar á meðal um ræðutíma, sbr. 2. mgr. 72. gr.

Um 43. gr.


    Í gildandi ákvæði 1. mgr. 64. gr. laganna segir að þingmaður sem er á fundi og greiðir ekki atkvæði við nafnakall teljist taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Nú fara atkvæðagreiðslur flestar fram með rafeindabúnaði og hefur verið litið svo á að þingmaður, sem ekki greiðir atkvæði við slíka atkvæðagreiðslu (þ.e. „situr hjá“), teljist taka þátt í henni. Rétt þykir að festa þennan skilning í þingsköp.
    Í b-lið er gert ráð fyrir að 2. mgr. 64. gr. falli brott. Orðalag málsgreinarinnar hefur oft valdið misskilningi enda á hún uppruna sinn frá þeim tíma er fyrirkomulag atkvæðagreiðslna var öðru vísi, þ.e. þegar meiri hluti fundarmanna (alþingismanna á fundi) þurfti að sam­þykkja ályktun (tillögu) til að hún teldist lögmæt. Þurftu þá fleiri að vera með máli en þeir sem samtals voru á móti eða „sátu hjá“. „Hjáseta“ (það að greiða ekki atkvæði) hafði þá sömu áhrif og að segja „nei“ við atkvæðagreiðslu. Þessu fyrirkomulagi var breytt árið 1936 og hefði þá mátt fella þessa málsgrein brott (var áður 2. mgr. 45. gr.). Málsgreinin hefur ekki heldur sjálfstæða þýðingu vegna þess að í 1. mgr. eru ákvæði um ályktunarbæran fund (e. quorum) og í 67. gr. eru svo ákvæði um úrslit atkvæðagreiðslu (sjá athugasemdir við breyt­ingu á þeirri grein). Efni 2. mgr. má því leiða af 1. mgr. 64. gr. og 67. gr. Nokkur orðalags­breyting var gerð á málsgreininni við breytingar á þingsköpum 1991 til að skýra efni hennar, en nú þykir heppilegast að hún falli brott.

Um 44. gr.


    Fyrri breytingin á greininni, í a-lið, er til samræmis við aðrar breytingar í frumvarpinu, þ.e. að auka rétt þingflokka og veita þeim rýmri heimildir til að koma að sjónarmiðum sínum. Þess ber þó að geta að venja er að forseti verði við óskum þingmanna um skiptingu atkvæða­greiðslu án þess að reyni á ákvæði þessarar greinar.
    Við greinina er í b-lið bætt nýrri málsgrein sem kveður á um að ekkert einstakt atriði verði borið upp til atkvæða í frumvarpi til fjárlaga eða fjáraukalaga nema fram hafi komið breytingartillaga við það. Alloft hafa komið fram óskir við atkvæðagreiðslu um fjárlög, 2. umræðu, um að greidd séu sérstaklega atkvæði um einstök atriði í frumvarpinu sjálfu. Hefur þetta stundum valdið töfum. Forseti hefur þá brugðið á það ráð, til þess að atkvæðagreiðslan yrði ekki of flókin og löng, að víkja frá almennum reglum um afgreiðslu lagafrumvarpa við 2. umræðu og borið einstök atriði í frumvarpinu upp eftir að afgreiðslu breytingartillagna við hverja grein er lokið. Með óskir af þessu tagi er farið eins og tillögu um að fella atriðið brott enda er það oftast tilgangur þingmannsins. Sé tilgangur þingmanns hins vegar sá að vekja athygli á afstöðu hans til atriðisins við atkvæðagreiðsluna á hann þess líka kost með því að gera grein fyrir afstöðu sinni þegar greidd eru atkvæði um greinina í heild. Með þessu ákvæði er því ekki verið að þrengja rétt þingmanna til að fá atkvæðagreiðslu um einstök at­riði en samkvæmt því þarf nú að flytja tillögu um það (t.d. um niðurfellingu þess). Ákvæðið tekur aðeins til frumvarpsins sjálfs, ekki til breytingartillagna við það. Þær hefur jafnan mátt kljúfa upp við atkvæðagreiðslu ef óskir hafa borist um það frá þingmönnum.

Um 45. gr.


    Samkvæmt greininni eru gerðar nokkrar breytingar á ákvæðum þingskapa um atkvæða­greiðslur. Er þar annars vegar byggt á þeirri reynslu sem fengist hefur af atkvæðagreiðslum með rafeindabúnaði (atkvæðagreiðslukerfinu) síðan 1991 og hins vegar nokkrar efnisbreyt­ingar sem miða að því að flýta atkvæðagreiðslum sem taka oft mjög drjúgan tíma á þingfund­um.
    Með breytingu í a-lið eru rýmkaðar heimildir forseta til þess að láta yfirlýsingu koma í stað atkvæðagreiðslu ef hann hefur ástæðu til að ætla að allir séu á einu máli eða að úrslit máls séu ljós fyrir fram. Jafnframt er fellt brott úr greininni ákvæði um að atkvæðagreiðsla skuli fara fram við allar umræður, sbr. 38.–40. og 44. gr. þingskapa. Þessi heimild felur í sér að gera má ályktun (samþykkja grein eða breytingartillögu) með yfirlýsingu í stað atkvæða­greiðslu enda séu allir á einu máli eða ljóst af fyrri atkvæðagreiðslum hver úrslit verða.
    Í b-lið greinarinnar eru gildandi ákvæði þingskapa um atkvæðagreiðslu með handaupp­réttingu einfölduð, enda aðeins til þeirra gripið ef ekki er unnt að koma við atkvæðagreiðslu með rafeindabúnaði.
    Í c-lið eru tekin saman í eina málsgrein ákvæði greinarinnar um nafnakall og gerðar nokkrar orðalagsbreytingar. Þó er sú efnisbreyting að forseta er samkvæmt tillögunni ekki skylt að láta fara fram nafnakall nema ósk berist um það frá a.m.k. tveimur þingmönnum.
    Þá er með ákvæði d-liðar staðfest sú venja sem gilt hefur frá 1991 að atkvæðagreiðslur fari að jafnaði fram með rafeindabúnaði. Jafnframt er sett í málsgreinina ákvæði um að ekki sé nauðsynlegt að prenta ávallt sundurliðuð úrslit allra atkvæðagreiðslna, heldur aðeins við lokaatkvæðagreiðslur um mál, svo og þegar atkvæði skiptast, þ.e. ekki ef atkvæði falla sam­hljóða (en þá eru aðeins prentaðar niðurstöður). Skrifstofunni er samt sem áður falið að varðveita afrit allra atkvæðagreiðslna með rafeindabúnaði þannig að þær séu tiltækar þing­mönnum eða öðrum sem vilja kanna hverjir tóku þátt í atkvæðagreiðslu ef sundurliðun henn­ar er ekki prentuð í þingtíðindunum.
    Loks er í e-lið sett inn ákvæði um hvenær endurtaka má atkvæðagreiðslu eftir að úrslitum hennar hefur verið lýst. Reynslan sýnir að oft getur verið þörf á að endurtaka atkvæða­greiðslur en mikilvægt þykir að hafa um slíkt skýr fyrirmæli, einkum hvaða takmarkanir skuli vera á því. Í tillögunni er byggt á þeirri reglu að endurtaka megi atkvæðagreiðslu sé það gert þegar í stað, áður en nokkurt annað málsatriði hefur verið tekið fyrir. Í síðasta máls­lið er staðfest sú venja, sem skapast hefur og gildir í mörgum öðrum þjóðþingum, að þing­manni sé heimilt, ef honum verður á að ýta á rangan hnapp við atkvæðagreiðslu, að skrá leið­réttingu í þingtíðindin. Er það oft gert til þess að ekki þurfi að endurtaka atkvæðagreiðslu. Slík leiðrétting er þó bundin því skilyrði að þingmaðurinn hafi tekið þátt í atkvæðagreiðsl­unni; þingmaður sem ekki nær að ýta á hnapp við atkvæðagreiðslu getur enga leiðréttingu gert. Leiðréttingar af þessu tagi, sem skráðar eru sem athugasemdir í þingtíðindin, breyta engu um úrslit atkvæðagreiðslu eins og forseti hefur lýst þeim á fundi. Ef forseti tilkynnir hins vegar, um leið og hann lýsir úrslitum atkvæðagreiðslu, að þingmaður leiðrétti atkvæði sitt eða að þingmaður, sem ekki nær að ýta á hnapp, segi já, nei eða greiði ekki atkvæði kemst atkvæði þingmannsins eða afstaða hans til skila á þingfundinum og gæti þannig haft áhrif á úrslit atkvæðagreiðslu. Í slíkum tilvikum hafa starfsmenn þingsins gert leiðréttingu í gagnagrunni þingsins í samræmi við orð forseta.

Um 46. gr.


    Í 67. gr. er lögfest sú grundvallarregla að afl atkvæða ráði úrslitum mála og málsatriða, nema öðruvísi sé ákveðið í stjórnarskrá eða þingsköpum. Í reglunni felst að til þess að mál eða málsatriði sé samþykkt þurfi fleiri já-atkvæði en nei-atkvæði. Ákvæði þetta hefur stund­um valdið misskilningi en með þeirri viðbót sem gerð er tillaga um í greininni er reynt að bæta þar úr með því að skilgreina nánar hvað felst í orðunum „afl atkvæða“, þ.e. já-atkvæði og nei-atkvæði ráða úrslitum mála, en atkvæði þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslu en greiða ekki atkvæði („sitja hjá“) verða hvorki talin með né á móti máli og ráða því ekki úr­slitum. „Hjáseta“ í atkvæðagreiðslu getur þó eigi að síður orðið til þess að ályktun verði lög­mæt með því að þannig hafi meira en helmingur þingmanna tekið þátt í atkvæðagreiðslu, sbr. 1. mgr. 64. gr.

Um 47. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 48. gr.


    Árið 1991 voru í fyrsta sinn tekin upp í þingsköp bein ákvæði um þingflokka, þar á meðal um lágmarksfjölda þingmanna innan þeirra. Var það í samræmi við þá venju sem skapast hafði, þ.e. að a.m.k. tveir þingmenn yrðu að eiga aðild að þingflokki.
    Í því frumvarpi, sem hér liggur fyrir, eru þingflokkum fengin margvísleg og afar mikilvæg verkefni við stjórn þingsins og í störfum þess. Sum hver hafa þingflokkar haft áður, ýmist samkvæmt eldri ákvæðum þingskapa eða þingvenjum, einkum samráð við forseta um þing­störf, enda beinlínis gert ráð fyrir að samkomulag sé milli þingflokka um forustu þingsins í 3. gr. þingskapa. Má segja að þingflokkar séu, auk forsætisnefndar þingsins, helsta „stjórn­tæki“ Alþingis. Réttur þeirra í umræðum er mikill, ræðutíma oft skipt milli þeirra, og í frum­varpinu eru sérstök ákvæði um „talsmenn“ þeirra í umræðum. Ýmsum öðrum ákvæðum um rétt þingflokka og hlutverk þeirra er bætt við í frumvarpinu, svo sem um meira samstarf um alþjóðastarf þingsins (35. gr.) og rétt til að óska eftir skýrslu (46. gr.) og í breytingum á 87. gr. er gert ráð fyrir að þingflokkar sem slíkir geti flutt mál og þannig orðið sýnilegri í þing­störfunum Í samræmi við þetta aukna hlutverk, sem þeim er ætlað, er lagt til að í þingflokki séu a.m.k. þrír þingmenn. Styðst það að nokkru leyti við reynslu í kosningum á undanförnum árum en fámennustu þingflokkar hafa, eftir kosningar, verið þriggja manna (Samtök um kvennalista 1983 og 1995), en undantekning er þó frá því (Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1974; tveir þingmenn). Jafnframt er í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um nýja kjör­dæmaskipun og tilhögun kosninga til Alþingis gert ráð fyrir 5%-„þröskuldi“ við úthlutun jöfnunarsæta sem hefur væntanlega þau áhrif að flokkur, sem nær því marki, fær hið minnsta þrjú þingsæti. Verður þá eðlilegt samhengi milli stjórnarskrár og þingskapa að þessu leyti.
    Sömu ákvæði gilda um nýja þingflokka sem stofnaðir kynnu að verða á kjörtímabilinu, þ.e. að til þess þyrfti a.m.k. þrjá þingmenn.
    Færi svo að stjórnmálasamtök fengju aðeins tvo þingmenn í kosningum (væntanlega kjör­dæmiskosna) nytu þeir aðeins réttar sem utanflokkamenn. Sama væri ef þingflokkur klofnaði og eftir sætu aðeins tveir þingmenn.
    Í lögum nr. 56/1971, um sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokka, er í 3. gr. að finna skil­greiningu á þingflokki þar sem m.a. er byggt á því að þingflokkur sé „samtök tveggja eða fleiri þingmanna“. Eðlilegt væri að því ákvæði yrði breytt til samræmis við 71. gr. þing­skapa.

Um 49. gr.


    Grein þessi fjallar m.a. um samstarf forseta og þingflokka við skipulag þingstarfa. Hef­ur lengi tíðkast að milli þingflokka, þ.e. fulltrúa þeirra, og forseta sé gert samkomulag um ræðutíma og hefur þótt gefast vel. Í greininni eins og hún er nú er þó undanskilið að slíkt samkomulag geti tekið til lagafrumvarpa þótt sú hafi þó ekki verið raunin. Breytingin er því til að staðfesta venju í þessu efni. Almennt er gert ráð fyrir að um slík frávik frá umræðuregl­um (sem jafnan eru til styttingar á umræðu) sé fullt samkomulag enda verður samþykki allra þingflokka að liggja fyrir eins og nánar er tilgreint í greininni. Þá er skotið inn í greinina að samkomulag um umræðu liggi fyrir áður en hún hefst, en það sé að jafnaði ekki gert eftir að hún er hafin eða eftir að gert hefur verið hlé á henni. Slíkt er þó ekki útilokað ef full sam­staða er um það.
    Í síðari málslið a-liðar er um nýmæli að ræða. Jafnan er það svo, og raunar fyrirmæli um það í 73. og 80. gr., að þingflokkar hafi jafnan ræðutíma (eða sem næst því) þegar umræðu­tími er takmarkaður, hvort sem það er eftir ákvæðum þingskapa eða sérstaklega hefur verið um það samið. Þetta þykir ekki að öllu leyti sanngjörn skipting því að þingflokkar geta verið mjög misstórir eins og dæmin sýna. Þetta hefur enn fremur leitt til þess að þingmenn í stórum flokkum hafa síður átt færi á því en þingmenn minni flokka að taka þátt í umræðum. Jafn­framt hafa minnstu þingflokkar átt erfitt með að nýta allan sinn tíma eða þeir hafa getað komið öllum þingmönnum flokksins að við umræðu þótt tímamörk séu á henni. Þessi nýja regla leiddi til þess, ef þingflokkar væru sex og umræða ætti að standa í 2 klukkustundir, að 5 manna þingflokkur hefði 15 mínútur í stað 20 mínútna og 20 manna þingflokkur 30 mínútur í stað 20 mínútna.
    Áhersla skal lögð á að þessari reglu sé einvörðungu beitt þegar umræðutímanum er skipt milli flokka samkvæmt heimild í þessari grein en ekki þegar samið er um hvenær umræðu skuli lokið.
    Enn fremur skal áréttað það sjónarmið að með þessari nýbreytni er verið að auka mögu­leika þingmanna stórra flokka til að komast að í umræðu en ekki að lengja ræðutíma tals­manna úr stórum flokkum.
    Í b-lið er felld brott 4. mgr. greinarinnar. Bæði er að tilvísanir í málsgreininni eiga ekki að öllu leyti við lengur og að hún þykir hafa lítið sjálfstætt gildi, sbr. 1. og 2. mgr. þessarar greinar.

Um 50. gr.


    Með greininni er lögð til sú breyting á fyrirkomulagi stefnuræðu forsætisráðherra að hún sé framvegis flutt á þingsetningarfundi. Þykir það í senn eðlilegri tími, þegar við upphaf þinghalds, og gefa þingsetningarathöfninni meira inntak. Er gert ráð fyrir að umræða um stefnuræðuna fari fram á næsta fundi, þ.e. að kvöldi þingsetningardags eða daginn eftir og sé þá útvarpað og sjónvarpað. Í 78. gr. þingskapa (yfirliti um ræðutíma) er að finna nánari reglur um stefnuræðuna, þ.e. ræðutíma. Stefnuræðan sjálf skal ekki taka lengri tíma en 20 mínútur, en ræðutími annarra við umræðu um hana er 5–10 mínútur og tekur það mið af því að umræðunni er útvarpað og sjónvarpað. Á undanförnum árum hefur verið reynt með sam­komulagi allra þingflokka að stytta umræðuna frá því sem áður var og hefur það gefist vel. Er stefnt að því að umræðan standi í um eina og hálfa klukkustund.
    Í 2. málsl. 2. mgr. er forseta gert að setja, í samráði við formenn þingflokka, nánari reglur um hvernig umræðunni verður háttað og í 3. málsl. er ákvæði sem hann verður að hafa hlið­sjón af. Þannig ber að gæta þess að stjórn og stjórnarandstaða hafi til umráða álíka tíma í slíkum umræðum. Svo gæti farið, ef t.d. einn flokkur er í stjórn eða stjórnarandstöðu, að óeðlilega lítið færi fyrir málflutningi hans.
    Lögð er áhersla á að í umræðu um stefnuræðu taki þátt forustumenn flokkanna, auk þess sem forsætisráðherra hefur rétt til andsvara í lok umræðunnar. Byggt er á því að þessi breyting á flutningi stefnuræðunnar, þ.e. að hún sé hluti þingsetningarathafnarinnar og henni sé ekki dreift til allra þingmanna nokkrum dögum áður en hún er flutt, hafi áhrif á efni og efnis­tök. Þannig má ætla að hið nýja form stuðli að því að ræðan verði með hátíðlegra yfirbragði og að efni hennar sæti meiri tíðindum en þótt hefur hingað til.
    Loks er í greininni ákvæði um að stefnuræðunni skuli fylgja yfirlit um þau mál sem ein­stakir ráðherrar hyggjast leggja fram. Venja hefur verið að slíkur listi fylgi stefnuræðunni þegar hún hefur verið afhent þingmönnum. Slíkur listi er afar mikilvægur fyrir stjórn þing­haldsins og því er lagt til að hann verði prentaður í Alþingistíðindum. Jafnframt er lagt til að listanum fylgi áætlun um það hvenær einstök mál verða lögð fram, en það skiptir miklu máli fyrir skipulagningu þingstarfa.

Um 51. gr.


    Með þessari breytingu er felldur brott VI. kafli þingskapa, Útvarp umræðu, 75.–86. gr., svo og 74. gr. sem er efnislega tengd þeim kafla. Ákvæði þessi voru sett í þingsköp árið 1936, í árdaga útvarps hér á landi, en þykja nú að mörgu leyti úrelt þegar útvarpsstöðvum hefur fjölgað og sjónvarpað er reglulega frá þingfundum. Þá þykir óeðlilegt að raska dagskrá Ríkisútvarpsins um of með útvarpi frá Alþingi að ósk einstakra þingflokka. Fyrir liggur sam­þykkt útvarpsráðs um að sjónvarpað verði framvegis að kvöldi frá umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra og eldhúsdagsumræðum, þ.e. við upphaf þings og lok þess.
    Ljóst er að Ríkisútvarpið, bæði hljóðvarp og sjónvarp, hefur sinnt fréttaflutningi frá Al­þingi mjög vel mörg undanfarin ár og nú hin síðari ár hefur verið sjónvarpað frá þingfundum hluta úr degi. Tækniþróun hefur enn fremur gert það mögulegt að fylgjast með þingfundum á alnetinu. Með hliðsjón af þessu þykir óeðlilegt að hafa í þingsköpum nákvæm ákvæði um útvarp umræðu.
    Venja hefur skapast um það að undanförnu að þingflokkar hafa komið sér saman um fyrir­komulag útvarpsumræðu og er á því byggt í hinni nýju grein, sbr. 4. mgr. Forseta er þó ætlað að skera úr ef ágreiningur er milli þingflokka um hvort útvarpa skuli umræðu. Jafnframt er gert ráð fyrir að forseti hafi skyldu til þess að gera tillögu um fyrirkomulag umræðunnar og leita samkomulags um það ef skoðanir eru skiptar. Ef slíkt samkomulag næst ekki ber forseta að ákveða hvernig umræðan fer fram. Er á því byggt að hann hafi hliðsjón af óskum þing­flokka og venju og fari með vald sitt af sanngirni.
    Við 2. mgr., um almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdag), hefur verið bætt því ákvæði að um þá umræðu gildi sömu reglur og um umræður um stefnuræðu forsætisráðherra, eftir því sem við á. Nauðsynlegt er að skýrar reglur gildi um þessar umræður og þykir eðlilegt að þær séu svipaðar þeim sem gilda um umræður um stefnuræðu forsætisráðherra enda er það að nokkru leyti í samræmi við venju sem skapast hefur á seinni árum.
    Með þessari róttæku breytingu á VI. kafla þingskapa eru þó aðeins tvö efnisatriði, sem varða rétt þingflokka, felld brott, þ.e. réttur þingflokks til útvarps umræðu sem ekki er sam­komulag um, sbr. núgildandi 78. gr., svo og ákvæði í núgildandi 79. og 80. gr. um lengd ræðutíma og skiptingu hans milli þingflokka. Hið fyrra atriði þykir nú úrelt, svo sem rakið hefur verið, en reiknað er með að um fyrirkomulag umræðu, ræðutíma o.fl. sé gert samkomu­lag milli þingflokka, sbr. 4. mgr.
    Með orðinu „umferð“ í greininni er átt við það sem segir í lok núgildandi 80. gr., þ.e. þeg­ar fulltrúar allra þingflokka hafa tekið til máls, svo og þingmenn utan flokka. Slík skilgrein­ing þykir þó ekki nákvæm, og ástæðulaust er að taka hana upp í þingsköp.

Um 52. gr.


    Ákvæði þetta er tekið í þingsköp í samræmi við þá venju sem skapast hefur um flutning mála, þ.e. lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna, með tveimur nýmælum þó. Annars vegar er þingflokkum veitt heimild til að standa sem slíkir að flutningi máls, ýmist einn eða fleiri, og er þá óþarft að tilgreina á skjali hvaða þingmenn eiga aðild að þingflokknum, og hins veg­ar er forsætisnefnd heimilt samkvæmt málsgreininni að standa að flutningi máls eins og fastanefndum. Þykir eðlilegt, ef forsætisnefnd flytur þingmál, að hún geri það í sínu nafni fremur en að á skjali séu tilgreind nöfn forseta og varaforseta. Þá er rétt að geta þess að skv. 32. gr. þingskapa gilda sömu reglur um sérnefndir og fastanefndir. Um flutning annarra mála gilda sérstakar reglur, svo sem fyrirspurnir, skýrslur o.fl.

Um 53. gr.


    Með breytingum á greininni er annars vegar verið að víkja orðalagi til svo að betur sam­ræmist þeirri tækni sem nú er notuð við hljóðupptökur af þingfundum og þeim ritstjórnarregl­um sem tíðkast hafa um margra áratuga skeið. Hins vegar er tekið mið af breytingum á 12. gr. þingskapa, þ.e. um gerðabókina, þannig að nánar er tilgreint hvað koma skal fram í ræðu­hluta Alþingistíðinda. Er í fyrri málslið 3. mgr. tilgreint hvað jafngildir færslu gerðabókar en það er efni B-deildarinnar eins og það er núna að frátöldum ræðum þingmanna. Ber for­seti ábyrgð á færslu gerðabókarinnar og leitar samþykkis þingsins fyrir henni en þingmenn bera sjálfir ábyrgð á því, innan þess ramma sem 4. mgr. segir, hvernig ræður þeirra eru prentaðar enda eiga þeir kost á því að sjá handrit áður en prentun fer fram.
    Forseti hefur nú heimild til að setja nánari reglur um útgáfu Alþingistíðinda en samkvæmt hinu nýja orðalagi greinarinnar verður sérstaklega tilgreint að slíkar reglur megi fjalla um endurprentun þingskjala. Er þá haft í huga að tíðkast hefur á undanförnum árum að prenta ekki í fullri lengd endurflutt frumvörp og tillögur heldur vísa til fyrri samhljóða prentunar. Þá er þess að geta að samkvæmt þessari heimild getur forseti sett nánari reglur um útgáfu Al­þingistíðinda í nýjum upplýsingamiðlum, t.d. á netinu.

Um 54. gr.


    Grein þessi þykir með öllu orðin úrelt, enda hafa ákvæði hennar ekki verið notuð í marga áratugi. Með breytingum á 54. gr. þingskapa eru forseta veittar hæfilegar heimildir til þess að áminna þingmenn sem bera aðra brigslyrðum eða tala óvirðulega um þingmenn eða utan­þingsmenn. Jafnframt er ákvæði greinarinnar um viðurlög, ef þingmaður lætur ekki skipast, fært í 54. gr.

Um 55. gr.


    Í þessari grein eru tekin saman í yfirlit öll ákvæði, sem verið hafa á víð og dreif í einstök­um greinum, um ræðutíma og ræðufjölda. Þessi framsetning á ræðutímaákvæðum þykir gleggri og heppilegri.
    Í greininni eru gerðar allmiklar breytingar á ræðutíma þingmanna og ráðherra og er meginmarkmið þeirra að gera umræður markvissari og fjörugri en nú en draga úr löngum ræðum og jafnframt stytta umræðutímann frá því sem verið hefur. Markmiðið er ekki að setja takmarkanir á málfrelsi þingmanna né hindra það að hver og einn þingmaður geti á eðlilegan hátt gert grein fyrir sjónarmiðum sínum við meðferð þingmála. Þannig verður meginreglan sú við 2. umræðu um lagafrumvörp að þingmenn og ráðherrar mega tala eins oft og þeim þykir þurfa — í stað þess sem nú er, að tala eins lengi og þeim þykir hæfa, tvisvar sinnum. Umræður á Alþingi eiga æ greiðari leið til landsmanna allra. Nú er umræðum sjónvarpað og þegar eru hafnar útsendingar frá þingfundum um tölvur (internet). Þykir ekki óeðlilegt að Al­þingi bregðist við breyttum tímum með því að laga umræðuformið að slíkum miðlum að nokkru leyti, einkum þó til þess að fá betur fram mismunandi sjónarmið þingflokka og þing­manna til mála.
    Vonir standa til að þessar breytingar geti stytt fundatíma Alþingis eitthvað, einkum þó til þess að draga úr löngum fundum, svokölluðum kvöldfundum. Umræðutíminn á Alþingi hefur á seinni árum verið á bilinu 600–700 klst. á hverju reglulegu löggjafarþingi og er það tals­vert meira en tíðkast í nágrannalöndum sem þó hafa öll miklu fjölmennari þing.
    Nú á tímum eru gerðar miklar kröfur til alþingismanna og ráðherra um margvíslega þátt­töku í stjórnmálastarfi utan við vettvang þingsins. Einnig eru gerðar ríkar kröfur til þess að þingmenn sinni kjördæmi sínu og málefnum kjósenda sinna sem svo kallar á ferðalög og fjar­vistir frá þingstaðnum. Er þá ekki minnst á vaxandi alþjóðlegt samstarf þingmanna og fjar­vistir sem því tengjast. Allt þetta kallar á betri skipulagningu þingstarfanna þannig að hver og einn þingmaður geti á grundvelli starfsáætlunar þingsins og vikuáætlana þess skipulagt önnur störf sín — og ekki síður frítíma. Mikilvægur þáttur í slíkri skipulagningu er að um­ræðurnar á þinginu séu innan skynsamlegra og hæfilegra marka og að áætla megi fyrir fram hve langan tíma þær geti staðið.
    Í átökum stjórnarflokka og stjórnarandstöðu á hverjum tíma hefur gætt þeirrar tilhneiging­ar að beita rúmum reglum þingskapa um ræðutíma til þess að hægja á, jafnvel stöðva, af­greiðslu mála sem mikill ágreiningur er um. Á þar varla nokkur flokkur minni sök en annar. Ljóst er því að fara verður varlega í að breyta reglum þingskapa um ræðutíma svo að stöðu stjórnarandstöðu á hverjum tíma sé ekki raskað stórlega. Þess vegna ber að skoða breytingar samkvæmt þessari grein í ljósi annarra breytinga á þingsköpum þar sem settir eru lengri frestir, um skiptingu umræðu o.fl. Enn fremur verður að hafa í huga í þessu sambandi að komi til átaka milli stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga, þannig að beitt sé öllum ýtrustu ákvæðum þingskapa um ræðutíma, hefur stjórnarandstaða mjög ríkan rétt, hvort sem miðað er við ákvæði núgildandi þingskapa eða þær breytingar sem felast í þessu frumvarpi. Þess vegna er ekki reiknað með því að þessi breyting ein á ræðutíma raski valdahlutföllum í þing­inu, aðeins að hún leiði til betri umræðna og skipulegri.
    Fram hafa komið efasemdir um að ákvæði þingskapa um ræðutíma ráðherra fái að öllu staðist 51. gr. stjórnarskrár, en um það eru þó skiptar skoðanir. Hins vegar hefur það oft valdið vandkvæðum við fundarstjórn ef ráðherra hefur „talað sig dauðan“ sem svo er kallað, þ.e. ekki mátt taka til máls á nýjan leik, þótt til hans hafi verið beint fyrirspurnum eða honum þótt ástæða til að koma að athugasemdum eða leiðréttingum. Í þessum tillögum er því lagt til að fylgt sé þeirri meginreglu að ráðherra (ráðherrar) megi tala svo oft sem þurfa þykir ef umræðutíminn er ekki takmarkaður (og í útvarpsumræðum) en ræðutími þeirra í þriðja sinn eða oftar sé mjög stuttur, enda er hann þá oftast ætlaður til að svara einstökum atriðum. Hug­myndin á bak við þessa sérreglu um ráðherra byggist á sérstöðu þeirra í umræðunum þar sem þeir eru að jafnaði annaðhvort flutningsmenn máls eða til andsvara um mál. Með hliðsjón af þessu þykir því rétt að láta líka hina sérstöku reglu gilda um flutningsmenn þingmáls (frumvarps eða þingsályktunartillögu) þannig að þeir hafi sama rétt og ráðherrar að þessu leyti.
     Um einstakar breytingar:
    Við 1. umræðu um lagafrumvörp er lagt til að sá réttur, sem þingmenn hafa almennt nú, gildi um talsmenn þingflokka (20 + 10 mínútur) en ræðutími annarra styttist lítillega (15 + 5 mínútur).
    Við 2. umræðu um lagafrumvörp verði sú meginbreyting að í stað ótakmarkaðs ræðutíma, tvisvar eða þrisvar sinnum við umræðuna, verði sett tímamörk á hverja ræðu en felld verði niður þau mörk sem nú eru á því hve oft hver þingmaður má tala. Er það talið í þágu líflegri skoðanaskipta um þau mál sem fyrir liggja. Hver þingmaður getur því talað svo oft sem hon­um þykir þurfa í umræðunni en hann getur ekki einn flutt hverja ræðuna á eftir annarri án þess að aðrir komi þar á milli og þannig tekið sér í raun ótakmarkaðan tíma, sbr. ákvæði í 2. málsl. 2. mgr. 56. gr. en þar eru slíkar skorður settar.
    Við 3. umræðu um lagafrumvörp gildi annars vegar sama regla og við 2. umræðu, um breytingartillögur, og hins vegar sama regla og við 1. umræðu þegar frumvarpið er rætt í heild.
    Við fyrri umræðu um þingsályktunartillögur er síðari ræða flutningsmanns stytt (úr 15 mínútum í 10 mínútur) en flutningsmaður má svo tala oftar, 5 mínútur í senn. Fyrri ræða ann­arra þingmanna er lengd lítillega (úr 8 mínútum í 10 mínútur) en síðari ræða stytt (úr 8 mín­útum í 5 mínútur).
    Um síðari umræðu um þingsályktunartillögur gildi eins og áður sama regla og við 2. um­ræðu um lagafrumvörp. Sama er um eina umræðu um ályktunartillögur.
    Reglur um umræður í fyrirspurnum eru óbreyttar nema hvað ráðherra hefur viðbótarrétt til að koma að athugasemdum (í 1 mínútu). Í óundirbúnum fyrirspurnum hafa fyrirspyrjandi og ráðherra mátt taka þrisvar til máls, en lagt er til að það verði framvegis tvisvar með hlið­sjón af því hve stuttur tími er ætlaður til þessa fyrirspurnaforms þannig að fleiri fyrirspurnir komist að.
    Reglur um skýrslur eru lítið breyttar (önnur ræða þingmanna þó stytt úr 15 mínútum í 5 mínútur). Framsögumaður og ráðherra mega tala oftar (í 5 mínútur) og sett eru sérákvæði um talsmenn flokka (20 + 5 mínútur).
    Ræðutími þegar þingmenn bera af sér sakir er styttur úr 3 mínútum í 2 mínútur og er þá sami tími og þegar menn gera athugasemdir um störf þingsins.
    Um ræðutíma við munnlega skýrslu ráðherra samkvæmt beiðni eru settar nýjar reglur en ákvæðið er nýjung, sbr. 47. gr. Slíkar umræður geta staðið í allt að einni klukkustund. Ræðu­tími í stefnuræðu og almennum stjórnmálaumræðum (eldhúsdagsumræðum), þ.e. hefðbundn­um útvarpsumræðum, byggist á því að talsmenn þingflokka hafi 10 mínútur en aðrir þing­menn helming þess tíma, 5 mínútur. Þá er gert ráð fyrir að stefnuræða forsætisráðherra standi í allt að 20 mínútur.
    Um aðrar breytingar, svo sem um rétt ráðherra og flutningsmanna, vísast til þess sem seg­ir í almennum athugasemdum um greinina en um tvöfaldan ræðutíma við 1. umræðu um laga­frumvörp, um rýmri tíma við fyrri umræðu um þingsályktunartillögur, utandagskrárumræður án tímamarka, um fundastjórn forseta og um atkvæðagreiðslu vísast til þess sem um það segir í athugasemdum við einstakar greinar.
    Í yfirlitinu er ekki að finna reglur um umræðutíma, þ.e. hve lengi umræða má standa, en þær eru nokkrar, svo sem utandagskrárumræður skv. 1. mgr. 50. gr. (hálftími), athugasemdir um störf þingsins (20 mínútur) og andsvör (15 mínútur).
    Í eftirfarandi töflu er sýnt hvernig ákvæði þingskapa eru nú um ræðutíma, sett upp á sama hátt og í tillögunni hér að framan um breytingar á ræðutíma.

NÚGILDANDI REGLUR UM RÆÐUTÍMA


1. sinn 2. sinn 3. sinn Oftar
LAGAFRUMVÖRP
1. umræða:
    Flutningsmaður (ráðherra eða þingmaður)
30 mín. 15 mín. 5 mín.
    Aðrir þingmenn og ráðherrar
20 mín. 10 mín.
    Óski þingflokkur þess með rökstuddri beiðni áður en umræða hefst gildir allt að tvöföldum ræðutíma við 1. umræðu.
2. umræða:
    Framsögumaður (samkvæmt nefndaráliti)
ótakm. ótakm. ótakm.
    Viðkomandi ráðherra
ótakm. ótakm. ótakm. ótakm.
    Aðrir þingmenn og ráðherrar
ótakm. ótakm.
3. umræða:
    Sama og við 2. umræðu
ÞINGSÁLYKTUNARTILLÖGUR
Fyrri umræða:
    Flutningsmaður (ráðherra eða þingmaður)
15 mín. 15 mín.
    Aðrir þingmenn og ráðherrar
8 mín. 8 mín.
    Óski þingflokkur þess sérstaklega (þó eigi oftar en einu sinni á hverju þingi) gildir sama regla við fyrri umræðu og hina síðari. Ef fyrir ligg­ur ósk um það er forseta heimilt að láta gilda við fyrri umræðu sömu reglur og við hina síðari fjalli tillaga um stjórnskipun, utanríkis- eða varnarmál, staðfestingu framkvæmdaáætlana, alþjóðasáttmála eða milliríkjasamninga.
Síðari umræða:
    Framsögumaður (samkvæmt nefndaráliti)
ótakm. ótakm. ótakm.
    Viðkomandi ráðherra
ótakm. ótakm. ótakm. ótakm.
    Aðrir þingmenn og ráðherrar
ótakm. ótakm.
Ein umræða:
    Sama og við síðari umræðu
FYRIRSPURNIR
    Fyrirspyrjandi
3 mín. 2 mín.
    Ráðherra
5 mín. 2 mín.
    Aðrir þingmenn og ráðherrar (athuga    semd)
1 mín.
ÓUNDIRBÚNAR FYRIRSPURNIR
(í hálftíma)
    Fyrirspyrjandi og ráðherra
2 mín. 1 mín. 1 mín.
SKÝRSLUR
    Framsögumaður (ráðherra eða þingmaður)
30 mín. 15 mín.
    Aðrir þingmenn og ráðherrar
15 mín. 15 mín.
UMRÆÐUR UTAN DAGSKRÁR
Takmörkuð umræða (1. mgr. 50. gr.):
    Málshefjandi
5 mín. 2 mín.
    Viðkomandi ráðherra
5 mín. 2 mín.
    Aðrir þingmenn og ráðherrar
2 mín. 2 mín.
Ótakmörkuð umræða (2. mgr. 50. gr.):
    Málshefjandi og viðkomandi ráðherra
30 mín. 30 mín.
    Aðrir þingmenn og ráðherrar
15 mín. 15 mín.
UM FUNDARSTJÓRN, ATKVÆÐAGREIÐSLU O.FL.
Athugasemdir um störf þingsins (í upphafi fundar)
2 mín. 2 mín.
Um fundarstjórn forseta
3 mín. 3 mín.
Um atkvæðagreiðslu
3 mín. 3 mín.
Til að bera af sér sakir
3 mín. 3 mín.
Atkvæðaskýring
1 mín.
STEFNURÆÐA FORSÆTISRÁÐHERRA OG UMRÆÐA UM HANA
Fyrri umferð:
    Forsætisráðherra
30 mín.
    Fulltrúar annarra þingflokka en forsætisráðherra
20 mín.
Síðari umferð:
    Hver þingflokkur
10 mín.
ÚTVARPSUMRÆÐUR
    Þingflokkur
30 mín.
    Þingmenn utan flokka
15 mín.
    Forseti ákveður tölu umferða, svo og hvort ræðutími skuli vera annar, í samráði við þingflokka (sbr. 80. gr.).
ANDSVÖR (í 15 mín.)
    Þingmenn og ráðherrar
2 mín. 2 mín.
    Ræðumaður
2 mín. 2 mín.
    Forseta er heimilt að stytta ræðutíma hvers þingmanns.

Um 56. gr.


    Ráðgert er að breytingar á þingsköpum samkvæmt frumvarpi þessu taki gildi við upphaf nýs kjörtímabils, eftir alþingiskosningarnar 8. maí 1999.
    Ákvæði 2. mgr. 6. gr., um störf forseta frá kjördegi fram til upphafs fyrsta þings kjörtíma­bilsins, hafa áhrif þegar frá kjördegi en önnur ákvæði koma til framkvæmda við upphaf 124. löggjafarþings.




Fylgiskjal.


DRÖG AÐ


STARFSREGLUM FYRIR FASTANEFNDIR


(Miðað er við endurskoðun þingskapa – vinnuskjal 6 (2. desember 1998.))



1. gr.


Formaður og varaformaður nefndar.


    Boða skal til fyrsta fundar nefndar innan viku frá kosningu hennar af þeim sem fyrstur var kosinn í nefndina. Þar skal nefndin kjósa sér formann og varaformann. Forseta Alþingis skal tilkynnt um kjörið strax að loknum fundi.
    Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans.
    Ef bæði formaður og varaformaður eru forfallaðir felur nefnd öðrum nefndarmanni að gegna formannsstörfum tímabundið. Ef ákvörðun um tímabundna formennsku hefur ekki ver­ið tekin áður en boðað er til fundar skal sá nefndarmaður sem fyrstur var kosinn í nefndina, að frátöldum formanni og varaformanni, þegar í upphafi fundar gera tillögu um að fela ein­hverjum nefndarmanna að gegna formannsstörfum tímabundið.
    Meiri hluti nefndarmanna getur samþykkt að víkja formanni og varaformanni frá.

2. gr.


Fundarboð.


    Formaður nefndar, eða varaformaður í forföllum hans, boðar til fundar. Séu þeir báðir forfallaðir, en brýna nauðsyn ber til að halda fund, er þeim nefndarmanni sem fyrstur var kosinn í nefndina, að frátöldum formanni og varaformanni, heimilt að boða fund nema nefnd hafi falið öðrum nefndarmanni að gegna formannsstörfum tímabundið í forföllum formanns og varaformanns og boðar hann þá til fundar.
    Fundarboði skal beint til nefndarmanna. Í forföllum nefndarmanns skal fundarboði beint til varamanns sama þingflokks, ef hann hefur verið tilnefndur, eða staðgengils, sbr. 3. mgr. 17. gr. þingskapa. Fundarboði skal beint til varaþingmanns sem tekur sæti nefndarmanns á Alþingi nema þingflokkur hafi óskað eftir því að varamaður eða staðgengill taki sæti í for­föllum nefndarmanns.
    Fundarboði skal einnig beint til áheyrnarfulltrúa sem rétt á til setu á nefndarfundi, sbr. reglur forsætisnefndar um áheyrnarfulltrúa á fundum fastanefnda Alþingis.
    Dagskrá reglulegs fundar, samkvæmt ákvörðun forseta Alþingis um reglulega fundatíma fastanefnda, skal send nefndarmanni. Til aukafundar, utan reglulegs fundatíma, skal að jafn­aði boða með dagskrá.
    Dagskrá og fundarboð skal senda nefndarmanni í gegnum tölvukerfi Alþingis með rafpósti tímanlega og eigi síðar en degi fyrir fund. Jafnframt er dagskrá allra nefndafunda aðgengileg á (innanhúss)vef Alþingis síðdegis daginn fyrir fund. Þó skal, ef fundur er boðaður með skemmri fyrirvara en einum degi, útbúa sérstakt fundarboð sem nefndarmönnum er afhent eða tilkynnt um á annan tryggilegan hátt.
    Falli reglulegur fundur niður skal tilkynna nefndarmönnum sérstaklega um það á sama hátt og gildir um fundarboð.
    Formanni er skylt að boða til fundar ef ósk berst um það frá a.m.k. þriðjungi nefndar­manna eða frá þeim nefndarmanni sem falið hefur verið að vinna að athugun máls (fyrir fram kjörinn framsögumaður).
    Nefndarfundi skal ekki halda þegar þingfundur stendur yfir. Frá þessu má þó víkja ef allir nefndarmenn samþykkja og forseti þingsins hreyfir ekki andmælum.

3. gr.


Fundarsókn.


    Skylt er nefndarmönnum að sækja alla nefndarfundi nema lögmæt forföll banni. Forföll skal tilkynna formanni við fyrsta tækifæri svo að unnt sé að boða varamann hafi hann verið tilnefndur. Ef svo er ekki skal formanni gerð grein fyrir því hvort þingflokkur hafi tilnefnt staðgengil í stað nefndarmanns.

4. gr.


Varamenn, staðgenglar og varaþingmenn.


    Hafi þingflokkur tilnefnt varamenn í nefnd skulu þeir taka sæti nefndarmanns sem forfall­aður er í þeirri röð sem þeir eru tilnefndir.
    Í forföllum nefndarmanns og tilnefnds varamanns er þingflokki heimilt að tilnefna annan þingmann sem staðgengil til setu í nefnd og skal tilkynna formanni nefndar þar um. Þá getur þingflokkur að beiðni nefndarmanns óskað eftir því að staðgengill taki sæti í nefnd við af­greiðslu tiltekins þingmáls og skal sú ákvörðun tilkynnt formanni nefndar.
    Varaþingmaður, sem tekið hefur sæti á Alþingi í forföllum þingmanns, á sæti í þeim nefndum sem þingmaðurinn er kjörinn í nema þingflokkur nefndarmanns óski eftir að til­nefndur varamaður eða staðgengill taki sæti í nefndinni. Ef hagkvæmt þykir getur varaþing­maður hafið störf í nefnd fyrir hádegi þann dag sem þingmannaskipti eiga sér formlega stað á þingfundi en má þá ekki taka þátt í afgreiðslu mála. Þingmanni er eins heimilt, ef varaþing­maður samþykkir, að sitja nefndarfund og taka þátt í afgreiðslu mála fyrir hádegi þann dag sem hann tekur sæti á Alþingi að nýju.
    Varamaður, staðgengill eða varaþingmaður gegna ekki embættisstörfum þess þingmanns sem þeir taka sæti fyrir innan nefndarinnar en njóta að öðru leyti allra sömu réttinda og aðrir nefndarmenn.

5. gr.


Dagskrá fundar.


    Formaður ákveður dagskrá hvers fundar. Ef hann er forfallaður er dagskrá ákveðin af varaformanni eða þeim sem hefur heimild til að boða til fundar, sbr. 1. mgr. 2. gr.
    Hafi þriðjungur nefndarmanna eða nefndarmaður sem falið hefur verið að vinna að athug­un máls (fyrir fram kjörinn framsögumaður) farið fram á að fundur verði haldinn um til­greind málefni ber formanni að taka þau á dagskrá.
    Á dagskrá skal greina dagskrárliði í þeirri röð sem ætlunin er að ræða mál á fundi.
    Dagskrá fundar skal að jafnaði send nefndarmönnum fyrir reglulegan fund eða með fundarboði aukafundar og skal henni ávallt útbýtt til nefndarmanna á fundinum.

6. gr.


Fundarstjórn.


    Formaður, eða varaformaður í forföllum hans, stýrir fundum nefndar. Ef þeir eru forfall­aðir felur nefnd öðrum nefndarmanni að gegna formannsstörfum, sbr. 3. mgr. 1. gr.
    Formanni er heimilt að setja nefndarfund ef til hans hefur verið boðað með dagskrá ella verður fundur ekki settur fyrr en meiri hluti nefndarmanna er mættur til hans.
    Séu dagskrárliðir tímasettir er formanni heimilt að takmarka ræðutíma nefndarmanna og gesta er koma á fundinn.
    Formaður getur breytt röðinni á dagskrárliðum og einnig tekið mál út af dagskrá, sbr. þó 2. mgr. 5. gr. Þá getur formaður heimilað að umræður fari fram um tvo eða fleiri dagskrárliði í einu ef þeir fjalla um skyld efni eða það þykir hagkvæmt af öðrum ástæðum.
    Formanni er heimilt, að eigin frumkvæði eða samkvæmt ósk nefndarmanna, að taka upp hvert það mál sem er á málefnasviði nefndarinnar undir liðnum „önnur mál“. Beri formaður eða einhver nefndarmanna fram mótmæli gegn því að tiltekið mál verði rætt undir þessum lið skal það borið undir atkvæði og ræður vilji meiri hluta nefndarinnar.

7. gr.


Ályktunarbær nefndarfundur.


    Fundur í nefnd er því aðeins ályktunarbær að meiri hluti nefndarmanna sé staddur á fundi og er það skilyrði fyrir því að teknar séu bindandi ákvarðanir eða mál afgreidd frá nefnd.
    Ef ágreiningur rís um hvort athugun máls sé lokið og afgreiða eigi það frá nefndinni gildir ákvæði 2. mgr. 16. gr.

8. gr.


Gerðabók.


    Nefndir skulu halda gerðabók um það sem fram fer á fundum í samræmi við reglur for­sætisnefndar um frágang fundargerða fastanefnda Alþingis.

9. gr.


Starfsáætlun.


    Í upphafi haust- og vorþings skulu nefndir gera starfsáætlun og jafnframt áætlun um af­greiðslu mála úr nefndum, sbr. og 10. gr., í því skyni að dreifa vinnu nefndar sem jafnast yfir þingtímann. Þá skulu nefndir eigi síðar en 1. apríl ár hvert gera áætlun um sumarstarf nefnd­ar, sbr. og reglur forsætisnefndar um störf nefnda utan þingtíma.
    Í starfsáætlun skulu meðal annars koma fram, eftir því sem við verður komið, upplýsingar um fjölda funda sem nefndin ráðgerir að halda á tímabilinu, mál sem nefndin hyggst taka upp að eigin frumkvæði, þingmál sem nefndin hyggst taka fyrir, þingmál sem nefndin hyggst flytja, fundi utan Alþingis og vettvangsferðir sem nefndin hyggst takast á hendur.
    Starfsáætlun og áætlun um afgreiðslu mála skulu sendar forseta Alþingis til samþykktar, sbr. 18. gr. þingskapa.

10. gr.


Meðferð máls.


    Þegar máli hefur verið vísað til nefndar til athugunar eða þegar hún hefur ákveðið að taka mál upp að eigin frumkvæði tekur hún ákvörðun um málsmeðferð. Skal nefndin meðal annars gera áætlun um fundafjölda, umsagnaraðila, gesti og væntanlega afgreiðslu málsins, sbr. og 9. gr.
    Nefndin getur við upphaf umfjöllunar um mál tilnefnt framsögumann til þess að vinna fyr­ir hönd nefndarinnar að athugun máls.
    Nefnd er heimilt að afla sér sérfræðilegrar aðstoðar við athugun máls í samræmi við regl­ur forsætisnefndar um sérfræðilega aðstoð við afgreiðslu þingmála og reglur um þýðingar á ræðum og skjölum fyrir þingmenn og fastanefndir Alþingis.

11. gr.


Umsagnir og erindi.


    Nefnd getur við umfjöllun máls óskað skriflegra umsagna um það frá aðilum utan þings. Veita skal aðilum hæfilegan frest, í samræmi við umfang þingmáls, til að senda inn umsagn­ir. Einnig geta þeir er mál varðar komið skriflegum athugasemdum sínum að eigin frumkvæði á framfæri við nefnd.
    Nefnd er heimilt að senda mál annarri fastanefnd til umsagnar enda eigi hluti þess undir málefnasvið þeirrar nefndar. Skulu formenn nefndanna þá koma sér saman um verkaskipt­ingu. Skal miða við að sú nefnd sem fær efnisþátt máls til umsagnar vinni hann til fulls, með­al annars breytingartillögur, og skili umsögn innan sanngjarns og eðlilegs tíma miðað við umfang og eðli málsins. Ávallt skal birta allar umsagnir og tillögur annarra nefnda sem fylgi­skjöl með nefndaráliti þeirrar nefndar sem málinu var vísað til af Alþingi eða sem tók málið upp að eigin frumkvæði.
    Um meðferð umsagna og erinda nefnda fer eftir reglum forsætisnefndar um meðferð er­inda til þingnefnda. Heimilt er að veita umsögnum sendum með rafpósti viðtöku. Umsagnir og erindi, sem ekki er farið með sem trúnaðarmál, skal birta á vef Alþingis.

12. gr.


Gestir á nefndafundum.


    Nefnd getur samþykkt að fá gesti til fundar við sig og hlýða á mál þeirra. Formaður skal að jafnaði gefa þeim kost á að hafa stutta framsögu um álit sitt á máli sem til umræðu er. Þá geta gestir einnig dreift gögnum til nefndarmanna um málið.
    Að því loknu gefst nefndarmönnum kostur á að bera fram spurningar til gesta. Formaður getur óskað eftir því að allir nefndarmenn komi spurningum sínum á framfæri áður en hann gefur gestum tækifæri til svara.
    Formaður skal sjá til þess að ekki fari fram efnisleg umræða um mál í viðurvist gesta og að þeir beri ekki fram spurningar til nefndarmanna, nema allir viðstaddir nefndarmenn sam­þykki annað.
    Fundartími með hverjum gesti eða hópi gesta skal að öllu jöfnu ekki vera lengri en 20 mínútur.
    Nefndarmanni, og öðrum er sækja nefndafundi, er óheimilt að hafa eftir opinberlega um­mæli er fallið hafa á nefndarfundi, sbr. 1. mgr., nema hans sjálfs eða með leyfi þess sem þau viðhafði. Jafnframt geta gestir í upphafi fundar óskað eftir því að nefndarmenn séu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um á fundinum og skal formaður þá þegar leita eftir afstöðu nefndarinnar til þess. Ræður vilji meiri hluta nefndarinnar.

13. gr.


Fundir með ráðherra.


    Nefnd getur óskað þess að ráðherra komi á fund hennar til þess að fjalla um mál sem hún hefur til afgreiðslu frá honum eða mál sem nefndin hefur tekið til umfjöllunar að eigin frum­kvæði og varða málefnasvið ráðherrans.
    Að sama skapi getur ráðherra óskað þess að eigin frumkvæði að koma á fund nefndar og ræða mál er hana varðar.
    Á fundi með ráðherra hefur hann sama rétt til þátttöku í umræðum og nefndarmenn.
    Í upphafi fundar getur ráðherra getur óskað eftir því að nefndarmenn séu bundnir þagnar­skyldu um það sem þeir fá vitneskju um á fundinum og skal formaður þá þegar leita eftir af­stöðu nefndarinnar til þess. Ræður vilji meiri hluta nefndarinnar.
    Nefndir skulu halda í upphafi hvers löggjafarþings kynningarfund með ráðherra þar sem óskað er kynningar á áformum hans í löggjafarstarfi á þinginu, stöðu EES-mála, sbr. reglur forsætisnefndar um þinglega meðferð EES-mála á mótunarstigi, og annarra mála er kunna að varða störf nefndarinnar.

14. gr.


Vísun mála milli nefnda.


    Nefnd, sem fengið hefur mál til athugunar, er heimilt að vísa því til annarrar fastanefndar telji hún að málið eigi fremur heima í þeirri nefnd. Áður skal þó liggja fyrir samþykki þeirrar nefndar sem málinu er vísað til. Tilkynna skal forseta um slíka tilfærslu.

15. gr.


Aðgangur að nefndafundum. Fundarfriður.


    Fundir nefnda skulu lokaðir öðrum en nefndarmönnum og starfsmönnum þeirra nema nefnd ákveði annað.
    Ef áheyrnarfulltrúar eiga seturétt á nefndafundi fer um stöðu þeirra og réttindi eftir regl­um forsætisnefndar um áheyrnarfulltrúa á fundum fastanefnda Alþingis, sbr. 4. mgr. 13. gr. þingskapa.
    Ákveði nefnd að halda opinn fund skal hún tilkynna forseta um þá ákvörðun og skal nefndin fylgja reglum forsætisnefndar um fyrirkomulag slíkra funda.
    Formaður skal sjá til þess að sem minnst röskun verði á fundum nefnda. Ekki skal beina símtölum inn á fund nema um brýnt erindi sé að ræða í tengslum við málefni fundarins. Notk­un farsíma er óheimil á fundum. Skilaboðum til nefndarmanna skal beint til starfsmanna nefndasviðs sem koma þeim skriflega til þeirra.

16. gr.


Afgreiðsla mála úr nefnd.


    Þegar formaður telur að efnislegri umfjöllun um mál sé lokið leggur hann til að málið verði afgreitt frá nefndinni. Við afgreiðslu máls skal formaður ganga úr skugga um hver sé afstaða einstakra nefndarmanna, svo og hverjir standa að nefndaráliti og fyrirliggjandi breyt­ingartillögum. Einnig skal hann kanna hvort einhverjir nefndarmenn ætli að skrifa undir nefndarálit með fyrirvara, og í hverju fyrirvari sé fólginn, eða skila séráliti. Nefnd skal skila áliti sínu í einu skjali en ef nefnd er ekki einhuga skal formaður gefa hverjum hluta nefndar­innar hæfilegan frest, að jafnaði eigi skemmri en tveggja daga, til að ganga frá sínu áliti og breytingartillögum áður en nefndaráliti er skilað.
    Ef ágreiningur er meðal nefndarmanna um hvort umfjöllun um mál í nefnd sé lokið og hvort skila skuli áliti hennar getur formaður eða hver nefndarmaður annar gert tillögu um að athugun máls sé hætt og það afgreitt frá nefndinni, sbr. 2. mgr. 27. gr. þingskapa. Er for­manni skylt að láta greiða atkvæði um slíka tillögu á þeim fundi sem hún er borin fram. Til­lagan telst því aðeins samþykkt að meiri hluti allra nefndarmanna greiði henni atkvæði.
    Ef nefnd hefur í upphafi málsmeðferðar tilnefnt framsögumann gerir hann, í samráði við formann, tillögu um afgreiðslu málsins og leggur fram drög að nefndaráliti.
    Nefndarmanni, sem tekið hefur þátt í efnislegri umfjöllun nefndarinnar um mál, er heimilt að rita undir nefndarálit eða breytingartillögur þótt hann hafi verið fjarstaddur ef ósk um það hefur komið fram við nefndarritara.
    Um frágang nefndarálits að öðru leyti fer eftir reglum forsætisnefndar um nefndarálit.

17. gr.


Nefndarritari.


    Fyrir hverja nefnd skal starfa sérfræðingur, nefndarritari, og er hann starfsmaður nefnda­sviðs skrifstofu Alþingis.
    Nefndarritari aðstoðar formann við að skipuleggja vinnu nefndarinnar, situr alla fundi nefndar og ritar fundargerðir. Hann fer yfir öll mál sem vísað er til nefndarinnar og sendir athugasemdir sínar til formanns nefndarinnar ef ástæða er til. Nefndarritari annast samskipti nefndar við ráðuneyti, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga, óskar upplýsinga og samhæfir störf sem unnin eru á vegum nefndarinnar. Nefndarritari aðstoðar við gerð nefndarálits og breytingartillagna. Þá hefur hann á hendi önnur þau verkefni sem nefnd ákveður.
    Nefndarritari skal fylgja nefnd í vettvangsferðir og á fundi utan Alþingis og vera nefndar­mönnum til aðstoðar.

18. gr.


Gildistaka.


    Reglur þessar, sem settar með stoð í 4. mgr. 8. gr. þingskapa, taka gildi við upphaf 124. löggjafarþings.