Ferill 546. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 871  —  546. mál.



Frumvarp til laga



um búnaðarfræðslu.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



I. KAFLI
Gildissvið, hlutverk og yfirstjórn.
1. gr.

    Lög þessi taka til menntastofnana landbúnaðarins sem eru Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri í Borgarfirði, Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal og Garðyrkjuskóli ríkisins að Reykj­um í Ölfusi. Lögin taka mið af því að stofnanirnar fái viðhaldið hæfni og möguleikum til að aðlaga starfsemi sína síbreytilegum kröfum og nýjum forsendum á hverjum tíma í samræmi við óskir og þarfir samfélagsins. Ákvæði V. kafla laganna taka einvörðungu til Landbún­aðarháskólans á Hvanneyri og ákvæði VI. kafla laganna til menntastofnananna á Hólum og Reykjum.

2. gr.


    Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn búnaðarfræðslunnar samkvæmt lögum þessum.
    Landbúnaðarráðherra ber ábyrgð á að gæði menntunar sem menntastofnanir landbúnaðar­ins veita samkvæmt lögum þessum uppfylli þau skilyrði sem gerð eru samkvæmt lögum nr. 136/1997, um háskóla, og 80/1996, um framhaldsskóla.

3. gr.


    Markmið búnaðarfræðslu er:
     a.      að veita almenna fræðslu, hagnýta starfsmenntun og sérhæfða kennslu fyrir framsækinn, samkeppnishæfan og fjölþættan landbúnað sem byggist á sjálfbærri nýtingu náttúru­auðlinda landsins,
     b.      að veita sérhæfða fræðslu og endurmenntun á þeim námssviðum sem lög þessi taka til,
     c.      að veita háskólamenntun studda rannsóknum á fjölbreyttum sviðum landbúnaðar og verndun og nýtingu þeirra náttúruauðlinda sem atvinnuvegurinn byggir á.
    Með búnaðarfræðslu er átt við skipulegt nám, fræðslu og aðra leiðsögn er lýtur að vörslu, meðferð, ræktun og nytjun lands, annarra jarðargæða og búfjár til framleiðslu matvæla og hráefna til iðnaðarframleiðslu eða annarrar verðmætasköpunar, markaðssetningu þeirra af­urða, svo og verndun og endurheimt landkosta. Búnaðarfræðslan spannar vísindalegt starf og þekkingarmiðlun um öll sérsvið landbúnaðar og fjölþættra landnytja, svo sem búvöru­framleiðslu, akuryrkju, landgræðslu, garðyrkju, skógrækt, hlunnindi, veiðar í ám og vötnum, fiskeldi og ferðaþjónustu, svo og tæknimál, markaðsmál, vistfræði og umhverfismál sem tengjast þessum sviðum.

4. gr.


    Búfræðsluráð skal marka heildarstefnu í búfræðslumálum og samræma störf þeirra er að þeim vinna.
    Búfræðsluráð er landbúnaðarráðherra til ráðuneytis um framkvæmd laga þessara.
    Landbúnaðarráðherra skipar búfræðsluráð til fjögurra ára í senn. Búfræðsluráð skal skip­að átta fulltrúum: rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, skólameisturum búnaðarskól­anna á Hólum í Hjaltadal og Reykjum í Ölfusi, einum fulltrúa tilnefndum af menntamála­ráðherra, einum fulltrúa kjörnum af búnaðarþingi og tveimur fulltrúum kennara tilnefndum af félagi þeirra, auk formanns sem landbúnaðarráðherra skipar án tilnefningar.

5. gr.


    Landbúnaðarráðherra skal setja almennar reglur um eftirfarandi þætti í starfsemi mennta­stofnana landbúnaðarins:
     1.      Með hvaða hætti þær uppfylla skyldur sínar um eftirlit með gæðum kennslunnar, hæfni kennara og hvernig ytra gæðaeftirliti skuli háttað.
     2.      Með hvaða hætti þær uppfylla rannsóknarhlutverk sitt, skyldur um eftirlit með gæðum rannsóknanna og nýtingu þeirra fjármuna sem til þeirra er varið.
     3.      Kærur eða málskotsrétt nemenda í málum þar sem þeir telja brotið á rétti sínum. Slíkar reglur geta falið í sér ákvæði um að kærumál nemenda skuli fara fyrir sérstaka áfrýj­unarnefnd sem hafi endanlegt úrskurðarvald.
    Landbúnaðarráðherra ákveður verkaskiptingu á milli skólanna.

6. gr.


    Menntastofnanir landbúnaðarins skulu í starfi sínu leggja áherslu á samstarf við aðra skóla og vísindastofnanir hér á landi og erlendis um menntun og rannsóknir. Um þetta er heimilt að gera sérstaka samninga.

II. KAFLI
Nám og kennsla.
7. gr.

    Yfirstjórn hverrar stofnunar tekur ákvörðun um fyrirkomulag kennslu, náms, námsmats, rannsókna og aðra þætti er lúta að málefnum hennar, enda samrýmist verkefnin heildarstefnu í búfræðslumálum, sbr. 4. gr.

8. gr.


    Menntastofnanir landbúnaðarins annast búnaðarnám sem lýkur með skilgreindum próf­gráðum búnaðarbrauta svo og tækni- eða sveinsprófi, háskólanám sem lýkur með skilgreind­um námsgráðum svo sem kandídats- (BS-gráðu), meistara- eða doktorsprófi og endurmennt­un á þeim námssviðum sem fjallað er um í lögum þessum. Nám við skólana skal samhæft áfanga- og einingakerfi framhalds- og háskóla.

9. gr.


    Nemendur sem hefja nám á búnaðarbrautum skólanna skulu hafa lokið grunnskólanámi eða hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun.
    Yfirstjórn hvers skóla setur að fengnu samþykki búfræðsluráðs sérstök viðbótarinntöku­skilyrði.

10. gr.


    Nemendur sem hefja háskólanám í landbúnaði skulu hafa lokið stúdentsprófi, öðru sambærilegu námi eða búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati stjórnar háskólans. Há­skólaráð getur ákveðið sérstök viðbótarinntökuskilyrði fyrir hverja skilgreinda námsbraut háskólanámsins.
    Tryggja skal að inntökuskilyrði í háskólanám í landbúnaði og námskröfur svari þó til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis.

11. gr.


    Almennt búnaðarnám skólanna skal skipuleggja sem eins til þriggja ára nám. Kennsla skal fara fram í námskeiðum sem metin eru í einingum. Búnaðarnáminu skal ljúka með prófgráð­um af búnaðarbrautum eða sveinsprófi sem veitt er þegar nemandi hefur staðist próf í öllum námskeiðum og skilað með fullnægjandi árangri verkefnum sem tilheyra námi til viðkomandi prófgráðu samkvæmt námskrá, sbr. 12. gr.

12. gr.


    Almennt háskólanám skal miðast við tveggja til fjögurra ára nám. Kennsla skal fara fram í námskeiðum sem metin eru í einingum. Fullt nám telst 30 einingar á námsári og endurspegl­ar alla námsvinnu nemenda og viðveru í kennslustundum. Háskólanáminu skal ljúka með prófgráðu sem veitt er þegar nemandi hefur staðist próf í öllum námskeiðum og skilað með fullnægjandi árangri þeim verkefnum sem tilheyra námi til prófgráðunnar.

13. gr


    Fyrir hverja skilgreinda námsbraut skal setja námskrá sem kveður á um markmið, inntak og meginviðfangsefni námsins, þar með talda starfsþjálfun á vettvangi þar sem það á við. Á grundvelli námskrár skal árlega gefin út kennsluskrá þar sem m.a. er gerð grein fyrir tilhögun náms, kennsluháttum og námsmati. Í kennsluskrá eða öðrum starfsáætlunum skal enn fremur kveðið á um missira- eða annaskiptingu, kennslutíma, próftímabil, leyfi og önnur atriði sem varða skipulag náms.
    Landbúnaðarráðherra skal að fengnum tillögum búfræðsluráðs staðfesta námskrár og gefa út skrá um viðurkenndar prófgráður.

14. gr.


    Nú er í almennum framhaldsskóla stofnað til búnaðarnámsbrautar, og skal þá námskrá slíkrar kennslu, fyrirkomulag á verknámi og námsmat hljóta samþykki búfræðsluráðs. Bú­fræðsluráð ákveður hvort eða hvenær slíkur skóli getur veitt prófgráðu búnaðarnáms.

15. gr.


    Yfirstjórn hverrar stofnunar skal staðfesta reglur um skráningu nemenda í einstakar náms­brautir þar sem nánar er kveðið á um inntökuskilyrði í viðkomandi námsbraut.
    Yfirstjórn hverrar stofnunar tekur ákvörðun um fjárhæð skrásetningar- og kennslugjalda sem nemendum er gert að greiða við upphaf skólaárs. Skrásetningar- og kennslugjöld skulu taka mið af sannanlegum kostnaði vegna innritunar, pappírsvara og kennsluefnis sem skólinn lætur nemendum í té og nauðsynlegt er vegna starfsemi hans.
    Þeir einir teljast nemendur menntastofnana landbúnaðarins sem skrásettir hafa verið til náms á hverjum tíma.

III. KAFLI
Rannsóknir.
16. gr.

    Við menntastofnanir landbúnaðarins skulu stundaðar rannsóknir. Rannsóknirnar skulu skipulagðar með öðrum rannsóknum á sviði landbúnaðar- og landnýtingar í landinu sem fé er veitt til úr ríkissjóði.
    Leggja skal áherslu á grunnrannsóknir til öflunar vísindalegrar þekkingar, jafnt sem þró­unarvinnu sem felst í að staðfæra þekkingu sem og markaðsfærslu og vöruþróun afurða. Einnig geta stofnanirnar annast þjónusturannsóknir í þágu landbúnaðar og annarra aðila
    Til að sinna rannsóknahlutverki sínu skulu stofnanirnar hafa umráð yfir nauðsynlegum búrekstri og hafa aðgang að landi, búfé, húsnæði og tækjum til rannsókna og tilrauna.

17. gr.


    Heimilt er að ráða sérfræðinga sérstaklega til rannsókna og hafi þeir þá kennsluskyldu við viðkomandi stofnun hver á sínu sviði. Við ráðningu sérfræðinga á sviði rannsókna og annarra fræðistarfa við skólann skulu gilda sambærilegar reglur og eiga við um ráðningu kennara, sbr. 26. og 33. gr.

18. gr.


    Heimilt er að stofna sérstaka rannsóknasjóði til eflingar rannsóknastarfi stofnananna. Um þá skulu settar skipulagsskrár sem dómsmálaráðherra staðfestir og þær birtar í Stjórnartíð­indum.

IV. KAFLI
Endurmenntun og leiðbeiningar.
19. gr.

    Við menntastofnanir landbúnaðarins skal starfrækja endurmenntunardeildir á þeim náms­sviðum sem fjallað er um í lögum þessum.
    Yfirstjórn hverrar stofnunar setur nánari reglur um starfshætti endurmenntunardeildar, svo og um fjárhæð námskeiðsgjalda. Námskeiðsgjöld mega aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur sannanlegum kostnaði við hvert námskeið.

20. gr.


    Menntastofnanir landbúnaðarins geta annast leiðbeiningar og ráðgjöf í landbúnaði og á skyldum sviðum. Um þetta skal gera samninga við hlutaðeigandi fagsamtök og hagsmuna­aðila, eftir því sem við á hverju sinni.

V. KAFLI
Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.
Stjórn og starfslið.

21. gr.

    Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri er vísindaleg fræðslu- og rannsóknastofnun á sviði landbúnaðar sem veitir nemendum sínum fræðslu og vísindalega þjálfun í búfræði er miðast við að þeir geti tekið að sér sérfræðistörf fyrir íslenskan landbúnað og unnið að rannsóknum í þágu hans.

22. gr.


    Stjórn Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri er falin háskólaráði og rektor.
    Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans, markar stefnu m.a. í kennslu og rannsóknum, mótar skipulag hans og samþykkir starfs- og rekstraráætlanir.
    Rektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan hans og utan. Hann stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum skólans. Rektor hefur ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum skólans nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum þessum. Á milli funda háskólaráðs hefur rektor ákvörðunarvald í umboði ráðsins í öllum málum háskólans. Önnur verkefni rektors eru skilgreind í erindisbréfi hans.

23. gr.


    Í háskólaráði eiga sæti:
     1.      Rektor sem er sjálfkjörinn í ráðið og jafnframt forseti þess.
     2.      Tveir fulltrúar fastráðinna kennara og tveir til vara kjörnir á almennum fundi fastráðinna starfsmanna hlutfallsbundinni kosningu til tveggja ára í senn.
     3.      Einn fulltrúi nemenda og einn til vara kjörnir hlutfallsbundinni kosningu til tveggja ára í senn samkvæmt reglum nemendafélags skólans.
     4.      Tveir fulltrúar og tveir til vara skipaðir af landbúnaðarráðherra til tveggja ára í senn, annar án tilnefningar en hinn tilnefndur af búnaðarþingi.
     5.      Einn fulltrúi og einn til vara skipaðir af menntamálaráðherra til tveggja ára í senn.
    Varaforseta kýs ráðið úr hópi háskólaráðsfulltrúa fastráðinna kennara skólans og er hann staðgengill rektors í forföllum hans.

24. gr.


    Rektor boðar til funda í háskólaráði. Óski þrír háskólaráðsfulltrúar eftir fundi er rektor skylt að boða til hans. Rektor stýrir fundum ráðsins. Háskólaráðsfundur er ályktunarbær ef tveir þriðju hlutar atkvæðisbærra manna sækja fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði falla jöfn sker atkvæði forseta úr. Varamenn sitja fundi háskólaráðs í for­föllum aðalmanna.

25. gr.


    Landbúnaðarráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs. Skal staðan auglýst laus til umsóknar.
    Þann einan má skipa í stöðu rektors sem lokið hefur æðri prófgráðu við háskóla og öðlast hefur stjórnunarreynslu.
    Rektor verður ekki leystur frá störfum án þess að það sé borið undir háskólaráð og hljóti samþykki meiri hluta þess.

26. gr.


    Kennarar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri eru prófessorar, dósentar, lektorar og stundakennarar. Prófessorar, dósentar og lektorar skulu vera þeir einir sem hafa kennslu og rannsóknir að aðalstarfi. Háskólaráð setur í nánari reglur um starfsskyldur fastráðinna kenn­ara.

27. gr.


    Rektor ræður prófessora, dósenta, lektora og stundakennara. Umsækjendur um prófess­ors-, dósents- og lektorsstörf skulu láta fylgja umsókn sinni upplýsingar um háskólamenntun sína, vísindastörf og önnur störf, svo og ritsmíðar og rannsóknir.
    Kennarar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Þeir skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á starfssviði sínu.
    Skipa skal þriggja manna dómnefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna starfi prófessors, dósents eða lektors. Rektor skipar dómnefnd, einn mann eftir tilnefningu landbúnaðarráðherra, tvo menn eftir tilnefningu háskólaráðs og skipar rektor annan þeirra formann nefndarinnar. Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa a.m.k. meistaraprófi úr háskóla og skulu a.m.k. tveir nefndarmanna starfa utan háskólans.
    Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það hvort ráða megi af vísindagildi rita og rann­sókna umsækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann sé hæfur til að gegna starf­inu. Engum manni má veita prófessors-, dósents- eða lektorsstarf nema meiri hluti dómnefnd­ar hafi látið það álit í ljós að hann sé til þess hæfur.

28. gr.


    Við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri skal starfrækt búnaðarnámsbraut. Heimilt er að ráða kennara að búnaðarnámsbraut skólans sem ekki uppfylla skilyrði til háskólakennslu, sbr. 27. gr. Um yfirstjórn búnaðarnáms á Hvanneyri fer eftir ákvæðum 22.–23. gr. laga þess­ara og er rektor Landbúnaðarháskólans jafnframt yfirmaður þess.

VI. KAFLI
Menntastofnanirnar á Hólum í Hjaltadal og Reykjum í Ölfusi.
Stjórn og starfslið.

29. gr.

    Hólaskóli, Hólum í Hjaltadal og Garðyrkjuskólinn að Reykjum í Ölfusi eru vísinda- og menntastofnanir landbúnaðarins sem veita nemendum sínum menntun og þjálfun á sértækum sviðum íslensks landbúnaðar og gegna auk þess fjölþættu menningarhlutverki á héraðs- og landsvísu.

30. gr.


    Stjórn Hólaskóla og Garðyrkjuskóla ríkisins er falin skólanefnd og skólameistara.
    Skólanefnd er ráðgefandi um skipulag, stefnu og áherslur í kennslu, rannsóknum og öðrum verkefnum stofnananna.
    Skólameistari er yfirmaður stjórnsýslu stofnunarinnar og er æðsti fulltrúi hennar gagnvart mönnum og stofnunum innan hennar og utan og ber ábyrgð á starfsemi hennar. Skólameistari hefur frumkvæði að því að skólanefnd marki heildarstefnu í málefnum stofnunarinnar. Skóla­meistari ræður kennara og annað starfsfólk stofnunarinnar að höfðu samráði við skólanefnd og fer með vald til að slíta ráðningu þeirra eftir þeim almennu reglum sem gilda samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Önnur verkefni skólameistara eru skil­greind í erindisbréfi hans.


31. gr.


    Landbúnaðarráðherra skipar fimm manna skólanefndir við búnaðarskólana til fjögurra ára í senn. Í skólanefnd Hólaskóla eiga sæti þrír fulltrúar samkvæmt tilnefningu samtaka bænda í Hólastifti og tveir fulltrúar samkvæmt tilnefningu samtaka sveitarfélaga í Hólastifti. Nefndin kýs sér sjálf formann. Í skólanefnd Garðyrkjuskólans að Reykjum eiga sæti einn fulltrúi landbúnaðarráðuneytisins, einn fulltrúi tilnefndur af búfræðsluráði, einn fulltrúi Sambands garðyrkjubænda, einn fulltrúi Félags garðyrkjumanna og einn fulltrúi tilnefndur af starfsmönnum skólans. Nefndin kýs sér sjálf formann. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Áheyrnarfulltrúar í hvorri skólanefnd eru tveir með málfrelsi og tillögurétt, annar til­nefndur af kennurum skólans en hinn af nemendafélagi skólans. Áheyrnarfulltrúar skulu til­nefndir til eins árs í senn. Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt. Hann er framkvæmdastjóri nefndarinnar.

32. gr.


    Landbúnaðarráðherra skipar skólameistara til fimm ára að fenginni tillögu skólanefndar. Skal staðan auglýst laus til umsóknar. Landbúnaðarráðherra er heimilt að endurskipa sama mann skólameistara að fengnum tillögum skólanefndar. Hæfni umsækjenda um embætti skólameistara skal metin eftir menntun, stjórnunarreynslu og vísinda- og kennslustörfum.

33. gr.


    Kennarar og aðrir sérfræðingar við stofnanirnar skulu hafa lokið háskólaprófi í landbún­aðarfræðum eða hafa hliðstæða menntun. Þeir skulu auk kennslu vinna að rannsóknum og öðrum hliðstæðum störfum í þágu stofnunarinnar.
    Heimilt er að ráða kennara í verklegum greinum sem hafa aflað sér fullnægjandi þekking­ar og starfsþjálfunar á viðkomandi sviði að mati skólameistara.

34. gr.


    Heimilt er að stofna til kennslu eða náms á háskólastigi við Hólaskóla og Garðyrkjuskóla ríkisins á afmörkuðum sviðum með samþykki landbúnaðarráðherra að fenginni umsögn bú­fræðsluráðs, enda sé slíkt nám í fullu samræmi við annað nám á háskólastigi samkvæmt lög­um þessum og viðurkennt skv. 2. mgr. 2. gr. og 5. gr. laga þessara að mati búfræðsluráðs.

VII. KAFLI
Fjárhagur.
35. gr.

    Kostnaður við störf menntastofnana landbúnaðarins er greiddur af ríkissjóði samkvæmt fjárlögum. Hver stofnun hefur sjálfstæða fjárveitingu á fjárlögum. Landbúnaðarráðherra ger­ir tillögur um fjárveitingar til hverrar stofnunar.
    Verkefnatengdir styrkir, t.d. til rannsókna, skulu ekki hafa áhrif á framlag ríkisins til reksturs stofnananna. Landbúnaðarráðherra setur gjaldskrá fyrir þjónustu hverrar stofnunar samkvæmt tillögu stjórnar.

36. gr.


    Menntastofnunum landbúnaðarins er heimilt að afla sértekna með:
     a.      skólagjöldum, sbr. 15. gr.,
     b.      rekstri þjónustustarfsemi sem tengist skólastöðunum,
     c.      búrekstri,
     d.      ráðgjafarþjónustu og
     e.      öðrum hætti er samrýmist meginverkefnum þeirra.
    Landbúnaðarráðherra getur heimilað menntastofnunum landbúnaðarins að koma á fót og eiga aðild að sjálfstæðum rekstrareiningum til styrktar og eflingar meginviðfangsefnum þeirra.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
37. gr.

    Lög þessi eru sett með hliðsjón af lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, og lögum nr. 136/1997, um háskóla.
    Landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara með reglugerðum, starfsreglum og samþykktum.

38. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1999. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 91/1936, um garðyrkjuskóla ríkisins, með síðari breytingum, og lög nr. 55/1978, um bún­aðarfræðslu, með síðari breytingum.

39. gr.


    Við gildistöku þessara laga renna eignir Bændaskólans á Hvanneyri til Landbúnaðar­háskólans á Hvanneyri. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri yfirtekur einnig allar kvaðir og skuldbindingar Bændaskólans á Hvanneyri gagnvart einstaklingum, lögaðilum og stofnunum.
    Við gildistöku laga þessara renna eignir Bændaskólans á Hólum til Hólaskóla. Hólaskóli yfirtekur einnig allar kvaðir og skuldbindingar Bændaskólans á Hólum gagnvart einstakling­um, lögaðilum og stofnunum.

40. gr.


    Jarðirnar Hólar, Hvanneyri og Reykir eru lögbýli og eru með gögnum sínum og gæðum lagðar undir tilheyrandi menntastofnanir. Starfsemin á jörðunum skal þjóna þeim heildar­markmiðum sem sett eru fyrir hverja stofnun og því hlutverki sem þær gegna í sínu nánasta umhverfi, sem og á landsvísu.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Nemendur sem við gildistöku laga þessara stunda nám í framangreindum skólum eiga rétt á að ljúka prófum samkvæmt gildandi námsskipulagi skólanna við gildistöku laganna. Nem­endur geta þó lokið prófum samkvæmt nýju skipulagi skólanna ef þeir kjósa svo.
    Skipað og ótímabundið ráðið starfsfólk Bændaskólans á Hvanneyri, Bændaskólans á Hól­um og Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum skal halda stöðum sínum. Þeir einir geta þó orðið prófessorar, dósentar og lektorar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri sem uppfylla kröf­ur 7. gr. laga nr. 136/1997, um háskóla.
    Skólastjóri Bændaskólans á Hvanneyri verður rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.
    Skólastjóri Bændaskólans á Hólum verður skólameistari Hólaskóla og skólastjóri Garð­yrkjuskóla ríkisins að Reykjum verður skólameistari Garðyrkjuskóla ríkisins.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að frumkvæði búfræðslunefndar sem starfar á grundvelli laga nr. 55/1978, um búnaðarfræðslu, en verkefni nefndarinnar eru m.a. fólgin í að marka stefnu í búfræðslumálum og samræma störf þeirra sem að þeim vinna. Búfræðslunefnd er skipuð fulltrúum landbúnaðarráðherra, menntamálaráðherra, Bændaskólanna á Hólum og Hvann­eyri, búnaðarþings og búfræðikennara. Búfræðslunefnd skipa í dag Árni B. Bragason kenn­ari fyrir hönd Búnaðar- og garðyrkjukennarafélags Íslands, Anna Bryndís Tryggvadóttir bóndi og Runólfur Sigursveinsson búnaðarráðunautur fyrir hönd Bændasamtaka Íslands, Karl Kristjánsson deildarstjóri fyrir hönd menntamálaráðherra, Jón Bjarnason, skólastjóri Bændaskólans á Hólum, Magnús B. Jónsson, skólastjóri Bændaskólans á Hvanneyri, og Guðmundur Sigþórsson skrifstofustjóri fyrir hönd landbúnaðarráðherra. Hákon Sigurgríms­son deildarstjóri er ritari nefndarinnar. Þá hefur verið haft samráð við Svein Aðalsteinsson, skólastjóra Garðyrkjuskóla ríkisins, um samningu frumvarpsins auk annarra. Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við þær miklu breytingar sem orðið hafa í landbúnaði á undanförn­um árum bæði með tilliti til menntunarþarfa vegna framfara og tækninýjunga og opnara við­skiptaumhverfis í landbúnaði samhliða því að aðlaga núgildandi löggjöf um búnaðarfræðslu nýrri og breyttri löggjöf um almenna menntakerfið í landinu.
    Ljóst er að núgildandi löggjöf um búnaðarfræðslu er orðin úrelt og hefur ekki fylgt þeim miklu breytingum sem orðið hafa í landbúnaðinum og starfsumhverfi hans. Lög um búnaðar­nám, búnaðarfræðslulögin, sem m.a. starfsemi Bændaskólanna á Hólum og Hvanneyri er byggð á, eru frá árinu 1978 og lögin um Garðyrkjuskóla ríkisins frá árinu 1936. Samkvæmt núverandi skipan fer búnaðarnám fram við þrjá skóla: Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal og Bændaskólann á Hvanneyri sem starfa á grundvelli laga nr. 55/1978, um búnaðarfræðslu, og reglugerð nr. 462/1984 og Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi sem starfar á grundvelli laga nr. 91/1936. Nám við Bændaskólann á Hólum og Garðyrkjuskóla ríkisins er á framhaldsskólastigi en nám við Bændaskólann á Hvanneyri bæði á framhaldsskólastigi (bændadeild) og háskólastigi (búvísindadeild).
    Hlutverk Bændaskólans á Hólum er að veita nemendum hagnýta fræðslu um hinar ýmsu greinar landbúnaðar og annars atvinnulífs í dreifbýli, svo sem um hrossarækt og reið­mennsku, fiskeldi, vatnanýtingu, ferðaþjónustu, umhverfismál og hlunnindi. Hlutverk Garð­yrkjuskóla ríkisins er að veita nemendum sérfræðslu í flestum greinum garðyrkju, svo sem garð- og skógarplöntuframleiðslu, ylrækt, skrúðgarðyrkju og blómaskreytingum. Bændaskól­inn á Hvanneyri gegnir tvíþættu hlutverki í búnaðarmenntun hér á landi. Skólinn veitir bændaefnum og öðrum landnotendum hagnýta fræðslu um landbúnað og hvers konar landnýt­ingu. Þá er við skólann starfrækt búvísindadeild sem veitir eina háskólanám í búfræði sem boðið er upp á hér á landi.
    Umfangsmikil rannsóknastarfsemi er rekin við skólana sem skipulögð er í tengslum við aðrar landbúnaðarrannsóknir í landinu og nýtir gögn og gæði jarða sem skólarnir hafa til um­ráða. Rannsóknaverkefni eru sífellt stærri þáttur í starfseminni.
    Auk þeirra verkefna sem skólarnir sinna í kennslu og rannsóknum reka þeir margvíslega þjónustustarfsemi sem tengist meginviðfangsefnum þeirra. Breytingar sem hafa orðið í land­búnaði vegna stækkunar og sérhæfingar búa, tækninýjunga, breytinga á rekstrarkerfi land­búnaðarins o.fl. gera sífellt meiri kröfur til þeirra sem stunda búskap.
    Til þess að skapa stofnununum sem mesta möguleika á því að skila hlutverki sínu á viðun­andi hátt er verkefni þeirra, búnaðarfræðslan, skilgreind með víðtækari hætti í frumvarpinu en hingað til hefur verið gert.
    Á undanförnum árum hafa skólarnir tekið upp margháttað samstarf við innlenda og er­lenda skóla og rannsóknastofnanir til þess að auðga framboð menntunar og efla rannsókna­starfsemi sína.
    Bændaskólinn á Hólum er í samstarfi við allmargar stofnanir bæði innlendar og erlendar. Er hér bæði um mennta- og rannsóknasamstarf að ræða. Helstu samstarfsaðilar skólans eru: Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Veiðimálastofnun, en Bændaskólinn á Hólum hef­ur gert rammasamninga við þessar stofnanir um gagnkvæmt samstarf um rannsóknir, kennslu og samnýtingu tæknibúnaðar. Bændaskólinn á Hólum starfar m.a. með Veiðimálastofnun við rannsóknir á lífríki Héraðsvatna. Einnig hefur Bændaskólinn á Hólum gert samstarfssamning við líffræðiskor Háskóla Íslands um rannsóknir og kennslu í fiskeldi og við Háskólann á Akureyri um að ferðamálanám við Bændaskólann á Hólum verði viðurkennt sem hluti af rekstrarfræðinámi við Háskólann, enda uppfylli nemendur önnur inntökuskilyrði skólans.
    Bændaskólinn á Hólum hefur gert samning við Bændaskólann á Hvanneyri um að þjálf­ara- og reiðkennaranám við Bændaskólann á Hólum verði viðurkennt sem hluti af búvís­indanáminu á Hvanneyri, enda uppfylli nemendur önnur inntökuskilyrði skólans.
    Bændaskólinn á Hólum hefur gert samninga við Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins og Búnaðarsamband Skagafjarðar um kennslu og rannsóknir, svo og um gerð landnýtingar­áætlana fyrir einstakar jarðir í Skagafirði. Einnig hefur Bændaskólinn á Hólum gert samning við Félag tamningamanna um skipulag og framkvæmd kennslu á hrossabraut og í þjálfara- og reiðkennaranámi skólans.
    Þá er Bændaskólinn á Hólum í samstarfi við Náttúrustofu Kópavogs um grunnrannsóknir á íslenskum vötnum og einnig í samstarfi við Iðntæknistofnun um námsefnisgerð í fiskeldi. Síðastgreint verkefni er styrkt af Leonardo da Vinci sjóði Evrópusambandsins en námsefnið er m.a. ætlað til fjarkennslu. Menntamálaráðuneytið styrkir Bændaskólann á Hólum við gerð námsefnis um íslenska vatnalíffræði, sem m.a. er ætlað til fjarkennslu.
    Bændaskólinn á Hólum hefur gert samstarfssamninga við ýmsa erlenda aðila, oft með að­ild annarra innlendra aðila. Bændaskólinn á Hólum er þannig með samstarfssamning við Há­skólann í Guelph í Ontariofylki í Kanada um rannsóknir og nemenda- og starfsmannaskipti. Einnig er Bændaskólinn á Hólum þátttakandi í JTP sem eru evrópsk samtök um nemenda- og starfsmannaskipti og í samstarfi við Leonardo da Vinci sjóðinn um námsmannaskipti á ferðamálasviði.
    Bændaskólinn á Hólum er í samstarfi við hrossarannsóknastöðina í Newmarket í Englandi um fósturvísaflutninga en einnig hefur þessi hrossarannsóknastöð tekið þátt í spattrannsókn­um við skólann. Hrossaræktarsamtök Suðurlands og Búnaðarsamband Suðurlands eru einnig aðilar að samstarfi við Bændaskólann á Hólum um fósturvísaverkefnið.
    Bændaskólinn á Hólum er í samstarfi við Háskólann í Uppsölum og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum um rannsóknir á spatti í hrossum. Sömuleiðis er Bændaskól­inn á Hólum þátttakandi í rannsóknum á sumarexemi með Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, yfirdýralæknisembættinu og rannsóknastofnunum í Englandi og Þýskalandi.
    Þá vinnur Bændaskólinn á Hólum að verkefni um þróun fjarnáms í fiskeldi ásamt Land­búnaðarháskólanum í Umeå og Háskólanum í Bergen. Verkefnið er styrkt af NOVA. Einnig er Bændaskólinn á Hólum þátttakandi í verkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu um þró­un sjálfbærs bleikjueldis, Aquacharr. Samstarfsaðilar eru auk Bændaskólans á Hólum Há­skóli Íslands, Háskólinn í Glasgow, Háskólinn í Galway á Írlandi, Sænski landbúnaðar­háskólinn og Veiðimálastofnun.
    Eftirfarandi sjóðir og stofnanir styrkja rannsóknastarf skólans: Framleiðnisjóður landbún­aðarins, Rannsóknarráð Íslands, Úflutningssjóður íslenskra hrossa, Bygginga- og tækjasjóð­ur, Tæknisjóður (Rannsóknarráð Íslands), Nýsköpunarsjóður námsmanna, Lýðveldissjóður, Vísindasjóður, Evrópusambandið og Leonardo da Vinci sjóður Evrópusambandsins.
    Hér á eftir verður greint frá helstu samstarfsverkefnum Bændaskólans á Hvanneyri. Land­búnaðar- og dýralæknaháskólar Norðurlanda hafa um langt skeið haft með sér víðtækt sam­starf. Árið 1995 hófst formlegt samstarf þeirra með stofnun norræna búnaðarháskólans NOVA sem hefur aðsetur í Alnarp í Svíþjóð. Aðilar að NOVA eru Landbúnaðar- og dýralæknaháskóli Danmerkur, Landbúnaðarháskólinn á Ási í Noregi, Dýralæknaháskóli Noregs, Landbúnaðar- og dýralæknaháskólinn í Ultuna í Svíþjóð, Landbúnaðar- og dýralæknadeildir Helsinkiháskóla í Finnlandi og Bændaskólinn á Hvanneyri. Með samstarfssamningi NOVA er tryggð gagnkvæm viðurkenning námsáfanga, námsbrauta og prófgráða við skólana. Nem­endur geta lokið grunnnámi við einn skóla og framhaldsnámi við annan og fyrra nám nýtist að fullu. Skólarnir standa saman að margvíslegu þróunarstarfi, t.d. á sviði upplýsingatækni og bókasafna. Þeir standa sameiginlega að málefnum er tengjast Eystrasaltslöndunum, þró­unarlöndum og fleiri slíkum verkefnum.
    Fyrir Bændaskólann á Hvanneyri er þetta samstarf mjög þýðingarmikið og gerir nemend­um sem útskrifast með BS-gráðu frá búvísindadeild kleift að hefja framhaldsnám til MS- eða Ph.D.-gráðu á mun skipulegri hátt en ella. Nám við búvísindadeildina er að fullu metið til jafns við annað BS-nám þeirra skóla sem eru aðilar að samstarfinu. Þá hefur þetta samstarf gefið Bændaskólanum á Hvanneyri og öðrum samstarfsstofnunum hans færi á því að koma á framfæri þeirri sérþekkingu sem hér er til staðar í formi námskeiða sem sérstaklega eru boðin fram í nafni NOVA.
    Búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri hefur undirritað samstarfssamninga við tvo aðra erlenda háskóla. Annar þeirra er við University of Guelph sem er sameiginlegur með Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Bændaskólanum á Hólum. Hinn samningurinn er við Nova Scotia Agricultural College. Báðir þessir samningar tryggja nemendum frá bú­vísindadeild á Hvanneyri aðgang að MS- og Ph.D.-námi við viðkomandi skóla á sama grund­velli og um eigin námsmenn væri að ræða. Þá hefur skólinn gert samning við Atlantic Veterinary College á Prins Edwards Island um samstarf á sviði kennslumála og í bígerð er að ganga frá ítarlegri samningi um framhaldsnám búfræðikandídata við þann skóla.
    Bændaskólinn hefur auk þess gert marga samstarfssamninga við innlenda skóla og rann­sóknastofnanir. Ítarlegur samstarfssamningur er milli skólans og Rannsóknastofnunar land­búnaðarins svo og Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins. Í öllum þessum samningum er bæði gert ráð fyrir kennslu og rannsóknasamstarfi. Starfsmaður Landgræðslunnar og Skógræktarinnar er staðsettur á Hvanneyri. Samstarfssamningur er milli embættis yfirdýra­læknis og Bændaskólans á Hvanneyri um starfsaðstöðu og kennsluskyldu dýralæknis júgur­sjúkdóma við búvísindadeild skólans. Samstarf er um kennslu í reiðmennsku og reiðkennslu á milli Bændaskólans á Hólum og búvísindadeildar. Þá er samkvæmt lögum um Hagþjónustu landbúnaðarins gert ráð fyrir samstarfi um kennslu í rekstrargreinum við búvísindadeild. Bændaskólinn á Hvanneyri og Bændasamtök Íslands hafa gert með sér samstarfssamning um fræðslu og leiðbeiningar í loðdýrarækt og er ráðunautur í loðdýrarækt með kennsluskyldu við skólann.
    Sameiginlega hafa búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri, Rannsóknastofnun land­búnaðarins og Háskóli Íslands gert með sér samstarfssamning um eflingu menntunar og rann­sókna á sviði raunvísinda sem tengjast íslenskum landbúnaði. Samningur þessi felur í sér gagnkvæma viðurkenningu námskeiða og uppbyggingu MS-náms í greinum tengdum land­búnaði.
    Garðyrkjuskóli ríkisins er sú stofnun innan íslenska rannsókna- og menntakerfisins sem hefur það hlutverk og markmið að samhæfa og leiða rannsóknir og fræðslu á sviði garðyrkju. Skólinn hefur samstarf við fjölda aðila, innlenda sem erlenda, til að ná þessum markmiðum. Mestu skiptir að garðyrkjustéttin í heild telur skólann og starf hans skipta máli fyrir fram­gang greinarinnar. Á skólinn fjölþætt samstarf við marga aðila innan greinarinnar og fær sér­fræðinga til liðs við sig til að sinna afmörkuðum þáttum fræðslu og jafnvel tilrauna. Þetta samstarf er lífæð skólans. Skólinn er auk þess aðili að ýmsum rannsóknaverkefnum og fræðslusamstarfi.
    Skólinn er í samstarfi og samráði við Rannsóknastofnun landbúnaðarins vegna tilrauna og rannsóknaverkefna skólans og er sú stofnun m.a. umsagnaraðili við ráðningu tilrauna­stjóra skólans. Af rannsóknasamstarfi má nefna samstarf við Rannsóknastofnun landbúnað­arins, Geislavarnir ríkisins, manneldisráð, afurðasölufyrirtæki og Samband garðyrkjubænda um gæði grænmetis. Einnig er skólinn aðili að rannsóknaverkefni um raflýsingu í ylrækt í samstarfi við Bændasamtök Íslands, Rafmagnsveitur ríkisins og Samband garðyrkjubænda. Samstarf er við Jarðefnaiðnað hf. og Samband garðyrkjubænda um þróun ræktunartækni í vikri. Samstarf er einnig við ýmsar garðplöntustöðvar um kynningu á nýjum klónum og sam­starf er í bígerð við m.a. sveitarfélög í nágrenni skólans um samhæfða umhverfisstefnu í anda Staðardagskrár 21.
    Skólinn er aðili að verkefni styrktu af Framleiðnisjóði landbúnaðarins um framleiðnátak í nokkrum greinum ylræktar í samstarfi við landsráðunauta Bændasamtakanna og rannsókn­araðila og ráðunautaþjónustu í Hollandi. Er það fyrsti vísir að starfsemi svokallaðrar Garð­yrkjumiðstöðvar sem ætlunin er að koma á fót við skólann. Í Garðyrkjumiðstöð munu sam­eina krafta sína ráðunautar Bændasamtakanna, sérfræðingar skólans og starfsmenn Sam­bands garðyrkjubænda, auk hugsanlega fleiri aðila sem sjá sér hag í slíkri samvinnu. Sam­vinna af þessu tagi gerir greininni, almenningi og samfélaginu auðveldara að leita til mið­stöðvarinnar með ýmis verkefni. Gert er ráð fyrir að miðstöðinni verði komið á fót haustið 1999 í aðstöðu sem verið er að undirbúa.
    Garðyrkjuskólinn hefur undanfarin ár átt náið samstarf við Landgræðslu ríkisins og Skóg­rækt ríkisins um endurmenntun á sviðum stofnananna samkvæmt sérstökum samstarfssamn­ingi. Hafa þessar stofnanir staðið sameiginlega fyrir námskeiðum víða um land.
    Skólastjóri Garðyrkjuskólans varði dósenttitil við Garðyrkjuvísindastofnun Sænska land­búnaðarháskólans (SLU) og er umsjónarmaður nokkurra doktorsverkefna við þá stofnun. Hann hefur einnig beitt sér fyrir því að íslenskir fræðimenn geti innritast í doktorsnám við Sænska landbúnaðarháskólann og er sá fyrsti að hefja nám um þessar mundir. Mun sá nemi vinna verkefnavinnu sína á Íslandi með íslenskum efnivið og við íslenskar aðstæður undir handleiðslu skólastjóra og nokkurra annarra vísindamanna við SLU. Fleiri eru að velta fyrir sér þessum möguleikum. Mun aðstaða Garðyrkjuskólans m.a. við Háskólann í Quebec í Kan­ada, ENSAT í Toulouse í Frakklandi, rannsóknastöðina Geisenheim í Þýskalandi, MLURI í Aberdeen í Skotlandi, Háskólann í Leuven í Belgíu, rannsóknastöðina í Naaldwijk í Hol­landi, Landbúnaðarháskólann í Wageningen í Hollandi og við stofnanir í öðrum löndum. Svipaða sögu er að segja um aðra sérfræðinga skólans; þeir eru í fjölþættum samskiptum við fjölda stofnana og skóla erlendis. Árlega eru nokkrir erlendir garðyrkjunemar í verknámi við skólann og erlendir sem íslenskir nemendur hafa unnið að lokaverkefnum sínum við skólann. Fyrirhuguð er ein slík heimsókn sumarið 1999 þar sem sænskur nemandi í garðyrkjutækna­námi mun vinna að lokaverkefni sínu að Reykjum.
    Skólinn er auk þess virkur samstarfsaðili í NJF (Nordiske jordforbrugsforskeres forening – Félag norrænna búvísindamanna) og hafa starfsmenn skólans setið í stjórnum Íslandsdeild­ar og í garðyrkjudeild samtakanna. Skólinn er einnig formlegur aðili að Alþjóðasamtökum garðyrkjusérfræðinga (International Society for Horticultural Science, ISHS) sem sérfræð­ingar frá 55 löndum eru aðilar að. Garðyrkjuskólinn á aðild að JTP (Jumelage/Twinn­ing/Partnersschaft) sem eru Evrópusamtök búnaðar- og garðyrkjuskóla. Tilgangur þessara samtaka er að auka og auðvelda nemendaskipti á milli hinna ýmsu skóla, kennaraskipti, náms- og kynnisferðir, samræma námsuppbyggingu og námsefni og stuðla að auknum sam­skiptum ráðunauta, sérfræðinga o.fl. Skólinn hefur tekið virkan þátt í starfi samtakanna. Samtök garðyrkjuskóla á Norðurlöndum sem bjóða upp á garðyrkjutæknanám hafa einnig stofnað með sér sérstök samtök og hafa boðið Garðyrkjuskóla ríkisins aðild sem skólinn hef­ur þegið.
    Rannsókna- og fræðslustarf skólans er styrkt af Rannsóknarráði Íslands, Framleiðnisjóði landbúnaðarins, ÁFORM-átaksverkefni, Nýsköpunarsjóði námsmanna og fleiri sjóðum.
    Búnaðarskólarnir heyra undir landbúnaðarráðuneytið. Hugmyndir hafa verið um að þeir eigi að heyra undir menntamálaráðuneytið og ýmsar tillögur komið fram um breytingar á nú­verandi skipan. Starfshópur sá sem vann að samningu þessa frumvarps ræddi og skoðaði vandlega þessar hugmyndir og tillögur. Niðurstaða starfshópsins var sú að búnaðarskólarnir skyldu áfram heyra undir landbúnaðarráðuneytið. Ræður þar mestu að viðfangsefni mennta­stofnana landbúnaðarins er mun víðtækara en skólastofnana almennt og með því að halda áfram tengslum við landbúnaðarráðuneytið er tekið tillit til þeirrar sérstöðu. Þá var og talið auðveldara að skipuleggja námsframboð skólanna, bæði búnaðarnám og búvísindanám, í samræmi við annað nám á sömu skólastigum en að laga aðra starfsemi stofnananna að hinu almenna skólaumhverfi. Þá má einnig benda á að með núverandi skipulagi skapast náin sam­staða milli skóla og atvinnuvegar og bein þátttaka atvinnuvegarins er á allan hátt auðveldari og sjálfsagðari.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra beri ábyrgð á því að gæði menntunar þeirrar sem skólarnir veita sé í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru um það efni til ann­arra sambærilegra skóla samkvæmt lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, og lögum nr. 136/1997, um háskóla.
    Á síðustu árum hafa einnig komið fram ýmsar hugmyndir um að sameina búnaðarskólana í eina stofnun. Í frumvarpi þessu er hins vegar farin sú leið að starfrækja skólana áfram sem þrjár sjálfstæðar stofnanir undir samheitinu menntastofnanir landbúnaðarins. Um þá ákvörð­un réðu mestu tengsl þessara stofnana, Bændaskólanna á Hólum og Hvanneyri og Garðyrkju­skóla ríkisins að Reykjum við þau byggðarlög sem þær starfa í og einnig tengsl þeirra við hinar dreifðu byggðir landsins. Skólarnir eru hver um sig stærstu vinnuveitendur í dreifbýli hver í sínu byggðarlagi og við þá starfar mikill fjöldi háskólamenntaðs fólks sem hefur kosið að starfa og búa í dreifbýli. Við alla skólana fer fram öflug starfsemi á sviði fræðslu, rann­sókna og þjónustu en starfsemi þeirra skarast að öðru leyti ekki mikið þar sem þeir starfa ekki að sömu verkefnum nema að litlu leyti.
    Til þess að tryggja samræmingu í skipulagningu náms og námsframboði, svo og annarri starfsemi þessara stofnana er hins vegar farin sú leið að stofna og starfrækja sérstakt bú­fræðsluráð, skipað fulltrúum stofnananna, menntamálaráðherra, landbúnaðarráðherra, bún­aðarþings og búfræðikennara. Búfræðsluráðið hefur það meginhlutverk að marka heildarstefnu í búfræðslumálum og vera samræmingaraðili fyrir menntastofnanir landbúnaðarins í heild um ýmis atriði er varða búfræðslunámið. Jafnframt er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að við allar menntastofnanir landbúnaðarins verði stundaðar rannsóknir sem verði skipu­lagðar með öðrum rannsóknum á sviði landbúnaðar og landnýtingar í landinu.
    Í frumvarpinu er einungis kveðið á um grundvallaratriði í stjórnskipulagi menntastofnana landbúnaðarins en gert er ráð fyrir að yfirstjórn hvers skóla taki nánari ákvarðanir um starf­semi stofnananna að öðru leyti, eftir atvikum með samþykki búfræðsluráðs og/eða landbún­aðarráðherra.
    Ljóst þykir að núgildandi löggjöf um búnaðarfræðslu fellur heldur ekki lengur að nýrri og breyttri löggjöf um framhaldsskóla og háskóla en miklar breytingar hafa orðið á þeirri löggjöf síðan búnaðarfræðslulögin voru sett. Við samningu frumvarpsins hefur verið höfð hliðsjón af lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, og lögum nr. 136/1997, um háskóla. Hef­ur verið leitast við að aðlaga ákvæði frumvarpsins framangreindum lögum eins og frekast er unnt, þó með þeim áherslum sem leiðir af sérstöðu þeirra.
    Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þessar:
     1.      Lagt er til að ákvæði laga um búnaðarnám og garðyrkjunám verði samræmd í einni löggjöf um búnaðarfræðslu er taki til menntastofnana landbúnaðarins.
     2.      Heildarstefna í búnaðarfræðslu verði mótuð af búfræðsluráði sem í eiga sæti fulltrúar menntastofnananna, landbúnaðarráðuneytis, menntamálaráðuneytis, búnaðarþings og búnaðarskólakennara.
     3.      Aukið er svigrúm skólanna til að bjóða upp á fjölbreyttara nám, námstíma o.fl.
     4.      Formlega verði stofnaður Landbúnaðarháskóli með aðsetur á Hvanneyri og öllu stjórnskipulagi skólans breytt í samræmi við það.
     5.      Heimilt verði að stofna til kennslu eða náms á háskólastigi við Hólaskóla og Garðyrkjuskólann að Reykjum með samþykki landbúnaðarráðherra, liggi fyrir viðurkenning bú­fræðsluráðs um að starfsemin standist gæðakröfur sem gerðar eru í sambærilegu námi.
     6.      Landbúnaðarráðherra geti heimilað menntastofnunum landbúnaðarins að koma á fót og eiga aðild að sjálfstæðum rekstrareiningum til styrktar og eflingar meginviðfangsefnum þeirra.
     7.      Menntastofnanir landbúnaðarins skulu leggja áherslu á samstarf við aðra skóla og vísindastofnanir hér á landi og erlendis um menntun og rannsóknir og er heimilt að gera um það sérstaka samninga.
     8.      Við menntastofnanir landbúnaðarins verði stundaðar rannsóknir er skulu skipulagðar með öðrum rannsóknum á sviði landbúnaðar og landnýtingar í landinu.
     9.      Jarðirnar Hólar, Hvanneyri og Reykir eru með gögnum og gæðum lagðar undir tilheyrandi menntastofnanir til að þjóna þeim heildarmarkmiðum sem sett eru fyrir hverja stofnun fyrir sig.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Gert er ráð fyrir að starfræktir verði þrír skólar, þ.e. búnaðarskóli að Hólum í Hjaltadal, Garðyrkjuskóli ríkisins að Reykjum í Ölfusi og Landbúnaðarháskóli á Hvanneyri í Borgar­firði. Samheiti þeirra verður menntastofnanir landbúnaðarins. Ekki var farin sú leið að sam­eina skólana í eina stofnun vegna sérstöðu þeirra og tengsla við þau byggðarlög sem þeir eru hluti af og við hinar dreifðu byggðir landsins.

Um 2. gr.


    Miðað er við að landbúnaðarráðherra fari áfram með yfirstjórn búnaðarfræðslunnar og beri ábyrgð á gæðum menntunar sem menntastofnanir landbúnaðarins veita. Gildir það jafnt um búnaðarskólana og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Jafnframt er þar ákvæði sem á að tryggja að sömu gæðakröfur verði gerðar til menntunarinnar og gildir um aðrar sam­bærilegar menntastofnanir samkvæmt lögum nr. 80/1996 og 136/1997.

Um 3. gr.


    Hér er gerð grein fyrir mjög víðtækri skilgreiningu á því hvað telst til landbúnaðar í skiln­ingi laganna og spannar það svið nánast allar starfsgreinar sem byggjast á nýtingu auðlinda í dreifbýli eða með öðrum orðum allt frá mold til matar.

Um 4. gr.


    Gert er ráð fyrir að búfræðsluráð skipað átta fulltrúum marki heildarstefnu í búfræðslu­málum og sé samræmingaraðili fyrir menntastofnanir landbúnaðarins í heild, svo sem varð­andi atriði eins og skipulag náms og námsframboð.
    Búfræðsluráð er landbúnaðarráðherra til ráðuneytis um framkvæmd laga þessara og undir það heyra allar faglegar ákvarðanir sem varða búfræðslunámið í heild. Geta ákvarðanir þess einnig átt við um aðrar stofnanir en menntastofnanir landbúnaðarins verði búfræðslunám tek­ið upp við aðra skóla. Í búfræðsluráði eiga sæti fulltrúar stofnananna, landbúnaðarráðherra, menntamálaráðherra, búnaðarþings og búfræðikennara.
    Búfræðsluráð er samræmingaraðili um verkefni menntastofnana landbúnaðarins en hins vegar er hverri stofnun stjórnað af sérstakri stjórn sem er rektor og háskólaráð við Landbún­aðarháskólann og skólameistari og skólanefnd við búnaðarskólana. Gerður er greinarmunur á valdsviði innri stjórna hverrar stofnunar og búfræðsluráðs sem markar samræmda heildar­stefnu um málefni búnaðarfræðslunnar og verður hver stofnun að marka sér vettvang í sam­ræmi við það.
    Gert er ráð fyrir að landbúnaðarráðherra setji reglugerð um starfsemi búfræðsluráðs.

Um 5. gr.


    Grein þessi er hliðstæð 5. gr. laga nr. 136/1997, um háskóla, en þykir efni sínu samkvæmt einnig geta átt við um búnaðarskólana.
    Í 2. mgr. er að finna ákvæði sem er ætlað að tryggja hámarksnýtingu starfsfólks og þeirrar starfsaðstöðu sem fyrir hendi er í stofnununum þannig að þeir myndi sem samstæðasta og sterkasta heild. Gert er ráð fyrir að menntastofnanirnar starfi eftir verkaskiptingu sem ákveð­in verður af landbúnaðarráðherra að fenginni umsögn búfræðsluráðs til að tryggja samræm­ingu í störfum þeirra.

Um 6. gr.


    Grein þessi er hliðstæð ákvæðum í núgildandi lögum. Greinin kveður á um að mennta­stofnanir landbúnaðarins skuli hafa slíkar lausnir að leiðarljósi til eflingar eigin starfsemi.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa. Gert er ráð fyrir að við ákvarðanatöku verði heildarstefna í búfræðslumálum eins og hún er ákvörðuð af búfræðsluráði höfð til hliðsjónar.

Um 8. gr.


    Þessari grein er ætlað að tryggja að námsgráður sem menntastofnanir landbúnaðarins veita séu sambærilegar við námsgráður sem gilda annars staðar í almenna menntakerfinu og að námið verði samhæft eininga- og áfangakerfi framhalds- og háskóla.

Um 9. gr.


    Samkvæmt lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, eiga allir nemendur sem lokið hafa grunnskólaprófi rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Nauðsynlegt þykir hins vegar að setja viðbótarinntökuskilyrði til þess að hefja svo margbrotið starfsnám sem búnaðarnám er. Er því gert ráð fyrir að yfirstjórn hvers skóla setji reglur um þær viðbótarkröfur sem nauðsyn­legt þykir að gera. Gert er ráð fyrir að slíku aðfararnámi verði lokið í almennum framhalds­skólum en ekki í búnaðarskólunum.

Um 10. gr.


    Hér er um að ræða sambærileg inntökuskilyrði og fram koma í lögum nr. 136/1997, um háskóla.

Um 11. gr.


    Í dag er búnaðarnám einungis tveggja ára nám en með þessu ákvæði er svigrúm búnaðar­skólanna aukið frá því sem áður var til þess að bjóða upp á breytilegt námsframboð og þar með breytilegan námstíma.

Um 12. gr.


    Háskólanám í búvísindadeildinni á Hvanneyri er í dag miðað við þriggja ára nám en með þessu ákvæði skapast svigrúm til að bjóða upp á breytilegan námstíma.

Um 13. gr.


    Greinin felur í sér það nýmæli að landbúnaðarráðherra skuli staðfesta námskrár og gefa út viðurkenndar prófgráður í samræmi við lög nr. 80/1996, um framhaldsskóla, og 136/1997, um háskóla.

Um 14. gr.


    Í greininni er um að ræða sambærileg ákvæði og eru í núgildandi lögum en hér er það lagt í vald búfræðsluráðs að samþykkja búnaðarnám við aðra skóla en menntastofnanir landbún­aðarins.

Um 15. gr.


    Þessi grein er hliðstæð sambærilegum ákvæðum í lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, og lögum nr. 136/1997, um háskóla.

Um 16. gr.


    Til að styrkja kennslustarf menntastofnana landbúnaðarins er mikilvægt að þær geti stundað skipulegt rannsóknastarf. Rannsóknir eru því ekki aðeins mikilvægur hluti starfsemi þeirra heldur óhjákvæmilegur. Í greininni er gert ráð fyrir að stofnanirnar hafi til umráða nauðsynlegt landrými, búfé, tæki og húsnæði til þess að stunda rannsóknir.

Um 17. gr.


    Hér er um að ræða nýmæli sem er til þess fallið að efla rannsóknastarfsemi skólanna og skapa möguleika á að ráða sérfræðinga sem ekki hafa kennslu að aðalstarfi.

Um 18. gr.


    Greinin er nýmæli. Markmið með þessu ákvæði er að skapa möguleika á stofnun rann­sóknasjóða með skilgreindu markmiði til lengri tíma á sviði landbúnaðar.

Um 19. gr.


    Hér er um að ræða skýrari ákvæði en eru í núgildandi lögum um endurmenntun í landbún­aði sem hefur færst mjög í vöxt á síðari árum. Gert er ráð fyrir að námskeiðsgjöld verði inn­heimt af þeim sem sækja endurmenntunarnámskeið og mega þau ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur sannanlegum kostnaði við hvert námskeið, þ.e. fyrir vinnu, kennsluefni, tækja­búnað, pappírsvörur og annan útlagðan kostnað.

Um 20. gr.


    Greinin er nýmæli. Fyrirhuguð er veruleg endurskipulagning á leiðbeiningarþjónustu og ráðgjöf í landbúnaði. Þetta ákvæði opnar þá möguleika að þessi starfsemi fari fram við menntastofnanir landbúnaðarins ef henta þykir.

Um 21. gr.


    Greinin felur í sér stefnuyfirlýsingu sem er sambærileg við það sem er í núgildandi lögum.

Um 22. gr.


    Greinin er í samræmi við ákvæði laga nr. 136/1997, um háskóla.

Um 23. gr.


    Greinin er í samræmi við ákvæði laga nr. 136/1997, um háskóla. Gert er ráð fyrir að í há­skólaráði eigi sæti fulltrúar frá atvinnuvegunum og menntamálaráðuneytinu. Með því er stefnt að því að tryggja samþættingu og samvinnu námsins við atvinnuvegina og almenna menntakerfið.

Um 24.–27. gr.


    Greinarnar eru í samræmi við ákvæði laga nr. 136/1997, um háskóla.

Um 28. gr.


    Þetta ákvæði er sett til að gera Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri kleift að veita starfsmenntun á sviði landbúnaðar á sama hátt og verið hefur.

Um 29. gr.


    Greinin felur í sér stefnuyfirlýsingu en ekki er um að ræða breytingar á hlutverki stofnan­anna.

Um 30. gr.


    Stjórn búnaðarskólanna er samkvæmt þessu ákvæði falin skólameistara og skólanefnd á hliðstæðan hátt og gert er í lögum um framhaldsskóla, þó þannig að valdsvið skólanefndar er annað en þar er vegna þess hve starfssvið þessara stofnana er fjölbreytt og víðfeðmt. Fag­leg yfirstjórn er falin búfræðsluráði sem fer þannig með hluta af hefðbundnu hlutverki skóla­nefndar.

Um 31. gr.


    Skipan skólanefnda búnaðarskólanna er með öðrum hætti en almennt tíðkast um sambæri­lega skóla. Stafar það af sérstöðu búnaðarnámsins og þeirri stöðu sem menntastofnanir land­búnaðarins hafa innan atvinnuveganna og þeirra byggðarlaga sem þær starfa í.

Um 32. gr.


    Hvað varðar hæfisskilyrði skólameistara er hér tekið mið af starfsemi menntastofnana landbúnaðarins sem starfa á breiðara sviði en skólastofnanir almennt. Ákvæðið um fimm ára skipunartíma skólameistara er í samræmi við ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Um 33. gr.


    Ákvæði þetta um starfsgengisskilyrði kennara og annarra sérfræðinga við stofnanirnar hefur að geyma eðlilegar kröfur og undanþágur vegna sérstöðu námsins.

Um 34. gr.


    Þessi grein er nýmæli í löggjöf um búnaðarmenntun. Ákvæði hennar munu stuðla að efl­ingu háskólamenntunar um landbúnað og tryggja að unnt sé að nýta sérfræðiþekkingu og rannsóknaraðstöðu viðkomandi stofnana til að byggja enn frekar upp og starfrækja kennslu á háskólastigi og þar með auðga framboð háskólakennslu í landbúnaði. Í greininni er einnig tryggt að slík kennsla lúti sömu kröfum og gildir um aðra háskólakennslu í landbúnaði.

Um 35. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 36. gr.


    Greinin er í samræmi við ákvæði laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, og laga nr. 136/1997, um háskóla.

Um 37. og 38. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 39. gr.


    Þar sem um nafn- og skipulagsbreytingar er að ræða á stofnununum á Hólum og Hvann­eyri eru hér tekin af öll tvímæli um að öll réttindi og allar skyldur Bændaskólanna á Hólum og Hvanneyri flytjist til þessara stofnana.

Um 40. gr.


    Ákvæðið um að jarðirnar Hólar, Hvanneyri og Reykir séu með gögnum sínum og gæðum lagðar undir tilheyrandi menntastofnanir er nýmæli og er sett til að taka af allan vafa um að ábúendur þessara jarða séu stofnanirnar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðið er sett til að tryggja að allir sem starfa við menntastofnanir landbúnaðarins haldi réttindum sínum, þó þannig að lektors-, dósents- og prófessorsstöður verða eingöngu veittar þeim sem uppfylla skilyrði 7. gr. laga nr. 136/1997, um háskóla.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um búnaðarfræðslu.


    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði ein lög um búnaðarfræðslu í stað laga nr. 55/1978, um búnaðarfræðslu, með síðari breytingum, og laga nr. 91/1936, um Garðyrkjuskóla ríkis­ins. Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við þær miklu breytingar sem orðið hafa í land­búnaði á undanförnum árum bæði með tilliti til menntunarþarfa vegna framfara og tækninýj­unga og opnara viðskiptaumhverfis í landbúnaði. Jafnframt er tekið tillit til breyttrar löggjaf­ar um almenna menntakerfið í landinu. Þau nýmæli í frumvarpinu sem helst gætu haft áhrif á kostnað eru þessi:
    Í 1. gr. er lagt til að formlega verði stofnaður Landbúnaðarháskóli á Hvanneyri í Borgar­firði og í 34. gr. er heimild til að stofna til kennslu eða náms á háskólastigi við Hólaskóla og Garðyrkjuskóla ríkisins á afmörkuðum sviðum. Í 27. gr. er miðað við að kennarar við Landbúnaðarháskólann hafi lokið meistaraprófi hið minnsta og að dómnefndir dæmi um hæfni umsækjenda um fastar kennarastöður. Að því er séð verður hafa þessar breytingar lítil áhrif á starfsmannahald og launakostnað skólanna í upphafi, en gera má ráð fyrir að í fram­tíðinni fjölgi langskólagengnum starfsmönnum á kostnað þeirra sem hafa styttra nám að baki. Jafnframt er gert ráð fyrir í 27. gr. að við Landbúnaðarháskólann starfi prófessorar. Ætla má að þetta hækki kostnað eitthvað á næstu árum, en ekki eru forsendur til að meta fjárhæðir í því sambandi.
    Kostnaður á nemanda í búnaðarskólum hefur verið 2–3 sinnum meiri en kostnaður á nem­anda í raunvísindanámi í háskóla og iðnnámi í framhaldsskóla. Verður því að ætla að skól­arnir hafi töluvert svigrúm til hagræðingar á móti kostnaðarauka sem frumvarpið getur leitt af sér, verði það að lögum.
    Í 4. gr. er gert ráð fyrir stofnun búfræðsluráðs sem marki heildarstefnu í búfræðslumálum og samræmi störf þeirra er að þeim vinna. Búfræðsluráð tekur við þessum verkefnum af bú­fræðslunefnd og ætti breytingin því ekki að hafa áhrif á kostnað.
    Í 16. gr. er gert ráð fyrir að við skólana séu stundaðar rannsóknir á hliðstæðan hátt og stundaðar hafa verið við skólana samkvæmt gildandi lögum. Að mati stjórnenda skólanna munu auknar rannsóknir í framtíðinni kalla á bætta aðstöðu án þess að það tengist sérstak­lega breyttum lögum.
    Í 18. gr. er heimild til að stofna sérstaka rannsóknasjóði til eflingar rannsóknastarfi skól­anna og í 36. gr. er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra geti heimilað skólunum að koma fá fót og eiga aðild að sjálfstæðum rekstrareiningum til styrktar og eflingar meginviðfangs­efnum þeirra. Þessar heimildir hafa ekki áhrif á kostnað ríkissjóðs nema um það verði teknar sérstakar ákvarðanir í tengslum við fjárlagagerð. Í 29. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, er kveðið á um að aðilar í A-hluta fjárlaga þurfi hverju sinni að afla heimilda í lög­um til að kaupa eða selja eignarhluta í félögum. Samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Ís­lands, nr. 96/1969, er almenna reglan sú að fjármálaráðuneytið fer með eignir ríkisins, þar á meðal eignarhluta í félögum og fyrirsvar þeirra vegna.
    Í 19. gr. er gert ráð fyrir að við skólana skuli starfrækja endurmenntunardeildir og að yfir­stjórn hvers skóla setji reglur um námskeiðsgjöld sem þátttakendur greiða. Gera verður ráð fyrir að gjöldin standi undir kostnaðarauka vegna deildanna.
    Að öllu samanlögðu felur frumvarpið ekki í sér aukinn kostnað í upphafi en gefur tilefni til aukinnar starfsemi, m.a. á sviði rannsókna sem geta aukið kostnað síðar.