Ferill 282. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 900  —  282. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólöfu Nordal frá samgönguráðu­neyti. Nefndinni bárust umsagnir frá Félagi hópferðaleyfishafa, Félagi sérleyfishafa, Bif­reiðastjórafélaginu Frama, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Vegagerðinni.
    Frumvarpið felur í sér endurskoðun gildandi laga um skipulag fólksflutninga með lang­ferðabifreiðum, nr. 53/1987, með síðari breytingum. Meginbreytingin sem í frumvarpinu felst snýr að útgáfu leyfa en gert er ráð fyrir því að Vegagerðin annist útgáfu leyfa til fólks­flutninga með hópferðabifreiðum í stað samgönguráðuneytis. Á þann hátt er umsækjanda tryggður réttur til málskots til æðra stjórnvalds ef hann sættir sig ekki við afgreiðslu umsókn­ar. Þá er gert ráð fyrir að Vegagerðin annist eftirlit með fólksflutningum. Jafnframt er gert ráð fyrir að nú þurfi leyfi Vegagerðarinnar til allra fólksflutninga með hópferðabifreiðum ef gjald kemur fyrir aksturinn. Til viðbótar því leyfi þarf svo að sækja sérstaklega um önnur leyfi, t.d. sérleyfi, einkaleyfi eða leyfi til fólksflutninga með sérútbúnum bifreiðum.
    Vegna fram kominna athugasemda við 5. gr. frumvarpsins telur samgöngunefnd rétt að ítreka að gildissvið frumvarpsins tekur ekki til leigubifreiða í kaupstöðum og mun því ekki hafa áhrif á starfsemi þeirra. Jafnframt telur nefndin rétt að árétta að 9. gr. frumvarpsins, sem geymir ákvæði um sérstakt leyfi til aksturs sérútbúinna bifreiða, felur ekki í sér heimild til hefðbundins aksturs leigubifreiða. Það nýmæli felst í 9. gr. að eftir gildistöku laganna verður öllum sem flytja ferðamenn um óbyggðir landsins skylt að hafa almennt leyfi til fólks­flutninga skv. 3. gr. auk þess sérstaka leyfis sem mælt er fyrir um í 9. gr.
    Í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ekkert leyfi þurfi til flutnings í eigin þágu. Ákvæði þetta var sett inn í frumvarpið til áréttingar um að ekkert leyfi þurfi til slíks aksturs þótt hann falli að jafnaði utan við gildissvið laganna, sbr. 1. gr. Nefndin leggur til að ákvæði 2. mgr. 6. gr. verði flutt í 3. gr. sem fjallar um útgáfu leyfa.
    Eitt af skilyrðum fyrir útgáfu leyfis skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins er að um­sækjandi þarf að fullnægja skilyrðum um starfshæfni. Til skýringar vill nefndin taka fram að með því er m.a. átt við að umsækjendur geta þurft að sækja námskeið og uppfylla önnur skilyrði um kunnáttu áður en þeir fá leyfi úthlutað.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Breytingartillögur nefndarinnar fela ekki í sér verulegar efnisbreytingar heldur er orðalag víða fært til betri vegar, skipulag texta lagfært, kaflaheiti tekin út og fyrir­sagnir lagfærðar. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að hugtakið fólksflutningar verði notað eingöngu í stað þess að nota orðið flutningar eða fólksflutningar á víxl.
     2.      Við 1. gr. er lagt til að bætt verði tilvísun til 4. mgr. 4. gr. og 9. gr. sem geyma undanþágur frá notkun bifreiða fyrir níu farþega eða fleiri.
     3.      Lagt er til að 2. gr. verði umorðuð og skilgreining á hugtakinu sérleyfi bætt við 2. mgr. en hugtakið kemur fyrir í 1. mgr. 4. gr.
     4.      Þá er lagt til að orðalag 1. mgr. 6. gr. verði fært til betri vegar og að ákvæði 2. mgr. 6. gr. verði flutt í 3. gr. og verði 3. mgr. hennar.
     5.      Jafnframt er lagt til að orðið „(hópferðir)“ í 1. mgr. 8. gr. falli brott enda er það hugtak ekki notað í frumvarpinu.
     6.      Við 10. gr. eru lagðar til breytingar á fyrri málslið 3. tölul. Í stað orðanna „starfsskilyrði greinarinnar“ er lagt til að komi: lögum og reglugerðum sem um starfsgreinina gilda.
     7.      Lagt er til að í 1. og 2. mgr. 11. gr. verði tilvísun til 10. gr. gerð nákvæmari.
     8.      Lagt er til að 1. mgr. 13. gr. verði flutt til og gerð að 3. mgr. hennar vegna rökræns samhengis textans.
     9.      Lagt er til að orðalag 2. mgr. 16. gr. um reglugerðarheimild ráðherra verði þrengt og að það takmarkist við skipulag fólksflutninga með hópferðabifreiðum. Orðalag frumvarps­ins er of rúmt að þessu leyti.
     10.      Lagt er til að gildistökudagur verði færður til 1. júní 1999.
     11.      Loks er lagt til að kaflaheiti verði felld brott en í stað þess komi fyrirsögn við hverja grein.
    Guðmundur Árni Stefánsson og Árni Johnsen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 23. febr. 1999.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Stefán Guðmundsson.


Egill Jónsson.



Ragnar Arnalds.


Magnús Stefánsson.


Ásta R. Jóhannesdóttir.



Kristján Pálsson.