Ferill 414. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 918  —  414. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um alþjóðleg viðskiptafélög.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



         Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason og Birgi Má Ragnarsson frá viðskiptaráðuneyti, Áslaugu Guðjónsdóttur og Eggert J. Hilmarsson frá fjár­málaráðuneyti, Baldur Guðlaugsson hæstaréttarlögmann, Indriða H. Þorláksson ríkisskatt­stjóra og Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóra. Umsagnir um málið bárust frá Eimskipafélagi Íslands hf., Einkaleyfastofu, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Íslenskum sjávarafurðum hf., Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verðbréfafyrir­tækja, Samtökum verslunarinnar, Seðlabanka Íslands, Útflutningsráði Íslands, Verslunarráði Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að stofna alþjóðleg viðskiptafélög á sviði sjávarútvegs, með viðskipti á milli þriðju landa með sjávarafurðir. Auk þess verði heimilt að stofna eignarhaldsfélög sem eingöngu eigi, fjárfesti og njóti arðs af eignarhlutum í at­vinnufyrirtækjum erlendis eða í eignar- eða notkunarréttindum á óefnislegum (óhlutlægum) réttindum sem skráð eru opinberri skráningu erlendis og í útgáfuréttindum erlendis eða eigi eða hafi umráð yfir og skrái hér á landi flugvélar og skip, önnur en fiskiskip, enda séu slíkar flugvélar og skip einungis nýtt í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Samhliða þessu frum­varpi er flutt frumvarp til laga um breytingu á ýmsum skattalögum sem skapa lagalegan rekstrargrundvöll fyrir alþjóðleg viðskiptafélög, sbr. 359. mál.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til orðalagsbreyting á 2. mgr. 1. gr. þar sem um tvítekningu er að ræða, sbr. 3. mgr.
     2.      Lagt er til að starfsleyfisnefnd verði afmarkaður þriggja mánaða frestur til að taka afstöðu til fullbúinna umsókna, sbr. 4. mgr. 5. gr. Telja verður slíkt í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.
     3.      Lagt er til að lokamálsliður 2. mgr. 11. gr. falli brott enda verður að telja að efni hans felist í því ákvæði greinarinnar að alþjóðlegu viðskiptafélagi sé heimilt að öðlast eign­arrétt og afnotarétt hér á landi yfir fasteign eða öðrum rekstrarfjármunum til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni. Ekki er um efnisbreytingu að ræða.
     4.      Lagt er til að lögin taki þegar gildi.
     5.      Þá er lagt til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um að viðskiptaráðherra skuli leggja fram skýrslu á Alþingi fyrir árslok 2001 um áhrif laganna á íslenskt efnahagslíf.
    Svavar Gestsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 23. febr. 1999.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Ágúst Einarsson,


með fyrirvara.


Einar Oddur Kristjánsson.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.


Valgerður Sverrisdóttir.


Pétur H. Blöndal.




Árni R. Árnason.