Ferill 224. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 931  —  224. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 1. mars.)

1. gr.

    1. tölul. 1. gr. laganna hljóðar svo: að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum og öðrum eignum skv. 27. gr. á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu og.

2. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Í starfsleyfi skal koma fram hvort verðbréfasjóður hafi heimild til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu eða markaðssetningar hér á landi skv. 27. gr. Verðbréfasjóðir, sem eingöngu er heimilt að markaðssetja hér á landi skv. 27. gr., skulu sækja um nýtt starfs­leyfi breyti þeir samþykktum og hyggist markaðssetja sig innan Evrópska efnahagssvæðisins. Sama gildir um sjóði sem heimild hafa til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu en breyta samþykktum sínum til að nýta sér heimildir 27. gr.

3. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna hljóðar svo: Jafnframt skulu koma fram helstu upplýsingar um rekstrarfélag og vörslufyrirtæki verðbréfasjóðsins og hvort sjóðurinn hafi heimild til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu eða markaðssetningar hér á landi skv. 27. gr.

4. gr.

    Á eftir 26. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist röð annarra greina sam­kvæmt því:
    Heimilt er að stofna verðbréfasjóð sem eingöngu verði markaðssettur hér á landi.
    Verðbréfasjóði skv. 1. mgr., eða einstökum deildum hans, er heimilt að fjárfesta allt að 35% af eignum sínum í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda, enda kveði fjárfestingar­stefna sjóðsins eða viðkomandi deildar hans á um að eignasamsetning hans skuli endurspegla ákveðna verðbréfavísitölu samkvæmt nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.
    Verðbréfasjóði skv. 1. mgr., eða einstökum deildum hans, er heimilt að ávaxta allar eignir sínar í verðbréfasjóðum sem uppfylla skilyrði laga þessara, þó ekki nema 35% í einstökum verðbréfasjóðum. Sé þessi heimild nýtt skulu a.m.k. 90% af eignum sjóðsins ávöxtuð í verð­bréfasjóðum og dreifast á a.m.k. fimm verðbréfasjóði. Verðbréfasjóður getur þó ekki fjárfest í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða sem fjárfesta meira en 10% af eignum sínum í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða.
    Verðbréfasjóði skv. 1. mgr., eða einstökum deildum hans, er heimilt að ávaxta allar eignir sínar í innlánum innlánsstofnana, þó ekki nema 35% í innlánum einstakra innlánsstofnana. Sé þessi heimild nýtt skulu a.m.k. 90% af eignum sjóðsins ávöxtuð í innlánum og dreifast á a.m.k. fimm innlánsstofnanir. Innlánsstofnanir innan sömu samstæðu teljast ein innláns­stofnun í þessu tilliti. Óheimilt er verðbréfasjóði að fjárfesta í innlánum innlánsstofnunar sem er vörslufyrirtæki sjóðsins, sbr. 2. mgr. 14. gr.
    Verðbréfasjóði skv. 1. mgr., eða einstökum deildum hans, er heimilt að eiga viðskipti með staðlaða fjármálalega framvirka samninga og valréttarsamninga sem skráðir eru á skipu­legum verðbréfamarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Sé markaðurinn staðsettur utan Evrópska efnahagssvæðisins skal hann vera viðurkenndur með þeim hætti sem Fjármála­eftirlitið metur gildan. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja reglur þar sem kveðið er á um heimild verðbréfasjóðs skv. 1. mgr., eða einstakra deilda hans, til að gera eða eiga viðskipti með fjármálalega framvirka samninga og valréttarsamninga sem ekki eru skráðir á skipu­legum verðbréfamarkaði. Í þeim skal m.a. kveðið nánar á um hvers konar samninga um getur verið að ræða og hvaða skilyrði samningsaðilar þurfa að uppfylla. Verðbréfasjóði er ávallt skylt að eiga hæfilegar og nægjanlega verðmætar eignir á móti hugsanlegu hámarkstapi af samningi sem gerður er samkvæmt þessari málsgrein allan þann tíma sem hann er í gildi.
    Ákvæði laga þessara eiga að öðru leyti við um verðbréfasjóði samkvæmt þessari grein.

5. gr.

    Á eftir 38. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist röð annarra greina sam­kvæmt því:
    Í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi verðbréfasjóða skal þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi verðbréfasjóðsins. Þess skal gætt að skýrt komi fram hvort sjóðurinn hafi heimild til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu eða markaðssetningar skv. 27. gr.
    Fjárfesti verðbréfasjóður í framvirkum samningum og valréttarsamningum skv. 27. gr. skal getið um það sérstaklega í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi. Jafnframt skal koma fram viðvörun til fjárfesta um að fjárfesting í slíkum sjóði sé áhættusöm.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.