Ferill 577. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 950  —  577. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Lánasjóð landbúnaðarins, nr. 68/1997.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.

    2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Upphæð lána má vera allt að 65% kostnaðarverðs eins og meðalkostnaður sambærilegra framkvæmda er talinn ár hvert. Upphæð lána til kaupa á jörðum má vera allt að 70% af mats­verði eignar. Lán er heimilt að veita í áföngum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 2. mgr. 8. gr. nr. 68/1997 er gert ráð fyrir upphæð lána megi vera allt að 60% kostnaðar­verðs eins og meðalkostnaður sambærilegra framkvæmda er talinn ár hvert.
    Með bréfi dagsettu 29. janúar 1999 óskaði stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins eftir að land­búnaðarráðherra beitti sér fyrir því að lögum nr. 68/1997, sem sjóðurinn starfar eftir, yrði breytt í þá veru sem hér er lagt til. Rök stjórnarinnar voru þau að hækkun á almennu láns­hlutfalli í 65% yrði til þess að sjóðurinn gæti veitt viðskiptamönnum sínum sambærilega þjónustu og aðrar fjármálastofnanir, sbr. Íbúðalánasjóð sem starfar eftir lögum um hús­næðismál, nr. 44/1998. Þá telur stjórn sjóðsins mikilvægt til þess að greiða fyrir nauðsynlega nýliðun í landbúnaði að hafa mögulegt lánshlutfall til kaupa á jörðum 70% matsverði eignar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um Lánasjóð landbúnaðarins, nr. 68/1997.

    Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að hækka lán úr allt að 60% af kostnaðarverði framkvæmda í allt að 65% en í allt að 70% af virðingarverði eignar þegar um er að ræða lán til kaupa á jörðum.
    Lánasjóðurinn telur að útlán hefðu orðið 25–30 m.kr. á árinu 1998 ef lánshlutföll hefðu verið samkvæmt frumvarpinu á því ári. Gert er ráð fyrir að hækkun lánshlutfalls létti greiðslubyrði lántakenda miðað við núverandi útlánsvexti og lánstíma. Ástæðan er sú að sjóðurinn býður hagkvæmari kjör en aðrir fjárfestingalánasjóðir hér á landi enda fær hann tekjur af búnaðargjaldi sem lagt er á búvöruframleiðslu. Hækki lánshlutfallið þarf lántaki ekki að leita eftir dýrara fjármagni hjá öðrum lánastofnunum til að fjármagna þann hluta heildarkostnaðar sem ekki greiðist af eigin fé og láni frá Lánasjóðnum. Hagkvæmari lánakjör ættu að stuðla að betri skilum og draga úr hættu á útlánatapi. Ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar sjóðsins og greiðir þær ef eignir og tekjur hans hrökkva ekki til.
    Fjármálaráðuneytið telur að samþykkt frumvarpsins hafi ekki í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, enda verði þess gætt að taka ekki meiri áhættu við ákvörðun um útlán en hefur verið.