Ferill 439. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 984  —  439. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur um framkvæmdaáætlun ríkis­stjórnarinnar í jafnréttismálum.

     1.      Hversu mörg námskeið hafa verið haldin um jafnréttismál fyrir yfirmenn ríkisstofnana og aðra stjórnendur frá því að áætlunin var samþykkt, sbr. lið 3.2 í framkvæmdaáætl­un ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna? Hversu margir hafa sótt þau námskeið, hvaða stofnanir hafa notið þeirra og hver er reynslan af þeim?
     Skrifstofa jafnréttismála hélt í samvinnu við jafnréttisnefnd Háskóla Íslands í október sl. námskeið um jafnréttismál fyrir rektor skólans, deildarforseta og aðra yfirmenn á kennslu- og stjórnsýslusviði skólans. Námskeiðið var hið fyrsta sinnar tegundar hérlendis og mun fé­lagsmálaráðuneytið og Skrifstofa jafnréttismála nýta sér reynsluna af því við skipulag frek­ara námskeiðahalds. Á næstunni mun verða staðið fyrir námskeiði um jafnréttismál fyrir ráðuneytisstjóra allra ráðuneyta. Að því loknu verða haldin námskeið fyrir yfirmenn stofn­ana. Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafn­rétti kynjanna var ráðgert að halda námskeiðin á vormissiri 1998. Áætlunin var ekki sam­þykkt fyrr en á síðustu dögum þingsins og þegar farið var að vinna að undirbúningi nám­skeiðanna síðasta sumar þótti betra að halda fyrst námskeið við Háskóla Íslands svo að læra mætti af því áður en farið væri af stað með námskeiðahald samkvæmt lið 3.2. í framkvæmda­áætlun ríkisstjórnarinnar.

     2.      Hvað líður könnun á vægi hlutastarfa, sbr. lið 3.6 í framkvæmdaáætluninni, og hvenær má vænta niðurstöðu úr henni?
    Ráðgert er að könnun á vægi hlutastarfa og starfa sem unnin eru án fastráðningar eða utan hefðbundinna vinnustaða verði gerð á síðari hluta gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar.

     3.      Hefur farið fram úttekt á lánatryggingasjóði kvenna, markmiðum hans og reynslunni af starfseminni, sbr. lið 3.8 í framkvæmdaáætluninni? Ef svo er, hvað hefur sú úttekt leitt í ljós?
    Lánatryggingasjóður kvenna er tilraunaverkefni til þriggja ára. Verkefnið hefur staðið í tvö ár. Að ári liðnu þegar tilraunatímabilinu verður lokið mun verða gerð úttekt á störfum og gagnsemi sjóðsins og hvernig hann hefur reynst konum í atvinnurekstri.
    Lánatryggingsjóður er samstarfsverkefni félagsmálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskipta­ráðuneytis og Reykjavíkurborgar og skipa fulltúar þessara aðila stjórn sjóðsins. Lán sjóðsins voru boðin út og að útboði loknu tekið upp samstarf við Landsbanka Íslands.
    Samhliða tilraunaverkefninu er unnið að skýrslu á vegum vinnuhóps sem félagsmálaráð­herra skipaði til þess að skoða styrki til atvinnuverkefna kvenna. Í skýrslunni munu m.a. verða gerðar tillögur um hvernig styrkjum til atvinnurekstrar hjá konum verði best háttað.

          4.      Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar til að draga úr atvinnuleysi kvenna, sbr. lið 3.9 í framkvæmdaáætluninni, og hvað líður gerð skýrslu um atvinnuleysi kvenna, sbr. sama lið?
    
Að undanförnu hefur sífellt komið betur í ljós að eðli og umfang atvinnuleysis er annað hjá konum en körlum og að beita þarf öðrum úrræðum við að aðstoða konur við að komast aftur út í atvinnulífið. Verkefnið er í höfuðatriðum tvíþætt, annars vegar þarf að kanna sér­stöðu atvinnulausra kvenna samanborið við karla og hins vegar þarf að útfæra aðferðir sem henta konunum betur við leit að atvinnu og stuðning þegar út í atvinnulífið er komið. Félags­málaráðuneytið hefur falið Vinnumálastofnun að huga sérstaklega að þessu og mun m.a. verða haldin fjölmenn norræn ráðstefna hér á landi 10.–12. mars nk. þar sem fjallað verður einvörðungu um atvinnuleysi kvenna og úrræði til að uppræta það. Félagsmálaráðuneytið styrkir ráðstefnuna. Þá hefur félagsmálaráðherra falið Vinnumálastofnun að vinna tiltekin verkefni á þessu sviði.
    Á árinu 1998 ritaði félagsmálaráðherra forsvarsmönnum Verslunarmannafélags Reykja­víkur og Starfsmannafélagsins Sóknar bréf þar sem farið var fram á að þau ynnu að úttekt á orsökum og gerðu tillögur um úrræði vegna atvinnuleysis meðal kvenna í félögunum. Vinnumálastofnun var af ráðherra falið að halda utan um verkefnið og leiða hópinn. Vinnu­hópur frá þessum aðilum auk fulltrúa svæðisráðs Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins hefur verið að störfum frá síðari hluta ársins 1998 og hefur samið drög að skýrslu. Þó á eftir að leggja lokahönd á verkið. Meginniðurstöður hópsins eru eftirfarandi:
    Atvinnulausum konum í félögunum má í höfuðdráttum skipta í tvo hópa:
     a.      konur á barneignaaldri sem hafa fleiri en tvö börn á framfæri, eru menntunarlitlar og hafa verið frá vinnumarkaði lengur en í sex mánuði. Vandamál þeirra eru efnahagsleg eða félagssálfræðileg,
     b.      konur komnar yfir miðjan aldur sem hafa verið frá vinnumarkaði lengur en í sex mánuði. Vandamál þeirra eru aðallega af félagssálfræðilegum toga og geta einnig verið efna­hagsleg.
    Á vinnumarkaði er eftirspurn eftir fólki með iðnmenntun, háskólamenntun og kennara- eða leikskólakennaramenntun. Lítil eftirspurn er eftir ófaglærðu fólki. Vinnumarkaðurinn gerir einnig aðrar kröfur til menntunar en áður. Verkefnabundin vinna í stuttan tíma og ýmis verktakavinna hefur tekið við af því fyrirkomulagi sem lengi var við lýði, þegar einstaklingur menntaði sig og vann síðan allan sinn starfsaldur hjá sama fyrirtæki. Hreyfanleikinn er mikill og þörfin fyrir símenntun eykst. Símenntun og endurmenntun eru orðnir nauðsynlegir þættir í þjálfun og viðhaldi vinnuafls. Þá eru tæknibreytingar svo örar að nánast hvert starf krefst sérþekkingar. Fyrir þá hópa sem hverfa af vinnumarkaði tímabundið, t.d. konur sem hverfa til barneigna, getur þessi aukna áhersla á viðhaldsmenntun orðið vandamál, félagslegt, sál­fræðilegt eða efnahagslegt. Erfitt getur verið að koma til starfa aftur þar sem miklar breyt­ingar geta hafa átt sér stað á vinnustað eða í starfsgrein. Konur í þessari stöðu standa þá stundum andspænis því að þurfa að leggja í kostnað til að mennta sig aftur. Efnahagslegar forsendur eru jafnan ekki fyrir hendi, auk þess sem þær komast ekki frá börnum sínum til slíkra verkefna eða þurfa jafnvel enn að auka útgjöldin með greiðslu fyrir barnagæslu. Á Ís­landi er algengt að konur eignist börn mjög ungar og getur það oft komið í veg fyrir menntun eða gert menntunina erfiðari og kostnaðarsamari.
    Miðaldra konur sem lengi hafa unnið á sama vinnustað og í sama starfi eru í erfiðri stöðu ef þær hverfa frá vinnu, t.d. sökum veikinda eða uppsagna, og er mjög erfitt fyrir þær að finna sér starf í nýju starfsumhverfi. Þær þurfa endurmenntun og ekki síður aðstoð við að byggja upp sjálfstraust og þor. Það þarf ekki að vera hafnað oft í atvinnuviðtölum svo að sjálfstraustið þverri.
    Í tölulegum upplýsingum frá VR og Sókn kom í ljós að atvinnuleysi var algengast hjá kon­um sem hafa einna flest börn á framfæri sínu og eru á aldrinum 25–35 ára. Aðrar kannanir á atvinnuleysi kvenna á Íslandi benda einnig til fylgni milli barnafjölda og atvinnuleysis meðal kvenna. Einnig kom fram í tölulegum upplýsingum um menntun hópanna í VR og Sókn að langflestar atvinnulausra kvenna í þessum félögum hefur einungis grunnskólamenntun.
    Launakerfið í landinu veldur því að sumir hópar sjá sér ekki alltaf hag af því að fara út á vinnumarkaðinn. Ófaglærð afgreiðslustúlka í verslun þarf væntanlega að borga með sér ef hún er með þrjú börn í gæslu.
    Dagvistunarmál eru einnig víðast með þeim hætti að nokkur aðdragandi er að því að barn fær vistun.
    Hópurinn sem unnið hefur að framangreindu verkefni, undir umsjón Vinnumálastofnunar, telur m.a. mikilvægt að taka upp samstarf við sveitarstjórnir varðandi dagvistun barna ef árangur á að nást við að fá atvinnulausar barnmargar konur út á vinnumarkaðinn.
    Hópurinn leggur m.a. til eftirtalin úrræði fyrir atvinnulausar konur:
    —    starfstengt nám eða námskeið,
    —    símenntun eða endurmenntun,
    —    styttra nám sem veitir aðgang að vinnumarkaði.
    Þessar tillögur vinnuhópsins, sem þó eru ekki fullmótaðar, í verða síðan lagðar fyrir stjórn Vinnumálastofnunar og svæðisráð vinnumiðlana til úrlausnar.
    Þá hefur félagsmálaráðherra skipað vinnuhóp til þess að gera úttekt á styrkjum til at­vinnuverkefna kvenna. Hópurinn mun innan tíðar skila tillögum um hvernig styrkjum til at­vinnurekstrar kvenna verði best varið, m.a. til að auka atvinnumöguleika kvenna. Í skýrsl­unni má vænta frekari upplýsinga um aðstæður atvinnulausra kvenna og úrræði þeim til handa.
    Atvinnuleysi kvenna er og hefur verið meira en atvinnuleysi karla og það hefur einnig ver­ið mismunandi eftir landshlutum. Atvinnuleysi kvenna hefur um langt skeið verið einna mest á Norðurlandi vestra og var því gripið til þess ráðs að koma á laggirnar þriggja ára tilrauna­verkefni til að vinna gegn atvinnuleysi á þessu landsvæði. Félagsmálaráðuneytið gerði á síð­asta ári samning við Iðnþróunarfélag Norðurlands um ráðningu jafnréttisráðgjafa á Blöndu­ósi sem m.a. væri falið að vinna með atvinnuráðgjafa að átaki í fjölgun atvinnutækifæra fyrir konur.
    Sérstök áhersla er lögð á það í störfum jafnréttisráðgjafans að auka fjölbreytni í störfum kvenna og auka sjálfstæði þeirra. Einnig er jafnréttisráðgjafa falið að vinna að sérstöku átaki til að bæta stöðu kvenna í dreifbýli til eigin atvinnureksturs eða samreksturs smárra eininga.
    Hvað fyrra atriðið varðar er nú að ljúka verkefninu „Á traustum grunni“ en að því standa jafnréttisráðgjafi, Iðnþróunarfélag Norðurlands vestra og Iðntæknistofnun. Um er að ræða fjögurra mánaða ferli þar sem farið var yfir undirstöðuatriði í fyrirtækjarekstri, en konurnar fengu jafnframt stuðning af sjálfsstyrkingu og hópstarfi. Þær vinna hver að sinni viðskipta­hugmynd, frá hugmyndastigi að framkvæmd, með stuðningi leiðbeinendanna. Frumkvæði kvenna er þarna virkjað til að auka breidd í atvinnutækifærum á svæðinu. Atvinnulausar kon­ur höfðu forgang umfram aðra umsækendur og var verkefnið kynnt hjá svæðisvinnumiðlun í starfsleit. Verkefninu lýkur formlega um miðjan mars, en konurnar eiga þess kost að leita áfram til leiðbeinendanna.
    Hvað seinna atriðið varðar vantaði frumgögn, þ.e. upplýsingar um stöðu og viðhorf kvenna til sveita, en þetta er ekki hávær þjóðfélagshópur eða áberandi í opinberum hagtölum. Rannsókn á stöðu kvenna í dreifbýli á Norðurlandi vestra var þess vegna eðlilegt upphaf þeirrar vinnu og var Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri falið að gera hana. Um var að ræða nokkuð viðamikla rannsókn sem var styrkt af félagsmálaráðuneyti, Vinnumálastofn­un, landbúnaðarráðuneyti og Bændasamtökum Íslands. Rannsóknin veitti dýrmætar upplýs­ingar um þennan þjóðfélagshóp, sem koma til með að nýtast við frekari aðgerðir í atvinnu­málum hans. Í kjölfar rannsóknarinnar hefur jafréttisráðgjafi skipulagt ráðstefnu þar sem fjallað verður um niðurstöðurnar og aðgerðir til úrbóta í atvinnumálum hópsins. Ráðstefnan verður haldin 26. mars að Varmahlíð í Skagafirði. Þangað hafa verið boðaðir fulltrúar fé­lagsmála-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytis og stofnana sem málið varða, auk fulltrúa Bændasamtakanna.
    Samstarf jafnréttisráðgjafa við Svæðisvinnumiðlun Norðurlands vestra hefur leitt af sér tilraunaverkefni um menntasmiðju. Hún er kostuð af Atvinnuleysistryggingasjóði og staðsett að Löngumýri í Skagafirði. Staðurinn var valinn með það í huga að vera miðsvæðis í Skaga­firði miðað við helstu atvinnuleysissvæði. Þar stundar nú nám hópur kvenna sem farið hefur í gegnum starfsleitarferli hjá svæðisvinnumiðlun. Þar er mikil áhersla lögð á að byggja upp sjálfstraust og frumkvæði, en auk þess er m.a. boðið upp á tungumálanám, listsköpun og tölvunám.
    Auk þess sem að framan greinir eru eftirfarandi úrræði sem einungis eru ætluð atvinnu­lausum konum þegar styrkt af Vinnumálastofnun í umboði Atvinnuleysistryggingasjóðs: Menntasmiðjur kvenna á Akureyri, Norðurlandi vestra og í undirbúningi á Vesturlandi. Til­gangurinn með úrræðinu er að gera konur hæfari og virkari í atvinnuleit og á vinnumarkaði með það að markmiði að þær fái fasta vinnu á almennum vinnumarkaði eða fari í frekara nám.
     Eins og sjá má hefur þegar verið ráðist í mörg verkefni til að vinna gegn atvinnuleysi kvenna. Atvinnuleysi kvenna, eðli þess og umfang, er einnig til skoðunar hjá afmörkuðum hópum. Talið var að betri raun gæfi að hefja úttektina þannig og útvíkka verkefnið að því loknu.

     5.      Hvaða reynsla er komin af gerð sérstakra vinnuleitaráætlana fyrir konur, sbr. lið 3.10 í framkvæmdaáætluninni?

    Í fyrstu er rétt að benda á að ekki er um að ræða alveg sams konar fyrirkomulag starfsleit­ar á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni en í stórum dráttum má segja að starfsleit hjá atvinnuleitanda skiptist í þrjú stig. Í upphafi gerir hann starfsleitaráætlun í starfsleit 1, síðan í starfsleit 2 og að lokum í starfsleit 3. Í tengslum við starfsleit eru ákveðin úrræði í boði fyrir atvinnuleitendur. Í starfsleit 1 eru í boði grunnnámskeið eins og sjálfsstyrking og starfsleit, í starfsleit 2 eru námskeiðin einstaklingsbundnari eins og tölvunám og í starfsleit 3 enn ítarlegri eins og starfsþjálfun hjá vinnuveitanda eða reynsluráðning.
    Á höfuðborgarsvæðinu eru öll form starfsleitar komin í gagnið en víðast annars staðar er enn einungis boðið upp á starfsleit 1, þ.e. þar sem menntasmiðjurnar sem getið er í svari við 4. lið eru ekki starfræktar. Þetta skýrir að stórum hluta takmarkaða fjölbreytni úrræða fyrir atvinnuleitendur enn sem komið er.
    Ekki hafa enn verið þróaðar sérstakar vinnuleitaráætlanir/starfsleitaráætlanir fyrir konur að öðru leyti en því að þátttaka í úrræðum, þar á meðal úrræðum einungis ætluðum konum, er ávallt hluti af starfsleitaráætlun, enda er vinna við slíkt á byrjunarstigi.
    Vegna fyrirspurnar þessarar var leitað eftir viðbrögðum frá vinnumiðlununum og til upp­lýsingar er hér birtur kafli úr bréfi Oddrúnar Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra Vinnumiðl­unar höfuðborgarsvæðisins.
    „Gerð starfsleitaráætlana hófst hjá Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins haustið 1997 í kjölfar ákvæða í lögum nr. 13/1997. Árið 1997 voru samtals gerðar 225 áætlanir, sl. ár (1998) rúmlega 1.700 og áætlað er að á þessu ári verði gerðar um 3.150 starfsleitaráætlanir. Marktækasta reynslan af gerð starfsleitaráætlana er af svokallaðri „Starfsleit 1“, sem hefur nú verið notuð í um 16 mánuði. Viðtalskönnun sem gerð var á fyrri hluta síðasta árs sýndi að atvinnuleitendur töldu áætlanagerðina (SL1) hafa hjálpað sér í atvinnuleitinni. Fyrirhugað er að gera kannanir á árangri „Starfsleitar 2“ í marsmánuði nk., þegar sjö mánuðir eru liðnir frá því að byrjað var á því verkefni. Mánuði seinna verður væntanlega gerð könnun vegna „Starfsleitar 3“.“
    Enn hefur ekki verið gerð athugun á árangri starfsleitaráætlana utan höfuðborgarsvæðis­ins enda lítil reynsla komin af gerð þeirra enn sem komið er. Því hefur verið fátt um gögn til að byggja á þróun atvinnuleitar fyrir konur. Verkefnin sem lýst er í svari við 4. lið og ráð­stefnan sem þar er nefnd eru í raun fyrstu skref ráðuneytisins og Vinnumálastofnunar til að leggja nauðsynlegan grunn að verkefninu.
     Á árinu 1998 voru samkvæmt upplýsingum frá svæðisvinnumiðlunum gerðar samtals 1.930 starfsleitaráætlanir af atvinnuleitendum á landinu öllu, þar af 1.142 áætlanir (59%) af konum og 788 (41%) af körlum.
    Af þessu voru á höfuðborgarsvæðinu einu gerðar 1.513 starfsleitaráætlanir (78% af heild­arfjölda), þar af 905 af konum (60%). Af þeim 905 konum sem gerðu starfsleitaráætlun eru 547 afskráðar (60%), þ.e. ekki lengur á skrá.
    Að lokum má ítreka að á vegum Vinnumálastofnunar er nú unnið að undibúningi norrænn­ar ráðstefnu um jafnréttisáherslur í vinnubrögðum vinnumiðlana. Ráðstefnan verður haldin 10.–12. mars nk. með um 70–80 þátttakendum frá öllum Norðurlöndunum. Markmið ráð­stefnunnar er að ræða hvernig tryggja megi jafna stöðu kvenna og karla varðandi vinnuleit og hvaða aðferðum skuli beitt til að jafnrétti karla og kvenna sé samtvinnað í verklagsreglur og vinnubrögð í vinnumiðlun, starfsleitaráætlunum, menntunartilboðum og allri viðleitni sem lýtur að því að virkja hinn atvinnulausa.
    Í kjölfar ráðstefnunnar er fyrirhugað að útbúa handbók með niðurstöðum hennar, sem geti verið starfsfólki vinnumiðlana gagnlegt verkfæri í störfum sínum.

     6.      Er könnun hafin á aðstæðum erlendra kvenna sem vinna á heimilum landsmanna, sbr. lið 3.11 í framkvæmdaáætluninni? Ef svo er, hvað hefur sú könnun leitt í ljós?
    
Félagsmálaráðuneytið hyggst fela Vinnumálastofnun í samstarfi við Eflingu – stéttarfélag að skilgreina verkefnið nánar og gera tillögu að því hvernig best væri staðið að könnuninni. Ráðgert er að hefjast handa við verkefnið síðar á þessu ári.

     7.      Er könnun hafin á tengslum atvinnulífs og fjölskyldulífs, sbr. lið 3.12 í framkvæmdaáætluninni? Ef svo er, hvenær er niðurstaðna að vænta?
    Félagsmálaráðuneytið hefur falið fjölskylduráði og karlanefnd að afmarka verkefnið og leggja til hvernig megi standa að könnuninni. Tillagna er að vænta innan skamms. Búast má við að verkefnið verði viðamikið og skipt upp í verkþætti sem unnið verði að allt gildistíma­bil framkvæmdaáætlunarinnar.

     8.      Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar til að draga úr kynferðislegri áreitni í framhaldi af könnun Vinnueftirlits ríkisins og sbr. lið 3.15 í framkvæmdaáætluninni?
    Vinnueftirliti ríkisins og Skrifstofu jafnréttismála var falið að gera úttekt á kynferðislegri áreitni í samfélaginu, eðli hennar og umfangi. Skýrslan var unnin af dr. Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, félagsfræðingi hjá Vinnueftirliti ríkissins og cand. polit. Stefaníu Traustadóttur, félagsfræðingi á Skrifstofu jafnréttismála. Félagsmálaráðherra stóð ásamt stofnununum fyrir kynningu á skýrslunni, sem gefin var út í bók í nóvember sl. Meginuppistaða bókarinnar er könnun á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum sem framkvæmd var árið 1996. Þá er einnig gerð grein fyrir lagalegri stöðu og meðferð þessara mála hér á landi, í nágrannalöndunum, Evrópusambandinu og hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni. Þá er í bókinni að finna hagnýt ráð handa atvinnurekendum, starfsmönnum og þolendum kynferðislegrar áreitni.
    Félagsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til jafnréttislaga þar sem kyn­ferðisleg áreitni er skilgreind, bann lagt við henni og ákveðnar skyldur lagðar á herðar vinnuveitenda og skólastjórnenda til að fyrirbyggja kynferðislega áreitni og standa að rann­sókn og úrlausn ef fram kemur kæra um slíka háttsemi á vinnustað eða skólastofnun.
    Vinnueftirlitið og Skrifstofa jafnréttismála undirbúa nú ráðstefnu þar sem fjallað verður um aðgerðir og áætlanir til að vinna gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum. Til ráðstefn­unnar verður boðið erlendum sérfræðingi á þessu sviði. Ráðstefnan verður væntanlega haldin í apríl á þessu ári.

     9.      Er könnun hafin á því hvort meðferðarúrræði fyrir fíkniefnaneytendur henta jafnt konum og körlum, sbr. lið 3.17 í framkvæmdaáætluninni? Ef svo er, hvenær er niðurstöðu að vænta?
    
Skrifstofu jafnréttismála var á síðasta ári falið að kanna hvort meðferðarúrræði fyrir fíkniefnaneytendur sem eru kostuð af opinberu fé henti jafnt konum sem körlum. Skrifstofa jafnréttismála hefur þegar viðað að sér umfangsmiklum upplýsingum um sambærilegar kann­anir erlendis og safnað saman því efni sem þegar hefur verið birt hérlendis. Verið er að safna upplýsingum frá meðferðaraðilum um inntak og eðli meðferða og hugsanlegan mun á með­ferð eftir kynferði. Fyrirhugað er í framhaldi af því að ræða við einstaklinga sem farið hafa í meðferð vegna fíkniefnaneyslu. Samhliða er unnið að gerð skýrslu um meðferðarúrræði þar sem metið verður hvort þau henti jafnt konum sem körlum. Í skýrslunni verða tillögur til úr­bóta hvað varðar meðferð og aðgengi kvenna sem eiga við fíkniefnavanda að stríða.

     10.      Er hafin könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og þeim stofnunum sem undir það heyra, sbr. lið 3.21 í framkvæmdaáætluninni? Ef svo er, hvað hefur sú könnun leitt í ljós?
    
Í árangursstjórnunarsamningum ráðuneytisins og stofnana þess er sérstakt ákvæði um gerð jafnréttisáætlana. Stofnanirnar eiga að skila áætlununum til ráðuneytisins á tilteknum tíma til samþykkis.
    Jafnréttisáætlun er markviss stefna og verkefnaskrá fyrirtækis eða stofnunar um hvernig jafnrétti kynja megi ná. Í áætluninni skulu meðal annars tilteknar aðgerðir til að tryggja kon­um og körlum jafna möguleika til starfa, ábyrgðar, launa, stöðuhækkana, starfsþjálfunar og endurmenntunar. Jafnframt á slík jafnréttisáætlun að taka á vandamálum er lúta að kynferð­islegri áreitni. Síðast en ekki síst er jafnréttisáætlun leið til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera starfsmönnum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Líta má á jafnréttis­áætlun sem hluta stefnumótunar og starfsmannastefnu fyrirtækis eða stofnunar. Þegar jafnréttisáætlun er gerð er mikilvægt að liggi fyrir úttekt á stöðu kynjanna innan fyrirtækja eða stofnana. Slík úttekt er því ætíð hluti áætlanagerðarinnar.
    Meginmarkmiðið með jafnréttisáætlun er að atvinnurekendur geti nýtt sér hæfileika og færni allra starfsmanna sinna á sem bestan hátt um leið og þeim hindrunum sem geta verið í vegi bæði karla og kvenna er rutt úr vegi. Jafnréttisáætlun þarf að fylgja aðgerðaráætlun þar sem fram kemur hvernig og á hve löngum tíma markmiðum jafnréttisáætlunar skuli ná. Nauðsynlegt er að tryggja að reglubundið mat fari fram á framkvæmd jafnréttisáætlunar og mun ráðuneytið sjá til þess að slíkt mat verði gert.
    Skrifstofa jafnréttismála hefur kallað bréflega eftir upplýsingum um hlut kynjanna í ábyrgðar- og stjórnunarstöðum í öllum ráðuneytum og mun í framhaldi af þeirri beiðni leita eftir sambærilegum upplýsingum frá ríkisstofnunum. Skrifstofa jafnréttismála vinnur einnig að heildarúttekt á hlut kvenna og karla í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytanna og má bú­ast við niðurstöðum úr því verkefni í síðasta lagi á miðju þessu ári.

     11.      Hvað líður gerð áætlana um að jafna stöðu kynjanna í ráðuneytinu og þeim stofnunum sem undir það heyra, sbr. lið 3.21 í framkvæmdaáætluninni? Hversu margar stofnanir sem heyra undir félagsmálaráðuneytið hafa gert slíkar áætlanir og hver er reynslan af þeim?
    Eins og fram kemur í svari við 10. lið er öllum stofnunum sem undir ráðuneytið heyra gert með árangursstjórnunarsamningi að útbúa jafnréttisáætlun og skila henni á tilteknum tíma. Fyrstu áætlunirnar eiga að berast ráðuneytinu í maí nk.