Ferill 223. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 988  —  223. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breyt­ingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason, Birgi Má Ragn­arsson og Tryggva Axelsson frá viðskiptaráðuneyti og Gísla Benediktsson frá Nýsköpunar­sjóði atvinnulífsins. Umsagnir bárust um málið frá Búnaðarbanka Íslands, Eimskipafélagi Íslands hf., Íslandsbanka hf., Íslenskum sjávarafurðum hf., Landsbanka Íslands hf., Sam­bandi íslenskra viðskiptabanka, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum iðnaðarins, Sam­tökum íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja, Samtökum verðbréfafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Verslunarráði Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Frumvarpið felur í sér að horfið verður frá því að stjórn vöruþróunar- og markaðsdeildar Nýsköpunarsjóðs ráðstafi eignum deildarinnar á þremur árum eins og ákvæði laganna gera ráð fyrir og deildin lögð niður að þeim tíma liðnum. Óráðstöfuðum eignum deildarinnar verður haldið sérgreindum um ótiltekin tíma og heimilt verður að ganga á höfuðstólinn til að styðja við atvinnulífið.
    Nokkur umræða varð í nefndinni um upplýsingagjöf Nýsköpunarsjóðs um lánveitingar og styrki úr sjóðnum. Er það mat meiri hlutans að slíkar upplýsingar eigi að vera aðgengilegar hverju sinni og leggur því til breytingartillögu um að bætt verði ákvæði í lögin um sjóðinn sem kveði á um að með ársreikningi Nýsköpunarsjóðs fylgi eftirleiðis upplýsingar um hluta­bréfakaup, lán og styrkveitingar úr sjóðnum.
    Meiri hlutinn mælir með að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:


    Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    Við 1. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ársreikningi skal fylgja skrá yfir hlutafjárkaup, lánveitingar og óafturkræf framlög Nýsköpunarsjóðs.

    Valgerður Sverrisdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. mars. 1999.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Pétur H. Blöndal.


Einar Oddur Kristjánsson.



Árni R. Árnason.


Gunnlaugur M. Sigmundsson.