Ferill 281. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 994  —  281. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um leigubifreiðar, nr. 61/1995.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólöfu Nordal frá samgönguráðu­neyti. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Bifreiðastjórafélaginu Andvara og Bifreiðastjóra­félaginu Frama.
    Í frumvarpinu er lögð til breyting á ákvæðum laganna um skilyrði fyrir útgáfu leyfis til aksturs leigubifreiðar. Í henni felst að reglur um starfsskilyrði munu veita meira svigrúm til mats en núgildandi lög. Meginsjónarmiðið að baki breytingunni er að ekki þykir rétt að úti­loka menn frá ákveðinni starfsgrein án þess að gefa þeim kost á að bæta ráð sitt. Með breyt­ingunni verða reglur um starfsskilyrði greinarinnar meira til samræmis við gildandi reglur í öðrum Evrópuríkjum. Samgöngunefnd vill taka fram að með breytingunni er ekki stefnt að því að minnka kröfur til leigubifreiðastjóra heldur er veitt meira svigrúm til mats á aðstæðum umsækjanda um leyfi til aksturs leigubifreiðar.
    Jafnframt vill samgöngunefnd ítreka álit nefndarinnar frá 122. löggjafarþingi (þskj. 1137, 519. mál) um nauðsyn þess að heildarendurskoðun laga um leigubifreiðar fari fram hið fyrsta.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:
     1.      Lagðar eru til breytingar á 1. gr. frumvarpsins. Annars vegar er um að ræða lagfæringu málfars en hins vegar er lagt til að í stað orðanna „starfsskilyrði greinarinnar“ komi orðin lög og reglugerðir sem um starfsgreinina gilda. Með þessu orðalagi er kveðið skýrar á um að leyfishafar skuli virða þau lög og reglur sem um starfsgrein þeirra gilda, t.d. öryggisreglur og skattareglur.
     2.      Þá er lagt til að við bætist ný grein er breyti 5. mgr. 7. gr. laganna um nýtingu atvinnuleyfis. Í tillögunni er gert ráð fyrir að leyfishafar þurfi ekki að gangast undir hæfnispróf á hverju ári heldur nægi að þeir þreyti slíkt próf tvisvar sinnum frá og með fyrstu fram­lengingu leyfis uns leyfi verður ekki framlengt frekar. Samgöngunefnd telur eðlilegt að hæfnispróf verði gert að skilyrði fyrir fyrstu framlengingu leyfis en síðan skuli leyfishafi endurtaka prófið innan þriggja ára. Síðara hæfnispróf verður því haldið í síðasta lagi þegar leyfishafi verður 74 ára. Gert er ráð fyrir að samgönguráðherra útfæri ákvæðið nánar með reglugerð og að þar verði m.a. skilgreint hvenær menn skuli þreyta síðara prófið. Gert er ráð fyrir að skilyrði um læknisvottorð verði óbreytt. Rétt er að geta þess að læknisvottorð getur gefið tilefni til að láta leyfishafa undirgangast síðara hæfnispróf­ið. Að lokum áréttar samgöngunefnd þann skilning sinn á 5. mgr. 7. gr. laganna að at­vinnuleyfi leigubifreiðastjóra falli úr gildi við lok 70. aldursársins og að heimilt sé að framlengja það til fullnaðs 75 ára aldurs. Leigubifreiðastjórar þurfa því að sækja um framlengingu leyfis við 71 árs aldur og geta stundað leiguakstur þar til þeir verða 76 ára. Framlenging leyfistíma getur því mest orðið fimm ár.
    Stefán Guðmundsson, Árni Johnsen og Ásta R. Jóhannesdóttir voru fjarverandi við af­greiðslu málsins.

Alþingi, 3. mars 1999.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Guðmundur Árni Stefánsson.


Egill Jónsson.



Ragnar Arnalds.


Magnús Stefánsson.


Kristján Pálsson.