Ferill 543. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1006  —  543. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á orkulögum, nr. 58/1967, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ingimarsson frá iðnaðarráðu­neyti, Magnús Baldursson og Þorberg Karlsson frá Félagi ráðgjafarverkfræðinga, Guðmund Sigurðsson frá Samkeppnisstofnun, Hannes G. Sigurðsson frá Vinnuveitendasambandi Ís­lands og Guðjón Rúnarsson og Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands.
    Frumvarpið er flutt til að afla lagaheimildar fyrir Rafmagnsveitur ríkisins til að stofna og eignast hlut í félögum sem hafa þann megintilgang að framleiða, flytja, dreifa eða selja orku, þ.e. heitt vatn, gufu eða rafmagn. Rafmagnsveiturnar eiga nú þegar samstarf við fjölmarga aðila, en nú er svo komið að stofna þarf til formlegs félagsskapar vegna fyrirliggjandi verk­efna. Er mikilvægt að Rafmagnsveiturnar hafi skýra heimild til þátttöku í þeim félögum sem til stendur að stofna.
    Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að Rafmagnsveitunum verði einnig heimilt að stofna eða eiga hlut í félögum til að nýta þekkingu og búnað sem Rafmagnsveiturnar búa yfir til þess að efla útflutning á sérþekkingu í þágu fyrirtækisins sjálfs. Rafmagnsveiturnar hafa bæði einar sér og í samstarfi við aðra staðið að markaðssetningu á íslenskri sérþekkingu tengdri orkumálum erlendis. Er því mikilvægt að þær fái þessa heimild til að stofna félög eða taka þátt í félögum sem starfa að tilteknum verkefnum. Hins vegar verður Rafmagnsveitunum ekki heimilað að taka að sér ráðgjöf eða verktöku hér á landi í samkeppni við önnur fyrirtæki á almennum markaði.
    Nefndin mælir með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 4. mars 1999.



Stefán Guðmundsson,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Pétur H. Blöndal.



Magnús Árni Magnússon.


Hjörleifur Guttormsson.


Katrín Fjeldsted.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Ragnar Arnalds.


Hjálmar Árnason.





Prentað upp.