Ferill 510. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1019  —  510. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Háskólann á Akureyri.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórunni J. Hafstein og Gunnar Jó­hann Birgisson frá menntamálaráðuneyti og Guðmund Heiðar Frímannsson forstöðumann kennaradeildar við Háskólann á Akureyri.
    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar þess að almenn lög voru sett um háskóla í árslok 1997. Þau lög, nr. 136/1997, hafa að geyma meginreglur um starfsemi háskóla þar sem kveð­ið er almennt á um hlutverk háskóla, stjórnsýslu hans og fjárveitingar til hans frá ríkisvald­inu. Við setningu laganna var gert ráð fyrir að lög hvers háskóla yrðu endurskoðuð og ein­földuð, nánari útfærslur á starfsemi hvers skóla yrði að finna í sérlögum, reglugerð og öðrum reglum hvers skóla. Ákvæði frumvarpsins eru í samræmi við þetta.
    Í frumvarpinu er fjallað um þau atriði sem varða Háskólann á Akureyri sérstaklega. Gert er ráð fyrir að það muni ásamt háskólalögunum mynda ramma um starfsemi stofnunarinnar eins og tilgangurinn var með setningu almennra laga um háskóla. Háskólinn skal sjálfur skil­greina hvaða nám skuli verða í boði innan skólans en tilgreind eru ákveðin menntunarsvið sem hann skal leggja sérstaka áherslu á. Þá er ekki tilgreint í frumvarpinu hvernig deildar­skipan skólans skuli vera heldur er ákvörðun um það lögð í hendur háskólaráði.
    Í lögum um háskóla er í 3. mgr. 19. gr. kveðið á um að í sérlögum skuli setja reglur um hvernig háttað skuli gjaldtöku af nemendum vegna náms við viðkomandi skóla. Í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um greiðslu skrásetningargjalds. Fjárhæð skrásetningargjalds tekur mið af kostnaði vegna innritunar, kennsluefnis og annars sem skólinn lætur nemendum í té og er nauðsynleg vegna starfsemi skólans. Nefndin leggur til orðalagsbreytingu á þeirri grein til samræmis við sérlög um aðra háskóla en í 2. mgr. 4. gr. laga um Kennaraháskóla Íslands, nr. 137/1997, er að finna sambærilegt orðalag. Með breytingunni kveður frumvarpið á um að við skrásetningu til náms greiði stúdent skrásetningargjald, allt að 25.000 kr. Ekki er um efnisbreytingu að ræða.

    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi

B R E Y T I N G U:

    Við 4. gr. Á undan fjárhæðinni „25.000 kr.“ í 2. mgr. komi: allt að.

    Árni Johnsen og Ólafur Örn Haraldsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. mars 1999.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Svanfríður Jónasdóttir.


Hjálmar Árnason.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Guðný Guðbjörnsdóttir.


Tómas Ingi Olrich.



Kristín Ástgeirsdóttir.