Ferill 388. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1031  —  388. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 8. mars.)

1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Húseigendum er skylt að brunatryggja allar húseignir. Húseignir samkvæmt lögum þess­um eru hvers konar byggingar sem ætlaðar eru til íbúðar, atvinnustarfsemi, geymslu eða ann­arra afnota.
    Hús í smíðum er eigendum einnig skylt að brunatryggja á smíðatímanum. Fer um vátrygg­ingarfjárhæð þeirra á hverjum tíma eftir samkomulagi milli eiganda og vátryggingafélags.
    Vátryggingarskyldar húseignir skv. 1. mgr. er skylt að meta eigi síðar en fjórum vikum eftir að byggingu þeirra lauk eða þær hafa verið teknar í notkun. Eigandi ber ábyrgð á því að tilkynna vátryggingafélagi um lok byggingar eða notkun húseignar og óska eftir mati.
    Vátryggingafélag skal ekki taka gilda uppsögn á brunatryggingu skv. 1. og 2. mgr. nema uppsögn fylgi staðfesting á að húseigandi hafi stofnað til nýrrar brunatryggingar hjá öðru vátryggingafélagi. Við eigendaskipti skal viðkomandi vátryggingafélag ekki taka gilda upp­sögn nema henni fylgi staðfesting á að nýr eigandi hafi stofnað til brunatryggingar.

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Vátryggingarfjárhæð húseignar skv. 1. mgr. 1. gr. skal nema fullu verði eignarinnar eftir virðingu. Fasteignamat ríkisins annast virðingu húseignar samkvæmt matskerfi og verklags­reglum stofnunarinnar. Heiti þeirrar gerðar er brunabótamat. Er markmið matsins að finna vátryggingarverðmæti húseignarinnar á þeim tíma er virðing fer fram. Skal matið taka til þeirra efnislegu verðmæta húseignarinnar sem eyðilagst geta af eldi og miðast við bygg­ingarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti. Matið skal skrá í fasteignaskrá stofnunarinnar þar sem því skal viðhaldið.
    Fasteignamat ríkisins getur endurmetið skyldutryggðar húseignir þegar stofnunin sér ástæðu til. Skal húseiganda tilkynnt um fyrirhugaða breytingu á mati. Vilji húseigandi ekki una breyttu mati samkvæmt þessari málsgrein skal hann tilkynna stofnuninni það með sann­anlegum hætti innan fjögurra vikna frá dagsetningu tilkynningar um matið.
    Brunabótamat nýrrar húseignar og endurmat skv. 2. mgr. skal vera húseiganda að kostn­aðarlausu.
    Húseiganda er ætíð heimilt á sinn kostnað að óska eftir því að Fasteignamat ríkisins endurmeti húseign hans. Skylt er húseiganda að óska nýs brunabótamats á húseign ef ætla má að verðmæti eignarinnar hafi aukist vegna endurbyggingar eða endurbóta.
    Sé ágreiningur á milli vátryggingafélags og húseiganda um matsfjárhæð getur hvor aðili um sig óskað endurmats á sinn kostnað.
    Ef húseigandi eða vátryggingafélag vill ekki una mati Fasteignamats ríkisins er heimilt að vísa ágreiningi þar um til yfirfasteignamatsnefndar, sbr. 5. gr.
    Fasteignamati ríkisins er heimilt að lækka vátryggingarfjárhæðir húseigna (brunabótamat) sem eru í lélegu ástandi og hafa lítt eða ekki verið í notkun frá því sem brunabótamat þeirra hefði ella orðið skv. 1. mgr. Heimild þessi verður því aðeins nýtt að fyrir liggi staðfesting sveitarstjórnar á ástandi eignar og notkun og að hún geri ekki athugasemdir við að mat verði lækkað. Fasteignamat ríkisins tilkynnir eiganda húseignar, vátryggingafélagi og veðhöfum, ef einhverjir eru, um breytingu á vátryggingarfjárhæð samkvæmt þessari málsgrein.
    Séu húseignir á eyðijörðum nýttar sem sumarhús eða til annarrar dægradvalar fer um brunabótamat slíkra eigna sem væru þær sumarbústaðir.
    Ef brunabótamat byggist á beinni skoðun á húseign skal gefa húseiganda, eða fulltrúa hans, kost á því að vera viðstaddur.
    Fasteignamati ríkisins er heimilt að reikna brunabótamat án skoðunar. Skal útreikningur þessi gerður á grundvelli upplýsinga sem fyrir liggja í fasteignaskrám stofnunarinnar og í öðrum þeim gögnum sem hún kann að hafa yfir að ráða. Áður en mat samkvæmt þessari málsgrein tekur gildi skal húseiganda gefinn kostur á því að gera athugasemdir við matið. Hafi hann eigi komið athugasemdum sínum sannanlega á framfæri við Fasteignamat ríkisins innan fjögurra vikna frá dagsetningu tilkynningar um matið skal litið svo á að hann sé því samþykkur.
    Vátryggingarfjárhæð breytist til samræmis við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar hinna ýmsu tegunda húseigna.
    Í reglugerð skal kveða nánar á um tilhögun brunabótamats samkvæmt þessari grein.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Lokamálsliður 2. mgr. fellur brott.
     b.      Lokamálsliður 3. mgr. orðast svo: Ef sveitarstjórn eða eigandi telja brunabótamatsverð ekki rétt getur hvor um sig krafist endurmats Fasteignamats ríkisins og skal þá miða greiðslu við endurmatsverðið.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ágreiningi um bótafjárhæð skv. 2. mgr. eða um endurmatsverð skv. 3. mgr. er heim­ilt að skjóta til gerðardóms sem ráðherra vátryggingamála setur nánari ákvæði um í reglugerð. Kostnað við úrskurð ber sá er gerð gengur á móti.

4. gr.

    4. gr. laganna verður 7. gr.

5. gr.

    4. gr. a laganna verður 4. gr.

6. gr.

    5. gr. laganna verður 8. gr.

7. gr.

    Í stað núgildandi 5. gr. laganna kemur ný 5. gr., svohljóðandi:
    Ágreiningi um brunabótamat má skjóta til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar. Fyrir kostnað við úrskurð nefndarinnar skal greiða samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra vátrygginga­mála setur. Kostnað við úrskurð ber sá sem gerð gengur á móti.


8. gr.

    6. gr. laganna verður 9. gr.


9. gr.

    Í stað núgildandi 6. gr. laganna kemur ný 6. gr., svohljóðandi:
    Til þess að standa straum af kostnaði Fasteignamats ríkisins við að uppfæra og halda skrár yfir brunabótamat húseigna skulu húseigendur greiða sérstakt gjald til Fasteignamats ríkisins, umsýslugjald. Gjald þetta skal nema 0,025 ‰ (prómillum) af brunabótamati hverrar húseignar og skal vátryggingafélag innheimta gjaldið samhliða innheimtu brunatryggingarið­gjalda og skila umsýslugjaldi til Fasteignamats ríkisins eigi síðar en 45 dögum eftir gjald­daga.

10. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I og II í lögunum falla brott.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.